Þýskabúð

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 fjallar Ómar Smári Ármannsson um “Hraunin” og Hraunabæina:

Hraunabæirnir
“Rétt við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins er að finna einstaka vin sem staðið hefur nær óbreytt í aldir. Þetta eru Hraunabæirnir. Þeir liggja á svæðinu milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur, sunnan við Hafnarfjörð, í skugga hins risavaxna álvers. Þar þjóta bílarnir framhjá þúsundum saman en fæstir vita að hér leynist paradís sem birtir okkur sögu útvegs og einstakra búskaparhátta á liðnum öldum.

Straumur

Straumur.

Í Straumsvík, sem bærinn Straumur stendur við, var verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýskir kaupmenn. Straumur er einn af Hraunabæjunum. Aðrir Hraunabæir eru Óttarsstaðir, Lónakot, Hvassahraun og fjölmargar hjáleigur þeirra.
Útræði var stundað frá þessum bæjum sem höfðu sameiginlegt beitiland sem kallað var Almenningur. Þar voru víða sel sem kennd voru við bæina. Umhverfis bæina eru víða enn uppistandandi heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Í annarri grein Jónatans Garðarssonar segir frá einni slíkri hleðslu, Kristrúnarborg, og konunni sem stóð að hleðslu hennar. Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur hefur rannsakað þetta svæði, ásamt stórum hluta Reykjanesskagans, árum saman, og safnað ómældum fróðleik. Hann heldur úti heimasíðunni www.ferlir.is, sem er aðgengileg öllum á netinu.Inngangar, millifyrirsagnir og myndatextar eru ritstjóra.

Omar 2021

Ómar Smári Ármannsson.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarsstaðir eystri og Óttarsstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskabúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot voru hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu.
Þessir tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir, stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins hlaðnir garðar, gerði og aðrar tóftir, auk nokkurra sumarbústaða. Náttúrufegurðin er óumdeild – þrátt fyrir nálægð álversins. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni.
Landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í vörunum þegar norðanáttin rak ölduna beint á hraunbrúnirnar er skaga út í fjöruna. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýskubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – loftmynd.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu. Víða má enn finna fjárskjól með grjóthleðslum.

Straumssel

Straumssel. Bær Guðmundar skógavarðar efst til vinstri.

Í Almenningi, sem svo er nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli allt til 1870 og þar bjó fólk og starfaði frá 6. til 16. viku sumars.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarsstöðum eystri.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Frá Straumsvík lá Straumsselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumsseli suður í Almenning. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og heitir Ketilsstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – hlaðinn garður.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumsstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýst sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“.”
Byggt m.a. á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Hraunin – Ómar Smári Ármannsson, bls. 7-8.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur  neðan Reykjanesbrautar – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.