Hólahjalli

Eftirfarandi spurning var send til FERLIRs þann 1. ágúst 2021. Sendandinn nefndi sig Björgvin.

“Góðan daginn.

Hólahjalli

Hólahjalli – göngustígur og skúr framundan.

Vitið þið söguna á geymslunni hjá rólóvellinum fyrir neðan Hólahjalla? – hnit: 64°06’31.3″N – 21°52’57.4″W.
Bestu kveðjur og takk fyrir fróðleikinn hérna inn á.”

FERLIRsfélagar fóru á vettvang og skoðuðu aðstæður. Þarna, neðan Hólahjalla og ofan Heiðarhjalla í Digraneshæð (-hlíð) í Kópavogi, er trjágróið svæði á milli. Lítill róluvöllur er á því vestanverðu. Göngustígur gengur langsum eftir því neðan og ofan húsaraðanna. Skammt austan og ofan við róluvöllinn eru læsta dyr á steyptum skúr þöktum torfi. Svo virtist sem skúrinn væru leifar af eldri byggð í hæðinni, en þarna voru á frumbýlisárum Kópavogs u.þ.b. 15 smábýli eða “blettir”.

Send var fyrirspurn til skipulags Kópavogsbæjar.
“Sæl, getið þið upplýst hvað mannvirki er hérna um að ræða – á grónu svæði neðan Hólahjalla (gulur hringur) – sjá meðfylgjandi mynd. Á það sér einhverja sögu?”
Ólíkt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þegar sambærilegar fyrirspurnir eru sendar á vefföng þeirra, barst fljótlega svar frá Karlottu.

“Sæll FERLIR.
Skúrinn er á bæjarlandi og er læstur, það eru í raun einu upplýsingarnar sem ég hef fyrir þig núna en ég ætla að áframsenda fyrirspurn þína til garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar sem kemur úr sumarfríi eftir helgi. Mér þykir líklegast að hann hafi upplýsingar um mannvirkið.”

“Sæl Karlotta,
og þakka viðbrögðin. Líklega er þarna um að ræða hluta af einu smáhýsanna 15 sem voru þarna í hlíðinni fyrrum, en voru látin víkja fyrir nýrri byggð. Spurningin er um hvort vitað sé hvaða smábýli það tilheyrði og á það sér einhverja skráða sögu fyrst þessi hluti fékk að standa óhreyfður?”

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri, brást vel við:

Hólahjalli

Hólahjalli – skúrinn.

“Sæl verið þið.
Skemmtilega útgáfan er að þetta sé inngangur í neðanjarðabyrgi frá kaldastríðsárunum en raunveruleikinn er sá að þetta var víst byggt sem kartöflugeymsla af þeim sem þarna fengu úthlutað sk. ræktunarreit á fimmta áratug síðustu aldar, þar sem nú er Hólahjalli og Heiðarhjalli.”

“Sæll,
þakka kærlega fyrir upplýsingarnar. Getur þú nokkuð frætt okkur hverjum ræktunarbletturinn tilheyrði á meðan var?”

“Sæl aftur.

Hólahjalli

Uppdráttur frá 1990. Hús nr. 2 er Digranesblettur 73.

Sjá meðfylgjandi uppdrátt frá 1988 sem ég skannaði. Grunnurinn gæti samt verið eitthvað eldri því sum þessara húsa voru horfin 1988.
Þarna var Digranesblettur 73, kallaður Hraun, sem var 0,71 ha að stærð. Erfðafestusamningur var gerður um landið við Axel H. Sölvason 9. ágúst 1938.
Skv. grófmælingu stóð húsið þar sem rólan er núna og kartöflugeymslan hefur þá verið aftan við húsið.
Hér að neðan er svo annar uppdráttur gerður 1990, áður en gatnagerð hófst á svæðinu, þar sem gróður er innmældur. Hús merkt nr. 2 er Digranesblettur 73 og nr. 1 er Digranesblettur 61A.”

Kveðja,
Friðrik Baldursson.

FERLIR þakkar framangreindu fólki sérstaklega góð viðbrögð og fróðleikinn.
Skúrinn, sem spurt var um, er sem sagt hluti leifa af Digranesbletti 73, nefndur Hraun. Ef einhver lesandinn kann nánari skil á smábýlinu og því fólki, sem þar bjó, væri gaman að geta þess í framhaldinu. Veffangið er ferlir@ferlir.is.

Hólahjalli

Digranesblettir 73 – uppdráttur frá 1988.

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik – www.ferlir.is

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnastaðir

Nýtti sem FERLIRsfélagi góðviðrið í morgun að rölta í rólegheitum um slóðir forferðranna í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tóftir.

Á Þorbjarnastöðum bjuggu skömmu eftir aldarmótin 1900 langamma mín, Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppstjóra á Setbergi, og Þorkell Guðnason frá Guðnabæ í Selvogi. Hann var langdvölum við sjósókn, en Ingveldur stjórnaði búrekstrinum af röksemi. Þau, hjúin, eignuðust samt sem áður ellefu börn, þ.á.m.a. Ingveldi Þorkelsdóttur, ömmu mína, síðar bústýru í Teigi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík (byggður 1934). Hún, með elskulegum manni sínum, Árna Guðmundssyni frá Klöpp í sama hverfi eignuðust einnig ellefu börn, þ.á.m. föður minn, Inga Ármann Árnason. Án hans, sem og ekki síst móður minnar, Fjólu Eiðsdóttur frá Raufarhöfn, og allra hinna fyrrum væri ég ekki að skrifa þessa lýsingu. Fjóla var dóttir Eiðs Eiríkssonar frá Gasgeira á Melrakkasléttu og Járnbráar Kristrúnar Sveinbjörnsdóttur frá Klifshaga í Öxnarfirði. Í dag hafa afkomendurnir því miður lítinn áhuga á fortíð sinni. Þeir virðast hafa meiri áhuga á sjálfum sér og nánustu líkamspörtum – ef marka má samfélagsmiðlana.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Rifjaði upp á röltinu lýsingar á hinu og þessu í umhverfinu með vísan til opinberra skráninga og viðtala við afkomendur þessa fólks í gegnum tíðina. Niðurstaðan varð m.a. sú að örnefni eru ekki bara örnefni. Þau eiga það til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Örnefni skráð á einum tíma, af tilteknum aðila, eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála. Þá reynir gjarnan á skynsemina að greina þar á milli…

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; “Svipast um eftir sumrinu”, á bls. 5.:

“Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.
Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni “Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum”: “Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu”. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón”. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur”. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur” þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin”, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis”) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma” og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá”. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.
Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði” og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni:
Hólm. Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins”. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa” (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
Þá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska”, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag” þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today” gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. ” Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.”
Vinsamlegast,
Rg”.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni “Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm”:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.” Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða” höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.
Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.” Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá. Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um. Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað” Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli. Hefur Suðurá nú venð veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.”
Með þökk fyrir birtinguna.” – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.

Kápuskjól

Vanda þarf til fornleifaskráninga. Allt of mörg dæmi eru um hið gagnstæða. Allar slíkar virðast vera samþykktar nánast athugasemdalaust af hálfu hins “opinbera”.

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Eftir að fornleifaskráning um fyrirhugaðan Suðurstrandaveg var gerð opinber og auglýst hafði verið eftir athugasemdum sendi undirritaður inn 23 slíkar. Þær voru listaðar upp og nánar tiltaldar – hver og ein. Vísað var m.a. til þess að tiltekin fjárborg, staðsett í skráningunni við Litlaháls, var í u.þ.b. 7 km fjarlægð – á Borgarhólum. Fleiri slík dæmi voru tiltekin og öðrum óskráðum bætt við. Skráningaraðilanum var í framhaldinu gefinn kostur á að bæta skráninguna með því að taka tillit til athugasemdanna. Ný skýrsla var birt í framhaldinu. Með því hafði a.m.k. einhverjum áður vanskráðum fornleifum á svæðinu verið bjargað frá eyðileggingu. Undirrituðum var þó ekki þakkað sérstaklega fyrir ábendingarnar.

Gjásel

Gránuskúti.

Skipulagsstofnun auglýsti síðar eftir athugasemdum við fyrirhugaða Suðurlínu frá Hengli vestur eftir Reykjanesskaganum. Undirritaður sendi inn 32 athugasemdir vegna vanskráningu fornleifa á og við línuleiðina. Í framhaldinu barst honum eftirfarandi svar: “Þú verður að tiltaka hverjar þessar tilteknu fornleifar eru.”
Svaraði, vegna fyrri reynslu: “Er ekki í vinnu hjá ykkur að skrá fornleifar. Þið þurfið bara að yfirfara skráningarsvæðið að teknu tilliti til þess að í fornleifaskráninguna vantar a.m.k. 32 fornleifar.” Um var m.a. að ræða óskráðar fornar leiðir, fjárskjól, markavörður, grensvörður, leitarvörður, skráð greni, refagildrur sem og önnur söguleg og jarðfræðileg merkilegheit.
Viðbrögð Skipulagsstofnunar komu svo sem ekki á óvart: “Fyrst þú getur ekki tiltekið einstakar fornleifar teljum við ekki ástæðu til að taka mark á athugasemdunum.”
Einhverjum efasemdafræjum virðist hins vegar hafa verið sáð hjá hinu heilaga yfirvaldi því í framhaldinu var fenginn annar fornleifafræðingur til að yfirfara fyrri skráninguna á svæðinu. Sá hafi samband við undirritaðan. Í framhaldinu bættust við fornleifaskráninguna 56 áður óskráðar fornleifar.
Vandvirkni skiptir máli, hvort sem um er að ræða fornleifaskráningar, eða annað…

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.

Móbergskúla

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um “Sérkennilegar móbergskúlur” í Náttúrufræðingnum árið 1987:

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

“Meðan ég var að vinna að jarðfræðikorti yfir Reykjanesskaga, það mun hafa verið 1963, veitti ég athygli sérkennilegum kúlum í móbergi í Bæjarfelli í Krýsuvík, og er þeim lýst í ritinu Jarðfræðikorti af Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978) svo sem hér segir: „Við lítið ból norðan í háfellinu koma fyrir harla sérkennilegir kúlur í móberginu. Þær eru úr móbergsglerkornum og hvað það snertir eins og túffið í kringum þær, en hafa veðrast út sem reglulegir boltar oft um 15—25 sm í þvermál. Sumar eru nú holar innan og virðist það vera vegna veðrunar. Það er því skelin um þessar kúlur, sem stenst veðrunina betur en bæði túffið í kring og eins inni í kúlunni sjálfri. Myndun sem þessa hef ég séð á einum stað öðrum, en það er í Syðri-Stapa við Kleifarvatn.”
Frá því að þetta var skrifað hef ég fundið samskonar myndanir á tveim öðrum stöðum og eru báðir í Mýrdal. Besta dæmið, sem ég nú þekki um svona myndanir er að finna í hömrunum austan við Skiphelli í Mýrdal örskammt frá þjóðvegi 1. Þar gefur að líta þverskurð af fornri eldstöð. í greinakorni um jarðfræðiathuganir í Mýrdalsfjöllum er þessa getið með þessum orðum: (Jón Jónsson 1985):

Móbergskúla

Móbergskúla.

„Mjög sérkennilegar móbergskúlur koma á kafla fyrir í þessari gosmyndum. Þær eru eingöngu úr móbergsglerkornum og í ýmsum stærðum, frá því að vera 2—3 sm í þvermál og allt upp í 40-50 sm. Kúlurnar eru ýmist á strjálingi inni í svartri ösku og vikri eða í svo þéttum hópum að þær ná því að vera 60-80% af berginu.
Flestar eru þær á stærð við tennisbolta en aðrar á stærð við fótbolta eða enn stærri. Einkum koma þær fyrir í þykku lagi úr svörtum vikri og gjalli og þá ásamt venjulegum hraunkúlum (bombum) sumum stórum.”
Nokkrar svona kúlur hef ég fundið í þeirri sérstæðu myndun, sem nefnist Lambaskörð og er í Kerlingardalsheiði. Gamli akvegurinn liggur um þetta svæði niður að brúnni, sem eitt sinn var á Múlakvísl í sundinu milli Selfjalls og Léreftshöfuðs.
Ekki skal hér um þá myndun fjallað, en þess aðeins getið að þar koma svona móbergkúlur líka fyrir. Í dagbók minni frá þeim athugunum er eftirfarandi að lesa: „Ofan til í þessu túffi eru móbergskúlur eins og þær, sem ég hef áður séð í Bæjarfelli og Syðri Höfða í Krýsuvík, en einnig við Skiphelli. Þær eru hér mjög mismunandi stórar, þær stærstu um 30-40 sm í þvermál aðrar á stærð við fótbolta og minni. Ekki mynda þær reglulegt lag en koma fyrir á víð og dreif í berginu.”
Ekki er auðráðið í hvað var þess valdandi að þessar kúlur urðu til. Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Svo laust er það allt í sér að það hlýtur að hafa farið rólega fram, en hvað kom því af stað?

Móbergskúlur

Móbergskúlur.

Nýlega gerðar smásjárathuganir á þessum kúlum hafa ekki gefið mikið nýtt. Þær sýna ofur venjulegt móberg. Inni í glerkornunum eru feldspat- og pýroxen kristallar ásamt einstaka ólívíni. Eini sýnilegi munurinn á þessu efni er sá að í einstaka tilfellum er megin hluti kúlunnar úr tiltölulega grófum glerkornum, en yst er lag úr mjög fínu efni, sem einnig samanstendur af smáum glerögnum og einstaka kristöllum. í þessu fína efni er myndbreyting (palagonitisering) verulega meira áberandi en í því grófa. Kornin liggja í ákveðna stefnu og mynda þannig húð utan um grófara efnið. Þannig líkist þetta því fyrirbæri sem sjá má í svo nefndum öskubaunum (písólítum) (Sbr. Tómas Tryggvason 1955). Sérstaklega upplýsandi hvað þetta varðar er ljósmyndin á bls. 105. Það skal tekið fram að aðeins í einu tilviki hef ég, svo óyggjandi sé, fundið svona tilhögun glerkornanna í þessum kúlum.”

Móbergskúlur

Móbergskúla á Sveifluhálsi.

Haraldur Sigurðsson fjallar um móbergskúlurnar á bloggsíðu sinni; vulkan.blog.is:

“Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi — þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er.

Móbergskúlur

Móbergskúlur í Innri-Stapa í Krýsuvík.

Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.07.1987, Sérkennilegar móbergskúlur – Jón Jónsson, bls. 34-35.
-Haraldur Sigurðsson – https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/

Móbergskúlur

Móbergskúlur (HS).

Herdísarvík

Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg skrifar um “Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi” á seinni hluta 19. aldar í Sunnudagsblað Alþýðublaðsins árið 1939:

Einar Þorsteinnson“Ég, Einar Þorsteinsson, er fæddur 8. desember 1870 í Móakoti hjá Hjalla í Ölfusi. Faðir minn var Þorsteinn Teitsson, sonur Teits Helgasonar hafnsögumanns á Eyrarbakka, er bjó í Einarshöfn. Móðir mín var Guðlaug Hannesdóttir frá Hjalla. Faðir hennar, Hannes Guðmundsson, var lengi bóndi á Hjalla og víðar í Ölfusi. Er ég var 6 ára að aldri var ég tekinn til uppfósturs af Ólafi Jóhannessyni og Ragnhildi Ísleifsdóttur, sem þá bjuggu á Mosastöðum í Kaldaðanesshverfi. Þegar ég var 16 ára, fluttu fósturforeldrar mínir að, Hreiðurborg í Kaldaðarnesshverfi — og bjuggu þar frá því.
Veturinn 1887 var farið að tala um, að ég færi eitthvað á vertíðinni, til að læra sjóstörf, og ná í einhvern afla. Var þá leitað til föður míns, hvort hann myndi ekki geta komið mér fyrir á sama skipi og hann réri á, og var talað um hálfdrætti. — Þá voru mikið notuð handfæri í Herdísarvík, en þar réri faðir minn. Þetta gekk vel, ég fékk að vera í skjóli föður míns, sem kallað er. Skyldi ég hafa helming af því sem ég drægi á færi og svo hálfan hlut — þegar fiskað var á línu (lóð).
Svo leið að vertíð. Þá fór ég til föður míns, en hann bjó þá í Hraunshól hjá Hrauni í Ölfusi. Það var áður búið að fara með útgerð mína, skrínu með kæfu og smjöri. Það var væn kind í kæfu og 2—3 fjórðungar af smjöri og hangikjöt. Svo voru skinnklæði, brók og skinnstakkur, og hey í poka á bálkinn, í rúmstæðið — og ekki má gleyma harðfiskinum, sem hafður var líka.
Eins og fyrr segir, fór ég til föður míns, og gengum við svo til Herdísarvíkur, beint út sanda og hraun til Vogsósa. Stönzuðum þar, og svo áfram til Herdísarvíkur. Formaður okkar var Þorkell Jónsson vinnumaður hjá Árna Gíslasyni fyrrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu, sem þá bjó í Krýsuvík. Árni átti skipið og tvö önnur, sem gengu þarna á vertíðinni. Formenn fyrir þeim hétu Einar frá Nýjabæ og Guðmundur, sem kallaður var ráðsmaður. Þessa vertíð voru þarna 6 skip. Árni átti 3. Bjarni Hannesson bjó þá í Herdísarvík, bróðir Guðmundar, sem lengi var í Tungu í Flóa. Hann átti víst 2 skip — eða þeir mágar í félagi, Björn Eyjólfsson og Bjarni. Björn Eyjólfsson var bróðir Sólveigar konu Bjarna. Þau systkini voru börn Eyjólfs frá Þorlákshöfn — Björnssonar frá Þúfu í Ölfusi. En móðir þeirra var Sigríður Jónsdóttir, Geirmundarsonar, þess sem getur um í Kambránssögu. Sjötta skipið var með að mig minnir Sæmundur Ingimundarson frá Stakkarvík, og held ég að Bjarni hafi átt það. Flest af þessum skipum hafði víst smíðað Björn Eyjólfsson. Hann var smiður mikill bæði á járn og tré. Var til þess tekið, hvað hann var mikilvirkur og vandvirkur, alltaf var hann í smiðjunni, þegar landlegur voru á vertíðinni. Meira um Björn segir síðar.
Nú var ég kominn í útver og leið vel. Ekki gaf nú strax á sjó, og hafði ég lítið að gjöra, enn faðir minn var ekki iðjulaus. Hann var alltaf að smíða ýms búsáhöld, fötur, bala, tunnur o.m.fl. Hann var smiður með afbrigðum, smíðar voru hans aðalatvinna — nema um sláttinn var hann oftast við heyvinnu.

Herddísarvík

Herdísarvík – vörin.

Nú byrjuðu róðrar, og man ég vel eftir fyrsta róðrinum. Það var gott sjóveður og verið með færi. Ég hafði aldrei á sjó komið fyrr, en ég kunni áralagið, hafði lært það á Ölfusá. Það var tregur fiskur — og dró ég einn fisk. Ekki var ég sjóveikur, hefi enda aldrei til sjóveiki fundið. Svo lagaðist með dráttinn. ég dró töluvert, þó dálítið misjafnt. Stundum dró ég hlutinn, það er að segja eins og þeir fengu í hlut, stundum minna.
Einu sinni dró ég 40 fiska. Þá fékk skipið 24 í hlut. Voru þá teknir af mér 16 fiskar. Það stóð svoleiðis á skiptum — og hafði ég þá jafnan hlut og hinir. Það kom mikið undir því hvernig stóð á skiptum, hvað formaður tók mikið af mér, stundum tók hann lítið, stundum meir en helming. Svo var farið að fiska með línu, þá fékk ég hálfan hlut. Línan var stutt, 2 bjóð með 6 strengjum, 60. faðma löngum í hvoru bjóði, og ein og hálf alin á milli króka.
Þegar fiskirí var, þá stóð þétt á línunni á löngum kafla, oft á hverju járni. Línan var dregin í austurrúmi og dregin hægt. Þá lét formaður mig vera með færið mitt aftur í skut, og þar dró ég oft töluvert þó ferð væri á skipinu. Náttúrulega var drift á færinu líkt og á seglskipi, sem liggur á fiskiríi, tökum t.d. kútter. Þegar komið var inn á legu, skammt undan lendingunni, var stanzað og farið að seila, og var andæft þar meðan seilað var. Svo var seilunin hnýtt saman og þeim síðan hnýtt í 60 faðma langt kaðaltó, sem kallað var hlaupató. Tóið var undið í hnykil, sem látinn var velta í skutnum, og skyldi bitamaður gæta þess, að ekki stæði við eða tefði fyrir tóinu að rekjast fljótt, og eins að gæta að því að hnykillinn færi ekki upp úr skutnum. Ef brim var, þá var beðið eftir lagi, og kallaði formaður lagið og sagði: — Róið nú vel, piltar! Svo var róið hart upp í fjöru, og stökk hver út við sinn keip og skipinu kippt upp þangað til því var borgið fyrir eða bjargað frá sjó. Síðan voru seilarnar dregnar upp. Svo ef róið var aftur, fóru sumir að beita þessi tvö bjóð, en hinir að bera upp fiskinn, og þurfti stundum að ná úr honum beitu, því að beitt var gotu (hrognum).

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Fiskurinn var borinn upp á byrðarólum. Það var dregið af seilarólinni á byrðarólina, og svo lyfti vanalega annar upp á axlir hins. Var svo hringur af fiski allt í kring, bæði bak og fyrir. Fiskurinn var borinn á skiptavöll og skipt þar í köst, sem kallað var, tveir hlutir saman í kasti. Vanalega skipti formaður. Þarna á skiptavellinum var gert að, hausað og flatt. Fiskurinn svo borinn inn á tún og lagður þar í kös, raðað þétt hverjum við annan. Svo löngu seinna borinn upp fyrir tún og lagður þar á grjótgarða í hrauninu til herzlu. Mest af fiskinum var hert þessa vertíð, eitthvað víst saltað af skipshlutunum. Ekki man ég hvaða verð var á fiski þessa vertíð eða vorið eftir, en 2 eða 3 árum seinna var verðið á harðfiski 160 krónur skippundið (160 kíló).
Allt var hirt, hausar hertir, hrogn söltuð, svil söltuð, sundmagi og kútmagi saltað. Sundmaginn svo verkaður á vorin og lagður inn í verzlanir, en stundum fluttur heim og étinn. Allt hitt raskið notað til heimilis uppi í sveitunum, og töluvert flutt oft heim af harðfiskinum. Það má ekki gleyma að skýra frá því, að alltaf var lesin sjóferðabæn. Og fyrstu vertíðina, sem ég reri í útveri, var lesin föstuhugvekja og lesnir Passíusálmar, ekki sungnir. Það var sama þótt seint væri komið til búðar að kveldi, þá var það ekki vanrækt. Það er nú lítið að segja meira frá þessari vertíð, sem ég var fyrst í Herdísarvík.
Veturinn 1888 fór ég ekkert til sjós, varð að vera heima af því að fóstri minn réðist til Eyrarbakka til aðgerðar á fiski á vertíðinni, svo ég varð að vera heima við skepnuhirðingu, svokallaðar gegningar.
Veturinn 1889 reri ég í Selvogi hjá gömlum manni, sem Guðni Ásmundsson hét. Hann átti heima í Austurnesi í Voginum. Frá þeirri vertíð er lítið að segja. Það fiskaðist lítið vegna ógæfta, því að brimasamt er í Selvogi þegar sunnanátt er, og þessa vertíð hamlaði veðurátta sjógæftum og afla. Þá bjó í Nesi í Selvogi Guðmundur Ólafsson, þá orðinn gamall maður, faðir Þorbjarnar, sem bjó í Nesi eftir föður sinn. Þorbjörn reri í Þorlákshöfn margar vertíðir og var þar formaður. Um hann gerði Brynjólfur frá Minna-Núpi þessa formannsvísu:

Sjóbúð

Sjóbúð í Þorlákshöfn 1910.

Þreytir halur þorskveiði,
Þorbjörn alinn Guðmundi
Nes- frá -sal í Selvogi,
sá er talinn hraustmenni.
Þegar ég reri í Nesi í Selvogi, bjó í Ertu rétt fyrir norðan Nes Húnbjörg Hannesdóttir móðursystir mín. Nikulás sonur hennar var þá formaður með skip, sem þau áttu. Hjá henni var líka annar sonur hennar, sem Símon hét, og þriðja son átti hún, sem Þórður hét og bjó þá í Torfabæ í Selvogi. Þessir fyrverandi bræður voru synir Erlendar Símonarsonar, sem átti heima í Torfabæ, en Húnbjörg og Erlendur voru þá skilin að samvistum. Þarna kynntist ég frændfólki mínu og réði mig hjá Nikulási næstu vertíð. Þá um vorið 1889 flutti Húnbjörg með sonum sínum, Nikulási og Símoni, að Hlíð í Selvogi. Hlíð er uppi við fjallið við norðausturhorn Hlíðarvatns, en er nú komin í eyði fyrir löngu. Þá flutti líka Nikulás skipið út til Herdísarvíkur og reri því þaðan. þangað til það fórst, sem síðar segir.

Seil

Seilaður fiskur í vör.

Svo kemur vertíðin 1890. — Það var oftast kominn þorri þegar ég flutti færur mínar úteftir; reiddi ég á hesti og var eina nótt og tvo daga í ferðinni. Þegar ís var á Ölfusá, mátti fara alveg beina leið að sjá fyrir sunnan Selvogsheiði, sem maður segir sjónhending frá Hreiðurborg, annars varð að fara yfir ána í Óseyrarnesi. Svo fór ég aftur alfarinn föstudaginn síðastan í þorra, og það var farið að róa í fyrstu viku góu, ef gæftir voru.
Nú er að segja frá sjóbúðinni, sem Nikulás byggði. Hún var úr snyddu og grjóti veggir og gaflar, svo timburþak með spón yzt, svo hún lak ekki í rigningum, en hún var mjög köld þegar frost voru, sem oft var á þessum árum. Viðvíkjandi kuldanum í búðinni get ég sagt sögu, sem þykir ótrúleg nú á tímum. Í landlegum þegar var norðanrok og gaddar, rokið svo mikið, að ekki var viðlit að fara á sjó, þá var það eina vertíð að það kom fyrir að við fórum fjórir upp í eitt rúmið og breiddum ofan á okkur upp að mitti teppi og það, sem til var, og sátum svo réttbeinis með loðhúfur á höfði og máske líka vöttu á höndum og spiluðum svo á spil. Svo þegar okkur varð of kalt, fórum við að hita okkur á því að fara í tusk, fyrst inni, svo kannske úti í glímu og tusk, og þegar við vorum búnir að fá í okkur hita, þá var farið að spila aftur. Það var engin búð eins köld og þessi, því hinar voru allar með snyddu- eða torfþökum. Það var ekki verið að hafa ofna í svona húsum í þá daga. Kaffið var hitað á olíuvél og hún hitaði nú heldur lítið. Sumar búðir höfðu smiðjukofa til að hita í rétt við búðina. Í þessari búð var ég í 5 vertíðir. Ekki man ég hvenær það var, sem kaldast var. Það hefir verið á árunum milli 1890—94.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

— Þessa vertíð, sem frostin voru mest, voru aðallega notuð færi við fiskirí, að minnsta kosti í Herdísarvík og Selvogi. Það var mikið fiskirí í Herdísarvík í eina viku, það voru þrí- og fjórhlaðin skipin á dag. Ég man það alveg víst, að Nikulás fékk einn daginn í þeirri viku 120 í hlut í 12 eða 13 staða skipti. Þó voru sumir hærri, mig minnir að Björn Eyjólfsson fengi þann dag 140 til hlutar. Þetta stóð eina viku. Við fengum í þeirri viku um 600 til hlutar, og það varð lítið meira. Mig minnir að við fengjum tæp 7 hundruð hlutar alla vertíðina. — Fiskurinn var mjög feitur, svo að það urðu vandræði með ílát undir lifrina, því að svoleiðis hagaði til, að útgerðarmaður átti að útvega hlutaflamönnum kagga eða tunnu undir lifrina. Það komu kaggar austan úr Ölfusi, og svo var lifur látin í þvottakör, en úr svoleiðis ílátum rann lýsið og fór mikið til spillis. Frostið var svo mikið, að við naumast gátum náð innan úr fiskinum, drifum svo mikið af honum í fönn óflöttum, þangað til seinna. — Þessa miklu fiskiviku var það eitt kvöld, að við vorum að gera að fiski, og ég var að bera í slorskrínu á bakinu eitthvert rask. Það var band í báðum göflum, og var því smeygt á aðra öxlina, en það var dimmt orðið og ósléttur vegur, svo ég datt og rak niður aðra hendina og meiddi mig mikið á þumalfingri, sintognaði og leið illa um nóttina og gat ekki róið morguninn eftir, og þótti mér heldur dauflegt einum í búðinni. Ekki tapaði ég hlutnum, þeir gáfu mér hlut.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Morguninn eftir fór ég með á sjóinn, og var haft til styrktar hendinni, svokallað róðrarbelti, og var ég í andófi, því að ég gat ekki dregið fisk. Veður var gott, hér um bil logn, svo að það var lítið andóf. Fiskur var nógur, svo að þeir fylltu skipið á stuttum tíma. Síðan var róið til lands. Sjór var svo ládauður, að ekki var nokkur hreyfing við land, svokölluð ládeyða. Nú gat ég ekki seilað, svo að ég var látinn halda skipinu meðan seilað var (þegar svona ládeyða var, var ekki seilað úti á legu eins og fyr segir). Í þetta sinn var um stórstraumsfjöru, og voru stórir steinar þar úti, sem ekki sást á, svo að skipið tók niðri og vildi standa, svo að ég fór að færa mig dýpra, en gætti ekki nógu vel að mér, og fór sjór upp fyrir brókina; en það var óþægilegt, því að frost var mikið.
Þegar búið var að seila, hellti ég úr brókinni og fór út aftur í annan róður. Það var sama fiskiríið og frekar fljótt verið að hlaða skipið, en mér varð töluvert kalt svona votum. Þegar komið var til lands aftur, hafði ég orð á því við formanninn, að bezt væri að ég yrði eftir í landi með manninum, sem bar upp fyrri farminn, því að þá hitnaði mér og allt hefði beztu endalok. Og það varð úr, að ég varð eftir og fór að bera upp og lyfti félagi minn á mig byrðunum, en hann lyfti sjálfur á sig, því að hann var heilhentur. Ég fór þrjár ferðir í brókinni, þá var mér farið að hitna og fór svo úr henni, en var í skinnstakknum. Þetta hafði góðan enda, mér varð ekkert meint við, en svona lagað þyrfti ég ekki að bjóða mér nú á dögum. Við vorum margir vel upp aldir á þeim dögum ungu mennninir og klæddir hlýjum íslenzkum ullarfötum, sem við hjálpuðum til að vinna sjálfir, að minnsta kosti margir. Oftast yar ég búinn að sitja í vefstól frá því á jólaföstu og þar til ég fór í útver, og svo var um fleiri, sem ég þekkti. Svo reri ég daglega eftir þetta meðan gæftir héldust, en eins og ég hefi áður sagt, stóð mesta fiskiríið eina viku eða vel það.
Svo er ekki meira markvert að segja af þessari vertíð, það gekk allt sinn vanagang, vertíðarnar voru flestar líkar hver annarri. Það var oftast nóg að gera seinni partinn þegar fisklaust var orðið við að herða og hagræða harðfiskinum.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Um þessar mundir verður vart breytinga í Herdísarvík. Bjarni Hannesson deyr, sem var þaf bóndi- og formaður lengi. Þá bætist við skip frá Hjálmholti í Flóa. Formaður á því var Sveinbjörn Ólafsson frá Hjálmholti, og annað úr Selvogi, formaður Guðmundur Sigurðsson. Auk þessara tveggja voru þar þá formenn: Guðmundur Jónsson, sem kenndur var við Hlíð í Selvogi, ættaður frá Keldum á Rangárvöllum, bjó tæp 40 ár í Nýja-bæ við Krýsuvík. Kona hans er Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík. Búa nú í Hafnarfirði. 4. formaður Jóhann Níelsson, 5. Nikulás Erlendsson, 6. Björn Eyjólfsson, 7. Ingimundur Jónsson.

Herdísarvík

Herdísarvík. Gamli bærinn framar.

Nú er næsta vertíð eftir frostavertíðina. Þá var byrjað með handfæri, og skyldi nú fiska með sama lagi og síðast liðna vertíð, en það brást. Það var verið með færi nokkra daga og fiskaðist lítið sem ekkert. Svo er það einn dag, að allir eru á sjó og ekkert fékkst — 2—3 í hlut. En svo er það rétt fyrir hádegi þenna dag, að eitt skipið tekur sig upp og fer í land, mig minnir það væri Guðmundur Jónsson. Hann fór í land til að reyna að beita línu með slógi og hrognum úr þessum fiskum, sem þeir drógu á færin. Hann rær svo aftur og leggur línuna, en það kom heldur skriður á hina, þegar þeir sáu að fiskur kom á hverju járni þegar hann fór að draga línuna. Það ruku “allir” í land og beittu línu og reru út aftur og fengu hleðslu. Svo stóð hlaðfiski meðan gaf, ég man ekki hvað það voru margir dagar. Nú var fiskurinn lifrarminni og rýrari en vertíðina næstu á undan, en það mun hafa náðst líkt fiskatal, og segir svo ekki meira af þessari vertíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þá ætla ég að segja dálítið frá vertíðinni 1895. Þá var ég með Birni Eyjólfssyni, það var síðasta vertíðin, sem ég reri í Herdísarvík og sú sjöunda. Björn hafði alltaf verið þar hæstur með hlut. Nú var hann orðinn heilsulaus, en það var samt betra að hafa hann með á sjóinn. Einu sinni gat hann ekki farið með okkur á sjó í 3 daga, og var þá einn hásetinn formaður, en þá daga gekk ekki vel að fiska. Svo hresstist Björn aftur og tók við formennsku, en hann kom eftir þetta alltaf ríðandi á hesti til skips heiman frá bænum, en verbúðirnar voru skammt frá þar, sem skipin stóðu. Svo hjálpuðum við honum eða réttara sagt létum hann upp í skipið á þurru áður en við settum á flot, svo stýrði hann og sagði fyrir og réði sjóferðinni. Það fiskaðist töluvert þessa vertíð framan af á vanalegum miðum, og um miðjan marz var frekar gott fiskirí.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Svo kom 16. marz, sá eftirminnilegi dagur. Gott veður um morguninn og enda allan daginn. Allir réru. Svo komu skipin að nokkuð snemma; ég man ekki hvað klukkan var. Björn kom með þeim fyrstu og um sama leyti önnur skip. Það var seilað og lítið staðið við í landi. Björn hafðði það lag, að láta okkur vera til skiptis í landi, að bera upp fiskinn, og þennan dag var komið að mér, og skyldi ég bera upp og annar með mér, og svo gerðu hinir líka; þeir skildu eftir menn í landi. Þegar við rérum í land, var komin töluvert þykk alda í sjóinn. Um sama leyti og þessi 5 skip voru að fara, komu þau tvö, sem eftir voru, og þau fóru ekki út aftur, því það brimaði svo fljótt, að það varð ófært að heita mátti á svipstundu. Þennan dag nauðlentu í Þorlákshöfn um 60 róðrarskip af Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum. Þar var þá hvergi lendandi fyrir brimi. Selvogsskipin lentu við illan leik í Selvognum. Barst þar einu skipi á í lendingunni, og drukknaði einn maður. Það var eina manntjónið, sem af brimi þessu hlauzt, og þótti það sérstakt lán, að það varð ekki meira, eins og á stóð þá.
Formenn á skipunum, sem landi náðu þennan dag, voru Guðmundur Jónsson og Ingimundur Jónsson, en skipin átti Sólveig Eyjólfsdóttir, sem þá bjó ekkja í Herdísarvík. Þegar hin skipin 5, sem úti voru, leituðu lands, var komið stórveltubrim, svo að þau lögðu öll frá, settu upp segl og sigldu til hafs.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Það sáust nokkrar franskar skonnortur úti fyrir, og skipin héldu til þeirra. Tvær voru næstar, og komu skipin fyrst öll að annarri, og Frakkar fóru að taka á móti þeim, en Björn sá, að þarna yrði þröngt fyrir skip og menn, og þó verst fyrir skipin, svona mörg aftan í einu stórskipi, og fór í annað, sem var skammt frá. Þar var þeim vel tekið og skipið sett aftan í skonnortuna.
Skipið, sem Björn komst í hélt sér við á seglum um nóttina og sigldi svo með róðrarskipið austur og inn á leið þar til komið var hér um bil móts við Herdísarvík, þá var brimið lægt, og leiðin fær inn, og Björn lenti heilu og höldnu fyrir hádegi. Skonnortan, sem hafði fjögur skipin, sigldi vestur fyrir Reykjanes og missti tvö skip aftan úr sér undan Grindavík og hin tvö í Reykjanesröst. Skilaði svo af sér öllum mönnunum í Höfnunum, og komu þeir gangandi til Herdísarvíkur eftir nokkra daga. Þetta var mikið tjón fyrir þá, sem áttu skipin, sem töpuðust. Það voru fengin lánuð eða leigð skip austur á Eyrarbakka og flutt til Herdísarvíkur, svo hægt væri að halda áfram róðrum.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Skipin töpuðust ekki öll. Þau, sem slitnuðu aftan úr skonnortunni undan Grindavík, sáust þaðan, þegar birti af degi, og Grindvíkingar sóttu þau, og voru þau óskemmd. Annað var skip Nikulásar Erlendssonar; það keyptu Grindvíkingar. Hitt var skip Guðmundar Sigurðssonar og var flutt til Herdísarvíkur aftur. Hin tvö klofnuðu í Reykjanesröst, Hjálmholtsskipið og Krýsuvíkurskipið, Þorlákshafnar og Selvogs. Nú fóru skipin úr Herdísarvík að róa austur á Forir; en þá var ekki hægt að fara nema einn róður á dag; en þá var línan beht á sjó, ef ekki fékkst nóg í skipið í kastinu. Svona langan veg var ekki hægt að fara, nema gott sjóveður væri. Það var svo langt og erfitt, ef norðaustan vindur var, að komast þangað austur eftir, því að oftast er þarna með suðurströndinni einstreymis vesturfall eða straumur. Við fengum þarna töluverðan afla.
— Alltaf var Birni heldur að versna, en þó var hann formaður okkar vertíðina út. Það var dæmafátt, að svona veikur maður færi á sjó dag eftir dag. Það mátti segja um hann, að þar væri verið að til hinztu stundar. Hann lézt 3. júní um vorið, og mun banamein hans hafa verið krabbamein. Björn Eyjólfsson hafði verið sjósóknari mikill um sína daga. Var lengi formaður í Þorlákshöfn, í Vogum við Faxar flóa, og síðast í Herdísarvík, þar sem hann hvíldist eftir vel unnið starf. Hann var líka skipasmiður og hafði smíðað fjölda róðrarskipa, stór og smá. Svo þegar ekki var trésmíði, þá var hann í smiðju við járnsmíði, og þar mátti sjá röskleg og lagleg handtök, á meðan hann hafði heilsu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Með svona mönnum eins og Birni, höfðu verið margir dugnaðarsjómenn, frá því að hann byrjaði sjómennsku á unglingsárum til þess síðasta. Það hefir verið mikils virði í peningalegu tilliti, sem Björn flutti í land á sinni löngu formannstíð, náttúrlega með hjálp háseta sinna; — en það er ekki sama, hver ræður á sjó.
Ég ætla að greina hér frá atviki, sem sýnir sjósókn Björns nokkrum vertíðum áður en síðast segir frá. Þá réri hann einskipa; hinum þótti ekki fært, og var víst ekki álitlegt. Þá réri ég hjá Nikulási. Björn réri þessa vertíð tvisvar einskipa, og í báðum róðrum fiskaði hann veL Í annað skiptið brimaði meðan hann var úti, og það var mikið brim þegar hann fór. Þegar sást til hans koma, þá skinnklæddu sig allar skipshafnir, sem í landi voru, til þess að taka á móti honum. Þegar hann sá fólkið í fjörunni, hleypti hann upp á hæsta sjó, og skipið var tekið með öllu saman, fiski og mönnum, og drifið upp, svo brimið næði því ekki. Svo var stanzað og farið að tala við karlana, og allir voru glaðir og kátir yfir að allt skyldi fara vel. Við sem í landi vorum, urðum hálfsmeikir um skip og menn í svona miklu brimi.
Það var oft mikið um hval á þessum árum. Man ég þó sérstaklega eftir einni vertíð, sem óvenjulega mikið var af honum. Sáum við þá stundum stórar vöður af hval skammt þar frá, sem við lágum við færin. Þá var það stundum, ef fiskur var tregur, að Björn Eyjólfsson tók sig upp og kippti rétt að hvalagerinu og dró þar nógan fisk.

Herdísarvík

Herdísarvík – kort ÓSÁ.

Ég réri hjá Nikulási, þegar þetta var, en honum var hálfilla við að vera nærri stórfiskavöðum og notaði ekki þessa aðferð, og það gerðu held ég ekki aðrir en Björn.
Ekki var Björn aðgerðarlaus þegar legið var yfir fiski. Færi hans var alltaf úti, og hann dró manna mest á skipi sínu. Einu sinni var talað um, að hann myndi hafa dregið nærri því helminginn af fiski þeim sem á skip kom, en þá fékk hann 20 í hlut. Þetta hefir kannske ekki verið bókstaflega rétt, en það sýndi hvaða álit haft var á dugnaði hans. Einu sinni síðustu vertíðina, sem hann lifði, 1895, var sótt austur í Forir eins og fyrr er ritað. Það var einn laugardagsmorgun norðaustan stormur, og var að sjá sandrok austur á sandi fyrir neðan Selvogsheiði, svo það þýddi ekki að leggja á stað austur í Forir, svo þeir fóru út í leirinn, skammt út fyrir sundið um morguninn, allir nema Björn af því að laugardagur var til að afbleyta línuna. Svo klukkan 10 fyrir hádegi voru þeir komnir aftur. En rétt umsama leyti sást ekkert sandrok austur á sandi, því þá var að lægja vindinn. Rétt í þessum svifum kemur þá félagi okkar inn í búðina og segir að Björn sé að koma ríðandi ofan eftir frá bænum.
Björn hafði þá séð að veður fór batnandi, enda verið að bíða eftir því. Svo var lagt á stað og gekk vel. Við fengum bezta veður og vorum víst 12— 13 tíma í túrnum gg lentum í myrkti um kvöldið. Svo á sunnudaginn fórum við að slægja og fletja fiskinn. Svona túrar þóttu góðir í þá daga. —Við sjómenn í Herdísarvik, sem áttum heima í Ölfusi og Flóa, fórum vanalega heim einu sinni á vertíð, og helzt um bænadagana eða páskana. Það var eina vertíð (þá reri ég hjá Nikulási) að við fórum nokkuð margir á miðvikudaginn fyrir skírdag, því að þá var ekki sjóveður. Það þekktist ekki í þá daga að róið væri á helgum dögum, þó var nú brugðið út af því í þetta sinn, því þegar við komum til Herdísarvíkur um kvöldið á föstudaginn langa, þá voru þeir að gera að fiski, sem ekki fóru heim, þeir höfðu sameinað sig og róið þremur skipum og fiskað töluvert. Við gátum lítið sagt við þessu, þó þótti okkur þetta atvik leiðinlegt, og töluvert undarlegt, af því að þetta var alveg nýtt fyrirbrigði, að róa á helgum degi.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Svo kemur atvik fyrir haustið eftir, sem lyfti undir þjóðtrúna, eða þessa vanalegu trú fólksins í þá daga, og sem máske er til enn. Það sem vildi til haustið eftir var það að tvö af þessum skipum, sem róið var á föstudaginn langa, fuku og brotnuðu. Skipin voru höfð í veggjahárri rétt og bundin niður á hvolfi, tog í þeirri rétt voru hin skipin líka en þau sakaði ekki. Í Herdísarvík er mikið hvassviðri, þegar hann er hánorðan, þá stendur veðrið af fjallinu, og eru þá feikna sviptir, sem allt rifa upp sem ekki er reglulega gengið frá.

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð framundan.

Þegar vetrarvertið var úti, fóru oft margir okkar til Faxaflóa, til að róa þar á vorvertíðinni. Við lögðum af stað 10.—11. maí með pjönkur okkar á bakinu. Fórum upp svokallað Mosaskarð, og svo beina línu yfir Lönguhlíðarfjall, og niður Kerlingarskarð, og fyrir vestan Helgafell, um Vífilstaði til Reykjavíkur. Þetta var 7—8 tíma gangur ef gott færi var en um þetta leyti árs var oft ófærð á fjallinu. — Þá var ekki atvinnuleysi, ég held að orðið atvinnuleysi hafi ekki verið til, og ekki einu sinni í Reykjavík, enda var Reykjavík ekki stór bær þá.
Nú eru vertíðarhugleiðingar mínar frá Herdísarvík að þrotum komnar. Eftir þetta réri ég á Eyrarbakka, og fór svo til austfjarða laust eftir aldamótin, og segir ekki af því í þetta sinn, og víst aldrei, nema þetta: að ég var þá 24 ára að aldri til 55 ára alltaf á sjó mikið til af árinu, á ýmsum förum og fleytum, róðraskipum, kútterum, vélbátum, fiskveiðaskipinu Súlunni samfleytt í 9 mánuði. Og fyrir innan 24 ára aldur á vetrar- og vorvertíðum við róðra á áraskipum eins og fyr er ritað. Þessum fyrnefndu árum var ég 16 úthöld, sumar og haust formaður hjá Konráði Hjálmarssyni í Mjóafirði. Ef ég færi að skrifa um öll þessi ár, allt miðbik ævinar yrði það stór bók, sem sagt heil ævisaga. Ég er ekki fær til þess – og kemur því ekki til mála.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Að lokum ætla ég að gjöra svolítinn útúrdúr og segja frá refaveiðum. Vorið 1894 var ég vormaður í Herdísarvík. Fór ekki þaðan um lokin. Var við fiskverkun og smalamennsku, en svo þurfti líka að veiða refi alveg eins og þorsk, því refir eru slæðir í sauðfé. Það fannst refagreni í Herdisarvíkurlandi um vorið. Þá bjó á Vogsósum Þórður Eyjólfsson, ættaður frá Grímslæk í Ölfusi, síðar kenndur við Vindheima. Hann var refaskytta í Selvogshreppi. Þórður var látinn vita af gneninu, og svo fór hann tilbúinn til að liggja við það. Ábúandi í Herdísarvík átti að láta mann með skyttunni, svo ég var látinn fara með nesti og nýja skó. Grenið var uppi í Lönguhlíðarfjalli í norðaustur af Geitahlíð. Þegar við komum að greninu, sá Þórður fljótt hvar aðaldyrnar voru, sem refahjónin gengu helzt um. Svo fundum við okkur stað í leyni, en sáum þó til dyranna. Þegar við vorum búnir að liggja þarna eins hálfan tíma, kom refurinn út úr greninu og Þórður hleypti af byssunni og rebbi steinlá. Stór og mikill grár refur. Svo lágum við áfram, í tvö dægur, og sáum aldrei læðuna eða heyrðum í henni. Svo fórum við heim, og Þórður fór til Vogsósa, svo kom hann aftur eftir tvo daga. Þá sagði hann að bezt væri að nesta sig vel, því nú bjóst hann við að verða lengi, 5—7 dægur, því að nú skyldi til skarar skriða við grenlæðuna. Við fórum með dýraboga og yrðling, sem Þórður hafði veitt á öðru greni, og skyldi kvelja hann til þess að narra læðuna að. Svo var hann með línu, öngla og hrátt kjöt til að beita fyrir yrðlingana, sem enn voru í greninu. Þegar við vorum búnir að liggja og sitja langan tíma heyrðum við læðuna gagga og orga langt frá. Þórður sagði, að hún hefði ekki að greninu komið síðan refurinn var skotinn, og væri nú júgrið farið að harðna. Hann sagði mér að kvelja yrðlinginn, sem við vorum með, það þótti mér leitt verk. Svo fórum við að veiða yrðlingana, sem inni voru í greninu, og náðum 5, enn ekki sást læðan enn, við heyrðum oft í henni, og heldur var hún að færa sig nær.
Þarna lágum við í fimm dægur í seinna sinnið. Var nú Þórði farin að þykja löng biðin. Lítið var sofið, við reyndum þó að sofna til skiftis. Þegar langt var liðið á fimmta dægur segir Þórður við mig, að ég skuli liggja kyr, og láta lítið bera á mér. Hann kvaðst ætla að ganga í kring og vita hvað hann sjái. Svo ligg ég nokkuð langan tíma, þangað til ég heyri skot, svo ligg ég enn litla stund, þá kemur Þórður með læðuna dauða. Hann hafði þá mætt henni á bak við stóran klett og var þá ekki lengi að miða á hana, og hún lá. Nú var Þórður búinn að vinna grenið, 2 dýr og 5 hvolpa. Svo var haldið heim.”

Heimild:
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 40. tbl. 05.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinnson frá Hreiðuborg, bls. 4-5 og 8.
-Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 41. tbl. 08.10.1939, Verbúðalíf í Herdísarvík og Selvogi, Einar Þorsteinsson frá Hreiðuborg, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Viðurkenndar prófgráður hafa jafnan verið metnar til verðleika þegar sótt er um störf.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í ótal nefndum og formaður nokkurra.
Sú “prófgráða”, sem þó hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn “útskrifaður” frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls – HH.

Auk viðurkenninganna fengu hlutaðeigendur laun fyrir vinnuframlag sitt. Jafnan þurfti sérhver að vinna hálfan dag á launum. Vinnuframlag hvers og eins var metið frá degi til dags, allt frá 25 aurum til einnar krónu. Verðbólgan lék Vinnuskólann illa, líkt og aðra slíka vinnustaði. Á síðasta ári Vinnuskólans voru hæstu daglaunin 5. kr.
Eftir hádegismat var farið í gönguferðir um nágrennið, landlagið metið og útskýrt. Ratleikir eða aðrir slíkir voru um helgar. Þá var hópnum gjarnan skipt upp í hópa, sem hver og einn fékk það verkefni að stefna að ákveðnu marki. Oftar en ekki kom til átaka milli hópanna. Sérhver fékk “lífteygju” á upphandlegg – ef hún varð slitin var viðkomandi úr leik.
Kofar voru byggðir í gilinu við Hettulækinn, sundlaug grafin sunnan Bleikhóls og silungsveiðar stundaðar í Kleifarvatni, gengið upp að Arnarvatni á Sveifluhálsi eða inn að Víti í Kálfadölum.
Einhverja daga, virka sem og um helgar, þurfti hver og einn að aðstoða í eldhúsi; skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Þar voru daglaunin best. Boðið var upp á morgunmat (hafragraut og mjólk), hádegismat (bjúgur, fiskibollur o.s.frv.), kvöldmat (sem ég man nú ekki hver var) og kvöldkaffi. Miðdegiskaffið (mjólk á glerflösku og brauðsneið) tókum við jafnan með okkur í gönguferðirnar um nágrennið.
Aukreitis þurfti sérhver að búa um sitt rúm, skúra herbergisgólf og ganga, þvo sinn þvott, hengja upp og strauja hann síðan með rúmfjölunum, sem fólust undir rúmdýnunni.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Í fríum var leikið með tindáta í gólfskotstöðu á grámáluðu steingólfinu, lesið, spilað á mylluleik eða þátt tekin í úthugsuðum íþróttaviðburðum, s.s. fótboltamótum á milli herbergjanna, 1-5. Allan tímann voru foreldranir víðs fjarri.
Að kvöldi dags var kvöldvaka; kvikmyndasýning. Þá var setið með krosslagða fætur í röð á kjallaraganginum og horft á “Síðasta móhikanann” eða einhverja aðra spennandi dásemd. Í framhaldinu var kvöldkaffi; kakó og kex. Áður en gengið var til náða var farið sameiginlega með “faðir vorið”.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar og skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum. Má þar t.d. nefna Helga Jónasson, Hauk Helgason, Ólaf Proppe, Hörð Zóphaníesson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson o.fl.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962 er grein um Vinnuskólan í Krýsuvík undir fyrirsögninni “Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar”:

Unglingavinnan

Grein um Vinnuskólann í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962.

“Undir forystu Álþýðuflokksins stofnaði bærinn sumarvinnuskóla í Krýsuvík fyrir 10 árum. Forstöðumaður vinnuskólans er Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskólans, og hefur hann unnið þar mjög gott starf ungum borgurum þessa bæjarfélags til heilla. Þar eru drengir bæði látnir vinna og leika sér. Þeir læra ýmis hagnýt vinnubrögð, eru undir góðum aga og er kennt að meta gildi vinnunnar. Þeim er einnig veitt tilsögn í leikjum, svo sem knattspyrnu. Drengirnir eru á aldrinum 8—12 ára. Þá er ótalin sú þjónusta, sem þetta er fyrir heimilin, sú hvíld, sem mæðurnar njóta á meðan synir þeirra eru við holl störf upp í Krýsuvík. Ekki má gleyma því heldur, hve drengirnir hafa miklu betra af því að vera við vinnu og leiki í Krýsuvík, en að vera að leika sér allan liðlangan daginn í göturykinu.
Vinnuskólinn var stofnaður fyrir 10 árum. Hafnarfjörður var fyrsta íslenzka bæjarfélagið, sem hóf rekstur vinnuskóla í þessari mynd, en síðan hafa fleiri bæjarfélög fylgt fordæmi Hafnarfjarðar.
Aðsókn að vinnuskólanum hefur verið mjög góð, og hafa færri drengir komizt en viljað hafa. Fyrir 3 árum voru 80 drengir í vinnuskólanum, en nú síðastliðið sumar 120.
Þess má geta, að í stærsta kaupstað landsins, Reykjavík, þar sem íhaldið hefur haft meirihluta í bæjarstjórn um tugi ára, mun engan vinnuskóla vera að finna hliðstæðan vinnuskólanum í Krýsuvík. En ætti Reykjavík að standa hlutfallslega jafnt Hafnarfirði í þessum málum, þyrfti hún að reka um 1200 barna vinnuskóla. Hamar hefur skiljanlega okki frætt Hafnfirðinga um þetta.
Vegna þess, hve vinnuskóli fyrir drengi hefur reynzt vel, hefur Alþýðuflokkurinn ákveðið, að láta einnig hefja rekstur vinnuskóla fyrir stúlkur nú á næsta kjörtímabili, fái hann umboð frá kjósendum til að stjórna bænum.”

Krýsuvík

Drengir við leik í Vinnuskólanum í Krýsuvík. – HH.

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður vegna ómerkilegra þrætur stjórnmálamanna bæjarins, einkum að hálfu sjálfstæðismanna, og tilkomu nýrrar heilbrigðisreglugerðar af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er Hörður Zóp.

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug….

Sjá meira um Vinnuskólann  HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Knarrarneskirkja

Mánudaginn 21. október 2013 birtist stutt frétt á vf.is:
Vill reisa kirkju að Minna Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Birgir Þórarinsson guðfræðingur og fv. varaþingmaður í Suðurkjördæmi hefur sent umhverfis-og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga umsókn um byggingarleyfi fyrir kirkju að Minna-Knarrarnesi samkvæmt aðaluppdráttum Óla Jóhanns Ásmundssonar arkitekts.
Umhverfis- og skipulagsnefnd álítur að byggingin samræmist aðalskipulagi en að liggja þurfi fyrir samþykkt deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag og skipulagslög og skipulagsreglugerð svo unnt sé að veita byggingarleyfi.”

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 birtist eftirfarandi stuttfrétt í sama miðli:
Kirkja verður byggð að Minna-Knarrarnesi.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Bæjarráð Voga hefur samþykkt erindi Birgis Þórarinssonar um byggingu 40 fermetra kirkju að Minna-Knarrarnesi. Með bréfi þann 12. febrúar sl. óskar Birgir eftir því að jafnframt að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni.
Loks kemur fram að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.”

Þegar langt var liðið á lokafrágang byggingarinnar var stefnt að vígslu Knarrarneskirkju sunnudaginn, þann 8. ágúst 2021:
“Kirkjuna reistu hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir en fyrir sex árum var tekin skóflustunga að þessari bændakirkju, sem er í 19. aldar stíl, í túninu hjá þeim hjónum að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Draumur að rætast með kirkjunni.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja.

Mikið hefur verið lagt í kirkjuna og listmunina sem í henni eru. Altarissteinninn kemur úr fjörunni. „Í Mósesbók eru fyrirmæli um hvernig altari á að vera. Það skal gert úr óhöggnum steini. Ég var í gönguferð hér í fjörunni þegar ég sá þennan stein. Hann höfðaði sérstaklega til mín og passar fullkomlega sem altarissteinn. Það var síðan heljarinnar mál að flytja steininn inn í kirkjuna og koma honum vel fyrir, hann er um 350 kg. Fáeinum mínútum eftir að steinninn var uppsettur gerði jarðskjálfta upp á 5,4. Steininn sakaði þó ekki né þá sex karlmenn sem lyftu honum upp á stall,“ að sögn Birgis. Kirkjuklukkan er rúmlega 100 ára gömul skipsklukka og kirkjugólfið er sömuleiðis úr aldargömlum gólfborðum, sérstaklega unnin fyrir kirkjuna. Yfirsmiður er Ásgeir Þórisson, innréttingar smíðaði Ólafur Sigurjónsson, Forsæti Flóahreppi og arkitekt er Óli Jóhann Ásmundsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Altaristöfluna gerði úrkraínski listaðurinn Andrii Kolalenko.

Birgir leitaði út fyrir landssteinana með gerð listmuna. Þeir eru eftir handverks- og listamenn frá Úkraínu. Má þar nefna altaristöfluna en hún er gerð eftir forskrift Birgis. Predikunarstólinn er sömuleiðis gerður í Úkraínu en hann er eftirgerð af predikunarstól frá árinu 1594 og er á Þjóðminjasafninu. Birgir sá hins vegar alfarið um steinhleðsluna í kringum kirkjuna. „Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að byggja kirkju í þessum gamla stíl, sameinar líka menntun og áhugamál.“

Knarrarneskirkja

Hjónin Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson (t.h.)  við Knarrarneskirkju.

Knarrarneskirkja var vígð framangreindan dag
“Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.

Knarrarneskirkja

Karl Sigurbjörnsson, biskup, annaðist vígslu Knarrarneskirkju.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis í þurrabúðinni Vík þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð á Vatnsleysuströndinni.

Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna, en hefur eflaust fengið góðar ráðleggingar frá eiginkonunni – og allt handverk ber aðkomandi iðnaðar- og handverksmönnum gott vitni um hagleik og alúð.

Knarraneskirkja – Kirkjuvígsla 8. ágúst 2021 – upplýsingabæklingur:

Knarrarneskirkja

Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Til beggja handa má þekkja andlit, bæði úr fortíð og nútíð. Altarið er náttúrlegur steinn úr Flekkuvíkurfjöru.

“Altari Knarrarneskirkju er óhöggvinn fjörusteinn úr Flekkuvíkurfjöru sem hvílir á traustum tréfótum sem Ólafur Sigurjónsson smíðaði.
Altaristaflan er máluð af úkraínska listamanninum Andrii Kovalenko. Kristur er í miðdepli. Undir mynd hans eru táknmyndir lands og þjóðar. Á vængnum til beggja handa eru fimm ættliðir. Á hægri vængnum má sjá Þórarinn Einarsson, útvegsbónda í sjóklæðum og feðgana Þórarinn Brynjólfsson, Birgi Þórarinsson og Hjalta, yngsta son Birgis. Á vinstri væng er margrét Þórarinsdóttir fyrrum húsfreyja í Knarrarnesi og við hlið hennar Anna Rut Sverrisdóttir núverandi húsfreyja. Þær klæðast báðar íslenskum búningum með gömlu Skálholtskirkju í bakgrunni. Minnir það á íslenska menningu, kirkjusögu og lífshætti fyrri alda. Náttúran birtist okkur í himninum, norðurljósunum, hálendinu, Snæfellsjökli, ölduróti hafsins, bæjartjörninni með lífríki vatnsins og íslenskum jurtum umhverfis.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – prédikunarstóllinn.

Prédikunarstóllinn gerði Mykhalio Kozyr úkraínskur útskurðarmeistari. Hann er eftirgerð prédikunarstóls sem Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson lét gera 1594. Stóllinn er á Þjóðminjasafni en var áður í kirkjuni á Fagranesi í Skagafirði og þar áður í Hóladómkirkju. Á spjöldum eru myndir málaðar af Andrii Kovalenko sem sýna guðspjallamennina Jóhannes, Mattheus, Lúkas og Pétur postula sem heldur á lyklum himnaríkis.
Á norðurhlið kirkjunnar er útskorin Kristsmynd, endurgerð af róðukrossinum frá Upsum, sem er ein elsta Kristsmynd á Íslandi, frá því á 11. öld. verkið gerði Mykhalio Kozyr útskurðarmeistari.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja – heilagur Nikulás, helgimynd eftir listamanninn Andrii Kovalenko.

Á suðurhlið er helgimynd eftir Andrii Kovalenko og sýnir heilugan Nikulás, sem forðum var verndari sjómanna og sæfarenda. Margar kirkjur við strendur landsins voru helgaðar honum til forna. Myndin er gjöf listamannsins til kirkjunnar.
Kaleikur og patína er gjöf Karls biskups Sigurbjörnssonar til kirkjunnar. Gripina gerði Ólöf Erla Bjarnadóttir, leirlistakona, í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum árið 2000.”

Heimildir:
-https://www.vf.is/frettir/vill-reisa-kirkju-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/frettir/kirkja-verdur-byggd-ad-minna-knarrarnesi
-https://www.vf.is/mannlif/vigsla-knarrarneskirkju-a-vatnleysustrond
-https://www.vf.is/mannlif/knarrarneskirkja-var-vigd-um-helgina
-Bæklingur með vígsluathöfn Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021.
-Birgir Þórarinsson.

Knarrarneskirkja

Knarrarneskirkja. Hluti altarsistöflunnar. Hún endurspeglar íslenska menningu, náttúru og fólk í samspili við trú og kærleika.

Skátar

Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt “Frá Hafnarfirði” um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
“Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson.

Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.

Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur”, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson í miðið; fæddur 9. september 1900 – dáinn 12. desember 1983.
“Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skátastarfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldurækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsviðhorfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla öðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverjum þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, drengskap og dug.  
Við munum hann Eirík með gítarinn við eldinn, syngjandi skátasöngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gamansemina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinninguna fyrir landi okkar, náttúrufegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skátamótum hérlendis og erlendis, útdeilandi kakói og góðu skapi, hlédrægur og allt að því feimnislegur,
en þó svo nálægur og hlýr.
Já, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn,
já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn.
Sem skátar og vinir við eigum margt yndilegt minningasafn,” sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasöngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann.
Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. 
Með skátakveðju.” – F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði – Hörður Zóphaníasson.

Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.