Hvaleyrarvatn

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson, skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri, og eiginkona hans, Else Sörensen Bárðarson, létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.

Rögnvaldur R. Bárðarson

Rögnvaldur R. Bárðarson.

Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.

Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.

Else Sörensen Bárðarson

Else Sörensen Bárðarson.

Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.

Vatnshlíð

Minningarreiturinn í Vatnshlíð ofan Hvaleyrarvatns.

Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – hólmar.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Vatnshlíð.

Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.

Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.

Á skilti í minningarlundinum í Vatnshlíð má lesa eftirfarandi:
Gróðurunnendur

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

„Hjálmar var fæddur og uppalinn á Ísafirði. hann lauk námi í skipaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í kaupmannahöfn 1947. Að námi loknu starfaði hann á skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi, en hóf svo störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948. Þar hannaði hann og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins, dráttarbátsins Magna. Hjálmar var skipaður skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri til 1985. Hann tók virkan þátt í starfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og var forseti stofnunarinnar um þriggja ára skeið. Hann var einn af brautryðjendum í alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun heimshafanna og kom að mótun reglna um öryggi í siglingum á heimsvísu og öryggismálum sjómanna. Fyrir störf sín að siglingamálum hlaut hann Höfrunginn, alþjóðleg verðlaun IMO, árið 1983. Hjálmar var afkastamikill og vandvirkur áhugaljósmyndari og höfundur tólf bóka í máli og myndum um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – minningarreiturinn 2021.

Else var fædd í Svíðþjóð, af dönskum foreldrum. Hún lauk prófi frá verslunarskóla í Danmörku 1940 og vann á skattstofu Kaupmannahafnar þar til þau Hjálmar fluttu til Íslands 1948. Else var góð tungumálamanneskja, söngelsk, listræn og fróð um listasögu, einkum danska málara. Hún var mikill dýravinur og átti stóran þátt í stofnun Kattavinafélags Íslands og Kattholts. Else hafi unun af ferðalögum og þau Hjálmar ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.

Hjálmar og Else voru barnlaus en arfleiddu Landgræðslusjóð, landgræðslu ríkisins, Fuglavernd, Sjóminjasafnið Víkina, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Vestfjarða að eigum sínum. Að ósk gefenda er meginhluta arfs Landgræðslusjóðs varið til langræsluskógræktar á landsvæðum vöxnum lúpínu.
Stofnaður var minningarsjóður, í samvinnu við Landgræslu ríksins, en markmið hans er einkum að styrkja rannsóknir er tengjast notkun lúpínu í landgræðslu og skógrækt.“

Heimild:
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Vigdís Finnbogadóttir

Sú klausa er hér fer á eftir stendur í blaðinu Fjallkonan 19. júní 1908:

Víðistaðatún

Víðistaðatún.

„Hafnfirðingar höfðu það til hátíðarbrigðis á afmælisdag Jóns Sigurðssonar að stofna hjá sér ungmennafélag. Hlaut það nafnið Ungmennafélagið 17. júní. Framkvæmdahugur var mikill í félagsmönnum, enda margvísleg mál er ungmennafélög hafa á stefnuskrá sinni. Þar á meðal að klæða landið skógi.

Hafnfirðingar létu sig ekki vanta í hóp þeirra brautryðjenda. Því til sönnunar stendur eftirfarandi í sama blaði 28. apríl 1909:

Ungmennafélagið 17. júní í Hafnarfirði hefur fengið lofun fyrir landi til skógræktar í nánd við bæinn í Víðistöðum. Félagið er tekið til við að vinna við skógarstæðið – girða það. Vinna flestir félagar að því með eigin höndum, karlar og konur í frístundum sínum og miðar verkinu furðuvel áfram. Hugsað er til að rækta þarna tré í næsta mánuði.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni.

Lengri eru upplýsingar Fjallkonunnar ekki. En staðreynd er að þarna voru á þessu vori gróursettar um eitt þúsund trjáplöntur. Garðhleðsla og undirbúningur var eins og fyrr segir framkvæmdur af félögum. Stofnuðu þeir um þetta nokkurskonar hlutafélag, þannig að fyrir 5 kr. vinnu fengu menn hlutabréf og mun eitthvað af þeim enn vera til hér meðal gamalla 17. júní félaga.
VíðistaðirÁrið 1910 fór Árni Helgason sem nú er verkfræðingur í Chicago til náms í trjárækt upp að Rauðavatni. Hvernig þessum trjágróðri í Víðistöðum reiddi af er mér ekki kunnugt. En mjög dofnaði yfir starfi þessa ungmennafélags eftir 1910 og það leið alveg undir lok 1913. En margir eru þeir Hafnfirðingar sem harma það að þarna skyldi ekki rísa upp almennur skemmtistaður með trjám og blómstrum.“
Í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðvedisins ákvað Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bjóða forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á Víðistaðatún í þeim tilgangi að planta þar nokkrum trjám, bæði í tilefni afmælisins sem og ekki síst af framangreindri ástæðu. Formaður afmælisnefndar var Ómar Smári Ármannsson, bæjarfulltrúi. Lundurinn hefur síðan verið nefndur „Lýðveldislundur“.
Víðistaðatún

Á skilti við lundinn á Vísistaðatúni má lesa eftirfarandi: „Lýðveldislundur – Plantaður 1. júní 1994 af Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands ásamt hafnfirskum börnum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins.“

Síðan hefur margt gerst til batnaðar. Bæjaryfirvöld Í Hafnarfirði mættu þó gjarnan sýna eftirfylgni framgreindrar hinni táknrænu athafnar meiri virðingu í verki. Vigdís hafði um langt skeið stuðlað að  ræktun, hvort sem um var að ræða æsku landsins eða gróðurs. Þá viðleytni forseta Íslands þarf að hafa í heiðri til langrar framtíðar…

Heimild:
-https://skoghf.is/skogarstaeeie-i-vieistoeeum/

Vigdísarlundur

Vigdísarlundur á Víðistaðatúni. Steinninn fremst ber skjöld af því tilefni.

Sigurðarsel

Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Örnefni í Þingvallahrauni
Fyrsti kafli
„Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan
af Þingvallavatni.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Hallstígur er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda. Þaðan og inn í Hallvík nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur, og eiginlega alla leið inn að Klukkustíg, meðan gjábarmarnir eru hærri en hraunið.
Frá Gjábakkastíg sunnan vegarins að Vellankötlu (eða Vatnsviki), er að mestu flatt hraun, sem heitir Gjáendar; það er allt sundur tætt af gjám, fullum af vatni.
Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur að Hábrún, en hallar þaðan vestur að Mosalág og Lágbrún. Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var fje rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Hallviki er Veiðistígur á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Fornaseli (sem er grashvammur stór við vatnið, norðan við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur. Það var að mestu ljeð Gjábakkabónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.

Hrafnagjá

Hrafnagjá – reiðgatan um Gjábakkastíg.

Eftir Gjábakkastíg liggur alfaravegur frá Biskupstungum og Laugardal, og hann var einnig mikið notaður af Grímsnesingum, áður en brú var sett á Sogið. Vegurinn lá þjett við Vellankötlu, þaðan (Kenndur við Ólaf konung helga; kirkjan á Þingvöllum var helguð honum. M.Þ.) norður hraunið að túngarði í Skógarkoti og þaðan vestur eða út á Þingvelli. Skammt austur frá Vellankötlu er stór grjóthóll, sem heitir Böðvarshóll. Þar hjá er fjárhústóft, sem Þorleifur Ólafsson í Vatnskoti hlóð, en varð aldrei notuð. Norðaustur af honum er Þingvallahellir. Var hann um langt skeið notaður til fjárgeymslu á vetrum frá Þingvöllum; var hann þó að öllu leyti illur til þeirrar notkunar, eins og f lestir hraunhellar eru, einkum ef þeir eru lágir, því að fjeð reitir ullina af hryggnum í berginu, og blautir verða þeir, þegar gólfið er orðið þjett af áburðinum; og alltaf er í þeim bergleki. Sunnan í hallanum upp af Vellankötlu heita Fjárhúsbrekkur, en þar sem brúnin er fullhækkuð við Litlugjá, er hóll einn, sem heitir Litlugjáarhóll.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Skammt fyrir vestan Vellankötlu, vestan-við gamla veginn, en norðan við hinn nýja, eru Tjarnir. Norðaustan við þær eru Ámundahólar, að mestu grasi og skógi vaxnir. Austur af þeim er Nýi-stekkur; hvaðan hann hefir verið notaður, er mjer ókunnugt um, en líklega hefir það verið frá Skógarkoti. Þar norðaustur af er Nýi-Þingvallahellir; fann Pjetur Jónsson, smali á Þingvöllum, hann skömmu fyrir aldamót 1900; var hlaðinn fram af honum forskáli, eins og venja var til, og hann var tekinn í notkun í stað hins gamla, sem áður var getið, en hann var síðan lítið eitt notaður frá Arnarfelli.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Suður frá honum er brekka með vörðubroti; heitir Skúti. Þar norður frá, vestan í hallanum, eru Klukkuhólar; þeir eru tveir stórir grjóthólar með lautum og skógi; standa þeir andspænis hvor öðrum, með slakka á milli. Norður frá þeim, einnig vestan í hallanum, er Viðarklettsskógur, með kletti þeim, er skógurinn ber nafn af, norðast og austast sunnan undir svonefndum Höfðum; nær skógur þessi austur á fulla hæð Brúnar og niður að Eyðum, sem eru skógarlausar mosaflesjur. Austur frá Klukkuhólum, uppi á Brúninni, þar sem hún er hæst, er Hábrúnarklettur; er það einnig grjóthóll og ekki stór. Sunnan og vestan í Brún er skógur þjettur og hraunið grösugt, svo að þar sjest valla á stein eða flag, nema þar, sem einstakir stórir grjóthólar eru, þrátt fyrir, að þar var allt af mest áníðslan með fjárbeit og skógarhöggi. Frá Hábrúnarkletti liggur gjá, sem víða er að eins smáholur, suður hjá Litlugjáarhól og niður að Vellankötlu; heitir hún Litlagjá og var hinn mesti háski fjenaði á vetrum, er snjóar voru, og unglömbum á vorin.

Þingvallahellir

Í Þingvallahelli.

Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel.

Sigurðarsel

Í Sigurðarseli.

Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h. u. b. í austur og vestur, með skógivaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Frá Litlu-Hellishæð hallar suðvestur að Viðarklettsskógi og vestur að Höfðum, sem eru skógi og grasi vaxnar hæðir og lautir, og ná þær norður að Mosalág, norður að Ketilhöfða.
Vestan í hallanum, niður að Mosalág, heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan-undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum.

Hellishæð

Hellishæðarhellir.

Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.
Austan-frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingi á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Norðaustur-af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll.
Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.

Þingvellir

Skógarkot – örnefni.

Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum.
ÞingvellirÞau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.

Skógarkot

Skógarkot – heimtröðin.

Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sjerstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan-í hann er op stórt og heitir því Gapi. Rjett hjá honum er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður-með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum.

Prestastígur

Varða við Prestastíg sunnan Hrafnabjarga.

Vestur af Prestastíg, sem er á h.u.b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur. Norður af Gapahæðum, fyrir norðan áðurnefnda mosabala, eru lítið áberandi hæðir, sem snúa h. u. b. í austur og vestur. Þær heita Einiberjahæðir. Þar fyrir norðan, og vestan Prestahraun, heitir Höfðaskógur; hallar honum lítið eitt mót suðri. Takmarkast hann að norðan af stórum grjótbala, sem snýr austur og vestur; hann heitir Brúnkolluhöfði, og eru þar takmörk þess virkilega Þingvallahrauns. Þaðan heita Mjóafellshraun alla leið að Skjaldbreið, frá Söðulhólagjá að Mjóufjöllum (-fellum).
Sunnan-á Mjóafellshrauni eru auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur. Það heitir Litla-Hrauntún, og hefur þar líklega bær verið. Vestur frá Brúnkolluhöfða og vestur að Hrauntúnsbæ heita einu nafni Skygnirnar, eru það hæðir, lautir og hólar, grasi og skógi vaxið. Þar, sem hæst er, heita Háskygnirahólar. Góðan kipp þar norður frá er Mjóafellsvarða á grjóthól einum. Þar norður frá er skógi vaxið hraun allt að Ármannsfelli og upp að Syðra-Mjóafelli. Austur úr Ármannsfelli gengur lág öxl með grasbrekku sunnan í, sem heitir Sláttubrekka og er þjett við veginn inn á Hofmannaflöt. Litlu fyrir sunnan Sláttubrekku eru sandflatir, sem ganga niður í hraunið, dálítið vaxnar skógi og eru auðsjáanlega myndaðar af vatnsrensli úr fjallinu. Þær heita Víðivellir. Þar er fyrst getið um, að Glámur sálugi hafi sjest; var þar að reiða hrís á einum hesti, eftir því sem Grettissaga segir.“

Annar kafli

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

„Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt.

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

Upp undan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann Öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurabúðar- eða húsfólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðfjenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.
Vestan við öfugsnáða er Vörðuvík, og vestan við hana Dagmálavík; er hún austan við Vatnskotstún. Þá er sker, sem heitir Murtutangi. Stutt fyrir ofan Vatnskot heita Hryggir; er það hólaröð, sem snýr austur og vestur. Austan-við þá er Þuríðarvarða; stendur hún á smáhól upp af Vörðuvík. Skammt austar og norðar er Fuglstapaþúfa. Þar austur frá, allt að Mel, eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp að svonefndum Sauðasteinum, sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Upp af Grunnhólum, vestan-við Tjarnir, eru stórir hólar með djúpum lautum á milli, sem heita Klifhólar. Skammt norður frá Tjörnum liggur vegurinn yfir bratta klapparhæð; heitir hún Melur. Þaðan gengur lægð til norðausturs, vestan undir Brúnarhallanum. Það heitir Lágbrún; nær hún allt að stórum grjóthól, sem lokar fyrir norðurenda hennar.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Á hól þessum er varða, sem heitir Stórastekkjarvarða, og er hún beint niður frá áðurnefndum Nyrðri-Klukkuhól. Þaðan eru óreglulegir hólar og balar til norðvesturs heim undir Gamla-stekk; heita þeir Stekkjarvörðubalar.
Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg. Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfr þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.

Hallshellir

Í Hallshelli.

Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri“. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.

Þingvellir

Þingvellir – Hallshellir.

Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. (Dr. Björn M. Ólsen og dr. Jón Stefánsson rannsökuðu hellinn með
Hall Caine í september 1903, og dr. B.M.Ó. skírði hann. Sjá grein eftir dr. J. St. í Ísafold, XXX., bls. 239. M.Þ.). Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.
Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók.

Þingvellir

Þingvellir – Skógarkot.

Í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austanvið túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.
Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn; sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Skógarkot

Skógarkot – rétt.

Góðan kipp austur frá Skygni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð“. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áðurnefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan .áður-nefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.

Þingvellir

Þingvellir – Gaphæðaskjól.

Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.
Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan við er hin gamla Hrauntúnsgata; á milli Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún.

Þingvellir

Hrauntún – örnefni.

Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteinsvarða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu brún er mishæðalítið, gras- og skógarlautir með smáhólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstubrún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smáhólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er alleinkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Grímsvarða (Manni kemur til hugar hvort hún kunni að vera kennd við Grím litla eða hlaðin í öndverðu af honum. Hann mun hafa búið á Grím(s)stöðum (nú Grímastöðum); sbr. Árb. 1905, bls. 44—46. M.Þ.), sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða.

Þingvellir

Kolgrafarhóll.

Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður-fyrir Þrívörður. Vestanvið slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá (Hún mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók; sjá Árb. Fornlf. 1880—81, bls. 38, nrn, M.Þ.),.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litlavarða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni. Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Stutt austur af Skygnisvörðu er Hálfavarða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráuklettar, norðan við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður af er áðurnefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfuvörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar.

Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll. Þaðan norð-aústur frá eru Brúnir með samnefndri vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suðvestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðausturaf Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.

Sleðaás

Réttin undir Sleðaási.

Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóragil er upp af Lambagjárhrauni og Litlagil upp af Sandskeiðum, og Kriki þar, sem Sleðaás gengur fram úr fjallinu.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba). Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauní, niðurundan Stóragili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Í norðvestur frá Hrauntúni gengur smáhólaröð með skógar og graslautum. Þar er Gráavarða stutt frá túninu; lengra þaðan vestur er Stóra-varða; hún stendur á stórum bala, sem lokar áðurnefndum slakka að norðaustan. Stutt austur frá Stóruvörðu er djúp laut, sem snýr frá austri til vesturs og heitir Langalág. Þar norður af byrja Sandskeið, sem eru sandflög, runnin niður úr Ármannsfelli í leysingum.
Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910. Frá þeim liggur Rjettargata heim að Hrauntúni, og kemur vegurinn frá Ármannsfelli saman við hana neðst á Sandskeiðum, liggur þaðan austan Löngu-lágar og vestan Lambagjár heim í traðir í Hrauntúni.“

Þriðji kafli – (Þessi kafli er að miklu leyti saminn eftir upplýsingum frá Símoni Pjeturssyni í Vatnskoti.)

Þingvellir

Þingvellir – Vatnskot.

„Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla; er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti. Þá er Naustavík. Þá Vatnsvík, og þar suður af Vatnskotshólmar. Skammt vestur af Vatnsvík er Breiðitangi, og samnefnd vík er inn með honum að vestan. Þá er Grjótnes, með Grjótnesvík að vestan. Þá Garðsendavík, og er þá komið að Lambhaga, en svo heitir tangi, sem skagar langt fram í vatnið suðaustur frá Þingvöllum. Fyrir sunnan Garðsendavík er Olnbogi; Litlu sunnar er Tvítóla eystri; þar suður af er Prestshólmi og vestur af honum er Tvítóla vestri. Þar skammt suður af er Lambhagatá. Nokkru norðar að vestan er allstór vík, sem heitir Óhemja. Tanginn, sem skagar lengst í vestur, heitir Leirutá. Vatnið þar fyrir innan til Þingvalla er kallað Leira. Örnefni eru engin í Lambhaga, nema hólabelti, sem liggur þvert yfir hann þar, sem tanginn byrjar, og heita þeir Lambhagahólar, og á þeim er grjótgarður gamall.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Vestur frá Vatnskoti liggur götuslóði til Þingvalla, sem kallaður var Vatnskotsvegur; lagðist hann af að mestu 1907, er hinn nýi vegur var lagður litlu ofar. Með gamla veginum vestur frá Vatnskoti eru óreglulegir balar, sem nefnast Hrossbeinar. Litlu vestar er Katthóll, einstakur hóll með hundaþúfu. Þá nokkru vestar er Kolgrafarhóll.

Þingvellir

Í Gaphelli.

Þar upp af er Kolgrafarhólshæð, og ber hana hæst milli Vatnskots og Þingvalla. Þar liggja gjásprungur til norðausturs og heita Kolgrafarhólsgjár. Þaðan skammt vestur er Hellugjá. Þá er Háagjá. Þar suðvesturaf er Silfruhæð, allstór bali frammi við vatnið; vestan undir henni er Silfra, gjá, sem svo heitir, sennilega vegna hins silfurtæra vants, sem í henni er, og liggur hún að Fjósaklifi þar, sem gamli vegurinn liggur heim að Þingvöllum. Vestan við Silfru er allstór klapparhóll, mjög sundurrifinn, sem heitir Silfruhóll. Rjett fyrir norðan hann er annar hóll, allmikið sundurtættur, sem heitir Dagmálahóll, og norðan undir honum dalur samnefndur. Norðaustur af hól þessum heitir Stöðull; er það hvammur, nokkuð sljettur; þar var fjárrjett og kvíastæði frá Þingvöllum. Vestan við Dagmálahól er Fjósagjá, full af vatni; er nú komin brú á hana á nýja veginum. Vestan við hana er hóll í Þingvallatúni, sem heitir Svelghóll. Suður af honum er Fjóshóll. Norðvestur af honum er dæld, sem Skeggi heitir; hana fyllti sjera Guðmundur Einarsson upp með grjóti. Þar vestur af er Miðmundatún. Norðast á því er Danski-dalur. Þá eru Biskupshólar, norðan við Þingvallabæ, vestan traðanna; austan þeirra er Klukkuhóll (247). Þar austur af er Kirkjutún að Kattargjá, sem liggur um Skötutjörn. Þar fyrir austan eru Seiglur; um þær liggja Seiglugjár. Norðan við Þingvallatún rennur lind ein úr gjáarsprungu, sem klakhús var byggt yfir um 1880 af sjera Jens Pálssyni; var það eitthvað notað stuttan tíma frá Þingvöllum.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háagjá; yfir hana liggur Gönguvegurinn frá Skógarkoti á svonefndum Steinboga. Litlu suðvestar er stígur, sem heitir Brúnstígur. Þar fyrir austan Háugjá er Hellugjá og Hellugjárbalar, fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur af þeim liggur Gönguvegur um allstóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Nokkuð austur-af honum heitir Nónhæð. Suðaustur af henni eru þrír hólar, sera heita Nónhólar, og mun það vera nónsmerki frá Skógarkoti. Nokkru sunnar er varða á hól, sem Digravarða heitir, rjett vestan-við götu, er liggur frá Skógarkoti að Vatnskoti. Suður af Svuntubala er hóll einn með þúfu upp á, sem heitir Nautaþúfa. Suður af henni er allstór bali; þar, sem byrjar að halla suður af honum, er vörðubrot, er Biskupsvarða, heitir, og svæðið umhverfis hana Biskupsvörðuskógur; takmarkast hann að vestan af Kolgrafarhólsgjá, en að austan af Fjárhúshólshrygg; er það klapparbali, sem snýr norður og suður rjett niður að hinum nýja vegi. Suður af honum er allstór hóll, nokkuð sprunginn, sem heitir Fjárhúshóll, og er hann aðalsjónarhæð frá Vatnskoti.
Frá áðurnefndum hryggjum fyrir ofan Vatnskot er örnefnalaust að Vatnsdalshæð. Hjá henni er Vatnsdalur, austan Vatnskotsgötu. Þar norður frá er lítill, klofinn hóll, sem heitir Gjáhóll. Í suðvestur af túninu í Skógarkoti, stutt sunnan við veginn, gengur sljettur klapparbali, og djúp laut í kring að sunnan og vestan. Hann heitir Helluhholt. Þar skammt vestur af er Lýtingsvarða; stendur hún á bala með alldjúpum lautum; heita þeir Lýtingsvörðubalar. Suður af Helluholti er áðurnefndur Gjáhóll. Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu.

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar. Sunnan við þá er lægð, sem hækkar aftur suður að Nónhólum; er þar skógarlítið pláss, allt vestur að Þingvöllum. Góðan kipp norðaustur frá Skógarhólum eru Krókhólar; einn þeirra, sá norðasti, er alveg sjerstakur, en allir eru þeir stórir og með djúpum lautum. Mitt á milli þeirra og Eyvindarhóls eru Miðhólar norðan í skógarröndinni. Frá Krókhólum að Kolgrafarhól, og vestur að Sandhólum og Leiragjá, eru að mestu skógarlausir mosabalar.

Þingvellir

Þingvellir – Konungsvegurinn.

Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háagjá; hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá, sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll. Kippkorn norður frá Vallastíg eru tveir nokkuð stórir hraunhólar, sem Skyrklifshólar heita; þar norður frá eru Sandhólar, sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háagjá, sem þá heitir Sandhólagjá, að Sandhólastíg, sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá, að Jónsstíg, sem er stutt vestur frá Stóruvörðu. Leirustígur er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata heim að Hrauntúni. Á milli Leirastígs og Jónsstígs hefur hún klofið stóra hæð vestur af Birkihól; hæð sú var nefnd Köst („á Köstunum“). Frá Jónsstíg heitir hún Sleðássgjá og hverfur loks undir Sleðaás.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagrarbekka allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.
Norður frá Leirum, milli gjánna, upp að Bolabás, heitir Sleðáshraun. Það er talsvert stór blettur, dálítið skógi vaxinn, sunnan í móti, eins og með gjánum beggja vegna, en að mestu grjót og mosi. Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla að vestan.
Frá Langa-stíg, sem er upp frá norðurenda Vallanna efri, er dýpsti kafli Almannagjár, við Fögrubrekku, og heitir hún þar Snóka; þar verpir á vorin alls konar illþýði: hrafnar, smyrlar og jafnvel fálkar. 1 botni hennar var stundum heyjað frá Þingvöllum. Fyrir norðan Sóknu rennur Leiralækur; litlu norðar er Tæpistígur á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá; á henni er Leynistígur, þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás.“ – Ásgeir Jónasson.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Sigurðarsel - Þingvöllum

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvallavegur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1973 er grein um „Örnefni á Mosfellsheiði“ eftir Hjört Björnsson:

Örnefni á Mosfellsheiði
„Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum.
Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum. Þó má þar án efa einhverju við bæta, því að ekki geri jeg ráð fyrir, að jeg þekki þau örnefni öll, enda munu skiptar skoðanir um sum þeirra.

Skálabrekka

Fjárborg ofan Skálabrekku vestan Kárastaða.

Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður“ — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari“; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari“ þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár.

Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þurr á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast Öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn. Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyrr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum.

Mosfellsheiði - kort

Norðaustanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni. Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og þvínæst norðan undir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning.

Mosfellsheiði - kort

Mið-Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „Í Keldunni“, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar.
Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan-undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal. Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita.

Mosfellsheiði

Suðvestanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Vestan-í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa ná aðeins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt. Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Borgarhólar

Í Borgarhólum.

Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðanundir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa.

Heiðarblóm

Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil.
Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar. Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan-við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. Í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar alllangt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vmstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn (Það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20—30 árum). Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður Að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað.

Heiðartjörn

Heiðartjörn – syðst er tjörnin Björg; áhugavert brotasvæði.

Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum eftir því.
Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.“ – M.Þ.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni á Mosfellsheiði, bls. 164-167.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Gráhelluhraun

Á vef Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um „Skógrækt í Gráhelluhrauni„:

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – fyrsta gróðursetningin vorið 1947.

Fyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum.

Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni. Sérstakir hakar voru útbúnir til að koma plöntum niður í hraunið sem reyndist prýðilega lagað til skógræktar eins og reiknað hafði verið með. Almennir félagsmenn og nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar tóku mikinn þátt í ræktunarstarfinu og ekki leið á löngu áður en árangurinn kom í ljós. Sígræn barrtré uxu upp úr gjótum og klettahryggjum hraunsins, birki og víðir tóku við sér og hraunið breytti um svip.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

Skógræktargirðingin var stækkuð um 30 hektara 1949 og næstu árin var umtalsverðu magni af birkiplöntum, skógarfurum, rauðgreni, sitkagreni og lerki plantað út, hátt í 100 þúsund plöntum. Furulús lék rauðgrenið og skógarfururnar illa og eftir kuldavorið 1963 var hafist handa við að fella dauð tré. Á tímabilinu 1965-78 var um 30 þúsund stafafurum, bergfurum og birkitrjám plantað út í hrauninu, en eftir það hefur Gráhelluhraunsskógur nánast verið sjálfbær.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Skógurinn endurnýjar sig sjálfur að miklu leyti og töluvert ber á sjálfsánum furutrjám. Birki- og víðirunnar hafa breitt verulega úr sér og lyng og gamburmosi þekja hraunið ásamt fjölbreyttum lággróðri af margvíslegu tagi. Á hverju ári er plantað út í svæðið til að auka tegundafjölda og viðhalda ræktunarsvæðinu.

Allar girðingar hafa fyrir löngu verið fjarlægðar í Gráhelluhrauni og göngustígur lagður til að auðvelda öllum að njóta þessa gróskumikla og fjölbreytta skógarsvæðis.

Minningarskjöldur 4 brautryðjenda á Gráhelluflöt

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – minningarskjöldur.

Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947. Þarna mættu afkomendur þessara manna ásamt fleira fólki til að minnast liðinna tíma.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Þannig vildi til að síðasta dag sumars 1946, nánar tiltekið þann 25. október, mætti 21 Hafnfirðingur til fundar þar sem ákveðið var að stofna Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Mætingin var nokkuð lakari en fundarboðendur reiknuðu með því þá þegar höfðu 100 Hafnfirðingar gerst félagar í Skógræktarfélagi Íslands sem var stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Skógræktarfélag Íslands hafði sinnt ræktunarstörfum á suðvesturhorni landsins frá stofnun félagsins en vorið 1946 var ákveðið að stofna sérstök félög í Reykjavík og Hafnarfirði í anda þeirra héraðsfélaga sem störfuðu víða um landið.

Gráhelluhraun

Skógrækt í Gráhelluhrauni.

Markmiðin sem lögð voru til grundvallar stofnun nýja skógræktarfélagsins voru háleit eins og kom fram í lögum þess:

Tilgangur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er að vinna að trjárækt og skógrækt í Hafnarfirði og nágrenni og auka skilning og áhuga Hafnfirðinga á þeim málum.

Tilgangi sínum ætlar félagið að ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt og trjárækt, með útbreiðslu ársrits Skógræktarfélags Íslands, fyrirlestrum, myndasýningum og öðrum leiðbeiningum. Félagið ætlar að greiða fyrir útvegun ýmissa frætegunda og trjáplantna handa félagsmönnum.

Á stofnfundinum var ákveðið að allir hafnfirskir ársfélagar og ævifélagar í Skógræktarfélagi Íslands, skyldu teljast félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, frá og með 1. janúar 1947.

Helmingur þeirra sem sátu stofnfundinn voru kosnir í embætti á vegum félagsins. Þar á meðal voru Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði sem tók að sér starf gjaldkera og sinnti því árum saman. Þorvaldur Árnason skattstjóri var meðstjórnandi til að byrja með en tók við formennskunni af Ingvari Gunnarssyni árið 1948 og gegndi embættinu til ársins 1954.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon.

Jón Gestur Vigfússon bókari var fyrsti ritari félagsins og tók síðan við formennskunni af Þorvaldi árið 1954 og sinnti því starfi til 1958, þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við formanns embættinu. Hann var formaður til ársins 1965. Þessir fjórir menn lyftu grettistaki og fóru fyrir áhugasömu skógræktarfólki á fyrstu árum félagsins, þegar mest á reyndi að sýna og sanna að skógrækt væri möguleg í upplandi Hafnarfjarðar.

Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktaráhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktarfélagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn allst ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði var hörkudulegur og vanur að taka til hendinni. Jón hafði fengið úthlutað landi í Smalaskálahvammi í Klifsholti árið 1945 sem hann girti og hófst handa við að stinga niður rofabörð og bera á þann gróður sem fyrir var. Hann breytti á nokkrum árum grýttu holti í ræktanlegt land og plantaði út furu, greni, birkitrjám og fleiri tegundum sem hann komst yfir. Jón breytti þessum ofbeitta hvammi í sannkallaðann sælureit á nokkrum áratugum og sýndi fram á að þetta var kjörið land til ræktunar. Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952. Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktað Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn.

Jón í Skuld tók að sér að annast girðingavinnuna í Gráhelluhrauni og fékk til liðs við sig þrjá unga menn sem girtu 7 hektara spildu vorið 1947. Gunnlaugur sandgræðlsustjóri útvegaði girðingaefnið, en á þessum tíma var afar erfitt að fá girðingarefni nema til að girða lönd bænda, enda voru höft á öllum innfluttum vörum.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – skjöldur um fyrstu gróðusetninguna.

Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Bæjarbúar fjölmenntu og meðal þeirra sem tóku þátt í þessari fyrstu gróðursetningu í hrauninu voru kennarar, prestar, læknar, embættismenn, fiskverkafólk, sjómenn, húsmæður og börn. Flestir voru í sínu fínasta pússi enda um helgidag að ræða. Fjölmargir vildu leggja sitt af mörkum til að klæða landið skógi og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður í hraunið. Þetta var erfitt starf og þurfti að útbúa sérstaka haka til að koma plöntunum niður í hrjóstrugt hraunið.

Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt eins og Gunnlaugur sá fyrir. Fyrirkomulag útplöntunarinnar var með þeim hætti að þarna áttu að vera falleg rjóðrur umkringd trjágróðri sem gæti brotið vindinn og skapað skjólsæla unaðsreiti fyrir íbúa bæjarins og aðra sem vildu njóta þess sem skógurinn hefði upp á að bjóða. Vissulega stórfenglegt markmið og þetta vor var sá grunnur lagður að ræktun sem hefur skilað gjörbreyttri ásýnd þessa hluta bæjarlandsins.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Stjórnarmennirnir Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon og Jón Magnússon voru dugmiklir félagsmenn á upphafsárunum og unnu af miklum krafti að ræktuninni og öflun styrkja frá fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum. Þegar Ingvar Gunnarsson ákvað að hætta sem formaður vorið 1949 varð Þorvaldur Árnason sjálfkrafa formaður félagsins. Stjórnarfundir voru haldnir á skrifstofu Þorvaldar á Skattstofunni frá upphafi. Fyrsta verk nýja formannsins var að fá aukið land í Gráhelluhrauni til útplöntunar. Girðingin var stækkuð og náði austur að Hraunsrétt sumarið 1949.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Framkvæmdagleðin var mikil í þessu litla félagi og afar brýnt að halda vel utan um fjármálin. Jón Magnússon í Skuld stóð sig með stakri prýði og var manna duglegastur við að afla nýrra félaga. Á þessum tíma gerði hann út strætisvagna sem gengu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Sú saga gekk um bæinn að það fengi enginn far með strætó nema vera í Skógræktarfélaginu. Jón gerði lítið úr þessari sögu, enda orðum aukin, en honum fannst sagan góð engu að síður.

Jón í Skuld hélt tryggð við félagið alla tíð og sat í stjórn þess í 40 ár. Hann átti mikinn þátt í að félagið gat útbúið eigin græðireiti í Höfðaskógi sem var mikilvægt framfaraskref. Hann var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1986 og var sá fyrsti sem hlaut þann heiður.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Vorið 1954 urðu formannaskipti þegar Jón Gestur Vigfússon tók við af Þorvaldi Árnasyni. Jón Gestur var þekktur ræktunarmaður og hafði stundað landbætur og trjárækt í Sléttuhlíð frá sumrinu 1925. Á aðalfundinum var ákveðið að fjölga í stjórninni úr fimm í sjö manns, því það þurfti að fá fleiri til að sinna starfinu enda stækkaði félagið stöðugt. Árið eftir gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Sumarið 1956 voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir.

Garðar Þorsteinsson

Séra Garðar Þorsteinsson.

Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt.

Vorið 1958 óskaði Jón Gestur eftir því að hætta formennskunni og var séra Garðar Þorsteinsson kjörinn í hans stað. Garðar var áhugamaður um trjárækt og hafði m.a. komið sér upp glæsilegum gróðurreit í hvammi ofan við Grænugrófarlæk, sunnan Jófríðarstaða. Þegar hér var komið sögu hætti Jón í Skuld sem gjaldkeri, en Haukur Helgason kennari tók við af honum. Haukur var starfsmaður félagsins sumarið áður og vann við að planta út í Gráhelluhrauni. Hann átti eftir að koma mikið við sögu félagsins næstu árin.

Stóri-Skógarhvammur

Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.

Séra Garðari fylgdu nýjar áherslur í starfinu. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré. Garðar kom því til leiðar að félagi fékk úthlutað 56 hektara landsvæði við Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu sumur unnu drengirnir í sumarbúðunum í Krýsuvík að útplöntun í Stóra-Skógarhvammi undir stjórn Hauks Helgasonar.

Haukur Helgason

Haukur Helgason.

Árið 1961 fékkst samþykki bæjaryfirvalda fyrir því að endurnýja girðingarnar við Skólalund í Litla-Skógarhvammi í Undirhlíðum. Ræktunarsvæðið var á sama tíma stækkað um 30 hektara með Kúadalagirðingunni, sem náði langleiðina að Kaldárbotnum. Segja má að ræktunarsvæði í umsjón Skógræktarfélagsins hafi vaxið úr 7 hekturum vorið 1947 í 200 hektara vorið 1961, sem var vonum framar.

Séra Garðar var formaður félagsins til vorsins 1965 en þá tók Ólafur Vilhjálmsson við og sinnti því hlutverki lengst allra, eða næstu tvo áratugina.

Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Þessir menn stóðu ekki einir, því þeir áttu maka, börn, ættingja og vini sem skiluðu ekki síður miklu og merku starfi til eflingar skógræktar í bæjarlandinu. Fjöldkyldur þeirra stóðu heilshugar að baki þeim og studdu þá til góðra verka. Minningarsteinar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar eru virðingarvottur við allt það merka fólk sem hefur lagt sig fram um að bæta landið með hag komandi kynslóða fyrir brjósti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur – minningarskjöldur.

Guðmundur Kristinn Þórarinsson var mikill ræktunarmaður og einstaklega ósérhlífinn í störfum sínum fyrir félagið á meðan heilsan leyfði. Hann plantaði út mörg þúsund trjám, fyrst í Hvaleyrarvatnsgirðingunni og síðan í Gráhelluhrauni og víðar í lendum Skógræktarfélagsins.
Guðmundur fæddist í Hafnarfirði 1913, tók kennarapróf 1939 og stundaði kennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka áður en hann gerðist kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1956. Hann var ráðinn starfsmaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sumarið 1949 og sama sumar gróðursetti hann rúmlega 7.000 trjáplöntur. Hann lagði ófáar vinnustundir í að græða blásna mela og stinga niður græðlingum og naut auk heldur aðstoðar félaga sinna í góðtemplarareglunni.

Guðmundur Þórarinsson

Minnismerki – Guðmundur Þórarinsson.

Hann var manna ötulastur við að leiðbeina unga fólkinu sem kom til starfa fyrir félagið á sumrin og lagði félaginu til jeppabíl sinn endurgjaldslaust um árabil. Guðmundur lét ekki þar við sitja heldur gaf félaginu bifreiðina þjóðhátíðarárið 1974, en árið eftir andaðist þessi mikli öðlingur.

Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og þar er nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum í Gráhelluhrauni rétt hjá furuskóginum sem hann plantaði út.

Heimild:
-https://skoghf.is/grahelluhraun/

Gráhelluhraun

Hraun ofan Hafnarfjarðar – ÓSÁ.

Flensborgarhöfn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna, „Flensborgarhöfnina„, í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerkið við Flensborgarhöfn.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar. Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Á koparskilti áföstu minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna við Flensborgarhöfn má lesa eftirfarandi:
„Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyrarlón.

FERLIR gekk með strandlengju Hafnarfjarðar allt frá Hleinum að Hvaleyrarfjöru. Í sögulegu samhengi bar margt fróðlegt fyrir augu, s.s. leifar útgerðarinnar á Langeyri, lifrabræðslunnar við Gönguhól, fyrrum útvörðinn Fiskaklett, slippstöðina neðan Drafnar, Flensborgarhöfnina allt þar til göngustígurinn endaði skyndilega framan við skilti er á stóð „Hvaleyrarlón“.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Ákveðið var þó að halda áfram eftir fjörunni neðan bátaskýlanna þar sem fyrrum fornfálegar „bryggjurnar“ voru flestar komnar af fótum fram. Hús var tekið á einum eigandanna, sem var að þvo bílinn sinn í góðviðrinu. Hann sagðist hafa haft þarna bát framar fyrrum, en selt hann fyrir nokkrum árum. Skýlið nýttist hins vegar vel áfram sem afrep fyrir gamlan mann.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Þegar gengið var með innanverðu Hvaleyrarlóninu vakti athygli að gerður hafði verið sjóvarnagarður innan þess að hluta. Spurningin var hvaða tilgangi hann hafi átt að þjóna þá er gerður var, væntanlega með tilfallandi kostnaði?

Sjóvörn hefur einig verið gerð norðan Hvaleyrartanga, allt að Hvaleyrarfjöru vestan hans. Þrátt fyrir framkvæmdirnar var enginn göngustígur gerður með ströndinni, sem reyndar hefði verið í lófa lagið. Gangandi þurfa því að ganga upp á og með utanverðum golfvellinum í verulegri óþökk golfaranna hverju sinni.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Ofan Hvaleyrartanga er „Flókaklöppin“ með áhugaverðum áletrunum, fimm skotbyrgi frá seinni heimstyrjöldinni auk annarra minja er minna á þá tíð. Allt umleikis eru minjar Hvaleyrarkotanna sem og höfuðbýlisins. Í dag eru þær allar ómerktar á golfvellinum. Golfararnir, sem rætt var við, höfðu enga meðvitund um nýtingu svæðisins fyrrum. Sorglegt er til þess að vita að ákveðin íþrótt skuli vera orðin svo afgerandi að hún þurrkar út nánast allan áhuga þátttakenda á fortíðinni. Kannski skiptir núvitundin það meira máli en arfleifðin?

Oftar en einu sinni hefur því verið haldið fram að golfvellirnir séu einu staðirnir þar sem hægt er að halda „sjúklingum“ innan afmarkaðs svæðis án girðinga. Afstaða til þess verður ekki tekin hér.

Gangan endaði við flakið við leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Hvaleyrarfjara

Hvaleyrarfjara með minjum Fjaðarkletts.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Viðey

Í Tímanum 1986 er umfjöllun Ingólfs Davíðssonar; „Hugsað til Viðeyjar„:

„“Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur, víða eg trúi hann svamli sá gamli“. Svo kvað Jón biskup Arason árið 1550.
Langt er síðan munkar gengu þar um garða, en um skeið var Viðeyjarklaustur eitt hið auðugasta á Íslandi og átti jarðeignir miklar.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Skúli Magnússon landfógeti, sem nefndur hefur verið faðir iðnaðar og þar með kaupstaðar í Reykjavík, bjó lengi í Viðey. Mætti segja að hann hafi þar reist sér minnisvarða með byggingu Viðeyjarkirkju og stofu. Mun Viðeyjarstofa elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þrír frægir menntamenn þ.e. Bjarni Pálsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson dvöldu oft á vetrum í Viðey hjá Skúla og unnu að hinum stórmerkilegu ferðabókum sínum.
Eftir Skúla tók við veldi Stefánsunga.

Löngum hefur verið rekið stórbú

Viðey

Viðey.

Í Viðey og um skeið var þar mikil útgerðarstöð. Þorsteinn Erlingsson kvað: „Í logninu fuglinn um fjörurnar þaut og flaug upp um engjar og tún. Hann veitti þar eggjunum unað og skraut og Ólafi Stephensen dún“.
Í jarðabók 1703 segir: „Engi yfirfljótanlega mikið og gott ef nýtt og ræktað er. Hagbeit um sumar og vetur hin allra besta.“ Og í sýslulýsingum 1852 stendur: „Viðey sögð öll grasivaxin, en mjög þýfð, einkar grasgefin. Æðarvarp mikið og afbragðsmikill heyskapur og einhver hinn besti heykostur.“
Nokkur tilraunastarfsemi var í Viðey á fyrr öldum. Voru nokkrar trjátegundir gróðursettar þar 1752, en allar dóu þær út á næsta ári. Grenifræi var sáð í óræktað land hingað og þangað, einkum í klettunum við sjóinn, en allar plönturnar dóu á þriðja ári. Telur Skúli tilraunirnar ekki hafa verið gerðar af nægilegri þekkingu.

Reynihríslur í Viðey

Viðey

Viðey.

Arthur Dillon lávarður, sem dvaldi í Reykjavík 1834-1835, getur um hríslur í Viðey. Hann ritar á þessa leið um för sína og franskra manna út í Viðey: „Við lentum við brattar steintröppur. Milli þeirra og hússins var grasflötur og þar voru gróðursett um 50 tré. Þó þau væru mjög ung voru þau orðin meira en 12 fet á hæð og munu sennilega dafna betur en flest önnur, þar sem þau vaxa í skjóli hússins og hæða til beggja handa. Húsið var á stærð við stiftamtmannshúsið og lítil kirkja við annan endann.“ Dillon nefnir ekki trjátegundina, en líklega hafa þetta verið reyniviðir eins og hjá stiftamtmanninum í landi á sama tíma.
Skyldi Magnús Stephensen hafa gróðursett þessi tré, eða Ólafur Stephensen? Sennilega hafa tré ekki haldist lengi við í Viðey.

Kornrækt í Viðey og Reykjavík

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Getið er kornræktar í Viðey á 12. öld og einu sinni kvað hafa þurft Þorlák helga til að setja niður músagang, sem át kornið! Í Sturlungu er sögð kornyrkja í Gufunesi árið 1220. Víkurkirkja átti akurlendi í Örfirisey 1397. Örnefnið Akurey er sennilega gamalt og segir sína sögu. Sennilega hefur einhver kornyrkja haldist allt frá landnámsöld og fram á síðari hluta 16. aldar. Kornyrkjan lagðist niður bæði vegna kólnandi veðurfars og innflutnings á ódýru korni.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld.

Upp úr miðri 18. öld var farið að reyna kornrækt aftur. Fyrir áeggjan Skúla Magnússonar o.fl. sendi Friðrik Danakonungur fimmti 15 jóskar og norskar bændafjölskyldur til landsins, einkum til að gera akuryrkjutilraunir á ýmsum stöðum, aðallega á árunum 1752-1757. Einn bóndinn var settur niður í Reykjavík, annar var í Viðey. Á báðum stöðum var brotið land til kornyrkju árið 1752 og stóðu tilraunir í 5 ár. Reyndar var vetrarrúgur og vorrúgur, bygg, hafrar og blendingskorn og óx það best, en þar næst bygg. Lítið af korninu náði fullum þroska og voru flestir kjarnar linir að hausti. Kornið var því ekki þreskt, en gefið skepnum eins og hvert annað hey. Þótti kornið þrífast heldur skár í Viðey en í Reykjavík.
Næst reyndi Schierbeck landlæknir kornrækt í Reykjavík og fékk m.a. sáðkorn frá nyrstu héruðum Noregs. Þroskaðist bygg sæmilega hjá honum sum árin (1884-1893). Síðan varð hlé uns Klemenz Kristjánsson hóf tilraunir í kornrækt í Gróðrarstöðinni í Reykjavík 1923-1927, og síðar lengi á Sámstöðum í Fljótshlíð. Prentsmiðja var í Viðey á vegum Magnúsar Stephensen 1819-1844. Sjaldgæfar eru Viðeyjarbækur nú og í fárra höndum.

Stórbúskapur í Viðey

Viðey

Austanverð Viðey á tímum Milljónafélagsins.

og mikil útgerð í byrjun þessarar aldar varð Viðey eign þeirra feðga séra Eiríks Briem og Eggerts sonar hans. Var þá umfangsmikill búskapur og búið í Viðeyjarstofu. Á árunum 1907-1914 voru mikil umsvif „Milljónafélagsins“ í Viðey, gerð hafnarmannvirki, rekin mikil útgerð og fiskvinnsla. Síðan tók við Kárafélagið fram að kreppuárunum; þá fjaraði atvinnulífið út og þorpið sem hafði myndast fór í eyði 1943. Þar höfðu búið um 100 manns og helmingi fleiri á vertíðinni þegar best lét.
Margir merkismenn hafa átt heima í Viðey Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Styrmir samdi Ólafs sögu helga, og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson, síðar biskup í Skálholti, var ábóti í Viðey um skeið. Á síðari hluta 18. aldar bjó Skúli Magnússon í Viðey, áhrifamikill höfðingi. Hann stofnaði mikið iðnaðarfyrirtæki (Innréttingarnar) í Reykjavík og átti í stríði við einokunarverslunina og barðist fyrir bættri verslun.
Viðey
Við af honum tók í Viðey mikill rausnarmaður, Ólafur Stephensen. Er hans og lífsins í Viðey á þeim tíma, getið í ýmsum útlendum ferðabókum. Útlendum ferðamönnum var oft vísað til Viðeyjar og róma gestirnir höfðingsskap Ólafs og stórkostlegar veislur. Sonur Ólafs, Magnús Stephensen gerði og garðinn frægan í Viðey. Hann var valdamesti maður á Íslandi bæði í veraldlegum efnum og menningarmálum um sína daga.
Saga Viðeyjar er sannarlega viðburðarík. Byggð mun hafa lagst af í Viðey um 1970. Búsældarlegt og gróskumikið hefur jafnan verið í Viðey. Þar fann undirritaður 126 jurtategundir við lauslega athugun 1938. Sjá Náttúrufræðinginn 1939. Sennilega finnast fleiri tegundir við nákvæma leit. Nú er Viðey nýorðin eign Reykjavíkurborgar.“

Í Tímanum 1988 fjallar Ingólfur Davíðsson um „Viðey á dagskrá„:

Viðey
„Nú er Viðey eign Reykjavíkurborgar. Kirkja og stofa hafa verið lagfærð með myndarskap, o.fl. mun vera á prjónunum. Talsverðar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar í Viðey hin síðustu ár og margt merkilegt komið í ljós, einkum frá klausturtímabilinu 1226-1550. Viðeyjarklaustur var lengi menntasetur og hafa margir merkismenn gengið þar um garða. Styrmir hinn fróði, vinur Snorra Sturlusonar, var ábóti í Viðey 1235-1245. Hann samdi Ólafs sögu helga og mun hafa átt þátt í nú glataðri frumgerð Landnámabókar. Ögmundur Pálsson hinn voldugi Skálholtsbiskup, samtíðarmaður Jóns biskups Arasonar, var ábóti í Viðey á yngri árum.
Í framtíðinni verður Viðey eflaust fjölsóttur ferðamannastaður, bæði vegna sögu sinnar og legu.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1996 fjallar Sigurlaugur Brynleifsson um „Viðeyjarklaustrið„:

Viðey„Þáttaskil í sögu Viðeyjar verða 1750, þegar Skúli Magnússon er skipaður landfógeti. Ætlunin var að stiptamtmaður og landfógeti sætu báðir í Viðey, en svo fór að. landfógeti sat þar. Efnt var til stórbyggingar sem ætluð var báðum, en byggingin var minnkuð nokkuð eftir að stiptamtmaður hvarf frá búsetu. Hafist var handa við byggingu Viðeyjarstofu 1753 og henni lokið 1755. Nefnt Slotið í Viðey – þá stærsta hús á Íslandi. Með þessum framkvæmdum og stórbúskap ásamt búnaðartilraunum, hefst Viðey til helstu stórbúa landsins á þeirra tíma mælikvarða. Samfara þessu var hafinn undirbúningur að viðreisn landsins með „Innréttingunum“ og margvíslegustu tilraunum til aukins afraksturs í landbúnaði og sjávarútvegi.
Með þessum áætlunum og framkvæmdum hófst nýr þáttur í atvinnusögu landsmanna. Og Viðey var höfuðstöð þessara umbreytinga hér á landi og önnur höfuðstöðin var Kaupmannahöfn, en þaðan barst meginhluti þess fjár sem varið var til viðreisnarinnar, úr sjóðum stjórnarinnar. Valdamiklir menn innan dönsku stjórnarinnar studdu Skúla í Viðreisnartilraunum hans, Thott greifi, Molkte og Rantzau stiptamtmaður voru stuðningsmenn hans.
Margt varð til þess að áætlanirnar um viðreisn landsins náðu ekki þeim árangri sem stefnt var að. Harðindi, Skaftáreldar 1783-84 og andúð úrtölumanna og fjandmanna Skúla meðal kaupmanna. En þrátt fyrir það urðu þessar tilraunir til þess að sanna landsmönnum að gjörlegt var að framkvæma það, sem áður var talið vonlaust.
Skúli Magnússon bjó í Viðey í um 40 ár.
Viðey
Ólafur Stephensen stiptamtmaður tók við Viðey og bjó þar við mikla rausn. Mikill munur var að litast um í Viðey í tíð Skúla og Ólafs eða árið 1703, þegar eyjan var í eyði, niðurnídd.
Magnús Stephensen keypti Viðey 1817 og flutti þangað Leirárgarða – og síðar Beitistaðaprentsmiðju 1819. Þar með hefst aftur bókagerð í Viðey. Magnús rak prentsmiðjuna til dánardags 1833 og sonur hans Ólafur sekreteri til 1844. Þeir ættmenn bjuggu í Viðey þar til 1901 og seldu þá eyna.“

Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju:

Viðeyjarstofa

Viðey

Viðeyjarstofa frá tíma Skúla Magnússonar.

„Skúli Magnússon landfógeti fékk eyna til aðseturs árið 1751. Skúli var merkisberi nýrra tíma á Íslandi. hann setti á stofn Innréttingarnar í Reykjavík og hugðist þannig koma á fót iðnaði á Íslandi. Hann hefur oft verið nefndur faðir Reykjavíkur en í kringum Innréttingarnar óx fyrst upp þéttbýli í Reykjavík

Viðeyjarstofa

Upprunaleg teikning að Viðeyjarstofu upp á tvær hæðir.

Skúli reisti Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta en stofan er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi. Hún er að mestu úr grágrýti en einnig úr íslenskum sandsteini og var smíði hennar lokið árið 1755. Arkitekt stofunnar var Nicolai Eigtved en hann teiknaði margar sögufrægar byggingar í kaupmannahöfn og er Amalienborg þeirra þekktust.
ViðeyNæsti ábúandi Viðeyjar á eftir Skúla var Ólafur Sthephensen, fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn. Ólafur bjó í Viðey frá 1794 til dauðadags 1812. Hann var merkur framfarasinni og með búsetu hans úi í eynni varð hún æðsta embættissetur landsins um níu ára skeið. hann hélt ófáar veislur í Viðey og eru til margar frásagnir af þeim.
Arftaki Ólafs í Viðey var sonur hans, Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri. Magnús var, eins og Skúli Magnússon, maður upplýsingar og framfara. Hann réð yfir prentsmiðju, hinni einu á landinu á þeim tíma. Hún var starfrækt í Viðey á árunum 1819-1844. Magnús bjó í Viðey til dauðadags 1833. Hann keypti eyjuna af Danakonungi árið 1817 fyrir stórfé og var hún í eigu ættarinnar út nítjándu öld“.

Viðeyjarkirkja
Viðey
„Viðeyjarkirkja var reist að frumkvæði Skúla Magnússonar landfógeta. Hún er byggð úr grágrýti úr Viðey og var vígð árið 1774 af sr. Árna Þórarinssyni, þá sóknarpresti í Reykjavík en síðar biskupi á Hólum. Arkitekt kirkjunnar er ókunnur en gæti hafa verið Georg David Anton, eftirmaður N. Eigtveds, höfunar Viðeyjarstofu. Viðeyjarkirkja er næst elsta kirkja landsins og geymir elstu upprunalegu kirkjuinnréttingu, sem hér er til. Hóladómkirkja er elst, vígð 1763, en þar er endirgerð innrétting.
Það er einkum þrennt, sem atgygli vekur í þessari gömlu innréttingu. Fyrst má nefna að prédikunarstóllinn stendur fyrir ofan altarið. Slíkt er sjaldgæft hérlendis, en var ekki óalgengt á Norðurlöndunum á þessum tíma. Þetta hefur þá táknrænu merkingu, að boðun Guðs skuli skipa hærri sess í guðsþjónustunni en altarissakramentið.

Viðey

Stóllinn í Viðeyjarkirkju.

Annað sem vekur athygli er stóllinn sem stendur hægra megin við altarið. Hann er einstæður gripur í lúterskri kirkju á Íslandi, eini skrifastóllinn frá gamalli tíð. Fram á miðja 19. öld fengu menn ekki að fara til altaris hér á landi nema þeir hefðu skriftað fyrst, Þeir, sem ætluðu til altaris, fóru út í kirkju með prestinum nokkru áður en messa skyldi hefjast. Presturinn settist í stólinn. En skriftabörnin krupu eitt í einu á knébeð, sem var fyrir framan stólinn og fóru þar með utanbókarlærða almenna syndajátningu og fengu þá aflausn hjá prestinum.
Þriðja atriðið varðar kirkjubekkina. Konur sátu fyrr vinstra megin í kirkju, þegar inn er horft, en karlar hægra megin, svo sem enn tíðkast við brúðkaup. Í Viðeyjarkirkju er bekkirnir kvennamegin 7 sendtimetrum lægri en bekkir karlanna“.

Fornleifarannsóknir á bæjarhól Viðeyjar
Viðey
„Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 fékk borgin að gjöf Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju frá ríkinu. Við endurgerð Viðeyjarstofu var byggt stórt jarðhýsi við húsið norðanvert. Vegna þeirra framkvæmda hófst fornleifarannsókn á bæjarhólnum árið 1986. Í fyrstu var um björgunaruppgröft að ræða á um 400 fermetra svæði, en árið 1989 var rannsóknarsvæðið stækkað til norðurs um 600 fermetra og rannsóknaruppgröftur hafinn. Fornleifauppgröfturinn var á vegum Árbæjarsafns og stóð til ársins 1995.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Fyrstu ritheimildir um byggð í Viðey eru frá 12. öld, þegar Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-1193) var fenginn til að bregðast við músagangi í einni. „Hann vígði vatn og stökkti yfir eyna – uatn um eitt nes“. Á þeim tíma var komin kirkja í Viðey. Árið 1225 stofnaði Þorvaldur Gissurason, með stuðningi Snorra Sturlusonar, klaustur í Viðey af reglu heilags Ágústínusar. Viðeyjarklaustur var starfrækt til ársins 1539, en þá var það rænt af mönnum Danakonungs, munkarnir reknir á brott og Viðey lýst eign konungs.
Eftir að klaustrið var lagt niður var í Viðey rekið bú og „hospital“ sem var einskonar vistheimili fyrir farlama fólk, Hospitalið var síðan flutt til Gufuness, þegar Skúli Magnússon landfógeti settist að í Viðey árið 1751.
Uppgröfturinn í Viðey var einn sá viðarmesti sem farið hefur fram á Íslandi á sínum tíma og sá fyrsti sem gerður var á klaustursstað. Hluti af kirkju, kirkjugarði og klausturhúsunum voru rannsökuð. Jarðsjármælingar hafa sýnt að framan við Viðeyjarstofu og -kirkju hafa verið byggingar, sem trúlega voru hluti af klausturhúsunum. Í elstu jarðlögunum komu í ljós leifar bæjar frá 10. öld. Í honum var langeldur, um þriggja metra langur.
Við fornleifarannsóknina fundust um 20.000 gripir, margir athyglisverðir. Mannvistarlög í bæjarhól Viðeyjar eru 2-3 metra þykk og sýna að þar hefur verið byggð allt frá 10. öld fram til 20. aldar. Stór svæði á bæjarhólnum eru ókönnuð og munu rannsóknir í framtíðinni skýra enn betur uppbyggingu húsakosts og lifnaðarhætti Viðeyinga“.

Kúabúið í Viðey
Viðey
„Hér stóð það sem var á sínum tíma eitthvert stærsta og glæsilegasta fjós á Íslandi. Það var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, þegar hjónin Eggert Briem og Katrín Thorsteinsson Briem reistu stórbú í Viðey. Fjósið rúmaði 48 kýr og var sambyggt hlöðu sem tók um 3000 hestburði af heyi. Húsið var úr timbri og bárujárni, með steyptum og hlöðnum undirstöðum. Á hverjum degi var mjólkin flutt til Reykjavíkur og seld í mjólkurbúð Viðeyjarbændanna í húsinu Uppsölum á horni Túngötu og Aðalstrætis, en hún hefur verið nefnd fyrsta mjólkurbúðin í Reykjavík.
Viðey
Á Viðeyjarbúinu störfuðu aldrei færri en 20 manns yfir veturinn og enn fleiri þegar heyjað var á sumrin. Fjósverkin hófust klukkan sex á morgnanna. Fimm stúlkur sáu um mjaltirnar og mjólkuðu 10-12 kýr hver. Strax að loknum mjöltum var siglu með mjólkurbrúsana yfir sundið inn í Laugarnes og þeim ekið þaðan til Reykjavíkur.

Viðey

Fjósið sem sést hér til hægri á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Mjólkin þurfti helst að vera komin í mjólkurbúðina fyrir klukkan tíu. Þar var einnig unnið úr henni smjör, rjómi og skyr. Viðeyjarmjólkin þótti góð, enda voru kýrnar vel hirtar og fyllsta hreinlætis gætt við alla mjólkurvinnsluna. Heimilisfólkið í Viðey var stolt af búskapnum og þegar frúr úr Reykjavík eða vestan af fjörðum heimsóttu húsmóðurina fór hún gjarnan með þær í skoðunarfeð út í fjós.
Mjólkurneysla var mun minni í Reykjavík í upphai 20. aldar en síðar varð. Mjólkin var dýr, kýr voru tiltölulegar fáar í bænum og samgöngur við nágrannasveitirnar torveldar. Mjólkurflutningarnir úr Viðey voru líka erfiðir, sérstaklega yfir háveturinn. Á öðrum áratug 20 aldar reisti Eggert Briem annað fjós í Reykjavík, þar sem nú mætast Njarðargata og Smáragata, hafði kýrnar í Viðey á sumrin en í Briemfjósi í Reykjavík á veturna.
Eggert Briem lést árið 1939, skömmu eftir að hann seldi Viðey nýjum eigendum. Seinni kona hans. Halla Briem, lifði hann, en Katrín Thorsteinsson Briem lést 1919. Fjósið og hlaðan í Viðey stóðu lengi enn, en byggingin var rifin um 1900 í kjölfar endurbóta á Viðeyjarstofu“.

Garðrækt Skúla Magnússonar
Viðey
„Á síðari hluta 18. aldar var Skúli Magnússon húsráðandi í Viðey. Hann fékk eina til aðseturs þegar hann var skipaður landfógeti á Íslandi árið 1750 og hér bjó hann til dauðadags árið 1794.
Skúli Magnússon var einn af frumkvöðlunum að stofnun Innréttinganna svokölluðu árið 1751, en það var félag um viðreisn landshaga á Íslandi. Innréttingarnar stóðu fyrir margvíslegri nýsköpun í íslensku atvinnulífi með stuðningi Danakonungs. Þar á meðal beindu forsvarsmenn þeirra augum sínum að möguleikum til aukinnar jarðræktar á Íslandi.
Almenningur var hvattur til þess að koma sér upp kálgörðum og stjórnvöld vildu líka stuðla að trjárækt í landinu. Embættismenn skyndu ganga á undan með góðu fordæmi. Þar lét Skúli Magnússon ekki sitt eftir liggja og ræktaði bæði tré og fjölbreyttar matjurtir við heimili sitt í Viðey.

Viðey

Heyskapur í Viðey 1906.

Árið 1753 pantaði Skúli ólíkar frætegundir til ræktunar. Þar voru til dæmis kastaníurunnar, átján askar, níu rifsberjarunnar, níu stikilsberjarunnar (fjórir að vísu dauðir, en fimm í góðu ástandi) og nokkur ávaxtatré, þar á meðal tvö perutré. Næstu ár voru hins vegar köld og þá er talið að flest trén hafi drepist.
Skúli gerði tilraunir með ræktun á hör og hampi, rúgi og höfrum. Hann freistaði þess að rækta baunir og tóbaksrækt reyndi nann í svokallaðri Tóbakslaut, en hvort tveggja bar lítinn árangur. Betur gekk honum að rækta kartöflur og kúmen. Kúmenið vex enn um alla Viðey og er tínt seint á hverju sumri, þegar það er orðið þroskað“.

Heimildir:
-Tíminn, 222. tbl. 30.09.1986, Hugsað til Viðeyjar, Ingólfur Davíðsson, bls. 12.
-Tíminn, 195. og 196. tbl. 27.08.1988, Viðey á dagskrá, Ingólfur Davíðsson, bls. 27.
-Lesbók Morgunblaðsins 28.09.1996, Viðeyjarklaustrið – Siglaugur Brynleifsson, bls. 5.
-Nokkur upplýsingaskilti eru í Viðey umleikis Viðeyjarstofu.

Viðey

Fornbíll

Í Fálkanum 1939 er grein sem fjallar um „Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi„:

Krýsuvík

Krýsuvík – forn þjóðleið til austurs.

„Öldum saman bjuggu Íslendingar við seinagang á sjó og landi. Vindar loftins rjeðu einfarið, hvort fleytunum við strendur landsins miðaði áfram eða aftur á bak. Karlmenni með lúnar og sigggrónar hendur sátu í hverju rúmi og tóku seigdrepandi barning á miðin og af. En á landi var það þarfasti þjónninn, sem lammaði klifjaður eftir slóðum og krókastigum, sem hófur hans hafði markað öldum saman. „Kemst, þótt hægt fari“, sagði Njáll og svo reyndist það. Hesturinn skilaði böggunum í hlað og árabáturinn fengnum í vör. Enginn amaðist við hægaganginum, hann hafði ríkt í rúmar 10 aldir. Hann var þjóðinni meðfæddur og hversvegna skyldi hann ekki fylgja henni að eilífu. Asinn var hættulegur — mörgum hafði orðið hált á bölvuðum flýlinum.
En vorleysing hraðans var óstöðvandi og hún barst hingað til lands, án þess að nokkur fengi rönd við reist. Einmitt í sama mund og hafræna vorsins bljes lífi í framtak og þjóðmál Íslendinga, þá kom hraðinn yfir hafið — litli bíllinn hans Ditlev Thomsens, kaupmanns. Hann var settur á land hjer i Beykjavík snemma sumars fyrir nákvæmlega 35 árum. Var þetta, sem koma átti í stað þarfasta þjónsins? spurði fólkið, er það horfði á þetta gersemi þjóta um götur bæjarins. En þetta nýja farartæki var af mörgum litið óhýru auga. Hefð seinagangsins gat ekki felt sig við hraðann, sem var að halda í garð. Ótal tröllasögur spunnust um Thomsens-bílinn, er flestar voru honum til miska. —
Thomsen
Sannleikurinn var sá, að hann var með öllu ónothæfur hjer á landi, enda var hann af gamalli gerð eftir því sem bílar voru þá. Vjelin var aftan til í honum og ýmsir aðrir ágallar voru á honum, sem ekki fylgdu nýjum bílum. Hann gat farið hraðast 40—50 km. á klukkustund, þegar honum var ekið um bæinn eða nágrenni hans. Lengst komst bíllinn austur á Eyrarbakka. Var ferð sú all söguleg. Kambarnir urðu honum t.d. full erfiðir og varð að fá hesta til að draga hann þar upp. Eftir því sem bíllinn var lengur í Reykjavík jókst löngunin hjá fólki að aka með honum og fengu færri en vildu. — Þorkell Þ. Klementz stýrði þessum bíl og er hann fyrsti bílstjórinn hjer á landi, þótt ekki hefði hann próf.
Fornbíll
Thomsens-bíllinn var sendur til Kaupmannahafnar, en þaðan hafði hann verið keyptur hingað. Byrjunarörðugleikarnir eru jafnan miklir og margvíslegir og svo reyndist hjer.
Thomsens-bíllinn var aðeins óljós fyrirboði þess sem koma átti. Engan grunaði þá, að bílarnir yrðu eins ómetanleg flutningatæki og raun er á orðin.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Árin liðu hvert á fætur öðru og minningarnar um Thomsens-bílinn urðu þokukendar. Gat það verið að öld hraðans, sem blöðin sögðu frá að færi hamförum erlendis, ætlaði alls ekki að koma hjer við? Hægagangurinn var nú ekki lengur algild og óhjákvæmileg eigind, sem fólkið hlaut að halda traustataki í, það var alveg augljóst af þvi, sem vitað var að fram, fór úti i veröldinni. Þessvegna biðu sumir fullir cftirvæntingar eftir að bílarnir kæmu. Og dagurinn rann upp 1913, þegar íbúum höfuðstaðarins gafst að sjá bíl renna eftir götunum í annað sinn. Tveir ungir Íslendingar, þeir Sveinn Oddsson og Jón Sigmundsson, konm þá hingað til lands frá Ameríku og höfðu með sjer Fordbíl. Þeir voru báðir bílstjórar og ætluðu sjer að ganga úr skugga um með þessum bíl, hvort ekki mundi unnt að nota bíla hjer sem í öðrum löndum.

Ford

Ford T 1914.

Með þetta fyrir augum fóru þeir ýmsa leiðangra á bílnum og komust að þeirri niðurstöðu, að hjer mætti einnig nota bíla, ef vegir yrðu lagfærðir. Þar með var gefið fyrsta fyrirheitið um bílaöld á Íslandi og hraðanum boðið í garð. Í september um haustið var stofnað fyrsta bílfjelag á Íslandi, H/F Bifreiðafjelag Reykjavíkur. Á næsta ári hafði fjelagið eignast 6 bíla og hjeldu þeir uppi ferðum um bæinn og nágrenni hans. Að 5 árum liðnum var fjelag þetta leyst upp, eftir að hafa leyst af hendi merkilegt starf fyrir framtíð bílanna á Íslandi. Það varð hlutskipti þeirra manna, sem störfuðu hjá fjelaginu, að kynnast af eigin raun þeim örðugleikum og tálmunum, sem alstaðar voru á vegi og benda, samkvæmt reynslu sinni, á þær nauðsynlegu umbætur, sem gera þurfti, til þess að æfintýrið uni Thomsens-bílinn endurtæki sig ekki, — til þess að bílarnir þyrftu ekki að gefast upp í þeirri Bröttubrekku, sem skilningsleysi og vantrú fólksins hafði skapað.
Fornbíll
Fyrir atbeina Bifreiðafjelagsins var leitað til Alþingis um að það afgreiddi lög viðvíkjandi umferðareglum og notkun bifreiða. Nefnd sú, sem átti að fjalla um bifreiðafrumvarpið á Alþingi sumarið 1914 var skipuð: Julíusi Havsteen (formaður), Guðmundi Björnssyni, landlækni, sem var ritari og framsögumaður nefndarinnar, Guðmundi Ólafssyni, bónda í Ási, Karli Finnbogasyni, skólastjóra á Seyðisfirði og Magnúsi Pjelurssyni, núverandi hjeraðslækni í Reykjavík.

Ford

Ford T 1913.

Guðmundur Björnsson samdi nefndarálit, heilmikið og merkilegt plagg, sem átti að opna augu þingmanna fyrir þeirri nauðsyn, að til væri löggjöf um notkun bifreiða. Svo virðist sem þingmennirnir hafi verið mjög efunarsamir um gagnsemi þessa lagafrumvarps og alt bendir til þess, að innan nefndarinnar hafi menn einnig verið blendnir í trúnni. En Guðm. landlæknir víldi berjast til þrautar og kynna sjer og nefndarmönnum sínum í sjón og reynd, það sem máli skifti fyrir framgang málsins. Þess vegna fór hann fram á það við bifreiðafjelagið, að það legði nefndinni til bíl og bílstjóra, svo að þeir gælu athugað þetta nytsama farartæki.

Fornbíll

Fyrsta bifreið bifreiðast. Steindórs.

Að morgni þess 14. júlí 1914 var hafin einhver sú merkilegasta reisa, sem farin hefir verið í bíl á Íslandi. Fordbíll rann upp úr bænum með fjóra preláta þingsins innanborðs. (Júl. Havsteen var ekki með). Nú skyldi gengið úr skugga um það, hvort þessir hjólavargar gereyðilegðu alla vegi, og hvort blessuðum bændunum og hestunum væri búin bráð lífshætta af að vera á vegi þeirra. Þessir jarðarbótarmenn íslenskrar bifreiðarlöggjafar undu hið besta við sitt og skrifuðu og nóteruðu hjá sjer alt sem um veginn fór, nema hundaskammirnar. Auk þess skrifuðu þeir ýmsar athugasemdir og uppgötvanir.

Hellisheiði

Hellisheiði – seinni tíma fararmáti.

Leið þeirra lá austur Hellisheiði, niður að Eyrarbakka, austur að Ölfusá og síðan að Þjórsárbrú, en þaðan hjeldu þeir heim og þangað komu þeir kl. 8 1/2 um kvöldið. Á leiðinni urðu þeir varir við á veginum: 4 bíla, 210 vagna, 1 hjólreiðamann, 177 reiðmenn, 15—20 göngumenn, 82 lausa hesta og klyfjahesta, (en alls töldu þeir á veginum 480 hesta), 21 nautgrip og 1 lambahóp. — Beri menn nú saman, það sem nefndarmennirnir sáu á þessari leið og það sem verður þarna á vegi okkar nú. Mismunurinn er auðsær og hann er alsstaðar svipaður þar sem bílarnir hafa lagt undir sig land. Nefndarmennirnir sömdu nú ýtarlega og fróðlega skýrslu um þetta ferðalag.

Overland

Overland – fyrsta bifreið Vedurstofu 1956.

Þeir ljetu þessa rannsóknarför þó ekki nægja, heldur fóru þeir aðra 16. júlí og hjeldu þá á Overland-bifreið austur i Grímsnes og sömu leið til baka. Þar með höfðu þeir kynst þeim tveim tegundum bíla, sem þá voru til hjer á landi. — Nokkrum dögum síðar kom frumvarpið til annarar umræðu og sigldi hraðbyri, enda jós framsögumaður á báða bóga úr brunni reynslu og þekkingar, svo að menn setti hljóða. — Annars kom ýmislegt fram í sambandi við umræðurnar um bifreiðafrumvarpið, sem í augum nútímamanna mun þykja all spaugilegt, en var þó í samræmi við þann hugsunarhátt, sem þá ríkti alment. Einn þingmaðurinn á t. d. að hafa sagt, í sambandi við umferðareglurnar, að það næði ekki nokkurri átt að láta altaf víkja til vinstri, því að þá slitnuðu vegirnir bara öðru megin. — En þrátt fyrir margvíslegar mótbárur varð bifreiðafrumvarpið að lögum á sumarþinginu 1914. Nefndarmennirnir unnu mikið og merkilegt starf. Þeir voru börn bjartsýninnar, sem sáu það fyrir, að bílarnir mundu verða framtíðarfarartæki hjer á landi. — Nú mundu þeir Karl Finnbogason og Magnús Pjetursson ekki hitta fyrir nokkurn mann á Flóaveginum, sem hrópaði til þeirra með þjósti: „Burt með bifreiðarnar“, en slíkt upplifðu þeir í rannsóknarferðinni 14. júlí 1914.

Fornbíll
Fyrstu bifreiðalögin eru stutt og gagnorð — aðeins í 15 greinum. Þar er meðal annars ákveðið, að enginn megi stjórna bíl, nema hann sje orðinn 21 árs og hafi ökuskírteini frá lögreglustjóra, sem heimili honum að stjórna bifreið. Slík skírteini gátu menn ekki öðlast nema að ganga undir próf. Samkvæmt lögunum var hámarksökuhraði bíla í kauptúnum og kaupstöðum 15 km. á klst. Stjórnarráðið mátti þó veita undanþágu frá þessu ákvæði, ef því þótti svo við horfa.

Vegagerð

Vegagerð – Vörubíll Vegagerðarinnar.

Mestur mátti ökuhraðinn vera 35 km. á klst. á þjóðvegum, og hámarksökuhraði bíla i myrkri var ákveðinn 15 km. á klst. — í lögunum má einnig sjá klausur eins og þessar:
„Sje bifreiðin þyngri en 350 kg. skal aflvjelin geta knúið hana afturábak sem áfram.“ „Bifreiðarnar skulu vera svo gerðar, að þær geti farið eftir kröppum bugðum og auðvelt sje að snúa þeim.“ — Efni þessara klausa er framandi fyrir það fólk, sem nú þýtur í bílum um landið þvert og endilangt, en sýnir jafnframt, hversu jarðvegurinn fyrir bílana var svo að segja óplægður fyrir 25 árum.
Barnasjúkdómar bílasamgangnanna voru ennþá hinir skæðustu, þegar bifreiðalögin voru samþykkt. — Þá um sumarið ætlaði t. d. hópur ungmenna austur á Þingvöll og var hann með alllöngum fyrirvara búinn að panta þrjá bíla til þess að flytja sig austur. Þegar leggja átti af stað kom, enginn bíllinn, þeir voru allir í lamasessi hingað og þangað. Hópurinn fór gangandi austur og ekki gekk viðgerðin á bílunum hraðara fyrir sig en það, að aðeins einn bíllinn gat komið á móti ferðalöngunum, er þeir komu gangandi að austan daginn eftir.
Fornbíll
Þá þótti t. d. góður hraði að fara á bíl úr Reykjavík austur í Fljótshlíð á 7 stundum, en nú fara bílarnir þessa sömu vegalengd á 2 1/2 klukkustund. Bílarnir fóru þá ekki á skemmri tíma yfir Hellisheiði, þ.e.a.s. frá Kolviðarhóli að Kambabrún, en á 3/4 klst. Bílanir voru þá mjög tíðar, sjerstaklega á „dekkum“ og gúmmíslöngum. Þess er t. d. getið um einn bílstjórann, að hann var einu sinni 8 stundir milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, en í það skiftið sprakk líka hjá honum á þessari vegalengd milli 30 og 40 sinnum.

Hellisheiði

Þingvellir 1913.

Engar vöruflutningabifreiðar voru þá yfirbygðar, og urðu bílstjórarnir að híma í opnum bílnum, hvernig sem viðraði. Það er fyrst 1918 að byrjað er að byggja yfir flutningabifreiðar. — Ofan á þessa byrjunarörðugleika bættist svo hræðsla fólksins við bílana, sjerstaklega til sveita. Einn bilstjórinn varð t. d. fyrir því, er er hann var að aka austur árið 1915, að á undan honum reið kerling og teymdi trússahest. Þegar hún varð bílsins vör stökk hún af baki og yfir vegskurðinn og klifraði svo yfir girðingu, sem var þar rjett hjá. Hestarnir stóðu kyrrir á veginum, þótt bíllinn nálgaðist. Bílstjórinn fór því út úr bílnum og teymdi þá út af veginum. Þá kom kerling hlaupandi og sagði mjög undrandi: „Þetta fór nú annars nokkuð vel.“
Svo örar hafa framfarirnar orðið í bílaiðnaðinum, að bílar þeir, sem notaðir voru um þetta leyti og svo að segja alt fram til 1926, mundu nú tæpast þykja boðlegir. Þá var eingöngu um að ræða til mannflutninga hina svo nefndu blæjubíla. Var blæjunum þannig fyrir komið, á fyrstu bílunum, að það varð að taka þær niður, ef eitthvað var að veðri. Urðu menn því að sitja í opnum bílunum í roki og úrkomu, ef svo bar undir og reyndist flestum það ærið kalsasamt. Hvílíkur munur eða nú, þegar hægt er að þjóta i hörkufrosti á veturnóttum í upphituðum bílunum yfir Holtavörðuheiði og geta meira að segja hlýtt í rólegheitum á það, sem þulan eða fyrirlesarinn kyrjar í útvarpinu.

Fornbíll

Fornbíll á götum Reykjavíkur.

Fyrsti lokaði bíllinn („drossían“) kom hingað til lands 1915, en ekki urðu þeir algengir fyrr en röskum 10 árum síðar. Fyrsta „drossían“ mundi ekki þykja ásjáleg nú, enda var hún hrikalega há og svo völt, að undrum sætti, að hún skyldi ekki velta um svona endrum og sinnum.
Heimsstyrjöldin átti mestan þátt í því, að bílum fjölgaði ekki neitt verulega fyrstu árin eftir að bifreiðalögin gengu í gildi. Allir hlutir urðu þá svo óhemju dýrir, að menn fengu ekki við neitt ráðið.
En þó keyrði fyrst um þverbak í þessum efnum, fyrstu árin eftir styrjaldarlokin. Þá komst bílsætið til Hafnarfjarðar upp í kr. 3.50 og bensínlítirinn var þá seldur á 1 krónu. Inn að sundlaugum var þá ekki hægt að fá bíl fyrir minna en kr. 7.50. Alt verðlag hljóp þá í slíkar gönur, að annað eins hefir ekki þekst hvorki fyr nje síðar.
Fornbíll
Með árinu 1921 er eiginlega hægt að segja að bílainnflutningur hefjist fyrir alvöru hingað til lands. Það ár voru fluttir inn 7 bílar og svo fjölgar þeim, stöðugt úr því. Notkun bílanna jókst svo gífurlega, að 8 árum síðar voru fluttir inn 66 sinnum fleiri bílar en 1921, eða alls 462, en slíkt hefir heldur ekki endurtekið sig í sögu bílanna á Íslandi.

Vegagerð

Vegagerð um 1960.

Framfarir á Íslandi hafa verið með þeim risastökkum síðastl. aldarfjórðung, að trúlegast þætti að slíkt hefði skeð í æfintýri en ekki í sögu raunveruleikans. Sá maður, sem fyrir 25 árum hefði haldið því fram í alvöru, að nú á þvi Herrans ári 1939 yrði svo að segja hægt að aka í bíl landið á enda, upp til dala og út til annnesja, hefði af almenningsálitinu verið dæmdur á Klepp. Framfarirnar speglast einna raunsæast í samgöngutækninni.
Fjarlægðirnar hafa horfið, vikuferð orðið að dagleið, og alt erfiði, sem slík ferðalög höfðu í för með sjer, þekkist ekki lengur. — íslenska þjóðin hefir eignast fjölmenna stjett bílstjóra, sem hlotið hefir þann almannadóm, að vera dugleg og áræðin. Bifreiðaverkstæði hafa unnvörpum risið upp, þar sem framkvæmdar eru hverskyns viðgerðir og yfirbyggingar bíla.
Á því sviði hefir þróunin tekið örum vexti og er sú iðngrein komin ótrúlega langt á veg hjer á landi. Fjölmennur hópur manna hefir nú orðið arðvænlega atvinnu í bifreiðaverkstæðum. Þeir tvö þúsund og níu bílar, sem nú eru til í landinu, geta þotið yfir fjögur þúsund og átta hundruð km. langan akfæran veg og yfir ótal stórbrýr, sem liggja yfir stærstu ár landsins. Slíkt hefir framtakið orðið á fyrsta fjórðungi bílaaldarinnar á Íslandi. — Bíllinn er eitt hið þarfasta tæki, sem nokkurn tímann hefir flutst hingað til lands.
Hann hefir þegar næstum stjakað klyfjalestinni og reiðskjótanum yfir á svið fortíðarinar. Allsstaðar gætir áhrifa hans í smáu sem stóru — meira að segja út yfir þau takmörk, sem fólk hefir daglega í huga — svo langt, að nú er ekki lengur kastað steinvölum á leiði lánleysingjanna, sem sagt er að dysjaðir sjeu sumstaðar með fram þjóðvegum landsins.“

Heimild:
-Fálkinn, 29. tbl. 21.07.1939, Tuttugu og fimm ára afmæli bifreiðalaga á Íslandi, bls. 4-5.
Fornbíll

Viðey

Í Morgunblaðinu árið 1990 er grein um Viðey. Í henni er kafli undir fyrirsögninni „Ástarsaga afhjúpuð?“ Fjallað er um þrjá letursteina  vestan í eynni sunnan við svonefndan Hulduhól. Ein áletrunin á svonefndum Dvergasteini og önnur á klöpp við Nautahúsin.

„Fundist hafa áletranir frá fyrrihluta síðustu aldar á jarðföstum steinum á vesturhluta Viðeyjar og voru nokkrar þeirra áður óþekktar.

Viðey

Mögulegt er að á einum steininum séu ristir upphafsstafir ungra frændsystkina af Stephensens-ættinni sem bjó í eynni á þessum árum, líklega merki um stutt ástarævintýri. Á öðrum steini er aðeins ártalið 1810 í rómverskum tölum og á þriðja steininum, sem kunnugir hafa reyndar lengi vitað um, eru nöfn tveggja manna ásamt krossmarki og ártali.

Forgengileg ást klöppuð í stein?

Magnús Sædal Svavarsson, byggingastjóri í Viðey, kom fyrir skömmu auga á áletranir sem klappaðar höfðu verið í jarðfasta steina í Viðey. Ein þeirra gæti verið þögult vitni um ástarævintýri ungra frændsystkina í eynni á fyrrihluta síðustu aldar. Séra Þórir Stephensen staðarhaldari skoðaði nýlega steinana með blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins.
„Þegar ég sá þessa áletrun fyrst bjóst ég náttúrulega við að hér hefði einhver vinnumaðurinn verið á ferð, hefði verið við gegningar í húsunum,“ segir séra Þórir þegar við skoðum stein í nánd við Nautahúsin svonefndu, norðaustan til á Vestureynni. Þar sést stafurinn M og síðan TH sem stundum var notaður í stað íslenska bókstafsins Þ. „Hann gæti hafa verið að dunda við þetta í tómstundum sínum. Svo fór ég í manntalið 1821; það er enn til. Þar er ekkert mannsnafn sem þetta fangamark á við. Ég fór að velta því fyrir mér hvort tveir vinnumenn hefðu verið að verki.
ViðeyÞegar ég ræddi þetta við aðra var mér bent á að ég væri ekki nærri nógu rómantískur! Þegar einhver eða einhverjir séu að krota svona í stein geti það ekkert síður verið elskendur. Ég íhugaði þetta og fór aftur í manntalið.

Vorið 1821 kemur Magnús Stephensen, sonur Stefáns amtmanns og bróðursonur Magnúsar Stephensens konferensráðs, heim frá Kaupmannahöfn, þá nýútskrifaður kandídat í lögfræði. Hann hafði alist upp hjá Magnúsi konferensráði frá því hann var á fyrsta ári. Hann elst upp með Þórunni, dóttur Magnúsar, en þau hafa ekki sést í nokkur ár er Magnús kemur heim. Kannski, og ég ítreka kannski, er þessi áletrun merki um það að með þeim hafi kviknað einhver ástarhugur, hún skrifað stafinn hans, Magnús skrifað fangamark hennar og ártalið.

Viðey

Letursteinn í Viðey frá árinu 1824.

Hann fer aftur að heiman 1823, fær sýslumannsembætti í Skaftafellssýslum 2. september. Magnús er þá svo fátækur að ekki kemur til greina fyrir hann að kvænast; fyrst þurfti hann að koma undir sig fótunum. Næsta ár kemur Hannes bróðir hans heim frá Höfn með guðfræðipróf; hann varð seinna einn af forystumönnum sjálfstæðisbaráttunnar við Dani. Segir sagan að hann hafi verið einn af þrem þingmönnum sem dönsku dátarnir, er voru sendir hingað vegna þjóðfundarins 1851, hafi átt að drepa ef nauðsyn krefði. Á Jónsmessunni 1825 giftist Þórunn Hannesi.
Magnús sýslumaður kvæntist ekki fyrr en 1828, þá prófastsdóttur úr Mýrdalnum.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 112. tbl. 19.05.1990, Forgengileg ást klöppuð í stein?, bls. 18-19.
Viðey