Fyrir tæplega hálfri öld (um 1960) var Gísli I. Þorsteinsson (f. 1952) á ferð um norðanvert Álftanes með föður sínum, Þorsteini Einarssyni. Gísli var þá á tíunda ári. Þeir feðgar voru m.a. að skoða fuglalífið í fjörunni við Seyluna. Þeir gengu um Dugguós. Þegar þeir komu út að Skansinum og voru á gangi yfir útveggi hans ofan fjörunnar ráku haukfrá augu Gísla óvænt í eitthvað áhugavert í fjöruborðinu rétt neðan hans (þar sem sjórinn hafi brotið gróðurbakkann).
Betur að gáð kom í ljós að þarna var um heillega blýkúlu að ræða. Við viktun síðar mældist hún um 920 gr. (tæp 2 pund) að þyngd, 5.7 cm að þvermáli og 18.0 cm að ummáli. Drengnum fannst mikið til koma og ákvað að varðveita kúluna. Hún hefur fylgt honum æ síðan með einum eða öðrum hætti.
Fyrir skömmu rifjaðist ferðin forðum upp í tveggja manna tali og Gísli ákvað að leita kúlunnar – og var ekki lengi að finna hana. Við endurheimt hennar var tilefni talið að huga nánar að upprunanum og hugsanlegum tengslum hennar við söguna, skrifaðar heimildir, vangaveltur og aðrar minjar, sem síðar hafa fundist við Bessastaði, t.d. fallbyssuhlut þann er fáum er kunnugt um, en varðveittur hefur verið í þegjandi hljóði undir Bessastaðastofu.
Ákveðið var að reyna að kanna hvort hugsanlegt væri að þessi blýkennda kúla frá Skansinum, er virtist einna líklegast hafa tilheyrt fóðurfangi fallbyssu, gæti með einhverjum hætti tengst fallbyssuhlutnum í kjallara hins sögufræga menningarseturs að Bessastöðum. Með það að markmiði var haft samband við Guðmund Ólafsson, hinn mæta fornleifafræðing hjá Þjóðminjasafni Íslands er tók m.a. hvað virkastan þátt í fornleifauppgrefti þeim að Bessastöðum er endurheimti fallbyssuhlutinn, og hann spurður hvort hann gæti komið og lagt mat á umleitunina.
Þegar vettvangurinn við Skansinn var skoðaður með Gísla í aðdraganda síðdag einn í febrúarmánuði árið 2008 gekk hann hiklaust á staðinn þar sem hann fann kúluna umrætt sinn. Hann staðnæmdist uppi á grónum virkisveggnum, horfði í kringum sig og gekk ákeðnum skrefum niður að fjöruborðinu, síðan þrjú fet áfram og benti; „Hér var það“. Segja verður eins og er að það hefur þurft bæði forvitin og áhugasöm barnsaugu til að koma auga á kúluna innan um jafnlitt fjörugrjótið. Kannski það hafi bara alls ekki verið af einskærri tilviljun. Gæti verið að barninu, sem áður hafði lifað af alvarlegt bílslys, hafi beinlínis, á yfirnáttúrulegan hátt, verið bent á þennan ofurlitla hlut í fjöruborðinu með það fyrir augum að tengja hann síðar við hin menningarsögulegu myndbrot vettvangsins? Fæstir fræðimenn er vildu láta taka sig alvarlega myndu opinberlega samþykkja þá tilgátu, en leikmenn er upplifað hafa hliðstæð tilvik myndu án efa samþykkja hana. Þeir síðarnefndu gætu hins vegar lent í vandræðum ef þeir þyrftu að rökstyðja samþykki sitt því slíka skortir jafnan áþreifanlegar sannanir þegar til kastanna kemur (eða eiga a.m.k. erfitt með að rökstyðja mál sitt).
Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, hafði við umleytan reynst góðfúslega tilbúinn að leyfa FERLIRsfélögum að skoða fallstykkishlutann í kjallaranum og bera kúluna við það. (Svona eiga opinberir starfsmenn að vera – jákvæðir og ávallt reiðubúnir (eins og góðum skátum sæmir)). Tilgangurinn var að meginefni sá að kanna hvort kúlan gæti haft minjagildi eða ekki. Hafa ber í huga að hér gæti verið um „aðskotahlut“ að ræða, þ.e. hann gæti hafa komið úr einhverjum byssum hernámsliðsins er hafði bækistöðvar á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, verið kastað úr flugvél, skolað á land úr skipsflaki eða hreinlega verið kastað þarna af einhverjum áhugalausum um slíka gripi. Eftir sem áður gæti kúlan verið það gömul að hún myndi flokkast undir fornminjar – þótt uppruninn gæti verið annar en beintenging við „verkfærin“, sem notuð voru á Skansinum.
Áður en lengra er haldið er sjálfsagt að rifja eitthvað handhægt upp um fundarstaðinn: „Skansinn er yst á Álftanesi, innan við Seiluna, en þar var byggt vígi til varnar konungsgarðinum á Bessastöðum ef sjóræningjar skyldu leggja þangað leið sína. Inn á Seiluna sigldu sjóræningjarnir sem rændu í Grindavík 1627 og ætluðu að gera Bessastöðum sömu skil. En þeir strönduðu skipi sínu á skeri og sneru frá. Árið 1688 var hlaðið virki á Skansinum, með nokkrum fallbyssum til að verjast innrás sjóræningja og annars illþýðis. Þær voru aldrei notaðar.
Um síðustu aldamót var smákot á Skansinum. Þar bjuggu þá hjónin Málfríður og Eyjólfur ásamt syni sínum Ólafi. Þótt búið væri lítið ríkti þar mikill þrifnaður og ekki spillti Ólafur fyrir því hann var kátur, fjörugur og lífsglaður ungur maður, en enginn söngmaður, svo vitnað sé í samtímaheimild um hann. Ólafur Eyjólfsson er þó þekkt persóna í dansbókmenntum okkar, því um hann var saminn textinn við dansinn Óla skans sem hvert mannsbarn á Íslandi kannast við.“
Skansinn, þetta gamla virki, var friðlýst 1930, sbr.:„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í bók Vilhjálms Þ. Gíslasonar, „Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls“ er m.a. fjallað um Skansinn og Seyluna: „Bessastaðir hafa einu sinni verið herstöð og bardagasvæði. Það var í Tyrkjaráninu 1627. Þó að í þeirri viðureign væri að vísu „fallstykkjum affírað“, og höfðingjar sætu þar á riddaravísu ú gylltum söðlum vopnaðir, þá var sá hernaður enginn hetjusaga. Fyrirliðinn hafði einnig hest söðlaðan að húsabaki, til þess að geta flúið.
Sjóræningar komu að Reykjanesi í júni 1627. Hertóku þeir fólk í Grindavík og sigldu síðan vestur fyrir land. Þessi ótíðindi úr Grindavík spurðust fljótlega til Bessastaða. Þar var þá höfuðsmaður Holger Rosenkranz. Kaupskip varnarlítið lá þá á Seylunni, og skip voru einnig í Hafnarfirði, Keflavík og á Hólmshöfn. Þeim var stefnt til Bessastaða, og urðu þá þrjú hafskip á seylunni. Viðbúnaður var einnig hafður í landi og hlaðið virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna. Þangað voru fluttar fallbyssunar sem til voru á Bessastöðum.Þar voru þá staddir ýmsir fyrirmenn í embættiserindum, og kyrrsetti höfuðsmaður þá alla og setti ýmsa þeirra til varnar í virkið. Meðal þeirra, sem þannig voru staddir á Bessastöðum, voru Þorlákur Skúlason, síðar biskup, Jón Sigurðsson á Reynistað, fyrrum lögmaður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir úr Þingeyjarsýslum og Jón Ólafsson Indíafari, vestan úr fjörðum, en hann var þar með skilaboð frá Ara í Ögri.
Þetta var kvöldið fyrir Jónsmessu, og sáust nú Tyrkjaskipin sigla inn fyrir Álftanes og inn á Seylu og skutu nokkrum fallbyssuskotum. Þeir dönsku í Skansinum skutu á móti. Hugðu nú Tyrkir samt gott til góðarinnar og bjuggust við miklu herfangi úr Seyluskipunum. Almenningur um Nesin var lostinn miklum ótta og flýði. Konur og börn og búsmali var fluttur upp til selja eða upp um hraun til fjalla, segir Björn á Skarðsá.“
Til að gera langt mál stutt þá strandaði annað ræningjaskipið á Seylunni, en áhöfninni tókst að forfæra bæði fanga og farm yfir á hitt skipið og losa þannig um það. Í Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, segir m.a. um þetta: „Fýrað var af byssum bæði frá landi og frá skipum. Orrustan var hafin. “En um þetta bil, af Guðs tilsettu ráði, bar annað reyfaraskipið upp á grynningar svo það stóð, því fjörumikið orðið var. Var það það skipið, sem hertekna fólkið á var og mestallt góssið.” Til að létta skipið hófust þá menn af hinu skipinu handa við að flytja fólk og góss af hinu strandaða skipi yfir á hitt. Köstuðu þeir miklu af góssinu í sjóinn, mjöli, öli og annarri góssvöru sem þyngst var. Og sem þeir voru í þessu sjóarsvamli og flutningi skipanna á milli létu þeir dönsku af að skjóta, því miður, en íslendingar vildu að að þeim væri sem mest skotið meðan þeir voru í þessu svamli. Íslendingarnir fengu engu um ráðið…“ Að því búnu var báðum ræningjaskipunum siglt úr úr Skerjafirði óáreitt.
„Eftir þetta var öðru hvoru haldið uppi nokkrum herskap eða herþjónustu í sambandi við Bessastaði. Holger Rosenkranz kom þangað árið eftir Tyrkjaránið með fjögur herskip til landvarnar og eftirlits. Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum, upp af Seylunni. Með konungsbréfi 3. júlí 1667 var krafinn af landsmönnum skattur til þess að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár. Nú var stundumfarið að kalla forráðamann Bessastaða Commendant. Skanstollurinn eða Ottagjaldið, eins og almenningur kallaði hann, var óvinsælt gjald.
Í fyrstu höfðu menn ætlað að mæla á móti þessum skatti, enda galzt hann sums staðar með refjum, en Brynjólfur biskup gekkst í það, að menn skyldu játa honum, því að hann kvaðst óttast að annars yrði annar þyngri á lagður.
Allur heimtist tollurinn ekki fyrr en eftir nokkur ár og ei nema með sleitum.
Suðurnesjamenn voru látnir byggja Skansinn. Sumir segja, að þeir hafi mátt vinna að því kauplaust, og það hefur Árni Magnússon eftir Þormóði Torfasyni, en aðrir sögðu, að kaup hefði verið greitt.
Ekki varð mikið til frambúðar úr Skansbyggingunni, en þó er sagt, að Bjelke hafi gert konungi 800 rd. reikning fyrir viðhaldi virkisins. Ýmsar fleiri álögur var reynt á þessum tímum reynt að leggja á Íslendinga til herskapar, en þeir viku þeim af höndum sér.
Herskapur á Bessastöðum var enginn eftir þetta, og Skansinn féll, og greri yfir hann að mestu. Benedikt Gröndal sagði seinna, að „Skansinn var þá kotrass auðvirðilegur og er enn“.
Ennþá sér vel móta fyrir Skansinum og grasigróinni grjóthleðslunni. Nú er þar hvorki virki né bær. Er þar einn hlýlegasti blettur á Bessastaðalandi og þaðan er oft fagurt að sjá út á Seyluna og yfir um fjörðinn.“
Í bókinni „Sjósókn“ segir Erlendur Björnsson í endurminningum sínum að „Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Í Skansinum var lendingin frá Bessastöðum. Þar var hið gamla virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum, og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju.
Í Skansinum var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbeðillinn fóðraði eina kú. Þar bjuggu hjónin Eyjólfur og Málfríður. Þau áttu einn son, Ólaf að nafni. Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, enn allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans. Hann dó á spítalanum í Laugarnesi“.
Til að lengja textann svolítið til að koma að fleiri ljósmyndum í tengslum við ferðina er rétt að rifja upp ákvæði Þjóðminjalaga um hvað telst til fornleifa. Sérhver kynslóð hefur skilið eftir sig minjar í jörðu sem geyma menningarsögu hennar og vitna um lífsbaráttuna á hverjum tíma. Þessar minjar kallast fornleifar og þær geyma oft mikilvægar heimildir sem hvergi er hægt að fá fram með öðrum hætti. Þess vegna er mikilvægt að fornleifum sé ekki spillt og að þær séu varðveittar fyrir komandi kynslóðir.
En hvað eru fornleifar? Þegar Þjóðminjasafnið hóf undirbúning að skipulagðri fornleifaskráningu árið 1978 kom í ljós að menn hafa lagt mjög misjafnan skilning í hvað séu fornleifar. Sú skoðun var lengi útbreidd að það væru eingöngu mannvirki frá söguöld sem kallast gætu fornleifar, og væru þess virði að skrá og friðlýsa.
Þessi hugmynd sem er mjög í anda sjónarmiða sem uppi voru á 19. öld, hefur fyrir löngu vikið fyrir nútímalegri hugmyndum. Flestar friðlýsingar síðustu áratuga 20. aldar tengjast til dæmis atvinnusögu þjóðarinnar á seinni öldum.
Í Þjóðminjalögunum frá árinu 1989 er í III. kafla um fornminjar m.a. getið um 2e; virki og skansa og önnur varnarmannvirki; [Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 18. gr.]. Sjá einnig sambærilegt ákvæði í þjóðminjalögunum frá árinu 2001. Í 1. g. laganna segir að „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir“. Megináherslan virðist þó fremur hafa verið á minjasvæðin og mannvirkin, sem þekkt hafa verið eða kynnu að finnast. Ákveðnar gripategundir eru tilgreindar sérstaklega, þ.e. kirkjugripir og minningarmörk. Þó eru og nefndir „listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar“. Ætla má þó að fallbyssukúla sú er hér um ræðir gæti falli’ innan ákvæða þjóðminjalaga er varðar verndun því í þjóðminjalögunum (sem reyndar eru ekki afturvirk), 18. gr., segir að „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri…“ Jafnframt að „allir munir, sem grein þessi fjallar um… eru eign ríkisins“. Með ákvæðinu um tilkynningaskyldu til þjóðminjayfirvalda um fund á einstaka grip er verið að auka líkur á að fornminjar varðveitist, ekki síst hið smáa í heildarmyndinni.
Guðmundur hafði haft samband við fallbyssusérfræðing safnsins, Halldór Baldursson, og boðað hann að Bessastöðum þennan dag. Baldur hefur m.a. skrifað greinar í Árbók fornleifafélagsins um fallbyssubrot frá Bessastöðum og um Skansinn.
Áður en gengið var í Bessastaðastofu var viðeigandi að rifja upp forsögu hússins. „Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga. Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Þegar viðgerðir og endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987, kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 m þykk mannvistarlög, sem hlaðist höfðu upp af eldri mannvistarleifum. Hófust þá á staðnum umfangsmestu fornleifarannsóknir sem enn hafa verið gerðar á Íslandi. Á árabilinu 1987 – 1996 var stór hluti bæjarhólsins á Bessastöðum rannsakaður og er rannsóknarsvæðið rúmlega fjögur þúsund fermetrar. Við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum fundust á annað þúsund gripa. Flestir þeirra eru brot af hversdagslegum búsáhöldum, sem hafa brotnað og verið hent. Nefna má fjölmörg leirkers- og postulínsbrot úr diskum og ílátum, kljásteina, fiskisleggjur, nagla, pottbrot, krítarpípur, brýni, kvarnarsteina o.s.frv. Nokkra furðu hefur vakið hve fáir gripir hafa bent til þess að þarna var aðsetur helstu höfðingja landsins á sínum tíma. Þó má ráða af sumum fundanna að hér var ekki venjulegt bændabýli. Nefna má byssukúlur og byssutinnu, leifar af fallbyssu, myndskreyttar glerrúður og austurlenskt postulín, og síðast en ekki síst mikið magn af vínflöskum.“ Sjá meira á www.forseti.is.
Þegar ljóst varð hve vel varðveittar minjar voru undir gólfi Bessastaðastofu, var ákveðið að varðveita þær og gera þær sýnilegar fyrir gestum Bessastaða. Gengið var frá minjunum í kjallara Bessastaðastofu og þar er hægt að ganga niður og horfa inn á gólf landfógetabústaðar konungsgarðsins frá 18. öld og eldri minja frá 15. – 16. öld. Einnig er þar lítið sýnishorn gripa sem fundist hafa á Bessastöðum.
Það var einmitt í þennan kjallara, sem Karl Gíslason, umsjónarmaður á Bessastöðum, leiddi þátttakendur að þessu sinni. Í fordyrinu eru leifar af annarri fallbyssunni, sem fannst í framangreindum fornleifauppgreftri.
Halldór Baldursson ritaði, sem fyrr sagði, grein í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990 um „Fallbyssubrot frá Bessastöðum“. „Fallbyssur voru fluttar í skansinn frá Bessastöðum [þegar Tyrkir rændu hér á landi 1927]. Skansinn var endurbættur 1668 undir stjórn Otte (eða Otto) Bjelke. Þetta var í tilefni af ófriði, sem þá var á milli Dana og Englendinga. Svo virðist, sem fallbyssum hafi verið bætt í Bessastaðaskans um svipað leyti.
Sumarið 1800 voru þær fallbyssur, sem nothæfar töldust, fluttar úr Bessastaðaskansi í nýtt vígi við Arnarhól, sem nefnt hefur verið Phelps skans, Jörundarvígi eða Batteríið. Þetta voru sex langar fallbyssur, ætlaðar fyrir 6 punda járnkúlur. Engar heimildir hef ég fundið um hvort ónothæfar fallbyssur voru þá skyldar eftir í Bessastaðaskansi.
Bessastaðaskans hefur lítt komið við sögu eftir þetta.
Í Þjóðminjasafni Íslands eru nokkrir hluti, sem geta verið tengdir Bessastaðaskansi. Meðal þeirra eru tveir hlutir, sem líkur bentu til, að væru brot úr fallbyssum. Annar hluturinn fannst við fornleifagröft heima á Bessastöðum 1987. Þetta er járnrör, mjög ryðbólgið, ca. 27 cm langt og ca. 6 cm vítt. Á rörinu eru mjög greinilegar sprungur lagsum. Tveir járnhringir eru þversum utan um rörið, annar við enda og hinn nálægt miðju. Hinn hluturinn er „Kanona gömul og ryðbrunnin mjög, hún er nær al(in) á lengd, mun vera samsett úr hólkum því margir upphækkaðir hringir eru utaná, fylgir mikil járnhalda, sem hún hefir leikið í, og 2 kúlur fundnar þar niðrí jörð“. Þetta er járnrör, ca. 50 cm langt og 8 cm vítt. Utan um rörið eru þversum sex járnhringir með jöfnu millibili. Gapandi sprungur eru þversum utan á rörinu við hringina, en sjást ekki innanfrá.
Á 15. og 16. öld voru fallbyssur oftast smíðaðar úr járni og þá samsettar úr stöngum og þynnum… Fallbyssur úr smíðajárni voru oftast bakhlaðnar og var sérstök laus púðurkrús sett aftan við hlaupið, þegar skotið var, líkt og skothylki í nútíma byssum. Slíka púðurkrús nefnir Jón Indíafari byssukamar.
Byssurnar á Bessastöðum gætu hafa verið sendar úr vopnabúri konungs til landvarna eða til að sýna veldi höfuðsmanns gagnvart þegnunum. Þær gætu í sama tilgangi verið keyptar úr farskipum hér við land. Fallbyssur á Bessastöðum gætu hafa verið upp runnar í ýmsum löndum og hafa borist þangað með skiptum allra þjóða, sem sigldu til Íslands eða á Íslandsmið. Varla hefur jafn-afskekktur hluti Danaveldis og Bessastaðir fengið nýjustu og dýrustu tegundir vopna og er því líklegt, að fornar byssur hafi lengur staðið í Bessastaðaskansi en í þeim virkjum, sem nær voru konungi. Byssurnar geta hafa verið notaðar til að skjóta púðurskotum við hátíðleg tækifæri, eftir að þær voru orðnar lítils virði sem vopn.
Byssurnar eru líklega frá 15. og 16. öld. Þær gætu hafa verið til varna á Bessastöðum fram á 17. öld eða jafnvel lengur.“
Í grein Halldórs í Landnámi Ingólfs 1996 (Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627) segir m.a.: „Í virkið voru fluttar þær fallbyssur, sem til voru á Bessastöðum“. Meðfylgjandi er ljósmynd af bakhlaðinni fallbyssu í Týhússafninu í Kaupmannahöfn. „Hún er svipuð að gerð og stærð og fallbyssuleifar, sem fundist hafa á Bessastöðum. Vel er hugsanlegt að byssur líkar þessari hafi verið í virkinu við Seiluna 1627“. Einnig svolítið til varnar meintu hugleysi Holgers: „Fæstar fallbyssur á 17. öld gátu valdið teljandi tjóni á hafskipi á svo löngu færi. Ekkert bendir til, að Holger hafi ráðið yfir öflugum fallbyssum. Auk þess að eyða skotfærum til einskis (e.t.v. af litlum birgðum), væri með skothríðinni verið að auglýsa fyrir óvininum getuleysi vopnanna. Hér virðist því vera haldið aga og skotfærin geymd, þar til þau hefðu áhrif.“
Í grein sinni í Fylkir um jólin 1997 lýsir Halldór fyrrnefndri fallbyssu (könnubyssu eða porthundi). „Byssur þurftu helst að vera svo öflugar, að þær væru skeinuhættar skipum í innsiglingu og svo liprar, að þær væru hentugar til að verja Skansinn gegn árás óvina, sem leituðu þar inngöngu.
Hér þurfti tvenns konar vopn, annars vegar allstórar framhlaðnar fallbyssur fyrir 6 punda kúlur eða meir, og hins vegar léttar og meðfærilegar byssur, fakonettur eða léttar bakhlaðnar fallbyssur (svokallaðir porthunmdar með kúluþyngd 1/2-2 pund og þyngd byssu jafnvel aðeins nokkrir tugir kílóa… Vitað er, að léttar bakhlaðnar fallbyssur voru á Bessastöðum. Slík vopn gætu hafa verið látin á Skansinn 1585.“
Blýblönduð kúla hefur verið áreiðanlegri en járnkúlur. Á sjó gátu hinar síðarnefndu t.d. ryðgað og því orðið varhugaverðar þegar á þurfti að halda. Blýhúðin hefur farið betur með hlaupið og því aukið endingu byssunnar.
Sérfræðingarnir voru eðlilega varfærnir í áliti sínu. Kúlan virtist við fyrstu sín tilheyra þessari tegund fallbyssna. Hlaupið á byssuhlutanum á Bessastöðum er bólgið af ryði svo kúlan rann ekki greiðlega inn í það. Þó munaði einungis afar litlu. Guðmundur tók við kúlunni og mun reyna að láta meta hana með hliðsjón af mögulegum tengslum hennar við tiltekna tegund skotvopna. Hafa ber einnig í huga aðra möguleika á tilvist kúlunnar við Skansinn, s.s. að einhver hafi skilið hana þar eftir á síðari tímum, hún gæti verið hluti af vopnabúri Breta, sem höfðu bækistöð þarna skammt frá á Álftanesi í Seinni heimsstyrjöldinni, ekki er útilokað að kúlan hafi verið í aðra tegund fallbyssna hvort sem þær hafi verið eldri eða yngri en sú sem hér var miðað við, henni gæti hafa verið skotið frá skipi og lent í torfi við Skansinn. Kúlan gæti einnig hafa verið í torfi, sem síðan var stungið og notað í virkisvegginn eða hún gæti hafa komið hingað til lands með skipi og orðið eftir. Hins vegar eru samt sem áður verulegar líkur á að kúlan hafi verið notuð í fallbyssu, sem var á Skansinum, en fallið til hliðar eða ekki þurft að brúkast lengur og síðan gleymst. Þá er ekki útilokað að komið hafi í ljós að hún passaði ekki í byssu á Skansinum og því verið lögð til hliðar. Sjórinn náði þó loks, u.þ.b. þremur öldum síðar, að krafla í felustaðinn og afhjúpa kúluna á ný, skömmu áður en hin haukfráu augu drengsins komu augu á hana efst í fjörunni neðan virkisveggjarins.
Heimildir m.a.:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason – Bessastaðir, þættir úr sögu höfuðsbóls, 1947, bls.111-116.
-Erlendur Björnsson – Sjósókn, Jón Thorarensen, 1945, bls. 36.
-Natmus.is
-Þjóðminjalög nr. 52 19. maí 1969.
-Þjóðminjalög nr. 88 29. maí 1989.
-Þjóðminjalög nr. 107 31. maí 2001.
-www.forseti.is
-Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum 1661 með viðbót, sem er þriðji partur ævisögunnar. Guðbrandur Jónsson og Bókfellsútgáfan gaf út 1946.
-Halldór Baldursson – Holger Rosenktantz höfuðsmaður og atlaga Tyrkja að Seilunni 1627, Landnám Ingólfs 1996.
-Halldór Baldursson – Fallbyssubrot frá Bessastöðum, Árbók hins íslenska fornleifafélags 1990.
-Halldór Baldursson – Vígbúnaður á Skansinum 1586-1997, Fylkir 1997.
-Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Þjóðminjasafni Íslands.
-Gísli I. Þorsteinsson, lögreglufulltrúi hjá LRH.