Elliðakot

Jón Svanþórsson hefur verið óþreytandi að kanna gamlar götur og leiðir austan Reykjavíkur. Hér grandskoðar hann Elliðakotsmýrina.
dugguosmyri-1“Leiðin liggur frá Elliðakoti yfir Túnholtið og niður með stakan malarhól á hægri hönd sem Einbúi heitir og þaðan að Gudduósi (eins og Karl Norðdahl á Hólmi kallar hann, eða Dugguósi, eins og Tryggvi Einarsson í Miðdal vill kalla hann). Og síðan með honum um þurra bakka þar til komið er að vaði á ósnum. Í dag er vaðið nokkuð djúpt en grjót er í botni. Á vestari bakkanum er gata beint yfir mýrina (styttingur) sem hefur líkleg verið farin þegar mýrin var þurr. Ef ekki var fært yfir styttinginn hefur verið farið niður bakkana (nú eru tveir skurðir á leiðinni) og er þá komið á jarðbrú og sveigir þá leiðin frá bakkanum og stefnir vestur yfir mýrirna, en brúin verðu ógreinileg þegar þegar komið er að gamla farveginum á Augnlæk en ekki er rennsli í honum því hann rennur nú um skurðina sem áður var getið. Gatan liggur svo úr mýrinni um vatnsrof og á götur sem einnig voru dugguosmyri-2bæjargötur að Vilborgarkoti sunnan og vestan við Nónás á Hofmannaflatir. Leið liggur af götunni til vinstri á mill Litla-Nónás og ónefndar hæðar niður að landi sem Guðrún Jacobsen átti og kallaði Dal og þaðan á þjóðveg (frá 1885-7) á Heiðartagli norðan við brúna sem sett var á Hólmsá 1887(Rauðubrú). Gatan gæti hafa verið vagnavegur eftir breidd hans að dæma.
Ef ekki er farið yfir Gudduós á vaðinu er haldið áfram niður bakkann (nú eru yfir tvo skurði að fara) þar til komið er að jarðvegsbrú á læknum. Þegar yfir er komið er jarðbrú stuttan spöl og síðan er komið að leiðinni frá vaðinu. Götur halda áfram í norður að Augnlæk þar sem er komið á styttinginn og er þá beygt til vinstri og farið með gróf sem hefur hugsanlega verið stungið upp í jarðvegsbrýrnar (er líka við syðri götuna). Og þá er komið á götuna sem liggur að Hofmannaflötum.”

Kveðja Jón Svanþórsson.
P.s. Sendi myndir og kort í öðru skeyti.

Elliðakot

Elliðakot 2021.

Hlíðarborg
Lengi hefur verið leitað að Selhellum í Selvogi. Ekki hefur verið vitað um staðsetningu þeirra, en í örnefnalýsingu fyrir Hlíð í Selvogi segir m.a.: “Hlíðarsel – heimild um sel – …suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman. Við Selbrekkur eru Stekkjardældir.”
Sel er undir suðausturhorni Svörtubjarga, sennilega Strandarsel [Staðarsel]. Enn sunnar eru týndar seltóftir og fjárborg. Neðan þessa eru Selbrekkur. Framundan þeim er stór hraunhóll, einn af nokkrum. Við hann eru Selhellar, að sögn heimildarmanns, sem telur sig hafa séð þá af tilviljun er hann var þar á ferð eitt sinn í leit að fé. Hellarnir eru vandfundnir, en við þá má greina mannvistarleifar ef vel er að gáð. Selhellar eru einnig nefndir hellarnir ofan við Stakkavíkursel, en við þá eru hleðslur.
Einnig var ætlunin að skoða óþekktar mannvistarleifar undir Strandardal, hugsanlega hluti tófta bæjar Erlends lögmanns Jónssonar frá 17. öld.
Gengið var austur Hlíðargötu frá Hlíð, áleiðis austur vestanverða Selvogsheiðina undir Hlíðarfjalli. Heimildarmaðurinn, Snorri Þórarinsson frá Vogsósum, var með í för.
Hin gamla Hlíðargata liggur upp á Selvogsgötu (Suðurfararveg) með Kötlubrekkur á vinstri hönd, þar sem Kötluhraun kemur niður hlíð fjallsins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hlíð segir m.a. um þetta svæði austur með Hlíðarfjalli:
“Hlíðarfjall byrjar við Urðarskarð, og eru þar landamerki Hlíðar og Stakkavíkur, og nær inn að Katlabrekkuhrauni. Hlíðin, Brekkur, Hlíðarbrekkur og Hlíðarfjallsbrekkur eru brekkurnar inn með fjallinu kallaðar. Einnig eru brekkurnar nefndar Urðin eða Stórurð, en rétt mun vera, að hluti sá, sem stórgrýttastur er, heitir svo, en það er mikil og stórgrýtt urð ofan frá brúnum niður í vatn, nær miðju. Slóðir tvær liggja eftir Brekkunum og eru nefndar Slóðin neðri og Slóðin efri (fyrir vegagerð).
Sprungnaflöt lá milli rústa og Hvolpatjarnar ofan Malarinnar. Skjólbrekka var vestan Hlíðarskarðs. Hlíðarfjallsbrúnir voru brúnir fjallsins nefndar, en þær byrjuðu við Urðarskarð.
Á brúnunum norður og upp frá bænum voru Hamrarnir og voru fjórir móbergsstallar. Hinn vestasti hét Arnarsetur og hinn austasti Skjólbrekkuhamar upp frá Skjólbrekku. Þá tók við Hlíðarskarð með Hlíðarskarðsstíg.
Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún.
Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.”
Hlíðargata er enn greinileg skammt austan þjóðvegarins. Skömmu eftir að lagt var stað var komið að tvískiptu heykumli vinstra megin götunnar. Hlaðnar eru tvær tóftir utan í stóran stein, önnur til vesturs og hin til suðurs. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið sauðakofar eða -kofi, en þegar fjárskjólið Áni, sem er þarna skammt suðsuðaustar, er skoðað liggur beinast við að tengja rústirnar því. Um opið á Ána er hlaðið á alla vegu. Ef grannt er skoðað í kring má sjá hluta af leiðigarði norðan opsins og sunnan þess. Hleðslan vestan við opið er nýlegri og ein við endann að norðanverðu. Líklegt má því telja að grjótveggurinn að austanverðu við opið hafi verið hafi verið hluti leiðigarðsins og fé þá runnið auðveldlega niður í fjárskjólið. Seinna, eftir að hætt var að nýta skjólið fyrir fé, hefur grjót verið tekið úr leiðigarðinum og hlaðið í vegginn að vestan- og norðanverðu svo fé færi ekki niður í hellinn, enda fyrrum hlaðinn stígur niður í hellinn þá verið farinn að láta á sjá. Leifar þessa stígs eða stéttar sjást vel þegar komið er niður í Ána.
Hleðslan hefur hrunið fremst, en sjá má grjót úr honum neðan við opið. Veruleg grjóthleðsla er niðri og vestan við opið, til að varna fé að fara innfyrir og norður með innganginum. Annars liggur meginrásin til suðausturs. Undarlegt þykir að ekki skuli vera fyrirhleðsla þar innar í hellinum, en líklegt má telja að þar hafi rásin verið lokað fyrir með trégrind til að varna því að fé færi innar í hana. Sjá má leifar af tré í hellinum. Í vesturveggnum er lítið gat og rás þar fyrir innan, lág. Áni hefur verið gott fjárskjól og það tiltölulega nálægt bænum.
Næst var komið að fjárborginni undir Borgarskörðum. Skörðin eru tvö (Háhamar, skilur þau að) og er borgin neðan þeirra, í Stekkatúnsbrekkum. Borgin er vel gróin og ferköntuð hlaðin rúst, heilleg, inni í henni. Í framangreindri örnefnalýsingu segir að þarna hafi verið stekkur og Stekkatún. Ekki er ólíklegt að borginni hafi verið breytt í stekk. Hún er sjálf hringlaga, en ferköntuð rústin inni í henni er svipuð og í Hlíðarborginni, en minni.
Hlíðarborgin er hægra megin götunnar, hlaðin vestan undir hraunhól líkt og borgin undir Borgarskörðum. Hún hefur verið allstór, tvíhlaðin, en síðan verið breytt í stekk með hús eða kró á milli, inni í borginni. Hlíðarborgin er enn eitt dæmið um breytta nýtingu á mannvirkjum í vestanverðri Selvogsheiði.
Suðaustan við Hlíðarborg, sunnan girðingar er umlykur beitarhólf þeirra Selvogsmanna, er Valgarðsborg. Hún er minni en hinar fyrrnefndu. Norðvestan við borgina, í lægð undir grónum hól, má vel greina mjög gamlar tóftir a.m.k. tveggja húsa. Allt bendir til að þarna hafi fyrrum verið selstaða og Hlíðarborgin þó nýtt sem hluti af því, Valgarðsborgin mun líklega hafa þjónað sem aðhald eða skjól því líklegt má telja að hún hafi verið yfirbyggð. Marka má það af því hversu lítil hún er og auk þess hafa veggir hennar verið nokkuð háir.
Þá var stefnan tekin upp heiðina, áleiðis að Strandarseli suðaustan undir Svörtubjörgum. Framundan þeim eru nefndar Selbrekkur. Bæði ofan þeirra og neðan má sjá minjar nokkurra selja, sem flest hafa gleymst mönnum. Þau virðast hafa týnst líkt og svo margt annað í Selvogsheiðinni, en ef vel er að gáð má varla þverfóta fyrir óskráðum minjum í henni, enda verið drjúgum nýtt fyrr á öldum frá bæjunum í Selvogi.
Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar.
Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann.
Þegar gengið hafði verið yfir Hraunhóla var skömmu síðar komið á svæðið undir Selbrekkum og sáust þegar tóftir húsa. Þær eru reyndar ógreinilegar og að öllum líkindum mjög gamlar. Svæðið er að öllu jöfnu utan göngu- og alfaraleiða. Tvær rústir eru vestast. Norðaustan við þær er hlaðinn gangur, fallinn. Hann hefur áður verið reftur og sennilega legið í tvær áttir, suðurog norður, eftir að inn var komið. Þegar gangurinn féll saman opnaðist niður í syðri hluta hellisins, sem þarna er undir. Hellirinn er stór, ca. 100m2, gólfið slétt og hátt til lofts. Fyrirhleðsla er austan við niðurganginn, stór. Hægt er að komast yfir hana til norðurs og er þá farið framhjá miklum hleðslum á vinstri hönd, sem hafa verið hluti gangsins. Þar liggur hellirinn til norðausturs, en er miklu mun lægri en suðurhlutinn. Vegna þess hversu hreint gólfið er í suðurhlutanum virðist sá hluti hans annað hvort verið notaður sem búr og geymsla eða einungis verið notaður í skamman tíma. Norðurhlutinn gæti hins vegar hafa verið notaður undir fé. Ofan á suðurhlutanum er hlaðin kví. Skammt norðaustan við hellisopið er annað op, langt og ílangt.
Norðan við skjólið er tóft. Austan hennar er annað fjárskjól, slétt í botninn og rúmgott (ca. 60m2). Opið er í gegnum skjólið, en inngangurinn hefur verið að sunnanverðu því hlaðið er þvert fyrir nyrðra opið.
Tóftir eru norðan við síðarnefnda fjárskjólið og hlaðin kví norðan þeirra. Svo virðist sem þær hafi verið hlaðnar fyrir op á enn einum hraunssalnum, en fallið saman og lokað opinu. Þó má sjá að rými er þar fyrir innan.
Fjárskjól er í hattslaga hraunhól nálægt minjunum. Einnig í litlum hraunhól norðan þeirra (varða ofanb á) og auk þess er enn eitt fjárskjólið skammt norðaustan við tóftirnar. Það er rúmgott rými með sléttu gólfi og fyrirhleðslu svo fé kæmist ekki nema takmarka inn í hraunsrásina, sem það er í.
FERLIR hefur áður skoðað þetta svæði, s.s. með Guðmundi Þorsteinssyni, hellamanni frá Þorlákshöfn, en þá var fyrstnefnda fjárskjólið nefnt Bólið til aðgreiningar. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna sé komið hið eiginlega Vogsósasel, enda í landi Vogsósa.
Ljóst er að þetta svæði hefur að geyma miklu mun fleiri minjar og væri ástæða til að gaumgæfa það betur. Ferðin var notuð til að rissa upp þær minjar, sem bornar voru augum.
Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ekki er með öllu útilokað að tengja óljósar hleðslur uppi á hraunhól vestan Svörtubjarga veru manna í dölunum (Strandardal og Hlíðardal) fyrrum. Þó gæti þarna hafa verið um aðstöðu til að ná fé að ræða. Þá er og mjög sennilegt að grónar hlíðar og sléttur undir björgunum hafi verið slegnar til að afla viðbótartöðu þegar þannig áraði. Grjót virðist hafa verið tekið úr mannvirkinu í undirhleðslu girðingar, sem legið hefur niður með vestanverðum Björgunum.
Gengið var til baka vestur með og undir hlíðunum, um Suðurfaraleiðarhliðið á Suðurfaraleið og vestur Hlíðargötu. Þokan sveipaði umhverfið dulúðlegu yfirbragði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Krýsuvík

Eftirfarandi fróðleikur barst frá einum FERLIRsfélaganna: “Rakst á meðfylgjandi bréf frá hjáleigubændum í Krýsuvík um daginn og datt í hug að þið hefðuð gaman að.
Bréfin eru til krysuvik-spegill-221Landsnefndarinnar fyrir sem starfaði hér á landi á árunum 1770-1771 en þá gafst landsmönnum tækifæri á að skrifa til konungs eða embættismanna hans milliliðalaust (þ.e. án aðkomu innlendra embættismanna, s.s. sýslumanna) og segja álit sitt á stjórnun landsins, viðreisn atvinnuveganna eða bara hverju sem var sem þeim lá á hjarta. Það notfærðu hjáleigumenn í Krýsvík sér og fjölluðu um samskipti sín við Krýsuvíkurbóndan. Hátt í tvö hundruð bréf bárust nefndinni alls, bæði frá embættismönnum hér á landi og almenningi.
Bréf Krýsvíkinganna er einstakt að því leyti hve mikið af örnefnum á svæðinu koma fram. Gaman væri að vita hvort sérfróðir menn um svæðið þekki örnefnin og geti staðsett þau?
Þess má geta að Símon Sighvatsson sem getið er um í bréfinu er sá hinn sami og vann við brennisteinsvinnsluna á meðan hún var í gangi ca. 1755-1763. – Með bestu kveðju.”

Tvö bréf til Landsnefndarinnar frá hjáleigubændum í Krýsuvík. – ÞÍ. Rtk. 18,6 örk 11. (liggja með bréfum úr Árnessýslu):
“Veleðla, hálærðir og háttagtaðir herrar!
Náð, heilsa, lukka og blessan af Guði föður og drottni vorum herra Jesú Christo. Vér undirskrifaðir Vernharður Rafnsson og Hallvarður Jónsson ábúendur á Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi.
Stori-nyjabaer-31. Gefum fyrst til vitundar ásigkomulag jarðarinnar. Á þessari jörð sem við nú á búum voru fyrst þriðjungaskipti það menn lengst til muna og bjó annar á tveim pörtum jarðarinnar og hinn á þriðjungi, voru og eru bæirnir nefndir Austurbær og Vesturbær. Austurbænum fylgdu 2 partar jarðarinnar og Vesturbænum þriðjungurinn og skipti gata túnum af bæjarhlaði norður og suður í mýri til suðurs en í mel til norðurs. So og voru tilgreind örnefni eður kenniteikn engjanna, beggja partanna jarðarinnar, sem so nefndust, Flóðakrókur, Teitsflóð, Fremri-Álfsteigur, á miðli Álfsteiga, Innri-Álfsteigur. Þessar engjar sem nú eru nefndar tilheyrðu þriðjungi jarðarinnar og eitt kúkvíildi, eftir hvört voru goldnir 2 fjórðungar smjörs og tvær vættir af hörðum fiski í landskuld. Austurbænum eður tveim pörtum jarðarinnar tilheyrðu sonefnd Engjapláts, Kringlumýri, Mosar eður lítið holt það sem Nýjabæjar engjagarður á stendur.

fifumyri-1

Þar fyrir norðan nefnist Syðri-Höfði og Nyrðri og Fífumýri fyrir austan Litla-Lambafell, fyrir norðan og austan Gilið nefnist fyrst Þúfnamýri vestanundir Seljamýrarholti og Arnarófur áfastar við Þúfnamýri. Frá fyrrnefndri Kringlumýri fyrir austan Gilið nefnast Dýjarófur, Blettir, Höfði, Grasgil, Litli-Höfði fyrir vestan Seljamýrarholt. Fyrir austan greint holt nefnist Seljamýri og Nýjabæjarhvammur. Eftir þessa tvo parta jarðarinnar guldust árlega í hörðum fiski 4r vættir. Eitt kúkvíildi og þrjár ær fylgdu þessum tveim pörtum, eftir þetta hálft annað kvíildi guldust 3 fjórðungar smjörs.
Seljamyri-2

Nú nefnist sá bóndi er bjó á Krýsuvík Sveinbjörn Eiríksson og kona hans Hallbera Jónsdóttir, að fyrrnefndum Sveinbirni sáluðum giftist Hallbera aftur velnefndum Jóni Sigmundssyni, hvör og so er sálaður. Í tíð Sveinbjarnar var heimajörðinni Krýsuvík skipt til helminga og kom til jarðarinnar móti Sveinbirni og Jóni sál. Sigmundssyni, Magnús Jónsson nú búandi á Stafnesi, hann bjó á helmingi jarðarinnar. Að Magnúsi burtviknum og Jóni sáluðum, bjó fyrrnefnd Hallbera ein á heimajörðinni Krýsuvík þar til Símon Sighvatsson tók við jörðinni, sem nú er jarðarinnar ábúandi.
Í tíð fyrrnefnds Sveinbjarnar Eiríkssonar bjó sá maður fátækur er Jón Jónsson hét á tveim pörtum Stóra-Nýjabæjar. Þá skipti Sveinbjörn engjum Stóra-Nýjabæjar sem tveim pörtunum tilheyrðu til helminga (að hann sokallaði) og tók þann partinn er hann sjálfur vildi og lét eina vætt af landskuld niður falla. So og tók hann til sín þær þrjár ær sem jörðinni fylgdu og setti aftur kúkvíildi, hvar eftir han tók 2 fj. smjörs, og þessi kvíildaþungi helst við jörðina enn nú og sama er að segja um Nýjabæjarengjar er Sveinbjörn sér skipti, að þær yrkir og heldur hvör Krýsuvíkurbóndi eftir annan, jafnvel þó Stóra-Nýjabæjar fátækir ábúendur stórlega eftir sjái.

Krysuvik - vesturengjar

Í tíð Hallberu Jónsdóttir var Stóra-Nýjabæ skipt til helminga að forngildunni frátekinni, og ég Vernharður Rafnsson óskaði eftir mínum parti forngildunnar og fékk ég ekki. So og er engjastykki með hefð fallið undan Stóra-Nýjabæ úr þriðjunga engjunum til heimajarðarinnar, og fyrir það ekkert fiskvirði niðurfallið, hvört engjastykki ég nefni Flóðakrók er fyrrnefndi og Teitsflóð allt, allt að Fremra-Álfsteig, hvört engjastykki ég meina 6ta part af þriðjunga engjun-um. Þetta engjastykki sýnist mér okkur báðum tilheyra sem nú búum á Stóra-Nýjabæ. Sömu-leiðis á Járngerðastaða manntalsþingi, óskaði ég eftir mínum parti forngildunnar og fékk ég ekki.
Krysuvik - vesturengjar - 22. So eru og afmarkaðar fjörur sem Stóra-Nýjabæ fylgja og so nefnast Bergsendi, og í öðrum stað Keflavík, á hvörjum greindum fjörum vér tökum söl oss til lífsbjargar, en ekki megum vér þar eitt trékefli af taka, hverki til jarðarinnar húsa eður bæta nokkra vora búshluti er vér þurfum daglega á að halda.
3. So og hlýt ég gefa til vitundar ásigkomulag um heilsu mína og fémuni sem er, ég er vanfær maður og veikur, og oftar í rekju liggjandi en á fæti vinnandi, so er og kona mín heilsulin orðin, og ekki er fyrir okkur að hafa utan einn piltur um tvítögs aldur, sem er launsonur minn, so og er laundóttur konu minnar, og er þetta okkar fyrirvinna. En um fjármuni er það að segja að við eigum 5 ær veikar af kláðapest, eina kú og eina kvígu að fyrsta kálfi og eina kálflausa kvígu, og tvísýnt að þessir gripir lifi fyrir hor og 7 hross klifbær og 2 trippi, einn 6 ræðing og verð ég að kaupa mann úr annarri sveit fyrir 40 álnir að vera formann fyrir skipinu.
Á þessu ári 1770 var uppá mig fluttur undirvetur, bróður minn skilgetinn Hálfdan Rafnsson að nafni, mállaus og so gott sem mætti fyrtur í læri, síðu og handlegg, hvörjum ómaga eftirfylgdi kona hans og eitt barn, og taldist ég undan móti þeim að taka, og sögðu þeir það legði sig sjálft að leggja honum af sveitinni, og hafa þeir það soleiðis efnt að ég hef meðtekið eina mjöl hálftunnu af því innflutta forskemmda gamla mjöli, og annað hef ég en nú ekki meðtekið. Þetta átti að vera fyrir vökvum. En fyrir guðssakir skyldast til að hýsa þennan ómaga flutti lögréttumaðurinn mr. Jón Stefánsson á Járngerðastöðum í Grindavík og hreppstjórinn mr. Símon Sigvatsson á Krýsuvík á mitt heimili. Ég bið Guð á himnum og herra Danmerkur kóngsins innsenda herra á málefni mitt að líta hvört mig rétt skeður. Þetta staðfesti ég í kör liggjandi með mínu réttu skírnarnafni og hjáþrykktu signeti. –
Stóra-Nýjabæ, Vernharður Rafnsson d. 1. júní 1771. Hallvarður Jónsson L. S.”

Og seinna bréfið…

krysuvik 1810-2“Vér undirskrifaðir ábúendur á Krýsuvíkur-hjáleigum gefum til vitundar. 1. Um okkar afmarkaða fjöru sem vér tökum söl oss til lífsbjargar, hvar og so er trjáreki hvörn heimabóndi Krýsuvíkur hirðir og til sín tekur, og megum vér ekki þar af taka álnar langt tré. En þurfum þess þó nauðsynlega við til uppbyggingar vorra leiguhúsa og verkfæra sem vér daglega meðþurfum. En sumir af oss so fátækir að vér getum ekki keypt til húsa eður verkfæra sem vér meðþurfum.
2. Um ásigkomulag hjáleignanna. Fyrst Suðurhjáleiga, henni fylgir eitt kvíildi, eftir hvört árlega eru goldnir 2 fjórðungar smjörs og þrjár vættir af hörðum fiski árlega í landskuld. Þar nærst Norðurhjáleiga sem fylgir eitt kvíildi og eftir það árlega goldið 2 fj. smjörs og 2 vættir í landskuld árlega.

Krysuvik-442

Þriðja hjáleiga, Litli-Nýjabær, fylgir 1 kvíildi og eftir það goldnir 2 fj. smjörs árlega og tvær vættir af hörðum fiski árlega í landskuld. Í þessar skuldir gildir ekki annað að bjóða þó bág tíð falli, en fisk í landskuld og smjör í leigur.
3. Hér er og so bjarg það við sjó sem fuglvarp er í og festi tilbrúkuð að ná fugli og eggjum í þessu bjargi. Bóndinn í Krýsuvík á festina og tekur eftir hana hlut, hann setur þangað so marga menn sem hann vill, en hvör hjáleigumaður á þar einn mann. Krýsuvíkurbjarg er óskipt land og tekur heimabóndi Krýsuvíkur landhlut af þessu bjargi, sömuleiðis tekur hann menn undir festina úr öðrum plátsum til fulls hlutar þá hann vill, að hjáleigumönnum sínum óaðspurðum.
4. Laust við þetta bjarg er og so umflotið sker eður klettur sem fuglvarp er á, í hvörn nefndan klett ekki verður utan á skipi komist. Af þeim klett tekur heimabóndi landhlut og eru nú 8 ár síðan sá landhlutur var fyrst tekinn, og muna ei menn að hann hafi fyrr tekinn verið.
vigdisarvellir-2215. Það er sagt að allt Krýsuvíkurland sé óskipt að fráteknum túnum og engjum. Hér í Krýsu-víkurlandi eru selstöður frá tveimur bæjum í Grindavík, nefnilega Hópi og Þórkötlustöðum. Tekur heimabóndi 1 rixdal árlega frá Hópi en 8 ræðing lætur hann ganga á Þórkötlustöðum sem kvittar þeirra selstöðu, en búsmali þeirra gengur í óskiptu Krýsuvíkurlandi, að fráteknum þeim mikla yfirgang er hross þeirra í Grindavík, tamin og ótamin, veita Krýsuvíkur innbyggj-urum árlega bótalaust á þeirra engjum.
6. Vér Krýsuvíkur innbyggjarar erum til kvaddir að gjöra allt torfverk að Krýsuvíkurkirkju og kirkjugarða og fáum hvörki mat né drykk eður nokkur laun fyrir það erfiði. En þetta skeður tíðast um þann tíma er menn þurfa að bjarga lífi sínum til lands og sjávar.
7. Allir hjáleigumenn hér sem tíund gjöra gjalda kirkjunni árlega 6 fiska og er sá tollur ljóstollur nefndur.
Hopssel II 8. Prestinum gjöldum vér árlega 15 fiska hvör hjáleigumaður í peningum eður undir stakk.
9. Sálist fullorðinn maður hér innan sóknar þá mega menn gjalda 24 fiska í legkaup og prestinum 12 fiska. En eftir ungbarn eður tannleysing 12 fiska í legkaup og 6 fiska prestinum.
10. Allir þeir hjáleigumenn hér sem tíund gjöra gjalda árlega undir stakk 10 fiska hvör maður og er sá tollur kóngsfiskar eður gjaftollur kallaður.
11. Vér gefum og til vitundar halla þann eður afvigt er vér líðum í kaupstaðnum, þar okkar vigt stendur skjaldan eður aldrei heima í kaupstaðnum. En það oss er þar útvegið er oftast lagt á vora vigt.
12. Einninn gefum vér til vitundar bágindi þau sem langvarandi verið hafa og enn nú viðhaldast af fjárpestinni, að menn geta ekki bjargað sér til lands eður sjávar fyrir klæðleysi.
Þessu til frekari staðfestu eru vor undirskrifuð nöfn Krýsuvíkurhjáleigumanna, að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhverfi, dag 1. júní Ao 1771. –
Vernharður Rafnsson, Rafn Magnússon, Jón Jónsson, Magnús Ingimundsson, Hallvarður Jónsson.”

Heimild:
-www.skjalasafn.is, ÞÍ. Rtk. 18,6 örk 11. Lit. Hh. N° 2.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.