Ætlunin var að skoða bæði skjól, sem útilegumenn kunna að hafa hafst við í sunnan Selsvalla á 17. öld sem og „helli“, sem þeir dvöldust í norðan Selsvalla. Hvorutveggja er til í skráðum heimildum og hefur að geyma mannvistarleifar. Í leiðinni var og ætlunin að skoða hinar gömlu götur er liggja að og frá Selsvöllum, selsrústirnar á völlunum og Hverinn eina, en upplýsingar liggja fyrir um brennisteinsnám þar á 17. öld.
Selsvallaselsstígur.
Þegar á upphafsstað var komið sást hvar vegur hafði verið lagður upp hraunhlíðina ofan við núverandi borholusvæði undir Sogunum. Vélarhljóð bárust ofan úr Sogunum. Hvorutveggja, augnstungan í hlíðinni og hávaðinn í annars órsökuðu umhverfinu þar fyrir ofan, særðu hjörtu þeirra sem hafa haft samúð með landinu, sem fóstrað hefur fóður forfeðrana frá upphafi.
Gengið var suður með vestanverðum hlíðum Núpshlíðarháls og inn á Selsvelli, framhjá virku jarðhitasvæði undir Trölladyngju og fallegu smávatni í jarðfalli. Þarna hafði áður verið hinn ágætasti jarðvatnsvarmi, líkt og í Grjótagjá við Mývatn. Við norðanverða Selsvelli birtist Kúadalur fyrst sjónum manna, síðan nyrðri Selsvallalækurinn og Moshóll á hægri hönd, fallegur gígur, sem margir framkvæmdarmenn hafa haft augastað á, þ.e. efnislega. Hóllinn geymir einn fallegasta gjallgíg landsins.
Gengið var inn með ónafngreindum fjöllum austanverðra Selsvalla, að rústunum undir Selsvallafjalli. Þær eru allnokkrar. Ekki er með öllu útilokað að sú stærsta hafi á einhverju tímaskeiði geymt kot eða bæ, enda hefur þarna verið álitleg beit og vænlegar sláttulendur. Suðvestar eru rústir seljanna á Selsvöllum. Áður hafði virst sem gata lægi þar frá eldri rústunum niður að þeim nýrri, en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var um að ræða eldri farvegi Selsvallalækjarins syðri. Hann kemur þarna niður úr gili og hefur leikið sér vítt og breytt um vellina á löngum tíma. Sjá má ummerki eftir lækinn til vesturs en síðan til norðurs á nokkrum stöðum.
Tóft á Selsvöllum.
Rústirnar á suðvestanverðum Selsvöllum er enn samar við sig; Vogaréttin á sínum stað og hinn fallegi stekkur sunnar. Þarna eru tóftir þriggja selja. Eitt þeirra mun hafa verið frá Stað, en hin voru einnig frá Grindavíkurstórbýlunum tveimur; Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Stekkirnir eru jafn margir selstöðunum. Sá þriðji er vestan vallanna, skammt norðan selstóftanna.
Undir hraunhól er op. Ferðin var m.a. farin til að kanna þar inn undir. Við eftirgrennslan kom í ljós að lágur skúti lá þarna undir seltóftina er stóð henni næst. Talsverður jarðvegur hefur sest að á botninum og ekki var að sjá neinar mannvistarleifar í skútanum.
Annar skúti, svipaður, var sunnan við hraunhólinn. Ekki voru mannvistarleifar heldur í honum. Útilegumenn héldu til á þessum slóðum á 17. öld. Þeir áttu að hafa verið þrír saman. Í báðum skútunum var nægilegt svefnrými fyrir þá alla þrjá.
Gömlu alfaraleiðinni (selsgötunni) var fylgt til vesturs. Hún greinist miðja vegu í hrauninu milli Selsvalla og Hraunsels-Vatnsfells, en á því er vatnstæði. Sumsstaðar er gatan grópuð djúpt í klöppina.
Í´“Útilegumönnum og auðum tóftum“ segir m.a. að “um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.
Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.
Leitað að mögulegu útilegumannaskjóli.
Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.
Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.
Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil. Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.
Rétt á Selsvöllum.
Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.
Hverinn eini.
Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.
Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.
Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna.
Keilir.
Þingaði Jón í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum. Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.
Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“
Stefnan var tekin til norðurs yfir frosið mosahraunið. Þetta er hraunssvæði, sem að öllu jöfnu er ekki gengið, enda þykkur mosi víðast hvar á hraunþekjunni. Margir smáskútar er þarna í hrauninu, en enginn þeirra sýnilega með mannvistarleifum í.
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hverinum eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Vatnsstæði við Hverinn eina.
Stefnan var tekin á Þórustaðastíginn er liggur þarna í gegnum hraunið frá suðurenda Driffells og yfir að suðurenda Moshóls við norðanverða Selsvelli. Við hann var gerð leit að hugsanlegum skútum, en engir fundust með mannvistarleifum í. Jarðfall hefur hrunið niður norðan Moshóls og þar skammt norðar er gat niður í jörðina. Hvorutveggja var skoðað gaumgæfilega. Gatið skilaði einum árangri, en nánari skoðun á jarðfallinu gæti hugsanlega skilað einhverri niðurstöðu. Gróið er í botninn og steinar, sem ekki hafa ratað þangað að sjálfsdáðum, eru í jöðrum. Þetta þarf að skoða nánar við tækifæri.
Þá var stefnan tekin eftir selsstígnum norðan Selsvalla að Hvernum eina. Fréttir höfðu borist um það á göngunni að einhverju sinni hefði Hverinn eini verið notaður til brennisteinsnáms.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms.
Á bls. 87-88 segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“
Jóhanna og Viktor úr Vogunum, sem voru með í göngunni töldu víst að þar sem Gísli segist hafa látið leita „hjá Keilir“ og fengið einhver brennistein, geta verið í Hvernum eina, enda um fáa eða enga aðra staði er að ræða. Ummerki í hvernum eru líka þess eðlis, eins og brotist hafi verið niður eftir æðinni. Þar með er Hverinn eini ekki eingöngu náttúruminjar heldur einnig orðin sögulegar minjar.
Rétt á Selsvöllum.
Þegar komið var að Hvernum eina sást vel hvernig svæðið umhverfis hans hafði verið nýtt í framangreindum tilgangi. Verkamenn höfðu brotið sér leið niður eftir brennisteinskjarnanum og kastað „hratinu“ til hliðar og framan við hverinn.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun. Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Hverinn eini.
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Einn slíkan ofan má finna í Brennisteinsfjöllum. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík.
Vitað er með vissu að síðast var numinn brennisteinn í Hvernum eina snemma árs 2006. Þá var og gerð tilraun til að baka þar hverabrauð með misjöfnum árangri. Í það skiptið var þó bætt um betur og braut etið þar jöfnum höndum með smérbræðingi.
Gufuhver sá er sagður var einn sá stærsti hér á landi og mun hafa sést vel frá höfuðborginni um tíma, en dó um 1918, var norðan við Hverinn eina. Svæðið allt ber vott um hverinn og er hið ágætasta minnismerki um það sem einu sinni var, en dó. Öllu ásættanlegra er að horfa á, finna og skynja það sem hefur dáið af sjálfsdáðum en allt það sem deytt er vísvitandi af fáfróðri mannskepnunni.
Loks var haldið eftir fyrrnefndum selsstíg norður með austanverðu Oddafelli og stefnan tekin á upphafsstað.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.
-Landfræðissaga Íslands, bindi II, bls. 84-94, frá 1659.
-www.idan.is
Melhóll við Selsvelli.