Í endurminningum Erlendar Björnssonar frá Breiðabólstöðum á Álftanesi er m.a. fjallað um beitufjöru:
“Ef ekki var stórstraumur og kræklingur til í byrjun vorvertíðar, þá var róið alveg eins og venjulega á síðustu dögum vetrarvertíðarinnar með handfæri og beitt ræksnum. Var þannig róið fyrstu vikuna eða um það bil, eftir því sem stóð á straumi.
En að því loknu bjuggu menn sig undir beituferðir.
Í beitufjötu var farið eftir að straumur var hálfstækkaður, en aðallega í fyrsta stórstraumi eftir lokin. Menn fóru á sexmannaförum með alla skipshöfn. Menn fóru í sínum venjulegu sjóklæðum, alskinnklæddir. Maturinn var smjör, sem drepið var niður í íslenskar öskjur, tveggja punda, og eitt rúgbrauð og tveir harðfiskar. – Þetta var skammturinn fyrir hvern mann. Svo var kaffi og sykur sameiginlegt fyrir alla skipshöfnina, og var það eitt pund af brenndu og möluðu kaffi og eitt stykki af kaffibæti og um þrjú pund af kandíssykri.
Lagt var af stað á ýmsum tímum, en aðallega var miðað við það, að maður hefði hörku aðfall með sér inn Hvalfjörðinn, alla leið frá Kjalarnestöngum og inn eftir. Frá Álftanesi og inn í Laxvog, sem var fyrsti staðurinn, þar sem von var á beitu, var fjögra tíma róður.
Skulu nú taldi upp allir helztu beitustaðir í Hvalfirði sunnan frá.
Laxvogur var fyrstur. Fjörðuborðið þar var mikið, sem út féll af, og var vogurinn allur slétt leira. Þótti hvergi betra að taka krækling en þar, því hann lá í kerfum eða klösum laus á leirbotninum. Voru skeljarnar hreinar að utan og því léttari til flutnings, kræklingurinn sjálfur yfirleitt feitur, og þótti því beita úr Laxvogi alltaf drjúg og góð.
Stampar voru næsti staður, að norðanverðu við bæinn Háls. Lá kræklingurinn þar á lágum, sléttum flúðum. Hann var stór og feitur og talinn ákaflega góð beita. – Voru það einkum vinir húsbóndans á Hálsi, sem fengu leyfi til þess að fara þarna í beitifjöru. Þarna var kræklingurinn seintekinn, því að ætíð varð að kafa eftir honum, en að sama skapi var hann drjúgur, en hann var alltaf hreinn og grjótlaus. En þar sem kræklingur var á malarkenndum botni, vildi smámöl verða föstu við hann, þar sem hann fannst í krefum eða klösum.
Næsti staður var Hvammsvík, næst fyrir innan Stampa, að norðanverðu við Reynivallaháls. Var kræklingurinn þar á staksteinóttum leirbotni. Var beita þaðan talin frekar rýr, en laus og fljóttekin, þó að kafa yrði djúpt þar eins og annars staðar. Varð yfirleitt víðast að kafa eftir kræklingnum, ef ekki hittist á gapastórstraum.
Næsti staður var Hvítanes, rétt fyrir innan Hvammsvík. Var þar malarbotn og kræklingur þar horaður, enda þótt beita væri þar tekin.
Því næst kom Fossá. Þar var malarbotn, kræklingur frekar góður, en mikið af smámöl hékk við hann.
Þá kom Brynjudalsvogur. Voru þar svipaðir staðhættir og í Laxvogi, en lítil beita, en góð, ef hún náðist.
Þá kom næst Botnsvogur, og voru staðhættir þar líkir. Er þá komið innst í Hvalfjörð, Kræklingurinn lá þar á leirbotni, en lítið var þar um beitu.
Þá kom Þyrill. Þar lá kræklingurinn á malarbotni, og þótti beita þaðan góð.
Þá kom næst Litlisandur. Þangað var oft farið í fjöru. Þá kom næst Miðsandur. Þar voru aðstæður alveg eins, malarbotn.
Þá kom Brekka. Var þar forláta beita, er lá á flúðum og skerjum. Hún var mjög seintekin, en alveg hrein og að sama skapi stór og feit. Var hálffermi af beitu frá Brekku eins gott og hleðsla frá Söndunum. En staðurinn var mjög fjöruvandur, en beitan mjög fengsæl.
Laxvogur, Stampar og Brekka voru öndvegisstaðirnir í þessum beituferðum, og var talið, að fiskur brygðist varla, ef honum bauðst beita frá þessum stöðum.
Þá kom næst Bjarteyjarsandur. Var þar malarbotn og beitan eins og á hinum Söndunum.
Loks er að geta Kalastaða. Þar var hnullungs möl með leirbollum á milli. Þótti beita þaðan góð, ef hún náðist.
Eru þá upp taldir allir staðir í Hvalfirði, sem höfðu þessa miklu þýðingu fyrir útveginn fyrrum, og var þar oft margt um manninn. eitt sinn, er ég var í beitufjöru í Laxvogi, taldi ég 30 skip stór og smá, er voru þá í Laxvogi einum.
Vorið 1892 fjórum dögum eftir lokin fór ég t.d. í beitufjöru upp í Hvalfjörð á sexmannafari. Við fórum upp að Brekku. Gekk ferðin vel, og vorum við þrjár fjörur þar á staðnum, og fengum við hleðslu í skipið. Lögðum við af stað í blíðviðri. En þegar við komum á móts við Laxvog, fórum við að mæta skipum, sem voru að fara í beitufjöru. Og þegar við vorum komnir út fyrir Andrésey, þá höfðum við mætt og talið 88 skip, er öll voru á leið inn í Hvalfjörð í beitufjörur. Þetta voru sexmannaför og fjögramannaför. Sýnir þessi skipafjöldi, hve ferðirnar í beitufjörurnar voru mikill þáttur í sjómennsku þeirra tíma.
Var þessi skipafjöldi frá Seltjarnarnesinu og Engey og öllum verstöðvum við Faxaflóða þaðan talið og suður að Garðskaga.
Allt er þetta eins og svo margt annað, er gert var fyrrum, fallið í gleymskunnar djúp, en minningarnar lifa enn meðal þeirra, sem nú eru elztir, um þessi ferðalög.
Þá er að geta þeirra samninga, sem formenn gerðu við landeigendur í Hvalfirði vegna beitunnar. Fyrir fjögramannafar vour greiddar tvær krónur fyrir hleðsluna, fjórar krónur fyrir sexmannafar og sex krónur, ef um áttæring var að ræða. Var farið eftir landaurum, og var hundraðið af verkuðum og hertum þorskhausum metið á fjórar krónur, eða smátt hundrað af siginni grásleppu, sem gilti það sama, eða þá þriðjungur vættar af harðfiski.
Flestir formenn borguðu með þorskhausum eða grásleppu, og fylgdi þessari borgun það, að landeigandinn hitaði kaffi fyrir skipshöfnina, meðan hún dvaldist þar.”
Eins og hér hefur komið fram hefur kræklingur frá fornu fari verið notaður til beitu hérlendis og þóttu góðar beitufjörur í Hvalfirði. Í lok 18. aldar var kræklingatekja á 13 stöðum í firðinum (Lúðvík Kristjánsson 1985). Á árunum 1940-1950 var villtur kræklingur úr Hvalfirði soðinn niður í niðursuðuverksmiðju S.Í. F. (Sigurður Pétursson 1963) og þegar best lét voru tekin mörg bílhlöss af kræklingi á dag (Högni Torfason 1987).
Heimild:
-Erlendur Björnsson, endurminningar, Sjósókn (Jón Thorarensen), 1945, bls.81-84.