Strandirnar eru ein af perlum Álftaness, reitir sem sveitastjórnin hefur lýstur sem friðland. Þar er ríkt af fugli í fjörum og selir úti í skerjum Áður var þar mikið kríuvarp við litla tjörn á ströndinni.
Þótt fuglamergðin á Álftaneslandinu hafi verið meiri á árum áður og land verið hækkað að hluta með uppfyllingu, þá eru fjörurnar óbreyttar og skerin sannkallaður ævintýraheimur fyrir forvitið fólk á öllum aldri. Grjótið er iðandi af lífi og síbreytilegt. Tilfallandi sæbúar frá dýpri sjó verða hér á vegi fjörulallanna og þeir endurnýjast í ölduróti sem oft er ægifagurt á að líta.
Vorið 2004 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2004-2008 sem fól umhverfisráðuneytinu að vinna að friðlýsingu 14 nýrra svæða á landinu auk þess að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Markmiðið var að stuðla að traustari verndun íslenskrar náttúru, meðal annars með því að mynda net verndarsvæða til þess að vernda líffræðilega fjölbreytni landsins. Helmingur þessara svæða eru vel þekkt og mikilvæg fuglasvæði og auk þess vinsælir ferðamannastaðir eða útivistarsvæði. Tvö þeirra hafa mikla þýðingu fyrir fjölda farfugla sem heimsækja landið vor og haust þ.e. Álftanes og Skerjafjörður.
Strandlengja höfuðborgarsvæðisins er löng og er vinsæl til útivistar. Nýtur fjöldi fólks gönguferða sem og fugla- og náttúruskoðunar við ströndina. Sums staðar hafa framkvæmdir í gegn um tíðina leitt til verulegrar breytinga á umhverfi strandarinnar hér við höfuðborgarsvæðið. Slíkt leiðir til vitanlega til þess að fæðu- og búsvæðum margra tegunda lífvera meðal annars fugla raskast. Það hefur einnig leitt til þess að hlutar fjörunnar eru nú óaðgengilegri sem útivistarsvæði. Hins vegar, þrátt fyrir alla þá byggðaþróun og fjölgun sem orðið hefur á örfáum áratugum hér á Innnesjum, má segja að sveitarstjórnir og skipulagsyfirvöld hafi reynt að vera framsýn í störfum sínum. Þótt ströndunum hafi víða verið raskað, sérstaklega næst þéttbýlinu, er enn verulegur hluti strandarinnar frá Gróttu suður í Hafnarfjörð að hluta til óraskaður. Í því eru fólgin ómetanleg verðmæti fyrir íbúa þessa landshluta. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því fyrir þéttbýlisbúa að eiga þess kost að njóta náttúrugæða og umhverfis sem er ómanngert að mestu leyti. Nú eru á vegum einhverra sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu fyrirhugaðar umfangsmiklar breytingar á ströndinni og grunnsvæi meðal annars með auknum landfyllingum. Við undirbúning og ákvarðanatöku um slíkar landfyllingar er mikilvægt að hugað sé að umhverfisþáttum og þeim áhrifum sem framkvæmdirnar hafa á lífríkið og aðgengi almennings að náttúrulegum svæðum.
Mikilvægt er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi samráð og samvinnu um verndun strandsvæða höfuðborgarsvæðisins og hvernig best megi varðveita náttúrulegt ástand og yfirbragð strandsvæðanna og eyja svæðisins. Mikilvægt er að sveitarfélögin taki höndum saman um að friðlýsa það svæði við Skerjafjörðinn sem er á náttúruverndaráætlun til þess að vernda náttúrufar svæðisins til framtíðar og skapa samfellt útivistarsvæði meðfram strandlengjunni. Að sjálfsögðu þarf í þessu ferli að ræða um mismunandi nýtingu og mismunandi verndarstig.
Mikilvægt er að meta hvaða svæði eru mikilvægust út frá náttúrufari og hvernig best megi viðhalda ásýnd og eðli þeirra. Það þarf jafnframt að sjá til þess að breytingar á svæðum sem minni þýðingu hafa fyrir líffræðilega fjölbreytni, jarðfræði eða vegna útivistar rjúfi ekki heildarsýn og samfellu svæðisins eða skerði útivistargildi þess.
Fyrir nokkrum árum var haldin hér á landi alþjóðleg ráðstefna um tengsl náttúru og friðlýstra svæða við heilsu, vellíðan og útivist. Þar kom skýrt fram hjá fyrirlesurum frá öllum Norðurlandanna að útivist á náttúrulegum svæðum hefur margháttuð jákvæð áhrif á fólk, s.s. heilsufar og lífsánægju, dregur úr streitu, eykur tengsl við náttúruna og bætir skilning á tengslum og stöðu mannsins í náttúrunni. Það skiptir miklu fyrir lífsgæði fólks í þéttbýli að menn hafi góðan aðgang að friðlýstum og náttúrulegum svæðum sem næst heimili sínu sem gengið er um af varúð og viðingu. Það er meðal annars af þessum ástæðum sem það skiptir miklu máli að vernda þá fjöruhluta, sem enn er óraskaðir á Reykjanesskaganum.
Fjaran utan við Álftanes er einstaklega aðgengileg fólki. Góður göngutúr um hana sannfærir viðkomandi ekki einungis um mikilvægi hennar fyrir lífríkið heldur og fyrir hinu jákvæðu áhrif, sem hún hefur fyrir þá er hennar fá að njóta.