Fjara

 Nærtækastu útivistarsvæði Grindavíkur, sem og allra annarra sjávarbyggðalaga á Reykjanesskaganum, eru fjaran annars vegar og heiðar og fjöllin hins vegar. Hér er ætlunin að gera fjörunni svolítil skil.
Fullt tunglFjara er nafnið á breytilegum mörkum lands og sjávar. Þar sem sjávarfalla gætir verður þessi ræma ýmist breiðari eða mjórri en ella. Sjávarföll sjást mjög greinileg í sjó.
Sjávarföll eru afar regluleg. Þegar sjávarmálið er hæst eru flóð, háflóð eða hásjávað. Þegar sjórinn tekur að lækka verður fjara eða sé útfall. Um sex klukkustundum og fimmtán mínútum eftir að útfall byrjar stendur sjórin lægst, þá er fjara, háfjara, lágfjara eða lágsjávað. Sjávarföll breytast einnig reglulega eftir því hvernig stendur á tungli. Þau eru einna mest á tveggja vikna fresti þegar tunglið er fullt eða nýtt. Þá er sagt að stórstreymt sé. Minnst eru svo sjávarföllin um viku eftir stórstreymi, og er þá sagt að sé smástreymt. Aðdráttarafl tungls og sólar á jörðinia valda sjávarföllum, og hefur tunglið mun meira að segja. Þessir hnettir toga í jörðina, og fer það eftir afstöðu þeirra hvar togkrafturinn verkar mest.
ÞangUmhverfið í fjörunni er á margan hátt sérstakt og gerir hana að einstæðu búsvæði fyrir lífverur. Hún liggur á mörkum tveggja ólíkra heima og ber einkenni beggja. Sá umhverfisþáttur sem fyrst og fremst breytist þegar haldið er niður eftir fjörunni eða upp eftir henni er auðvitað vætan, eða með öðrum orðum það hversu oft og hversu lengi í senn fjaran er á kafi eða á þurru. Lífríki fjörunnar er mikið en ætla mætti að það fyndist álíka mikið af sjávarlífverum og landverum en svo er ekki, sjávarlífverur ráða ríkjum í fjörunni. Sumar þeirra lifa helst ekki nema í fjörunni sjálfri, fjaran er aðalkjörlendi þeirra
Umhverfi fjörunnar er mjög misjafnt, sumstaðar er sandur og möl en svo er sumar fjörur þaktar brimnúnum hnullungum. Þannig að fjörunum er skipt niður í ákveðna flokka eftir hvernig þær eru gerðar.
Þangfjörur eru einn af þessum flokkum og eins og nafnið gefur til kynna þá er það þangið sem setur svip sinn á þessar fjörur. Þangfjörur finnum við helst þar sem brim er ekki mikið og þar sem fjörubeðurinn er klappir eða nokkuð stórir hnullungar. Þangfjörur eru ein útbreiddasta fjörugerðin hér við land, en þó er lítið um þangfjörur við suðurströnd landsins. 

Fjörugrjót

Þangfjörur eru mjög auðugar af lífi, þar þrífast margar tegundir þörunga og dýra. Hrúðukarlafjörur er þar sem brim er mikið og undirlagið klappir en við þessar aðstæður er hrúðukarlinn það sem mest ber á. Hann situr vel fastur og þarf ekki að óttast það að brimið slíti hann upp. Fáar aðrar tegundir þola þetta. Fjörusvertan lætur þó brimið ekki á sig fá og litlar klappir svartar ofan við hrúðukarlana, og í sprungum þar leynast klettadropar. Fjörur af þessu tagi má kalla hrúðurkarlafjörur. Hnullungafjörur fyrir opnu hafi eru þær fjörur sem innihalda hnullunga sem eru brimnúnir og hafa skarpar brúnir máðst af á löngum tíma. Öldurótið hreyfir hnullungana nema þá stærstu. Ef brim er ekki því meira geta þörungar vaxið á stærstu steinunum, helst ofarlega á þeim þar sem ekki er hætta á því að fá högg frá smáum steinum sem brimið hreyfir. Búsvæði fyrir dýr í þessum fjörum finnast á milli hnullunga langt undir yfirborðinu.
Skjóllitlar sandfjörur eru þar sem fjaran er fyrir opnu hafi. Í þessum Skeljar og hrúðurfjörum er oft mikið brim og sandurinn því á mikilli hreyfingu. Þessar fjörur sýnast alveg lífvana, en við þær má oft sjá seli. En við nákvæma skoðun kemur í ljós ótrúlega mikið af örsmáum dýrum sem hafast á milli sandkorna. Í sandfjörum fyrir opnu hafi er það mikil endurnýjun á sjónum milli sandkornanna að til súrefnisskorts kemur varla. Kræklingsleirur myndast þar sem er sandur eða möl og gott skjól, við þessar aðstæður verður kræklingu oft mjög áberandi. Þessar fjörur eru yfirleitt sléttar og flatar og mjög stórar um sig. Fjörufuglar sækja mikið í kræklingsleirur. Beðurinn í kræklingsleirum er stundum svo gljúpur að sum dýr geta grafið sig ofan í hann og komið sér þar fyrir. Sandmaðksleirur myndast þar sem skjól er gott og beðurinn mjög fíngerður, fínn sandur eða möl, en við þessar aðstæður verður sandmaðkurinn sú lífvera sem mest ber á. Sandmaðksleirur eru rennisléttar og flatar og mjög stórar um sig. Mestar eru þær innst í fjörðum og vogum. Oft er mikið af fuglum á sandmaðksleirum. Sjávarfitjar myndast ofarlega í fjörum, þar sem skýlt er, og hefur jarðvegur með háplöntugróðri sums staðar náð að myndast. Gróðurinn er fábreyttur. Sjávarfitjungurinn svonefndi, sem er grastegund, er oftast ríkjandi. Á sjávarfitjum er oft mikið af smátjörnum.

Fjaran

Lífríki þessara tjarna er nokkuð sérstætt, en misjafnt en það er seltumagnið sem ræður hvers konar plöntur og dýr finnast þar. Sjávarfitjar mynda aðeins hluta fjörunnar á hverjum stað, því neðan við þær taka aðrar fjörugerðir við, þangfjörur eða leirur. Árósar og sjávarlón eru svæði sem bæði hafa fjörur. Árósar er það svæði þar sem sjór og ferskt vatn mætast. Lífríki árósa er að mestu leyti ættað úr sjónum. Sjávarlónin eru svæði sem sumpart líkjast árósum. Þetta eru vötn eða vogar sem tengjast sjónum, en þessi tengsl eru takmörkuð miðað við það sem gerist í opnum árósum. Lífríkið er mjög fábreytt vegna lítillar seltu

Fjörudýr
Kræklingurinn er eitt allra algengasta dýr fjörunnar hérlendis eins og víða erlendis. Þó er hann enn algengari neðan fjörunnar. Hann gerir raunar óvenju litlar kröfur til umhverfisins. Í fjörum er hann bæði að finna í klettafjörum fyrir opnu hafi þar sem brim er oft mikið, í venjulegum þangfjörum og við árósa. Það má oft sjá þess merki að kræklingurinn kann sérlega vel við sig þar sem ferskt vatn rennur til sjávar, við lækjarsprænur í fjörunni eða við árósa. Kræklingurinn situr fastur við við undirlag sitt með sérstökum þráðum sem hann spinnur. Kræklingurinn er í hópi svonefndra síara, en það eru dýr sem sía örlitlar fæðuagnir úr sjónum með sérstökum líffærum.

Aða

Kræklingurinn er mikið lostæti að mati manna og ýmissa dýra. Margir fuglar eru gráðugir í krækling, ekki síst æðarfuglinn, en einnig ýmsir vaðfuglar og máfar. Þótt kræklingurinn sé eitt algengasta fjörudýr hér við strendur er það þó svo að langmest af þeim kræklingi sem Íslendingar leggja sér til munns á síðari árum er erlend, niðursoðin vara.
Marflær eru krabbadýr sem eru mjög algeng í fjörum og af þeim eru margar mismunandi tegundir. Algengastar eru svokallaðar fjöruflær, en þarna eru á ferð eina átta tegundir sem eru svo líkar innbyrðis að það er aðeins á færi sérfræðinga að greina þær í sundur. Þegar lágsjávað er safnast fjöruflær fyrir undir steinum, þangi eða reköldum. Þar helst raki, en fjöruflærnar þola þurrt loft aðeins í skamman tíma. Sumar marflær í fjöru ganga um á réttum kili, en skríða ekki á hliðina eins og fjöruflærnar.
Bogkrabbinn er dæmi um sjávardýr sem er að finna bæði í fjörunni sjálfri og á sjávarbotni neðan fjöru. Það eru einkum smáir krabbar sem halda til í fjörunni, og eingöngu að sumri til. Þegar haustar halda allir bogkrabbar niður úr fjörunni. Bogkrabbinn er rándýr eins og flestir aðrir krabbar. Hann grípur bráð sína með klónum á gripfótunum og heldur henni að munninum, þar sem sterkir kjálkar aðrir munnlimar vinna á henni. Bogkrabbar hafa tíu fætur, þar með taldir hinir stóru gripfætur fremst á bolnum sem eru raunar ekki notaðar til gangs.

Krossfiskar eru flokkaðir í tvo flokka, stórkrossa og roðakrossa. Stórkrossinn verður fimmtán sentimetrar eða meira í þvermál, en roðakrossinn vart meira en átta sentimetrar. Báðir krossfiskarnir eru fimm-arma, en algengt er þó að rekast á krossfiska með færri arma. Krossfiskar eru búnir fjölmörgum smáum sogfótum á neðra borði. Þeir hreyfa sig úr stað með þessum sogfótum, en eru mjög hægfara. Krossfiskar eru rándýr, sem einkum leggjast á samlokur. Þeir skríða yfir bráð sína, festa sogfætur við báða skeljahelminga og taka síðan til við að toga skeljarnar í sundur.

Fjaran er allt árið

Ásamt þessum dýrategundum má nefna svona helstu tegundir sem finnast við íslenskar fjörur eins og hrúðukarla, slöngustjörnur, skollakroppur og þangflugur.
Fjörur eru margvíslegar að gerð til dæmis eftir gerð undirlags, halla og brimasemi, seltu, hitastigi sjávar. Það eru klettafjörur, malarfjörur, hnullungafjörur, sandfjörur og leirur.
Brim og undirlag hefur líklega langmest áhrif á hvers konar lífríki er að finna í fjörunni.
Skjólsælar fjörur geta verið með leir eða fíngerðum sandi. Þær virðast snauðar við fyrstu sýn en ofan í leirnum leynist oft fjölskrúðugt lífríki. Vaðfuglar hópast í leirfjörur í leit að æti vor og haust.
Bóluþang er brúnþörungur. Plantan er 40 til 90 cm há. Blöðin eru 1 til 2 cm breið með greinilegri miðtaug. Blöðin kvíslgreinast með tiltölulega reglubundnum hætti. Á bóluþanginu eru hnöttóttar loftfylltar blöðrur sem eru tvær og tvær (stundum þrjár) saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Blöðrurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum er þær í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Bóluþangið er brúnt en stundum grænleitt eða brúnleitt.
Fjörugrös eru rauðþörungar, 5 til 20 cm há. Upp af festuflögu, sem festir þau við klappir og stóra steina, vex flatur stilkur sem breiðist út í blævængslaga plöntu. Fjörugrösin eru kvíslgreind með sléttum greinum sem eru 0,5 til 1 cm á breidd og eru greinarendarnir oftast bogadregnir. Þau eru dökkrauð, oft næstum svört á lit, sérstaklega neðri hluti plöntunnar. Þar sem þau vaxa í mikilli birtu verða efri hlutar plöntunnar gulleitir eða grænleitir.
Útlit og stærð fjörugrasa er talsvert breytilegt eftir því hversu brimasöm fjaran er þar sem þau vaxa. Í brimasömum fjörum vaxa þau stundum mjög þétt, eru lágvaxin og mynda þekju sem líkist grófri mosaþekju. Stundum slær af þeim ljósbláum bjarma sem stafar af ljósbroti í greinunum. Talið er að fjörugrös geti orðið að minnsta kosti 6 ára gömul. Hugsanlegt er að festurnar séu enn eldri en nýjar plöntur geta vaxið aftur og aftur upp af sömu festunni.
Önnur tegund rauðþörunga, sjóarkræða, getur líkst fjörugrösunum en hana má greina frá fjörugrösum á því að greinar hennar eru rennulaga.
Kólgugrös eru 5 til 25 cm langir, óreglulega greinóttir rauðþörungar. Oftast er einn stofn sem er þéttvaxinn hliðargreinum sem greinast aftur. Ystu greinarnar eru holar að innan en stofngreinarnar stinnar og gegnheilar. Stofngreinarnar eru dökkrauðar eða svartar en ytri greinarnar rauðar. Á vorin og sumrin upplitast ytri greinarnar og verða gul- eða grænleitar.
SkúfþangKólgugrös eru fjölær. Fyrsta árið vex upp ein grein. Næsta ár verður hún að stofngrein en aðrar greinar vaxa út úr henni neðan til. Síðan bætast enn við greinar árið þar á eftir. Talið er að kólgugrös geti orðið þriggja til fjögurra ára gömul.
Marhálmur er grastegund sem vex í sjó, er oftast 30 til 70 cm á lengd en getur orðið meira en einn metri. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili. Blöðin eru löng og bandlaga og bogadregin fyrir endann. Þau eru 2 til 4 mm á breidd og með einum til þremur æðastrengjum. Blöð marhálms eru dökkgræn á litinn en jarðlægu stönglarnir eru hvítir eða ljósgrænir. Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
Maríusvunta er blaðlaga grænþörungur sem er 5 til 15 cm á lengd og 3 til 10 cm á breidd. Maríusvunta getur þó orðið miklu stærri eða allt að 60 cm í þvermál, helst verður hún svo stór á mjög lygnum stöðum. Hún festist við klappir og grjót með lítilli skífulaga festu og upp af henni er mjög stuttur stilkur. Eitt heilt blað situr á stilknum. Það er bylgjótt og heilrennt, fagurgrænt á litinn og glansar þegar ljósið fellur á það. Þegar blaðið eldist slitnar það, étin eru á það göt og blaðið verður óreglulegt í lögun.
Maríusvunta er lík nokkrum öðrum tegundum af grænum himnum sem vaxa í fjörunni, m.a. grænhimnu og marglýju. Þær eru báðar talsvert þynnri en maríusvunta og við smásjárskoðun á þversneið af blaðinu sést að maríusvunta er gerð úr tveimur frumulögum en hinar einungis úr einu.
Skúfþang er blaðlaga brúnþörungur. Blöðin eru kvíslgreind og slétt, með fremur ógreinilegri miðtaug. Skúfþangið getur verið mjög breytilegt í útliti. Algengasta afbrigðið er 30 til 90 sm langt með 1 til 2 cm breiðum, sléttum blöðkum. Afbrigði sem vex í skjólsælum fjörum er breiðara og er með stórum aflöngum loftblöðrum sem liggja tvær og tvær saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Annað afbrigði sem lifir í fjörupollum efst í fjörunni í fremur brimasömum fjörum er um 20 til 40 cm langt og hefur mjóar greinar, sem eru um og innan við ½ cm á breidd. Á klöppum í mjög brimasömum fjörum er enn eitt afbrigði skúfþangs sem hefur tiltölulega stóra og kröftuga festu, þykkan stilk og er lágvaxið.
Söl eru rauðþörungar. Plantan hefur lítinn stilk sem er sjaldan lengri en 5 mm. Upp af stilknum vex oftast eitt en stundum fleiri blöð (stofnblöð). Út úr jöðrum stofnblaðsins vaxa hliðarblöð sem eru aflöng og þynnri en stofnblaðið. Heildarlengd sölva er venjulega 20 til 30 cm. Söl eru dökkrauð á lit þar sem þau vaxa í fullsöltum sjó. Söl sem vaxa í fjörunni geta hins vegar upplitast og orðið gul eða græn. Sérstaklega ber á því ef þau lenda í sterku sólarljósi eða ef þau vaxa í seltulitlum sjó, til dæmis nálægt árósum. Neðsti hluti plöntunnar er þó alltaf rauður.
SölSöl vaxa aðallega snemma á vorin. Algengast er að þau vaxi upp af brotum af gömlum stofnblöðum, sem hafa orðið eftir frá fyrra ári (sölvamóðir). Söl byrja að þroskast seinni hluta mars og eru venjulega fullsprottin í lok maí eða byrjun júní. Lítill vöxtur er síðan yfir sumarið en þá safna sölin í sig forðasykrum. Um haustið byrja plönturnar síðan að slitna. Fyrst falla hliðarblöðin af en smám saman slitnar einnig af stofnblaðinu og lifir aðeins hluti af því yfir veturinn. Næsta vor vaxa ný hliðarblöð aftur út frá jöðrum gamla stofnblaðsins. Þannig getur hver planta lifað í nokkur ár. Eftir að vöxtur hættir í byrjun sumars, fara ýmsar ásætur, dýr og plöntur að taka sér bólfestu á sölvunum og er venjulega mest um ásætur á blöðunum í lok sumars.
Klettafjörur og stórgrýtisfjörur er helst að finna þar sem nokkurs brims gætir og þar sem fjaran er fyrir opnu hafi. Þar er fjölbreytt líf bæði dýra og þörunga.
Brim og undirlag hefur líklega langmest áhrif á hvers konar lífríki er að finna í fjörunni.
Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botninn en hreyfanlegar lífverur geta þó þrifist þar í skjóli undir þanginu. Eftir því sem brimið minnkar eykst fjöldi hreyfanlegra lífvera í fjörunni.
Dvergþang er smávaxinn brúnþörungur. Það er 5 til 10 cm hátt, ljósbrúnt á lit eða gulleitt. Greinarnar eru 1 til 4 mm breiðar, rennulaga og án miðtaugar. Greinarnar kvíslgreinast. Dvergþang er fest við botninn með lítilli, skífulaga festu. Enginn stilkur er á dvergþangi.
Dvergþang vex hægt eða 3 til 4 cm á ári þegar vöxtur er mestur. Talið er að dvergþangið geti orðið 4 ára gamalt.
Allra efst í fjörunni ofan við þörungana eru grjót og klappir iðulega þaktar skófum sem oft eru svartar og líkjast tjöruskán á steinunum. Skófirnar geta þó verið margvíslegar á litinn, grænar, gráar, appelsínugular eða hvítar. Oft mynda þær skorpur á steinunum en geta einnig verið smáar fíngerðar hríslur eða blaðlaga og festar við steininn með stilk.
Til eru allmargar tegundir skófna sem lifa efst í fjörunni en flestar þeirra er einnig að finna annars staðar. Þó eru til tegundir eins og fjörusverta (Verrucaria maura) sem bundin er við efri hluta fjörunnar og myndar þar þunna svarta skán á klöppunum. Græna flæðaskófin (Verrucaria mucosa) lifir um alla fjöruna niður að neðstu fjörumörkum og er eina tegund skófna sem lifir í neðri hluta fjörunnar hér við land. Hún er dökkgræn á litinn.
FlétturSkófir, sem eru einnig kallaðar fléttur, eru í raun ekki sjálfstæðir einstaklingar heldur sambýli svepps og þörungs. Sveppurinn í hverju sambýli er einstakur og er ekki að finna nema í einni fléttutegund. Þörungurinn er hins vegar ekki eins trygglyndur og getur sama þörungategundin fundist í mörgum fléttutegundum.
Í sambýlinu sér þörungurinn alfarið um ljóstillífun og nýmyndun lífræns efnis. Sveppurinn nærist á forðanum sem þörungurinn myndar. Á móti ver hann þörunginn fyrir beit, of sterku ljósi og heldur honum rökum.
Klapparþang er blaðlaga brúnþörungur sem er 10 til 30 cm hár. Það er fest við botninn með skífulaga festu. Upp af festunni er sívalur stilkur sem endar í greinóttum blöðum. Blöðin eru ½ til 1 cm breið með greinilegri miðtaug. Þau eru kvíslgreind og eru sjaldan með loftblöðrum sem eru aflangar, tvær og tvær saman sín hvorum megin miðtaugarinnar. Greinar klapparþangsins eru uppsnúnar og er það greinilegast á efstu greinunum. Klapparþangið er brúnt eða gulbrúnt á litinn en getur orðið rauðleitt eftir langvarandi þornun. Það er fjölært og getur orðið a.m.k. 5 ára gamalt.
Klóþang er að stofni til kvíslgreint, sem sést vel ef maður skoðar endagreinarnar, en vegna hliðarsprota sem vaxa út úr stofninum virðist plantan fljótt á litið óreglulega greinótt. Greinarnar eru flatvaxnar. Loftfylltar bólur eru með mismiklu millibili á greinunum. Bólurnar eru venjulega þéttastar nálægt endum greinanna en gisnari eftir því sem neðar dregur. Á hverju ári myndast ein ný loftbóla rétt neðan við enda greinanna. Greinar klóþangs verða um einn cm á breidd og plantan sjálf er oftast 0,5 til einn metri á lengd en getur orðið allt að tveimur metrum. Á vorin vaxa litlir uppblásnir belgir út úr hliðum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.
Klóþang er oftast gulbrúnt á að líta, þar sem það liggur í fjörunni, en ef því er velt við sést að neðstu hlutar þess, sem eru í skugga, eru ólífugrænir. Talið er að klóþang geti orðið meira en 100 ára gamalt.
Kóralþang er kalkkenndur rauðþörungur. Það er oftast 3 til 8 cm langt en getur orðið 12 cm. Plantan vex upp af skorpulaga festu sem hefur óreglulega lögun og getur verið allt að 7 cm í þvermál. Hún er greinilega liðskipt, gerð úr stuttum kalkkenndum, sívölum liðum. Greinarnar eru gagnstæðar og og sitja þétt eins og fanir á fjöður. Þær eru lengstar neðst, næst festunni en styttast eftir því sem nær dregur toppi. Litur kóralþangs er fjólublár, rauður eða bleikur, oftast þó hvítur á endum greina og við liðamót. Æxlunarfærin eru perulaga og sitja á endum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.
Kóralþang er fjölær planta. Þegar vöxtur er hraðastur vex hún um 0,2 til 1 mm á mánuði. Heildarársvöxturinn er þó sennilega sjaldan meiri en 1 til 3 mm við það hitastig sem ríkir hér við land.
Sagþang er fremur stórvaxinn brúnþörungur. Það er oftast 40 til 70 cm hátt en getur orðið meira en einn metri á hæð. Það er fest við klappir eða steina í fjörunni með heilli, óreglulegri festuflögu. Upp af henni vex sívalur stilkur sem flest út í greinótt blöð sem eru 2 til 3 cm á breidd. Sagþangið er oftast kvíslgreint en er stundum með víxlstæðar greinar. Greinileg miðtaug er í blöðunum og beggja vegna hennar eru blöðin með litlum, hvítum hárskúfum sem sjást vel þegar blaðið þornar. Jaðar blaðanna er áberandi sagtenntur, með tennur sem vísa upp. Sagþang þekkist vel af tönnunum. Það er gulleitt, ljósbrúnt eða ólívugrænt. Á greinunum eru engar loftfylltar bólur. Sagþang er fjölær planta sem lifir í 2 til 5 ár Hún vex um 4 til 12 cm á ári.
Sjóarkræða er rauðþörungur sem er 5 til 10 cm á hæð með greinum sem eru um 0,4 til 0,8 cm á breidd. Hún vex upp af skífulaga festu. Sjóarkræða er óreglulega kvíslgreind og eru greinarnar rennulaga. Þegar sjóarkræðan er fullvaxin eru separ á greinunum og eru flestir þeirra inni í rennunni. Greinarnar eru stinnar og geta verið uppundnar eða hlykkjóttar. Sjóarkræða er dumbrauð, svört eða rauðbrún á litinn. Ef hún lendir í sterku sólarljósi getur hún upplitast og orðið ljósrauð eða gulleit. Þar sem sjóarkræða vex mjög þétt líkist hún samfelldri mosaþembu.
Önnur tegund rauðþörunga, fjörugrös, líkist sumum afbrigðum sjóarkræðunnar. Munurinn á tegundunum felst í að greinar sjóarkræðunnar eru rennulaga en fjörugrasanna flatar. Separnir á blöðum sjóarkræðunnar afhjúpa einnig tegundina.
Eins og sjá má hefur fjaran upp á fjölmargt að bjóða – engu síður en fjöllin.

Heimildir m.a.:
-http://nams.is/hafid/+fjaran
-http://fa.is/deildir/Liffraedi/VIS/VIS/hafid/fjaran.

Fjaran