Ekki hefur mikið verið skráð og ritað um hlaðnar refagildrur. Slík veiðaðferð; grjótgildrur, virðast annað hvort hafa fallið í gleymsku eða orðið jarðlægar. Ástæðurnar eru nokkrar.
Í fyrsta lagi þótti löngum ekki tiltökumál þótt grjótgildra væri í nánd við bæ, verstöð, geymslustað eða þéttbýli. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem notkun þeirra lagðist af, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Í öðru lagi hafa gildrurnar verið í notkun um langan tíma, jafnvel allt frá landnámstíð, svo margar þeirra hafa gleymst og orðið að jarðarinnar ásýnd.
Þegar FERLIR skoðaði svæðið ofan við Stað og Húsatóftir við Grindavík komu í ljós sjö áður óþekktar grjótgildrur. Án efa eru þær fleiri, ef vel væri leitað. Hafa ber í huga að ekki er langt um liðið að FERLIR fann 3 áður óþekktar refagildrur austan Húsatófta.
Refagildra.
Engra þeirra er getið í rituðum örnefnaskrám eða fornleifaskráningum af svæðinu. Þrátt fyrir það eru þekktar refagildrur nálægt þeim bænum orðnar 10 talsins. Nú (í marsmánuði árið 2010) eru þekktar 51 grjóthlaðin refagildra á Reykjanesskaganum og ef að líkum lætur munu finnast fleiri er fram líða stundir. Hafa ber í huga að helmingur þekktra hraunhella á Íslandi hafa fundist eftir aldamótin 2000 – vegna þess að eftir það hefur verið leita skipulegar af slíkum náttúrufyrirbærum í ríkara mæli. Að leita að ummerkjum eftir refagildru krefst mikillar einbeitingar og gerir þá kröfu til leitandans að hann hafi þekkingu á hvar slíkar mannvistarleifar kunni að finnast.
Á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands segir eftirfarandi um refagildrur: „Tófugildra: Gildra til að veiða í refi. Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni.“
Páll Hersteinsson fjallar um refaveiðar í riti Landverndar (nr. 7) árið 1980. Þar segir hann m.a.: “Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum.
Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar, Gildrunef og Gildrumelar, Byrgisskarð og Byrgismelur, og getur sums staðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Refskinn voru löggiltur gjaldmiðill.
Refurinn var álitinn mikill skaðvaldur.
Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir.
Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári. Það kallaðist dýratollur.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur.
Bændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra til að fylgja eftir refaveiðum.
Refagildra við Húsatóttir.
Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á reglugerðum. Öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði.
Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum.
Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu.
Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar.
Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót [1900], en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum.
Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Nú ríkir eitrunarbann.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Nú ríkir eitrunarbann.“
Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, segir frá refagildrum í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1980. Þar skrifar hann m.a.: „Til eru gamlar lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. í Hrappsey 1780.“ Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélags-ritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson.
Í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær.”
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi.
Grjótgildrur hafa verið notaðar víða um land. Gildrur þessar eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænt hellublað, um 20 sm breitt neðst og um 30 sm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega hefur tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við.
Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í rauninni einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og hvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin, samkvæmt þeim lýsingum, sem síðar verður getið, og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”
Í Þjóðviljann árið 1964 er skrifað um refagildru á Látrum. Þar segir óþekktur höfundur: „. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana upp á brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo upp úr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og þvi skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrulegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar heldur gömul raunhæf vitneskja. Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu.”
Skammt ofar, í Berghrauni skammt vestan Lynghólshrauns, má sjá ummerki eftir grenjaskyttur; hlaðin skjól. Í örnefnalýsingu fyrir stað er þess sérstaklega getið að „mörg greni eru í Lynghólshrauni“. Þar verður leitað ummerkja fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.instarch.is/instarch/ordasafn/r/
-Páll Hersteinsson, rit Landverndar (nr. 7) árið 1980.
-Heimild: Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.
-Helgi Gamalíelsson – Stað.
Refagildra við Húsatóftir.