Þormóðsdalur

Um gullnámuna í Þormóðsdal segir m.a. í Árbók VFÍ/TFÍ 1994-1995:
gull-13„Saga steiningar og tilrauna til gullnáms á Íslandi er nátengd. Lengi voru gamlar sagnir um að gull væri fólgið í jörðu í landi Miðdals í Mosfellssveit. Einar Guðmundsson lét á fyrsta áratug aldarinnar greina hversu mikið gull væri í sýnishorni úr kvartsæð sem lá yfir Seljadalsá. Niðurstöðurnar reyndust jákvæðar og í framhaldi af því var rannsóknum haldið áfram. Einar Benediktsson kom þar mikið við sögu og stóð hann ásamt öðrum fyrir stofnun nokkurra hlutafélaga um gullvinnslu í landi Þormóðsdals og Miðdals.
Aktieselskabet Pluto Limited var stofnað 1911 með bresku og norsku fjármagni og stóð það félag fyrir ítarlegum rannsóknum árin 1912 og 1913. Grafnar voru geilar í kvartsæðina niður sitt hvoru megin við Seljadalsá, en niðurstöður rannsókna þóttu ófullægjandi og rétt þótti að kanna málið enn frekar.
gull-1Fyrri heimsstyrjöldin tafði framgang rannsókna, en Norræna námufélagið vann við rannsóknir í Miðdal árin 1923-1924. Hlutafélagið Arkturus sem var stofnað með Þjóðverjum vann á svæðinu árin 1924-1925. Þessi félög réðust í kostnaðarsamar rannsóknir og grófu námugöng eftir kvartsæðinni sitt hvorum megin við Seljadalsá. Niðustöður rannsókna sem þessir aðilar stóðu fyrir voru nokkuð samhljóða. Gull var vissulega í kvartsinu og sýndu mælingar það var á bilinu 11-315 grömm í hverju tonni af grjóti. I mörgum gullnámum í Suður-Afríku, þar sem námuvinnsla þótti arðbær fengust aðeins 8-10 grömm af gulli úr hverju tonni af málmgrýti. Ætla má að að lengd kvartsæðarinnar, tæpir tveir kílómetrar og takmarkað umfang námunnar í Miðdal hafi verið helsta ástæðan fyrir því að álitið var að vinnsla á gulli borgaði sig ekki.
Ekki var þar með öll sagan sögð með námuvinnslu á gullkvartsi. Guðmundur Einarson frá
frá Miðdal (sonur Einars Guðmundssonar) hafði kynnst því erlendis, hvernig ýmsar bergtegundir voru notaðar til skreytinga við utanhúðun og kynnti Guðjóni Samúelssyni hugmyndir sínar. Á þessum árum var Þjóðleikhúsið í byggingu og var erfitt að fá gjaldeyri til að flytja inn erlend steinefni. Það þótti því tilvalið að nota kvars úr námunni í Miðdal og í framhaldi af því þróaði Guðjón aðferðir við hrafntinnukvartshúðun, fyrst á útveggi Þjóðleikhússins.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – gullnámuvinnslan gaf góð fyrirheit.

Námuvinnsla í landi Miðdals og Þormóðsdals hélt þannig áfram en með öðrum formerkjum, þar sem fyrst og fremst var unnið kvarts úr haugunum sem urðu eftir gullgöftinn. Kvartsmulningur úr þessari námu hefur líklegast verið ríkjandi efni á fyrsta áratug steiningarinnar. Vorið 1933 var byrjað á utanhúðun útveggja á Þjóðleikhúsinu, með aðferð sem var nefnd hrafntinnu-kvartshúðun, eftir fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar, sem þá var húsameistari ríkisins. Verkið var unnið af nokkrum múrurum undir stjórn Kornelíusar Sigmundssonar múrarameistara. Þjóðleikhúsið var fyrsta byggingin sem var múrhúðuð að utan með þessari aðferð, sem fólst í því að þrýsta eða kasta steinmulningi í límlag utan á afréttingarlag. Í múrhúðina utan á Þjóðleikhúsinu var notuð hrafntinna, kvarts, silfurberg og kalksteinn að hluta. Aðferðin sem slík er séríslensk og var Guðjón um tíma skráður fyrir einkaleyfi á aðferðinni, m.a. á Íslandi og í Danmörku.“

gull-2

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1999 er einnig sagt frá gullnámunni: „Fyrstu athugun á því hvort þarna væri að fmna gull gerði Einar H. Guðmundsson bóndi í Miðdal er hann sendi Benedikt Gröndal kvarzmola og bað hann að rannsaka gullinnihald hans. Niðurstaða Gröndals var sú að lítið gull væri í molanum. Steingrímur J. Þorsteinsson segir svo frá því í bók sinni um Einar Benediktsson að Einar bóndi í Miðdal hafi sent Steingrími Tómassyni frænda sínum sýnishorn af jarðvegi úr landi sínu en Steingrímur var búsettur í Ástralíu og fékkst við gullleit fyrr á árum. Steingrími Tómassyni þóttu sýnishornin álitleg og kom hann heim árið 1908 til frekari rannsókna að tilhlutan Einars Benediktssonar. Niðurstaða Steingríms var gull væri að finna beggja vegna Seljadalsár bæði í landi Miðdals og Þormóðsdals.
gull-3Í ævisögu sinni segir Tryggvi Einarsson frá Miðdal að Steingrímur Tómasson hafi ekki komið sérstaklega til landsins til að rannsaka gullið heldur var hann þegar hér var komið sögu orðinn aldraður og illa farinn af fyrra líferni. Þeim Miðdalsbræðrum þótti mikið til gamla mannsins koma og sýndu honum steina úr ánni sem þeir kölluðu draugasteina því að á þá glampaði þegar þeim var núið saman í myrkri. Steingrímur bað strákana að sýna sér hvar þeir hefðu fundið steinana. Eftir að hafa rannsakað þá komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri gullkvarz. Steingrímur dvaldist hér á landi á annað ár en hélt síðan aftur til Ástralíu og hafði með sér sýnishornin úr Miðdal. Ári síðar sendi hann svo Einari Guðmundssyni niðurstöður úr nákvæmari rannsóknum sem sýndu að svo mikið væri þarna af gulli að það gæti borgað sig að vinna það. Hver svo sem ástæðan var fyrir heimkomu Steingríms þá sendi hann sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu beiðni um gullleitarheimild þann 17. ágúst 1908 og segist hafa fundið vott þess að málmur sé í landi Þormóðsdals „Hjerumbil 100 faðma fyrir vestan við bæinn, rétt fyrir utan túnið og hjerumbil 130 faðma frá ánni.“
gull-4Nokkru áður eða 14. ágúst höfðu borist aðrar málmleitarumsóknir og ekki leið á löngu þar til þær fóru að streyma inn í stórum stíl. Ekki var það þó svo að gullæði hefði gripið um sig meðal almennings því að flestar umsóknirnar komu frá sömu mönnunum. Þetta var hópur kringum Björn Kristjánsson kaupmann og ber mest á umsóknum frá honum, Hannesi S. Hanssyni og Sturlu Jónssyni en í tengslum við þá voru Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, Eggert Claessen, Sveinn Björnsson lögmaður og síðar forseti, Sighvatur Bjarnason bankastjóri og fleiri góðborgarar. Um þetta leyti voru mældir út námuteigar í landi Þormóðsdals eftir námulögunum frá 1907, alls 77 teigar. Hver teigur var 100 000 m2.

Steingrímur J. Þorsteinsson segir að 21. maí árið 1909 hafi Námufélag Íslands gert samning um námaréttindin við Einar Guðmundsson og Gísla Björnsson mág hans en þeir áttu hvor sinn hlutann af Miðdal. Óvíst er hvernig afskiptum félagsins af námunni lauk og ekki var Einar Benediktsson í stjórn þess en gerði tilraun til að afla fjár fyrir félagið erlendis en hún endaði heldur snautlega.

Þormóðsdalur

Gullgrafari í Nýja Sjálandi.

Mikill áhugi var á námuvinnslu meðal Íslendinga á þessum árum og tengdist hann þeim framfarahug sem gegnsýrði allt samfélagið.
Að sögn Valgerðar Benediktsson hófust afskipti Einars Benediktssonar af Miðdalsnámunni þegar nafni hans Guðmundsson skrifað honum til London og bað hann að vera umboðsmaður sinn í Englandi. Fyrstu skjalfestu heimildir um afskipti Einars er hins vegar skýrsla sem hann skrifar til hinna bresku samstarfsmanna sinna 23. maí 1910 og bréf sem hann sendir til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu 16. september sama ár þar sem hann tilkynnir að kaupmaður H.S. Hansson sé umboðsmaður þeirra hjóna og barna þeirra og hafi leyfi til að sækja um námateiga fyrir þau. Einar virðist hafa tekið til óspilltra málanna í London og vitnar Steingrímur J. Þorseinsson í áðurnefnda skýrslu þar sem ekki var dregið úr ágæti gullæðarinnar og er hún sögð liggja þvert yfir landareignina og langt út um héraðið. Árið 1911 tekur dótturfyrirtæki British North-Western Syndicate Miðdalsnámurnar á leigu og var ákveðið að fá Norðmenn með sérþekkingu á málmvinnslu til samstarfs um rannsóknir og vinnslu.

gull-5

Til þessa verks var stofnað Aktieselskabet Pluto Limited með 100.000 punda hlutafé sem að langmestum hluta var í eigu British North-Western Syndicate. Norðmennirnir lögðu aðeins fram um 2000 pund af hlutafénu. Auk Einars sem var fulltrúi British North-Western Syndicate sátu sex Norðmenn stofnfundinn og auk Einars voru þrír Norðmenn í stjórn Pluto þeir Sigurd Kloumann, E. Wettre og Fredrik Hjort sem var formaður. Pluto gerði svo samning við landeigendur um nýtingu námunnar. Það er skemmst frá því að segja að strax árið 1911 komu tveir norskir verkfræðingar hingað til rannsókna á vegum félagsins og næstu tvö ár 1912 og 13 voru gerðar víðtækar athuganir á jarðveginum við ána. Tryggvi Einarsson segir að vísu að verkfræðingarnir hafi verið breskir og er lýsing hans á þessum rannsóknum er allævintýraleg. Verkfræðingarnir komu nefnilega ekki einir heldur með námuverkamenn með sér og voru það Finnar og Lappar frá Norður-Noregi.
Einnig voru í hópnum Norðmaður og Svíi. Síðan segir Tryggvi: gull-7„Lapparnir voru ansi skrítnir útlits, miklu lægri vexti en hinir og hausinn á þeim alveg snarkringlóttur. Þeir héldu alltaf hópinn. …Það var byrjað Miðdalsmegin við Seljadalsána, en kvarzlagið liggur undir hana. Grafin var djúp hola beint niður og hún timbruð að innan með þriggja tommu plönkum. Við Axel Grímsson vorum alltaf að sniglast í kringum verkamennina. Þeir voru góðir við okkur og lofuðu okkur stundum að húrra niður í námuna í tunnu, en allur uppgröfturinn var halaður upp í tunnu á spili. Þetta spil sem Englendingarnir notuðu, er til enn, að ég held, vestur í Gróttu…. Þetta var vandað spil og tunnan geysistórt eikarkerald, járnslegið. Ekki mátti láta vatn safnast í holuna. Þarna var því dæla, og við hana var unnið allan sólarhringinn. Við námuna var byggt allstórt skúrmyndað hús, og þar var líka eldhús. Þarna bjuggu sumir mennirnir í nokkur ár og sáu alveg um sig sjálfir. Það var grafið alveg eins og kvarzlagið lá, fyrst beint niður, en þegar komið var niður á nokkurt dýpi, fór laginu að halla töluvert til vesturs, tók svo á sig beygju og lá svo aftur beint niður, næstum út undir Seljadalsána.
Svo fór að lokum að ekki varð ráðið við vatnsagann í göngunum. Þá fluttu námamennirnir sig yfir á hinn bakkann en allt fór á sömu leið. Á svipuðum tíma hófst fyrri heimsstyrjöldin og gerði alla aðdrætti mjög erfiða. Þetta hvort tveggja varð til þess að hætt var við framkvæmdir en fjöldi sýnishorna náðist úr jarðlögunum.
gull-8Á þessum árum gerðu þeir nafnar Benediktsson og Guðmundsson ýmsar ráðstafanir til að tryggja námuréttindi sín í Þormóðsdal og Miðdal og eru varðveitt á Þjóðskjalasafni fjöldi beiðna um málmleitarheimildir frá þeim og samstarfsmönnum þeirra bæði fyrir sig, börn sín og annað skyldfólk. Öll börn Einars ogValgerðar og Einars Guðmundssonar sóttu um málmleitarheimildir í Þormóðsdal. Þessi athafnasemi varð tilefni til fréttar í blaðinu Reykjavík þar sem sagði að lögreglustjórinn í Hafnarfirði hafi látið mæla út 12 námuteiga handa félögum í Námafélagi Íslands og að 104 aðrir hafi lagt fram beiðnir um að mældir yrðu út handa þeim námuteigar. Beiðnirnar voru að sönnu fjölmargar en þær voru flestar frá þeim nöfnum, skyldmennum þeirra og fólki sem tengdist þeim. Fátt er sagt um námagröftinn í blöðunum í Reykjavík. Eina fréttin um Miðdalsnámuna er smáfrétt í Vísi þess efnis að fjöldi manna vinni við námuna en ekkert er getið um þjóðerni þeirra.
Í apríl árið 1912 barst svo sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu tilkynning dagsett 2. apríl þar sem Þorsteinn Kjarval, Einar Guðmundsson, Sigurður Sigurjónsson, Gísli Þorbjörnsson, Finnbogi Jóhannsson og Sveinn Gíslason afsala sér námuleigurétti sínum í löndum Leirvogstungu, Mosfells, Þormóðsdals og Óskots til Iceland Minerals Syndicate Limited, Charing Cross, London. Þetta félag hefur líklega verið í eigu Einars Benediktssonar og hefur hann haft þennan hátt á til að styrkja stöðu sína gagnvart hinum bresku og norsku samstarfsaðilum. Ekki voru allir uppnæmir yfir gullfundinum og í Vísi birtust tvær greinar undirritaðar af Búa þar sem þess var krafist að stjórnvöld létu rannsaka hvort hér væru finnanleg nýtanleg jarðefni og varað við glæframönnum sem haldi uppi trú manna á gullnámur.

gull-9

Annars er þögn blaðanna um Miðdalsævintýrið einkennileg. Ef til vill hafa gullleitarmenn látið fátt uppi og passað vandlega upp á alla leka eða þá að bæjarbúar hafa vitað upp á hár var að gerast á svæðinu og það því ekki þótt fréttnæmt. Er það síðarnefnda óneitanlega líklegra ef tekið er mið af Íslendingseðlinu. Ljóst er þó af frásögn Morgunblaðsins um námagröftinn 1924-25 að mikið hefur verið rætt um málið og sumir óttuðust gullæði á borð við það sem geysað hafði í Ameríku og Ástralíu og að hingað flykktust misindismenn af ýmsu tagi. Blaðið hafnar öllum slíkum vangaveltum og segir að náman sé ekki af því tagi að menn geti labbað upp í Miðdal með tvær hendur tómar og fyllt vasa sína af gulli.
Á stríðsárunum lágu allar rannsóknir á námunni niðri og varð ekki af framkvæmdum fyrr en árið 1921. Eftir stríð keypti Einar Benediktsson hluta Gísla Björnssonar í Miðdal og styrkti þá enn stöðu sína. Það ár voru þeir nafnar í Englandi og áttu í samningaviðræðum við enska fjármálamenn, þar á meðal Neville Chamberlain, síðar forsætisráðherra Breta. Katrín Hrefna Einarsdóttir getur þess að Einar Guðmundsson hafi ekki síður vakið athygli hina bresku viðsemjenda en nafni hans Benediktsson. Í kjölfarið komu hingað menn á vegum félagsins og sendu þeir sýnishorn til Englands en þá kippti félagið að sér hendinni og meira varð ekki úr framkvæmdum í það skiptið.
Árið 1922 var Einar í Þýskalandi og komst þar í samband við Nordische Bergbau Gesellschaft í Hamborg. Þetta félag vann að rannsóknum í námunni á árunum 1923-24. Meðal þeirra þriggja sérfræðinga sem rannsökuðu námurnar var prófessor Konrad Keilhack, sem mun hafa verið mjög kunnur námafræðingur. Félagið lagði of fjár í rannsóknina (170 þús. íslenskar krónur) og segir Valgerður Benediktsson að félagið hafi greitt Einari 140 þús. gullmörk fyrir þær eignir sem hann hafi lagt fram. Jafnframt seldi Einar Benediktsson síðustu jarðirnar sem hann átti til að fjármagna framkvæmdir.24 Sigfús Blöndahl þáverandi aðalræðismaður Þýskalands í Reykjavík staðfesti þetta.

gull-10

Sumarið 1924 hætti Nordische Bergbau Gesellschaft við rannsóknir sínar en Einar var ekki tilbúinn að leggja árar í bát. Haustið 1924 stofnar hann ásamt nýjum þýskum samstarfsmönnum námafélagið Arcturus og stóð það að framkvæmdum í Þormóðsdal árin 1924-25. Ýmsum sögum fer af framkvæmdum á svæðinu þessi ár frá 1923 til 1925. Til dæmis verður ekki betur séð en Valgerður Benediktsson og Tryggvi Einarsson slái þessum félögum saman í eitt. Þær fatæklegu heimildir sem til eru benda til að það hafi þó fyrst og fremst verið Arcturus sem stóð fyrir miklum framkvæmdum í Þormóðsdal.
Um allar fjármálaflækjurnar kringum félögin má lesa í ævisögu Einars Benedikssonar III eftir Guðjón Friðriksson, einkum 10.-13. kafla. Ekkert er minnst á framkvæmdirnar í dagblöðunum árið 1923 en hinn 3. febrúar árið 1925 kom smáfrétt í Morgunblaðinu þess efnis að í Miðdalsnámunni vinni nú milli 10 og 20 manns, grafin hafi verið 60 m löng göng og 10 metra djúp og von sé á þýskum verkfræðingi með vorinu og þá verði verkamönnum fjölgað. Verkfræðingurinn hét W.E Swinburne og reyndist þegar til kom vera Englendingur. Í viðtali við Morgunblaðið var hann ákaflega varkár og sagði að langur tími muni líða þangað til hægt sé að segja til um hvort vinnsla í námunni sé möguleg hvað þá heldur að vinnsla hefjist.28 Annar verkfræðingur, sem var þýskur og hét Marburg, starfaði við námuna og Tryggvi Einarsson segir að þar hafi einnig starfað amerískur yfirverkfræðingur.
Þann 3 maí gull-11birti Morgunblaðið svo samantekt úr þýska blaðinu Hamburger Nachrichten, þar sem fjallað er um námuna. Í upphafi greinarinnar er tekið fram að lítið hafi verið fjallað um framkvæmdirnar í Miðdal undanfarið og ástæðan sögð sú að oft áður hafi menn gert sér vonir um námugröft en orðið fyrir vonbrigðum. Greinin er eftir Dr. R. Friedrich Franz Grunow, einn af forgöngumönnum félagsins í Þýskalandi, og er bjartsýnin ríkjandi og námugangurinn sagður vera orðinn yfir km á lengd og einn m á þykkt. Hér er þó varla verið að tala um lengd ganganna heldur að öllum líkindum það svæði sem gull hefur þegar fundist á. Greinarhöfundur hefur eftir áðurnefndum dr. Keilhack að í námunni væru um 80 þús. tonn af námugrjóti en bætir síðan við að breskur verkfræðingur hafi talið að þar væru 160 þús. tonn. I greininni er fullyrt að í sýnishornum sem rannsökuð hafi verið í Þýskalandi hafi fundist 315 gr. af gulli í tonni en í lökustu sýnunum hafi magnið farið alveg niður í 11 gr. Til samanburðar nefnir höfundur námur í Suður-Afríku og Evrópu þar sem gullinnihald í tonni sé mun minna en vinnsla borgi sig samt vel. Að síðustu er þess getið að settar verði upp vélar til vinnslunnar með haustinu, búið sé að tryggja landareignir og námuréttindi og verið sé að undirbúa félagsstofnun með þýsku, hollensku og svissnesku fé.
Morgunblaðið er mjög varkárt í niðurlagsorðum sínum, staðfestir að mikið sé unnið í Miðdal en bendir jafnframt á það sem haft var eftir Breymann verkfræðingi í viðtalinu 23. apríl. Síðan bætir blaðið við að nokkuð kveði við annan tón í greininni í Hamburger Nachrichten?
Í áðurnefndum skjölum Einars á handritadeild Landsbókasafns er að finna teikningu af íbúðarhúsi sem hann hugðist reisa í Miðdal.
gull-12Tryggvi Einarsson segir í ævisögu sinni að faðir sinn hafi verið búinn að fá í hendur teikningar af verksmiðjuhúsinu. Hann segir að síðasti hluti vinnslunnar hafi verið að láta steinsallann sem búið var að mylja renna yfir silki og átti gullið að festast í því. Tryggvi segir líka að Þjóðverjarnir hafi verið búnir að mæla fyrir járnbraut sem hafi átt að leggja niður á Gufunesklöpp og einnig hafi verið uppi áætlanir u m virkja foss ofar í ánni. Ekki minnist Tryggvi á Einar Benediktsson í sambandi við þessar framkvæmdir heldur segir aðeins að Þjóðverjarnir hafi samið við föður sinn og hann átt að fá 10% af hagnaðinum af námunni.
Í Morgunblaðinu birtist svo frétt u m Miðdalsnámuna 2. júlí. Þar segir að Þjóðverjarnir séu til búnir til að afhenda hollenskum aðilum námuréttindin og hér sé staddur hollenskur lögfræðingur, Fokker að nafni, í þeim tilgangi að ganga frá þessum málum. Síðan er tekið fram að ekki hafi verið allskostar rétt með farið í greininni í þýska blaðinu og of mikið gert úr gullmagninu í námunni. Breyman verkfræðingur hikaði samt ekki við að leggja til að rannsóknum og undirbúningsvinnu verði haldið áfram. Til að komast að fullnægjandi niðurstöðu þurfi meiri tækjakost og víðtækari rannsóknir. Í greininni er fullyrt að þegar sé búið að leggja eina milljón gullmarka í framkvæmdina og þurfa muni annað eins áður en frumrannsóknum sé lokið. Hollendingarnir séu tilbúnir að leggja fram þetta fé.
Síðan segir: „Nokkrir menn hafa verið við vinnu í Miðdal í alt vor. En þeir hafa verið alt of fáir til þess að verkinu miði nokkuð verulega áfram. Hvað veldur töfinni? … Eftir því sem næst verður komið hefir þeim námumönnum engar hindranir verið lagðar í götu frá yfirvaldanna hendi. Gildandi lög gefa heldur enga átyllu til þess að svo verði gert. Almenningsálitið mun og vera á sama máli.“ Morgunblaðið fullyrðir hins vegar að hollenska félagið hafi ekki enn fengið í hendur þau skilríki sem forsvarsmenn þess telji nauðsynleg til að leggja fram fé til vinnslunnar.

gull-14

Þetta voru síðustu fréttirnar af Miðdalsnámunni. Tryggvi Einarsson fullyrðir að Þjóðverjarnir hafi orðið að gefa vinnsluna upp á bátinn þegar þýsk yfirvöld breyttu markinu til að vinna bug á óðaverðbólgunni 1923. Steingrímur J. Þorsteinsson segir að sýnishornin hafi verið svo misjöfn að gæðum að Þjóðverjarnir hafi gefist upp. Af ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson er þó ljóst að ýmis konar klúður hefur ekki síður átt þátt í að námaævintýrinu lauk. Tryggvi Einarsson segir og frá því að 1938 hafi sömu aðilar og stóðu að Arcturusi haft samband við íslensk stjórnvöld og sótt um leyfi til námuvinnslu en fengið neitun. Þeir hafi svo enn haft samband við Guðmund Einarsson eftir heimsstyrjöldina en ekkert varð af framkvæmdum. Þjóðverjarnir voru þó ekki þeir einu sem höfðu trú á Miðdalsnámunni. Þann 26. júní árið 1928 skrifar Einar Benediktsson Matthíasi Rohde og Co. í Hamborg bréf þar sem hann segir meðal annars að íslenskt fjármálalíf sé að verða tilbúið undir tæknibyltingu og hægt sé að nota gullið í Miðdal sem grunn að traustri bankastarfsemi í Reykjavík og öðrum bæjum á Íslandi.
En lítum að lokum á námuna sjálfa. Hún er eins og áður sagði í gili sem Seljadalsá hefur grafið. Flest mannvirkin eru á eystri bakka árinnar. Þar hafa íslensku jarðfræðingarnir fundið nokkrar leitarholur frá fyrri tilraunum og ein göng sem eru uppistandandi (göng A) og op annarra sem fallin eru saman eða full af jarðvegi en þau eru nokkru fyrir sunnan göng A, ofar í hlíðinni. Á vestari bakka árinnar eru göng B. Þar hafa fyrri gullleitarmenn grafið á ská inn í bergið meðfram leirlagi sem gullkvarzið er í. Þetta leirlag er um 60 cm þykkt með kísilúrfellingum næst grjótinu og þar mun gullið að finna.
Þormóðsdalur er í útjaðri Stardalseldstöðvarinnar svonefndu, á svæði þar sem jarðlög hafa brotnað mjög mikið og umturnast. Gullið er líklega þannig til orðið að heitt vatn hefur streymt í hringrás í sprungum og brotum milli berglaga og tekið í sig ýmis jarðefni, þar á meðal gullútfellingar, sem það síðan hefur skilið eftir. Bergið þarna er laust í sér og flagnar auðveldlega og veðrast. Gullið fmnst á takmörkuðu svæði þvert yfir ána og er alsendis óvíst að heildarmagnið sé nægjanlegt til að réttlæta vinnslu, þrátt fyrir bætta tækni í þeim efnum á síðustu áratugum.
gull-15Göng A eru á eystri bakka árinnar. Fyrst hefur um tveggja metra breið opin renna verið grafin inn í klettavegginn og síðan gerð göng hvor til sinnar handar. Göng A eru á hægri hönd, um 11 m löng, tveir metrar á hæð og um metri á breidd, þó víðast hvar aðeins þrengri við loftið. Í þeim er um 50 cm djúpt vatn.Við opið er moldarhaft, um 1,60 m á þykkt. Þessi göng eru óregluleg og þegar innar dregur eru útskot í veggjum (sjá teikningu snið A).
Beint á móti göngum A er dálítill klefi. Hann er svipaður á hæð og göngin en nokkru rýmri. Í gólfi hans, innst vinstra meginn, er hola sem virtist full af grjótmulningi og jarðvegi. Verið getur að þar hafi önnur göng legið niður á við en ógerningur er að kanna það án viðamikilla framkvæmda.
Bergið austan megin árinnar virðist mun harðara í sér en vestan megin, Göng B eru í botninum á djúpum skurði og ólík göngum A. Þau eru um 10 m löng, regluleg og burstlaga. Hæðin er einnig regluleg, um 2,10 m undir mæni. Göngin eru um 1,70 m á breidd við gólf. Á gólfinu er nokkuð af lausagrjóti sem flagnað hefur úr veggjum og borist inn í göngin með vatni en það er um meters djúpt. Um þrjá metra frá opi hægra megin hefur hrunið úr gangaveggnum og myndast dálítið útskot inn í vegginn. Gullleitarmenn hafa lokað göngunum með moldarhafti enda engin ástæða til að óviðkomandi fari að troða sér inn í þau. Á vestari bakkanum má og sjá leifar af járnbrautarteinum sem notaðir hafa verið til að flytja jarðefni frá námugöngunum.

Þormóðsdalur

Fyrirtækið Iceland Resources hyggst hefja rannsóknarboranir í Þorlmóðsdal í Mosfellsbæ í sumar, með það að markmiði að kanna fýsileika þess að sækja þar gull í greipar jarðar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu 2021.

Líklegt er að þessi tvenn göng séu frá framkvæmdum Arcturusmanna enda eru þau í samræmi við lýsingu Tryggva Einarssonar. Hann segir að Þjóðverjarnir hafi grafið inn í jarðlögin og látið vatnið renna út enda hafi þeim gengið betur en fyrirrennurum sínum. Eins og áður sagði fundu gullleitarmenn op þriðju ganganna nokkur sunnar og ofar í hlíðinni. Það eru líklega göngin frá 1913-14, grafm beint ofan í bergið og opið klætt með timbri. Eins og áður sagði þá er heildarlengd námaganganna nokkuð á reiki. Morgunblaðið segir göng Arcturusfélagsins hafa verið 60 m á lengd. Steingrímur J. Þorsteinsson segir göngin hafa verið um 150 m ogValgerður Benediktsson segir þau 200 m. Ekkert hefur fundist sem staðfestir neina af þessum fullyrðingum. Ljóst er hins vegar af þeim göngum sem fundist hafa að rannsóknargöngin hafi verið hér og þar í hlíðinni, grafm þar sem gullæðarnar fundust og síðan hætt þegar komið var að enda þeirra því að allar æðarnar eru stuttar og dreifðar um svæðið. Þegar talað er um tuga eða jafnvel hundruða metra löng göng hlýtur því að vera átt við samanlagða lengd ganganna. Mat heimildarmanna á lengd ganganna er hins vegar svo mismunandi að það er augljóslega byggt á sögusögnum og verður því ekkert fullyrt um raunverulegt umfang framkvæmdanna fyrr en gögn frá námufélögunum koma í leitirnar hvar svo sem þau eru niðurkomin.“

Heimildir:
-Árbók VFÍ/TFÍ, 7. árg. 1994-1995, 2. tbl., bls. 183.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 95. árg. 1999, bls. 111-126.

Þormóðsdalur

Gullnáman í Þormóðsdal.

Hafnarfjörður

Fyrsta sjálfrennireiðin kom til landsins  árið 1904. Síðan eru liðin 103 ár, eða rétt rúmlega ein öld. Með tilkomu hennar þurfti að ráðast í úrbætur á gömlum vagngötum, sem nýlega hafði verið farið að huga að út frá hinum elstu slóðum, t.d. vegna atvinnubóta-vinnunnar, og jafnvel gera nýja vegi.

Hafnarfjörður 1890

Þótt Hafnarfjörður hafi þanist út á þessu tímabili, einkum síðustu áratugina, og mikið verið byggt, nýir vegir verið lagðir yfir þá eldri og þeim jafnvel eytt vegna skammsýni, má enn berja nokkra búta fyrstu akveganna augum. Þeim fer þó óðum fækkandi. Einn þeirra, í Engidal, hvarf t.a.m. sjónum manna einn daginn fyrir skömmu og það þrátt fyrir að sá og aðrir stubbar séu nú þegar friðaðir skv. þjóðminjalögum. Enginn virðist hafa eftirlit með varðveislu þeirra, enda vitneskjan varla fyrir hendi. Í fornleifaskráningum svæða í Hafnarfirði er þessara fornleifa tæpast getið. Það er annars einkennandi fyrir Hafnarfjörð hversu höndunum virðist hafa verið kastað til við fornleifaskráningu á svæðinu undanfarin ár.
HafnarfjörðurEinn heillegasti vegarkaflinn frá fyrstu tíð er í Kapelluhrauni, um 100-150 metra langur. Byggt hefur verið á svæðinu, en fyrir “slysni” hefur þessum kafla ekki verið eytt. Nú er unnið að vegargerð skammt frá og ný verksmiðjubyggð á að rísa á svæðinu, svo óvíst er um líftíma þessa síðasta fulltrúa elstu vegargerðar í Hafnarfirði. Meira um það síðar. Fyrst svolítið um aðdragandann.
Fjallað var um héraðavegabætur í Ísafold 1893. Frásögnin lýsir vel frumraun landans í vegagerð og ekki síst upphafi hennar er varð vegna hreppaatvinnunar er leiddi einungis til kaflaúrbóta á hinum gömlu þjóðleiðum og kom því lítt að gagni sem heilstæð lausn á samgöngumálum einstakra svæða: “Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu.

Brú á vagnveginumFramförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.

Almenningsvegur

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.

En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði „auðsjáanlega“ ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.

Eiríksvegur

Eiríksvegur ofan Vatnsleysu á Vatnsleysutrönd.

Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt.

Upp á Brunann að austanverðuHér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavegi snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.

Skeifa

Skeifubrot í Alfaraleið.

Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana „upp á gamla móðinn“, eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Byrgi í LeynidölumÞetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, – nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.

Alfaraleið

Fornar götur og vegir vestan Hafnarfjarðar – vörðurkort ÁH.

Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.

Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað.

Byrgi í LeynidölumMeð öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.”

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Síðar var fjallað um akbrautir: “Samgöngumálið er án efa eitt með meiriháttar framfaramálum vorum, enda verður ekki annað sagt en að þingið hafi sinnt því einna best allra mála síðan landið fékk fjárhag sinn aðskilinn frá Danmörku og þingið fjárforræði. Vegir hafa verið lagðir og brýr gerðar, og þótt enn vanti stórmikið á, að þolanlegir akvegir séu komnir yfir landið, eða þótt þeir nái réttara sagt aðeins yfir lítinn hluta landsins, og fjölda margar ár þurfi að brúa enn, stærri og smærri, verður því þó ekki neitað að framfarir í vegagerð hafa verið afarmiklar á síðustu 20 árum; og þótt flutningabrautir þær og póstvegir, sem búið er að leggja, komist í engan samjöfnuð við eimreiðabrautir og rafmagnsbrautir annarra landa, verður þó að játa, að mikill er munurinn á hinum nýju vegum og einstigunum eða troðningunum yfir urðarholt og mýrarfláka, sem varla var fært nema fuglinum fljúgandi, þótt vegir væri nefndir.
Samgöngubætur þessar hafa kostað allmikið fé, eftir hinum smávöxnu árstekjum landsins, enda verður ekki annað sagt en að fjárveitingarvaldið hafi klifið þrítugan hamarinn til þess að einhverjir sæjust ávextir þess. Og þegar litið er til þess, að varla sást vegarspotti í landinu 1874, er til nokkurs væri nýtur, og engin á brúuð, er auðsætt, að hér er um stórar framfarir að ræða, þótt betur megi ef duga skal.

Byrgi í LeynidölumEngin furða er, þótt héraðarígur og hreppapólitík hafi risið upp bæði utan þings og innan um samgöngufærin, einkum akbrautirnar. Og enginn getur með sanni sagt, að það sé að skara eld að sinni köku á ósæmilegan hátt, að vilja fá svo mikla vegabót í héraði sínu, að hægt sé að komast slysalaust bæja í milli um hábjartan sumardag. Hins vegar er sjálfsagt, að þegar ekki er hægt að veita fé til margra fyrirtækja í einu, svo gagn sé að, verður að láta hin nauðsynlegustu sitja í fyrirrúmi, en láta önnur bíða, sem betur mega missa sig. Það er betra að fá einnar eða tveggja mílna langan veg óslitinn á einum stað, því sá vegur verður þó einhverjum að liði, en að búta veginn niður í 20-30 smáspotta, 1-200 faðma langa, hingað og þangað, sem engum geta að verulegu gagni komið, auk þess sem smáspottar hljóta að kosta töluvert meira að tiltölu en lengri vegur í einu lagi.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Sumir eru þeir, er amast við, að jafnmiklu fé sé varið til vegagerðar og nú er gert, einkum akbrautanna. Þær verði ekki notaðar til vagnferða, því bændur þurfi eftir sem áður að hafa hesta til heyflutnings, og geri því ekki annað betra við þá en að nota þá til áburðar í kaupstaðaferðum, enda sýni reynslan, að ekki sé enn farið að nota vagna á akbrautum þeim, sem fullgerðar eru.
Það er og hefur jafnan verið siður þeirra manna, sem hafa viljað halda öllu í sama horfinu, að bera fyrir sig reynsluna, löngu áður en auðið er að kveðja hana til vitnis, í þeirri von, að geta blindað athugalítilla manna og talið þeim trú um, að hvert nývirki sé gagnslaust, ef það ber ekki jafnharðan hundraðfaldan ávöxt.
Elsta gatan um KapelluhraunEkki er nema eðlilegt, að vagnferðir séu ekki enn almennar eftir akbrautunum. Bændur þekkja lítt slíkt samgöngufæri, og vagnar eru ekki smíðaðir hér á landi, heldur verður að útvega þá frá útlöndum, og fáir þeir framkvæmdamenn í héruðum, er gangist fyrir slíku, en félagsandi auk þess ekki svo ríkur sem skyldi, svo að nokkrir menn útvegi sér vagna í samlögum. Auk þess er klyfjaflutningurinn svo rótgróinn þjóðinni af margra alda tísku, að eðlilegt er, þótt það taki töluverðan tíma, að vagnflutningar verði almennir, jafnvel þótt akbrautirnar séu til.
Það er og athugavert, að akbrautirnar geta ekki komið að fullum notum fyrr en sýsluvegir og hreppavegir er líka orðnir akfærir og komnir í samband við þær; þá verður kostandi til þess fyrir bændur, að gera akfæran veg frá heimili sínu á hreppavegina, og þá fyrst geta akbrautirnar orðið að notum. Þá má búsat við því, að ýmsir taki a reyna að gera veg út á engjarnar og hafa vagna til heyflutnings.

En þótt klyfjaflutningnum sé enn haldið áfram um nokkurn tíma, er óhætt að telja æðimikinn hagnað í vegabótunum þar, sem þær eru komnar á. Það er enginn efi á því, að vöruflutningar taka fyrir það miklu skemmri tíma en ella, og það hlýtur að vera fjársparnaður fyrir þjóðfélagið, svo framarlega sem tíminn er peningar.”
Gamli akvegurinnFjallað var um  sýsluveginn frá Reykjavík suður að Vogastapa: “Ég las um daginn í Ísafold um póstveginn í Árnessýslu; og datt mér þá í hug, að einnig mætti rita fáein orð um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.

Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Varða á Brunabrúninni vestariÞar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipauppsátur er ekkert annað til þar í grennd.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
En látum oss halda lengra.
Gamli vagnvegurinn í HellnahrauniUm stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.”
Í sama blaði árið 1983: “En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í. Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Brunagarðurinn við KapelluhraunÞessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og viðrist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að ljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.

En hvar ætti þá að leggja hann?
Kapella - og þó ekki kapellaHann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.

Reiðskarð

Reiðskarð upp á Stapa.

Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.”
Gamli akvegurinn við GerðiSumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
”Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar. Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
HafnarfjörðurÞað var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”
Af sýslufundargjörð í Gullbringu- og Kjósarsýslu í maí 1893 má sjá: “Ár 1893, hinn 26. maí, átti sýslunefndin í Kjósar- og Gullbringusýslu fund í þinghúsinu í Hafnarfirði. Fundinum stýrði oddviti nefndarinnar, sýslumaður Franz Siemsen. Allir nefndarmenn voru á fundi nema sýslunefndarmennirnir fyrir Mosfells, Vatnsleysu-strandar, Njarðvíkur og Rosmhvalaness hreppa; af þeim höfðu sýslunefndarmennirnir fyrir Njarðvíkur og Vatnsleysustrandarhreppa engin forföll tilkynnt. Þessi mál voru tekin til meðferðar.
Varða við gömlu alfaraleiðina8. Var rætt um gufubátaferðir á Faxaflóa og ákvað nefndin að ganga að boði kaupmanns W. Fischers og taka tiltölulegan þátt í kostnaðinum, en lýsti jafnframt óánægju yfir ferðaáætlun þeirri, sem lá fyrir, þar sem báturinn á millistöðvunum eigi kemur við á leiðinni til baka, svo hlutaðeigandi pláss fyrir þá sök geta eigi haft full not af ferðinni; krafðist nefndin, að þetta væri þegar lagað. Ennfremur áleit sýslunefndin, að tími sá, sem bátnum er ætlaður á ferðum, sérstaklega syðri hluta Gullbringusýslu, sé allt of naumur. – Að því er snertir kostnað þann, sem að tiltölu kemur á sýslufélagið þ. á., ákvað sýslunefndin, að greiða skyldi helminginn af sýslusjóðsgjaldi, en hinn helminginn af sýsluvegagjaldi upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins, og fól nefndin oddvita, að útvega samþykkið.

9. Var rætt um vegagjörðir í sýslunni á yfirstandandi sumri og var ákveðið að verja til sýsluvega 1.100 kr. þannig:
Í Kjósarhr. til að gjöra við veginn norðan í Svínaskarði ………………. 50. kr.
Seltj.n.hr. til að gjöra við veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog …… 75 kr.
Garðahr.:
a. til aðgjörðar á veginum frá Hafnarfjarðahrauni að Kópavogslæk, bera
ofan í brýr og ryðja …………………………………………………….. 150 kr.
b. til vegarins yfir hraunið fram á Álftanes ……………………………. 200 kr.
c. til vegarins frá Hafnarf. suður að hreppamótum ……………………. 100 kr.
350 kr.
Njarðvíkurhr. til framhalds vegi frá Ytra-Hverfi í Keflavík …………… 100 kr.
Rosmhvalanesshr. til að laga veginn frá Keflavík út í Garð …………… 100 kr.
Hafnarhr. til að laga veginn frá Ásabotnum ……………………………. 75 kr.
Grindavíkurhr. til að bæta veginn frá Drápshlíð til sýslumarka ……….. 350 kr.
1.100 kr.
10. Sýslunefndin fól oddvita að útvega á næsta hausti vegfróðan mann til þess að skoða vegstæði milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og gera áætlun um, hve mikið sú vegagjörð mundi kosta. Var jafnframt ákveðið, að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.”
Varða við gömlu alfaraleiðinaÍ lögum frá Alþingi árið 1903 segir m.a. í ágripi: “Útgjöldin eru hin helstu þessi:
Til brúar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., til sýsluvegar frá Hafnarfirði í Keflavík 3.000 hvort árið mót jafnmiklu framlagi annarstaðar frá.”
Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 segir m.a. að “um síðustu aldamót [1900] var enginn upphleyptur vegur til Hafnarfjarðar, og urðu bæjarbúar að leggja leið sína yfir malarkamba og eftir krókóttum hraunstígum. Um skipulega vegagerð var ekki að ræða fyrr en kauptúnið fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.” Á þessum árum einblíndi hreppssnefnd Garðahrepps og síðan bæjarstórn Hafnarfjarðar að vegagerð til Reykjavíkur. Fyrsti almenninnilegi vegurinn yfir Hafnarfjarðarhraun var lagður 19874, skömmu áður en Kristján 9. Danakonungur kom til Hafnarfjarðar.  Sá Sigurgeir Gíslason um vegalagninguna, sem lauk síðan 1898. Sigurgeir hafði síðan umsjón með vegalagningu sýsluvegarins til Njarðvíkur er lauk árið 1912 og síðan lagningu Grindavíkurvegarins er lauk árið 1918. Fyrsta bílnum var ekið áleiðis milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur skömmu eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins árið 1904, en óvíst er hvort hann hafi komist alla leið. Vorið 1913 var Austin sportbíl ekið á milli bæjanna og er hún talinn fyrsta bifreiðinn sem koms klakklaust alla leið. Þangað til var vegurinn aðallega fyrir vagna og gangandi.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – vegir 1908.

Hafist var handa við að leggja sýsluveginn til vesturs frá Vesturhamri árið 1904, og var þetta hluti lagningu vegar milli Hafnarfjarðar og Vogstapa.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a.: “Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum.”
Hin forna Alfaraleið lá um Brunann norðanverðan og framhjá kapellunni er hraunið var síðar nefnt eftir. Það er einmitt um framangreinda Leynidali sem fyrsti vegurinn lá frá Hvaleyrarholti og yfir Brunann. Enn má sjá hluta hans þrátt fyrir að veginum hafi að mestu verið eytt vestar í hrauninu. Elsti stígurinn lá yfir Brunann nokkru norðar, en þegar akvegurinn var lagður var vænlegast að feta krákustíga helluhraunsins (Hellnahraunsins) að hraunrúninni og síðan yfir apalhraun Kapelluhrauns með sem minnstum tilfæringum.

Suðurnesjavegur

Gamli Suðurnesjavegurinn.

Sjá má hleðslur í köntum og yfir sprungur. Skammt frá og samhliða er slóði eftir jarðýtu og má telja mildi að henni hafi ekki verið ekið eftir vagngötunni. Síðar var akvegur lagður yfir hraunið nokkru norðar, endurbættur eftir að hernámsliðið kom til landsins og síðan smám saman eftir því sem ný og stærri ökutæki gerðu kröfur til. Þann hluta vegarins má einnig sjá austan Brunans í Hellnahrauni á litlum kafla sem og vestan hans, ofan við Gerði og Þorbjarnarstaði. Þar undir er einnig elsti akvegurinn þeim megin hraunsins.

Í Leynidölum eru hlaðin skjól. Þau gætu hafa verið eftir vegarvinnumennina, refaskyttur eða þá er lögðu jarðsímann í gegnum hraunið, en hann liggur skammt sunnan elsta akvegarins í gegnum hraunið. Sjá má yfirhleðslur á nokkrum stöðum. Eitt skjólið er einna fallegast, vandlega hlaðið. Það mun hafa verið topphlaðið, þunnar hraunhellur lagðar hverja yfir aðra, en efstu hellurnar eru nú fallnar niður á gólfið.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
-Ísafold, 17. júní 1893, 20. árg., 38. tbl., forsíða.
-Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða.
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 8. nóvember, 1902, 29. árg., 71. tbl., forsíða.
-Austri, 15. ágúst 1903, 13. árg., 27 tbl., bls. 98.
-Ísafold, 6. sept. 1905, 17.árg., 60. tbl., bls. 239:ll.
-Saga Hafnarfjarðar III, 1908-1983,  Skuggsjá 1984.

Hafnarfjordur-201

Selvogsgata

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938 segir Ólafur Jóhannsson úr Ólafsey frá „Selvogi og umhverfi hans„. Lýsingin er áhugaverð miðað við þess tíma ferðamáta og auk þess góð ábending um að óþarfi er að burðast með pólitískar „byrgðar í bakpokanum“ á slíkum ferðalögum:

„Í góðviðriskaflanum í sept. fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur, að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni.

Hlíðarendi

Hlíðarendi í Ölfusi.

Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina.

Selvogsviti

Selvogsviti.

Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót.
Heiðin smállækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1940.

Þegar komið er um 2/3 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju. Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi grundir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t.d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið.
Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.
Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna.

Selvogur

Nes – loftmynd 1958.

Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það, hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum. Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en „ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr. er gera verður ráð fyrir að sje í reiðufje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar.
Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari. Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbörn sín, svo sem til bókasafns o.fl.

Nes

Nes í Selvogi.

Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum. Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar.
Blóðferill komúnismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson. Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – gata.

Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.

Strandardalur

Strandardalur.

Frá Selvogi ákvað jeg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi kl. 9, og ljet Guðmundur vitavörður mjer í tje hest og fylgdarmann upp að heiðinni, sem er rúmur klukkutíma gangur. Heiðarbrúnin er fremur lág að sunnanverðu, en svo smáhækkar hún upp að miðju, og liggur mjög hátt alla leið norður á brún. Á miðri heiðinni er mikið og fagurt víðsýni austur til Eyjafjalla, Vestmannaeyja og á haf út, og var sjerstaklega aðdáunarvert, að sjá lífgeislaflóð „Almættisins erindreka“ leika um hafflötinn. Suðurhluti heiðarinnar er mestmegnis vaxinn mosa og lyngi, en þegar norðar kemur er fjölbreyttari gróður, og er kjarngóð beit þar allvíða. Norðanverð heiðin er hallalítil, þar skiftast á „fjallshnúkaraðir“ og dalir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Í dölunum skiftast á, gamalt hraunflóð og valllendisgróður, og liggur leiðin um þetta.
Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðningar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega.
Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einnngis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
Á norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta:

Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi;
með galdrakyngi og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð.
Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engu miður.
Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.

Selvogsgata

Selvogsgata að Grindarskörðum.

Þegar komið er fram úr Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun. Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.
Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf.

Selvogsgata

Selvogsgatan neðanverð.

Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja.
Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1938, Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson frá Ólafsey, bls. 17-19.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Ísafold 1880: „Vegagjörð úr Grindaskörðum ofan við Hafnarfjörð“ –
Grindaskord-222Verði nokkuð úr því áformi brennisteinsfjelagsins enska, að gjöra að sumri komanda góða akbraut úr brennisteinsfjöllunum ofan í Hafnarfjörð, þá væri ekki illa til fallið, að Grindaskarðavegurinn, sem er einn af þeim fjallvegum, er landssjóður samkvæmt lögum, 15. okt. 1875, á að kosta, jafnframt yrði ruddur, þótt upphaflega væri tilætlazt, að aðrir vegir gengi fyrir. Myndi það þá geta orðið að minnstum kostnaði og á haganlegastan hátt. Vesturhluti Árnessýslu og suðurhluti Gnllbringusýslu eiga heimtingu á, að þetta komist í kring, sem fyrst auðið er. Skreiðar- og kaupstaðarferðir eru miklar á þessari leið milli Eyrarbakka, Þorlákshafnar, Selvogs, Krýsuvíkur, Grindavikur, Hafnarfjarðar og suður með öllum sjó. Enda er Grindaskarðavegurinn einn þeirra fjallvega milli sýslna, sem samkvæmt áliti amtsráðs suðuramtsins eiga að hvíla á landssjóði (stj.tíð. 1876 B, bls. 75).“

Heimild:
-Ísafold, 26. nóvember 1880, bls. 120.

Þríhnúkar

Kvöldsýn frá Grindaskörðum.

Kappella

Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.

Kapella

Kapella – skilti.

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.

Þorbjarnastaðaborg

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.

Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.

Kapella

Kapellan.

Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.

Kapella

Kapellan 1964.

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.

Kapella

Kapella – skilti.

Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Kapella

Kapella – skilti.

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,

Kapella

Kapellan – uppdráttur KE.

„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.

Kapella

Kapellan áður en hún var grafin upp.

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.“

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er. Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti.
KapellaSem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Brennisteinsfjöll

Tvennt er það sem tengist sýnilegum minjum sem ekki hefur áður verið sett í samhengi við brennisteinsnám í Krýsuvík.
Það er annars vegar minjar ofan við svonefnda Blesaflöt norðan Badst-1Kleifarvatns (milli Vatnshlíðar-horns og Sveifluhálsar) og hins vegar tvær tóftir úr torfi og grjóti skammt norðaustan við námuvinnslusvæðið við Seltún. Minjanna er hvorki getið í fornleifaskráningum né örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þá er þriggja tófta sunnan við Baðstofu ekki heldur getið í fornleifaskráningum en sagt er frá þeim í lýsingum ferðamanna. Miklar líkur eru á að þar sé um að ræða kofa þá sem t.d. Ole Henchel lýsir í ritgerð sinni 1775.  Framangreindar minjar við Baðstofu eru sennilega frá 16. öld og minjarnar við Seltún frá svipuðum tíma. Aðrar minjar við Seltún og ofan við Blesaflöt eru sennilega 19. öld. Óvíst er um aldur „selsminja” neðan við Seltún, en ætla má að þær geti jafnvel verið eldri en frá 16. öld.
Þá kemur fram í heimildum að brennisteinsvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri undir það síðasta Selt-1eftirsóknaverðari en í Krýsuvík vegna þess að “um styttri vegarlengd” væri að ræða.  Að fenginni reynslu, eftir að hafa farið fótgangandi frá Hafnarfirði á báða staðina og til baka, virtist samt sem áður styttra til Krýsuvíkur. Þegar vegarlengdirnar voru mældar kom hins vegar í ljós að rúmir 29 km voru til Krýsuvíkur eftir Undirhlíðavegi og um Ketilsstíg að Seltúnsnámunum, en rúmir 22 km voru í Breinnisteinsfjallanámur um Selvogs-götu, Grindarskörð og suður með Draugahlíðum í Námuhvamm.
Í fyrstu unnu Krýsuvíkur-bændur sjálfir brennistein úr námunum, en Dana-konungur tók þær yfir á 16. öld. Bændur unnu fyrst um sinn eftir sem áður sjálfir brennisteininn og seldu konungshollum aðilum, en fljótlega komst námuvinnlan í hendur einstaklinga og síðar erlendra félaga.
Brennnam-1Skipuleg vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir áður en tók að halla undan fæti. Framangreind hús voru reist og undir lokin voru þar reist fyrstu bárujárnshús á Íslandi. Enn þann dag í dag má sjá leifar þessa síðskeiðs námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli. Vegna þess hversu námusvæðinu í Krýsuvík hefur verið raskað, enda í alfaraleið og vinsæll ferðamannastaður, er námusvæðið í Brennisteinsfjöllum þeim mun mikil-vægara til rannsókna og varðveislu sem eina óraskaða brennisteinsnáman á Suðurlandi og jafnvel best varðveitta náman á landinu öllu.
Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum hafa verið nær algerlega óhreyfðar síðan þær voru í notkun seint á 19. öld (1883-1885). Ástæðan fyrir góðri varðveislu er hversu óaðgengilegar þær eru og utan alfaraleiða. Eina smávægilega raskið á svæðinu er af mannavöldum síðusta áratuginn. Á heildina litið er svæðið þrátt fyrir það vel varðveitt sýnishorn af ákveðinni verkmenningu sem stunduð var í afar takmarkaðan tíma. Svæðið er vel afmarkað og því auðvelt að varðveita það sem heild.

Heimild m.a.:
-Ólafur Olavius.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Lækjarbotnar

Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. Í eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.

Hellir ofan við Lækjarbotna

“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Þessum hjúum er lýst annars staðar á vefsíðunni. Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði” og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Ekki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678.
Hellir í HengliÍ Setbergsannál segir að þau Eyvindur og Margrét hafi fundist “í helli á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellsveit og lifðu á kvikfjárstuld.” Í Fitjaannál segir, að þau hafi í síðara skiptið lagst út í Henglafjöllum. Hellirinn í Mosfellsheiði er að öllum líkindum hellirinn ofan við Lækjabotna er fyrr var nefndur, enda var það hluti af Mosfellslandi fyrrum. Hann gæti einnig verið annar tveggja í Henglinum. Í honum eru skútar á tveimur stöðum, hvor skammt frá öðrum. Á öllum stöðunum sjást enn hleðslur.
Leitt hefur verið að því getum að hellir í hraunbólu sunnan við Þríhnúka gæti hafa verið bæli Eyvindar og Margrétar um tíma, en telja verður það ósennilegt. Umbúnaður á helli þessum var síðar “betrumbættur” og sett hurð á dyraopið. Náttúrulegur bálkur er inni og steinker í gólfi. Hins vegar er með þessa hranbólu líkt og aðrar; þær halda ekki vatni og væri því viðvarandi vist þarna verri en engin. Líklegt má telja að skjólið hafi um tíma verið notað af refaskyttum, sem lágum löngum við hlíðarnar, líkt og sjá má á tóftum undir þeim.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í klettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, sem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.” Hér að framan er getið um að Eyvindur og Margrét hafi hafst við í hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign. Hér gætu þau hafa dvalið um sinn enda má berja þarna mannvistarleifar augum.
Í Sleggjubeinsdal í Henglinum má sjá helli ofarlega í klettum með dálitla grastó fyrir framan. Í hellinn er ekki fært öðrum en góðum klettamönnum. Hann er tvegja til þriggja metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Skjól sunnan ÞríhnúkaBreiddin er um tveir metrar. Greinileg hleðsla er fyrir munnann beggja vegna dyra. Undir hellinum er töluvert af beinum, mest stórgripabeinum. Í öðrum dyraveggnum er hella, sem rís upp á rönd. Á henni er rista er helst líkist galdrastaf, lítið afmáðum. Innan við munnann við hellisvegg er ferstrend grjóthola. Í henni er jafnan vatn. Hún gæti hafa verið notuð sem vatnsgeymir.
Í sögu Jóns Grunnvíkings er fjallað um Völustakk, útilegumann í Hengli. Þórður Sigurðsson á Tannastöðum sagði frá því í Lesbók Morgunblaðsins 1939 að hann hafi heyrt sem unglingur að útilegumenn, 6-7 saman, hefðu verið í Henglinum. “Þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera.” Menn úr Ölvesi og Grafningi, 50 – 60,  tóku sig til og héldu með liðsafnað á hendur útilegumönnunum. Hellismenn tóku að flúja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af mesta ákafa og mest þeir er fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, en vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Við Þjófahlaupin voru allir hellismenn drepnir.”
Hverinn einiÍ alþingisbókinni 1703 er getið um refsingu þriggja útileguþjófa, og voru tveir hengdir, en einn aðeins látinn taka út stórfellda húðláts refsingu, og hét sá Gísli Odsson. Í Grímsstaðaannál er hann sagður Bjarnason. Dvalarstaður útileguþjófanna á að hafa verið hjá Selsvöllum og við Hverinn eina. “Nokkur vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufa úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirgver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að það sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóti upp um leðjuna.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilega rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðadal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Þar kemur fram að þennan dag [13. júlí] hafi þrír þjófar verið hengdir. Hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahreppi, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp…
Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér bæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi á Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þar veru þeirra. Leist þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, ræntu Selsvellirferðamann, er Bárður hér Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík, upp til hellsins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma uns Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern sinna fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssunar en tvær. Féll þjófunum þá hugur og gengu á hendur þeim. Voru þeir síðan teknir og fluttir til Bessastaða. Þar voru þeir þjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir.”
Í bókinni er jafnframt getið um útilegumannahelli við Eldvörp og rústir í Grindavíkurhrauni. Hvorutveggja hefur verið gerð nokkur skil hér á vefsíðunni. Ólíklegt verður að telja að þar séu leifar útileguþjófa. Aðrir staðir, sem ekki hafa verið tilgreinir hér, en sjá má mannvistarleifar á eða við, verða að teljast líklegri sem slíkir.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem – Úilegumenn og auðar tóttir, 1983, bls. 142-169.

Útilegumannahellir

Herdísarvík

Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.

„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.

Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.

Vogsósar

Vogsósar 1932.

Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.

Herd´siarvík

Herdísarvík 1898.

Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.

Herd´siarvík

Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.

Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.

Herdísarvík

Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.

Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdísarvík - skipshöfn 1919;

Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.

Sjóklæði

Sjóklæði.

Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.

Skrína

Skrína.

Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:

Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.
eða: : ’
Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.

Seilaról

Seilaról og -nál.

Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.

Þórarinn Árnason

Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.

Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.

Ólöf Sveinsdóttir

Ólöf Sveinsdóttir 1910.

Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Kuðungur

Í sérprenti Ferðafélags Íslands 1985 fjallar Agnar Ingólfsson um fjörur á Suðrvesturlandi.
„Fjaran er hér talin vera nokkurn veginn sú landspilda, sem nær frá stórstraumsfjörumörkum hið neðra að stórstraumsflóðmörkum hið efra, og er þá miðað við meðalstraum. Útbreiðslumörk tegunda færist ofar, eftir því sem Agnarbrim er að jafnaði meira. Er þetta afleiðing af því, að áhrif sjávar ná því ofar í landið, sem brim er meira.
Þeir umhverfisþættir, sem einkum hafa áhrif á gerð fjörunnar, lífríki hennar og notagildi, eru eftirfarandi: Undirlag (beður), brim, sjávarföll, hiti og selta.
Klappir og stórgrýtisurð eru víða ríkjandi undirlagsgerð á sunnanverðum Reykjanesskaga, en einnig eru slíkar fjörur hér og þar annars staðar, t.d. við Helguvík og Vogastapa og sums staðar á Kjalarnesi. Fíngerðari hnullungafjörur eru útbreiddar umhverfis Reykjavík svo og í Hvalfirði. Afbrigði af þessum fjörum eru hraunfjörur, þar sem hraun runnin eftir ísöld mynda fjörubeðinn. Þessa fjörugerð er að finna á svæðinu milli Voga og Álftaness, og einnig í Ósum við Hafnir. Þar sem brim er meira verður sums staðar stórgrýtisurð, þar sem hraun hafa runnið til sjávar, eins og á Reykjanesskaganum sunnanverðum. Sandflákar eru víða í fjörum á svæðinu. Á miðnesi er algengasta gerð fjöru víðáttumiklar fjörur með mörgum skerjum og smáhólmum, en sandflákum á milli. Minni svæði af slíkri gerð er einnig að finna t.d. austan Voga, á Álftanesi g seltjarnarnesi.
Í Hvalfirði eru einnig fjörur sem svipar til þessarar gerðar, þótt ekki séu þær Bláskelvíðáttumiklar. Fínkornóttar, víðáttumiklar leirur eru víða á svæðinu. Miklar leirur eru í Botnsvogi, Brynjudalsvogi og Laxárvogi og einnig í Kollafirði og Skerjafirði. Sjávarfitjar má telja afbrigði af leirum, en þetta eru svæði í fjöru þar sem beðurinn er jarðvegskenndur og háplöntugróður er ríkjandi. Víðáttumestu fitjarnar á svæðinu eru við innanverðan Leiruvog, en mjög víða eru smærri skikar.
Brimið er langmest við sunnanverðan Reykjanesskaga, og einnig er mikið brim á skaganum utanverðum sunnan Hafna. Á svæðinu norðan Hafna á Reykjanesskaganum utanverðum eru grynningar, sem draga mjög úr áhrifum brimsins. Þau svæði, sem afur á móti eru í mestu skjóli fyrir úthafsöldunni, eru fjörurnar í Skógtjörn og Ósum svo og leirusvæðin í innanverðum Hvalfirði, Kollafirði og Skerjafirði.
Sjávarföll eru veruleg á svæðinu. Munur fljóðs og fjöru á meðalstórstreymi er yfirleitt á bilinu 3.3 – 3.8 m. Hin miklu sjávarföll stuðla að því að gera fjöruna víðáttumikla. Mestar eru fjörurnar þar sem leirur eru, en minnstar við suðurströnd Reykjanesskaga, þar sem klappir og stórgrýtisurð ráða ríkjum.
Hiti sjávar við svæðið er hár. Meðalhiti í ágúst, sem er hlýjasti mánuðurinn, er nálægt 11°C og verður sumarhotinn hvergi meir hér við land svo nokkru nemi. Í köldustu mánuðum ársins, janúar og febrúar, er meðalhiti sjávar við Reykjanesskaga utan- og sunnanverðum um 4.0 – 5.8 °C og verður hvergi hærri hér við land bema sums staðar við suðurströndina, og munar litlu. Við sunnanverðan Faxaflóa virðist hitastig í febrúar vera eitthvað lægra, eða um 2.5 °C. Hið háa hitastig sjávar veldur því, að ýmsar tegundir dýra og plantna er að finna í fjörum suðvestanlands, en hvergi annars staðar við landið.
ÞangSelta sjávar við svæðið er jafnan um 35 prómill. Í fjörunni sjálfri er seltan þó víða lægri vegna frárennslis fersks vatns frá landi. Mest er seltulækkunin við árósa í Brynjudalsvogi, Botnsvogi, Laxárvogi, Leiruvogi og Elliðaárvogi. Þá er mikið um ísaltar tjarnir á svæðinu. Eftirfarandi tjarnir eru stærstar: Tjörnin í reykjavík, Bakkatjörn á Seltjanarnesi og Bessastaðatjörn á Álftanesi, svo og nokkrar tjarnir milli Ósa og Garðskaga. Fjölmargar smærri tjarnir eru á svæðinu, einkum í hrauninu á skaganum norðanverðum. Smálækir valda að auki mjög víða takmarkaðri seltulækkun.
Þar sem undirlag er stórgert og brim er ekki mikið að jafnaði eru stórvaxnir brúnþörungar yfirleitt mjög áberandi; þangfjörur. Þetta er langútbreiddasta fjörugerð á svæðinu. Sunnan Ósa er þó lítið af þangfjörum. Þangið í þessum þangfjörum þekur fjörurnar oft því nær alveg, nema efsta hluta þeirra.
SendlingurUm er að ræða eftirfarandi tegundir; dvergþang, klapparþang, bóluþang, skúfþang og sagþang. Af áberandi þörungategundum í fjörum þessum má nefna þangskegg, söl, fjörugrös, sjávarkræður og kóralþang. Allar síðarnefndu tegundirnar eru rauðþörungar. Neðst í þangfjörum er einnig stundum dálítið af þara, bæði beltisþara og hrossaþara. Ýmsir grænþörungar eru einnig algengir í þangfjörum, s.s. maríusvunta, marglýja og slavak. Ofan við þangbeltið vaxa oft ýmsir smávaxnir grænþörungar, sem mynda slikju eða ló á steinunum, en sú planta, sem er einna mest áberandi ofan þangbeltisins er fjöruskófin. Myndar hún svarta skán og er oft svo samfelld að fjaran virðist svört tilsýndar á nokkru svæði ofan þangsins.
Dýrin í þangfjörunum eru mikluminna ábernadi en gróðurinn. Flest þeirra eru falin undir steinum eða þörungum, a.m.k. þegar lágsjávað er. Ofan þangbeltisins geta klettadoppur og hrúðukarlar verið mjög áberandi. Kræklingur eða bláskel er einnig stundum áberandi í þangfjörum, einkum þar sem ferks vatns gætir.

Nákuðungur

Víða í hraunfjörum á norðanverðum Reykjanesskaganum má sjá bláar skellur hér og þar af völdum kræklingsins, þar sem ferskt vatn seytlar. Nákuðungurinn getur einnig á stundum verið alláberandi í þangfjörum. Í þanginu er oft urmull af þangdoppum, mærudoppum, kúfstrútum, þarastrútum og gljáslifrum í þörungunum. Oft er mikið af baugasnotrum undir steinum, og talsvert getur verið af olnbogaskeljum ofan á þeim. Allir þessir sniglar eru þörungaætur. Mæruskel, þanglús og fjörulýs eru þörungaætur. Margar tegundir marflóa eru algengar í þangfjörum. Efst í þanginu eru tvær tegundir stökkmarflóa algengar. Talsvert getur verið af burstaormum í þangfjörum, t.d. pípuorminum.
Geysileg mergð örsmárra dýra innst í fjörunni. eru þessi dýr lítt könnuð hérlendis, en um er að ræða t.d. krabbaflær, þráðorma og sjómaura. 

Kúfskel

Framangreind dýr eiga uppruna sinn í sjónum. En í fjörunni eru einnig landrænar tegundir dýra, s.s. fjörujötunuxinn, fjörukóngulóin og fjörurykmýið. Villt hryggdýr má einnig finna í fjörunni, s.s. sprettfiskar, hrognkelsaseiði, hornsíli, ufsaseiði, keilubræður og sogfiskar.
Fremur fátt er um fugla í þangfjörum. Sendlingar leita þó þangað í ætisleit, þegar lágsjávað er, en minna er yfirleitt af öðrum vaðfuglum. Á flóðinu eru æðafuglar í þangfjörunni og á seinni árum er orðið algengara að rekast á minka í fæðileiu í fjörum svæðisins.
Fjörur koma manninum að notum á margan hátt, beint eða óbeint. Almennt má segja, að fjörður gegni mikilvægu hlutverki, bæði þegar vistkerfi sjávar og lands eiga í hlut. Gróska fjörugróðurs er mikil. Framleiðsla gróðursins á lífrænum efnum er svo undistaða hins auðuga dýralífs fjörunnar. Að auki sækja fuglar og önnur landdýr mikla fæðu í fjöruna og flytka þannig orku, sem bundist hefur fyrir tilstilli fjörugróðurs, upp á land.

Marfló

Sjófuglar, eins og æðarfugl, svo og fiskar, flytja á hliðstæðan hátt orku úr fjörunniá haf út. Að aukis litna þörungar úr fjörunni í nokkrum mæli, og skolast bæði upp á land og á haf út, þar sem ýmsar lífverur, bæði gerlar, sveppir og dýr nýta sér þá. Mikil líf verður t.d. oft í þörungum, sem hrannast hafa upp rétt ofan fjöru í brimi. Smádýralífið í hrönnum þessum, ekki síst lirfur og púpur þangflugunnar er mikilvæg fæða ýmissa fugla, m.a. spörugla.
Fjörur eru á margan hátt hentugar sem útivistarsvæði. Fyrir náttúrskoðara er fjaran góssenland, þar sem hægt er að komast í snertingu við hið fjölbreyttasta líf, bæði gróður, smádýralíf og fugla. Lífríkið í fjörunni leggst ekki í dá að vetrinum að sama skapi og gerist uppi á landi, og jafnvel um hávetrartímann er mikið um að vera þar.“
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Agnar Ingólfsson, Fjörur á Suðvesturlandi, sérprent úr Árbók FÍ 1985.

Þari

Þari.

Bessastaðanes

Þegar gengið var um sunnanvert Bessastaðanes mátti á nokkrum stöðum sjá forna jarðlæga grjótgarða,, bæði neðan við kirkjuna og út á svonefndum Vestaritanga. Þar er greinileg tóft skammt ofan við fjöruborðið og liggja garðarnir í boga út frá henni að sjó. Góð lending er neðan við tóftina. Frá henni er styst sjóleiðina yfir að Gálgaklettum í Gálgahrauni.

Svæðið

Í örnefnaskrá Kristjáns Eldjárns segir m.a. um þetta svæði: „Suður frá bæ voru áður mikil svöð, en nú eru þar ræktuð tún. Er mér ekki kunnugt um nein nöfn þar nema Kringlumýri sem Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, sem nú eru alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi, og er þar mikið æðarvarp, en stóra víkin austan við þá heitir Músavík (eða Músarvík). Nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem mætast Skerjafjörður og Lambhúsatjörn, og allra fremst á Rananum heitir Ranatá hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum, sem er eldri en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber á Bessastaðanesi, er hóll, sem heitir Skothús, og segir B.Gr. nokkuð frá því. Þar hefur verið eitthvert mannvirki, en engar sagnir eru um það.“
GrjótgÍ Árbók hins ísl. fornleifafélags 1981 fjallar KE um svæðið og leggur örnefnalýsinguna til grundvallar. Auk þess segir hann um framangreinda tóft á Vestaritanga: „Tóftarbrot lítilfjörlegt er einnig fremst á Vestaritanga. Rennur mjög saman við þýfið þar og verður ekki séð til hvers verið hefur.“
Í frásögn sinni um sama efni í Árbókinni skrifar hann: „Suður frá staðnum, fyrir sunnan brekkuna sem húsin standa á, er land mjög lágt og hefur verið votlent, en er nú ræktað tún. Einhversstaðar þar voru Akrarnir, sem svo voru kallaðir og Benedikt Gröndal talar um, „stórir ferhyrndir blettir, mig minnir tveir samfastir með lágum torfgarði á milli, mátti vel sjá móta fyrir „akurreinum“ eða löngum þverdældum.“ (Dægradvöl útg. 1965, bls. 11).
TóftÞessir „akrar“ eru nú löngu horfnir. Eitthvað töluvert austar hefur verið mýri sú sem Kringlumýri nefndist og Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Er helst svo að sjá sem þetta hafi verið sama mýrin og Björn Gunnlaugsson kallar Heimamýri á uppdrætti sínum. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi. Er mikið æðarvarp á þessum slóðum. Mýrina upp af
GarðTöngunum nefnir Björn Gunnlaugsson Miðmýri) og virðist það nafn vera gleymt nú. Stóra víkin austan við Tangana heitir Músavík eða Músarvík. Björn Gunnlaugsson notar seinna afbrigðið, en uppmæling hans mun vera elsta heimild sem til er um þetta nafn. Langa nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem Lambhúsatjörn opnast út í
Skerjafjörð. Fremst á Rananum heitir Ranatá, og hefur Björn Erlendsson það eftir Jakob bróður sínum, sem eldri var en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber í Bessastaðanesi, er töluvert reisulegur hóll sem heitir Skothús og segir Benedikt Gröndal nokkuð frá því. Á hólnum hefur verið eitthvert mannvirki en engar sagnir eru um það. Um Skothúsið segir: „Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber í Bessastaðanesi, eða eins og Gröndal segir í Dægradvöl: ,,Þar hæst á bungunni er kringlóttur grasblettur og rúst eftir gamalt byrgi, þar sem fálkarar hafa líklega legið við fyrrum, það var kallað „skothúsið“, og er þaðan víðsýni mikið og fagurt.“ (2. útg. 1965, bls. 4). Hvað sem líður ummælum Gröndals um fálkara, má telja mjög sennilegt að þarna hafi verið skotbyrgi. Gæsir eru t.d. tíðir gestir í nesinu. Hóllinn sem tóftirnar eru á, er 9 m í þvermál við grunninn, sýnist að upphafi hafa verið náttúruverk en þó má vera að hann hafi smám saman hækkað af mannavöldum. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.“
Tóftin og garðarnir á Vestaritanga eru forvitnilegar minjar. Þarna gæti auðveldlega hafa verið sjóbúð og garðarnir þurrkgarðar. Þá gæti húsið hafa tengst fangaflutningum frá Bessastöðum yfir að Gálgaklettum meðan aftökur tíðkuðust þar. Önnur notagildi koma og vissulega til greina.

Heimildir:
-Örnefnalýsing KE fyrir Bessastaði.
-Árbók hins ísl. fornleifafélags, 78. árg. 1981, bls. 132-147 – Kristján Eldjárn.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ