Húsatóftir

Eftirfarandi um sögu refaveiða er úr riti Landverndar 1980. Höfundur er Páll Hersteinsson:

Ref-1

Refagildra við Húsatóftir.

Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum. Það er því ekki að undra, að þeir skyldu veiða tófur hér frá upphafi. Refskinn voru líka löggiltur gjaldmiðill og talin jafnvirði lambagæra á þjóðveldistímanum og lengur. Einnig ber snemma á því, að refurinn hafi verið álitinn skaðvaldur. Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir. Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári, ellegar greiða 2 álnir í mat fyrir fardaga. Það kallaðist dýratollur. Fjórar álnir skyldu greiðast í sekt ef ekki væri staðið í skilum, og átti helminginn hreppstjórinn, sem sótti skuldina, en hinn helmingurinn, ásamt dýratollinum, lagðist til að greiða kostnað við refaveiðar framvegis.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur. Sennilega hefur verið talsverður misbrestur á að bændur stunduðu refaveiðar sem til var ætlast samkvæmt lögum. A.m.k. hefur verið talið nauðsynlegt að minna bændur á þetta við uppsögn leiðarþinga, eins og fram kemur í Formálabók Jóns lögmanns Jónssonar frá árabilinu 1570-1581: ,,Item minni eg bændur á, að þeir sig vel til temji að fara að dýraveiðum, eftir því, sem lögréttumenn hafa áður samþykkt“.
DyrabogarBændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurunum sjálfum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra eftir konunglegri tilskipun frá árinu áður. Í meginatriðum er þar fylgt fyrrnefndum alþingissamþykktum, en hér eru samt nákvæm fyrirmæli um hvernig farið skuli að við refaveiðar, um laun tófufangara og um sektir, sé ekki farið eftir fyrirmælum.
Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á fyrrnefndum reglugerðum. Mikilvægast var, að dýratollur féll ekki lengur niður þótt bændur veiddu refi, en öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði. Þá var tollurinn hækkaður þannig að hann miðaðist við höfðatölu veturgamalla sauðkinda og eldri í ábyrgð hvers bónda. Að lokum var skýrt tekið fram, að hvorki andlegir nér veraldlegir embættismenn skyldu vera undanskildir dýratollinum.
Reglugerðir þessari stóðu óbreyttar að mestu næstu 50 árin. Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.

Ref

Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum. Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu. Árið 1949 verður sú breyting samkvæmt lögum, að allur kostnaður við eyðingu refa skiptist jafnt á milli sveitarsjóðs, sýslusjóðs og ríkissjóðs. Loks verður sú lagabreyting árið 1957, að refaeyðingarkostnaður fellur að 2/3 á ríkissjóð, 1/6 á sýslusjóð og 1/6 á sveitarsjóð.
Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Hvorug aðferðin var samt líkleg til árangurs til fækkunar refa. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar. Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót, en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum. Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransuaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita. Sumum fannst lítið gagn að kransaugunum, enda voru þau ekki mikið notuð fyrr en leið undir miðja 19. öld. Sennilega stendur sú aukning í sambandi við þá uppgvötun, að þau voru mun áhrifameiri ef mulið flöskugler var sett saman við þau til að særa meltingarveginn og auka þannig upptöku eitursins inn í líkamann.

Refs

Á 18. eða 19. öld voru einnig notaðar svokallaðir refaknettir. Það voru kjöt- eða mörbitar, sem inn í voru látin nálabrot eða þar til gerð agnjárn. Það voru tveir litlir pinnar, annar með gati í miðju og hinum smokkað þar í gegn svo að úr þeim myndast kross. Pinninn með gatinu í var um þumlungur á lengd, en hinn nokkuð styttri. Þessir pinnar festust í meltingarvegi dýrsins og drógu það til dauða.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar. Enn í dag er nokkuð algengt, að hundar drepi refi, þótt ekki séu þeir sérstaklega þjálfaðir til þess.

Grjótgildra-2

Refagildra ofan Staðarbergs.

Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekkert bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur. Kenninng Jóns hlaut talsvert fylgi og hefur haft fram á þennan dag. Að mínum dómi á hún fullan rétt á sér, þótt seint verði hún sönnuð. Víst er, að fá hrædýr nálgast dauðyfli, sem borin hafa verið út af mönnum. Af slíkri varkárni sem íslenski refurinn, þrátt fyrir 16 ára eitrunarbann.

Refagildra

Refagildra í Slokahrauni oafn við Hraun. Sigurður Gíslason sýnir Sesselju Guðmundsdóttir fjögurra dyra gildru.

Það er augljóst, að menn hafa talið, að hægt væri að fækka refum svo með eyðingarherferðum, að skaði af þeirra völdum yrði óverulegur. En slíkar herferðir hafa verið stundaðar af misjafnri kostagæfni eftir landshlutum. Til dæmis var dýratollur ekki alltaf innheimtur alls staðar, sennilega vegna þess að hann var þung byrði og árangur af melrakkaveiðum talinn lítill. Þess er getið að á ofanverðri 18. öld hafi verið lítil brögð um refatoll í Barðastrandarsýslu og að svo muni hafa verið víðar vestanlands.
Þar sem dýratollur var greiddur á annað borð var kvartað undan honum. Á árunum 1832-34 neita Sléttungar að samþykkja reglugerð um refaveiðar og dýratoll og bera því við, að ómögulegt sé að vinna greni til fulls á Melrakkasléttu. Það var því ekki von, að refum fækkaði. En jafnvel þótt lögum og reglugerðum hefði verið framfylgt er ólíklegt, að náðst hefði sá árangur, sem menn vonuðust eftir. Það sést í ljósi þess, að aðeins með því gífurlega átaki, sem gert hefur verið undanfarin 20 ár og með því móti, að ríkissjóður taki á sig megnið af kostnaðinum hefur refum tekið að fækka. Slíkt átak hefði verið óhugsandi án þess.“
Á Reykjanesskaga eru þekktar um 100 grjótgildrur til refaveiða.

Refagildra

Refagildra í Skollahrauni austan Ísólfsskála.

Skrifað hefur verið um refaveiðar og -gildrur í gegnum tíðina. Arnheiður Sigurðardóttir skrifar t.d. um „Nokkra málshætti úr málsháttasöfnum dr. Hallgríms Schevings:

Húsatóftir

Refagildra ofan Húsatófta.

„Í riti séra Björns Halldórssonar, Atla, er svohljóðandi kafli um refagildrur:… „allra minst kostar þig at gera þer Toougilldru, vidiijka og þu getr sied uppaa bruuninni her fyrir ofan Bæinn, enn huun er giord eptir Forskript nockurs gamalls Prests, sem gaf mer hana, og med þvij saa umbuuningr er nu flestum okendr her i grend vil eg segia þer hana“. B.H. Atli, bls. 152.
Síðan kemur nákvæm lýsing af gerð gildrunnar, og sést af því, að hún hefur í aðalatriðum líkzt húskofa. Orðalag kaflans, sem hér fer á undan, sýnir, að það hefur verið forn venja, orðin litt þekkt á 18. öld, að hafa refagildrur yfirbyggðar eða eins konar byrgi.
Sú hugsun, sem upphaflega hefur falizt í málshættinum, virðist mér þessi: gildran er í augum refsins hið sama og gistihúsið ferðamanninum, þ. e. hæli, sem hann kemur að á förnum vegi, þar sem skjól og ríkuleg máltíð biður hans.
Bl. hefur málsháttinn og þýðir hann þannig: „Saksen er for Ræven som Gildeshus“.“

Kristján Helgason, frá Dunkárbakka, skrifar um refagildrur í Lesbók Morgunbalaðsins árið 1961 undir yfirskriftinni „Refagildrur eða tófuhreiður“:
„Hér segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af.

Refagildra

Dæmigerð refagildra – ÓSÁ.

Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á. Tófur leggja gjarnan í slíkt greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst.
Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim. -Kristján Helgason, frá Dunkárbakka.“

Í skrifum GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“,  í Vestfirska fréttablaðinu árið 1994 segir m.a.:
„Strax og kom yfir ána gat að líta litlar hleðslur á hverju holti. Minntu þessar hleðslur á hrundar vörður og hugði ég svo vera. Þegar svo þessar hleðslur voru skoðaðar nánar kom í ljós að þarna var um ótölulegan fjölda refagildra að ræða. Hleðslan er þannig uppbyggð, að í miðjunni er holrúm sem er nægjanlega stórt fyrir heimskautarefinn, sem er sama tegund og tófan á Íslandi, að komast inn í. Opið er inn í holrúmið og þar er agn, oft lítill kjöt- eða spikbiti. Agnið er fest við stein og þegar refurinn togar í það hrynur öll hleðslan yfir dýrið og drepur það. Er þetta mjög hugvitslega hlaðið. Svona refagildra er einnig rétt hjá Hvallátrum, eða undir Brunnanúp, rétt norðan við Bjargtanga á Íslandi. Virðist því þessi gerð af refagildrum einnig hafa verið notuð til forna á Íslandi. Eina veðrið sem við höfðum af ref var það að á nokkrum stöðum sást refaskítur og var hann auðþekktur því hann er eins á Íslandi og Grænlandi.“

Refagildra

Refagildra á Selatöngum.

Erik Knatterud segir lesendum Mbl frá lífinu á hjara veraldar, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“ árið 1965. Þar getur hann um refagildrur:
„Dýralífið hér er fátæklegt miðað við það, sem var á dögum Hollendinga hér. Nú eru hér aðeins nokkrir heimskautsrefir og mávar, en allmikið er þó af hinum síðasttöldu. Einstaka sinnum má þó sjá hval eða sel, en ísbirnir sjást hér mjög sjaldan. En um alla eyna getur að líta gamlar refagildrur, rústir veiðikofa, og hvalbein á víð og dreif kringum Fuijama norðurslóða, hinar gömlu stöðvar Hollendinga hér. Frá því um 1600 og fram eftir öldum var nóg af hvölum, selum, rostungum og ísbjörnum meðfram ströndum Jan Mayens. Nú er stunduð áhugamannafornleifafræði í hinum gömlu bústöðum Hollendinga. Er það einkum í Rostungavík, sem fornleifar hafa fundizt, og hefur þeim verið komið fyrir í gömlum varðskúr
frá stríðsárunum.“
Sjá MYNDIR af refagildrum á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Úr riti Landverndar, nr. 7 (1980) – VILLT SPENDÝR : Saga refaveiða, höfundur: Páll Hersteinsson, bls. 70-73.
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1957), Arnheiður Sigurðardóttir; Nokkrir málshættir úr málsháttasöfnum dr. Hallgíms Scheving, bls. 113-114.
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (23.04.1961), Kristján Helgason frá Dunkárbakka, Refagildrur eða tófuhreiður, bls. 236.
-Vestfirska fréttablaðið – 33. tölublað (31.08.1994), GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“, bls. 7.
-Morgunblaðið – 246. tölublað (28.10.1965), Erik Knatterud, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“, bls. 17.

Hraun

Refagildra.

Þórufell

Í Morgunblaðinu 2. október 1987 er minningargrein um Þóru P. Jónsdóttur. Þóra fæddist í Breiðholti og bjó lengi við Reynisvatn. Hún var vel kunnug á sínum heimaslóðum, líkt og lesa má:

Þóra P. Jónsdóttir

Þóra P. Jónsdóttir (13.05.1891-21.09.1987).

„Ástkær tengdamóðir mín, Þóra Petrína Jónsdóttir frá Reynisvatni, er látin í hárri elli. Hún átti ekki nema fjögur ár ólifuð til að fylla heilt árhundrað. Með Þóru er fallinn í valinn verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem lifað hefur tímana tvenna. Í minningu tengdamóður minnar get ég ekki látið hjá líða að fara um hana nokkrum orðum og endurgjalda henni að nokkru þann hlýhug og velvilja sem hún sýndi mér alla tíð.
Þóra var fædd 13. maí 1891 í Breiðholti. Foreldrar hennar voru þau Jón Jónsson, bóndi þar og kona hans Björg Magnúsdóttir, en þau hjón áttu miklu barnaláni að fagna og var Þóra yngst þrettán barna sem þeim hjónum varð auðið. Þrátt fyrir alla ómegðina, tókst Jóni og Björgu alla sína hjúskapartíð að sjá börnum sínum farborða.
Jón og Björg bjuggu myndarlegu búi að Breiðholti og víst er að þar hefur oft verið gestagangur mikill í sláturtíðinni, er vinnumenn og bændur af Suðurlandi komu slæptir ofan af Hellisheiði með reksturinn til slátrunar í bæinn, enda lá Breiðholtsbýlið um þjóðbraut þvera.
Breiðholt
Eftir að Jón féll frá 1897, tók Björg við búrekstrinum, sem henni fórst vel úr hendi. Björg stýrði búi í Breiðholti í ein sex ár eða til 1903 er hún brá búi og fluttist til Reykjavíkur með þau barnanna sem ekki voru að fullu vaxin úr grasi. Þá var Þóra á þrettánda ári og var talan þrettán þar enn á ný áhrifavaldur í lífi hennar. Eins og títt var með börn og unglinga á upphafsáratugum aldarinnar, varð Þóra snemma að sjá sér farborða og leggja til með sér til heimilishaldsins. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur vann hún í fiskvinnu, verksmiðjuvinnu og kaupavinnu uppí Borgarfirði og austur í Fljótshlíð.

Stöðlakot

Stöðlakot [Stuðlakot] við Bókhlöðustíg.

Þóra kynntist í Reykjavík lífsförunauti sínum, Ólafi Jónssyni, múrarameistara frá Stuðlakoti [Stöðlakoti], miklum ágætis- og hagleiksmanni. Þau gengu í það heilaga 14. október 1913 og lágu leiðir þeirra saman eftir það í rúm fimmtíu ár, eða þar til Ólafur andaðist 25. september 1965, þá rétt kominn á efri ár.
Fyrst um sinn bjuggu Þóra og Ólafur í Stuðlakoti, æskuheimili Ólafs. Stuðlakot kannast óefað margir Reykvíkingar við, en það er steinbærinn við Bókhlöðustíginn, beint fyrir sunnan latínuskólann gamla, en bærinn hefur fyrir skemmstu verið gerður upp í upphaflegri mynd. Í Stuðlakoti og á Bókhlöðustig 6a, húsi sem Ólafur reisti, bjuggu þau í rúm tíu ár, eða þar til þau festu sér jörðina Reynisvatn í Mosfellssveit til ábúðar.

Reynisvatn

Reynisvatn – túnakort 1916.

Eftir að þau brugðu búi og fluttust að Reynisvatni 1924, þurfti víða að taka til hendinni. Húsakostur á Reynisvatni var bæði rýr og lélegur og túnið lítið og þýft. Það var því í nógu að snúast fyrstu búskaparárin. Ólafur byggði nýtt og rúmgott íbúðarhús og braut ódeigur mikið land til rætkunar. Ólafur var búhöldur góður, og hafði á fóðrum margt fjár, sem var bæði vænt og fallegt.
Þrátt fyrir óbilandi áhuga Ólafs fyrir búskapnum, var hann þó trúr og tryggur þeirri iðn sem hann hafði menntast til, múrverkinu. Hann stundaði múrverk jöfnum höndum með búskapnum allt fram yfir 1950, er hann lagði múrskeiðina á hilluna og snéri sér alfarið að búskapnum. Meðal þeirra bygginga sem Ólafur vann við og tók þátt í byggingu á voru ýmis stórhýsi, s.s. Landspítalinn, Landsbankinn, Hafnarhúsið, Hótel Borg og Gamla Bíó.

Reynisvatn

Reynisvatn – minjar.

Án efa hefur mikið mætt á Þóru á frumbýlisárum hennar og Ólafs að Reynisvatni. Þegar hér var komið við sögu höfðu þau eignast fimm börn, sem öll voru ung að árum og fjögur önnur bættust í barnahópinn næstu árin. Þær stundir sem bóndinn dvaldi fjarri heimilinu í Reykjavík við múrverkið, hafði Þóra í mörgu að snúast, barnauppeldi og búverkum. Eflaust hefur jafnlyndi og æðruleysi Þóru og væntumþykja fyrir börnum og ferfætlingum átt stóran þátt í því að bústörfin gengu sinn vanagang, þótt Ólafur væri við störf í Reykjavík.
Börn þeirra Þóru og Ólafs urðu níu talsins. Eftir að börnum voru vaxin úr grasi, fyllti næsta kynslóð upp í það tóm sem verður þegar börnin eru farin að heiman. Öll barnabörnin, sem eru 17 að tölu, dvöldu langdvöldum á Reynisvatni hjá ömmu og afa meðan hans naut við.

Þórufell

Þórufell í Breiðholtshverfi.

Enn á ný 1980 urðu breytingar á högum Þóru. Hún seldi Reykjavíkurborg landareignina og húsakostum á Reynisvatni og fluttist búferlum að Mávahlíð í Reykjavík, þar sem hún eyddi ævikvöldinu.
Þrátt fyrir háan aldur og margt viðvikið á langri ævi, hafði Þóra fótavist allt fram á síðasta dag og fylgdist vel með öllu þó líkamlegt þrek væri farið að minnka.
Alla ævi hafði Þóra mjög sterkar taugar til æskustöðva sinna í Breiðholtinu. Þegar embættismenn á vegum Reykjavíkurborgar voru að finna götum í Breiðholtinu nöfn, var Þóra höfð með í ráðum, enda óvíst að aðrir eftirlifandi hafi verið kunnugri örnefndum og staðháttum á þeim slóðum en hún. Borgaryfirvöldum þótti við hæfi að nefna þrjár götur í höfuðið á Þóru og tveimur systrum hennar, göturnar Þórufell, Lóuhólar og Maríubakki. Ræktarsemi Þóru við Breiðholtið kom ekki síst fram í því að henni var umhugað um varðveislu örnefna í Breiðholtinu, þótt gömlum kvíastæðum og stekkjarbrotum væri valið það hlutskipti að lenda undir undirstöðum íbúðarhúsa og háhýsa. Þóra brást því glöð við þeirri beiðni starfsmanna Örnefnastofnunar að fylla í eyður stofnunarinnar um örnefni á bernskuslóðum hennar og næsta nágrenni.
Þóra var um margt einstæð kona. Hún var hjartahlý og ráðagóð og vildi úr hvers manns vandkvæðum ráða. Hún var mikill dýravinur og náttúrunnandi, hún unni öllu því sem lífsandinn hrærði.“ – Þorgeir Þorkelsson

Heimild:
-Morgunblaðið, 2. október 1987, Þóra P. Reynisdóttir, f: 13.05.1891, d. 21.09.1987, bls. 39.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Arngrímshellir

Gengið var niður í Fjárskjólshraunshelli í Krýsuvíkurhrauni (Fjárskjólshrauni) undir mosaþverskorinni Geitahlíð og áfram niður hraunið að Keflavík þar sem tilkomumikill gataklettur var skoðaður utan í Krýsuvíkurbergi, sem og gamla bergið þar sem á trjóna svonefndir Geldingasteinar. Haldið var vestur með bjarginu og síðan beygt til norðurs upp í Bálkahelli og loks farið í Arngrímshelli. Á göngunni var m.a. rætt um austurlandamerki Krýsuvíkur, sem eru þarna eða svolítið austar; allt eftir því við hvaða gögn er stuðst.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þegar gengið var frá opi Litlu Eldborgar, niður Eldborgarhraunin, lagðist regnbogi yfir þau þannig að göngufólkið gekk undir annan enda hans. Sjaldgæf sjón – og ósktæk.
FERLIR skoðaði Fjárskjólshelli árið 2004. Um er að ræða u.þ.b. 60 metra helli með sléttu gólfi. Innst lokast hann með fallegum hraungúlpi, sem virðist kom upp úr gólfinu. Að þessu sinni skartaði hellirinn hinum fegurstu grýlukertum og klakahnúðlum.
Niðri í Fjárskjólshrauni er fornt hlaðið fjárskjól. Líklega dregur hraunið nafn sitt af því týnda skjóli.
Opið á Fjárskjólshraunshelli er í stóru grónu jarðfalli. Nyrst í því er hægt að komast niður í stóra hraunrás, slétta í botninn. Rásin liggur til norðurs. Stutt rás liggur til hægri. Fremst er einnig stór hraungúlpur, sem virðist hafa komið upp úr gólfinu. Um er að ræða fallegt jarfræðifyrirbæri.

Bálkahellir

Bálkahellir – op.

Á leiðinni niður í Keflavík var komið við á Skyggnisþúfu. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.
Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatklettur stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum.
Á kortum er Keflavík notað fyrir allt svæðið framan við og vestan og austan við Bergsenda. Af brún bjargsins ofan við víkina liggur gömul rekagata niður í hana. Götunni var fylgt niður. Niðri er skjólgott undir háum grágrýtisveggjunum. Framar er stóreflis lágbarið strandargrjótið. Útsýnið þarna eftir berginu er einstaklega fallegt.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

FERLIR leitaði að og fann Bálkahelli árið 2000. Hans er þó getið í gamalli sögn um þjóðsöguna af Grákollu og Arngrímshelli, sem er þar skammt vestar. Neðsti hluti Bálkahellis (um 150 m langur) er með sléttu gólfi, vítt til veggja og hátt til lofts. Dropsteinar og hraunstrá eru í þessum hluta. Nauðsynlegt er að hafa með sér góð ljós þegar hellirinn er skoðaður til að draga úr líkum á skemmdum. Hiti var í hellinum svo ekki sáust klakamyndanir.
Haldið var upp í gegnum efsta hlutann. Botninn er sléttur í fyrstu, en þegar komið er að stórri steinsúlu þarf að fara yfir hraun. Það er þó ekki ógreiðfært, en nauðsynlegt er að hafa góð ljós í Bálkahelli. Þegar komið var út úr þessum efsta huta hellisins mátti vel sjá af hverju hann dregur nafn sitt; steinbálkum beggja vegna. Líklegt er að sá er leit hellinn augum hafi nafngreint hann eftir fyrrnefndum bálkum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Gengið var í gegnum efsta hluta Bálkahellis (120 m). Klakasúla var næst innganginum. Gólfið er slétt í fyrstu, en þegar komið er að mikilli hraunsúlu tekur við hrun, sem þó er tiltölulega auðvelt yfirferðar. Efst í efsta hlutanum eru bálkar, sem hellirinn ber nafn sitt af. Þar er þrastarhreiður.
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Þetta svæði er varla til í augum og hugum landans, hvað þá annarra. Um er að ræða nokkur hraun, bæði úr Eldborgum og eldvörpum ofan við Sláttudal og Brennisteinsfjöllum. Þau eru misjafnlega vel gróin og eru misgreið yfirferðar. Miðjan er þó vel greiðfær með lyngi og kjarri í brekkum.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum. Líta verður á minjar þessar sem fornleifar og varðar röskun refsingu.

Keflavík

Keflavík – rekagatan.

Þegar FERLIR gaumgæfði hellinn vel og vandlega kom í ljós ýmislegt er nefndur Gvendur virðist hafa skilið eftir sig, s.s. hangiketsleifar og brennivínstár, sem honum hafði ekki unnist tími til að ýta að gestum. Ketið virtist vel ætilegt eftir allan þennan tíma og ekki var loku fyrir það skotið að brennivínið væri jafnvel betra, en hefði það nýsoðið verið.

Þegar staðið var utan við tóftina lagði sólin geisla sína á hana svo hún yrði vel myndtæk.
Hraunið ofan við bergið er í umdæmi Grindavíkur, en skammt vestar er spilda umdæmisins, sem skv. afsalsbréfi tilheyrir Hafnarfirði. Hún sker í sundur Grindarvíkurlandið, sem nær austast að mörkum Herdísarvíkur/Selvogs/Árnessýslu (úr Seljabót í Sýslustein).
Þann 29. september 1941 afsalaði landbúnaðarráðuneytið f.h. ríkissjóðs til sýslunefndar Gullbringusýslu f.h. sýslusjóðs öllu tiltæku ræktanlegu beitilandi jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir búfé.

Sveitarfélagsmörk

Sveitafélagsmörk.

Var þá undanskilið úr jörðunum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins dags. 20. febrúar 1941 var afsalað til Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Krýsuvíkurland þetta er, skv. skilgreiningunni, “að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftri Sveifluhálsi vestustu vík Kleifarvatns, að bera í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í réttvísandi suður til sjávar í Keflavík. Að sunnan ræður sjór..”.

Skyggnisþúfa

Skyggnisþúfa.

Af afsali þessu sést glöggt, að Gullbringusýsla öðlast beitarrétt með afsalinu, en grunnréttur til landsins er áfram í hendi ríkisins. Landspilda Krýsuvíkur er í landi Grindavíkurumdæmis, sbr. land bæði vestan og austan hennar. Alþingismaðurinn, er beitti sér fyrir málinu f.h. Hafnarfjarðar á Alþingi sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, var jafnframt bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og síðar ráðherra. Slíkt myndi ekki samrýmast góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Í ljósi þess, sem og eðlilegum sanngirnissjónarmiðum, ættu Hafnfirðingar þegar í stað, virðingu sinnar og sóma vegna, að afhenda Grindvíkingum landsumdæmi sitt á nýjan leik. Ekki síst í ljósi þess að veruleg villa er í framangreindri landamerkjalýsingu.
Deilur voru einnig um mörk Krýsuvíkurlands á 17. öld. Í byrjun aldarinnar virðist hafa koma upp vafi um mörkin. Fyrst austurmörk og svo vesturmörk. Um þetta málefni fjallar Magnús Már Lárusson um í ritgerð 1961. Þar segir m.a. að til séu 6 frumbréf Skálholtsstóls um austur landamerki Krýsuvíkur frá árunum 1603 og 1604 og Telur MML að varðveisla þeirra til þessa dags með stólsskjölum gefi til kynna, að bréf þessu geymi þau merki, sem talin hafi verið rétt.

Keflavík

Geldingasteinn ofan Keflavíkur.

Upp úr 1650 verður deila um rekarétt milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála og eru allmargir vitnisburðir vegna merkja Krýsuvíkur að vestanverðu skjalfestir í bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar. Einn vitnisburðurinn segir Krísuvík eiga allt land austur á eystri hraunbrún á hrauni því, sem liggur fyrir austan Eilífðarhorn (á við Geitahlíð). Eitt segir að Krýsuvík eigi austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó. Enn fremur segir, að Krísuvík eigi allt land austur yfir Háahraun, er liggur fyrir austan Geitahlíð. Annað segir að Krýsuvík eigi allt land að þeim steini, er stendur á Fjalli hjá Skildi.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – loftmynd.

(Lyngskjöldur). Þrír vitnisburðir til viðbótar segja að Krýsuvík eigi allt land að steininum hjá Skildi. Þessar merkjalýsingar voru sá grundvöllur, sem stóllinn gat byggt á, ef merki Krýsuvíkur yrðu véfengd.
Árið 1786 keypti Jón Ingimundarson jörðina og leitaði hann vitnisburðar um merki hennar og meðal kirkjuskjala er frumrit vitnisburða þriggja manna um landamerki Krýsuvíkur. Þá bendir MML að lokum á að eftirtektarvert sé, að í sóknarlýsingu Jóns Vestmanns fyrir Krýsuvíkursókn sé þessi lýsing: “Vestari partur Brennisteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan við Kleifarvatn, þaðan til sjávar á Selatöngum. Samkvæmt þessari lýsingu telst allstór þríhyrna ekki til Krýsuvíkursóknar.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – Hús Krýsuvíkur-Gvendar framan við hellismunnann.

Þjóðsagan segir hins vegar að hin gömlu landamörk Krýsuvíkur og Herdísarvíkur liggja á milli dysja þeirra Krýsu og Herdísar, sem enduðu ævina með deilum um þau neðst í Kerlingardal austan við Deildarháls. Sagan segir að „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Þegar þær konur hittu hvora aðra fyrir þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200
-Magnús Már Lárusson – ritgerð 1961.

Fjárskjólshraunshellir

Í Fjárskjólshraunshelli.

Björn Bjarnason

Í skýrslu Árbæjarsafns um „Grafarvog – minjar og sögu“ frá árinu 1998 er fjallað um Gröf (Grafarholt), Grafarkot (Holtsstaði), Oddgeirsnes, Keldur og Keldnakot (Lausingjastaði):

Gröf – Grafarholt
„Jörðin Gröf fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað 1907.

Grafarholt

Grafarholt – byggt 1907.

Ekki er Grafar getið í Landnámu en byggð hefur trúlega hafist þar fljótt. Fyrst er hennar getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum 1352 og seinna sem eign Viðeyjarklausturs 1395. Árið 1503 er gefið út skiptibréf þeirra Áma ábóta í Viðey og Halldórs Brynjólfssonar ájörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Við siðaskipti um 1550 sló konungurinn eign sinni á allar klausturjarðir á Íslandi og varð Gröf í Mosfellssveit því konungsjörð.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason 90 ára. Hér þakkar hann fyrir góðar kveðjur honum til handa.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða. Kvaðir um mannslán, hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, hússtörf á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar.
Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggðist upp þá fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem er búin að vera eyðijörð í allra manna minni.
Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð.

Grafarholt

Fjölskyldan í Grafarholti. Efri röð frá vinstri: Kristrún Steindórsdóttir (1915-1998), Björn Steindórsson (1921-1974), Einar Þórir Steindórsson (1916-1991), Steindór Björnsson (1885-1972), Gunnar Steindórsson (1918-1966) og Guðni Örvar Steindórsson (1913-1981). Neðri röð frá vinstri: Steinunn María Steindórsdóttir (1922-2005), Vignir Guðbjörn Steindórsson (1919-1945), Rúnar Geir Steindórsson (1925-2012) og Guðrún Eybjörg Steindórsdóttir (1921-1948).

Framan af öldinni bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu.
Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekin eignarnámi 1944.

Keldur

Keldur

Keldur.

Jörðin Keldur er norðaustan við Grafarvog. Bærinn sjálfur hefur alla tíð verið á svipuðum stað eða þar sem tilraunastöðin í meinafræðum er núna. Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en jörðin var talin meðal eigna Viðeyjarklausturs árið 1395, verður síðan konungseign við siðaskiptin eins og aðrar klausturjarðir. Litlar sögur fara af ábúendum í gegnum aldirnar. Samkvæmt Jarðabók árið 1704 voru ábúendur á Keldum, Sveinn Jónsson og ekkjan Vigdís Ketilsdóttir sem bjuggu á sitthvorum helmingi jarðarinnar.

Keldnasel

Keldnasel.

Leigajarðarinnar átti að borgast með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Kvaðir um mannslán voru eitt frá báðum, hestlán til alþingis meðan hestar voru til, hafa reipi, reiðinga og klyfbera til fyrir alþingisreiðina, dagslættir í Viðey tveir, hríshestar tveir og móhestar einn frá báðum, fóðra misjafnt eitt sinn hest og eitt sinn naut og ekki minna en tvö lömb, auk fleiri hvaða. Landþraung var mikil. Sveinn átti tvær kýr, tvær ær með lömbum, tvo veturgamla sauði, einn kálf og eitt hross. Vigdís átti fjórar kýr, einn kálf, þrjár ær með lömbum og ein gelda, einn sauð tvævetur og tvo veturgamla. Heimilismenn hjá Sveini voru fjórir en fimm hjá Vigdísi. Torfskurður til húsagerðar var nógur, en til eldiviðar var mótekja lök. Um vetur leggur bæ allan í fönn.

Keldnakot

Keldnakot.

Hjáleiga Keldna var Keldnakot. Það hafði árið 1704 verið í eyði í 20 ár en byggð þar fyrir um 20 ár. Sagt er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að þar hafi forn jörð verið og heitið Lausingjastaðir að sögn gamalla manna.

Jörðin var seld skömmu fyrir 1840 og var í einkaeign rúmlega eina öld þar til ríkissjóður kaupir hana árið 1941. Ýmsar byggingar hafa risið þar síðan á vegum háskólans, t.d. tilraunastöðin í meinafræðum sem reist var á árunum 1945-1948.“

Sjá meira um svæðið HÉR.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason (14.08.1856-
15.03.1951).

Í Morgunblaðinu 21. mars 1951 segir: „Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsunginn í dag„:

„Hinn landskunni bændaöldungur, Björn Bjarnarson í Grafarholti verður jarðsunginn í dag að Lágáfelli í Mosfellssveit. Hann var á 95. aldursári, fæddur 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit.
Hann var einn þeirra Íslendinga, sem seint á öldinni, sem leið stunduðu bufræðinám við búnaðarskólann að Stend í Noregi og hóf síðan búskap hjer heima samkvæmt þeirri hagnýtu þekkingu, er hann aflaði sjer við þessa ágætu menntastofnun norskra bændaefna.
Nokkru eftir að hann kom heim, gerðist hann forgöngumaður að stofnun Hvanneyrarskólans. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf, sem of langt yrði upp að telja. Hreppstjóri Mosfellshrepps var hann í áratugi og þátttakandi í flestum meiri háttar fjelagssamtökum sunnlenskra bænda, er stofnað var til um og upp úr síðustu aldarmótum.

Grafarholt

Guðrún Björnsdóttir (1889-1935) árið 1911 – húsfreyja.

Björn heitinn var fæddur gætinn umbótamaður er unni þjóð sinni, velgengni hennar og bar hagsmuni sveitarfjelags síns mjög fyrir brjósti. Um tíma var hann þingmaður Borgarfjarðarsýslu.
Er hann hafði látið af búskaparstörfum og flestum trúnaðarstörf fyrir fyrir aldurssakir lagði hann stund á ýms íslensk fræði, málvöndun og hagnýtan fróðleik er hann hugði að komið gæti bændum og búaliði að gagni.
Hann átti lengi sæti á Búnaðarþingi og var árið 1932 kjörinn heiðursfjelagi Búnaðafjelags Íslands eftir 50 ára fjelagsstarf.
Á langri æfi átti hann í fórum sínum meira af lifandi fróðleik úr sögu íslenskrar bændastjettar en aðrir samtíðamenn hans.“

Heimild:
-Grafarvogur, Borgarhluti 8 – Minjar og saga, Reykjavík 1998 (Skýrslur Árbæjarsafns).
-Morgunblaðið 21. mars 1951, Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsungin í dag, bls. 2.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Breiðagerðisslakki

Sveinn Þór Sigurjónsson, bjó í Traðarkoti í Brunnastaðahverfi, nú í Grindavík (73 ára). Þann 24. apríl 1943 var hann níu ára. Skömmu eftir hádegi þennan dag var hann skammt frá bænum er hann heyrði skyndilega hávaða og Brak í Breiðagerðisslakkamarga skýhnoðra á lofti yfir og nálægt Meeks-velli ofan við Keflavík. Loftvarnarbyssum Ameríkana hafði verið beint að þýskri flugvél, sem nálgast hafði völlinn. Síðan sá hann hvar þýskri flugvél var flogið lágt til austurs nokkru sunnar í Strandarheiðinni, nokkurn veginn í línu þar sem Reykjanesbrautin er nú. Eftir fylgdu tvær amerískar orrustuvélar. Frá þeim var skotið látlaust á þýsku vélina, sem beygt var til suðurs. Þá mun hún hafa lent í heiðinni, á stað sem Breiðagerðisslakki nefnist.
Hafsteinn Davíðsson og bróðir hans frá Ásláksstöðum fóru þá áleiðis upp í heiðina. Þar mættu þeir einum flugmanninum úr vélinni og aðstoðuðu hann niður að bæjum.
Þegar farið var á vettvangi í Breiðagerðisslakkanum var gengið svo til beint á brakið úr hinni þýsku flugvél. Um er að ræða Junkers 88 könnunarherflugvél. Samkvæmt skýrslum sást þýska flugvélin nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. Þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af landgönguliðum.
Anton MynarekBræðurnir Hafsteinn og Þórir gengu fram á þýska flugmanninn við Arnarbæli og fylgdu honum niður á gamla Keflavíkurveginn þar sem landgönguliðar tóku hann til fanga. Sveinn sagðist hafa frétt að því að aðfarirnar hafi ekki beinlínis verið til fyrirmyndar. Ameríkanarnir hefðu öskað á þennan hættulega óvin sinn, miðað á hann byssum og skipað honum að leggjast í jörðina þrátt fyrir að hann hafi greinilega verið nokkuð meiddur.
Báðir hinir bandarísku flugmenn, sem eltu þá þýsku, voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið. Þessi Þjóðverji var fyrsti flugliðinn sem Bandaríkjamenn handtóku í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin að Brautarholti á Kjalarnesi, en eftir stríð voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn.
Sá, sem bjargaðist, stg. Anton Mynarek, kom hingað til lands mörgum árum seinna. Lýsti hann fangavistinni í bragga við Elliðaár, en þar átti hann slæma vist fyrstu dagana í kulda og einangrun, en síðan rættist úr vistinni.
Talsvert er af braki úr vélinni við hraunhól í slakkanum, m.a. hluti af hjólastellinu, annað dekkið, vélarhlutar, slöngur og tannhjól. Álhlutar eru úr vélinni í slakkanum skammt norðvestar.

Brak

Grindavík

Vidburdardagskra Grindavikur 2010

Eldvörp

Gengið var um Sundvörðuhraun, svonefnd „Tyrkjabyrgi“ og skútar sem eignaðir hafa verið útilegumönnum og m.a. „brauðofninn“ skoðaður, auk þess sem ætlunin var að gaumgæfa svæðið betur m.t.t. mögulegra minja eða ummerkja eftir veru fólks á svæðinu fyrrum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í skúta í Eldvörpum.

Við leit í nágrenni „útilegumannahellis“, sem FERLIR fann fyrir ári, kom í ljós einn merkilegur fornleifafundurinn á Reykjanesskaganum; tvo heilleg hlaðin hús. Þá fannst hlaðið byrgi. Út frá því var hlaðinn garður. Allt var þetta þakið mosa og því erfitt að koma auga á það. Líklegt má telja að enn eigi eftir að finnast fornar minjar í hraununum ofan við Grindavík.
Haldið var stað frá borholinu í Eldvörpum. Þegar leggja átti í Brauðstíginn austan borholusvæðisins kom í ljós hlaðið lítið byrgi. Þakið hafði fallið niður. Út frá því var hlaðinn lágur garður. Hér gæti verið um leiðigarð fyrir tófu að ræða út frá bergvegg því þarna var lengi vel auðunnið greni. Byrið gæti því hafa verið skjól fyrir refaskyttu.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Þá var komið niður í „Tyrkjabyrgin svonefndu undir hraunbrún og inni í einum krika Sundvörðuhrauns. Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883. Gerður var uppdráttur af svæðinu.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Ummerki eru eftir mannvistir í skútum talsvert vestar í Eldvörpum. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Eldvörp

Byrgi í Eldvörpum.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá hreppsstjórasetrinu Húsatóttum. Eitt helsta verkefni hreppsstjórans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu. Ekki er víst að byrgin hafi verið mikið notuð. Líklega hefur staðsetningin þótt óhentug.

Eldvörp

Garður í Eldvörpum.

Byrgin í Sundvörðuhrauni fengu enn nýjan merkingamöguleika síðar í ferðinni. Ekki er ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.
Þá var haldið suðaustur eftir Brauðstígnum og honum fylgt að girðingu. Gengið var til suðurs með girðingunni, en með henni liggur slóði. Syðst við girðingarhornið var vent til austurs, inn í hrauni. Á loftmynd, sem skoðuð hafði verið, sást þar gróin lægð inni í hrauninu. Grunur var um að þar væri komið svonefnt Sauðabæli, sem getið er um á sumum kortum og í örnefnaskrá. Svæðið er algerlega utan gönguleiða og sennilega hafa fáir komið þarna inn í úfið og ógreiðfært hraunið í fjölda ára. Um er þó að ræða fallegt og aðgengilegt svæði. Í því er skjól fyrir öllum áttum. Stígur liggur upp í krikann og er hlaðið fyrir haft þar sem það er þrengst neðarlega í honum. Bendir það til þess að svæðið hafi einhvern tímann verið notað til einhvers og að öllum líkindum hefur það verið meira grasi gróið fyrrum, en nú er mosinn óðum að taka yfirhöndina. Að öllum líkindum er þarna um svonefndan Miðkrókakrika að ræða. Sauðbælin bíða því opinberunar.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Gengið var áfram til vesturs upp úfið og mosavaxið hraunið. Mosinn var frosinn svo ganngan var tiltölulega létt. Sunnan hraunrandarinnar liggur Prestastígurinn, gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Hafna. Á henni er m.a. gengið yfir fallega brúaða Hrafnagjá og eftir vel varðaðri götunni. Í úfnu hrauninu sást af og til móta fyrir stíg, sem einhvern tímann hefur verið farin.
Þegar komið var upp í Eldvarpagígaröðina var stefnan tekin til norðurs með henni vestanverðri uns komið var á svæðið þar sem hinn svonefndi „útilegumannahellir“ fannst fyrir ári.
Jarðlægur einir teygði úr sér í brekku. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum. Klepragíganir mynda svo til beina röð gíga og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll.
Í efri rás hellisins er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni mun meiri hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Fulltrúi hellamanna skreið yfir fyrirhleðsluna. Þar er löng rás. Bein eru í rásinni. Eftir u.þ.b. 30 metra skiptist hún í tvennt og liggja báðir angar niður á við. Samtals er sá hluti rásarinnar, sem kannaður hefur verið, um 50 metrar. Endarnir eru enn ókannaðir.

Eldvörp

Við byrgin í Sundvörðuhrauni.

Rætt var um að eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær staðirnir voru notaðir. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur, sem var með í ferð, glöggskyggn, stóð um stund og horfði yfir svæðið, leit upp og síðan niður. Þá gerðist það. Svo til undir fótum hans voru tvö heilleg hlaðin byrgi (hús) lík þeim sem eru í Sundvörðuhrauni. Þessi byrgi eru hins vegar alveg heil, mosavaxin að utan, og þunnar hraunhellur, sem notaðar hafa verið í þak, lágu á gólfi þeirra. Engin ummerki voru eftir mannaferðir í nágrenninu. Þarna gerðist það, sem gerist svo oft í FERLIRsferðum; tilgangi ferðarinnar var náð. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum hafa litið dagsins ljós. En fundurinn gefur einnig tilefni til íhugunar. Víðar kunna slíkar minjar að leynast og því þarf að fara varlega um svæðið með stórvirkar vinnuvélar.
Þegar Sundvörðuhraunsbyrgin uppgötvuðust árið 1872 þótti það merkilegt. Þessi fundur er litlu minna merkilegur, nú 134 árum síðar. Eftirleiðis verða þessi byrgi nefnd Eldvarpabyrgin. Yngsta Eldvarpahraunið í sunnanverðum Eldvörpum er frá því á 13. öld og er þetta að öllum líkindum í því. Um tilurð byrgjanna hafa „sérfræðingar“ etið hver upp eftir öðrum, en í þeim efnum er ekki allt sem sýnist.

Loks var haldið yfir að “útilegumannahelli” vestan við borholuna í Eldvörpum. Hann er örstutt frá borholunni í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar. Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Loftlínumöstur Hitaveitu Suðurnesja rýrðu mjög annars hið stórbrotna útsýni frá Eldvörpunum til vesturs og norðurs.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Í Tyrkjabyrjunum

Áð við Tyrkjabyrgin.

Rjúpnadyngjuhraun

Í sérprentun úr Árbók Ferðafélags Íslands 1985 fjallar Jón Jónsson jarðfræðingur um „Jarðsögu svæðisins milli Selvogsgötu og Þrengsla„.
Efnið er hið fróðlegasta um mótunarsögu landsins. Þar segir Eyram.a. um Rjúpnadyngju: „Í þessum hraunupptökum er fátt um venjuleg einkenni gígs. Á sléttunni vestanverðri er kringlótt niðurfall um 60 m í þvermál og 4-6 m djúpt. Lítið eitt norðar eru tveir lágir gjallhólar. Líklegt þykir að niðurfallið sé yfir uppstreymisrás hraunsins.
Allt landslag þarna í kring er ærið tröllslegt en vel þess virði að grannskoða. Frá eldvarpinu hefur hraun runnið norður og niður í átt að Hjalla, báðum megin við Húsfell, að Kaplatóm, og háa hrauntungan rétt austan við Búrfellsgíginn er hluti af þessu hrauni. Sýnt hefur verið fram á að hraun þetta hefur runnið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.“
Ætlunin var m.a. að finna og skoða hið stóra niðurfall í þessu mikla kargahrauni norðan Stóra-Kóngsfells. Fáir hafa farið um hraunin allt frá því að það síðasta rann fyrir rúmlega 1100 árum. Rjúpnadyngjuhraun hangir hátt yfir höfuðborgarsvæðinu og er í senn bæði stórbrotið í eiginlegri merkingu og greiðfært – ef rétt er að farið.

Eyra

Í sérprentinu segir m.a. um jarðsvæðið um miðjan Reykjanesskagans:
„Eins og getið er í Árbók F.Í. 1984 er næsta ljóst að Reykjanesskagi hefur byggst upp austan frá, eða öllu heldur norðaustan. Hann er því eldri á því svæði en vestar. Aldur yfirborðslaga er minni en 700 þúsund ár. Ofan á eldri myndanir, móberg, grágrýti (forn hraun) og jökulberg, koma hraun sem runnið hafa á nútíma og allt fram á sögulegan tíma.

Sporið

Á það hefur veriðbent að mikil eldvirkni hafi verið á Reykjanesskaga frá ómunatíð og raunar á hann eldvirkninni tilurð sína að þakka. Hún virðist ekki hafa tekið róttækum breytingum í aldanna rás því sams konar eldstöðvar og sams konar bergtegundir er að finna innan gosmyndana frá elstu tímum til dagsins í dag. Ekki verður séð að eldvirknin fari dvínandi né heldur fundin rök fyrir því að svo muni verða í náinni framtíð. Á þessu svæði hafa haldist í hendur eldvirkni og tíðir jarðskjálftar.
BollarEf upptök jarðskjálfta eru færð inn á kort 
kemur í ljós að þau liggja eftir Atlantshafshryggnum endilöngum, eftir gosbeltinu þvert yfir landið og eru sérstaklega áberandi á Reykjanesskaga.
Tvenns konar myndanir eru mest áberandi sem hvor um sig virðist tímabundin. Á nútíma virðist röðin þessi: Fyrstu gosin mynda tiltölulega litla hraunskildi (píkrit-dyngjur), sem lagt hafa til um 4.9% rúmmáls allra hrauna á skaganum. Næst koma stóru hraunskildirnir með um 7.8% og loks yngstu hraunin, sem komin eru úr sprungugosum (gígaröðum) eða einstökum gígum, með um 16.6%. Hraun þekja 1064 km2 eða sem næst 52% af flatarmáli skagans.

Af Grindaskörðum
GrindarskörðÞegar kemur austur fyrir Grindaskörð eru norðurhlíðar fjallsins að mestu huldar nútímahraunum. Á fjallsbrún er hár móbergshnúkur með hraunhettu á kolli og er því myndaður sem stapi. Hraunið er unglegt og enginn efi að þetta er eldstöð frá jökultíma. Á kortum er fellið í heild nefnt Stóri-Bolli, en hér hlýtur að vera um nafnabrengl að ræða. Bollanafnið á vafalaust við stóran gíg sem er norðan í fellinu. Hann er frá nútíma og frá honum eru mikil hraun komin, sem runnið hafa í norður. Af kolli þess hnúks er hið besta útsýni niður yfir hraunflóðin sem fallið hafa út frá fjallinu til beggja hliða, en einkum er útsýnið mikið til norðurs. Frá Stóra-Bolla, sem segja má að sé við rætur fjallsins, hafa mikil hraun runnið norður og breiðst eins og blævængur út frá gígnum. Þau hafa runnið að verulegu leyti í neðanjarðarrásum og hafa þannig skapað fjölda hella. Hraunin ná til Undirhlíða og Helgafells en ekki verður séð hvað þau hafa náð lengra tilnorðurs.
Aðeins vestan við Stóra-Bolla eru Tvíbollar. Það eru tvíburagígir samvaxnir sem hafa gosið snemma á landnámsöld. Grágrýtislög þekja svæðið norðaustar. Ein eldstöð á þessum slóðum gæti komið til greina en hana hef ég nefnt Spor. Það Þríhnúkarer niðurfall sem er um 800×380 m að ummáli og 15-25 m djúpt þar sem dýpst er. Leifar af sjálfum gígnum má óljóst greina miðsvæðis í niðurfallinu en yngri gígaröð með hrauni hefur síðan farið í gegnum það. Það liggur beint við að ætla að grágrýtishraunin næst í kring séu frá þessu eldvarpi, þar á meðal þau er mynda Kristjánsdalahorn.

Þríhnúkar

Þríhnúkar

Þessi eldstöð er næsta sérstæð bæði að útliti og efni. Þarna hefur gosið tvisvar á nútíma. Eins og nafnið bendir til eru hnúkarnir þrír, tveir eru nútímagosmyndanir en einn er úr móbergi og stendur á og er raunar hluti af fjallsbrúninni. Þarna hefur gosið á þrem stöðum en líklega bara tvisvar. Elsta og stærsta eldvarpið er hraundalur, um 450 m langur frá norðaustri til suðvesturs. Breiddin er um 50 m og hann er 8-10 m djúpur eins og hann er núna (sjá síðar). Út frá miðri suðausturhlíð þessa dals gengur eldrás mikil (hrauntraðir) til norðausturs og myndar háan hrygg., Þríhnúkahala, en hraunlænur hafa hér og þar runnið út af og byggt upp bakka hraunárinnar sem þarna er. Loks hefur meginhraunáin beygt þvert til vestur og fallið í bröttum fossi til norðvesturs út af fjallinu. Fyrir neðan fjallið má rekja hraunið vestur fyrir Kristjánsdalahorn og loks kemur það fram við Helgafell og Valahnúka og hefur náð vestur í Mygludali. Þetta hefur verið allmikið hraungos.

Gígar

Í beinni stefnu frá þessum gíg er annar og mjög reglulegur gígur alveg við rætur fjallsins. Hann er skeifulaga, um 150 m í þvermál, og opinn til norðurs. Vegna lögunar hef ég nefnt hann Eyra í dagbókum mínum, en ekki er það nafn staðfest. Hraunið sem hefur runnið frá þessum gíg hverfur strax undir yngri hraun en kemur fram aftur neðar í reglulegum, allháum hrauntanga sem nær niður ínorðanverða Heiðmörk og heitir þar Strípshraun. Ég hallast að þeirri skoðun að Þríhnúkar, þ.e. aðaleldvarpið sem áður er frá greint, og þetta hraun séu í í raun réttri eitt og hið sama og líta beri á þetta sem eina heild.

Stóru-Kóngsfellsgígar

Á fjallsbrún milli þessara eldvarpa er stutt og nokkuð mikið veðruð gígaröð. Einn gíganna er í lögun eins og skjólgarður, sem hallar fram yfir sig, og er að innanverðu úr fagurrauðu samanbræddu gjalli með alls konar furðumyndunum. Frá honum liggur hraunpípa niður hlíðina og má sjá inn í hana á stöku stöðum. Í gígnum er gott skjól fyrir austanátt og þaðan má njóta útsýnis yfir hraunið við Hjalla, Búrfells og yfir þéttbýlið niður við strönd.
Einn Þríhnúka er um 40 m hár og brattur gígur, hlaðinn úr hraunkleprum og slettum. Hann er risavaxinn strompur sem nálgast skal með varúð og ætti raunar að girða af svo hættulegur sem hann er ef ekki er varlega farið. Hann er op mikið (upprunalega hafa þau verið tvö) niður í hina skugglegu undirveröld gosstöðvanna, með ókleifa gígveggi sem halar fram yfir sig. Sagt er að gímaldið sé um 110 m djúpt. Ljóst er að frá þessum gíg hefur hraun runnið inn í eldri gíginn. Það þekur nú botn hans og í upprunalegt útlit hans verður ekki ráðið. Það hefur runnið ofan í hrauntraðirnar miklu, sem áður er getið, og lokað þeim á kafla, runnið svo norður með þeim að vestan og loks fallið í allbreiðum, bröttum fossi vestur af fjallinu, en nær aðeins skammt út á eldra hraunið neðan við hlíðina. Tveir smágígir, sem líklega eru frá sama tíma, eru utan við gígdalinn að sunnanverðu.

Stóra-Kóngsfell og Eldborg

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell tilheyrir móbergsfjöllunum og er úr móbergi og bólstrabergi. Það er klofið að endilöngu af tveim sprungum og sú þeirra sem norðar er hefur gosið hrauni. Megingígirnir eru við suðvesturendann á fellinu og eru hinir myndarlegsutu en smágígir teygja sig upp í noðrurhlíð fjallsins. Loks eru þrír smágígir nokkru vestar og slitnir frá aðalgígaröðinni. Hraun hefur runnið til beggja hliða við fellið, önnur kvíslin til norðurs með fellinu að austan. Hraunstraumarnir sameinast norðaustan við fellið og falla svo vestur með fjallinu niður með Kritsjánsdalahorni og skamt vestar fellur hraunið út í Tvíbollahraun, sem er frá sögulegum tíma. Þar með er ljóst að Kóngsfellsgígarnir hafa gosið eftir að landnám hófst og jafnframt að það er yngsta hraunið á þessu vsæði, en nánar er ekki vitað um aldur þess.

Varða

Af Kóngsfelli er útsýni hið besta norðvestur um Faxaflóa og til Snæfellsness, yfir hraunstraum-ana sem liðast hafa niður eftir landinu niður í Heiðmörk og mynda risavaxna keilu sem ber hæst vestan við Bláfjöll. Skammt suðaustan við Stóra-Kóngsfell er annað fell, minna um sig og lægra. Það er almennt kallað Drottning.
GjallhóllAustan megin við Drottningu rís eldstöð með nokkuð sérkennilegu útliti og ber nafnið Eldborg.
Þær munu reyndar vera átta nöfnurnar á Reykjanesskaga. Gosstöðin er sprunga sem í heild er um 1.5 km löng. Sjálfur gígurinn er um 200 m í þvermál og vel 30 m djúpur. Meginhraunið hefur runnið niður með Selfjalli að vestan og niður í Lækjarbotna þar sem það endar í allhárri brún. Önnur álma úr því hefur runnið austur með Rauðhnúkum að norðan og niðurá sléttlendið vestan við Vífilsfell, þar sem það myndar yngstu hrauntunguna. Ekki hefur tekist að grafast fyrir um aldur þessa hrauns, en ljóst er að það er ungt og vel hugsanlegt að það hafi runnið einhvern tíma á fyrstu áratugum Íslandsbyggðar.
Í RjúpnadyngjuhrauniRauðahnúkar eru móbergshryggur vetsur af Bláfjöllum. Norðan í þeim er röð að smágígum. Þar norður af eru Rjúpnadalahnúkar en vetsra Sandfell og loks Selfjall, sem er ofan við Lækjarbotna. Norðan í Selfjalli er grágrýtis-
hnúkur sem gæti verið bergstapi í fornri gosrás. Um skarðið milli Sandfells og Selfjalls hefur hraunið runnið niður í Lækjarbotna og fram á brún Fossvallaklifs norðan Þjóðvegar. Það er úr Strompum.
Norðan undir Rauðuhnúkum og vestan í Vífilsfelli eru fornleg eldvörp. Frá þessum eldvörpum hefur runnið hraun niður á Sandskeið og stendur skáli Svifflugfélagsins á því.

Rjúpnadyngja

Rjúpnadyngjuhraun

Í þessum hraunupptökum er fátt um venjuleg einkenni gígs. Á sléttunni vestanverðri er kringlótt niðurfall um 60 m í þvermál og 4-6 m djúpt. Lítið eitt norðar eru tveir lágir gjallhólar. Líklegt þykir að niðurfallið sé yfir uppstreymisrás hraunsins.
Allt landslag þarna í kring er ærið tröllslegt en vel þess virði að grannskoða. Frá eldvarpinu hefur hraun runnið norður og niður í átt að Hjalla, báðum megin við Húsfell, að Kaplatóm, og háa hrauntungan rétt austan við Búrfellsgíginn er hluti af þessu hrauni. Sýnt hefur verið fram á að hraun þetta hefur runnið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.
[Líklegra er að gígurinn í Rjúpnadyngjuhrauni sé skammt norðaustan við nefndan gíg, þ.e. hæst á hæðinni. Umleikis hann eru gjallhólarnir, sem Jón minnist á. Gígurinn, sem hefur verið dyngja, hefur verið allstór, ekki ósvipaður dyngjunni í Hrútagjárdyngju.]

Hólmshraun
Hraunið er komið úr Eldborginni, sem fyrr er nefnd, og Strompum.  Svo virðist sem þetta hraun sé nokkuð gamalt, þó er það yngra en 4600 ára, og svo eru raunar öll þau fimm hraun sem ganga undor einu nafni Hólmshraun.

Heiðmörk
StrípshraunBergrunnur Heiðmerkursvæðisins er grágrýti, enda þótt nokkurt skilgreiningarspursmál sé hvað telja skal berggrunn. Grágrýtið á þessu svæði er næstum örugglega komið sunnan frá og væntanlega úr eldstöð sem verið hefur einhvers staðar á svæðinu milli sunnanverðra Bláfjalla og Grindarskarða, en líklegt er að nú sé sú eldstöð hulin yngri myndunum. Grágrýtisklappirnar bera ljós merki þess að jökull hafi farið yfir þær á leið sinni niður á láglendi og út á Faxaflóa. Á einstaka stað liggja steinar ofan á klöppunum og komið getur fyrir að finna megin stein þann er rispaði klöppina, en þarna liggja steinar eins og jökullinn skildi við þá fyrir þúsundum ára. Jökulberg sést vel norðan við Búrfellshraun. Jökull síðasta kuldaskeiðs hefur borið stykki af þessu jökulbergi vestur á við og er því fullljóst að það er eldra en frá síðasta jökulskeiði.
RjúpnadyngjuhraunMikil eldvirkni hefur verið í fjöllunum suður af Heiðmörk eftir að ísa leysti af þeim og hefur hún átt drjúgan þátt í að skapa það landslag sem setur mestan svip á þetta svæði. A.m.k. átta mismunandi hraunflóð hafa runnið inn á það svæði sem nú heitir Heiðmörk. Nokkur hafa náð alveg niður á sléttlendið austur af Elliðavatni og runnið þar út á Leitarhraun. Þar með er ljóst að þau eru yngri en það, en um aldur þess er áður getið. Sex hraunanna í Heiðmörk eru því yngri en 4600 ára. Eitt hraunanna í Heiðmörk hefur sérstöðu hvað varðar samsetningu. Það er Strípshraun sem mun komið úr þeim stóra gíg norðaustur af þríhnúkum [Eyra] sem áður er getið. Það hefur runnið beint niður eftir og endar í tanga rétt sunnan við nyrðri veginn austur um Heiðmörk. Hraunstraumar hafa síðan runnið þvert yfir það, þar á meðal tveir sem eru frá sögulegum tíma, nefnilega Rjúpnadyngjuhraun og Kóngsfellshraun. Af því og fleiru má ráða að hraunið sé allgamalt en um aldur þess er ekki að öðru leyti vitað.
RjúpnadyngjuhraunÁður en Leitarhraun rann hefru Elliðavatn líklega verið stærra en síðar varð, en sennilega hafa vötnin verið tvö og úr þeim runnu forn-Elliðaár um skógi vaxinn dal til sævar. Þegar hraunflóðið rann fyllti það vötnin og það mynduðust gervigígar, en meðal þeirra eru Rauðhólar mestir. Vestasti hluti vatnsins slapp þó en hraunið féll fram dalinn til sævar.  Eftir varð Elliðavatn eins og það var frá náttúrunnar hendi áður en árnar voru stíflaðar.

Bláfjöll og Vífilsfell
BláfjöllBláfjöllin eru byggð upp sem stapi, þ.e. hafa hlaðist upp undir jökli og hefur þá myndast bólstraberg, en þegar gosið hafði brætt sig upp í gegnum ísinn rann venjulegt hraun og þakti það sem komið var.
Við norðurenda Bláfjalla er Vífilsfell. Toppur þess er úr móbergstúffi en til norðvesturs út frá honum ganga móbergshnúkar nefndir Arnarþúfur. Svo er að sjá sem þeir séu myndaðir við gos undir jökli og hefur það þá orðið á sprungu sem stefnir norðvestur-suðaustur eða m.ö.o. sem næst hornrétt á hina venjulegu stefnu gígaraða og brota á þessu svæði.
Í framhaldi af Bláfjöllum til suðvesturs eru Vesturásar sem greinilega eru gömul eldstöð og má þar sjá gígtappa og berganga út frá honum. Þessar gosstöðvar eru misgamlar sem sjá má á því að á einum stað liggur gangur inn undir móbergstúff. Virðist gangurinn hafa verið talsvert rofinn þegar móbergið lagðist yfir hann.

Eldborgir – Leiti
Í RjúpnadyngjuhrauniFrá Eldborgunum liggja hraunstraumar með eldrásum (hrauntröðum) austur á við og kallast Svínahraunsbruni. Nyrðri-Eldborg er eitthvað eldri en sú syðri því hraunið frá þeirri syðri hefur runnið út á hitt, en sennilega er að aldursmunur skipti ekki nema dögum eða vikum. Landnámslagið er undir þeim. Af þeim sökum, sem og vegna þess að það hraun sem talið var vera frá jarðeldi þeim sem getið er um í Kristnisögu, hefur reynst vera miklu eldra, sýnist nú nær öruggt að Svínahraunsbruni séu hið raunverulega Kristinitökuhraun og því það fyrsta sem sögu-legar heimildir eru fyrir hér á landi.
Rauðhólar, Tröllabörn og Raufarhólshellir eru í Leitarhrauni sem rann fyrir um 4600 árum. Tröllabörn hafa að sögn verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Leitarhraun nær um Reykjanesskaga þveran eða sem næst frá hafi til hafs.

Geitafell og Sandfell
RjúpnadyngjuhraunGeitafell er stapi. Austurpartur fjallsins hefur sigið. Sandfell er líklega leifar af eldvarpi frá því seint á jökultíma enda er það að miklu leyti úr ösku.

Krossfjöll – Dimmadalshæð
Austan við Litla-Meitil er Eldborg sú er ranglega hefur verið talin vera frá gosinu sem varð árið 1000 samkvæmt Kristnisögu. Gosstöðin er miklu eldri. Raunar eru eldborgirnar þar tvær og hrauntraðir á milli þeirra. Hraunið sem frá þeim rann hefur að vísu stefnt á „bæ Þórodds goða“, bara nokkrum öldum áður en nokkur Þóroddur tók sér þar bólfestu. Samkvæmt aldursákvörðunum hefur það líklega verið um 175 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Eins og áður er getið er líklegt að Svínahraunsbruni sé hið raunverulega Kristnitökuhraun.
Sunnan undir Krossfjöllum er Dimmadalshæð. Í kolli hennar er dalur. Dalurinn er gígur og rásin frá henni hrauntröð sem myndaðist þegar þatna gaus. Hraunið er eldra en Leitarhraun, sem sjá má á því að það hverfur undir það í Torfdal.

Búrfell í Ölfusi
Búrfell er lítill hraunskjöldur með tvo gígi saman í toppi. Hraunið hverfur undir yngri hraun strax neðan við fjallið og sýnir það að langt er nú liðið frá þessu gosi.

Ásar
Hæðin milli Breiðabólstaðar og Litlalands er gosstöð af sömu gerð og Dimmadalshæð og byggð upp á sama hátt. Uppvarpið er hringlaga laut á hæðinni miðri og þaðan hefur hraun streymt til allra átta en fljótt orðið að nema staðar við sjávarhamra sem það hefur hlaðist upp að norðan megin. Þetta hefur verið dæmigert hraungos. Eldvarpið er eldar en Dimmidalur.

Selvogsheiði
SelvogsheiðiAustan við Hlíðarvatn er mjög reglulegur hraunskjöldur með þessu nafni [Hnúkar]. Hér hefur verið um dæmigerð hraungos að ræða. Þau hafa væntanlega orðið snemma á  nútíma og er ekki ólíklegt að þau hafi byrjað meðan sjór náði enn upp að Herdísarvíkurfjalli og Urðarfelli. Sjávarstaða hefur þá verið lægri en síðar varð. Ljóst er að Selvogsheiði er eldri en Heiðin há.
Vestan undir Selvogsheiði eru þrjú eldvörp sem hér er litið á sem aukagígi frá aðaleldvarpinu. Þau eru Vörðufell, Strandarhæð og hraununga sem ég hef til bráðabirgða nefnt Hellishæð sökum þess að út frá henni liggur hraunrás sem ýmist er hellir, hrauntraðir eða niðurfallin rás sem rekja má góðan spöl niður eftir. Gígmyndun þessi er suður af Svörtubjörgum.
Á þessa þrjá gígi er litið sem aukagígi frá Selvogsheiði eb ekki sjálfstæð eldvörp. Merkilegust þeirra er Strandarhæð. Úr þessum gíghefur verið talsvert hraunrennsli. Ekki sér votta fyrir gjalli í eða í kringum uppvarpið, sem er allstórt niðurfall, og svo virðst sem hellir, líklega allstór, liggi út frá því í átt til gígsins í heiðinni.

Heiðin há
DraugahlíðagígurVið suðvesturenda Bláfjalla er hraunskjöldur sá sem mesturhefur orðið á nútíma á Reykjanesskaga. heiðin há er sú eldstöð nefnd. Gígur fjallsins hefur verið a.m.k. 400 m í þvermál. Nú er hann fylltur hrauni og eru útlínur hans óljósar en á börmum hans eru háar hraunstrýtur og sýna nokkurn veginn mörk gígsins. Hraunin hafa fallið í allar áttir út frá gígnum en áttu skammt eftir til Bláfjalla og féllu einkum til suðurs og í sjó austan við Selvogsheiði. Yngri hraun eru yfir hrauni úr Heiðinni há vestan Bláfjalla. Þorlákshöfn stendur á hraunum úr Heiðinni há. Um aldur þessarar miklu gosstöðvar er ekki annað vitað en  að hún er yngri en Selvogsheiði en aftur á móti eldri en Leitarhraunin, en sú gosstöð er um 4600 ára eins og áður segir.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

 

Heimild:
-Jón Jónsson, Jarðasaga svæðisins milli Selvogsgötu og Þrengsla, sérprent úr Árbók Ferðafélags Íslands 1985.

Leggjabrjótshraun

Leggjabrjótshraun.

Gunnuhver

Þegar afspurnir voru hafðar af miklum og skyndilegum breytingum á hverasvæðinu á Reykjanesi þótti FERLIR ástæða til að fara á vettvang og skoða málið nánar.
Hverasvæðið við GunnuhverNýr hver, stór og mikill, ca. 8×8, spúandi drullu upp í ca. 4m hæð, er kominn upp skammt austan við gamla Gunnuhver. Leirsletturnar ganga einnig öðru hvoru hærra í loft upp og nokkuð út frá hvernum.
Trúlega er Gunna gamla ekki dauð eftir allt saman. Nýir hverir hafa myndast á veginum og er hann nú lokaður þess vegna. Hveragufur sjást upp hálfar hlíðar Skálafells. Spurningar, sem eftir standa, eru a.m.k. tvær; er þetta eitthvað óvenjulegt m.v. forsögu svæðisins og ef svo er, hvaða fyrirboða er hér um að ræða? Og hvaða prestur er nú á takteinum, sambærilegur við séra Eirík sem réð við málið fyrrum?
Hér er um að ræða hverasvæði skammt austan Reykjanessvita. Malarvegur að því frá vitaveginum og áfram upp á þjóðveginn til Grindavíkur. Af mörgum hverum á svæðinu hefur einn verið áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og „lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað“. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir.

Hverasvæðið við Gunnuhver

Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið fyrrnefndur sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716), uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan svona: „Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.
Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag.
En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var Hverasvæðiðþá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.
En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.

Nýir hverir

Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.
En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.
Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.“
Gunnuhver hefur legið í dvala um nokkurt skeið. Hverasvæðið skoðaðHverasvæðið sjálft er þó um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Tóftir við Gunnuhver eru eftir búsetu Høyers og veru hans á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá Leirhverút á Reykjanes.
Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir. Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Vegna volgrar jarðarinnar þurfti ekki aðra hitun.
Reglulega hefur gosið á Stampasprungureinunum, sem þarna eru, síðast á 18. öld. Það gos náði þó ekki landi. Væntanlega er hér ekki um fyrirboða goss að ræða, heldur breytinga á undirliggjandi þrýstingi við tilkomu nýrrar Reykjanesvirkjunnar. Hitauppstreymið færist til þegar aðstæður breytast – eða er breytt. Þekkt náttúrulegt fyrirbæri þessa varð t.a.m. eftir jarðskjálfana árið 2000. Þá lækkaði vatnsyfirborð Kleifarvatns með þeim afleiðingum að hverir í Hverahlíð kólnuðu, en aðrir næst lækkandi vatnsyfirborðinu komu í ljós. Nú, með hækkandi vatnsyfirborði, hefur þetta breyst á nýjan leik. Í rauninni þarf ekki meira til.
Hver við KleifarvatnÁ síðasta ári (2007) úthlutaði Ferðamálastofa FSS og Grindavíkurbæ eina milljón króna til að laga aðgengi að Gunnuhver. Miðað við undanfarin hverahlaup á svæðinu er ólíklegt að varanleg mannvirki er aukið geta aðgengi og öryggi ferðamanna á svæðinu verði að veruleika á næstu árum, að minnsta kosti.

Sjá meira um breytingarnar á Gunnuhver á mbl.is daginn eftir, eða þann 3. mars 2008.

Heimildir m.a.:
-Hjónin að Sólbergi í Vogum.
-Jón Árnason I 563.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Ásfjall

Gunnar Ólafsson og Guðríður Þorvarðardóttir skrifuðu grein um „Ástjörn“ í Náttúrufræðinginn árið 1998:

Ástjörn

Friðland við Ástjörn.

„Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli og er u.þ.b. 4,71 ha að stærð. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum en mýrlendið við tjörnina er samtals 8,46 ha að stærð. Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.
Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi og í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. Vegna þessarar sérstöðu var Ástjörn og svæðið umhverfis hana friðlýst í samræmi við náttúruverndarlög árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar hefur umsjón með friðlandinu og annast stjórn og eftirlit með fólkvanginum. (Stjórnartíðindi B, nr. 189/1978 og nr. 658/1996.)

Tilurð Ástjarnar

Ástjörn

Við Ástjörn.

Ástjörn á tilveru sína að þakka hrauni sem hefur lokað fyrir eðlilegt afrennsli vatns úr dalkvosinni sem tjörnin er í. Ástjörn er því uppistöðutjörn sem er lokuð af hraunstíflu. Hið sama á við um Hvaleyrarvatn sem er í dalkvos milli Vatnshlíðar og Selhöfða sunnan við Ásfjall. Vötn og tjarnir af slíkri gerð einkennast af því að þau eru oft vogskorin og tiltölulega næringarrík og ber Ástjörn af hvað dýralíf og gróður snertir. Hraunið sem myndar stífluna liggur að tjörninni vestanverðri. Áður en hraunið rann hefur sennilega verið mýri þar sem Ástjörn er nú og afrennsli til sjávar verið vestan við Hvaleyrarholt. Í dag er ekkert yfirborðsrennsli úr tjörninni en áður en framkvæmdir við íþróttasvæði Hauka hófust árið 1990 féll stundum læna úr tjörninni milli hraunsins og Hvaleyrarholts, en náði þó jafnan skammt (Freysteinn Sigurðsson 1976).

Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar Ástjörn er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.
Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2
000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum lfkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson 1991).

Út frá þessu má ætla að Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum, er Eldra-Hellnahraun rann, en kringum árið 950, þegar Yngra-Hellnahraun myndaðist, rann hrauntota fyrir norðvesturenda tjarnarinnar og tjörnin fékk á sig núverandi mynd.

Gróður í og við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Við Ástjörn eru ýmsar gerðir gróðurlenda: votlendi, lyngmóarog bersvæðisgróður auk gróðurs í hraunsprungum. Fjölbreytilegur gróður vex í tjörninni og næsta nágrenni hennar.
Í suðausturenda tjarnarinnar vex tjarnastör á allstóru svæði. Í þessum fláka verpir flórgoðinn en hann byggir sér flothreiður, einn íslenskra fugla, og notar m.a. störina til þess.
Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa í tjörninni og má nefna tjarnarlauk, sem vex á botni hennar, álftalauk sem vex að jafnaði á kafi í vatni og sennilega einnig vatnalauk. Blautasti hluti mýrlendisins er prýddur hófsóleyarbrúskum á vorin en síðsumars skartar engjarósin þar dökkrauðu.
Burknar eru algengir í hrauninu við Ástjörn, t.d. og stóriburkni, fjöllaufungur og þríhyrnuburkni en gróður í hraungjótum líkist annars mjög þeim gróðri sem finnst í skógarbotnum.
Í móunum vestan við Ástjörn vex blátoppa, sem er af grasaætt og vex víða á holtum á höfuðborgarsvæðinu og suður fyrir Hafnarfjörð en er afar fágæt annars staðar á landinu. Einnig má þar finna gullkoll og í graslendinu við Stekk má síðsumars sjá stórar breiður af maríuvendi.
Í lýsingu Garðaprestakalls frá árinu 1842 er sagt að innan um hraunin og í fjallshlíðum í sókninni hafi vaxið hrís, víðir, einir og lyng. Hrísið óx meðal annars sunnan í Ásfjalli. Hrísið, sem að öllum líkindum hefur verið fjalldrapi, var notað sem skepnufóður og til eldiviðar og var þegar árið 1842 talað um að eyðing þess væri vandamál (Árni Helgason 1938).

Fuglalíf við Ástjörn

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Við Ástjörn má finna kjörlendi allmargra fuglategunda. Nokkrar tegundir verpa þar að staðaldri en Ástjörn er einnig viðkomustaður ýmissa tegunda á leið til og frá landinu, enda er fæðuframboð í tjörninni mikið. Fuglar eru sérhæfðir í búsvæðavali og ákveðnar tegundir eru bundnar við vissar gerðir búsvæða. Almennt má segja að ein meginforsendan fyrir fjölbreyttri varpfuglafánu á tilteknu svæði sé margbreytileiki í gerð búsvæða.
Þótt friðlandið sé lokað allri almennri umferð yfir varptímann (1. maí – 15. júlí) er fuglaskoðun með sjónauka möguleg frá jaðarsvæði friðlandsins. Þó svo að fuglaskoðarar séu utan friðlandsmarka verður ætíð að gæta þess að trufla ekki fuglalífið. Á Ástjörn og í næsta nágrenni hennar má sjá fjölmargar fuglategundir.
Nokkrir mjög sjaldgæfir fuglar hafa einnig sést við Ástjörn og má þar til nefna trjámáf, sem er amerísk tegund og líkist hettumáfi en er minni og spengilegri, svo og dvergmáf og kolþernu(Arnþór Garðarsson 1979).

Flórgoðinn

Flórgoði

Flórgoði með unga á Ástjörn.

Flórgoðinn er minni en minnstu endur og í varpbúningi með einkennandi gullna eyrnaskúfa á dökku höfðinu. Í góðum sjónauka má sjá rauðleitan háls og síður. Flórgoðinn verpir við ferskvötn þar sem hann hefur fæðu og varpstaði við sitt hæfi. Aðalfæða flórgoðans á sumrin er hornsíli og vatnaskordýr. Algengast er að sjá flórgoða kafa eftir æti en þeir tína líka af vatnsborðinu. Flórgoðinn er einstakur meðal íslenskra fugla því hann er algjörlega háður vatnalífi og fer ekki einu sinni á land til að verpa, heldur gerir sér flothreiður sem hann festir í stör eða annan vatnagróður. Flórgoðar ættu að hafa fæðu við sitt hæfi í Ástjörn og vötnum í nágrenninu eins og Urriðakotsvatni og Vífilsstaðavatni, en ákjósanleg varpskilyrði er aðeins að finna í tjarnarstarabreiðunum við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Flórgoðinn var áður nefndur sefönd, enda héldu menn að hér væri um önd að ræða.
Í ferðabók Eggerts og Bjarna (1975), sem segir frá ferðum þeirra á árunum 1752-1757, kemur fram að sefönd hafi verið á stöðuvötnum í Gullbringusýslu. Ekki segir hvort um varpfugla sé að ræða eða hvort hún hafi aðeins sést á vötnunum.
Fyrr á þessari öld voru flórgoðar mun tíðari varpfuglar á Suðvesturlandi en nú og var m.a. vitað um varp við Silungatjörn og Leirtjörn á Miðdalsheiði og Rauðavatn ofan Reykjavíkur, auk Urriðakotsvatns og Ástjarnar. Sumarið 1992 var svo komið að á öllu svæðinu frá Laugardal í austri að Hofgarðatjörn á Snæfellsnesi í vestri var aðeins eftir ein flórgoðabyggð, þ.e. við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Elstu heimildir um flórgoðabyggðina við Ástjörn eru frá 1954 en fyrir þann tíma er ekki vitað til að fuglaskoðarar hafi sótt þangað. Flórgoðar hafa verið árvissir varpfuglar við tjörnina alla tíð síðan (4-6 pör). Elstu heimildir um flórgoða við Urriðakotsvatn eru frá svipuðum tíma og við Ástjörn. Þeir eru óreglulegir varpfuglar við Urriðakotsvatn en stöku pör hafa orpið þar á undanförnum árum.

Fornir vegir hjá Ási

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfír Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhlíðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 1997-1998, 3.-4. tbl. bls. 275-286.

Ástjörn

Ástjörn.