Óttarsstaðaganga

Í Smalaskálahæð er Smalaskálaker, rauðamalarhóll í jarðfalli Hrútagjárhrauns. Árið 1974 var komið fyrir þar “listaverki”.
Hreinn Fridfinsson“Húsbyggingin” (Das Haus Projekt) er þekkt verk eftir Hrein sem einnig varð til á 8. áratugnum. “Húsbyggingin” byggir á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á. Þegar húsinu hafði verið snúið við þurfti hið sama að gilda um heiminn fyrir utan, þ.e. öllu sem var úti fyrir þurfti nú að finna stað inni í húsinu. Sem listmunur er húsið lítils virði að mati listamannsins. Nauðsynlegt var að reisa það til þess að fullkomna þessa hugmynd, en það nægir að það sé til sem vitnisburður á ljósmyndaformi. “Mér líkar vel að uppgötva hið óvenjulega í hinu venjulega. Það er þetta sem ég fæst við, fyrst og fremst.” Hreinn Friðfinnsson vinnur með nánast hvaða efnivið og hvaða miðla sem er, jafnt ljósmyndir, hús, fíngerðar teikningar og efnivið sem hann hefur fundið. Í þeim og með aðstoð þeirra rannsakar hann venjubundna skynjun, tilfinningar og skilning. Jafnvel smæstu verk hans og þau sem minnst ber á búa yfir mikilfenglegri hugmyndaauðgi og tilfinningu.”
Slunkariki - myndir“Hér má sjá sex af sextán myndum af Slunkaríki Hreins Friðfinnssonar sem teknar voru sumarið 1974. Myndirnar er fengnar af heimasíðu listamannsins. Hreinn setti listaverkið upp það árið í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er sunnan í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Suðurnesjaveginum og Gamlavegi (eldri vegurinn), en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina.
Myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson tilheyrði SÚM hópnum þegar hann gerði listaverkið. Þetta var lítið hús sem var forsmíðað og síðan flutt í einingum. Þegar það var risið voru teknar af því sextán ljósmyndir úr ýmsum áttum, bæði ofan frá og neðan frá og myndaði ljósmyndasyrpan sjálft listaverkið.
Slunkariki-21Þegar þessi gjörningur var afstaðinn var hlutverki hússins sem listaverks í rauninni lokið en eftir stóð lítil bygging á röngunni, ef svo mætti segja. Hreinn vann verkið undir áhrifum frá kafla í bókinni Íslenskum aðli sem skáldið Þórbergur Þórðarson ritaði 1938 og fyrr er getið. Í einum kafla bókarinnar fjallaði Þórbergur um sérkennilegan mann sem hét Sólon og bjó rétt utan við þéttbýlið í Ísafjarðarkaupstað við Skutulsfjörð.
Sólon byggði sér einkennilegt hús og lét bárujárnið snúa inn í húsið en setti veggfóður á útveggina. Veggfóður var nýjung á þessum tíma en bárujárnið hafði verið notað um árabil. Sólon var svo hrifinn af veggfóðrinu og vildi leyfa öllum íbúum staðarins að njóta fegurðarinnar með sér. Það var því eðlilegt að hafa það utan á húsinu, sem gekk undir nafninu Slunkaríki. Samneft myndlistar gallerý hefur verið starfrækt á Ísafirði um nokkurra ára skeið og er það til minningar um þennan merka mann, sem var sennilega fyrsti íslenski konsept listamaðurinn, án þess að hafa hugmynd um það sjálfur.
Slunkariki-22Það sem eftir er af Slunkaríki er aðeins brak á víð og dreif um Smalaskálaker. Eftir að búið var að mynda húsið lét Hreinn það afskiptalaust, enda tilgangur hans aðeins að koma því á þennan stað og útbúa myndröð í anda SÚM-aranna. Gjörningnum var lokið og síðan beið hússins að ummyndast með veðrinu sem lék um það og setti mark sitt á náttúruna allt í kring. Húsið var eins og sérkennilegur hlutur á sjálfu tunglinu, bygging í miðri náttúruperlu, enda er jarðfallið afar sérstakt og fallega mótað.

Slunkariki-23Húsið stóð af sér flest veður um árabil þó svo að myndirnar létu fljótlega á sjá eins og veggfóðrið, sem flettist af veggjunum. Hurðin fauk upp einn veturinn og losnaði eftir það af hjörunum. Skotglaðir Hafnfirðingar notuðu húsið til að æfa hæfni sína, eins og þeir virðast hafa gert svo óralengi á þessum slóðum. Smám saman drukku spónaplöturnar sem mynduðu útveggina í sig regnvatnið og grotnuðu niður, en bárujárnið hélt húsinu uppi. Stoðirnar blöstu við og innan þeirra var bárujárnið heilt og óryðgað enda vel galvaniserað. Stuttu eftir 2000 sprakk húsið í vindhviðu einn veturinn og dreifðust stoðir og  járnplötur vítt og breitt um jarðfallið, en restin af húsinu varð að einni grautarhrúgu efst á gjallhaugnum. Eftir það stóð grunnurinn efst á haugnum í gjótunni ásamt spýtnadóti og öðru smálegu og má enn sjá brotin í Smalaskálakeri.
ottarsstadaborg-21Laugardaginn 17. júlí 2010 voru einhverjir á ferð í Smalaskálakeri og kveiktu í því sem eftir var af Slunkaríki. Það sem viðkomandi aðilar gerðu var ekki bara skemmdarverk á listaverki sem var að veðrast með eðlilegum hætti, því eldurinn læsti sig í trjágróður, lyng, mosa og annan lággróður sem hefur verið að sækja í sig veðrið og vaxið þarna um langa hríð. Magnaðist upp mikið bál og varð að kalla út slökkvilið sem réð ekkert við eldinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá kölluð á vettvang til að hjálpa við slökkvistarfið og fór margar með sérstakann sekk sem notaður er til að sækja vatn í sjó eða stöðuvötn þegar erfitt er að athafna sig við slökkvistarf úti í náttúrunni.”
Þrátt fyrir listaverkið og gjörning þann er að framan greinir er rauðhóllinn í Smalaskálakeri hvað merkilegastur. Þessi gamli “litli” rauðamelshóll áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngju-hraunsins á þessu svæði. Augljóslega má sjá að mikil kvikusöfnun hefur átt sér stað allt umleikis og hún lyft storkuðu yfirborðinu. En þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga. Sambærilega gjallhóla má sjá í Stóra Rauðamel og Litla Rauðamel skammt norðar.

Heimild:
-hraunavinir.net
-Morgunblaðið 23. apríl 2005.

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Kerlingabúðir

Af og til hefur verið leitað að letursteini við Kerlingarbúðir undir Stapanum. Á hann er, skv. heimildum, klappað ártalið 1780.
Túnakortið frá 1919Ef skoðað er túnakort frá Brekku frá árinu 1919 má lesa eftirfarandi á handritinu undir uppdrættinum af búðunum: “Aths. Kerlinga(r?)búðir eru stuttan spöl s.v. frá vestri túnfætinum (sem áður hefur verið sérbýli). Þar er í líkri afstöðu og sýnt er: 1. tótt af íbúð kerlingar, 2. tótt af sjóbúð, 3. af eldhúsi, er stór klettur hefur brotið, 4. klettur lágur eftst í fjöruþanggróðri með ártalinu 1780.
NB. Steinninn aðeins er stækkaður tífalt móti öðru (1:200) og ártalið mikið meira. 3. fiskihjallaleifar milli kletta er þar í nánd frá konungsútvegi (og má vel vera meira – Fljótlega skoðað í rökkri).”
Þegar gengið var eftir kortinu virtist það allnákvæmt hvað Brekku (Stapabúðarhlutann) varðaði. Austast eru tóftir hússins og kálgarður norðvestan við það. Sunnan þess er tóft. Innan garðs vestan við kálgarðinn mótar fyrir tóft, brunnur enn vestar sést enn svo og tóft norðvestan hans. Kerlingarbúðir eru spölkorn norðvestar með ströndinni, undir hamrahlíð.
Ef tekið er mið af hlöðnum grónum vegg svo til alveg á fjörubakkanum þaðan sem sjá má í fiskihjallaleifarnar fyrrnefndu á kortinu (við stóran klett), má sjá hvar steinninn var 1919. Tóftir merktar nr. 3 og 2 á uppdrættinum eru horfnar í sjó. Eftir stendur suðurveggur tóftar nr. 1. Skv. því ætti steinninn að vera skammt norðaustan við vegginn, niðri í fjöruborðinu (ef sjórinn hafði ekki fært hann annað).
Kerlingarbúðir heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann Tóftarveggurinnað róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar.
Við nákvæma leit í fjörunni þar sem hver einasti steinn var skoðaður nákvæmlega í línu austan við tóftir nr. 1-3, sem sýndar voru á uppdrættinum frá 1919, allt út að sjólínu. Yst var brimsorfið grágrýti, en nær kambinum var stórt grjót, sem fallið hafði úr hlíðinni fyrir ofan og sjórinn fært síðan til á meðan hann hafði dundað við að rífa niður gróðurræmuna á bakkanum.
Um það leiti sem gefast átti upp á leitinni, enn eini sinni, var ákveðið að gera enn eina atlöguna. Grjót var fært ofan af grjóti í veikri von – og þá birtist eitthvað er virtist vera talan 17. Svartar skófir voru fjarlægðar með vírbursta, olíu í nálægum brúsa makað yfir og
 skafið á ný. Þá virtust sjást tölustafirnir 1, 7, 8, og 0. Og með því að maka mold úr bakkanum efra yfir steinflötinn birtist ártalið – Letursteinninn1780. Skynja mátti að þarna hefði kerlingin haft einhver áhrif því hefur ekki verið einleikið hversu þrálátlega leit hefur verið gerð að steini þessum.
Nú getur vörslufólk fornleifa í landinu andað léttar því nú á það a.m.k. að geta gengið þurrum fótum (í fjöru) að enn einni fornleifinni hér á landi.

Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Túnakort 1919.
-Örnefnaskrá.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

 

Njarðvíkursel

Um miðbik 19. aldar munu hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps að sunnan- og vestanverðu hafa verið eftirfarandi: “…úr Hraunsvatnsfelli og þaðan í Vatnskatla í Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna, en þaðan til sjávar yst í grunnri skoru á Vogastapa.” Það skal tekið fram að lýsing þessi er ekki villulaus. Auk þess eru til fleiri en ein útgáfa af markalýsingum, jafnvel frá sama tímabili.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Kolbeinsvarða var sögð standa á mörkum Gamla-Keflavíkurvegarins og Vatnsleysustrandarhrepps fyrir ofan Grynnri Skor, “grunnri skoru” sbr. framangreint, (Kolbeinsskor), sem einnig er kölluð Innri Skor. Á þeim slóðum, líklega í Njarðvíkurlandi, er stór varða, nýlega endurbyggð, sem kölluð er Brúnavarðan og er hún mið af sjó. Fleiri nálægar vörður eru tilgreindar, en ofar í Njarðvíkurheiðinni, s.s. Mörguvörður, Stúlkuvarða og “Tyrkjavörður”.
Rétt er að geta þess að frá Mörguvörðum ofan við Stapann liggur gömul gata (akvegur, byrjað á honum 1913) svo til beint niður móana að Selbrekkum (Sólbrekkum/Seltjarnarhjalla)), á ská niður þær og að Seltjörn (Seljavatni).
Gatan hefur eflaust haldið áfram til Grindavíkur, en nýi vegurinn liggur ofan á henni. Ennþá eldri gata (hestagata) liggur svo til samhliða nýrri götunni, en allnokkru austar. Hún sést einnig mjög vel þar sem hún liðast niður Selbrekkur (vestar) og áfram niður að austanverðu Seljavatni (Seltjörn).

Selbrekkur

Varða við gömlu reiðleiðina ofan við Selbrekkur (Seltjarnarhjalla).

Þegar þessi gata er skoðuð er líklegt að hún hafi greinst við vatnið og austari hluti hennar legið áfram til austurs með hraunkantinum, að Snorrastaðatjörnum. Einungis vantar kaflann frá þessari götu og upp að Litla-Skógfelli til að tengja þessa gömlu leið og aðrar þær, sem þar eru, saman.

Njarðavíkurheiði

Varða á Njarðvíkurheiði.

Á heiðinni, stutt frá gamla akveginum, er stór hringlaga vörðufótur og leifar af vörðu. Gróið er að fætinum. Þarna mun fyrrum hafa staðið myndarleg varða, að öllum líkindum landamerkjavarða af stærðinni að dæma sem og skv. heimildum. Ólafur frá Knarrarnesi man eftir vörðunni þarna. Enda passar staðsetning hennar við “sjónhendingu” úr Brúnavörðu ofan Stapabrúnar, jafnvel í Innri Skor, og frá henni í Arnarklett ofan við Snorrastaðatjarnir. Grjótið í vörðunni var tekið úr henni á fyrri hluta 20. aldar og sett undir bryggjuna í Vogum. Það að Vogamenn hafi tekið grjótið bendir til þess að það hafi verið í þeirra landi, a.m.k. helmingurinn. Ef þetta reynist rétt er núverandi “Hollywood”-stafaskilti Reykjanesbæjar innan fyrrum landamerkja Voga.

Njarðvíkursel

Stekkur við Njarðvíkursel.

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seljatjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Seljavatn”). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum”.
Byrjað var á því að skoða Njarðvíkursel sunnan Seltjarnar/Selvatns.

Njarðvíkursel

Varða ofan Njarðvíkursels.

Selstóttirnar liggja í röð undir hraunbakkanum skammt frá veginum að Stapafelli. Segja má að vegurinn liggi í gegnum selstöðuna. Um er að ræða tvö hús. Annað þeirra, það syðra er stórt með tveimur rýmum. Hleðslur sjást enn vel í innveggjum. Nyrðra húsið er mun stærra og lengra, með a.m.k. sex rýmum. Hleðslur í syðstu tóftunum standa enn vel. Líklegt má telja að vegavinnumenn, sem unnuð við Grindavíkurveginn (1914) hafi nýtt aðstöðuna þarna, einkum syðsta hlutann, enda selið þá aflagt fyrir allnokkru.
Norðan vegarins er hlaðin rétt og stór tvískiptur stekkur, tvöfaldur. Hæðin nú er um 60 cm og sjást a.m.k. þrjú umför greinilega.

Njarðvíkursel

Aðhald við Njarðvíkursel.

Miðað við hversu volduglega stekkurinn er hlaðinn má telja líklegt að hann hafi verið notaður fyrir kýr fremur en fé. Af fjölda rýma í selinu og mismunandi stærð þeirra að dæma gæti þarna hafa verið bæði selstaða fyrir fé og kýr, enda ákjósanlega aðstaða við vatnið.
Þarna hefur einnig verið hin ágætasta aðstaða miðja vegu á milli þjóðleiðanna (Skipsstígur) á milli Njarðvíkur og Grindavíkur annars vegar og Voga og Grindavíkur (Skógfellavegur) hins vegar. Grindvíkingar, og jafnvel fleiri, sóttu lengi vel í ís á tjörninni. Steypta mannvirkið norðvestan hennar er m.a. frá hluta þess tímaskeiðs.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.