Þórustaðir

Í frétt Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar má lesa eftirfarandi um „brúsapalla“ í sveitarfélaginu:

Brúsapallur

Brúsapallur ofan Litlabæjar og Bakka.

„Brúsapallar voru víða um sveitir landsins á árunum 1940 til 1970. Þar þjónuðu þeir hlutverki sínu fyrir mjólk sem beið þess að verða sótt, á leið sinni í mjólkurbúið. Þar beið líka stundum heimasætan og annað fólk sem þurfti bílfar um sveitina.
Árið 2009 voru nokkrir brúsapallar friðaðir í Noregi þar sem talið var að þeir hefðu að geyma merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snerti bæði framleiðsluhætti og félagslíf.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru enn uppistandandi tveir brúsapallar, smáhýsi sem standa við afleggjarana að Litla-Bæ og Bakka og Þórustöðum. Sannarlega merkur hluti menningarsögu sveitarfélagsins.
Er ástæða til að halda sögu þessara brúsapalla okkar lifandi? Hefðu vegfarendur um sveitina okkar hugsanlega gagn og gaman af að fræðast um hluta menningarsögu okkar við smáhýsin við Vatnsleysustrandarveg?“

Brúsapallur

Búsapallur ofan Þórustaða.

Á mbl.is var grein um brúsapalla undir fyrirsögninni „Kennari, hvað er brúsapallur?
„Nú eru komin ný orð yfir þetta, ferlega ljót, nánast afstyrmi að því er mér finnst: samnemendur eða samstúdentar .
Öllum er ljóst að samfélag okkar, sem og þau sem við höfum mest saman að sælda við, breytist ört. Það veldur því að við þörfnumst sífellt nýrra orða til að gera okkur jarðvistina léttbærari og skiljanlegri. Ný orð yfir ný fyrirbæri gera okkur kleift að vera virk í þessum nútíma sem þó staldrar svo stutt við áður en sá næsti birtist.
Í því augnamiði smíðum við nýyrði mörg, lögum erlend orð að íslensku beygingar- og hljóðkerfi og tökum gömul íslensk orð, sem misst hafa af hraðlestinni, orðið eins konar strandaglópar eins og orðið skjár svo dæmi sé nefnt. Mörg hinna nýju orða verða gildir þegnar málsamfélagsins, önnur týnast brátt; verða undir í samkeppninni.

Brúsapallur

Brúsapallur í Flóa.

Fylgifiskur alls þessa er náttúrlega sá að sum gömul og gegn orð glatast með öllu eða verða svo fágæt í munni manna og skrifum að þeir sem þau nota teljast til sérvitringa, eins konar fornmanna sem neita að hlýða kalli tímans.
Þessi orð verða úti og rata ekki til hinna nýju byggða af því að þeirra virðist engin þörf lengur. Þau verða samferða í útlegðina gömlum atvinnuháttum og verkmenningu sem gengin er sér til húðar.

Brúsapallur

Brúsapallur.

Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni: „Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“
Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).
Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:

Öðruvísi allt í gær;
aldni tíminn fallinn.
Okkar bíður engin mær
við engan brúsapallinn.

Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir.
Stundum gerist það og að orð sem notuð hafa verið í áratugi, jafnvel aldir, um fyrirbæri sem enn eru í fullu gildi í samfélaginu, verða að víkja, gjarna vegna erlendra áhrifa. Að sumum þessara orða þykir mér mikil eftirsjá.“

Í Degi árið 1956 er stutt skrif um brúsapalla:

Brúsapallur

Brúsapallur.

„Brúsapallar ættu að vera á hverjum stað, þar sem mjólk þarf að skilja eftir við veginn og mjólkurbíllinn tekur síðan. Ef einhverjum finnst þetta hégómamál, ættu þeir að hugleiða það ofurlítið nánar og hafa þá jafnframt hreinlætið í huga. Brúsarnir eru settir á vegarbrún. Bílar fara um og aursletturnar ganga yfir brúsana þegar blautt er um. Í þurrki leggur rykmökkinn yfir þá. En verstur er þó staðurinn sjálfur, þar sem þeir standa á. Þar er traðk manna, hunda og stórgripa. Eitt og annað loðir svo við botngjörðina þegar brúsarnir eru látnir á pallinn. Það hristist að mestu af á leiðinni og þá gjarnan á aðra brúsa er neðar standa. En ef svo ólíklega skyldi vilja til, að eitthvað væri enn eftir þegar að því kemur að hella mjólkinni í vigtina við móttöku í mjólkursamlaginu, er hætt við að mjög óvelkomin óhreinindi verði nærgöngul við hina ágætu mjólk.
Ekki skal í efa dregið að vígreifar hersveitir Jónasar samlagsstjóra, sem hafa þrifnaðinn að vopni, auk sjóðandi vítisvéla, grandi sýklum og öllum þeim ósýnilegu og mögnuðu kvikindum, sem teljast óvinveittar heilbrigði dauðlegra manna og kynnu samkvæmt framansögðu að eiga greiðari leið en æskilegt væri inn á aðalstöðvar mjólkuriðnaðarins. En betra væri samt að loka þessari leið með þeirri þrifnaðarráðstöfun að hafa brúsapalla á hverjum bæ og eru þessar línur skrifaðar í því skyni að þeim mætti fjölga sem fyrst og sem mest. – Spói.“

Á vefsíðu Þjóðminjasafnsins er fjallað um brúsapalla:
Brúsapallur
„Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.“

Á bloggsíðunni bilablogg.is segir m.a. af sannleiknum um Bjössa á mjólkurbílnum:
Brúsapallur
„Starf mjólkurbílstjóra var margþætt á þessum árum og fólst að hluta til í því að koma pökkum á milli staða. Ekki þurfti meira til en það og útkomuna þekkjum við í textanum við ítalska lagið Poppa Piccolino sem varð einfaldlega að: „Bjössi á mjólkurbílnum„.
Höfum í huga við lestur textans í heild hér fyrir neðan að Björn var kvæntur maður og faðir tveggja ungra barna, en alls urðu börnin fjögur. Björn var maður sem fólkið í sveitinni fagnaði þegar hann birtist með nauðþurftir og annað. Hann þótti með eindæmum lunkinn bílstjóri og í minningarorðum um Björn skrifaði dóttir hans að „[…] varla var til sú bíldrusla sem hann gat ekki gert gangfæra“.

Brúsapallur

Brúsapallur austur í sveitum.

Höfum líka í huga að maðurinn sem gerði Kolbein kaftein að hamfarakjafti í íslenskri þýðingu Tinnabókanna samdi textann um Bjössa og var það sem fyrr segir gert af glettni. Má sjá fyrir sér Loft Guðmundsson, sposkan á svip, hripa niður textann sem er svona:

Hver ekur eins og ljón
Með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.
Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Hann Bjössi kvennagull.
Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
Alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.

Heimildir:
-https://www.facebook.com/510788858933519/photos/br%C3%BAsapallar-voru-v%C3%AD%C3%B0a-um-sveitir-landsins-%C3%A1-%C3%A1runum-1940-til-1970-%C3%BEar-%C3%BEj%C3%B3nu%C3%B0u-%C3%BEei/584589608220110/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1364905/
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/adrar-syningar/ljosmynd-manadarins/hver-ekur-eins-og-ljon
-Dagur, 52. tbl. 06.10.1956, Fokdreifar, bls. 4.
-https://www.bilablogg.is/frettir/sannleikurinn-um-bjossa-a-mjolkurbilnum

Vatnsleysuströnd

Brúsapallurinn ofan Litlabæjar og Bakka 2022.

Landakot

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I“, er m.a. fjallað um bæina Auðna, Höfða, Bergskot (Auðnakot), Landakot, Hellukot, Þórustaði, Norðurkot og Tíðagerði. Þessum bæjum fylgdu og nokkur önnur kotbýli sem og mannvirki, sem enn sér móta fyrir.

Auðnar

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska.
Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna.

Auðnar

Auðnar – loftmynd.

„Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].“ GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: „Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 138. 1919: Tún Auðna og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Auðnar

Auðnar og nágrenni – loftmynd.

Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan. Bæjarhóll Auðna er í miðju túni.
Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.

Auðnakot (Bergskot)

Bergskot

Bergskot – loftmynd.

Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.

Bergskot

Bergskot (Auðnakot) – uppdráttur.

„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést enn, auk þriggja kálgarða. Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Höfði

Höfði

Höfði.

„Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,“ segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ (Auðnum). Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar.
Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.

Ólafsbúð
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: „Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].“ Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það.

Bæjarstæði
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.“ Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.

Hólmsteinshús
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.

Hóll
„Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,“ segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar.

Mylla

Auðnar

Auðnar – mylluhús. Grunnur vindmylluhúss í Auðnalandi. Athafnamaðurinn Stefán Sigurfinnson á Auðnum stofnaði samtök meðal hreppsbúa um byggingu vindmyllunnar 1918-19. Átti hún að mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Rekstur beinamyllunnar gekk ekki eins og vonast var eftir, bilanir voru all tíðar og viðhald dýrt auk þess sem hún malaði of gróft. Var hún því aflögð aðeins tveimur eða þremur árum eftir að hún var reist. En hús hennar stendur enn sem vitnisburður um stórhuga athafnafólk Strandarinnar. Keðjurnar sem héldu mylluspöðunum hanga þar ennþá.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.“ Myllan er um 150 m suðvestan við bæ.
Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.

Landakot
Landakot
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“ „Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.

Landakot

Landakot.

Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði 028 sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Gata

Landakot

Gata – tóftir.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. „Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá.

Landakot

Gata – uppdráttur.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ.
Býlið er í hæðóttu túni.

Garðlag – túngarður

Landakot

Landakot – garðlag (Heiðargarður).

„Ofan sjávargarðsins liggur landamerkjalínan að sunnan milli Landakots og Auðnahverfis og stakkstæðið upp í krókinn eða hlykkinn, sem var milli sjávargarða Landakots og Auðna. Þaðan um grjótgarðinn í Brunnhóla og svo eftir gamla torfgarðslaginu um Landakotshól og þaðan út í túngarðinn og heiðargarðinn,“ segir í örnefnaskrá. Frá Bakka til og með Auðnum er nokkuð óslitinn garður sem skilur tún jarðanna frá beitarlandi í Strandarheiði. Hann er sumsstaðar kallaður Heiðargarður (ýmist með stórum eða litlum staf) og er skráður á hverri jörð fyrir sig enda óvíst að hann sé allur frá sama tíma. Heiðargarður í Landakoti tengist görðum nágrannajarðanna. Heiðargarðurinn liggur á mörkum túns og móa.

Þórustaðir
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115)
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.“ JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: „Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.“ Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.

Þórustaðir

Þórustaðir.

Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra. Ekki er víst hvar norðurbærinn stóð nákvæmlega en í einni örnefnaskrá Norðurkots er tekið fram að hann hafi átt lendingu í Krókum eins og Norðurkot og Tíðagerði. Gera má því ráð fyrir að norðurbærinn hafi verið norðan við hinn bæinn. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru nokkur hús saman í hnapp um 10 m norðan við bæ og kálgarður sambyggður hluta þeirra.

Hellukot

Hellukot

Hellukot.

„Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.“ Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

„Norðan Þórustaðagötu og ofan við bæinn er Stekkhóll og þar er Stekkhólsrétt,“ segir í örnefnaskrá.
„Stekkhólsrétt, veit ég ekki, hvort er sama réttin, sem enn stendur að hluta uppi og var alltaf notuð í mínu ungdæmi og var alltaf kölluð bara Þórustaðaréttin,“ segir í svörum við spurningum. Líklega er Þórustaðarétt og Stekkhólsrétt sama réttin. Margrét Guðnadóttir man vel eftir að réttin hafi verið notuð og að féð hafi verið rekið í réttina þegar því var smalað úr heiðinni. Réttin er 250 m sunnan við bæ.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

Réttin er á flatri hæð og sést í bera klöppina, í móa utan túns. Réttartóftin er grjóthlaðin og tvískipt, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er um 16×5 m að stærð og er hólf I í norðausturenda um 4×4,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er um 4,5×10,5 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Veggir eru einfaldir, um 0,5 m á breidd og hæstir um 1 m, sjást 5 umför. Þar sem veggur skiptir tóftinni í tvennt liggur veggur til suðurs frá tóftinni, um 2 m langur. Suðvesturveggur er horfinn að mestu á kafla.

Norðurkot

Norðurkot

Norðurkot.

Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316) 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga“. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris. […] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […].

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.“ Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði. Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað. Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.

Tíðagerði

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

„Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: „Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.“ Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: „Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.“ Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði A), þró B), útihús C) kálgarður D), túngarður E) og kálgarður F).
Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í umfjöllun. Ekki er mikið um uppsafnaðar mannvistarleifar á bæjarstæði Tíðagerðis.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla I – Fornleifastofnun 2011.

Höfði

Yfirlitsmynd.

Vatnsleysuströnd

Eftirfarandi frásögn með myndum birtist í Alþýðublaðinu 1977: „Vatnsleysuströnd á Reykjanesi er nú sem óðast að leggjast í eyði. Fæst húsanna eru nýtt sem mannabústaðir og á enn færri stöðum er rekinn búskapur. Hér hefur orðið á mikil breyting á síðustu árum.
Vatnsleysustrond-503En hvers vegna? Ástæðurnar eru sjálfsagt margar. Okkur Alþýðublaðsmönnum var tjáð, að hún hefði alla tíð verið heldur rýr þar i sveit og hefðu þvi verið margir útvegsbændur á Ströndinni. En lendingar hafa spillzt með árunum og sífellt lengist á miðin. Þannig er varla nokkur grundvöllur fyrir báta af þeirri stærð, sem geta notað gömlu lendingarnar á Ströndinni, en stærri bátarnir leggja flestir upp í Vogunum. Enn eru þó nokkrir trillukarlar eftir og fara þeir flestir á grásleppu enda ekki langt á þau mið.
Vatnsleysuströndin var í alfaraleið, Keflavíkurvegurinn gamli svo að segja þræddi byggðina á Ströndinni. En eftir að nýi vegurinn kom, hvarf byggðin sjónum vegfarenda, fáir eiga þar nú leið um nema eiga þar brýnt erindi. Er menn aka Reykjanesbrautina, berja þeir ef til vill augum skilti, sem á stendur „Vatnsleysuströnd“. Ef fleiri en einn maður er í bílnum, er nokkuð víst að annar þeirra segi: „Ætl’ að sé ekkert vatn ‘arna?“ og síðan er ekki hugsað meira um það.
Margir íbúar á Ströndinni hugsa með söknuði til gamla Reykjavíkurvegarins, þeim finnst þeir vera komnir úr sambandi við umheiminn. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, þá er það staðreynd, að á Ströndinni eru mörg hús mannlaus og ónotuð, nema að vera kynni að einstaka veðurhrædd rolla noti skjólið sem af þeim er í erfiðum veðrum. Hús, sem mörg hver eru sterkleg og góð, en eru nú farin að láta á sjá vegna vanhirðu. Meðfylgjandi myndir frá Ströndinni eru flestar af slíkum húsum og umhverfi þeirra. Sýna þær e.t.v. betur en orð hvernig smám saman hefur sigið á ógæfuhliðina, uppgjöf og hirðuleysi hafa lagst á eitt um að gera húsin að óaðlaðandi mannabústöðum.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði, 29. október 1977, bls. 6-7.

Brunnastaðaskóli

„Síðastliðið haust keyptu tvö skólahverfi bíla til að flytja á skólabörn, og eru það fyrstu skólabílarnir. Hafa hinir framtakssömu forráðamenn þessara skólahverfa þar með stigið spor, sem markað getur tímamót í skóla- og félagsmálasögu sveitanna. Skólahverfi þessi eru Ölfusskólahverfi í Árnessýslu og Vatnsleysuströnd í Gullbringusýslu.
Vatnsleysustrond-505Hagar ágætlega til á Vatnsleysuströnd, þar sem sveitin er mjó og löng með einum aðalvegi og stutt af honum heim á hvern bæ. Þar er nú kennt á einum stað, en var á þremur áður og þó víða alllöng leið í skóla. Njóta nú öll börn þar jafnlangrar skólakennslu, en börn frá afskekktari bæjum voru mjög afskipt áður. — Aftur á móti hagar ekki sérlega vel til fyrir skólabíl í Ölfusinu vegna þess, hve sveitin er breið og vikótt. Þar var áður heimavistarskóli, og kostnaður við heimavistina minni en víða annars staðar vegna jarðhita, en hins vegar hagaði þar ekki vel til fyrir hana að því leyti, að skólinn er í allstóru þorpi, Hveragerði. Sækja nú öll börn skólann á hverjum degi, hvort sem þau búa í sveitinni eða þorpinu. Kennsluvikur á barn eru þriðjungi fleiri en áður, þótt skólinn starfi jafnmargar kennsluvikur.
Skólabíl Ölfusinga er ekið í ákvæðisvinnu, en á Vatnsleysuströnd ekur annar kennari skólans bílnum. Skólabíll ölfusinga er tuttugu og tveggja manna langferðabíll, upphitaður og í góðu lagi. Fer því vel um börnin á leiðinni, eins og vera ber. Á Vatnsleysuströnd er skólabíllinn minni, enda færri börn að flytja. Hann er þó ekki að öllu leyti heppilegur sem skólabíll. Ætluðu forráðamenn skólans að fá bíl með sérstakri yfirbyggingu, er hentaði vel þörfum sveitarinnar, en tókst það ekki í haust. Er því þar um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og gert ráð fyrir hentugri bíl næsta vetur. í báðum skólahverfunum eru bílarnir dálítið notaðir til annarra félagslegra þarfa, og hefur það komið mörgum vel. Er mér og tjáð, að mikil ánægja sé með þessa nýbreytni í báðum skólahverfunum.
Engin fyrirmæli eða reglur eru til um ríkisstyrk til skólabíla, og er það eðlilegt, þar sem hér er um algera nýjung að ræða. En ekki eiga þeir, sem að henni standa, síður skilið styrk fyrir það, þótt þeir hafi lagt styrklausir út á nýja braut, sem getur orðið fjölfarin og til mikils sparnaðar á skólakostnaði. Ættu því þessi skólahverfi auk styrksins skilið nokkur forustulaun.
Fjárframlaga af hálfu ríkisins er þegar þörf og fyrirmæla um, hvernig greiðslum skuli haga, því að auk þessara skólahverfa, hafa skólanefndir í allmörgum skólahverfum mál þetta til athugunar, en bíða átekta um framkvæmdir þar til vitað er um þátttöku ríkisins og auðveldara verður um efni til byggingar nýrra skólahúsa, sem staðsett væru og miðuð við, að nemendur séu fluttir í bílum.“

Bjarni M. Jónsson.

Heimild:
-Menntamál, Skólabílar, Bjarni M. Jónsson, 17. árg. 1944, 3. tbl. bls. 64-66.

Móakot

Eftirfarandi vital við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd birtist í Vísi árið 1967 undir fyrirsögninni „Stundum þarf leiðin ekki að vera svo löng svo maður verði margs vísari“:
Thorarinn-21„Það skeður margt á langri leið er oft orðtæki eldra fólksins. En stundum þarf leiðin ekki að vera svo mjög löng, til þess að menn verði margs vísari bæði um fortíð og samtíð.
Hér verður rætt við hjónin Þórarinn Einarsson frá Höfða á Vatnsleysuströnd og kona hans Guðrún Þorvaldsdóttir frá Álftakoti á Mýrum. Þegar við höfum tekið tal saman, kemur í ljós að ég er ekki með öllu ókunnur ætt þeirra og uppruna. Því Þórarinn — og þeir góðvinir mínir Elías Guðmundsson, sem lengi hefur haft hönd í bagga með útbreiðslu Þjóðviljans og Einar Guðmundsson, sem svo oft hefur verið viðmælandi minn á Blönduósi norður eru bræðrasynir — og standa því rætur þeirra á Suðurnesjum, og víst er að þótt grunn virðist hin frjóa gróðurmold á Vatnsleysuströndinni þá hefur Þórarni tekizt að festa þar vel rót, því hann hefur nú átt heima í 62 ár á Höfða og aldrei fært sig um set. Nokkur skil kann ég einnig á konu hans, því hún er systir þeirra bræðra Friðriks Þorvaldssonar framkvæmdastjóra í Borgarnesi og Sigurðar Þorvaldssonar hreppstjóra á Sleitustöðum í Skagafirði, svo þess má vænta að engir kalkvistir muni út af þeim spretta.

Hofdi-1

Og nú fer ég að spyrja Þórarin um líf liðinna daga — áður en Miðnesheiði var hálf erlend borg og farið var að leggja undirstöður að bræðsluofnum við Straumsvík eða stofna þar til verkfalla.
— Já, þá var búið á hverjum bæ frá Vogastapa að Hvassahrauni og útgerð úr hverri vör.
— Fyrst voru eingöngu áraskip og svo litlir vélbátar. Á Ströndinni er víðast sæmileg lending og mjög fiskisælt þangað til togararnir komu. Sjálfur hef ég bæði verið háseti og formaður á áraskipi og vélbát. Það var oft gaman þegar vel veiddist, og gæftir gáfust. Þá féllu stundum margir svitadropar, og ekki var, maður tímaglöggur þegar sá guli vildi bíta.
Hofdi-2— Þótt Vatnsleysu-ströndin sé fremur hrjóstrug, þá höfðu flest allir einhvern búpening, kýr og kindur. — Nú er þetta breytt orðið, Ströndin að mestu komin í eyði og enginn fer á sjó úr hennar vör. Undanfarin ár hefur verið stunduð hrognkelsaveiði, en svo kom verðfallið í vor og munu einir tveir bátar eitthvað sinna því. Úr Vogunum eru nú gerðir út tveir bátar, annar 50 smálestir, hinn 100.
— Ójá ég man nú tvenna tímana og það var stundum hart í ári. Hann var ekki alltaf tiltækur sá guli, einar þrjár vertíðir man ég að það fengust einir 16 fiskar til hlutar, en svo man ég líka að það komu 1000 fiskar í hlut yfir úthaldið. Stærstu býlin á Ströndinni áður fyrr voru Kálfatjarnarhverfi — Auðnir og Landakot. Á Kálfatjörn búa nú tvö systkin ásamt föður sínum.
Stadur-301— Faðir minn var frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Þá voru þar 14 býli. 25 ár var hann sigmaður í berginu og síðasti formaður á Selatöngum, – reri þá sexmannafari.
— Öll mín æskuár átti ég heima í Grindavík og fermdist á Stað. Maður sá oft stórbrotna sjóa við Suðurnesin og marga hæpna landtöku, enda margir þar beinin borið við brimsorfna strönd, það var ekki ætíð sem lánaðist að sæta lagi. — Já, eins og ég sagði áðan þá fermdist ég að Stað. Þá var mikil byggð í Staðarhverfinu. Við vorum fermingarbræður ég og hann Guðmundur minn í Ísólfsskála — svo við erum nú farnir, að tölta nokkuð á 9. tuginn. — Það er senn komið að náttmálum, a.m.k. er vinndagurinn orðinn stuttur.
— Hugsaðu þér, maður, árið 1905 voru öll býli á Vatnsleysuströnd í byggð, já, ég held bara hvert einasta kot og mikið athafnalíf.
– Nú sækir fólkið bæði úr Brunnastaðahverfi og Vogum vinnu hingað og þangað — það sem ekki vinnur við þá útgerð sem er í Vogunum.
— Ég gerði stöðugt út í 20 ár og var oft nokkuð heppinn. þó engin sérstök fiskikló.

Stadur-302

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

Og Höfði er alls ekki kominn í eyði, þar býr yngsta dóttir okkar með manni sínum. Þau hafa átt 7 börn og af þeim eru 4 dætur giftar — en þrjú eru heima. Það yngsta sonur, fermdist í vor.
— Já, þegar litið er til baka þá er svo sem margs að minnast.
T. d. Halaveðrið 1925. — Þá var ég á Ver frá Hafnarfirði og við komumst ekki undir Jökul fyrr en veðrinu slotaði. Maður var oft veðurbitinn eftir sjóferðirnar í þá daga. — En það skal ég segja þér, að ég tel að togararnir hafi eyðilagt flóann. Þar var áður svo að segja alltaf fullur sjór af fiski. Það er illa farið. Rányrkja borgar sig aldrei.
— En þegar ég nú lít um öxl, finnst mér lífið hafa verið gott, kannski ofurlítið hnökrótt stund um, ekki alveg ýfulaust frekar en sjórinn hérna við blessaða ströndina okkar. En þá var allur almenningur sem komst sæmilega af og var ánægður með lífið — og hvers er þá vant?“
Þ.M.

Heimild:
-Vísir, 25. október 1967, „Stundum þarf leiðin ekki að vera svo löng svo maður verði margs vísari“, bls. 9.

Höfði

Höfði.

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 segir svo um lönd Akurgerðis og Garða:
Akurgerdi 221„Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: ,,Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild.
gardar-999Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign… Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurra búðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svig um): kýr 112 (69), kvígur 5 (1), naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106).
Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 Skerseyri-221menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
„Vestast á hraunbrúninni í Garðahverfi stendur Bali, þá kemur Hraunhvammur, austar er Skerseyri, þá Brúsastaðir, en síðan Eyrarhraun. Þar næst koma Langeyrarmalir… Í kring um húsin er sléttur malarbás undir hraunbrúninni. Litlu austar er Langeyri… en síðan tekur við samfelld byggð kaupstaðarins allt frá Fiskakletti og suður undir Flensborg.“
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1951, bls. 585-591.
-Vikan, 7. árg. 1944, 5. tbl., bls. 3.

Garðar

Garðar.

Arnesarhellir

Oscar Clausen ritar um Arnes útileguþjóf í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941:

Arneshellir

Í Arneshelli í Garðabæ.

„Frá Arnesi útileguþjóf er sagt í þætti Gísla Konráðssonar [Lbs. 1259 4to.] af Fjalla-Eyvindi, Höllu og fjelögum þeirra, en af því að Arnes er eiginlega sögulegasta persónan í þessu fjelagi, að Eyvindi undanskildum, er ekki úr vegi að segja nokkuð sérstaklega frá honum.
Arnes var Pálsson og ættaður af Kjalarnesi og er sagt að foreldrar hans hafi haft mikið dálæti á honum í uppvextinum og alið hann upp í eftirlæti, og ekkert vandað um við hann þó að hann sýndi varmensku og ójöfnuð á unglingsárunum. Hann var þegar á unga aldri hinn knálegasti maður og svo fóthvatur að fáir hestar tóku hann á hlaupum, þó að þeir væru vel fljótir, en harðgeðja var hann og grimmur í skapi og fram úr hófi fégjarn. — Þegar Arnes var orðinn iitileguþjófur var lýst eftir honum á Alþingi 1756 og er honum þá lýst svo, að hann væri smár vexti, smá- og snareygður, með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur, með litla vörtu hárvaxna neðarlega á kinninni, gjörnum á að brúka það orðtak „karl minn“. En síðar er honum lýst svo: „Lágur vexti, þrekinn, kringluleitur, þó kinnbeinahár, munn við hæfi, litla höku, snar og dökkeygur, dökkur á háralit, mælti við völu“. —
Eftir Akrafjallsveruna sprettur Arnes, fyr en varir, aftur upp á fornum stöð um og gjörir nú vart við sig við Elliðaárnar fyrir innan Reykjavík. Þar var þá þófaramylla frá klæðaverksmiðjum Skúla fógeta, í Reykjavík og gætti hennar danskur maður, — bóndi frá Sjálandi — og bjó hann á Bústöðum. Einn morgun var sá danski snemma á ferli og gekk til myllunnar, en sá þá að gluggi var þar brotinn og þegar hann gáði inn, sá hann hvar maður lá sofandi á gólfinu og hafði staf og poka sjer við hlið. — Sá danski greip þetta hvorutveggja og hljóp með það heim til Bústaða, en skömmu síðar vaknaði hinn sofandi maður og elti hann. Bóndinn kallaði þá til konu sinnar og sagði henni að senda ,,meystelpu“, sem hjá þeim var til Reykjavíkur og láta bókhaldara verksmiðjanna vita hvað í efni væri. Hann sagði henni að láta ,,meystelpuna“ fara út um reykháfinn á eldhúsinu svo lítið bæri á og biðja menn í Reykjavík að bregða þegar við og koma sem fljótast, því að sjer litist mjög illa á gestinn, sem kominn væri til sín. —

Arnesarhellir

Arnesarhellir við Elliðaár.

Í bæjardyrunum snjeri sá danski sjer við og hafði járn í hendinni, en í því bar komumann þar að, en það var Arnes og heimtaði hann nú staf sinn og poka. Bóndi neitaði að láta það af hendi og sagði Arnesi að hann skyldi þá reyna að ná því úr greipum sjer. Ekki þorði Arnes að ráðast á karlinn, en eftir nokkur orðaskifti og heitingar á milli þeirra varð það úr, að Arnes gekk í bæinn og þáði heita mjólk, hefir eflaust verið orðinn langsoltinn. — Bústaðabóndinn gerði nú allt til þess að tefja fyrir Arnesi og var altaf, öðru hvoru, að hlaupa fram í bæjardyrnar til þess að gá að hvort nokkur kæmi úr Reykjavík. Hann var í þungu skapi og setti járnið um þverar dyrnar, en var svo sjálfur fyrir framan svo að Arnes kæmist ekki út. Arnes var hvergi smeikur og gjörði nú skyndiáhlaup á þann danska. Hann hljóp til og greip járnið, en snaraði sjer síðan að bónda og skelti honum flötum á ganginn, tók staf sinn og poka og hljóp út úr bænum og yfir á Digranesháls. Þaðan sá hann svo til hóps manna úr Reykjavík, sem voru komnir innan til á Öskjuhlíðina og hjeldu nú með Bústaðaholti. Bóndi hjelt nú til móts við þá og svo labbaði allur skarinn inn. að Elliðaám. Þegar þangað kom, þorðu þeir ekki yfir árnar, þótti þær ófærar gangandi mönnum og hjeldu upp með þeim, en Arnes hafði hlaupið yfir þær þar efra og sáu þeir á eftir honum. Snjór hafði fallið og var því sporrækt. Eltu þeir nú Arnes þrjátíu í hóp, flest vefarar úr Reykjavík, en þegar Arnes sá þá veita sjer eftirför, sneri hann við og hvarf þeim. Þeir ráku þá för hans suður að Hofsstöðum norðan Vífilsstaðavegs. Hljóp hann þaðan í Garðahraun yfir Vífilsstaði eða Hraunlæk, en þeir eltu hann enn. Arnes tók nú það ráð að halda sig hrauninu og stikla á hraunstríkum, svo að ekki sáust spor hans, enda mistu þeir af honum og leyndist hann í hrauninu um nóttina. Ekki gáfust Reykvíkingar samt upp við þetta og var nú safnað enn meira liði til leitarinnar að Arnesi. —  Um kvöldið var sent til Hafnarfjarðar, um Álftanes og í Garðahverfið að smala mönnum og skipuðu þeir sjer kringum hraunið uni nóttina, því að ekki átti Arnes að sleppa. Allan daginn eftir var hans leitað, en alt var það að árangurslausu og að svo búnu fóru leitarmenn hver heim til sín og þótti ver farið en heima setið. Ekki var grunlaust um, að einhverjir þarna ekki langt frá hefðu hjálpað Arnesi og leynt honum, og voru hjónin á Hofsstöðum tekin föst og sökuð „um bjargir“ við Arnes, en að lÖgum mátti honum enginn bjargir veita eða verða honum að nokkru liði, og er það harla einkennilegt þar sem hvergi sjest að hann hafi þá verið dæmdur fyrir þjófnað. Þessi Hofstaðahjón meðgengu það, að þau hefðu ..haldið Arnes á laun“ tvo eða þrjá vetur, soðið fyrir hann matvæli og hjálpað honum á ýmsa vegu. — Sýslumaður í Gullbringusýslu var þá Guðmundur Runólfsson, Jónsson frá Höfðabrekku. Hann hafði þessi mál með höndum og dæmdi hann hjónin á Hofsstöðum í miklar fjesektir fyrir það að hafa liðsinnt þessum hælislausa afbrotamanni. — Um þessar mundir var mikið um þjófnaði á Suðurlandi og var það mest kent útileguþjófum, en samt var það nú ekki fyrr en eftir þetta að Arnes lagðist út fyrir fult og alt, og yfirgaf mannabygðir. Það er nú af Arnesi að segja, að hann leyndist í Hafnarfjarðarhrauni altaf meðan á leitinni stóð og leitarmennirnir voru þar að verki og úr hrauninu fór hann ekki fyr en leitinni var hætt og allir voru farnir heim til sín. Áður en hann yfirgaf hraunið faldi hann vel og gróf peninga sína, en þeir höfðu verið í pokanum, sem Bústaðabóndinn danski hafði hrifsað frá honum, þegar hann kom að honum sofandi í þófaramyllunni, og honum hafði verið svo annt um að ná aftur. — Ekki þorði Arnes að hafast við í nágrenni höfuðstaðarins, en brá sjer inn fyrir Hvalfjörð og gjörðist nú útilegumaður.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Síðaan brá hann sjer til æskustöðvanna, suður á Kjalanes og lagðist í Esjuna, og fór þá jafnskjótt að hverfa fjenaður manna. Í Esjunni urðu menn fyrst varir við Arnes þannig, að hann sást oft fáklæddur á hlaupum í hitum að sumrinu og var hann þá að afla sjer eldiviðar til þess að sjóða við slátur það, sem hann hafði stolið. Stundum sást hann koma hlaupandi úr fjallinu ofan í byggð til þess að stela sjer mat og öðru, sem hann þá vanhagaði um. —
Það ljek líka orð á því að Arnes ætti eitthvert hæli eða athvarf einhversstaðar í byggðinni þegar honum lægi mest á og margt þótt ust menn verða varir að hann hefði haft saman að sælda við bóndann í Saltvík á Kjalarnesi sem Þorkell hjet Tómasson, og svo fannst líka fjársjóður, sem Arnes átti og hafði falið einhversstaðar og var það ekki nein smáræðisupphæð, 20 spesíur, 8 dalir krónuverðs og 12 dalir sléttir. — Þorkell í Sandvík var bendlaður við að hafa haft þessa peninga með höndum fyrir Arnes og þótti nú augljóst að Arnes lægi einhversstaðar í Esjunni. — Þegar sýslumaðurinn, Guðmundur Runólfsson frjetti þetta, sendi hann menn til þess að ná Arnes og taka Þorkel bónda í Sandvík fastan og færa sjer þá báða. Var nú safnað liði á Kjalarnesi og leitað fjallið. Fannst hreysi Arnesar, en sjálfur komst hann undan og er sagt, að hann hafi þá átt fótum sínum fjör að launa, þó segja sumir að í þetta skifti hafi hann brugðið fyrir handahlaupum, en talið er ólíklegt að hann hafi þurft þess, þar sem hann var svo frár á fæti að fljótustu hestar höfðu hann ekki á sprettinum.
Eftir að yfirvaldið hafði komið hendur yfir Arnes og flutt í Gullbringusýslu var hann oft lánaður í vinnu að Bessastöðum og er sagt, að alt af, þegar færi gafst. Hafi hann vitjað peninga sinna, sem hann hafði grafið í Garðahrauni og tekið var eftir því, að aldrei skorti hann aura.
Arnes kom sjer svo vel í vinnunni á Bessastöðum, að Wibe amtmaður fjekk konung til þess að náða hann að fullu. Sagt er, að Arnes hafi með snarræði sínu bjargað heilli skipshöfn úr sjávarháska á Álftanesinu, en allar kringumstæður að því eru gleymdar.
Arnes varð gamall maður, en varð aldrei snauður og hafði altaf nokkur peningaráð. Þó að alt væri honum andstætt og öfugt fyrri hluta æfinnar, þá var hann á elliárunum vel látinn af öllum, sem hann kyntist. Að lokum var Arnes niðursetukarl í Engey og þar dó hann 91 árs gamall 7. september 1805 og var jarðaður fjórum dögum síðar í kirkjugarðinum í Reykjavík. Þar hvíla lúin bein hans.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí 1941, bls. 233-235.
-Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1941, bls. 277-278.

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Grænadyngja

Gengið var á Grænudyngju.
Keilir (379 m.y.s.) er áberandi fjall á Reykjanesskaganum. Trölladyngja (375 m.y.s.) er hins vegar áhugaverðari margra hluta vegna. Áhugaverðust er þó Grænadyngja (393 m.y.s. (reyndist vera 402 metrar er upp var komið)), nágranni Hraunbomba í Grænudyngjuhennar. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Útsýni af Grænudyngju er bæði mikið og stórbrotið; yfir Sog til suðurs og hraunárnar um Einihlíðar til norðurs.
Trölladyngja og Grænadyngja eru yst á Vesturhálsi. Að ganga á Grænudyngju er ein fallegasta gönguleiðin í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Frá höfuðborgarsvæðinu er ekki gott að greina Grænudyngju því í fjarlægð verða skil á milli fjalla og staða ógreinileg og auk þess hefur hún ekki þá lögun sem búast má við að dyngjur hafi. En þetta er einn fallegasti staðurinn á öllu höfuðborgarsvæðinu að mati þeirra er komið hafa á fjallið.
Um tvær leiðir er að velja á Trölladyngju  og Grænudyngju. Hægt er að aka á Höskuldarvelli, sem eru austan við Keili og ganga þaðan á fjallið norðanmegin. Nú er góður vegur af Reykjanesbrautinni inn á vellina og allt að borholusvæðinu neðan við Sogaselsgíg. Þaðan er skammur vegur upp á dyngjurnar. Trölladyngja er vestan við Grænudyngju og skilur á milli lítið dalverpi. Sú fyrrnefnda er klettótt og hvöss en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu.
Að þessu sinni var gengið um dal norðan í dyngjunum, austan við Dyngjurana. Athyglin beinist að fjölbreytilegum litum á landslaginu á þessum slóðum. Hver hefur áður séð grágræna hóla?
Útsýnið stórbrotið þar sem horft var niður á Tröladyngju og Keili. Athyglisvert er að sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem ekki bera nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Tóur eru á stöku stað sem hraunið hefur hlíft.
Milli Trölladyngju og Oddafells eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns. Af Grænudyngju var farið á Á leið á Grænudyngju - Keilir neðarsvipuðum slóðum og upp var komið, en nú var vikið aðeins til vesturs. Þarna heita Sog og þar er Sogaselsgígur, einstaklega fallegur og vel gróinn gígur. Eftir að hafa staldrað við og horft yfir Sog var gengið til norðurs með austanverðri Grænudyngju. Þar í litlum skúta hafi tvo sauði frá Lónakoti fennt inni s.s. vetur. Komið var niður af dyngjunum um miðjan Dynjurana.
Hér á eftir er rifjaður upp svolítill fróðleikur úr góðum ritgerðum um dyngjur og tengd jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum. Í nokkrum tilvikum er um endurtekningar að ræða, en í heild felur efnið í sér mikinn fróðleik um efnið.
„Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri.
Hraunár yfir Einihlíðar - Höfuðborgarsvæðið fjærÁ Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna). Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).

Nútíma dyngjur á Íslandi eru um 40 talsins. Þær finnast á Reykjanes gosbeltinu, Vestur gosbeltinu og Norður gosbeltinu en engin er á austur gosbeltinu. Þær eru mjög misjafnar að stærð allt frá litlum dyngjum á Reykjanesi og til Skjaldbreiðs og Trölladyngju.
Dyngjur á Íslandi hafa sennilega myndast á löngum tíma og líklega í röð goshrina, Íslensku dyngjurnar voru einkum virkar framan af nútímanum. Líklega hefur engin dyngja verið virk á Íslandi síðustu 2000 árin. Á upphafi nútíma voru dyngjurnar mikilvirkustu gerðir eldstöðva á Íslandi. Hraun runnu langar leiðir úr þeim og má nefna hraun sem rann norður Bárðardal og er talið vera úr Trölladyngju. Ef það er rétt hefur það hraun runnið yfir 100km og er aldur þess yfir 7000 ár. Dyngjurnar eru aðeins á rekbeltinu og eru langan tíma að myndast. Er því líklegt að þær myndist þar sem kvika kemur beint upp frá möttlinum.“
Berg utan í gígskálinniÞegar gengið var um Dyngjurnar mátti í raun sjá ýmsar berg- og gostegundir þegar vel var að gáð, frá ýmsum tímabilum jarðmyndunarinnar.
„Eldborgir eru eitt flæðigos og gos sem þróast í eina gosrás þegar líður á gosið. Þunnfljótandi kvikan safnast í tjörn sem svo flæðir úr með nokkru millibili. Gígveggir verða brattir ofan til. Eldborg undir Geitahlíð er gott dæmi.
Blandgígar eru úr kleprum eða gjalli. Líklega hafa þeir hlaðist upp í byrjun goss en þegar leið á það byrjaði hraun að flæða og þá myndast oft skarð í þá.“ Moshóll við Selsvelli er gott dæmi.
„Sprengigígar gefa af sér aðeins eitt gos upp í sprengigígum og gosefnið er að mestu leiti gjóska. Upphleðsla í kringum gíginn fer eftir krafti gossins, því minni sem gosið er kraftmeira. Hverfell við Mývatn er gríðarlega fallegur sprengigígur.
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands (ekki síst Reykjanessvæðisins) væru það sprungugos. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir. Blandgígar eru t.d. Lakagígar og Eldgjá. Gjallgígaraðir eins og Vatnaöldur myndast við mikla sprengivirkni sem getur verið tengd hárri grunnvatnsstöðu. Heimaeyjargosið og Kröflueldar eru einnig dæmi um sprungugos.

Feigðarfé í skúta austan í Grænudyngju

Þó að gervigígar séu ekki gosgígar er vert að minnast á þá sem afurð eldgosa. Þeim hefur ekki verið lýst frá öðrum stöðum í heiminum. Þeir verða til þegar hraun rennur yfir votlendi. Vatnið svo snöggsýður og gufusprengingar verða upp í gegnum hraunið og gígarnir myndast. Oft er hægt að þekkja þá á því að þeir eru reglulegir í lögun og uppröðun þeirra er oftast frekar tilviljanakennd.“
„Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).

Skessuketill á Grænudyngju

Sem fyrr sagði liggur Reykjaneseldstöðvarkerfið í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess. Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krýsuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Það má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir Horft niður á Lambafellsamsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð. Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmal þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km 2 og hafa um 1,8 km 3 rúmmál.
SoginEldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf  ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).

Sogin

Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið. .
Bergmyndanir austan í GrænudyngjuStærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-3500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum.
Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo Keilir frá Grænudyngjuhraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Ösku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík.

Trölladyngja frá Grænudyngju

Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).
Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám. Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Spákonuvatn frá GrænudyngjuÖgmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879.
Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Á efstu brún Grænudyngju (402 m.y.s.)Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á
Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krýsuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950). Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda Bláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).“

Keilir frá Grænudyngju

Verndargildi jarðminja hefur ekki verið metið á háhitasvæðum landsins. Jarðminjar sem teljast verðmætar eru algengar á slíkum svæðum, s.s. jarðhitaummerki, gígar, hraun, og brýn ástæða er til að meta þær áður en lengra er farið í virkjun svæðanna. Mat á jarðminjum er grunnur að mati á verndargildi háhitasvæða, enda eru þau jarðfræðilega einstök á heimsmælikvarða.
Eyðilögð Eldborgin undir TrölldyngjuHér á landi hafa verndunarsjónarmið átt á brattann að sækja vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að nýta orkulindir landsins til framleiðslu á ódýrri og vistvænni orku. Rammaáætlun er ætlað að vera vegvísir til þess að samþætta mismunandi nýtingarsjónarmið, raða svæðum upp þannig að orkugeta þeirra og verndargildi verði ljós og á þann hátt taka ákvarðanir um nýtingu þeirra í framtíðinni. Mat á verndargildi jarð- og lífminja er því mjög mikilvægt til að unnt sé að raða orkuríkum svæðum upp á þann hátt að þau verðmætustu komi í ljós og þá hvort vegi meira verðmæti þeirra til orkuvinnslu, til nýtingar sem útivistarsvæði eða verndun til framtíðar.
Sem fyrr sagði þá er Keilir eitt lögulegasta fjallið, séð frá höfuðborgarsvæðinu, en því að ganga upp á slíkt fjall þegar hægt er að ganga upp á nálægt fjall, litskrúðugra, og virða hitt fyrir sér þaðan. Enda er útsýnið miklu mun betra frá Grænudyngju yfir nálægðina til allra átta. Lagt er til að útsýnisskífu verði komið fyrir uppi á Grænudyngju fyrr en seinna.
Svona í lokin, til að forðast misskilning, þá er hvorki Trölladyngja né Grænadyngja eiginlegar dyngjur heldur mynduðust þær í gosi undir jökli – á sprungurein eins, og Núpshlíðarhálsinn (vesturhálsinn) ber með sér.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi, HÍ í apríl 2007.
-Helgi Torfason og Kristján Jónasson – Mat á verndargildi jarðminja á háhitasvæðum, 2006.
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, HÍ apríl 2007.

Sog

Eiríksvegur
Gengið var um Minni- og Stóru-Vatnsleysu í fylgd Sæmundar bónda með það fyrir augum að skoða það, sem ekki hafði verið litið sérstaklega á í fyrri ferðum um svæðið.
Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs sögð vera 4 vættir fiska. 1703 er Minni-Vatnsleysa konungseign. Ein eyðihjáleiga er á jörðinni, Búð, og tómthús í eyði.

Stóra-Vatnsleysa

Fúli.

Grund hét hjáleiga norðan bæjar, en Miðengi, sem nánar verður vikið að á eftir, var einnig hjáleiga, í byggð á 19. öld og fram til um 1916. Það kemur m.a. fram í örnefnaskrá fyrir jörðina.
Á Vatnsleysu minni bjó oft mikill fjöldi vermanna á vertíð. Árið 1703 hafa “túnin fordjarfast merkilega af sands og sjáfar ágángi, item leir og vatnsrásum af landi ofan. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumur, um vetur nær öngvir nema lítið af fjöru.”
Allnokkrar, og heillegar grunn- og vegghleðslur eru í túninu sunnan Minni-Vatnsleysu, eða öllu heldur þar sem hún var, því nú er búið að raska svo til öllu bæjarstæðinu, en svínabú með tilheyrandi mannvirkjum komin þar í staðinn (Alisvín). Hleðslurnar í túni er frá bænum Miðengi, sem þar. Neðan þeirra og sunnar var Miðengisvörin, slæm. Stóru-Vatnsleysubóndinn sprengdi hana síðar, en vörin var í landi jarðarinnar, rétt sunnan við mörkin. Þau sjást enn þar sem fyrir er mikill grjótgarður. Áður lá hlaðin tröð frá Stóru-Vatnsleysu yfir að Minni-Vatnsleysu. Hana má m.a. sjá á túnakorti frá 1919. Hún var fjarlægð þegar túnin voru sléttuð.
Gamla Stóra-Vatnsleysuvörin var skammt norðan við núverandi vör. Við hana var spil af þýskum togara, sem notað var til að spila inn báta, og má sjá leifar þess enn ofan við nýju vörina.
“Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir runnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur.” segir í örnefnaskrá.
Á túnakortinu frá 1919 sést brunnurinn ofan við garðenda nyrst á hlöðnum garði ofan strandarinnar. Minni-Vatnsleysuvörin var þar skammt norðar. Þetta var hlaðinn, en grunnur, brunnur, ekki ólíkur Fjósabrunninum á Stóru-Vatnsleysu. Þegar að var gætt hafði kantinum á athafnasvæði austan svínabúsins verið rutt yfir brunninn, sennilega vegna óaðgæslu því hann á að vera svo til í jaðri hans.
“Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað eru um brunninn Danska.” segir í örnefnaskrá. Þá er fjallað um Hólabrunn; “Í Norðurtúni voru Hólarnir. Þar var Hólabrunnur og þar var Minni-Vatnsleysubrunnur og brunnurinn Danskur. Engin þessara brunna var góður.” Hér er jafnframt fjallað um tvo aðra brunna, Minni-Vatnsleysubrunn og Danska. Minni-Vatnsleysubrunnur sést í bakkanum norðan við litla styttu við Minni-Vatnsleysu. Steypurör hefur verið sett yfir hann og járnlok yfir. Þessi brunnur var hlaðinn líkt og Stóru-Vatnsleysubrunnurinn, en dýpri. Til eru menn, sem muna eftir þessum brunni eins og hann var. Líklegt má telja að framangreindir brunnar hafi verið einn og hinn sami, en þó má vera að þarna hafi verið, í missléttu landi, vatnsstæði, sem nefnd hafa verið.
Í örnefnaskrá segir ennfremur: “Hér nokkru austar er gróinn hóll, sem heitir Stekkhóll. Þar var fyrrum Stekkur, en nú er þar Stekkhólsfjárhús og Stekkhólsrétt.” Stekkhóll er skammt ofan strandar, en nokkru austar, í landi Stóru-Vatnsleysu.
Norðan við Stekkhól sést grunnur fjárhússins, sem hefur verið nokkuð stórt. Líklega er staðsetningin á Stekkhólsréttinni ekki rétt, eða a.m.k. ónákvæm. Réttin, eins og hún var jafnan nefnd, er nokkru sunnan við hólinn, skammt ofan gamla Eiríksvegarins. Þar eru allnokkrar hleðslur og mótar enn fyrir gömlu réttinni. Leiðigarður er nyrst í henni, en að öðru leyti er hún tvískipt þar sem hún er norðan undir lágum klapparhól.
Stóra-Vatnsleysa var einnig í konungseign árið 1703.
Varðveist hefur gamall máldagi útkirkjunnar á Vatnsleysu frá um því um 1269, þar segir: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning.” Annar máldagi hefur varðveist frá því um 1367. Þar segir: “Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij.”
Árið 1375 segir í máldaga kirkjunnar í Krýsuvík að hún eigi fjórðungspart í Vatnsleysu. [1379]: “ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord.” Síðasti varðveitti miðaldamáldi kirkjunar er frá árinu 1397 og segir þar að kirkjan eigi 15 hdr i heimalandi.” Þann 28.4.1479 er „Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn.“ Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að engin ítök séu í jörðinni Vatnsleysu nema að kirkjan í Krýsuvík eigi þar 10 hundruð og jörðin Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum líkt og Minni-Vatnsleysu. Árið 1515 kaupir Ögmundir ábóti Pálsson 20 hdr. í Vatnsleysu fyrir 25 hdr. Árið 1518 er Viðeyjarklaustri færð 10 hdr í Vatnsleysu til viðbótar. Það ár (1518) féll dómur um að „heimatíund af Vatnsleysu skuli greiðast heim ekki til Kálfatjarnar.“ Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska.
Minjar um fornbýli er að finna nálægt Kúagerði. Hefur það verið nefnd Akurgerði. Árið 1703 voru hjáleigur í byggð; Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleigur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. „Eyðibýlið Akurgerði var lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. Austast og neðst var Naustakot, stundum kallað Pallakot … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær.” Einnig var lítið kot nefnd Kofinn byggt utan í kirkjugarðshleðsluna.“ segir í örnefnalýsingu fyrir Stóru-Vatnsleysu. Garðbær er merktur inná túnakort frá 1919. Einnig var kotbýli nefnt Krókur. Garðhús er nefnt í bók GJ, en það gæti verið sama og Garðbær.
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að „heiðarland Vatnsleysubæja er víðáttumikið, nær frá sjó til fjalla. Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.” Guðmundur B. Jónsson segir í bók sinni að Vesturbærinn hafi farið í eyði, lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940.
Tekið var hús á Sæmundi Þórðarsyni, bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann lýsti kotunum, sem voru á Kottúninu austan við bæinn. Þau eru m.a. dregin upp á túnkortið frá 1919; Móakot, Nýibær, Garðbær og Naustakot, sem jafnan var nefnt Pallakot eftir síðasta ábúandanum. Kotin stóðu þétt saman, en Pallakot fór síðast í eyði 1931.
“Vegur liggur frá bænum og niður að sjávarhúsum. Rétt við veginn norðan megi, rúmlega [ríflega] hálfa leið til sjávar, er gamall brunnur, sem var notaður þar til fyrir fáum árum. Þetta er flæðibrunnur og nokkuð saltur.” segir í örnefnaskrá.
Steypt er yfir brunninn, en hann var notaður til langs tíma. Hann er fallega hlaðinn.
“Rétt vestan bæjar er gamall og grunnur brunnur, sem nefndur er Fjósbrunnurinn.” segir í örnefnaskrá. Brunnur þessi, eða öllu heldur vatnsstæði, er í lægð í túninu vestan við íbúðarhúsið. Sæmundur sagði að alltaf hafi verið sótt vatn í hann til að brynna kúnum – kvölds og morgna. Svo merkilegt sem það hafi verið þá virtist alltaf nægilegt vatn í honum.
Örnefnaskrá segir og frá enn einum brunninum. “Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur.”
Sæmundur sagði að brunnurinn hafi jafnan verið nefndur Pallabrunnur, eftir Palla í Pallakoti. Á túnkortinu frá 1919 er teiknaður annar brunnur skammt suðaustar, en þetta svæði var allt sléttað út fyrir allnokkrum árum, að sögn Sæmundar. Kotbrunnur hefur þó fengið að halda sér. Hann er alveg heill og fallega hlaðinn.
Sæmundur benti einnig á Stöðulbrunn, vatnsstæði í grónum hól, Stöðulsbrunnshól, syðst í túninu. Hlaðið er í vatnsstæðið og var vatn í því er aðgætt var.
Sæmundur sagði að tvíbýlt hafi verið á Stóru-Vatnsleysu; Vesturbær og Austurbær. Síðarnefndi bærinn (húsið) stæði enn, en sjálfur hafi hann rifið Vesturbæinn fyrir allnokkrum árum. Þar stóð þar sem nú er stórt hús norðvestan við húsið.
Áður hefur letursteini, sem er í sunnanverðu túninu, verið lýst sem og áletruninni á honum. Milli hans og íbúðarhússins mun hafastaðið kapella fyrr á öldum. Byggt var kot upp úr henni, en vegna draugagangs lagðist það fljótlega af.
Sæmundur sagðist vilja leiðrétta og benda á nokkur atriði varðandi örnefni með ströndinni austast í S-Vatnsleysulandi. Víkin austan laxeldisins væri jafnan nefnd Stekkjarvík eða jafnvel Kúagerðisvík. Vík með því Stekkjarvíkurnafninu (Stekkjarvíkur) væri í Flekkuvíkurlandi, vestan bæja, en þessi vík hefði jafnan verið nefnd Vatnsleysuvík.
Búðavík hefði verið sandfjara beint neðan við laxeldið. Starfsmenn þar hefðu tekið sand úr fjörunni undir vatnsleiðslur að stöðinni og eftir það hefði sandfjaran horfið að mestu.
Innan (austan) við laxeldið væri Steinkeravík, en hún dregur nafn sitt af náttúrulegum steinkerum er myndast höfðu er fljótandi hraunið rann þar út í sjó.
Jafnan hefði vík allnokkru austan við Arnarklett verið nefnd Fagravík. Þannig væri hún á kortum. Arnarklettur er beint fyrir neðan grunn af húsi, sem reist var norðan við Reykjanesbrautina sunnan Afstapahrauns (Arnstapahrauns). Rétt innan við hann er hin réttnefnda Fagravík, vestan við Látrin.
“Einhversstaðar hér í Heiðinni var Vatnsleysustekkur og hér er Litli-Hrafnhóll …” segir í örnefnaskrá “Við höldum okkur enn við gamla veginn og rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítill kvos fast við og neðan Eiríksvegar,” segir í Örnefnum og gönguleiðum eftir SG.
Enn sést vel móta fyrir tvískiptum stekknum sunnan undir lágum hólnum.
Loks var litið á Eiríksveginn svonefnda, en „hann var ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn er í raun sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en vegarstæðið liggur þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og síðan áfram vestur yfir holt og hæðir.
Um Akurgerði lá Almenningsgatan eða hestslóðin og héðan lá ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn kallast Eiríksvegur, því Eiríkur faðir Árna Kaupmanns og leikara í Reykjavík var verkstjóri. Vegurinn lá upp í Heiðina.” segir í örnefnaskrá.
„Eiríksvegur lá frá þeim stað sem nefndur er Akurgerði. Slóðinn var meðfram Steinkeravík/Kúagerðisvík og áfram til vesturs inn heiðina. Meðfram Kúagerðisvík liggur bílslóði samsíða Reykjanesbraut og endar hann í Strandavegi. Næstum fast frá slóða þessum má sjá leifar Eiríksvegar fast upp við fjörukambinn og svo til vesturs. Gatan er greinileg á grasi grónu svæði ofan við fjörukambinn en verður ógreinilegri þegar komið er út í meira hraunlendi norðvestar. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðarmannanna sem hét Eiríkur Ásmundarson frá Grjótá í Reykjavík (1840-1893) … Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tíman fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegurinn neðstur, síðan Almenningsvegurinn en Eiríksvegurinn efstur”, er lýsingin á Eiríksvegi í bók SG um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.
Frábært veður, sól og varmt veður.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Sæmundur Þórðarson.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

Vatnsleysuströnd

„Af Íslands næstum 5 þúsund kílómetra löngu strandlengju eru það ekki nema tiltölulega stuttir kaflar í ýmsum landshlutum, sem bera heitið strönd og gefin eru sérstök nöfn: Hornstrandir, Barðaströnd, Svalbarðsströnd o.s.frv. 

Kalfatjorn-505

Sumstaðar heitir önnur hliðfjarðanna strönd — hin ekki: Hvalfjarðarströnd, Berufjarðarströnd. Á það vitaralega sínar orsakir þótt ekki verði þær hér raktar. Og ekki er ætlunin að huigleiða frekar þessi strandanöfn heldur að bregða sér í heimsókn á þá ströndina, sem næst liggur Reykjavík —Vatnsleysuströndina — þennan óhjákvæmilega tengilið milli Innnesja og Suðurnesja þegar á landi er farið. Áður en steypti vegurinn var lagður, lá leiðin skammt ofan við bæina, sem standa í slitróttri röð niður undir sjávarmáli. Nú eru þeir nánast horfnir hinum fjölmenna hópi vegfarenda á hraðakstri þeirra suður Strandaheiði. Það er aðeins ef manni verður á að líta upp þegar sveigt er inn í Kúagerði. Þá blasa við hinar reisulegu byggingar á Vatnsleysunum báðum — hinni minni og stærri. Þannig er Ströndin að hverfa fjöldanum í hraða og flýti nútímasamgöngutækni. Við þessa löngu strönd hefur mörg fleytan farizt bæði stór og smá. Ágúst í Halakoti telur, að á árunum 185—1928 hafi 78 manns drukknað af bátum af Ströndinni. En fleiri skip hafa farizt á þessum slóðum en fiskibátarnir úr sjálfu plássinu. Hér rétt framundan Kálfatjörn var það, að póstskipið frá Danmörku — Svalan — strandaði í norðanbyl þann 6. desember 1791. Voru þá liðnir 72 dagar frá því að hún lagði út frá Kaupmannahöfn og farþegar eðlilega orðnir langþreyttir er þá hafði velkt svo lengi í hafi. Meðal þeirra var nýútskrifaður lögfærðingur Benedikt Gröndal Jónsson, sem hafði verið skipaður varalögmaður sunnan og austan. Hann vildi ekki taka sér gisting á Ströndinni, heldur hraða för sinni sem mest
hann mátti til Reykiavíkur til að taka við embætti sínu. En kapp er bezt með forsjá. Hann komst ekki lengra en að Óttarsstöðum, þar sem hann hneig máttvana niður í snjóskafl, kalinn á höndum og fótum. Var hann borinn til bæjar, þar sem hann fékk hjúkrun. Það sem eftir var vetrar dvaldi hann í Görðum hjá sr. Markúsi stiptprófasti í Görðum á Álftanesi. Svo var það 1. desember 1908, að fyrsti togari Íslands, Coot, var að draga kútterinn Kópanes til Hafnarfjarðar.
Þá tókst svo slysalega til að Kópanes slitnaði aftan úr, en dráttartaugarnar flæktust í skrúfu togarans. Rak síðan bæði Kalfatjorn-506skipin stjórnlaust undan straumi og vindi og bar að landi við Keilisnes sunnanvert eða á Réttartöngum seint um kvöldið. Mannbjörg varð, en hvorugu skipinu varð bjargað. Þannig varð Ströndin hinzti „hvílustaður“ fyrsta íslenzka togarans.
Em víkjum nú aftur til landsins. Ströndin er líka að hverfa í annarri merkingu heldur en þeirri, að við verðum hennar lítt eða ekki vör á ferð okkar til Suðurnesja. Hún er að verða önnur nú en áður hún var. Þetta pláss var áður aðalhlutinn, þungamiðjan í hátt í þúsund manna sveitarfélagi, sérstakt prestakall með skóla og landsfrægum homopata, aðsetur blómlegrar útgerðar og með talsverðum landbúnaði eftir því sem um er að ræða á hrjóstrum Suðurnesja.

rodur-501

Hér á þessari löngu strönd voru sumir mestu stórútgerðarmenn síðustu alda enda í nánd við fiskisælustu mið landsins — gullkistunia undir Vogastapa. — Þetta var áður en Englendingurinn kom og skóf botninn og tók lifibrauðið frá landsins börnum, sem horfðu uppgefin og úrræðalaus á eyðinguna úr landi. Það er átakanleg saga, einn skuggalegasti þátturinn í öllum okkar dapurlegu samskiptum við erlent ofurefli.
Stórútgerðarmenn Strandarinnar á síðustu öld hétu margir Guðmundar, hver Guðmundurinn öðrum meiri að útsjón og athafnasemi. Þar var t.d. Guðmundur frá Skjaldarkoti Ívarsson á Brunnastöðum, sem stundaði sjó í 50 ár. Hann átti og gerði út allt upp í 7 skip, gat valið úr mönmum en tók aldrei drykkjumemn á skip sín.

Coot-501

Um vertíðina hafði hann yfir 50 manns í heimili. Því stjórnaði af fyrirhyggju og skörungsskap, kona Guðmundar Katrín Amdrésdóttir. Hún var systir sr. Magnúsar á Gilsbakka. — Guðmundur á Auðnum var einn ríkasti bóndi á Ströndinni, varð formaðuir 17 ára, fljótt hinn „mesti útsjónarmaður til afla fanga og græddi á tá og fingri.“ Frostaveturinn 1881 gerði hann út 6 skip og 2 báta. Eitt Skipanna var sponhúsa nýtt. Það hét Framfari. Formaður á því var Ólafur Runólfsson úr Biskupstungum. Einn háseta hans var Kristleifur á Kroppi. Undir lokin „dreymdi mig,“ sagði Ólafur, „að ég væri kominn austur að Skálholti og væri að hátta þar ofan í rúm hjá henni mömmu minni.“ Næsta dag hvolfdi Framfara á heimsiglingu í ofsaveðri. Fórst Ólafur þar og skipshöfn hans nema 2 menn, sem bjargað var af kili. Annar þeirra var Kristleifur. Hefur hann gefið ógleymanlega lýsingu á þessum atburði í sagnaþáttum sínum, Mun sú frásögn ógjarnan hverfa úr minni þeim, sem lesið hafa.

Vatnsleysustrond-201

Einn, kunnasti Guðmundur Síðustu aldar á Vatnsleysuströnd og víðar var Guðmundur Brandsson alþingismaður í Landakoti. Hann drukknaði að eins 47 ára gamali á heimleið úr kaupstaðarferð til Hafnarfjarðar 11. október 1861. „Missti þar Suðurland einn af hinum merkustu og beztu bændum sínum“. (Annáll 19. aldar). Tvennum sögum fer um hvernig lík Guðmundar fannst. Árni Óla segir í Strönd og Vogar, að Þorkell í Flekkuvík sem þá var 11 ára heima hjá foreldrum sínum.“(Annáll 19. aldar). Stekkjarvík, rekið á þeim stað er bát þeirra Guðmundar hafði borið að landi slysdaginn. Hins vegar segir Kristleifur á Kroppi, að vorið 1914 hafi hann verið samskipa manni ofan úr Borgarnesi til Reykjavíkur. Sá hét Andrés, summan úr Keflavík, gamall og grár fyrir hærum.

Vatnsleysustrond-202

Hann hafði lengi verið formaður á Vatnsleysuströnd. Tal þeirra Kristleifs barst að drukknun Guðmundar Brandssonar. Daginn eftir slysið fóru bátarnir að reyna að slæða upp líkið. Andrés var meðal leitarmanna. „En það kom fyrir ekki,“ sagði gamli Andrés, „þangað til við tókum með okkur hana. Og þegar við vorum búnir að róa nokkurn tíma aftur og fram um sjóinn, þá fór haninn að gala. Var þá lík Guðmundar Brandssonar þar í botni, sem bátinn bar yfir, er haninn galaði. Var það þá slætt upp samstundis.“ Einn af sonum Guðmundar Brandssonar var Guðmundur, sem bjó eftir hann í Landakoti. Hann var ekki eins mikiu útgerðar- og aflamaður og nafnar hans, sem hér hafa verið nefndir, en hann var sjálfmenntaður félags- og menningarfrömuður sveitar sinnar, hreppstjóri, kirkjuhaldari og organisti á Kálfatjörn um áratugi.

Vatnsleysustrond-203

Mun þá óvíða hafa verið komið hljóðfæri í kirkjur utan Reykjavíkur. Kona Guðmundar var Margrét Björnsdóttir frá Búrfelli í Grímsnesi. Er skemmtileg og greinagóð frásögn um kvonfang Guðmundar í Árnesingaþáttum Skúla Helga sonar. Þau Margrét voru barnlaus. Hún var talin góð kona og mikil húsmóðir. Var umgengni öll og heimilisbragður í Landakoti til sannrar fyrirmyndar. Þessi Guðmundasaga er vitanlega framhliðin á blómaskeiði Vatnsleysustrandarinnar: Dugnaður, framtak, rúmur efnahagur, stórútgerðin, reisuleg hús, fjölmenn heimili, risna, höfðingsbragur. — En þarna átti lífið sínar skuggahliðar eins og alltaf. Þeim lýsir Kristleifur á Kroppi þanmig: „ Umhverfis þessi stórbændabýli voru fjöldamörg þurrabúðarhús — byggð úr torfi og grjóti — þröng og óvistleg í mesta máta, aleiga þeirra sem í þeim bjuggu og lifðu þar við sult og seyru.“

Vatnsleysustrond-204

En það væri ekki rétt mynd af lífinu á Ströndinni í gamla daga, ef ekki væri drepið á annað em útgerð og aflabrögð. Að vísu var sjósóknin draumur næturinnar og innihald daganna, það er að segja hinna rúmhelgu daga. En helgidagurinn bar annan svip — bar nafn með rentu — þá fjölmenntu Strandarmenn í helgidóm sinn — kirkjuna á Kálfatjörn. Þar hefur kirkja staðið frá öndverðri kristni og fram á þennan dag. Það þurfti að vera stórt hús, þar sem sóknin var svo fjölmenn og fjöldi aðkomusjómennina á vertíðinni.
Vatnsleysustrond-205Núverandi kirkja er frá árinu 1893, reist fynir forgöngu Guðmundar í Landakoti, stórt hús og reisulegt. Árið 1935 fékk hún mikla viðgerð og var útliti henmar þá mikið breytt. Fylgir grein þessari mynd af kirkjunni í hinu gamla formi. Mun margur minnast hennar ekki sízt vegna turnsins, sem var nokkuð sérstæður. Á hann voru málaðir gluggar sem úr fjarlægð líktust munkum eða prestum hemipuklæddum. En að innan er kirkjan eins og hún var í upphafi, meira að segja sama málningin. Hún var framkvæmd af dönskum manni, sem hét Bertelsen. Til hennar hefur ekki verið kastað höndunum. Á 75 ára afmæli kirkjunnar rakti Erlendur á Kálfatjörn sögu hennar í glöggu og skemmtilegu erindi. Gat hann þess, að fyrir byggingu grunnsins hefði staðið Magnús steinsmiður Árnason, Reykvíkingur að uppruna, en þá búandi í Holti í Hlöðuneshverfi. Er grunnurinn hið mesta snilldarverk og sér ekki á honum enn í dag. Það var líka haft eftir kirkjusmiðnum, Guðmundi Jakobssyni, að aldrei hefði hann reist húis á jafnréttum grunni sem þessum,

Kalfatjarnarkirkja-505

Efni allt til kirkjunnar var flutt á dekkskipi og skipað upp á árabátum, öllum unnum við, en stórtré öll lögð í fleka og róin til lands. Aðrir tóku svo við og báru upp og heim að Kálfatjörn. Hafði verið mikið kapp í ungum mönnum að vinna sem mest að þessu og að verkið gangi fljótt og vel. Gengu menn að morgni heiman frá sér um klukkutíma gang, þeir sem lengst áttu, og heim aftur að kvöld bóndi í Þórustöðuum. Hann var sonur Guðmundar alþingismann Brandssonar í Landakoti. Egill var lærður trésmiður, hagleiksmaður og þótti framúrskarandi vel virkur. Smíðaði hann mörg hús á Ströndinni á þessum tíma. Stendur eitt þeirra enn í dag, íbúðarhús á Þórustöðum.
Vatnsleysustrond-206Nú mun engri fleytu ýtt úr vör á Vatnsleysuströnd á vetrarvertíð. Samt er fjarri lagi að útgerðin og sjósóknin sé horfin úr hreppnum. Hún hefur öll flutzt suður í Voga, þar sem sköpuð hefur verið aðstaða til að stunda sjóinn á stórum vélbátum og verka aflann eins og markaðurinn krefst á hverjum tíma. Utan um þá aðstöðu er nú að rísa hið myndarlegasta þorp. En íbúarnir á Ströndinni sækja sumir vinnu sína út úr hreppnum eða stunda landbúskap — aðallega sauðfjárrækt. Þess má sjá merki og það þarf maður að muna þegar maður ekur að sumarlagi hratt og greitt suður steinsteypta veginn á Strandaheiði. Þá er það ekki óvenjulegt að dilkar — fleiri eða færri — séu á beit með fram veginum, gerandi sér erindi yfir hann án þess að gæta að umferðinni. En sjálfsagt fer nú þesum kindum að fækka, því að Stórráð sveitarfélanna í Reykjaneskjördæmi ku hafa það á stefnuskrá sinni að fækka sauðfé en fjölga sálfræðingum.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Sr. Gísli Brynjólfsson,25. janúar 1970, bls. 8-9 og 14.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.