Af Jarðabókinni 1703 að dæma er ekki að sjá að Melar á Kjalarnesi eigi neina selstöðu.
En hins vegar virðist „þriðja afbýli af sömu jörðu, kallað Melakot“, eiga selstöðu þar sem heitir Mela Seljadalur, „og eru þeir hagar að mestu aleyddir af skriðum“. Á næsta bæ, Tindstöðum, er skv. Jarðabókinni, „selstaða í heimalandi“. Ætlunin var að ganga í Mela-Seljadal og kanna hvort enn megi sjá leifar af selstöðuni frá Melakoti sem og að huga að slíkri selstöðu í heimalandi Tindsstaða. En áður en lagt var af stað var kíkt á eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu frá árinu 1966 og frásögn í sama blaði 1968.
Í Morgunblaðiðinu í júlí 1966 má lesa eftirfarandi frétt um mikil skriðuhlaup í Melaseljadal: „Það var eins og skotið væri úr byssu, þegar skriðuhlaupið geystist fram úr Þverárgljúfri. Við héldum að það væri komið þrumuveður.
Tignarlegt var að sjá allan þennan móbrúna vatnsflaum geysast þarna fram, sjálfsagt 15 metra háan og fyllti í allt gljúfrið, sem vafalaust er 50 metra breitt þarna. Og auðvitað vissum við, að svona skriðuhlaup myndi valda miklu tjóni, sem og líka raunin varð.“
Gunnar bóndi Einarsson á Morastöðum í Kjós mælti þannig við blaðamann Mbl. í gær, þegar við spurðum hann um hamfarirnar, sem áttu sér stað norðan í Esju síðastliðinn fimmtudag, þegar hið mikla úrfelli varð hér sunnanlands, og olli miklum vegarskemmdum víða, og skriðuhlaupum sumsstaðar, en þó víst hvergi meiri og stórhættulegri en einmitt þarna.
Morastaðir standa Kjósarmegin við Kiðafellsá, en beint á móti standa bæirnir Ytri- og Innri Tindastaðir, en þeir voru í mestri hættu í skriðuhlaupi þessu.
Blaðamaður Mbl. gekk um svæði þetta á sunnudaginn og var þar ófagurt um að litast. Skriðuhlaupin, sem mest bar á byrjuðu í Dýjadalshnjúki, en hann gnæfir yfir dalnum og er 720 metrar yfir sjávarmál að hæð.
Rétt nærri upp undir brún, byrjuðu skriðuhlaupin, og lausleg ágizkun er, að þarna hafi losnað jarðvegur í þeim tveim, sem byrjuðu vestanmegin í Tindadal, sem svarar 4—5 hekturum lands. Skriðurnar hafa runnið niður að daldragi Þverár, og skollið þar á af miklu afli, sveigt til vesturs með ánni, steypst niður Þverárfoss efri, svo að hann er nú óþekkjanlegur, niður gljúfrin framhjá Melaseljadal, og þar í norður í átt að Kiðafellsá, en í hana fellur Þverá, fyllt gljúfrin, sem þarna eru um 50 metra breið, og bullað fram yfir klettaása við hlið þeirra, þegar þau gátu ekki lengur tekið við rennslinu, en síðan breytt lir sér fyrir neðan á mela og gras þar til þau náðu aðalánni, runnu þar auðvitað með Þveránni, en að auki hafa þau nokkru innan með Kiðafellsá grafið sér ný gljúfur 5—6 metra há og 3 metra breið alveg niður á berg — og alla leið til sjávar eftir Kiðafellsá.
Síðan berst flaumurinn með Kiðafallsá, breiðir úr sér yfir litla dalkvos, Kvíahvamm, sem margir vegfarendur kannast við, rutt burtu öllum steinum, sem fyrir voru, en flutt til nýja, og runnið síðan undir brúna á Kiðafellsá, niður fossana, og síðan allar götur eftir áreyrunum til sjávar, og valdið þar margvíslegu tjóni. Mun öll þessi langa leið vera um 10 km, og gizkar Gunnar á Morastöðum á, að hraði hlaupsins, þegar það steyptist fram úr Þverárgljúfri, hafi í það minnsta verið 10—12 km á klst.
Ófögur sjón blasti við Þegar við gengum upp með Þveránni og hinu nýja gljúfri þar austan við, blasti við okkur hryggileg sjón. Fundum við þar fljótlega á litlum bletti 6 kindur, sumar limlestar, allar dauðar og hálfgrafnar í hlaupinu.
Síðar fundust svo tvær enn ofar en við fórum, og enn seinna ein niður á áreyrunum, svo að alls hafa 9 kindur fundizt dauðar, en auðvitað geta margar leynzt enn í Esjunni, og svo er líklegt, að eitthvað hafi kunnað að berast alveg til sjávar. Einnig má telja liklegt, að allar eða flestar hafi verið þarna með lömbum.
Ekki er nokkur vafi á, að kindurnar hafa leitað skjóls í gljúfrinu, enda skýli þar og grösugt, en þennan dag var mikið úrfelli og rok. Í samtali okkar við Gunnar á Morastöðum kom fram, að rétt um 4 leytið á fimmtudaginn féllu tvær skriður úr áreyrfjallinu fyrir ofan Ytri-Tindastaði, sitthvorum megin við bæinn, og rétt á eftir heyrðu þau skruðninginn í þeim stærri upp undir tindi, og skömmu síðar sáu þau aur- og vatnsflóðið, sem áður um getur geysast fram úr Þverárgljúfrum.
Við náðum tal af Gunnari Leó, bónda og málarameistara á Ytri-Tindastöðum í gær. Hann sagði okkur, að enginn hefði verið heima um það leyti, sem skriðurnar féllu að bænum, en þær væru ekki lengra i burtu beggja vegna hans en 20—30 metra. Hafi sú vestari tekið af veginn heim að bænum á löngum kafla, tekið af rétt og nýlegt gerði og girðingu, sem hann hefði notað til að reka inn í réttina. Hann hefði ekki enn fengið veginn lagaðan, en byggist við að vegagerðin myndi hjálpa til þess, og eins þyrfti hann að reyna að ýta þeirri skriðunni, sem gekk yfir nokkuð af túni hans, á burt.
Varðandi kindurnar, sem fundust í skriðunni, kvaðst hann búast við að eiga þær flestar, þvi að þetta væri ein mitt á þeim stað, sem fé hans gengi. Nokkru innar í dalnum er bærinn Miðdalur. Síðar hafði skriðan úr eystri tindinum valdið nokkrum spjöllum.
Davíð bóndi þar Guðmundsson, sagði, að tvær skriður hefðu skemmt fyrir sér tún. Myndi önnur, sú stærri, hafa runnið fram úr Kerlingagili, en það er gríðarstórt og hrika legt gil, sem skerst þarna inn í Esjuna norðanverða. Sjálfsagt hefur gilið bjargað því, að skriðan var ekki stærri, þegar niður kom.
Slík stórfelld skriðuhlaup munu ekki hafa átt sér stað þarna síðan 1880, en þá hljóp skriða úr Eyrarfjalli, sem er norðan dalsins, frá bænum Morastöðum og þvert yfir dalinn að Tindastöðum. Nú var hins vegar miklu minni úrkoma í Eyrarfjalli en í Esjunni. Augljóst er, að mikið tjón hefur þarna orðið, bæði á landi og búsmala, og sjálfsagt tekur það tugi ára, að græða upp land það, sem þessi miklu skriðuhlaup hafa lagzt undir aur og grjót, og víst er, að þeir sem land þetta þekkja náið, munu telja, að það hafi illilega skipt um fallegan svip til hins verri og ljótari.“ — Fr. S.
Í Morgunblaðinu í nóvember 1968 má lesa eftirfarandi um Melaseljadal og nágrenni: „Í þetta skiptið ætlum við að ganga í Tinnuskarð og í Þjófagil, og ef okkur endist þrek, að ganga það allt á enda, þar til Melasel jadal er náð, en hann öðlaðist frægð sína skyndilega þegar reist var þar brugghús á þeim tíma, þegar „bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó“ eins og sagði í kvæðinu.
Við erum fljót yfir bergvatns ána tæru Kiðafellsá uppá Kleyfarnar framhjá klettinum, sem hún amma mín sagðist alltaf sjá álfaborgina í, einkanlega þegar kvöldsólin skein á hana. Ég held að hún hafi þar fyrir utan bæði séð álfakónginn og álfadrottninguna, en henni fannst alltaf álfaborgin hafa burstir, eins og íslenzkur sveitabær. Burstirnar voru þrjár, sagði hún. Og hún kenndi okkur kvæðið eftir Guðmund skólaskáld um Kirkjuhvol, og þá varð sýnin hennar um Áflaborgina miklu meiri sannleikur, en í kvæðinu var þetta:
„Hún amma mín það sagði mér um sólarlagsbil
á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til.
Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar.
Þeir eiga kirkju í hvolnum og barn er ég var,
í hvolnum kvað við samhljómur klukknanna á kvöldin.“
En áfram höldum við upp Kleyfarnar, yfir flóa og fífusund og einkennilega lagaða hóla sem við fyrstu sýn gætu virzt vera einskonar smágígir, gervigígir, en eru vafalaust myndaðir af skriðjökli, sem einhverntíma í fyrndinni hefur skriðið niður dalinn og snúið eilítið upp á sig í dalsmynninu, eins og víða sést um landið.
Allt er þetta á fótinn, en Tinnuskarð er ekki hátt, þótt klettabeltið sé tilkomumikið og reglulegt, og brátt náum við upp á sléttuna ofanvert við Tinnuskarð. Enga finnum við samt tinnuna, en liins vegar er hér mikið um jaspís og kvartzmola, sem liggja hér á melnum, út um allt. Ekki er til önnur skýring á nafngiftinni en sú, að gömlu mönnunum hafi fundist jaspísinn svo harður, — þeir gátu skorið með honum gler — og kallað skarðið eftir því.
Og nú sjáum við ofan í þetta einkennilega náttúrufyrirbæri Tinnuskarðið sjálft. Eiginlega er þetta ekki skarð, nema yzt við aðalklettabeltið. Miklu frekar er þetta lítil dalkvos. Sé maður staddur í botni hennar, sér mann enginn. Skarðið er aðeins opið út til vesturs, út til fjarðarins, og þeir sem um þjóðveginn fara fyrir neðan, myndu ekki hafa hugmynd um þótt þúsundir manna hefðust við í dalkvosinni innan við sjálft skarðið.
Grasivaxnar brekkur eru á allar hinar hliðarnar, og þar eru einskonar sæti allt um kring og er þetta engu líkara en rómversku hringleikahúsi. Colosse um er að vísu gert af steini og vel farið fram leikar og mannfundir, og nógir eru áhorfendabekkir. Einnig hagar þannig svo til, að innanvert við skarðið, norðanmegin er ræðupallur af náttúrunni gerður hátt í klettum og þar reyndi maður raddþolið hér áður. Það var engu líkara, en klettarnir vörpuðu hljóð inu inn í þetta hringleikahús og óþarft myndi þar að nota gjallarhorn. Tinnuskarð er sem sagt tilvalið fyrir mannfundi. Minnir allmikið á gíginn hjá Hólahólum á Snæfellsnesi.
Rétt sunnan við komum við svo niður í Þjófagil. Eftir því rennur lítill lækur, skoppar stein af steini og fellur svo meðfram norðurjaðri Melaflatar og niður Melagil til sjávar hjá Niðurkoti, en sá bær er nú í eyði. Á Melaflöt var það venjan hér áður að hleypa hestunum á leið til kirkju í Saurbæ, og var hún tilvalinn skeiðvöllur.
Enginn veit ég deili á nafngift þessari, Þjófagili. Veit um enga þjófa, sem hafa verið að sniglast í gili þessu. Það er víða grösugt og auðvelt yfirferðar, og endar ekki fyrr en í Melaseljadal bak við Stampana.
Og þá er að segja frá Melaseljadal. Hann er eiginlega örlítið dalverpi opið í báða enda, en þar hefur sjálfsagt verið haft í seli frá Melum hér áður, eins og nafnið bendir til. Ekki hef ég séð neinar rústir aðrar en þær af brugghúsinu fræga, sem nú greinir frá.
Þetta var á tímum þeim, eins og áður segir, þegar bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó en Björn sálugi Blöndal var lögreglueftirlitsmaður með landabruggi þá.
Það var á allra vitorði, að nokkrir þarna í nánd stunduðu lítilsháttar brugg sér til búdrýginda, en allt voru þetta heiðursmenn, og aldrei fannst brugghúsið, fyrr en sólheitan sumardag einn að maður nokkur skrapp í fjallgöngu á Dýjadalshnjúk í Esju. Á niðurleið gekk hann þvert yfir Melaseljadal, og sá þá lækjarsprænu koma undan einhverri þúst. Við nánari athugun kom í ljós hið haganlegasta brugghús með landalögum í mörgum brúsum og tunnum á stokkunum. Lækurinn var leiddur í gegnum húsið til hagræðingar.
Tveir kjóar sátu þar nærri og söng ámátlega í þeim, eins og þeir væru búnir að fá sér heldur mikið neðan í því af fram leiðslunni.
Ekki sagði maðurinn frá þessu, en upp komst um húsið fyrir annarra tilverknað um síðir, og var þá úti hin hagstæða tíð, og eru þarna núna rústir einar.“
Þegar FERLIR skoðaði Melaseljadalinn, sem er bæði lítill og rýr, var m.a. gengið fram á kindabein, hauskúpu, hrygg o.fl., líklega leifar frá skriðuföllunum árið 1966. Engar tóftir var að sjá í dalnum.
Hins vegar fundust seljaleifar neðan undir Stekkjargili; þrjú rými og stekkur. Erfitt var að segja til um aldur minjanna, en þær gætu verið frá því á 17. öld. Líklega er þarna komið framangreint Melasel (Melakotssel). Harla ólíklegt er að selstaða hafi verið uppi í Mela-Seljadal, bæði vegna rýrlegra landkosta og brattleika. Hafi hún einhvern tímann verið þar þá er hún löngu eydd af skriðum, því víða þar uppi má sjá merki um bæði eldri og yngri skriður. Selstaðan þarna, undir Stekkjargili, og svo til alveg við Melaánna, verður að teljast miklu mun líklegri og vænlegri, a.m.k. í seinni tíð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Morgunblaðið, stórfelld skriðuhlaup valda tjórni á Kjalarnesi og í Kjós, skriðuhlaup úr Dýjadalstindi falla úr 700 m hæð til sjávar, 10 km leið, 26. júlí 1966, bls. 5.
-Morgunblaðið, Hún amma mín það sagði mér, 24. nóvember 1968, bls. 7.
-Jarðabókin 1703.