Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um selstöðu frá Hrauni við Grindavík: “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ Ekki er tekið sérstaklega fram að hún hafi verið í Ísólfsskálalandi. Þá er ekki minnst á selstöðu frá Ísólfsskála.
Haldið var að Hraunsseli milli Þrengsla vestan í Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi), millum Neðri-Þrengsla og Efri-Þrengsla. Skolahraunið hefur lagst að útskagandi hlíðinni á þessum köflum. Sunnar heitir hraunið Leggjarbrjótshraun. Syðst heitir það og einstakir hraunkaflar ýmsum nöfum.
Gengið var upp að gömlu þjóðleiðinni um Méltunnuklif og henni síðan fylgt austur yfir Leggjarbrjótshraun (Leggbrjótshraun) að Núpshlíðarhálsi. Leiðin var vörðuð, en nýr slóði hefur verið ruddur beint yfir hraunið. Gamla leiðin liggur bæði undir honum og norðan við hann á köflum. Vörðurnar segja til um legu hans.
Þegar komið var upp í Línkrók varð fyrir öxl út úr hálsinum. Vestan hans er hraunbrún í hrauninu, Kinnin. Handan hennar er stór og myndarlegur eldgígur utan í Höfðanum. Þarna er ágætt útsýni suðvestur að Skála-Mælifelli, Höfðanum, Langahrygg, Stóra-Hrút og Sandfelli. Þegar ofar var komið blasti Trölladyngja við norðaustast og Keilir lyftist smám saman upp fyrir hraunkantinn.
Ljóst er að í Hraunsseli er a.m.k. tvær „nýlegar“ selstöðvar og ein mun eldri. Auk þess eru þrjár stakar tóftir norðan nýrri selstöðvanna. Í öllum tóftaþyrpingunum eru þrjú rými í hverri. Syðri nýrri tóftin er af nýjustu gerð selja, með samfelldri húsaskipan; baðstofu, búri og utanáliggjandi eldhúsi. Nyrðri tóftin er með samliggjandi baðstofu og búri, en hliðstæðu eldhúsi. Þessar tóftir eru vel greinilegar þar sem veggir standa grónir. Elsta tóftin, skammt vestar, er nú næstum jarðlægð orðin. Hlaðinn stekkur er á hraunbrún vestan selstöðunnar. Þar sem nýrri mannvirkin virðast vera frá svipuðum tíma er ekki óraunhæft að álykta að þarna hafi bæði verið selstaða frá Hrauni og Ísólfsskála um tíma.
Skammt norðar undir Núpshlíðarhálsi eru fleiri seltóftir; inn á Selsvellum. Um var að ræða sel frá Járngerðarstaða-bæjunum og síðar einnig Staðarbæjunum í Grindavík. Þarna eru líka bæði yngri og eldri sel.
Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson). “Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).
Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum.
Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
Í ritinu „Söguslóðir“, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, ritar Guðrún Ólafsdóttir um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi. Í því segir hún m.a.: Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum.
Í Krýsuvík voru 6 hjáleigur. Selsstöður voru tvær á jörðinni, önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fék aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa sélstöðu.
Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar. Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. „.aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar“. [Reyndar er Fagridalur óumdeilanlega í landi Grindavíkur því mörk bæjarins og Voga eru mun norðar.] Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangar var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.
Hraunssel.
Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæmilega góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan. Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.
Það eru aðeins Krýsuvíkurbændur, sem njóta þess að eiga skamma og greiðfæra leið í ríkulega selhaga, enda eru aðstæður þar að flestu leyti ólíkar. Við Krýsuvík eru allmiklir flákar af lausum jarðlögum suðvestur af Kleifarvatni og þar fyrir sunnan er jökulnúið grágrýti frá hlýskeiði fyrir síðustu ísöld. Þar hefur náðst að myndast meiri jarðvegur og gróður en annars staðar á Reykjanesskaga sunnanverðum. Þar er að finna bæði móa og mýrar, og meira að segja er þar einhvern mó að finna. Skúli Magnússon landfógeti kallar jörðina fremur landjörð en sjávarjörð og lýsir henni m.a. á þess leið: „Landrými er mikið; eru þar hraun, fjöll og rauðleitar moldir; tún og engi er gott, og má auka það með tilkostnaði, svo að fleiri ábúendur getið setið þar“.
Ef til vill er það þessi góðu búskaparskilyrði, sem valda því, að ekki hefur tekist að hafa upp á neinum heimildum um selstöður frá Krýsuvík eftir daga Jarðarbókarinnar 1703. Um aðra hluta hreppsins gegnir öðru máli. Í verðlaunaritgerð Skúla Magnússonar, sem áður er getið, er ekkert minnst á selstöðu í Krýsuvíkursókn, en um Grindavíkursókn segir hins vegar: „En 2 mílur í norðaustur frá byggðalaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar í selstöðu. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli.
Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selstöðurnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: „Eftir jarðabokinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.
Sr. Geir lýsir einnig selsstöðunni á Selsvöllum, að þar sé allgrösugt og bítist fljótt upp, vegna þess að allir bæirnir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli, þótt þeir greiði Staðarprestinum ekkert fyrir, og segir hann, að hann hafi heyrt, að flestir bæir hafi haft í seli einhvers staðar tilfjalla, en vatnsleysi hafi valdið því, að þau væru niðurlögð og allir hafi þyrpst á Selsvelli, því að þar sé dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt sé að reka í selið 8. viku sumars en úr því í 16 eða 17. viku sumars, „nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum“. Af því að ekkert sé afréttarlandið sé allt fé, ungt og gamalt, lömb og sauðir, rekið í selið og smalað á hverju máli og lömbin séu kefluð.
Þessum siða að kefla lömb er lýst hjá Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili í íslenskum þjóðháttum og Þorvaldi Thoroddsen.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega, enda ekki margir kostir heima fyrir ef marka má lýsingu sr. Geirs: „Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni“.
Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninfa má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá séra Geir til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsunum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ.e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum“. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars horaðan og nytlausan „þegar peningur allstaðar annarstaðar gjörir hvar mest gagn, og er í bestum holdum, og er þetta til allmikils ama mörgum búanda hér í sveit sem á stundum ekki þá hafa náð inn töðum sínum af túnunum.“
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum. Í nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.“
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.
„Hvenær lögðust selfarir niður í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. „Síðar“, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, „þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag“.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um Reykjanesskagann sumarið 1883 kom hann bæði að Hraunseli og seljunum á Selsvöllum í rústum. Hann kom á Baðsvelli, sem hann reyndar kallar Baðvelli, og minnist ekki á selstöður þar né heldur rústir eftir sel, og á Vigdísarvöllum fann hann samnefndan kotbæ.
Hér er komin gróf tímasetning. Einhvern tímann eftir 1850 og fyrir 1883. Samt er ekki öll sagan sögð. Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram frór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.
Magnús kennir fólksfæðinni á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870. Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.
Sel og selstöður hafa skipt miklu máli í hreppnum í eina tíð svo að þar má finna orðum Þorvalds Thoroddsens í Lýsingu Íslands staðfestingu: „Hve afar mikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um allt Ísland. Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög víða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o.s.frv.“.
Ekki hefur tekist að timasetja með óyggjandi hætti hvenær síðasta selförin var farin. En ljóst er, að í þessum hraunbrunna úgerðarhreppi hafa grænir selhagar freistað búsmala og þriflegar selstúlkur strokkað smör í seljunum, sem enn sér móta fyrir á eggsléttum völlum á bak við gróðurlaus fjöll.
Svo skemmtilega vildi til að Grindvíkingar voru að reka fjársafn sitt heim í Þórkötlustaðarétt til úrdráttar. Hjá þeim eru nú um 640 á vetrarfóðrum (að sögn núverandi fjárvörslumanns, Dagbjarts Einarssonar), en 1973 var fjöldinn 1.700, eða litlu fleiri en nú var til samans rekið af fjalli (að sögn Gunnars Vilbergssonar, þáverandi fjárvörslumanns Grindavíkurbænda).
Í bakaleiðinni var Hraunsselsstígurinn rakinn yfir Leggjarbrjótshraunið að Höfða og síðan niður með honum austanverðum, yfir hina mikllu hrauntröð sem fyrr er lýst. Annar „selsstígur“ liggur yfir Skolahraunið nokkru sunnar. Má ætla að þar hafi Ísólfsskálaselsstígur legið, sbr. framangreint. Ætlunin er að skoða þetta stórbrotna hraunasvæði fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.