Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Krýsuvíkur-Mælifell

Ætlunin var að ganga á tvö samnefnd fell, Mælifell, á sunnanverðum Reyjanesskaganum. Mælifellin eru reyndar a.m.k. 12 talsins á landinu. Tvö þeirra eru fyrrnefnd fell í Krýsuvík (226 m.y.s.) og við Ísólfsskála (175 m.y.s). Þriðja Mælifellið á Reykjanesskaga (fyrrum landnámi Ingólfs) er í Grafningi.
SkjöldurMælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Fleiri örnefni á Reykjanesskaganum má rekja til vinnu þeirra.
Fellin tólf með þessu nafni í landinu eru:

1) Í Grafningi í Árn.
2) Austan við Ísólfsskála í Gull. = Skála-Mælifell.
3) Vestan við Krýsuvík í Gull. = Krýsuvíkur-Mælifell.
4) Norðan Baulu í Norðurárdal í Mýr.
5) Norðan Axlarhyrnu í Staðarsveit í Snæf.
6) = Mælifellshnjúkur í Skag.
7) Í Djúpadal vestan Hleiðargarðs í Saurbæjarhr. í Eyf. Einnig nefnt Mælifellshnjúkur á kortum.
Skála-Mælifell8) Upp af Reykjahverfi í S-Þing.
9) Í Vopnafirði í N-Múl.
10) Í Álftafirði í S-Múl.
11) Á Fjallabaksleið syðri norðan Mýrdalsjökuls í V-Skaft., = Meyja(r)strútur.
12) Norðan Höfðabrekkuheiðar í Mýrdal í V-Skaft.

Krýsuvíkur-Mælifell er auðvelt uppgöngu, líkt og nafna þess ofan við Ísólfsskála. Fallegur lækur og melöldur voru á suðuröxlinni áður en haldið var upp meginásinn. Farvegur lækjarins sýndi vel kjarnabergið, sem er móberg, en ofan á því er bólstraberg, sem systkinin ís, frost, vindur og vatn hafa dunað við að brjóta niður, enda ber fellið þess glögg merki.
Uppi á kollinum er stinsteypustöpull með merki Landmælinga Íslands. „Röskun varðar refsingu“ segir áletrunin, en koparskjöldurinn er nr. 3188. Stöpullinn hefur verið staðsettur þar sem gamla varðan var fyrrum. Leifar hennar má sjá neðan við þar sem hún var fyrrum. Grjótinu hefur verið hlaðið í bil milli kletta norðan undir stöpulfætinum.
VörðuleifarAf Krýsuvíkur-Mælifelli er frábært útsýni, t.d. yfir Ögmundarhraun og Húshólma, Selöldu, Sveifluháls, Bleikingsvelli. Vigdísarvelli, Núpshlíðarháls og Latsfjall, auk þess góð yfirsýn er yfir litla lækinn milli Mælifellsins og Lafsfjalls sem hefur smám saman verið að brjóta undir sig hraunið á leiðinni til sjávar.
Mælifell mun vera svokallaður móbergs- og bólstrabergsgúlpur, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, seti og bergi. Móbergið myndar meginhluta fjallsins, sem fyrr sagði.
Fellið myndaðist á síðustu ísöld, líkt og nágrannafjöllin og hálsanir. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
ÚtsýniSkála-Mælifell er líkt nöfnu sinni og ekki síður auðveld uppgöngu. Það er þó ólíkt að því leyti að það hefur myndast við gos í sjó. Efri hlíðar fellsins bera þess glögg merki, m.a. rauðleitt gjallið.
Á toppi fellsins er steyptur landmælingastöpull. Koparmerkið á honum er nr. 3710. Líkt og á hinu fellinu hefur gömlu vörðunni verið raskað, grjótinu kastað til hliðar milli stórra steina. Ekki er auðvelt að sjá ástæður þess að nauðsynlegt hafi verið að raska gömlu vörðunum, eða vörðuleifunum, á fellunum.
Frábært útsýni er af Skála-Mælifelli, hvort sem litið er til Grindavíkur, grenndarhraunin (Skollahraun, Katlahraun og Ögmundarhraun), Höfða, Sandfell og Fagradalsfjall. Þá lá Leirdalur fyrir fótunum neðra.
Af Skála-Mælifelli mátti glöggt sjá hvar Gamla-Krýsuvíkurgatan lá upp frá Leirdal og áfram austur. 

Götur við Méltunnuklif

Venjulega hefur verið talið að Hlínarvegurinn hafi verið lagður yfir hana, en kaflinn frá Einihlíðum að Méltunnuklifi er að mestu óraskaður. Í stað þess að leggja veginn ofan í gömlu götuna hefur verið ákveðið að leggja hann beint af augum á þessum kafla, en gamla gatan liggur í sveig sunnan við veginn og þvert á hann ofan við klifið. Gamla veginum var fylgt þennan kafla og niður Méltunnuklifið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnin Íslands.
-Þórhallur Vilmundarson: Mælifell. Lesbók Morgunblaðsins 4. og 11. júní 1994.

Gamla-Krýsuvíkurgatan

Básendar

Básendar voru verslunarstaður frá 1484 til 1800. Undir lok 18. aldar var Hinrik Hansen kaupmaður á Básendum. Hann bjó á Básendum enda hafði verslunin þar verið opin allan ársins hring í nærfellt fjóra áratugi þegar þá var komið við sögu.

Höfnin

Kaupmaður bjó í sérstöku húsi ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Sigurðardóttur frá Götuhúsum í Reykjavík, fjórum börnum þeirra hjóna, Símoni, Jóhanni Friðriki, Pétri og Maríu Lisbet, og vinnukonu. María var yngst barnanna. Þrjú önnur vinnuhjú og einn niðursetningur voru á Básendum veturinn 1799 og á vegum kaupmanns. Þau áttu heima í kotbæ skammt frá kaupmannshúsinu. Þann 9. janúar skall á ofasveður er fylgdi óhemjumikið flóð.
Hinrik Hansen kaupmaður sendi Sigurði Péturssyni, sýslumanni og skáldi, lýsingu á atburðum þessarar nætur og er lýsingin dagsett 16. mars 1799. Skjal þetta er varðveitt. Það er á dönsku. Vigfús Guðmundsson gaf það út nokkuð stytt í Blöndu og á íslensku:
„Vegna ástæðnanna verð eg að bera fram fyrir hérðasdómarann tjónið hræðilega, sem varð í byrjun þessa árs á verzlunarstaðnum Básendum, er eg hafði náðarsamlega í hendur fengið. Út af því er eg nú fjárþrota með óþroskuð börn og óþægilegan aðbúnað. Til að gera héraðsdómaranum þetta skiljanlegt, tek eg mér leyfi til að segja söguna sanna, eons og hún gerðist. Sést þá hversu ofurefli sævarins, hefur eyðulagt verzlunarstaðinn og margskonar fjármuni mína, og í hvílíkum dauðans vandræðum eg var staddur, með mínum nánustu, meðan allt var að eyðuleggjast. þessi hörmulega saga er þá svona:
Leifar Eptir að vil öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auku fóru að heyrast skellir, hver aptir annan, seins og veggbrjótur væri að vinnu við hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmegin, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við óttuðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris, svo vissum við líka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndis úrræði, því þá hefðum við öll farizt. Þarna stóðum við nú langan tíma á loptinu í sífelldum dauðans ótta, og veður og sjór mundu þá og þegar mola húsið niður að grundveli. Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, og það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn.
BrunnurHér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngasta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjarmunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn.
Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill.

Ártal

Til þess að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum áleiðis til byggða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautir náðum að næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur – sem vorum nærri örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki – með mestu alúð og hjartagæzku. Létu og það allt gott í té, er þau gátu. Í baðstofu þessa ráðvanda manns höfðum við aðsetur og aðbúnað í 14 daga. Voru þar alls 19 manns, þar af 10 börn, en þó var baðstofan ekki nema 3 stafgólf („Fag“ = 2 álnir) á lengd, 3 1/2 alin á vídd og 3 álnir á hæð, af gólfi upp í mæniás. Þrátt fyrir alúð mannsins og góðvilja vildum við ekkilengur níðast á gestrisni hans. Til þess líka að rýmkva um okkur, fórum við á eyðijörðina Stafnes, og bjuggum um okkur í baðstofunni íslensku, sem þar var. Síðan höfum við haft þar okkar fátæklega aðsetur. Eins og hr. sýslumaðurinn mun sjá eru húsin mín öll í verzlunarstaðnum sama sem hrunin að grundvelli, og bærinn, sem var þar, líka. Fólkið úr honum bjargaði sér upp um þekjuna, og tókst því þann veg um nóttina að bjarga lífi sínu, með guðs hjálp, nema aldraðri konu, sem veðrið lamdi niður, svo hún drukknaði í flóðinu. Eptir að hvíld og næði færðist yfir hagi mína hefi eg varið tímanum til þess aðs etja stoðir undir það, sem uppi hangir af húsaskrokkum verzlunarstaðarins, moka úr þeim fjörumölinni og grafa upp dótið mitt úr rústum þessa ömurlega staðar, svo og að safna saman borðum, trjám og brotum húsa (og húsbúnaði). Við allt þetta árangurslitla strit, dag og nótt, er eg og konan orðin svo lasburða, að eg treysti mér tæplega að vinna lengur þetta erfiði. Og erfiðið verður því árangursminna, þar erkki þarf eptir að vonast eptir fólki til útróðra á þessum stað.

Letursteinn

Að lokum vil eg láta það álit mitt í ljósi, að landskjálfti hafi hér verið í verki með verði og sjó. Benda til þess ýmsar vörutegundir sem eg hefi fundið lítið skemmdar undir grundvelli. Þvílíkt gat varla orðið án mikils hristings og sérstaklegrar aukahreyfingar jarðvegsins.
Þar eg er skuldunautur hátignarinnar, sem átti veð og íhlutunarrétt í húsum á verzlunarstaðnum Básendum, verð eg að biðja yður, hr. sýslumaður, að koma hér við tækifæri og framkvæma löglega skoðun á rústunum og fjártjóninu. – Stafnesi 16. marz 1799, H. Hansen.“
Konan sem fórst í flóðinu hét Rannveig Þorgeirsdóttir, 79 ára niðursetningur sem hafði lengi verið rúmföst. Sýslumaður lét gera úttekt á tjóninu og er virðingagerðin dagsett 9. maí 179. Þar eru hús ýmist sögð vera gjörónýt eða stórskemmd. Auk þessa voru sex bátar sem kaupmaður átti og hafgði gert út til fiskveiða gjörónýtir, af sumum þeirra var kjölurinn einn eftir. Úttektin um flóðhæð og landbrot af völdum flóðsins sýndi að það hafði gengið 174 metra á land (164 faðma).
Básendakaupstaður var ekki endurreistur. Hansen fluttist til Keflavíkur.
Heimildir benda til að u.þ.b. 100 hús hafi skemmst eða eyðilagst af völdum flóðs eða roks á Suður- og Vesturlandi umrædda nótt, og 187 bátar. Getið er um 10 kýr, 226 kindur og 63 hesta sem flóðið grandaði. Ein kona drukknaði svo sem fram hefur komið.
Mjög djúp og kröpp lægð olli ofviðrinu. Loftþrýstingur var óvenju lágur og stórstreymt og hækkaði sjávarstaða við landið fyrir áhrif þessara þátt. Þar sameinuðust ofasarok af suðvestri og stórstraumsaðfall við að þrýsta sjónum inn fremur mjóa rennu. Sjór gekk að minnsta kosti fjórum álnum (um228 cm.) hærra á Básendum í flóðinu en í mestu stórstraumsfjöru.

Heimild m.a.:
-Lýður Björnsson, Básendaflóðið 1799 (2006).
-Mbl. 3. okt. 1971 – Básendaflóðið.

Letursteinn

Letursteinn á Básendum.

 

Hengill

Útilegumannahellar áttu að hafa verið í Innstadal og í Engidal í Henglinum.
Í Innstadal segja sagnir til um að í hellinum hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhafnar meðlimir af einhverju skipi en verið brottviknir fyrir einhver níðingsverk. Ekki bera heimildum saman um hversu lengi Hengillþeir höfðust við í þessum helli, sumir sögðu eitt sumar aðrir tvö ár. Það er ekki vitað með vissu. Talið er að þeir hafi verið 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á saufé sem þeir stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðan fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. „Þjófahlaup“ í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru drepnir ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.
Heimildir skýra svo frá; Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.
Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hruninn, fallinn bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Hengill Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson „Tannastöðum“ skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.
Einnig eru til sagnir um útilegumenn sem hafi haldið til í helli í Engidal. Í dalnum eru tveir hellar, eða skútar, um 400 metra norðan við sæluhúsið, sem þar er. Annar þeirra, sá efri er talinn vera ævaforn útilegumannabústaður. Sagt er að Eyvindur Jónsson ( Fjalla-Eyvindur ) og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útleigð þeirra, vorið 1678. Í þessum hellum mátti finna ummerki mannvistarleifa.
Hellirinn er efst í móbergshnúknum og snýr hellisskútinn í suður og blasir hann við frá Sæluhúsinu. Hellirinn er um 5 m breiður og 1,20 m á dýpt. Hæðin er um tveir metrar og nokkuð jafn. Hleðslurnar sem hafa verið fyrir opinu að hellinum eru að miklu leyti hrundar en þó eru um 50 sm há hleðsla sem stendur eftir.
Ljósmyndin sýnir hellisskútann og hleðslurnar að innganginum.
Sagnfræðingurinn Lýður Björnsson segir frá hleðslu fyrir hellismunna í Engidal.
„Móbergsklettarani gengur af Marardal meðfram Engidalsá. Hann er mjög veðraður og hæðóttur. Við gengum í fyrstu niður með ánni, en réðumst síðan til uppgöngu á klettaranunum neðarlega eða í neðstu lægðinni á honum. Ásgeir [S. Björnsson] … benti mér fljótlega eftir að upp var komið á hellisgjögur … Stuttur spölur var að hellisgjögrinu … Þarna voru ótvíræðar mannvirkjaleifar. Veggur hafði verið hlaðinn fyrir munann, og var talsverður hluti hans enn uppistandandi. Dyr voru á veggnum. Efsti hluti veggjarins var þó hruninn. Nokkur gróður hafði fest rætur milli steina í hleðslunni“.
Ferðafélagið Útivist stefndi á þennan helli 26. október 1986 og skýra leiðangursmenn svo frá; „Engin greinileg ummerki sjást í hellinum um eldamennsku, en þó kunna tveir steinar í gólfi til vinstri við inngang að vera frumstæðar hlóðir.“ Hellisskútinn sjálfur er 5 m breiður og um 2,5 m hár. Hann slútir varla meir en 1-1,5 m fram að ofan.
Hengill Til hliðanna við hellisopið (þ.e. austan og vestan við) ganga móbergsranar fram og eru aðeins um 2 m á milli þeirra um 4 m sunnan við hleðsluna. Neðan við þessar ytri „dyr“ er allbratt upp að hellinum, sléttar móbergshellur, en þó vel fært. Innan við þær er minni halli og laust grjót í botninum og gæti sumt af því verið úr hleðslum fyrir skútanum. Fyrir honum eru þrjú stór björg sem tæplega hafa verið færð til af mönnum, en ofan á tveimur þeim vestari er hleðsla með minni steinum. Smáhleðsluleifar eru einnig á austasta bjarginu. fast upp við hellisvegginn. Innan við björgin og hleðslurnar er um 1 m breið skora og er botninn þar allsléttur. Í þessum helli hefur verið ágætt skjól fyrir öllum áttum öðrum en sunnanátt en ólíklegt er að hlaðið hafi verið alveg fyrir hann eða að menn hafi hafst þar við að staðaldri. Útsýni er mjög gott úr þessum helli yfir Engidal og Norðurvelli og gæti verið að það hafi einhverju ráðið um að þarna hafi menn komið sér upp skjóli.
Hinn hellirinn sem minnst er aðeins 40 metrum frá „stóra“ hellinum og aðeins neðar. Sá hellir er mun þrengri og dýpri, um 3 m langur, 2 m breiður og 1,25 m hár. En hleðslur eru fyrir mynni þessa hellis einnig. Mjög gott skjól hefur verið úr þessum helli og hefur hann verið ákjósanlegt svefnstæði en hann er mjög þrifalegur og mjúk möl er á gólfi hellisins.“
Lýður minnist á að mögulegt sé að hleðslur þessar hafi verið skjól fyrir hreindýraveiðimenn eða skýli fyrir nautreka en trúlegast finnst honum þó að þessir hellar hafi verið skjól fyrir Fjalla-Eyvind og Margréti í seinni útlegð þeirra, vorið 1678.
En minnst er á það ár í annálum: Eyvindur nokkur, giptur, hljóp úr Ölfusi með annars manns konu vestur, og töldu sig fyrir ektahjón: náðust, voru húðstrýkt og aðskilin. Þau tóku sig aptur saman, lögðust út í Henglafjöllum, náðust og voru réttuð á þessu alþingi.“ Fitjaannáll ÍA II, 247. sbr. Hestsannál ÍA II, 512. 1678: „Höggvinn maður á alþingi, hét Eyvindur Jónsson, er hlaupið hafði úr Ölvesi frá konu sinni meða aðra konu vestur undir Jökul og héldu sig þar fyrir hjón, fóru síðan þaðan og fundust við hellir á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld.
Hengill Konan hét Margrét Símonsdóttir; henni drekkt í Öxará. Í þessari frásögn er minnst á helli á Mosfellsheiði, hér á hugsanlega átt við umræddu hella í Engidal.
Þau höfðu verið strýkt veturinn fyrir og látin þá laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll.“ Setbergsannáll, ÍA IV, 119-1220. Dauðadómurinn er prentaður í Alþingisbókum Íslands VII, 403 og segir þar að þau skötuhjú hafi verið höndluð „í einum hellir suður undan Erfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. Octobris [1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum [voru síðan dæmd fyrir 3 hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu á Bakkárholtsþingi og úttóku líkamlega refsingu á Kópavogi 3.12.1677 fyrir útileguna og þar af hnígandi þjófnaðar aðburði, þar efti voru þau afleyst af biskupinum og Eyvindur tekinn aftur af konu sinni]. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræðapersónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta nokkrum í Ölvesvatns landeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar [og voru þau svo ströffuð af lífinu eftir Stóradómi 3].

Heimildir:
-http://notendur.centrum.is/~ate/ (Hengilssvæðið)

Steinbrjótur

Hraun

Vættir Íslands á skjaldarmerki Íslands standa á helluhrauni, sumir segja reyndar stuðlabergi, en hvað er stuðlaberg annað en hraunmyndun?
 Skjaldarmerki Íslands „Skjaldamerkið prýða hinir fjóru landvættir Íslands, einn fyrir hvern fjórðung: Griðungur (vestfirðir), Gammur (norðurland), Dreki (austfirðir) og Bergrisi (suðurland).“ En hvað um Vesturland!? Þegar betur er að gáð kemur í ljós að fjórði landvætturinn, bergrisinn, opinberaðist á Reykjanesskaganum, en ekki Suðurlandi, eins og jafnan hefur verið talið.
Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, en þar segir svo: „Haraldur (Gormsson Dana) konungr bauð kunnugum manni at fara í hamförum til Íslands og freista, hvat hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestur fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn ok ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgdu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk í brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikil, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjöldi annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðafjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjöldi landvétta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Vikarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hærra en fjöllin ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endilöngu landi – „var þá ekki nema sandar ok öræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna,“ segir hann, „at ekki er þar fært langskipum.“
Vikarskeið (Vikrarskeið) er sandfjaran austan við Þorlákshöfn og vestan við Hraunssand vestan Ölfusárósa.
Ströndin vestan ÖlfusárósaÁ fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf nýkjörninn forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig: „Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann.“
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Hraunreipi í helluhrauni (Kistuhrauni)Suðurnes er heiti sem haft er sem samheiti um þau byggðarlög sem eru á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, eða sunnan Straums eins og Suðurnesjamenn segja oft. Þessi byggðarlög eru Vatnsleysustrandarhreppur með þéttbýliskjarnann Voga, Reykjanesbær (sem var myndaður 1994 úr Innri- og Ytri Njarðvík, Keflavík og Höfnum en sameining var felld í öðrum byggðarlögum), Garður, Sandgerði og Grindavík. Jafnan hefur Grindavík þó ekki verið talin til eiginlegra Suðurnesja því hugtakið var lengi vel fyrst og fremst bundið við útvert Rosmhvalanesið. Á þessu svæði er landnám Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs, en henni gaf hann Rosmhvalanes allt sunnan Hvassahrauns, eins og Landnáma kemst að orði. Einnig landnám Molda-Gnúps, sem nam Grindavík. Annars er frásögn Landnámu um þetta svæði mjög óljós.“
Dæmi um hellu- og apalhraun eru t.d. hraunin sem liggur yfir Suðurnesin. Hraun er jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna. Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.  Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.
Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. ApalhraunEnskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Jarðskorpa er ysta jarðlag steinplánetu. Jarðskorpa jarðarinnar (oft nefnd Jarðskorpan) skiptist í tvær gerðir jarðskorpna, meginlandsskorpu sem er 20-70 km þykk og hafsbotnsskorpu sem er um 6-7 km þykk.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Kistuhraun í Brennisteinsfjöllum.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Raufarhólshellir og Búri.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Í sumum gosum verða til blandhraun, líkt og sjá má í Arnarseturshrauni ofan við Grindavík. Hraunið, sem bergrisinn á að hafa staðið á, eitt af fjórum táknum skjaldarmerkisins, er hluti Leitarhrauns, sem mun hafa runnið fyrir u.þ.b. 5000 árum.

Heimildir m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Hraun
-Stjórnarráð Íslands.

Hraun

Hraun – Tíðarhliðið,

Sogasel

Gengið var um nýja borsvæðið vestan Trölladyngju, yfir að Oddafelli og með því að Hvernum eina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Áður en komið var að syðsta hluta Oddafellsins mátti sjá gamlan stíg yfir hraunið norðan fellsins í átt að norðausturenda Driffells. Einungis lítill gufustrókur stendur nú upp úr hvernum, sem eitt sinn var stærsti gufuhver landsins, sást jafnvel frá Reykjavík þegar best lét. Frá hvernum var genginn gamall stígur er liggur austan hversins og inn með Selsvallalæknum. Þórustaðastígurinn liggur þar upp úr Kúalág, en gegið var áfram suður yfir vellina, framhjá seljunum undir hlíðinni og að vestari seljunum suðvestast á þeim. Norðan þeirra er stígur yfir hraunið að Hraunsels-Vatnsfelli. Ákafla er hann vel markaður í klöppina. Uppi á því austanverðu er allstórt vatnsstæði. Þarna er um að ræða þrjú sel og eru fallegir stekkir við þau öll, auk réttar og fjárskjóla í hrauninu innan þeirra.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Gengið var upp með Núpshlíðarhálsi, með læknum þar sem hann kemur niður gil í hálsinum (Sogadal) og áfram utan í honum að Sogagíg. Þegar komið er að honum myndar gígurinn fallega umgjörð um selið með Trölladyngjuna í bakgrunni. Í gígnum eru a.m.k þrjár tóttasamstæður og mjög heillegur og fallegir stekkir og rétt, hlaðinn utan í norðurhlið gígsins, auk smalaskjóls. Ein tóft til viðbótar er utan gígsins. Handan hans í norðri myndaði Oddafellið litskrúðungan forgrunn að Keili er sveipaði um sig þunnri skýjahulu.

Sogasel

Í Sogaseli.

Á leiðinni var gerð leit að útilegumannahelli sem átti skv. þjóðsögunni að vera nálægt Hvernum eina. Ekki er ólíklegt að hann sé fundinn. Í hellinum áttu útilegumenn að hafa hafst við í byrjun 18. aldar. Þeir herjuðu á bændur á Vatnsleysuströnd og er Flekkuvík sérstaklega tilgreind í sögunni. Gerðir voru út leiðangrar til að handsama þá, sem að lokum tókst. Voru þeir þá færðir að Bessastöðum og hengdir í Gálgaklettum (sjá HÉR). Sagt er að bændur hafi eyðilagt bæli útilegumannanna svo aðrir tækju ekki þeirra stað.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Staðurinn, sem um ræðir er hinn ákjósanlegasti. Á aðra hönd er jarðhiti og hina kalt vatn. Innan seilingar hefur fé gengið um haga. Ofan við bælið er hæð og má auðveldlega sjá til mannaferða úr öllum áttum. Er þá auðvelt að dyljast í nágrenninu. Misskilningur er að menn hafi hafst við í hraunhellum til dvalar eða búsetu. Til þess voru þeir of rakakenndir, kaldir og hreinlega blautir. Þessi staður hefur aftur á móti að öllum líkindum verið reftur og þakinn hellum og mosa og þannig haldist þurr og verið ágæt vistarvera. Í honum hafa þrír til fimm menn auðveldlega getað dvalið með góðu móti.
Gangan tók 3 klst og 24 mín. Frábært veður – logn og hlýtt – roðagyllt fjöllin.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Vegghleðsla

Námskeið í „grjóthleðslu í gömlum stíl“ var haldið í Vogunum á vegum Miðstöð Símenntunnar á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu, sem tók tvo vinnudaga, var m.a. ætlunin að hlaða frístandandi og fljótandi veggi úr náttúrulegu grjóti. Auk Kálfatjarnarkirkjaþess var ætlunin að kenna öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur áttu að læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta var að mestu verklegt námskeið og gert var ráð fyrir töluverðu líkamlegu puði – enda varð sú raunin, en eins og einhver komst að orði; „I love it!“.
Hér verður seinni degi námskeiðsins n.k. laugardag lýst.
Leiðbeinendur voru Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistari og skrúðgarðyrkjumaður, og bróðir hans, Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður, miklir hagleiksmenn. Seinni hluti grjóthleðslunámskeiðsins fór fram við Kálfatjörn.
Markmið námskeiðsins var að nemandinn þjálfaðist í hefðbundnum vinnubrögðum við íslenskt byggingarhandverk; í þessu til­felli grjóthleðslu úr náttúrlegu grjóti, þekkti helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í grjóthleðslu, kynni skil á góðu hleðslugrjóti og gæti hlaðið og gengið frá grjótvegg úr náttúrlegu grjóti og gæti hlaðið horn og boga.
SuðurveggurinnEfnisatriði og kjarnahugtök voru m.a: Grjótnám (hleðslugrjót), einstakar bergtegundir, grjót klofið, höggvið, flutningur, árstími, grjóthleðsla, undirstöðusteinar, smásteinar, hellubrot (klípa), stæði steins (sæti), möl á milli laga, moldarfylling, þjöppun, veggjagrjót jafnað, þykkt grjótveggja, hæð, ending.  Að mörgu var að hyggja.
Lýst var t.d. vegghleðslu úr grjóti, m.a. með tilliti til mismunandi bergtegunda, er hlaðið var úr. Kynntir voru undirstöðusteinar og kampsteinar, smásteinar og hellubrot, sem notuð voru til að skorða steina í hleðslu (klípi t.d.). Stæði steins í hleðslu nefndist t.d. sæti. Lög í veggjum voru hlaðin úr langhellum eða langsteinum til bindinga. Í sumum veggjum var torf notað milli laga í grjóthleðslu. Mikilvægt var að leggja grjótið rétt í hleðsluna? Stundum var venjuleg heytorfa notuð við vegghleðslu, rist að endilöngu, er hlaða átti, og báðir helmingarnir notaðir í hleðsluna. Strengur (strengir) var einnig hafður milli laga í grjóthleðslu. Hleðslu á ytra borði útveggja og gaflhlaða var lýst sem og fláa í innveggjum.

Unnið að endurbótum

Veggur hlaðinn með fláa myndaði boglínu upp og niður, líkt og torfveggir. Stundum var vegghleðsla bein eða bogadregin milli horna í húsi (þ.e. grunn lína). Moldarfylling gat verið í grjótveggjum. Þá var moldinni þjappað mjög vel. Veggjagrjót var jafnað með öxi eða sleggju er hlaðið var. Þykkt grjótveggja gat verið mismunandi. Ending grjótveggja gat og verið mismunandi, allt eftir tilgangi byggingarinnar.
Viðfangsefnið að þessu sinni var grjóthlaðin hlaða við bæjarstæðið, svonefnd
Skjaldbreið. Skjaldbreið, eins og sjá má hana nú, mun hafa verið reist um 1850, líklega af þáverandi ábúendum Kálfatjarnar. Upphaflega hafa allir veggir hennar verið hlaðnir grjóti úr næsta nágrenni, líklega fjörunni, en árið 1926 þegar fjós var byggt við hlöðuna var suðurveggurinn steyptur upp en grjótið notað til þess að drýgja steypuna.
Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst nokkuð. Er helsta breytingin sú að árið1946 mun Erlendur, þáverandi bóndi á Kálfatjörn hafa gert kvist á hlöðuna að norðanverðu. Hann hafði eignast nýja dráttarvél þetta sama ár og var kvisturinn byggður til þess að auðvelda aðkomuna vegna heyflutninga. Bárujárn er á þaki hlöðunnar en upphaflega mun það hafa verið klætt skarsúð með breiðum borðum.

Gert við

Standandi klæðning mun einnig hafa verið á báðum göflunum og er sú klæðning enn sýnileg á vesturgaflinum. Fyrsti hluti uppbyggingarinnar á Skjaldbreið hafði verið hafinn og hafði Víglundur Kristjánsson, torf- og grjóthleðslumaður, unnið að henni ásamt vinnuflokki sínum. Hluti hans hafði þá þegar skemmst vegna aksturs stórra tækja um bæjarhlaðið.
Skjaldbreið hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi um aðstöðu og lifnaðarhætti sjávarútvegsbænda á 19. öld auk þess að vera ómissandi hluti af umhverfinu við kirkjuna og mikilvægur þáttur í sögu staðarins. Samkvæmt aldursákvæði Þjóðminjavarðar er hlaðan Skjaldbreið friðuð.
Grjót sem var notað í hleðsluna var nánast eins og það kemur af skepnunni, kannski örlítið snyrt til að það legðist betur. Víglundur er menntaður bifvélavirki en þrátt fyrir það hefur hann unnið sem fornhleðslumaður síðastliðin 30 ár, þar af sem aðalstarf síðastliðin 15.
Hans þekktustu verk eru Skansinn í UnniðVestmannaeyjum, húsin í Bröttuhlíð á Grænlandi og svo endurbyggði hann Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal svo fátt eitt sé nefnt. Menntun til að verða fornhleðslumaður er ekki hægt að læra í neinum skóla. Hún lærist eingöngu frá manni til manns, til að mynda lærði Víglundur af afa sínum sem lærði þetta af föður sínum og svo koll af kolli. Í dag er þessi stétt að deyja út og að mati Víglunds eru aðeins 4-5 menn sem gefa sig út sem fornhleðslumenn. Það er fyrst og fremst vegna þess að starfsöryggi er ekki nóg og svo er þetta hreinlega fjári erfitt að vera að burðast með grjót allan daginn.
Víglundur kannast við flest ef ekki öll þau nöfn sem hleðslan bar með sér hér áður fyrr, mismunandi gerðir hleðslu, verkfærum og annað slíkt. Þau eru samt flest orðin úrelt vegna tækniframfara. Það er einungis eitt verkfæri sem hefur sama nafn og áður en það er stutull, hann var notaður til að þjappa moldina í veggjunum. Að þjappa moldina hefur alla tíð verið mikilvægt og sagt hefur verið að það að þjappa vel er jafn mikilvægt og að hlaða vel. Hleðsluheitin hafa haldið sér.

Unnið við

Heitin eru í raun skírskotun í nöfn þess sem hlaðið er úr, til dæmis eru tvennskonar hleslur á Jaðar, grjóthleðsla þar sem eingöngu er notað grjót og svo hlaðið í streng en þá er sett torf(streng)- og grjótlag til skiptis. Sem sagt að það er annaðhvort hlaðið í torfið, grjótlag á milli, eða úr torfi en þá er eingöngu torf líkt og með grjótveggina.
Efnisöflun í dag er með nokkuð breyttu sniði frá því sem var. Núna má eiginlega ekkert hirða og er flest allt grjót fengið úr námum, það er sprengt grjót en ekki tilhöggið af nátturunnar hendi. Torfið er náttúrulega fengið úr nánasta umhverfi, það eru þó til svæði sem ekki gefa hentugan jarðveg til grjóthleslu. Þar sem það á við er í raun ekkert hægt að gera þrátt fyrir góðar samgöngur og gjöfulli svæði, það er vegna sauðfjársjúkdóma eins og riðu og eru lög sem koma í veg fyrir það að jarðvegur er fluttur landshorna á milli. 
VegghleðslaÞegar tekist var á við Skjaldbreið þurfti að rífa hluta veggjanna alveg niður, rétta þá af og lagfæra. Við þá vinnu komu í ljós eldri undirlagshleðslur, sem nýrri veggir höfðu verið byggðir ofan á. Neðsta lag austurveggjarins var t.a.m. runnið til, en það samt sem áður notað fyrir nýja vegghleðslu. Neðsta lag suðurveggjarins var vandlega hlaðið, en greinilega eldra en það sem ofan á var. Vesturvegginn vantaði alveg. Hann hafði verið steyptur, sem fyrr sagði, en fallið þegar þakið fauk af hlöðunni í óveðri s.l. vetur. Nú átti að endurhlaða hann frá grunni. Á norðurveggnum voru fjögur flórgöt í mismunandi hæð. Þau neðri virtust hafa verið á eldri veggnum. Veggir voru tvíhlaðnir og var bæði púkkað á milli með smágrjóti og skeljasandi. Að þessum uppgötvunum fengnum má ætla að Skjaldbreið, sem mannvirki, sé miklu mun eldri en áætlað hefur verið. Fulltrúi Fornleifaverndar ríkisins mætti á staðinn, en hann virtist „út á þekju“ líkt og jafnan þegar slíkir frá þeirri stofnun koma að fornum mannvirkjum Reykjanesskagans.

Hleðsla

Breidd nýja hússins verður 6.50 m. Lengdin er svipuð. Ætlunin er að koma ártalssteini, A° 1674, fyrir í suðurveggnum, en hann fannst fyrir nokkrum árum í fjörunni við Rásina neðan við Kálfatjörn eftir að leitað hafði verið að honum. Steinninn hafði verið hornsteinn í sjóbúð þar á sjávarkambinum, en sjórinn tekið húsið til sín. Steinninn fannst fyrir tilviljun.
Fróðlegt var að skoða handbragð hleðslumeistarans á seinni stigum veggsteinshleðslunnar í Skjaldbreið og bera hana saman við vegghleðsluna í Staðarborginni. Í fljótu bragði virtist handbragðið (hleðslulagið) vera það sama. Hafa ber í huga að jafnan hafa vanir hleðslumenn reynt að hlaða „lárétta“ eða „lagskipta“ veggi, þ.e. notað grjót svipað að þykkt líkt og sjá má í neðsta lagi suðurveggjarins í Skjaldbreið. Veggþykktin er þó hin sama á báðum stöðunum (um 65 cm) og vegghallinn einnig (um 5 cm). Því má ætla að hleðslumeistarinn hafi verið sá sami í báðum tilvikum eða að sá hinn sami hafi kynnt sér handbragðið á öðru hvoru staðnum áður en hófst handa. Ef hleðslumeistarinn hefur verið á Kálfatjörn á sama tíma og Skjaldbreið var hlaðin og þá, annað hvort á eftir eða á undan, hlaðið eða endurhlaðið Staðarborgina, má ætla að síðarnefna mannvirkið hafi verið reist um 1850. Líklega er það mjög raunhæft þegar tekið er tillit til hversu heilleg borgin er og lítt skófvaxinn. Neðstu umförin á austanverðri Skjaldbreið eru t.d. með svipuðum skófvexti og sjá má á austanverðri Staðarborginni.
Í lokin útskrifuðust nemendur af grjóthleðslunámskeiðinu, sem var MSS og vettvagnsstjórnendum til mikillar fyrirmyndar í alla staði.

Heimild m.a:
-khi.is/torf/2003/jada

Unnið

Magnús Ólafsson

Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Eftir að kristni var lögtekin var þarnar kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600, séra Eiríkur í Vogósum þjónaði Krýsuvíkur prestakalli (margar sögur fara af síra Eiríki í Vogósum og göldrum hans).

Krýsuvík

Krýsuvík.

Stóri Nýibær lagðist síðastur í eyði í Krýsuvík og var það árið 1938, en eftir það var ekki mannlaust þarna. Einn maður varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram með hinn einstöku íslensku seiglu. Þessi maður var Magnús Ólafsson.

Magnús Ólafsson var nauðugur sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895 (bærinn lagðist í eyði 1938). Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóinn gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík. Betur fór en á horfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ.

Magnús bjó í kirkjunni í Krýsuvik sem var úr timbri og óþétt, svo óþétt að skór hans frusu oft á köldum vetrarnóttum. Kirkjan var 22×14 fet og svo lág að ekki var manngengt undir bita. Ekkert tróð var í veggjum, gólfið sigið og gisið.

Spurður hvers vegna hann hafi ekki flutt til Hafnarfjarðar eftir að búskapur lagðist af á Nýjabæ svararði hann: “ Vinnan var stopul í Hafnarfirði og ég hafði meiri löngun til þess að hugsa um kindur heldur en að snapa eftir vinnu þar.“ Eitt sinn var Magnús spurður hvort ekki væri hann myrkfælinn á því að búa í kirkju og hafa kirkjugarð sem sinn næsta garð.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

„Myrkfælinn, – nei ég veit ekki hvað það er. Og óþarfi að óttast þá, sem hér liggja. Sumt af þessu hefur verið kunningjafólk mitt. Þeir gera engum manni mein, og ég hef aldrei orðið var við neina reimleika. Þeir dauðu liggja kyrrir.“

Magnús vann sem fjárhirðir hjá Árna sýslumanni og bjó í vestri enda bæjarins. Eftir að hann kvæntist Þóru Þorvarðardóttur, bjuggu þau bæði í vestri enda húsins ásamt öðru vinnufólki. Eftir að þau eignuðust börn, var þröngt í búi og bjuggu þau í Krýsuvík á Nýjabæ þar til elsta barnið var komið á skólaaldur og flutti þá frú Þóra Þorvarðardóttir til Hafnarfjarðar með börnin.

Magnús átti erfitt með að aðlagast bæjarlífinu í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík, þar sem hann dvaldi í 50 ár í og mestan hluta þeirra sem einbúi.

Þóra bjó með Magnúsi í vestri enda Nýjabæja ásamt öðru vinnufólki á bænum. Þegar elsta barn (Ólafur Magnússon) þeirra hjóna var komið á skólaaldur flutti Þóra búferlum til Hafnarfjarðar. Magnús unni sér hins vegar ekki í Hafnarfirði og flutti aftur í Krýsuvík. Þóra bjó eftir sem áður í Hafnarfirði og heimsótti hún ásamt börnum sínum Magnús í Krýsuvík. Hún var atorkusöm kona sem bjó við lítil efni, en kom börnum sínum í gegnum skólagöngu og til mennta með sóma.

Þóra var dugleg kona og nýtin, börn þeirra hjóna komust vel á legg og skorti ekki andlega næringu né líkamlega. Hún kenndi börnum sínum að njóta lífsins án þess að þurfa mikið af veraldlegum gæðum. Frú Þóra gat gert veislumat úr hverju sem var og var þakklát fyrir góða heilsu og þá reynslu sem að lífið gaf henni. Gestir voru ævinlega velkomnir og bauð frú Þóra ævinlega til borðs er gesti bar að garði þótt efni hafi verið lítil.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Sonur þeirra hjóna, sem er yngstur, Þorvarður Magnússon, varð húsasmiðameistari í Hafnarfirði og kvæntist Áslaugu Einarsdóttur klæðskeradóttur í Hafnarfirði.

Þorvarður Magnússon, sonur Magnúsar einbúans í Krýsuvík. Hann vinnur sem húsasmíðameistari í Hafnarfirði.

Þorvarður kveðst ekki hafa búið með foreldrum sínum á Nýjabæ enda yngstur systkina sinna sem komin voru á skólaaldur er hann fæddist. Hann heimsótti þó föður sinn í Krýsuvík þegar að hann bjó á bænum og einnig í kirkjunni. Þorvarður man ekki mikið frá Nýjabæ enda var hann kornungur þegar faðir hans bjó enn þar. Bærinn lagðist í eyði árið 1938 og var Þorvarður einunigs 11 ára gamall þá.

Hann heimsótti hins vegar föður sinn í kirkjuna í Krýsuvík og man eftir henni og hvernig faðir hans bjó. Einsetumaðurinn í Krýsuvík var því fjölskyldumaður þó svo að hann hafi kosið að búa fjarri mannabyggðum. Þorvarður man eftir fátæktinni sem var á þessum árum, atvinnuleysinu og hvað húsakostur var misjafn eftir efnum manna. Faðir hans var vinnumaður allt sitt líf og þekkti ekki annað.

Húsasmíðameistarinn í Hafnarfirði, Þorvarður Magnússon, segir frásögnina rétta sem er í bókinni „Landið er fagurt og frítt“, sem að var gefinn út árið 1944 og er rituð af Árna Óla og gefin út Bókafellsútgáfunni. Í bókinni er viðtal við einbúan í Krýsuvík.
Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://nemendur.khi.is/annaher/index.htm

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur.

Alfaraleiðin

„Byggðin í Hraununum var ekki aðeins við alfaraleiðina suður með sjó heldur í næsta nágrenni við mesta þéttbýli á landinu. Samt leið hún undir lok. Hér verður reynt að bregða ljósi á búskapinn í Hraununum og litið á einstakar jarðir. 

Hraunin-231

Þarna mætti lifa á fegurðinni, sagði hrifnæmur maður eftir gönguför á fallegum degi suður í Hraun. Þeim Hraunamönnum hefði þótt það skrýtin og fjarstæðukennd ályktun, enda hefði fegurðin ein verið létt í maga í þurrabúðum og kotum Hraunanna á liðnum öldum. Húsgangurinn fyrrnefndi, sem segir að Hraunamennirnir gapi og góni, það er að þeir hafi verið eitthvað slakari sjósóknarar en Garðhverfingar. En Hraunamenn voru seigir og það er í rauninni ótrúlegt hversu lengi ábúð hélzt á smákotum og hjáleigum í þessu plássi. Búskapurinn á Hraunajörðunum lognaðist að mestu útaf á kreppuárunum eftir 1930; þó var búið á Óttarsstöðum vestri til 1966, en kindabúskap var eitthvað haldið áfram eftir að fólkið á bæjunum var flutt í burtu.
Þegar ég leitaði upplýsinga um endalok búskapar á Hraunajörðunum virtist sem vitneskja um þessa byggð væri mjög á hverfanda hveli í Hafnarfirði, þar sem eðlilegast var þó að leita fyrir sér. Engir frægðarmenn höfðu brugðið ljóma á Hraunin og markverð afrek virðast ekki hafa verið unnin þar, önnur en þau að lifa af á smáum efnum og koma mörgum börnum til manns. Við þessa samantekt hef ég reynt að styðjast við minni ýmissa fullorðinna Hafnfirðinga, en flestum er þeim sameiginlegt að vita frekar takmarkað um þessa nágrannabyggð fortíðarinnar. Undantekning er Ragnheiður Guðmundsóttir, sem nú er 84 ára, skýr kona og skilmerkileg. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Óttarsstöðum vestri. Við þessa samantekt hefur ég einnig getað stuðzt við óútgefnar heimildir frá alnafna mínum, Gísla Sigurðssyni, lögregluþjóni í Hafnarfirði, sem var vandaður fræðimaður og óþreytandi skrásetjari. Allur sá fróðleikur er varðveittur í handritum í bókasafni Hafnarfjarðar sem veitti góðfúslega aðgang að þeim. Á þessum heimildum er hinsvegar sú gloppa að nafna mínum hefur ekki enzt aldur til að skrá hinar afdrifaríku breytingar á Hraunabæjunum þegar kemur fram á 20. öldina.

Lónakot
lonakot-232Eins og tekið var fram í fyrri hluta greinarinnar var byggðin í Hraununum að stærstum hluta í hnapp á graslendinu kringum Óttarsstaðabæina. Lónakot skar sig úr; bærinn stóð einn sér við ströndina, 2-3 km vestur frá Óttarsstöðum. Alfaraleið í Lónakot hefur að líkindum legið með ströndinni þar sem nú er merkt gönguleið. Annar stígur lá þangað sunnan að og verður síðar vikið að honum.
Bærinn stóð á fallegum stað uppi á hraunhóli sem hefur verið talsvert sprunginn og ekki stærri en svo að ofanverðu að bæjarhúsin hafa orðið að vera afar fyrirferðarlítil. Þetta undarlega bæjarstæði á sér þá líklegu skýringu, að 

Lónakotsbærinn hafi áður staðið lægra, en að mikið sjávarflóð eftir 1700 hafi eytt honum. Tóftirnar standa merkilega vel ennþá, enda hlaðnar úr úrvals hraungrjóti, en vitna um mikið þröngbýli á mælikvarða nútíðar. Þarna er fallegur útsýnisstaður og sést annars vegar vestur yfir fjöruna og malarkambinn upp af henni, svo og túnið sem nú er víða þakið rusli og rekaviðarsprekum, en mest er þar þó af lábörðum hnullungum úr fjörunni. Sá ágangur hefur ugglaust alltaf verið fyrir hendi, en þá hefur grjótið verið fjarlægt jafnóðum. Út yfir tók í flóði og stórsjó 1958; þá brast varnargarður og eftir það seig á ógæfuhliðina. Hinsvegar sést af bæjarhólnum austur yfir hraunin og lónin sem bærinn dregur nafn sitt af. Eitt þeirra, Suðurtjörnin, er alveg við bæjarhólinn og merkilegt er að brunnur bæjarins var niðurgrafinn í tjörnina. Annað lón er lengra inni í hrauninu, Þessi hraunalón, svo og Brunntjörnin hjá Straumi, sem er samskonar náttúrufyrirbæri, eru undursamlega falleg og í þeim er merkilegt lífríki segja náttúrufræðingar. Á lognkyrrum degi speglast hraunhólar í miklum fjölbreytileika í lónunum og gegnum spegilmyndina sést botninn langar leiðir.
Hraunin-241Lónin þarna og við Straum eiga sér þá skýringu, að undir öllu hrauninu og raunar undir mestöllum Reykjanesskaga mun vera jarðsjór á talsverðu dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn, sem er eðlisléttara og blandast mjög takmarkað jarðsjónum. í lónunum gætir sjávarfalla. Jarðvatnið hækkar þegar fellur að og sjávarstraumur flæðir inn undir hraunin. Þessvegna hækkar í lónunum á flóði, en vatnið er samt alltaf ferskt. Sum lón verða þurr á fjöru en geta orðið tveggja metra djúp á flóði, til dæmis Jónsbúðartjörn út með Straumsvíkinni.
Lónakot er nefnt eftir lónunum sem ná drjúgan spöl taldar svo sér á parti sem náttúrufyrirbæri að þær eiga ekki sinn líka, hvorki hér né erlendis.
Ég kom fyrst að Lónakoti 1975 og málaði þá mynd af því sem eftir var af bænum, en sú mynd virðist vera glötuð. Eina myndin sem til er af Lónakotsbænum er líklega sú sem hér birtist; málverk Jóhanns Björnssonar, sem því miður er ekki ársett. Bærinn á mynd Jóhanns var naumast þekkjanlegur fyrir aldarfjórðungi; járn að hluta fokið af þökum og sperrur brotna. Nú er ekkert eftir af yfirgerðinni; öll hefur hún eyðst og fokið burt. Vestar á túninu var fjárhús; einnig það er fallið niður og tóftin full af spýtnabraki. Austar og innar í hrauninu standa grjótgarðar, en ekki er ljóst hvort þar voru túnblettir, eða einungis gerði, sem voru algeng og til þess ætiuð áður en girðingar komu til sögunnar að halda fénaði heima við. Austur af bænum, innan túngarðs, er sérkennilega sprunginn hraunhóll sem heitir Krumfótur. Fyrrum lá stígur suður í Lónakotssel og var hluti af samgöngukerfi Hraunanna. Nú liggur vegarslóði, fær aldrifsbílum, austur úr túninu og þræðir milli hraunhóla 2-3 km leið unz komið er á Keflavíkurveginn, en þar er þessum slóða lokað með keðju. Þetta er samt ágæt gönguleið og þá er farið framhjá allstórri hlöðu og fjárhúsum. Kornelíus Jónsson, þekktur úra- og skartgripakaupmaður við Skólavörðustíg, hefur átt helming Lónakots síðan um 1950 og rekið þar fjárbúskap ásamt fjölskyldu sinni. Nú eru þar nokkrar ær og fáeinir hestar á fóðrum, en heyja er ekki hægt að afla í Lónakoti og verður að kaupa fóðrið. Á sumrin er ánum sleppt í hraunið, en Lónakotsland er eins og fleygur: breiðast neðst, en mjókkar inn eftir og endar í Mið-Krossstapa.
Hraunin-239Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, en eigandinn er „Kongl. Majestat“. Leiguliði kóngsins heitir Sigurður Oddleifsson og er eftirtektarvert, að landskuldin, xl álnir, skal greiðast í 8 kolatunnum heim til Bessastaða. Það eru sem sagt viðarkol sem Bessastaðavaldið heimtar í afgjald og fyrir utan alla vinnuna við kolagerðina má ætla að drjúgri spildu með kjarri hafi verið eytt árlega vegna þessa.
Þar kom að ábúandinn kvartaði um að skógurinn í Almenningi væri svo foreyddur, „að hann ei til treystist þar að safna kosti til landskuldargjaldsins.“ Þá var það gefið eftir að landskuldin mætti betalast með II vættum fiska, en leigur af leigukúgildum skyldu betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess fylgdu jörðinni kvaðir um mannslán til Bessastaða og skyldi bóndi fæða verkamanninn. Allt er þetta í samræmi við þá ánauð sem lögð var á leiguliða í næsta nágrenni Bessastaða og nefnir Jarðabókin fleira. Þar á meðal eru hríshestar „þegar kallaðir eru“, svo og „skipaferðir“. En manntalsárið 1703 eru sex manns í heimili í Lónakoti.
Um hlunnindi jarðarinnar segir í Jarðabókinni: „skógur hefur til forna verið, og er nú meira hrísríf, það brúkarjörðin til kolagjörðar og eldiviðar og stundum til að bjarga sauðpeningi í heyskorti.“ Bústofninn er 2 kýr, 2 kvígur, 21 ær, 5 sauðir, 7 lömb og 2 hross. Á heyfeng má fóðra 3 kýr, segir þar. Rekavon er sögð lítil, en sölvafjara er „hjálpleg fyrir heimamenn“, sömuleiðis hrognkelsafjara, en „heimræði má ekki kallast að sé hér, því lending er engin nema við voveiflega sjávarkletta…“ Hinsvegar fær ábúandi Lónakots að nota uppsátur á Óttarsstöðum þó það sé óþénugt. Engjar eru öngvar og ekki kemur það á óvart. Af virðingargerð um Lónakot 60 árum síðar, anno 1763, má ráða að kotið hafi heldur lasnast; þar séu bæjardyr með fornfálegu þili, en gat er fallið á göngin milli búrdyra og baðstofu. Veggir utan eru víða fallnir. Með sjónum er túngarður, mjögfallinn. „Þannig er Kongs-jörðin Lónakot af oss undirskrifuðum úttekin og álitin, eftir göfugs sýslumannsins befaling“, skrifa virðingarmennirnir Páll Þorleifsson og Guðmundur Ólafsson.

Straumur
straumur-232Af Hraunabæjunum er Straumur kunnastur og helgast einkum af því að glæsilegt timburhús í burstabæjarstíl hefur staðið þar í meira en hálfa öld og blasir við af Keflavikurveginum hjá Straumsvík. Þrátt fyrir álverið austan víkurinnar, aðeins snertuspöl frá, er Straumsvík með því fegurra í ríki náttúrunnar við Faxaflóa. Hún lætur samt ekki mikið yfir sér víkin sú arna; þar eru hvorki sjávarhamrar eða skriður í sjó fram né neitt það sem kalla má stórbrotið. Það er hin smágerða fegurð sem þarna á sitt konungsríki og hún er aldrei eins frá degi til dags og síbreytileg frá morgni til kvölds vegna þess að birtan ræður úrslitum um það hvernig hún nýtur sín, svo og munurinn á flóði og fjöru. Menn hafa að sönnu lítinn tíma til að gaumgæfa þetta á fullri ferð um Keflavíkurveginn, en það er meira en ómaksins virði að staldra við, leggja bílnum og ganga niður að víkinni þar sem húsin í Straumi speglast oft á lognkyrrum dögum og hraunið gengur í samband við vatnið. Það er ótrúlegt, en samt satt, að stórhuga menn höfðu einhverntíma í hyggju að gera uppfyllingu í víkina; eyða henni og byggja þar þilplötuverksmiðju.
Straumur-531Umhverfi Straums er þó ef til vill ævintýralegast við Brunntjörn, lítið eitt vestar, þar sem bröttum hraunhóli með fallegum hraunreipum snarhallar niður að vatninu og speglast í því á lygnum degi. Hafa lærðar ritgerðir verið skrifaðar um sérkennilegt lífríki í Brunntjörn, til að mynda dvergbleikju, sem ekki er til annars staðar en í lónunum þarna og virðist ganga milli þeirra, enda mikill vatnsgangur undir hrauninu. Dvergbleikjan er sérkennileg í útlití og ekki beint gáfuleg. En hún plumar sig við þessar aðstæður og segir svo í samantekt þriggja náttúrufræðinga sem birtist í Náttúrfræðingnum 1998: „Það að dvergbleikja skyldi finnast þar er eitt og sér markvert í ljósi þess hve fátítt þetta bleikjuafbrigði er í vatnakerfum landsins. Einnig kemur þar tál að lífshættir bleikjunnar á þessu svæði eru einstakir, því ekki er vitað til þess annars staðar að dvergbleikjur nýti sér í senn umhverfi ferskvatns og sjávar.“
Í tjörnunum við Straumsvík verður verulegur munur á vatnshæð eftir sjávarföllum eins og í lónunum við Lónakot. Á útfiri verður stríður straumur milli tjarnanna og kemur í ljós að lækir og jafnvel miðlungsstór á sprettur fram undan hrauninu. Sumpart gæti það verið Kaldá sem rennur á víð og dreif undir hraunin allar götur vestur í Straumsvík og sumpart neðanhraunsvötn með upptök sunnar við fjallgarðinn.
Straumur er stór jörð sem bezt sést af því að hún á land til móts við Krýsuvík. Austanmegin er land Þorbjarnarstaða, en land Óttarsstaða að vestan. Straumur hafði hinsvegar þann annmarka sem bújörð, að þar er nánast ekkert tún og heima við er varla hægt að tala um ræktanlegt land. Ekki lét Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni, það aftra sér frá því að hefja fjárbúskap í stórum stíl í Straumi þegar hann var skólastjóri í Hafnarfirði. Hann hefur ekki fundið kröftum sínum fullt viðnám við kennslu og skólastjórn svo kappsfullur og átakamikill sem hann var. Bjarni eignaðist Straum og hóf búskap þar 1918, þá ókvæntur. Fallegur burstabær sem fyrir var á jörðinni brann til kaldra kola 1926, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum, sem horfði á eldsvoðann. En Bjarni hefur ekki látið þetta áfall draga úr sér kjarkinn, heldur snúið sér að því á næsta ári að koma upp nýju húsi.
Með fullu starfi varð Bjarni að byggja búskapinn í Straumi á aðkeyptu vinnuafli og ólíklegt að nokkur maður hafi rekið stærra bú í Hraunum fyrr eða síðar. Ég hef fyrir því orð Þorkels sonar hans á Laugarvatni, að Bjarni hafi haft 400 fjár í Straumi, en Þorkell fæddist í Straumi 1929, sama ár og Bjarni flutti austur að Laugarvatni. Búskap hans í Straumi lauk þó ekki fyrr en 1930. Nærri má geta að mjög hefur verið treyst á vetrarbeit, en samt verður ekki hjá því komizt að eiga allverulegan heyfeng handa 400 fjár, ef jarðbönn verða. Þeirra heyja varð aðeins aflað að litlu leyti í Straumi og mun Bjarni hafa heyjað austur í Árnessýslu.
Alfaraleid-741Lítið eða ekki neitt sést nú eftir af fjárhúsunum, en eins og áður var vikið að, byggði Bjarni af verulegum stórhug hús í burstabæjarstíl, ólíkt þeim lágreistu byggingum sem fyrir voru á Hraunabæjunum. Húsið í Straumi stendur enn; það er staðarprýði og fellur ákaflega vel að umhverfinu.
Ekki kemur á óvart að höfundur hússins er Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríldsins, og hefur hann þá teiknað húsið um líkt leyti og Laugarvatnsskólann. Teikningin er til og merkt manni sem að líkindum hefur starfað hjá Guðjóni, en Þorkell Bjarnason á Laugarvatni segir, og hefur það eftir fóður sínum, að Guðjón sé arkitektinn. Það er einnig staðfest á minningarskildi sem upp var settur í Straumi. Ýmisskonar búskapur var um árabil í Straumi, þar á meðal svínabú. í meira en 20 ár bjó enginn í húsinu og það var að grotna niður, bæði að innan og utan. Sáu sumir þann kost vænstan að rífa húsið, en ekki varð þó af því og Hafnfirðingar sýndu þann metnað að vilja varðveita það.
Sett var á laggirnar menningarmiðstöð í Straumi með vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Sverrir Ólafsson myndhöggvari hefur frá upphafi verið forstöðumaður listamiðstöðvarinnar, auk þess sem hann hefur eigin vinnustofu í Straumi. Það kom í hans hlut að endurgera húsið að innan og utan með fulltingi Hafnarfjarðarbæjar og styrk frá Álverinu og einstaklingum.
Alfaraleid-921Hlöðunni hefur verið breytt í 150 fermetra sýningarsal eða vinnustofu sem fær birtu frá þrem kvistgluggum á framhliðinni. Þar fyrir aftan er stór vinnustofa með þakglugga og birtu eins og allir myndlistarmenn sækjast eftir. Á þeim áratug sem listamiðstöðin í Straumi hefur starfað hafa um 1000 listamenn dvalið í Straumi; fólk úr öllum listgreinum og frá 32 þjóðlöndum. Í þeim hópi eru rithöfundar, kvikmyndagerðar-menn, tónlistarfólk, arkitektar, hönnuðir, málarar, myndhöggvarar og leirlistafólk. Í íbúðarhúsinu eru íbúðir fyrir listamenn; þar geta búið 5 í einu. Mikil spurn er eftir vinnustofum í Straumi, sem menningarmálanefnd Hafnarfjarðar og forstöðumaðurinn ráðstafa, enda eru allskonar verkfæri látin í té.

Straumsland náði lítið eitt út með Straumsvíkinni að norðan en fyrst og fremst er það í hrauninu fyrir sunnan. Bæjarstæðið í Straumi var fyrr á tímum á sama stað, en túnin voru ekki annað en smáblettir og hefur líklega munað mest um Lambhúsgerði sem þekkist af hlöðnum grjótgarði lítið eitt vestan við Straum. Við bæinn var sjálft Straumstúnið, sem aðeins var smáskiki, og sunnan við Keflavíkurveginn var ein skák til viðbótar og grjótgarður í kring; þar hét Fagrivöllur.
Þar sem Keflavíkurvegurinn liggur fyrir botni Straumsvíkur stóð áður hjáleigan Péturskot og eru Péturskotsvör og Straumstjarnir þar niður af. Austan við Ósinn var býlið Litli-Lambhagi en sunnar, undir brún Kapelluhrauns, var hjáleigan Gerði. Þar er nú sumarbústaður.

Þorbjarnarstaðir
Thorbjarnarstadir-941Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hrauninu, vatnsból sem ekki hefur brugðist. Bærinn fór í eyði um 1930.

Þýzkubúð – þar sem þýzkir höndluðu

thyskabud-232

Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað. En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri.
Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.

Jónsbúð
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir þollar. Jónsbúðarvör er beint niður Hraunin-254af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við vörina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið. Grafnar voru í Jónsbúð prufuholur og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjarins nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból.
Jonsbud-541Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur verið á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið heilþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Frá fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá blessaðri skepnunni.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldri gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri.Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði, sem Stefán Rafn byggingameistari eignaðist og eiga hann og Eirfkur bróðir Thorolfs Smith fréttamanns heiðurinn af bænum eða sumarbústaðnum eins og hann er nú.

Óttarsstaðir eystri
ottarsstadir-232Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefið og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu fiska, þá guð gefur Sskinn afsjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn falla“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin.
ottarsstadir-233Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallinu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar.
Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt. Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.

Óttarsstaðir vestri
ottarsstadir-234Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og lfklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur.
Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af því að halda bænum í góðu horfi.
ottarsstadir-rett-stekkurVestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndilega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum.
En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör til að draga fisk úr sjó og eiga eitthvað í soðið. Og enginn horfir lengur út á flóann og hefur áhyggjur af því að Garðhverfingar séu rónir á undan Hraunamönnum eins og segir í húsganginum.
Fátt stendur eftir annað en náttúran í allri sinni dýrð og fegurðin. Þeir sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði virðast ekki gefa mikið fyrir þesskonar landkosti. Að minnsta kosti var búið að gera ráð fyrir því á aðalskipulagi frá 1997 að allt svæðið frá Straumsvík og vestur fyrir Óttarsstaði yrði gert að iðnaðar- og athafnasvæði í tengslum við nýja höfn. Síðar hefur því lítillega verið breytt; meðal annars vegna verndaðra fornminja á Óttarstöðum. Eftir stendur að megnið af svæðinu á að eyðileggja; nútíminn mun um síðir senda sínar jarðýtur á hraunið nema einhver hulinn verndarkraftur komi í veg fyrir það.“

Helstu heimildir:
-Óprentuð örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns í Hafnarfirði.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
-Hraunin við Straumsvík, Kynningarbæklingur um útivistarsvæði í Hraununum. Útg. af Umhverfis- og útivistarfélagi Hafnarfjarðar.
-Jónatan Garðarsson: útivistarperlan í Hraunum.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Jóhannes Sturiaugsson, Ingi Rúnar Jónsson,
-Stefán Eiríkur Stefánsson og Sigurður Guðjónsson: Dvergbleikja á mótum ferskvatns og sjávar.
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Arnar Ingólfsson: Lífríki í tjörnum við Straumsvík. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Munnlegar heimildir: Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. mars 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars 2000, bls. 4-6.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Trölli var sigraður í morgun (25. sept. 2011) eftir tveggja klst. göngu í svartaþoku í Brennisteinsfjöllum.
Trolli-21

Þokan var svo þykk á köflum að það var líkt og gengið væri á vegg. Hellirinn er í afurð Vörðufellsdyngjunnar. Með aðstoð vírstiga HERFÍS var loksins komist niður á botn (24 m dýpi). Niðri voru… a.m.k. þrjú rými, (hjarta, lungu og magi) misstór. Þetta er ekki eiginleg hraunrás heldur nokkurs konar svarthol. Það andar, en erfitt var að sjá hvernig… Gýmaldið hefur a.m.k. loksins verið sigrað (en snjór fyllir opið nánast allt árið).
Tilbakagangan gekk vel fyrir sig (1 og 1/2 klst).

Trölli

Í Trölla.