„Byggðin í Hraununum var ekki aðeins við alfaraleiðina suður með sjó heldur í næsta nágrenni við mesta þéttbýli á landinu. Samt leið hún undir lok. Hér verður reynt að bregða ljósi á búskapinn í Hraununum og litið á einstakar jarðir.
Þarna mætti lifa á fegurðinni, sagði hrifnæmur maður eftir gönguför á fallegum degi suður í Hraun. Þeim Hraunamönnum hefði þótt það skrýtin og fjarstæðukennd ályktun, enda hefði fegurðin ein verið létt í maga í þurrabúðum og kotum Hraunanna á liðnum öldum. Húsgangurinn fyrrnefndi, sem segir að Hraunamennirnir gapi og góni, það er að þeir hafi verið eitthvað slakari sjósóknarar en Garðhverfingar. En Hraunamenn voru seigir og það er í rauninni ótrúlegt hversu lengi ábúð hélzt á smákotum og hjáleigum í þessu plássi. Búskapurinn á Hraunajörðunum lognaðist að mestu útaf á kreppuárunum eftir 1930; þó var búið á Óttarsstöðum vestri til 1966, en kindabúskap var eitthvað haldið áfram eftir að fólkið á bæjunum var flutt í burtu.
Þegar ég leitaði upplýsinga um endalok búskapar á Hraunajörðunum virtist sem vitneskja um þessa byggð væri mjög á hverfanda hveli í Hafnarfirði, þar sem eðlilegast var þó að leita fyrir sér. Engir frægðarmenn höfðu brugðið ljóma á Hraunin og markverð afrek virðast ekki hafa verið unnin þar, önnur en þau að lifa af á smáum efnum og koma mörgum börnum til manns. Við þessa samantekt hef ég reynt að styðjast við minni ýmissa fullorðinna Hafnfirðinga, en flestum er þeim sameiginlegt að vita frekar takmarkað um þessa nágrannabyggð fortíðarinnar. Undantekning er Ragnheiður Guðmundsóttir, sem nú er 84 ára, skýr kona og skilmerkileg. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Óttarsstöðum vestri. Við þessa samantekt hefur ég einnig getað stuðzt við óútgefnar heimildir frá alnafna mínum, Gísla Sigurðssyni, lögregluþjóni í Hafnarfirði, sem var vandaður fræðimaður og óþreytandi skrásetjari. Allur sá fróðleikur er varðveittur í handritum í bókasafni Hafnarfjarðar sem veitti góðfúslega aðgang að þeim. Á þessum heimildum er hinsvegar sú gloppa að nafna mínum hefur ekki enzt aldur til að skrá hinar afdrifaríku breytingar á Hraunabæjunum þegar kemur fram á 20. öldina.
Lónakot
Eins og tekið var fram í fyrri hluta greinarinnar var byggðin í Hraununum að stærstum hluta í hnapp á graslendinu kringum Óttarsstaðabæina. Lónakot skar sig úr; bærinn stóð einn sér við ströndina, 2-3 km vestur frá Óttarsstöðum. Alfaraleið í Lónakot hefur að líkindum legið með ströndinni þar sem nú er merkt gönguleið. Annar stígur lá þangað sunnan að og verður síðar vikið að honum.
Bærinn stóð á fallegum stað uppi á hraunhóli sem hefur verið talsvert sprunginn og ekki stærri en svo að ofanverðu að bæjarhúsin hafa orðið að vera afar fyrirferðarlítil. Þetta undarlega bæjarstæði á sér þá líklegu skýringu, að
Lónakotsbærinn hafi áður staðið lægra, en að mikið sjávarflóð eftir 1700 hafi eytt honum. Tóftirnar standa merkilega vel ennþá, enda hlaðnar úr úrvals hraungrjóti, en vitna um mikið þröngbýli á mælikvarða nútíðar. Þarna er fallegur útsýnisstaður og sést annars vegar vestur yfir fjöruna og malarkambinn upp af henni, svo og túnið sem nú er víða þakið rusli og rekaviðarsprekum, en mest er þar þó af lábörðum hnullungum úr fjörunni. Sá ágangur hefur ugglaust alltaf verið fyrir hendi, en þá hefur grjótið verið fjarlægt jafnóðum. Út yfir tók í flóði og stórsjó 1958; þá brast varnargarður og eftir það seig á ógæfuhliðina. Hinsvegar sést af bæjarhólnum austur yfir hraunin og lónin sem bærinn dregur nafn sitt af. Eitt þeirra, Suðurtjörnin, er alveg við bæjarhólinn og merkilegt er að brunnur bæjarins var niðurgrafinn í tjörnina. Annað lón er lengra inni í hrauninu, Þessi hraunalón, svo og Brunntjörnin hjá Straumi, sem er samskonar náttúrufyrirbæri, eru undursamlega falleg og í þeim er merkilegt lífríki segja náttúrufræðingar. Á lognkyrrum degi speglast hraunhólar í miklum fjölbreytileika í lónunum og gegnum spegilmyndina sést botninn langar leiðir.
Lónin þarna og við Straum eiga sér þá skýringu, að undir öllu hrauninu og raunar undir mestöllum Reykjanesskaga mun vera jarðsjór á talsverðu dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn, sem er eðlisléttara og blandast mjög takmarkað jarðsjónum. í lónunum gætir sjávarfalla. Jarðvatnið hækkar þegar fellur að og sjávarstraumur flæðir inn undir hraunin. Þessvegna hækkar í lónunum á flóði, en vatnið er samt alltaf ferskt. Sum lón verða þurr á fjöru en geta orðið tveggja metra djúp á flóði, til dæmis Jónsbúðartjörn út með Straumsvíkinni.
Lónakot er nefnt eftir lónunum sem ná drjúgan spöl taldar svo sér á parti sem náttúrufyrirbæri að þær eiga ekki sinn líka, hvorki hér né erlendis.
Ég kom fyrst að Lónakoti 1975 og málaði þá mynd af því sem eftir var af bænum, en sú mynd virðist vera glötuð. Eina myndin sem til er af Lónakotsbænum er líklega sú sem hér birtist; málverk Jóhanns Björnssonar, sem því miður er ekki ársett. Bærinn á mynd Jóhanns var naumast þekkjanlegur fyrir aldarfjórðungi; járn að hluta fokið af þökum og sperrur brotna. Nú er ekkert eftir af yfirgerðinni; öll hefur hún eyðst og fokið burt. Vestar á túninu var fjárhús; einnig það er fallið niður og tóftin full af spýtnabraki. Austar og innar í hrauninu standa grjótgarðar, en ekki er ljóst hvort þar voru túnblettir, eða einungis gerði, sem voru algeng og til þess ætiuð áður en girðingar komu til sögunnar að halda fénaði heima við. Austur af bænum, innan túngarðs, er sérkennilega sprunginn hraunhóll sem heitir Krumfótur. Fyrrum lá stígur suður í Lónakotssel og var hluti af samgöngukerfi Hraunanna. Nú liggur vegarslóði, fær aldrifsbílum, austur úr túninu og þræðir milli hraunhóla 2-3 km leið unz komið er á Keflavíkurveginn, en þar er þessum slóða lokað með keðju. Þetta er samt ágæt gönguleið og þá er farið framhjá allstórri hlöðu og fjárhúsum. Kornelíus Jónsson, þekktur úra- og skartgripakaupmaður við Skólavörðustíg, hefur átt helming Lónakots síðan um 1950 og rekið þar fjárbúskap ásamt fjölskyldu sinni. Nú eru þar nokkrar ær og fáeinir hestar á fóðrum, en heyja er ekki hægt að afla í Lónakoti og verður að kaupa fóðrið. Á sumrin er ánum sleppt í hraunið, en Lónakotsland er eins og fleygur: breiðast neðst, en mjókkar inn eftir og endar í Mið-Krossstapa.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, en eigandinn er „Kongl. Majestat“. Leiguliði kóngsins heitir Sigurður Oddleifsson og er eftirtektarvert, að landskuldin, xl álnir, skal greiðast í 8 kolatunnum heim til Bessastaða. Það eru sem sagt viðarkol sem Bessastaðavaldið heimtar í afgjald og fyrir utan alla vinnuna við kolagerðina má ætla að drjúgri spildu með kjarri hafi verið eytt árlega vegna þessa.
Þar kom að ábúandinn kvartaði um að skógurinn í Almenningi væri svo foreyddur, „að hann ei til treystist þar að safna kosti til landskuldargjaldsins.“ Þá var það gefið eftir að landskuldin mætti betalast með II vættum fiska, en leigur af leigukúgildum skyldu betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess fylgdu jörðinni kvaðir um mannslán til Bessastaða og skyldi bóndi fæða verkamanninn. Allt er þetta í samræmi við þá ánauð sem lögð var á leiguliða í næsta nágrenni Bessastaða og nefnir Jarðabókin fleira. Þar á meðal eru hríshestar „þegar kallaðir eru“, svo og „skipaferðir“. En manntalsárið 1703 eru sex manns í heimili í Lónakoti.
Um hlunnindi jarðarinnar segir í Jarðabókinni: „skógur hefur til forna verið, og er nú meira hrísríf, það brúkarjörðin til kolagjörðar og eldiviðar og stundum til að bjarga sauðpeningi í heyskorti.“ Bústofninn er 2 kýr, 2 kvígur, 21 ær, 5 sauðir, 7 lömb og 2 hross. Á heyfeng má fóðra 3 kýr, segir þar. Rekavon er sögð lítil, en sölvafjara er „hjálpleg fyrir heimamenn“, sömuleiðis hrognkelsafjara, en „heimræði má ekki kallast að sé hér, því lending er engin nema við voveiflega sjávarkletta…“ Hinsvegar fær ábúandi Lónakots að nota uppsátur á Óttarsstöðum þó það sé óþénugt. Engjar eru öngvar og ekki kemur það á óvart. Af virðingargerð um Lónakot 60 árum síðar, anno 1763, má ráða að kotið hafi heldur lasnast; þar séu bæjardyr með fornfálegu þili, en gat er fallið á göngin milli búrdyra og baðstofu. Veggir utan eru víða fallnir. Með sjónum er túngarður, mjögfallinn. „Þannig er Kongs-jörðin Lónakot af oss undirskrifuðum úttekin og álitin, eftir göfugs sýslumannsins befaling“, skrifa virðingarmennirnir Páll Þorleifsson og Guðmundur Ólafsson.
Straumur
Af Hraunabæjunum er Straumur kunnastur og helgast einkum af því að glæsilegt timburhús í burstabæjarstíl hefur staðið þar í meira en hálfa öld og blasir við af Keflavikurveginum hjá Straumsvík. Þrátt fyrir álverið austan víkurinnar, aðeins snertuspöl frá, er Straumsvík með því fegurra í ríki náttúrunnar við Faxaflóa. Hún lætur samt ekki mikið yfir sér víkin sú arna; þar eru hvorki sjávarhamrar eða skriður í sjó fram né neitt það sem kalla má stórbrotið. Það er hin smágerða fegurð sem þarna á sitt konungsríki og hún er aldrei eins frá degi til dags og síbreytileg frá morgni til kvölds vegna þess að birtan ræður úrslitum um það hvernig hún nýtur sín, svo og munurinn á flóði og fjöru. Menn hafa að sönnu lítinn tíma til að gaumgæfa þetta á fullri ferð um Keflavíkurveginn, en það er meira en ómaksins virði að staldra við, leggja bílnum og ganga niður að víkinni þar sem húsin í Straumi speglast oft á lognkyrrum dögum og hraunið gengur í samband við vatnið. Það er ótrúlegt, en samt satt, að stórhuga menn höfðu einhverntíma í hyggju að gera uppfyllingu í víkina; eyða henni og byggja þar þilplötuverksmiðju.
Umhverfi Straums er þó ef til vill ævintýralegast við Brunntjörn, lítið eitt vestar, þar sem bröttum hraunhóli með fallegum hraunreipum snarhallar niður að vatninu og speglast í því á lygnum degi. Hafa lærðar ritgerðir verið skrifaðar um sérkennilegt lífríki í Brunntjörn, til að mynda dvergbleikju, sem ekki er til annars staðar en í lónunum þarna og virðist ganga milli þeirra, enda mikill vatnsgangur undir hrauninu. Dvergbleikjan er sérkennileg í útlití og ekki beint gáfuleg. En hún plumar sig við þessar aðstæður og segir svo í samantekt þriggja náttúrufræðinga sem birtist í Náttúrfræðingnum 1998: „Það að dvergbleikja skyldi finnast þar er eitt og sér markvert í ljósi þess hve fátítt þetta bleikjuafbrigði er í vatnakerfum landsins. Einnig kemur þar tál að lífshættir bleikjunnar á þessu svæði eru einstakir, því ekki er vitað til þess annars staðar að dvergbleikjur nýti sér í senn umhverfi ferskvatns og sjávar.“
Í tjörnunum við Straumsvík verður verulegur munur á vatnshæð eftir sjávarföllum eins og í lónunum við Lónakot. Á útfiri verður stríður straumur milli tjarnanna og kemur í ljós að lækir og jafnvel miðlungsstór á sprettur fram undan hrauninu. Sumpart gæti það verið Kaldá sem rennur á víð og dreif undir hraunin allar götur vestur í Straumsvík og sumpart neðanhraunsvötn með upptök sunnar við fjallgarðinn.
Straumur er stór jörð sem bezt sést af því að hún á land til móts við Krýsuvík. Austanmegin er land Þorbjarnarstaða, en land Óttarsstaða að vestan. Straumur hafði hinsvegar þann annmarka sem bújörð, að þar er nánast ekkert tún og heima við er varla hægt að tala um ræktanlegt land. Ekki lét Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni, það aftra sér frá því að hefja fjárbúskap í stórum stíl í Straumi þegar hann var skólastjóri í Hafnarfirði. Hann hefur ekki fundið kröftum sínum fullt viðnám við kennslu og skólastjórn svo kappsfullur og átakamikill sem hann var. Bjarni eignaðist Straum og hóf búskap þar 1918, þá ókvæntur. Fallegur burstabær sem fyrir var á jörðinni brann til kaldra kola 1926, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum, sem horfði á eldsvoðann. En Bjarni hefur ekki látið þetta áfall draga úr sér kjarkinn, heldur snúið sér að því á næsta ári að koma upp nýju húsi.
Með fullu starfi varð Bjarni að byggja búskapinn í Straumi á aðkeyptu vinnuafli og ólíklegt að nokkur maður hafi rekið stærra bú í Hraunum fyrr eða síðar. Ég hef fyrir því orð Þorkels sonar hans á Laugarvatni, að Bjarni hafi haft 400 fjár í Straumi, en Þorkell fæddist í Straumi 1929, sama ár og Bjarni flutti austur að Laugarvatni. Búskap hans í Straumi lauk þó ekki fyrr en 1930. Nærri má geta að mjög hefur verið treyst á vetrarbeit, en samt verður ekki hjá því komizt að eiga allverulegan heyfeng handa 400 fjár, ef jarðbönn verða. Þeirra heyja varð aðeins aflað að litlu leyti í Straumi og mun Bjarni hafa heyjað austur í Árnessýslu.
Lítið eða ekki neitt sést nú eftir af fjárhúsunum, en eins og áður var vikið að, byggði Bjarni af verulegum stórhug hús í burstabæjarstíl, ólíkt þeim lágreistu byggingum sem fyrir voru á Hraunabæjunum. Húsið í Straumi stendur enn; það er staðarprýði og fellur ákaflega vel að umhverfinu.
Ekki kemur á óvart að höfundur hússins er Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríldsins, og hefur hann þá teiknað húsið um líkt leyti og Laugarvatnsskólann. Teikningin er til og merkt manni sem að líkindum hefur starfað hjá Guðjóni, en Þorkell Bjarnason á Laugarvatni segir, og hefur það eftir fóður sínum, að Guðjón sé arkitektinn. Það er einnig staðfest á minningarskildi sem upp var settur í Straumi. Ýmisskonar búskapur var um árabil í Straumi, þar á meðal svínabú. í meira en 20 ár bjó enginn í húsinu og það var að grotna niður, bæði að innan og utan. Sáu sumir þann kost vænstan að rífa húsið, en ekki varð þó af því og Hafnfirðingar sýndu þann metnað að vilja varðveita það.
Sett var á laggirnar menningarmiðstöð í Straumi með vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Sverrir Ólafsson myndhöggvari hefur frá upphafi verið forstöðumaður listamiðstöðvarinnar, auk þess sem hann hefur eigin vinnustofu í Straumi. Það kom í hans hlut að endurgera húsið að innan og utan með fulltingi Hafnarfjarðarbæjar og styrk frá Álverinu og einstaklingum.
Hlöðunni hefur verið breytt í 150 fermetra sýningarsal eða vinnustofu sem fær birtu frá þrem kvistgluggum á framhliðinni. Þar fyrir aftan er stór vinnustofa með þakglugga og birtu eins og allir myndlistarmenn sækjast eftir. Á þeim áratug sem listamiðstöðin í Straumi hefur starfað hafa um 1000 listamenn dvalið í Straumi; fólk úr öllum listgreinum og frá 32 þjóðlöndum. Í þeim hópi eru rithöfundar, kvikmyndagerðar-menn, tónlistarfólk, arkitektar, hönnuðir, málarar, myndhöggvarar og leirlistafólk. Í íbúðarhúsinu eru íbúðir fyrir listamenn; þar geta búið 5 í einu. Mikil spurn er eftir vinnustofum í Straumi, sem menningarmálanefnd Hafnarfjarðar og forstöðumaðurinn ráðstafa, enda eru allskonar verkfæri látin í té.
Straumsland náði lítið eitt út með Straumsvíkinni að norðan en fyrst og fremst er það í hrauninu fyrir sunnan. Bæjarstæðið í Straumi var fyrr á tímum á sama stað, en túnin voru ekki annað en smáblettir og hefur líklega munað mest um Lambhúsgerði sem þekkist af hlöðnum grjótgarði lítið eitt vestan við Straum. Við bæinn var sjálft Straumstúnið, sem aðeins var smáskiki, og sunnan við Keflavíkurveginn var ein skák til viðbótar og grjótgarður í kring; þar hét Fagrivöllur.
Þar sem Keflavíkurvegurinn liggur fyrir botni Straumsvíkur stóð áður hjáleigan Péturskot og eru Péturskotsvör og Straumstjarnir þar niður af. Austan við Ósinn var býlið Litli-Lambhagi en sunnar, undir brún Kapelluhrauns, var hjáleigan Gerði. Þar er nú sumarbústaður.
Þorbjarnarstaðir
Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hrauninu, vatnsból sem ekki hefur brugðist. Bærinn fór í eyði um 1930.
Þýzkubúð – þar sem þýzkir höndluðu
Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað. En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins. Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri.
Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
Jónsbúð
Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir þollar. Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við vörina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið. Grafnar voru í Jónsbúð prufuholur og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjarins nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar. Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu. Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból.
Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur verið á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið heilþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Frá fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá blessaðri skepnunni.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldri gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri.Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin. Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði, sem Stefán Rafn byggingameistari eignaðist og eiga hann og Eirfkur bróðir Thorolfs Smith fréttamanns heiðurinn af bænum eða sumarbústaðnum eins og hann er nú.
Óttarsstaðir eystri
Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefið og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða. Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu fiska, þá guð gefur Sskinn afsjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn falla“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon. Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin.
Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallinu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar.
Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt. Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Óttarsstaðir vestri
Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og lfklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur.
Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndilega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum.
En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör til að draga fisk úr sjó og eiga eitthvað í soðið. Og enginn horfir lengur út á flóann og hefur áhyggjur af því að Garðhverfingar séu rónir á undan Hraunamönnum eins og segir í húsganginum.
Fátt stendur eftir annað en náttúran í allri sinni dýrð og fegurðin. Þeir sem fara með skipulagsmál í Hafnarfirði virðast ekki gefa mikið fyrir þesskonar landkosti. Að minnsta kosti var búið að gera ráð fyrir því á aðalskipulagi frá 1997 að allt svæðið frá Straumsvík og vestur fyrir Óttarsstaði yrði gert að iðnaðar- og athafnasvæði í tengslum við nýja höfn. Síðar hefur því lítillega verið breytt; meðal annars vegna verndaðra fornminja á Óttarstöðum. Eftir stendur að megnið af svæðinu á að eyðileggja; nútíminn mun um síðir senda sínar jarðýtur á hraunið nema einhver hulinn verndarkraftur komi í veg fyrir það.“
Helstu heimildir:
-Óprentuð örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar lögregluþjóns í Hafnarfirði.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
-Hraunin við Straumsvík, Kynningarbæklingur um útivistarsvæði í Hraununum. Útg. af Umhverfis- og útivistarfélagi Hafnarfjarðar.
-Jónatan Garðarsson: útivistarperlan í Hraunum.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Jóhannes Sturiaugsson, Ingi Rúnar Jónsson,
-Stefán Eiríkur Stefánsson og Sigurður Guðjónsson: Dvergbleikja á mótum ferskvatns og sjávar.
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Arnar Ingólfsson: Lífríki í tjörnum við Straumsvík. Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 3.-4. hefti, 1998.
-Munnlegar heimildir: Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 18. mars 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars 2000, bls. 4-6.
Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.