Einhverjum gæti þótt sveitarfélagsmerki Mosfellsbæjar tvírætt; tákn á annarri hlið ensks silfurpeningis frá 10. öld. Hvers vegna var ekki notað táknið á hinni hliðinni? Þessi spurning gæti þess vegna verið myndlíking margra annarra sambærilegra er vaknað gætu um sama efni – silfur Egils.
Mosfellsbær.
Í 88. kafla Egilssögu segir að „Egill Skalla-Grímsson varð maður gamall, en í elli hans gerðist hann þungfær, og glapnaði honum bæði heyrn og sýn. Hann gerðist og fótstirður. Egill var þá að Mosfelli með Grími og Þórdísi.
Það var einn dag, er Egill gekk úti með vegg og drap fæti [hrasaði] og féll. Konur nokkrar sáu það og hlógu að og mæltu: „Farinn [þrotinn að kröftum] ertu nú Egill, með öllu, er þú fellur einn saman.“
Egill varð með öllu sjónlaus. Það var einhvern dag, er veður var kalt um veturinn, að Egill fór til elds að verma sig. Matseljan ræddi um, að það var undur mikið, slíkur maður sem Egill hafði verið, að hann skyldi liggja fyrir fótum þeim, svo að þær mætti eigi vinna verk sín.
Það var enn eitt sinn, er Egill gekk til elds að verma sig, þá spurði maður hann, hvort honum væri kalt á fótum, og bað hann eigi rétta of nær eldinum.
Það var um sumarið, er menn bjuggust til þingas, þá beiddi Egill Grím að ríða til þings með honum. Grímur tók því seinlega [dræmt]. Og er þau Grímur og Þórdís töluðust við, þá sagði Grímur henni, hvers Egill hafði beitt. „Vil ég, að þú forvitnist, hvað undir mun búa bæn þessari.“
Þórdís gekk til máls við Egil, frænda sinn. Var þá mest gaman Egils að ræða við hana. Og er hún hitti hann, þá spurði hún: „Er það satt, frændi, er [að] þú vilt til þings ríða? Vildi ég, að þú segðir mér, hvað væri í ráðagerð þinni.“
„Ég skal segja þér,“ kvað hann, „hvað ég hefi hugsað. Ég ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvor tveggja er full af ensku silfri. Ætla ég að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast. Síðan ætla ég að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli. Ætla ég, að þar myndi vera þá hrundingur [ryskingar] eða pústrar [löðrungar] eða bærist að um síðir [kæmi til þess að lokum] að allur þingheimurinn berðist.“
Þórdís segir: „Þetta þykir mér þjóðráð, og mun uppi, meðan landið er byggt.“
Síðan gekk Þórdís til tals við Grím og sagði honum ráðagerð Egils.
„Það skal aldrei verða, að hann komi þessu fram, svo miklum firnum.“
Og er Egill kom á ræður við Grím um þingferðina, þá taldi Grímur það allt af, og sat Egill heima um þingið. Eigi líkaði honum það vel. Var hann heldur ófrýnn.
Að Mosfelli var höfð selför [haft í seli] og var Þórdís í seli um þingið. Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo, er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest – „vil ég fara til laugar.“ Og er Egill var búinn, gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór síðan ofan eftir túninu fyrir brekku þá, er þar verður, er menn sú síðast.
En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafði fólgið fé sitt.
Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli, en það hefir orðið þar til að merkja [vísbendingar], að í bráðaþeyjum [asahláku] er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundizt í gilinu enskir peningar. [Skv. þessu hefur þegar verið farið að finnast af silfri Egils fyrir miðja 13. öld. Heimild er til frá öndverðri 18. öld um, að enskir silfurpeningar hafi fundist hjá Mosfelli eftir vatnavexti. Virðist áletrun þeirra hafa bent til Ólafs Skotakonungs. Sjá Kristján Eldjárn: Gengið á reka, Akureyri 1948, bls. 96-196]. Geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið. Fyrir neðan tún að Mosfelli eru fen stór og furðulega djúp. Hafa það margir fyrir satt, að Egill muni þar hafa kastað í fé sínu. Fyrir sunnan ána eru laugar og þar skammt frá jarðholur stórar, og geta þess sumir, að Egill mundi þar hafa fólgið fé sitt, því að þangað er oftlega sénn [séður] haugaeldur. Egill sagði, að hann hefði drepið þræla Gríms, og svo það, að hann hafði fé sitt fólgið, en það sagði hann engum manni, hvar hann hefði fólgið.
Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana. En er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann fytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug, og var Egill þar í lagður og vopn hans og klæði.“
Í 89. kafla sögunnar segir að „Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi. Hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdísi hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jarðtegna að síðan er kirkja var ger að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein. Þau voru miklu meiri en annrarra manna bein. Þykjast menn vita að sögn gamalla manna, að mundi verið hafa bein Egils.
Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson [var uppi á fyrri hluta 12. aldar], vitur maður. Hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn. Var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti meir frá líkindum [með meiri ólíkindum], hve þungur var. Hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins. Tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum [skalli á öxi] á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði [dældaðist] né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur [auðskemmdur] fyrir höggum smámennis, meðan svörður [hársvörður] og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.“
Faðir Egils, Skallagrímur Kveldúlfsson, var norskur. Hann kom til Íslands nokkru fyrir aldamótin 900. Skallagrímur fæddist árið 863 og ólst upp á bæ föður síns og Salbjargar, konu hans, í Firðafylki í Noregi. Átti Skallagrímur einn bróður, Þórólf, sem er talinn vera 5 árum eldri.
Skallagrímur var ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill og skáld. Eiginlega hét hann bara Grímur en þegar hann var hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt. Undir nafninu Skalla-Grímur er hann þekktastur. Þau eignuðust synina Þórólf (f. 900) og Egil (f. 910) en á milli þeirra eru dæturnar Sæunn og Þórunn. Auk þess átti Egill eina fóstursystur, Ásgerði.
Á fyrstu uppvaxtarárum Egils kemur það strax í ljós að honum muni svipa mikið til föður síns, þ.e. verða mjög ljótur, svartur á hár, dökkur yfirlitum en mjög öflugur að vígi og geysilega sterkur. En annað var með bróður hans sem var mjög myndarlegur og mikill „glansgæi“ og allstaðar velkominn. Snemma kemur upp öfund Egils í garð Þórólfs.
Þegar Egill er 17 ára fer hann í sína fyrstu utanferð með Þórólfi, bróður sínum, eftir þónokkrar erjur við bróður sinn og föður. Egill og Þórólfur verða mjög nánir á ferðalögum sínum og tekst með þeim mikill bróðurkærleikur. Það verður honum því mikill missir þegar Þórólfur deyr í fyrrnefndri orrustu Aðalsteins konungs við smákonunga á Bretlandi.
Í Egilssögu er sagt frá því, er að framan greinir, að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990.
Til eru ýmsar kenningar um fyrirkomleika silfursjóðs Egils. Telja verður ólíklegt að Egill hafi leikið sér að því að koma honum fyrir á stað, sem hann hefði ekki getað nálgast hann aftur, s.s. í heitri laug eða hyldjúpu dýi. Þá er gilið líklegri staður, enda hafa þar fundist enskir silfurpeningar eftir leysingar.
Annar möguleiki er sá að þrælarnir, væntanlega fullfrískir og burðarlegir, hafi einfaldlega látið sig hverfa með kisturnar tvær, enda Egill þá aldraður bæði orðinn sjóndapur og fótafúinn. Eflaust hefur þrælanna verið leitað, enda gætu þeir verið vísbending um felustaðinn, en hvergi er getið um að leifar þeirra hefðu fundist. Ólíklegt má telja að gamli maðurinn, heilsulaus og verkfæralaus, hafi haft tök á því að dysja þá eða hylja svo gjörsamlega.
Líkleg skýring á ástæðu þess að Egill hafi viljað grafa sjóð sinn er sú að eigandinn hafi trúað því að ef sjóðinum yrði komið í jörðina fyrir dauða sinn myndu fjármunirnir nýtast honum í öðru lífi. Einnig gæti skýringin verið sú að honum hafi sárnað skyndilega og því ekki viljað að þau sem ollu því fengju að njóta verðmætanna. Fleiri skýringar koma og til greina.
Bjarki Bjarnason í Mosfellsdal segir þetta vera flókið mál sem hann hafi hugsað mikið um. „Fyrsta spurningin er: Hvar stóð Mosfellsbærinn á dögum Eglis? Stóð hann þar sem Hrísbrú er núna? Þar hafa fundist leifar af kirkju. Gilið næst Hrísbrú hefur verið kallað Bæjargil, gilið hjá kirkjunni heitir Kirkjugil en gilið vestan við mig heitir Kýrgil.“
Í bókinni „Gengið á reka“ – tólf fornleifaþættir, eftir Kristján Eldjárn er einn þátturinn um „Kistur Aðalsteins konungs. Þar segir að „tveir íslenskir bóndasynir, Þórólfur Skallagrímsson frá Bogr og Egill bróðir hans, þá um það bil 27 ára að aldri“, hafi verið með „Aðalsteini Játvarðssyni Englakonungi er hann háði stórorustu sína við Ólaf kvaran Sigtryggsson og bandamenn hans við Brunnanburg eða Vínheiði, eins og sá staður er kallaður í Egils sögu“. Þórólfur féll í orustunni. Þetta gerðist árið 937. [Fimm skoskir konungar í blóma lífsins og sjö jarlar lágu í valnum. Aðalsteinn, eða Athelstan of Wessex, innleiddi Northumbria í ríki sitt og stýrði sameinuðu Englandi til dauðadags 27. október 939, eða tveimur árum eftir atburðina á Vínheiði.]
„Aðalsteinn efni til mikillar veislu eftir sigurinn á Vínheiði.“ Egill settist þar niður, brúnaþungur mjög. Konungur „tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu í bug hringnum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti…
Eftir það lét konungur bera inn kistur tvær; báru tveir menn hvora; voru báðar fullar af silfri. Konungur mælti: „Kistur þessar, Egill, skaltu hafa, og ef þú kemur til Íslands, skaltu færa þetta fé föður þínum; í sonargjöld sendi ég honum; en sumu fé skaltu skipta með frændum ykkar Þórólfs, þeim er þér þykja ágætastir“.
„Á þennan hátt komust silfurkistur Aðalsteins konungs til Íslands. En það var Egill, sem tók silfrið undir sig einan og sýndi aldrei neinn lit á að skipta því, hvorki við föður sinn né aðra menn. ekki kallaði Skallagrímur heldur eftir fénu, fyrr en hann fann feigð á sér og fór að hugsa til að grafa fémuni sína í jörðu, en þann sið virðast Mýramenn hafa haft, rétt eins og menn gera erfðaskrá sína nú á dögum. Ekki vildi Egill lausar láta kisturnar, enda var Skallagrímur ekki blankari en svo, að kvöldið fyrir dauða sinn gat hann lagt inn í Krumskeldu kistu vel mikla og eirketil, hvort tveggja fullt af silfri.“
Egill „mun vera fégjarnasta skáld, sem uppi hefur verið á Íslandi, og mundu hafa orðið illt verk að deila við hann skáldastyrk, ef sú hefði verið öldin á hans dögum. Í sögu hans eru raktar fjáröflunarferðir hans víða um lönd, enda varð hann stórauðugur…
En ást þá, er Egill hafði haft á Þórólfi, lagði hann að nokkru leyti á silfurkisturnar, bróðurgjöldin. Þeirra gætti hann með afbrýðissemi og tortryggni og hafði jafnan með sér á ferðum sínum. Er engu líkara en hann hafi snemma ætlað sér eitthvað sérstakt með þetta silfur, að það skyldi koma eftirminnilega við sögu hans, lífs og liðins. Það voru þessir peningar, sem hann ætlaði að sá um Þingvöll í þeirri von, að þar mundu verða hrindingar eða pústrar eða jafnvel að allur þingheimur berðist.“ [Einnig gæti Egill hafa viljað varðveita sjóðin til minningar um atburðina á Vínheiði sem og samvista hans við Aðalstein Englakonung, sem dó einungis tveimur árum eftir að hann gaf frá sér sjóðinn].
Frásögnin um hvað varð um silfur Egils „sýnir, að fólki í Mosfellssveit hefur snemma orðið skrafdrjúgt um silfur Egils og jafnvel gert skipulegar tilraunir til að finna það. Mikið má það vera, ef sá hefur verið margur þar í sveit, er saklaus sé af því að hafa einhvern tíma dreymt stóra drauma um að finna þetta silfur, enda þóttust menn sjá loga upp af því fram á 19. öld. Og munnmæli herma, að ekki hafi allir verið jafnóheppnir, eins og eftirfarandi saga sýnir: „Þverárkot heitir bær einn í Mosfellssókn. hann stendur norðanvert við Leirvogsá, á bak við Mosfell austanhallt, sunnan undir Esjunni, skammt vestar en Svínaskarð er. Einn góðan veðurdag um vorið fór Þverárkotsbóndinn og fólk hans til kirkju að Mosfelli. En kirkjuvegur frá Þverárholti liggur um austanhallann á Mosfelli og yfir Kýrgil ofarlega. Þegar að gilinu kom, veik bóndi sér lítið eitt upp með því til að gegna nauðsynjum sínum, en fólkið hélt áfram götuna. Þegar bóndi náði því, varð vinnumaður hans þess var, að hann var moldugur á handleggnum, og spurði, hví svo væri. Bóndi svaraði fáu og vildi ekkert um það tala: féll þetta svo niður. Heim varð bóndi samferða fólki sínu og gekk til rekkju um kvöldið eins og aðrir. En um nóttina á hann að hafa leynzt einsamall frá bænum og komið afur með morgninum. Segja menn, að hann hafi fundið peningana í kirkjuferðinni, en sótt þá og komið þeim undan um nóttina. Átti bóndi þessi síðan að hafa skipt silfri þessu við Jón Ólafsson ríka í Síðumúla fyrir gjaldgenga peninga. Er sagt, að bóndi hafi á fám árum orðið ríkur í Þverárkoti, og á því er peningafundurinn helzt byggður.“
Þessi saga er í venjumegum þjóðsagnarstíl, og skal ekki fjölyrða um hana. En hún sýnir, hvert hugurinn stefndi. Séra Magnús Grímsson, þjóðsagnasafnarinn, sem prestur var að Mosfelli 1855-60, hafði hins vegar fræðimannlegan áhuga á þessu efni og hugsaði mikið um, hvar Egill hefði fólkið fé sitt…
Hér skal sagt frá smáatviki, sem styður fastlega allt í senn, að Egill hafi átt enskt silfur, að hann hafi grafið það í jörð á Mosfelli og að eitthvað af þessu silfri kunni að hafa fundizt þar í gili.
Ritari Árna Magnússonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, hefur látið eftir sig rit um fornleifar, og þar er að finna eftirfarandi frásögn um silfrið á Mosfelli: „Erlendur sýslumaður, bróðir minn, þá hann var ungur þénari Erlendar Magnússonar, skólameistara í Skálholti, hefur sagt mér, að hér um annó 1725 hafi í vatnavöxtum spýtt fram nokkrum þeim silfurpeningum svo fundizt hafi hé rum þrír, og hafi hann á nefndum tíma séð einn þeirra að vísu. Sagði hann peningur sá hefði verið á stærð sem tískildingur heill vorra tíma og hefði staðið á honum nokkuð krasslegt og ómerkilegt letur, kannske ANSLAFR eða þvílíkt með fleiri bókstöfum“. Þessir peningar, sem um er að ræða, fundust á Mosfelli og voru taldir vera úr kistum Egils. Jóni hefur þótt fundurinn merkilegur, því að hann getur hans einnig í öðru riti.
Peningur sá, er hér um ræðir, hefur verið sleginn fyrir Ólaf kvaran Sigtryggsson, líklega árið 937, árið sem Egill barðist á Vínheiði. Sigtryggur faðir hans hafði verið konungur í Dyflinni á Íralndi, en flúið þaðan árið 920. Hann dó árið 926 eða 927. Ólafur flýði til Írlands eftir ósigurinn fyrir Aðalsteini, eins og fyrr segir. Hann var óþreytandi að gera peninga. Jafnskjótt og hann hafðináð einhverjum lítils háttar völdum, lét hann myntara taka til peningagerðar. Fundist hafa á Bretlandseyjum margir silfurpeningar hans, er hann lét slá á Englandi, og bera þeir þrenns konar áletranir, sem hver samsvarar séstöku tímabili ís tjórn hans. Á hinum elztu stendur ANLAF CVNVNC, en hinum yngri ANLAF REX (TIUS) B(RITANNAIAE), þ.e. Ólafur konungur alls Bretlands, og ONLAF REX. Telst myntfræðingum svo til, að seinasta gerðin muni vera frá ca. 948-52, önnur frá 941-44, en hin elzta, sem ber norræna nafnið cvnvnc, þ.e. konungur, frá þeim örskamma tíma, er Ólafur sat í Jórvík fyrir orsutuna við Brunanburg 937, ellegar 926 eða 027, ef nokkur fótur væri því, að hann tæki Jórvík þá. Þó hallast enskir myntfræðingar yfirleitt að því, að peningarnir með ANLAF CVNVNC séu slegnir í Jórvík 937.
Líkindin eru svo mikil, að jafngildir fullri sönnun. Á 18. öld var myntsaga víkinganna á Englandi lítt sem ekki kunn, og hvorki Jón Grunnvíkingur né nokkur annar Íslendingur gat þá haft hugmynd um, að Ólafur kvaran hefði látið slá mynt á Rngalndi, og enn síður vissu þeir, að Ólafs nafn var Anlaf fyrir vestan haf, og loks gat þeim ekki komið til hugar að blanda Ólafi kvaran í þetta mál, því að þeir vissu ekki, að Ólafur rauði Skotakonungur, sem sagan kallar svo, væri í rauninni Ólafur kvaran… Það var handhægt fyrir Aðalstein að greiða Agli bróðurgjöldin með þessu nýfengna, hertekna silfri. Að líkindum hefur konungi verið Ólafssilfrið útfalara en silfur það, sem slegið var fyrir sjálfan hann, lögmæt ríkismynt með nafni hans. Ef til vill hefur höfðingsskapur hans gagnvart hinum erlenda sveitamanni ekki verið eins heiður og kistustærðin benti til.
Mörgum mun eflaust sýnast, að Ólafspeningurinn frá Mosfelli sanni, að sagan um silfurkistur Aðalsteins konungs og Egil Skallagrímsson sé sönn, hafi gerzt í raun og veru, eins og sagan segir.
Mörgum hefur ekki auðnazt að komast til meiri þroska en það, að þeim finnst sagan önnur og ómerkari, ef hún er skki sönn. Og þeim er vorkunn.“
Allt frá bernsku var Egill mikill ofsamaður. Hann vildi ekki láta segja sér fyrir verkum eins og kemur mjög vel fram þegar Skalla-Grímur, faðir Egils, drap ambáttina Brák, sem var í uppáhaldi hjá Agli. Egill tók þessu afar illa og gekk svo langt að drepa besta vin föður síns, sem jafnframt var húskarl hans.
Snemma koma skáldeiginleikar Egils í ljós og ljóðin og braghendingar hans voru eitt helsta tæki hans til tjáningar. Hvor Egill hafi verið tilfinningaskertur eða ekki verður seint eða aldrei vitað. Vísir að tilfinningum í garð kvenna kom ekki í ljós fyrr en Egill var kominn á þrítugsaldurinn. Þá giftist Þórólfur, bróðir Egils, Ásgerði, sem Egill hafði þekkt í fjölda ára og var mjög hrifinn af.
Egill var berserkur sem þýðir að hann komst í trylltan bardagaham þegar mest á reyndi. Þessi karlmannlegi eiginleiki Egils fylgir honum allt til dauðadags og er hann einmitt einna frægastur fyrir líkamlegt atgervi sitt, sem og bragsnilli sína.
Sem gott dæmi um hversu mikill víkingur hann var er að hann taldi víkingaferð ekki vel heppnaða nema hann næði í fúlgu fjár og dræpi sem flesta.
Það einkennir persónu Egils alla hans ævi hversu fégráðugur og lítt gjafmildur hann er. Hann reynir ávallt af fremsta megni að krækja í þá aura sem hann mögulega getur náð í, hvort sem hann eignast þá á heiðarlegan hátt eða með drápum og svikum.
Í 88. kafla Egils sögu segir að „En um morguninn, er menn risu upp, þá sáu þeir, að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn; fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.
En hvorki kom aftur síðan þrælarnir né kisturnar, og eru þar margar gátur á, hvar Egill hafi fólgið fé sitt. Fyrir austan garð að Mosfelli gengur gil ofan úr fjalli; en það hefir orðið þar til merkja, að í bráðaþeyjum er þar vatnfall mikið, en eftir það er vötnin hafa fram fallið, hafa fundist í gilinu enskir peningar; geta sumir menn þess, að Egill muni þar féð hafa fólgið.“
Gilið „austan garðs að Mosfelli“ er Kýrgilið. Það ku geta leikið illum látum í leysingum. Það er því eðlilegt að athygli fólks, sem leitar silfur Egils, beinist þangað. En það að Egill „hvarflaði á holtinu fyrir austan garð“ segir ekkert um að hann hafi falið sjóð sinn í gilinu. Þar er um hreina ágiskun manna að ræða. Peningafundir í „gilinu“ hafa ýtt undir hana.
Ljóst má vera að Egill hefur falið silfurkistur sínar. Ef þrælarnir hefðu stungið af með þær hefði það haft sögulegan eftirmála, líkt og varð með þræla Hjörleifs. Egill hefur líklegast komið þeim fyrir, a.m.k. tímabundið, innan seilingar frá Hrísbrú. Svo kærkominn var honum sjóðurinn og svo vandlega hafði hann gætt hans að hann hefur áreiðanlega ekki viljað gefa hann frá sér með öllu. Egill þekkti gilin og vissi hvernig þau létu.
Gilin í sunnanverðu Mosfelli eru sárindi bólstrabergs og móbergs. Barmar þeirra eru smámulningur bólstra- og brotabergs. Fallegar klettamyndanir eru í þeim, en fáir aðgengilegir felustaðir. Ofan giljanna er berangur og melar. Í efstu hlíðum eru mosar og stærra grjót á köflum.
Grónasta gilið er Kýrgil. Fallegir hvammar og gróningar eru með því svo til upp á fjallsenda. Á austurbarmi þess mótar fyrir a.m.k. tveimur litlum tóftum eða öðrum torráðnum mannvirkjum. Auðvelt er að fara með hest upp með gilinu, allt til enda.
FERLIR hefur kannað aðstæður á og við Mosfell. Til að ganga úr skugga um og kanna einn líklegasta staðinn nálægt Mosfelli verður ekki hjá því komist að halda inn í umrætt gil – og þá enn lengra upp með því.
Heimild:
-Egilssaga – Skálholt 1967, bls. 349-354.
-Kristján Eldjárn – Gengið á reka – Kistur Aðalsteins konungs – 1948, bls. 97 – 106.
-http://www.fva.is/harpa/forn/egils/person/aevi.html
-Mbl.is – 22. nóvember 2000 – Tilvísun í silfur Egils.