Magnús Jónsson, bókavörður, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1966, „Við veginn„. Þar fjallar hann um leiðina fyrrum milli Hafnarfjarðar áleiðis út á Suðurnes. Greinin endar við Gvendarbrunn. Framhaldsgrein skrifaði hann svo í sama blað árið 1968. Sú grein lýsir leiðinni áfram að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hér verður drepið niður í þessar greinar:
„Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnngt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.
Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötun af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá.
Þegar halda skyldi t.d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús – nánast þar sem nú er Strandgata 21 – var æði stutt bilið milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfell möl, allt að Hamrinum syðri. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallan í átt til sjávar. Fljótlega hallaði undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.
Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m.a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna.
Nokkurn veginn sézt hvar lestarvegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel.
Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, – lá þar upp fyrir hann.
Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum.
Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku.
Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn – reiðgötuna, – nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti – steypi – er fáa metra neðan við.
Í Hraunum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður.
Er nú Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýskubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfi vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m.a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.
Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við erum nú komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði er rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga. Hér hefur Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftri að hafa vígt vatnslind þessa, öld[n]um og óbornum til blessunar.“
Hér lauk fyrri greininni og sú seinni tók við:
„Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.“
Í Lónakoti var búið langt fram á þessa öld, og áður var þar oft tvíbýli. Þá hefur verið treyst á sjófangið.
Nú mun Lónakot vera í Hafnarfjarðarlandi, en ekki í Garðahreppi. Við komum því úr Hafnarfjarðarlandi í Vatnsleysustrandarhrepp, um leið og farið er úr Lónakotslandi í Hvassahraunsland.
Ekki er nærri strax úr Almenningi komið, þó að Hafnarfjarðarland sé kvatt. Akvegirnir liggja samhliða hægra megin við ávala klettabungu sem Skyggnir heitir, og þar tekur við aflíðandi halli niður að býlinu Hvassahrauni. Þar var jafnan fleirbýli áður fyrr, og byggð hélzt þar lengur en í Lónakoti. Það hefur líka þann mikla kost að vera alveg við akveginn. En einn ókostanna er sá, að túnið er á hinu ójafna hrauni, og því seinunnið.
Nú mun enginn búskapur vera í Hvassahrauni, en margir sumarbústaðir eru í grendinni.
Fáir leggja leið sína 20-30 mínútna gang þvert úr þjóðleið hér, upp í hraun og heiðardrög. Þar er grænn gróðurblettur, ekki ósvipaður þeim við Gvendarbrunn. En ær renna ekki lengur á stöðul á björtum vorkvöldum, né að fjármaðurinn flytji daglega saðsaman mólkurmat úr selinu.
Selráðskonuna hittum við ekki. Já, selráðskonuna, oft heimasætuna ungu, hverrar húsmæðraskóli seljalífið var, fyrir önn ævidagsins. Sú síðasta, sem þennan starfa hafði í Hvassahrauni, mun þó hafa lifað fram á þriðja tug þessarar aldar, Ingibjörg Pálsdóttir. Hún og síðan dóttir hennar, bjuggu í Hvassahrauni allan sinn búskap.
En við skulum aftur halda að þjóðleiðinni til Suðurnesja. Áður, eða svo að segja um leið og Almenningnum sleppir, erum við í Látrunum. Það eru grasgeirar sem eru undir sjó um stórstraum og fyrir vit okkar ber lykt af rotnandi þara. Loks erum við komin út úr Almenningum og tekur þá við á stuttum kafla hraun, sem Afstapahraun heitir. Það minnir mikið á Kapelluhraun, mosagróið, úfið og ungt, af hrauni að vera. Reyndar er til lítils að benda ökumanni um Keflavíkurveginn á líka gerð þessara hrauna, eftir þá breytingu sem hefur átt sér stað í því síðarnefnda.
Elzta veginn er auðvelt að sjá í Afstapahrauni, hlykkjóttan, grasi gróinn umhverfis. Sunnan til á leiðinni um Afstapahraun er Kúagerði – tærar ferskvatnsvætlur með gróðri umhverfis. Breitt belti þessa gróðurreits er þó horfið undir veginn. Sunnar – svo að málvenjan um áttir á þessum slóðum sé haldið – er Akurgerði. Það eru þyrrkingslegar grasflatir, takmarkaðar að norðan af allháum sjávarkambi. Líta má á Hraunsnesið sem lágan arma þríhyrning, þar sem annað grunnhornið er Straumsvík, en hitt hér.
Í Akurgerði var einu sinni býli, en löngu var það fyrir tíð þeirra sem nú lifa. Ekki er heldur á margra vitorði að þarna voru sýndar einskonar heræfingar. Stjórnandinn var aðfluttur frá Vestmannaeyjum, en þar var eitthvað í áttina við hervarnir, allt frá því eftir Tyrkjaránið. Þetta mun hafa verið á áttunda tug aldarinnar sem leið.
Þegar Starndarheiði tekur við vandast málið, því þars kilja leiðir. Þær eldri liggja með byggðum og allnærri sjó, en sem kunnugt er var steypti vegurinn lagður beinna og þar af leiðandi fjær minnkandi byggð Vatnsleysustrandar.
Nokkuð mun vera á reiki hvað telzt vera hin eiginlega Vatnsleysuströnd. Það mun aðeins að réttu lagi vera sá hluti hreppsbyggðarinnar þar sem túnin eru að mestu samfelld, þ.e. frá Litlabæ að Halakoti. Minnst hefur verið á býlið Hvassahraun hér nær, og áður en að samfelldum túnum kemur eru býlin Stóra- og Minni-Vatnsleysa. Enn standa hús í Flekkuvík, en hún er í eyði.
Nokkur þurrabúðarkot voru þatna hér og hvar, m.a. við túnjaðarinn á Stóru-Vatnsleysu.
Farið er framhjá afleggjaranum að Flekkuvík og þegar byggð Vatnsleysustrandar blasir við af hæðadrögunum nokkru sunnar, virðist vitinn vera uppi á kirkjuturninum.
Við skulum ljúka þessu með því að fara inn í kirkjuna og taka okkur sæti á einum bekknum. Hann er nýr, en málning kirkjunnar að innan – marmaraeftirlíking – þykir svo vel af hendi leyst, að þótt þörf umbóta sé orðin brýn, veigra menn sér við því enn, eftir 75 ár.“
Heimildir:
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1966, bls. 21.
-Magnús Jónsson, Við veginn – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, 1968, bls. 5-6.