Hafnarfjörður

“Nýr konungsvegur til Hafnarfjarðar” 

Hafnarfjörður 1903

Hafnarfjörður 1903.

“Hraunið ofan Hafnarfjarðar hefur löngum verið farartálmi, hvort heldur er fyrir mannfólk eða skepnur. Allt fram undir lok 19. aldar voru engar greiðar samgönguleiðir út frá hinum sívaxandi byggðarkjarna við Fjörðinn og þeir sem áttu erindi til eða frá Hafnarfirði, urðu að notast við troðna hraunstíga hvort heldur var út á Suðurnes um svokallaða Alfararleið, austur í sveitir um Selvogsgötu eða um illfæra hraunstíga norður ú bænum til innesja og Reykjavíkur.
Margar lýsingar eru til um þennan erfiða ferðamáta, ekki síst frá erlendum ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fyrr á öldum. Skoski presturinn Ebenezer Hendersen sem kom ríðandi til Hafnarfjarðar frá Reykjavík sumarið 1814 segir í ferðalýsingu sinni að hann kenni mjög í brjósti um hestana sem þurfa að stika þessa ósléttu slóð yfir hraunið og ferðalangar þurfa að gæta varkárni til að hrufla sig ekki á fótleggjunum. Stígarnir dugðu vart til að komast um með klyfjaða hesta og vagnleiðir voru hvergi til staðar, enda þekktu landsmenn ekki til slíkst flutningsmáta fyrr en um aldamótin 199.

“Hafnarfjarðarvegabótasjóður”

Sjónarhóll

Sjónarhóll við Reykjavíkurveg.

Einn helsti framfarasinni í litla þorpinu við Hafnarfjörð á síðari hluta 19. aldar var Crristen Zimsen. Hann fluttist í Fjörðinn árið 1866 og gerðist verslunarstjóri við Knudtzonverslun og veitti henni forstöðu í tvo áratugi samhliða því sem hann stýrði verslunum í  bæði Reykjavík og Keflavík. Síðar rak hann sína eigin verslun þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1892. Zimsen giftist Önnu Jurgensen kjör- og systudóttur Jes Th. Kristiansen, sem einnig var kaupmaður í Hafnarfirði á þessum tíma. Zimsen og Anna bjuggu lengstum sinn búskap í Hafnarfirði í húsi Bjarna Sívertsen. Þau eignuðust 10 börn. Þeirra á meðal var Knútur Zimsen síðar borgarstjóri Reykjavíkur.
Skömmu eftir að Zimsen kom í fjörðinn fór hann að huga að bættum samgöngum á landi, ekki síst við höfuðstaðinn í Reykjavík. Í árslok 1871 beitti hann sér fyrir stofnun sérstakst vegabótasjóðs til að gera úrbætur á þáverandi vegaslóða og fékk hann ýmsa aðila bæði í Hafnarfirði og nágrannabyggðum í lið með sér. Sjóðurinn var nefndur “Hafnarfjarðar vegabótasjóður” og tilgangur hans að safna gjöfum og samskotum til að “gjöra almenningsveg yfir Garðahraun frá Hafnarfirði inn að Hraunsholti” eins og sagði í stofnskrá sjóðsins. 

Mesti farartálminn í Hafnarfjarðarhrauni

Hafnarfjörður 1900

Hafnarfjörður 1900.

Undirtektir voru almennar og góðar og töluvert fé safnaðist í sjóðinn eða hátt í 900 ríkisdalir á hálfu öðru ári. Framkvæmdir hófust þegar sumarið 1872 og miðaði vel. Vegaslóðinn var upphækkaður og gerður 5-6 álnir á breidd. Lögð var áhersla á að hafa veginn sem beinastan og tókst þannig að gera hann þriðjungi styttri en hinn fyrri krókastíg.
Mikil umferð og sívaxandi var milli þessara stærstu byggðarkjarna á suðvesturhorninu jafnt um sumar sem vetur. Nokkuð greiðfært var lengstan hluta leiðarinnar en stígurinn í gegnum hraunið ofan Hafnarfjarðar var jafnan mikill farartálmi.
“Í hrauni þessu eru mjög fáar hellur, en víðast hvar eru klettadrungr hrúguð saman, og innan um þessi klungr eru djúpar lautir. Stígurinn hefir um aldr og æfi undist fram meðal kletta þessara. Hann er örmjór, svo að ferðamenn optlega hafa komist í hin mestu vandræði, þá er þeir mættu lest í stíginum eða lestir mættust. Um vetur fyltust allar lautir í hrauninu djúpum snjó, og varð þá hraunið alófært”, segir í frétt í blaðinu Víkverja sumarið 1873 þar sem fjallað var um vegaframkvæmdirnar.

Koungur stráði silfurmynt á nýja veginn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Strangata 27.

Alt kapp var lagt á að ljúka að mestu vegagerðinni áður en hátíðarhöld vegna 1000 ára afmælis byggðar í landinu færu fram sumarið 1874. Þá síðsumars kom Kristján IX konungur Danmerkur og Íslands færandi hendi með nýja stjórnarskrá og gerði sér m.a. dagsferð suður í Hafnarfjörð og var nokkurs konar óformleg vígsla hins nýja vegar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í bók sinni “Áður en fífan fýkur” þeim merka degi er kóngur reið með föruneyti inn í Hafnarfjarðarhraun, en afi Ólafs, Ólafur Þorvaldsson í Ólafsbæ var verkstjóri vegagerðarmanna.
“Dag þann, sem kóngurinn kom til hafnarfjarðar, voru vegagerðarmenn að vinnu sinni. Þegar þeir sáu til ferða konungs og fylgdarliðs hans, röðuðu verkemennirnir sér upp báðum megin vegar og heilsuðu og fögnuðu konungi. Konungur stöðvaði hest sinn milli raða verkamanna, tók nokkrum sinnum handfylli af silfurmynt úr vösum sínum og stráði á veginn, þar sem hann var sléttur. Þegar konungur hélt ferð sinni áfram, varð nokkur handargangur við að ná í eitthvað af aurunum, sem meira var til minningar heldur en til nota.”

Enn frekari vegabætur
Nýi  vegurinn í gegnum Hafnarfjarðarhraun var mikil samgöngubót. Áfram var unnið næstu ár að frekari vegabótum og var verkið fullklárað árið 1878. Rúmum áratug síðar var enn á ný farið að huga að vegabótum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Var þá ráðist í að lagfæra enn frekar erfiðustu kafla leiðarinnar auk þess að breikka veginn og gera hann vagnfæran.”

Heimild:
-Samfylkingin í Hafnarfirði, jólablað 2013 – Lúðvík Geirsson tók saman, bls. 4-5.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefnakort (ÓSÁ).

Kaldársel

Gengið var upp með Lambagjá frá gamla Kaldárselsveginum. Gjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfeng hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti.
Hleðslan yfir LambagjáHér er um að ræða eina af hrauntröðum Búrfells, en Búrfellshraun kemur úr gíg þess þarna skammt norðaustar. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum og er gígurinn 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp. Sama fyrirbærið er ástæðan fyrir því að Lambagjá virðist standa hærra en hraunið austan við hana. Kvikan hefur runnið um rás frá Búrfelli áleiðis að Kaldárseli. Þar sem op Níutíumetrahellisins er nú opnaðist rásin að hluta og kvikan streymdi í farvegi líkt og fljót. Þakið á efsta hluta hennar storknaði, en eftir að forðinn tæmdist, og þar með rásin, féll þakið niður og mundaði smafelldari tröð.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst þetta Búrfellshraun.
Hleðslan undir fyrstu vatnsleiðslunaBúrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun, en í því er Lambagjáin. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.

Misgengið í Helgadal - Búrfell fjær

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Gráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.
“Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja Op Níutíumetrahellisinsvatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa “Sléttuhlíðar”] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.”
Á leiðinni var m.a. kíkt á Níutíumetrahellinn við endann á Lambagjá.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Úr sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar.

Kaldársel - vatnsleiðsla

Kaldársel – hleðsla undir vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum.

Kirkjugata

Í tilefni jólanna var gengið eftir gömlu kirkjugötunni milli kirkjunnar á Stað í Staðarhverfi og Járngerðarstaða.
GamlaKirkja Grindvíkinga var á Stað fram til 1907 og endurreist í Járngerðastaðahverfi 1909. Götuna gengu ungir sem aldnir um aldir.
Staðnæmst var við Ósinn þar sem gatan hélt áfram yfir Hópið og sem leið lá áfram austur að Þórkötlustöðum.
Á leiðinni bar ýmislegt forvitnilegt fyrir augu, bæði mannvistarleifar við Tóftarbrunna, Miðbrunna og Gerðavallabrunna sem og staðsetningar sögulegra atburða, s.s. Anlabystrandið árið 1900.
Í raun var táknrænt að ganga frá Stað að Járngerðarstöðum, ekki síst vegna flutnings kirkjunnar fyrir nákvæmlega einni öld síðan.
Gatan, sem slík, sést nú einungis á litlum köflum, annars vegar ofan við Hvirfla í staðarhverfi og hins vegar suðvestan við Brunnana á Gerðisvöllum.
Þar greinist gatan í tvennt; önnur fer norður fyrir BrakMiðbrunna og Tóftarbrunna og hin suður fyrir þá. Sérstök lýsing á kirkjugötunni í heild sinni er ekki til, en hennar er þó getið í örnefnaskrám. Ástæðan er sennilega sú að gatan var svo sjálfsögð allt þar skömmu áður en fyrsti bíllinn kom til Grindavíkur (akvegurinn var lagður þangað 1918) að ekki hefur verið talin ástæða til að skrifa um hana sérstaklega.
Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.
GrindavíkurkirkjaÍ klukknaportinu í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgaranum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Sú saga hefur gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.
Sjá meira um svæðið (Tóftarbrunna, Anlaby, Jónssíðubás og Bóndastekktún).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Jónsbásar

Jónsbás – kirkjugatan.

Breiðabólstaðasel

Gengið var að Hraunsseli.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

Lagt var af stað frá Raufarhólshelli í Þrengslunum og austur yfir gamburmosahraun með grónum lyngbollum í beina línu að Lönguhlíð þar sem styst er yfir hraunið. Gangan tekur innan við 10 mínútur. Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið, greinilega miðlungs gamalt. Í selinu eru fimm rými; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn liggur niður með kantinum um Skógstíg. Bæði ofan og neðan við selið eru grasi grónar Lönguhlíðar.

Þá var haldið frá Raufarhólshelli til vesturs í leit Breiðabólstaðaseli. Gengið var yfir Þrengslaveginn, yfir gróðir hraun og upp á Raufarhól. Þetta eru breiðir og sléttir melhólar. Gengið er yfir þá með stefnu til vesturs að sunnanverðum Krossfjöllunum, rétt ofan við syðsta stapann.

Hafnarsel

Hafnarsel I .

Gengið er yfir móa og síðan aftur upp á slétta mela. Þá er komið inn á götu er liggur ofan við víða dali að sunnanverðu. Gatan liggur til vestnorðvestur með stefnu að Geitahlíð. Óþarfi er að fara upp í sjálf Krossfjöllin heldur ganga einungis með hlíðum þess. Flagið sést fljótlega á vinstri hönd og handan við næsta gróðurhrygg er grasi gróinn dalur og háir, langir klettar er horfa á mót austri, vestast í fjöllunum. Þar undir er Breiðabólstaðarsel. Selið er vel greinilegt, en gróið. Það er staðsett á mjög fallegum stað. Það eru fjórar tóttir. Tvö rými eru í þeirri stærstu. Að selinu er um hálftíma auðveldur gangur ef farið er rétta leið. Annars þarf að fara upp um Krossfjöllin, en það er þrátt fyrir allt falleg leið, klettastandar og grónir dalir og brekkur, einkum að vestanverðu.
Ofan Krossfjalla er óþekkt selstaða; annað hvort frá Breiðabólstað eða Þorlákshafnarbænum.

Hafnarsel

Í Hafnarseli.

Lokst var tekið hús í Hafnarseli (Þorlákshafnarseli). Um 5 mínútna gangur er að því frá Þrengslaveginum þar sem það kúrir undir kletti vestan við Votabergið. Það eru þrjár tóttir og í einni tóttinni, þeirri undir klettinum, eru þrjú rými.
Skammt vestar er klettastandur. Austan undir honum er hlaðinn stekkur. Skjólgott er undir berginu. Í því er fugl og nægt vatn er drýpur af því hvarvetna. Hafnarselið er í sljóki fyrir austanáttinni, ríkjandi rigningarátt, líkt og mörg önnur sel á Reykjanesi. Saga er tengd selinu um karl er komst í kerlingu, en hún verður ekki rakin hér. Meðfylgjandi mynd er látin duga að þessu sinni.
Veður var frábært, milt og kaflaskipt sól.

Hraunssel

Hraunssel Ölfusi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í “kumlferð” um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Markasteinn

Gengið var suður með vestanverðri Setbergshlíð, um Gráhelluhraun, Þverhlíð, Seljahlíð og Svínholt. Dagurinn var jóladagur.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Mannfólkið kúrði enn í híbýlum sínum, en Setbergslækurinn rann rólega sína leið og lék sér við klakaströnglið við bakkana. Mýsnar höfðu verið á kreiki um nóttina.
Birtan yfir Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi var einstök, gulrauður morgunroðinn í sinni fegurstu mynd. Í austri trjónaði ílangt perlumóðuský er skipti litum í takt við morgunroðann; rauðleitt í fyrstu, en blánaði smám saman. Það tók á sig óskýra olíulitina, en hvítnaði loks og varð gegnsætt uns það samlagaðist himninum. Svo virtist sem skýið hafi viljað birtast þarna á áberandi stað í tilefni jólanna og gefa sem flestum kost á að berja sig augum, en líklegt er að fáir hafi notið augnakonfektisins á austurhimninum þennan fagra jóladagsmorgun.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Perlumóðuký sjást gjarnan að vetri til á norðurhveli jarðar einkum á milli sólseturs og sólarupprásar. Þau eru olílituð og draga nafn sitt af þeim litabrigðum perluskeljarinnar. Skýn eru mjög sjaldgæf á þessum stað jarðarinnar, en þekkjast þó við norðurhvel jarðar, sem fyrr sagði. Þau myndast er sérstök veðurskilyrði, en eru ekki úrkomuský. Perlumóðuský verða til ofan við háský í um 25 km hæð og eru lýsandi næturský í um 80 km hæð. Þessar skýjagerðir, sem eru mjög sjaldgæfar, tengjast ekki veðri. Þennan jóladagsmorgun voru kjöraðstæður til þessa á höfðuborgarsvæðinu, heiður himinn og veðurstillur.

Perlumóðurský

Perlumúðurský.

Beygt var með Þverhlíðinni og stefnan tekin á Markaklett, landamerkjahornstein Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að bóndinn á Urriðakoti hafi fyrrum heyrt rokkhljóð inni í steininum og dregið þá ályktun að í honum kynni að búa huldufólk. Þá hafa aðrir menn, sem það hafa og eru þekktir af því að skýra jafnan rétt frá, fyrir satt að þegar einhver reynir að nálgast steininn þverr honum allur máttur. FERLIR hafði áður sannreynt þetta í tvígang.
Enn ein saga segir að huldufólk geri jafnan vorhreingerninguna hjá sér á jólanótt. Þá hefst nýtt ár hjá huldufólkinu og því vilji það fagna með alsherjartiltekt. Álfarnir gera sér hins vegar glaðan dag á nýársnótt, en engir sértakir kærleikar eru með hudlufólki og álfum, ekki frekan en með mönnum og kálfum.

Markasteinn

Markasteinn.

Gengið var hljóðlega í átt að Markasteini. Létt marr greindist í snjónum, en andvarinn var á móti. Þegar komið var upp að hæðinni er skildi að klettinn og sjónhendinguna virtist einhver hreyfing við steininn. Það var enn morgunrökkvað svo erfitt var að greina hvað þetta var svo vel færi. Svo virtist sem vera kæmi út úr klettinum, staðnæmdist, beygði sig niður, greip eitthvað með sér og hvarf síðan inn í steininn aftur. Eftir stutta stund kom hún, eða einhver önnur, út aftur og greip eitthvað með sér og hvarf á braut.
Reynt var að læðast nær, en við það virtist koma styggð að hreyfingunum. Þær létu ekki sjá sig aftur. Utan við steininn sáust fótspor án sóla. Kjarrið bærðist í golunni. Fornfálegur stólfótur lá við klettinn. Hann var látinn liggja þar sem hann var.
Frábært veður. Lygnt og bjart (miðað við árstíma).

Markasteinn

Markasteinn.

Sængurkonuhellir

Haldið var í Selvog.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Á leiðinni var komið við í Sængurkonuhelli í Klifshæð, skammt frá Herdísarvíkurvegi, austan sýslumarka Árnessýslu og Gullbringusýslu. Að þessu sinni var hellirinn skoðaður betur en áður. Segja má að hann hafi komið mjög skemmtilega á óvart. Gamalt botnlaust emelerað vaskafat var við op hans, en þegar betur var að gáð kom í ljós að hellirinn nær langt undir hraunið. Farið var u.þ.b. 40 metra inn í hellinn og það látið duga að þessu sinni. Var ákveðið að hafa samband við fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins með það fyrir augum að skoða hann gaumgæfilegar.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

Þá var haldið að Þorkelsgerðis og rætt við húsráðanda. Hann vísaði á einn Stokkasundssteinana, sem hann hafði dregið upp á tún. Um er að ræða gataðan stein, sem augsýnilega hefur verið notaður sem rekankeri. Stokkasundið var fallegt yfir að líta og auðvelt að sjá hvernig það hefur verið nýtt. Bátum hefur verið siglt inn sundið og þeir bundnir við sléttar háar hraunhelluvelli beggja vegna. Við leit fannst einn stjórinn njörvaður fastur í klettaskoru. Hafði verið höggvið gat á stjórann og bátar bundnir þar við. Þessi steinn getur þess vegna verið mjög gamall. Hraunhellurnar voru notaðar sem skiptivellir.

Stokkavík

Stokkavíkursteinninn í fjörunni.

Skammt vestan við Stokkasundið sést enn móta fyrir Torfustaðafjárborginni og Þorkelsgerðisfjárborginni inn undir kampinum. Þá má vel sjá móta fyrir Nesborginni (-borgunum) skammt austar. Skv. heimildum áttu borgirnar að hafa eyðst í fárviðrinu 1925 og horfið með öllu, en svo virðist þó ekki hafa verið raunin.

Nesborg

Nesborgin fyrrum. Nes fjær.

Til er falleg mynd af Nesborginni í bók Daniel Brunn – Íslenskt þjóðlíf… Þá var hún vel upp á landi, en er nú í fjörukambinum, sjórinn búinn að taka hana að hálfu – og rúmlega það.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

Í bakaleiðinni var skoðaður fallega hlaðinn brunnur niður undan gömlu húsunum að Þorkelsgerði.

Þá var haldið í Ölfusið og tekið hús á fróðum manni. Framvísaði hann og ánafnaði FERLIR örnefnakortum af svæðinu, með öllum örnöfnum sem og fornum leiðum. Benti hann m.a. á Breiðabólstaðasel, sem er í vestanverðum Krossfjöllum, og Hraunssel, sem er vestan undir Lönguhlíð.
Eftir kortunum var haldið að Draugshelli á landamerkjum Litlalands og Breiðabólstaðar. Þar gerðist fyrir alllöngu saga, sem flestir þekkja.

Ingjaldsborg

Ingjaldsborg.

Frá honum var haldið á Ranann upp að Ingjaldsborg. Um er að ræða mikið hlaðið mannvirki, tvær fjárborgir og 100 rollu fjárhús ofan við brúnirnar, skammt vestan við Brúsavörðu. Frá Ingjaldsborg var gengið að Bræðraborg, sem einnig er hlaðin fjárborg undir Ólafsvörðum ofan Ólafsdals. Þar undir er Skrínuhellir. Frá honum var gengið að gömlu hlöðnu Hákarlsbyrgi austar á brúninni, neðan við Rjúpnavörðunnar.
Ferðin tók um 5 klst með viðtölum við fróðleiksfólk og leit að framangreindum mannvirkjum – en hver mínúta var fullkomlega þess virði.
Frábært veður – logn, sól og hiti.

Sængurkonuhellir

Í Sængukonuhelli.

Holtið
Enn ein gatan í Hafnarfirði sem heitir eftir nálægu kennileiti er Holtsgata.
SvæðiðGatan er nefnd eftir Holtinu, sem byggðin við Selvogsgötu, Hlíðarbraut, Hringbraut og Holtsgötu stendur á. Þó hefur hluta þess verið hlíft. Ástæðan er sú að þar var talin vera álfabyggð. Vilji var í bæjarstjórn að heimila byggð á holtinu, en horfið var frá því þegar aldraðir Hafnfirðingar lögðust gegn því. Þá var ætlunin að gera þar leiksvæði, en einnig var horfið frá því. Ungir íbúar notuðu þó svæðið til leikja og kofabygginga, en aldrei í klettunum sjálfum.
Ein saga, sem líkja má við þjóðsögu, er til um álfa í Holtinu. Gömul kona í húsi er byggt hafði verið á ofanverðum Suðurhamrinum sá álfana. Hún sagði þessa sögu fyrir fjöldamörgum árum, daginn eftir að atburðurinn gerðist.
Þetta mun hafa verið á nýársnótt. Hún hafði sofnað snemma um kvöldið, en vaknað skyndilega um miðnætti. Tunglbjart var. Þegar henni var verið litið út um gluggann er vísaði að Holtinu sá hún, að því er virtist, hreyfing við klappirnar. Þegar hún rýndi nánar út um gluggann og augun voru farin að venjast myrkrinu sá hún hvar litskrúðugt fólk, mjög smávaxið, hafði komið saman framan við klappirnar. Svo virtist sem um “mannfögnuð” væri að ræða. “Fólkið” var glatt, virtist syngja og skemmta sér ágætlega.
Klöpp
Gamla konan horfði á þetta um stund. Þá datt henni í hug að vekja dóttur sína, sem hjá henni bjó, svo hún gæti einnig orðið vitni að atvikinu. Dóttirin varð úrill við rúmraskið, en fylgdi móður sinni að glugganum, rýndi út en varð einskis var. Gamla konan vék henni þá frá og vildi upplifa sýnina að nýju, en nú var allt fjörið horfið sem áður var við klettana í holtinu.
Aldrei varð gamla konan var við mannfagnað á þessum stað eftir þetta.
Unga fólkið, sem lék sér í holtinu, varð sumt hvert vart við ásýnd – eða öllu heldur upplifði þá tilfinningu að betra væri að fara varlega í holtinu, ekki endilega þess vegna heldur og íbúa þess. Sá er þetta ritar er einn af þessu unga fólki, nú orðinn fullorðinn. Enn þann dag í dag gengur hann um Holtið með þeirri varúð og virðingu, sem aðrir ættu að sýna því – þótt ekki væri nema álfanna vegna.

Holtið

Holtið bak Holtsgötu – neðan Hringbrautar.

 

 

Helgafell

Í jólablaði Fjarðarfrétta 2022 er saga af “Jólasveininum í Helgafelli“, samin af Þórarni Reykdal á næturvöktum í Íshúsi Reykdals um miðjan sjötta áratuginn:

Jólasveinn“Jólasveinninn í Helgafelli vaknaði af værum blundi. Hann settist fram á rúmstokkinn og geispaði óskaplega og teygði úr sér. Það var nú reyndar engin furða, því að nú var kominn fyrsti vetrardagur, en eins og þið vitið þá sofa allir jólasveinar frá þrettándanum og fram til fyrsta vetrardags.
Jólasveinninn klæddi sig í skyndi og opnaði sjónvarpið sitt, til þess að gæta að hvað börnin niðri í byggðinni hefðust að.
-„Það er nú einhver munur síðan ég fékk sjónvarpið,“ sagði hann við sjálfan sig.
-„Nú get ég setið hér og horft í sjónvarpið mitt og séð alla krakkana, í stað þess að hlaupa um allar jarðir og kíkja á gluggana.“
Í sjónvarpinu sá hann hvítt hús með rauðu þaki. Það var Móberg í Garðahreppi. Hann sá krakkana fjóra sitja inni í stofu. Þau voru að lesa og skoða blöð. Þá varð honum litið á kamínuna.
jólasveinn
-„Já, nú skal ég reyna að gera það sem jólasveinarnir í útlöndum gera, “ sagði hann við sjálfan sig.
-„Ég heyrði það í útvarpinu einu sinni, að þeir færu niður um strompinn og settu jólagjafir í sokka sem hengdir eru á kamínuhilluna og ég sá einmitt svona jólasokka hér í fyrra. Ég vona að þau hengi þá aftur á hilluna núna á jólunum.“
Svo liðu dagarnir fram að jólum.
Jólasveinninn var önnum kafinn við að búa til jólagjafir og að horfa í sjónvarpið sitt. Hann sá inn í öll hús í Garðahreppi og Hafnarfirði og miklu víðar. Stundum sá hann krakka sem voru óþekk, en þau voru nú sem betur fer ekki mörg og þegar jólin fóru að nálgast urðu öll börn miklu þægari. Því að allir vildu fá jólagjafir frá jólasveininum. Þegar aðfangadagur kom var poki jólasveinsins orðinn fullur og svo hélt hann af stað.
jólasveinn
Jólasveinninn á heima einhvers staðar í toppinum á Helgafelli og hann fer alltaf í gegnum gatið á Helgafelli þegar hann fer niður í byggðina.
Þegar jólasveinninn var kominn svolítið niður fyrir Helgafell mætti hann trölli.
-„Sæll vertu,“ sagði Jóli, -„og hver ert þú eiginlega?“
-„Ég heiti Narfi nátttröll. Ég átti einu sinni heima í Valabóli, en síðastliðin fjögur hundruð ár hef ég staðið eins og klettur hérna utan í Valahnúkunum. Ég fór suður í Kleifarvatn að veiða eitt sinn en varð of seinn heim og sólin skein á mig svo að ég varð að steini“.
-„Já, nú man ég eftir þér,“ sagði Jóli. -„Ég var nú bara jólasveinastrákur þegar þetta skeði, en nú er ég orðinn fjögurhundruð og fjórtán ára. En segðu mér annars hvað þú ert að gera hér núna“.
jólasveinn-„Jú sjáðu,“ sagði tröllið „ég er búinn að standa þarna svo agalega lengi að ég var orðinn dauðþreyttur í fótunum, svo að ég mátti til með að liðka mig svolítið. Ég skrapp áðan heim í gamla hellinn minn Valaból. Þar er nú orðið fínt maður. Það er komin hurð og allskonar fínirí, svo að mig dauðlangar að halda þar jólaveislu eins og í gamla daga, enn nú þekki ég ekki lengur neinn sem ég get boðið. Kannske getur þú hjálpar mér,“ sagði tröllið og klóraði sér vandræðalega í hraunskegginu.
-„Ég skal nú sjá til,“ sagði Jóli og kvaddi tröllið og hann flýtti sér af stað.
Þegar Jóli kom niður í Gráhelluhraun mætti hann tveimur litlum grænklæddum körlum.
-„Sælir verið þið,“ sagði hann „og hvaða fuglar eruð þið nú eiginlega?“
jólasveinn-„Ég heiti Síðskeggur,“ sagði annar þeirra -„og hann bróðir minn þarna heitir Stuttskeggur. Við erum dvergar og eigum heima hérna í Gráhellu“.
-„Rétt er nú það,“ sagði Jóli.
-„En heyrið þið mig annars. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Viljið þið nú ekki vera svo góðir að koma, því að trölli greyið þekkir svo fáa og hefur ekki talað við nokkurn mann í fjögur hundruð ár“. Það vildu dvergarnir og svo kvaddi Jóli þá og þrammaði áfram.
Jólasveinninn var kominn niður á Svínholt, þegar hann sá einhverja skrýtna veru koma hoppandi á móti sér. Hann staðnæmdist, setti frá sér pokann og hló svo mikið að hann varð að halda um magann. „Ha, ha, sæll vert þú og ha, ha, ha hvað heitir þú?“ gat Jóli loksins stunið upp. Aldrei hafði hann séð svona skrýtinn karl.
jólasveinn-„Ég er tunglpúki,“ sagði karlinn, sem var eins og hjól í laginu.
-„Þú lítur út fyrir að vera skemmtilegur náungi,“ sagði Jóli -„viltu ekki koma í jólaveislu til nátttröllsins í Valahnúkum?“
-„Jú það vil ég,“ sagði tunglpúkinn og svo hoppaði hann og skoppaði sína leið, en jólasveinninn hélt áfram ferð sinni.
Jólasveinninn hafði ekki gengið lengi er hann mætti stórri og ljótri kerlingu.
-„Sæl Grýla mín,“ sagði hann.
-„Mikið ertu nú vesældarleg núna“.
-„Já það er nú von,“ sagði Grýla, -„ég er nú nú búin að vera á flakki um allar sveitir frá morgni til kvöld um langan tíma og ekki fengið eitt einasta krakka krýli í pokann minn. Sko sjáðu. Hann er alveg tómur“.
jólasveinn-„Já, Grýla mín,“ sagði Jóli, -„blessuð jólin eru nú að koma og þá eru öll börn góð og þæg, svo að það er ekki von að þú finnir marga óþekka krakka þessa dagana. En heyrðu nú greyið mitt. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Vilt þú ekki koma þangað, svo að þú farir ekki á mis við alla jólagleði í ár?“
Grýla var ósköp þakklát fyrir boðið og svo kvöddust þau og Jóli flýtti sér á stað því hann var búinn að tefjast svo oft á leiðinni. Hann sá nú ljósin í bænum, það var víða búið að kveikja á jólaljósum úti.
Jæja, þarna er þá Móberg. Það er best að fara þangað fyrst. Fyrir utan húsið á Móbergi stóð snjókarl. Jólasveinninn gekk til hans og heilsaði honum.
-„Sæll vert þú Snjólfur minn.“
-„Komdu sæll,“ sagði Snjólfur snjókarl“.
-„Hvað er þú að gera hér um miðja nótt?“
jólasveinn-„Það skal ég segja þér,“ sagði Jóli. „Ég ætla nú að reyna svolítið, sem enginn jólasveinn á Íslandi hefur gert. Þú veist, að það er kamína hérna og nú ætla ég, lagsmaður, að stinga mér niður um strompinn, eins og þeir gera í útlöndum, jólasveinarnir. Þá þarf ég ekki að vekja neinn til þess að opna fyrir mér.“
-„Niður um strompinn,“ sagði snjókarlinn, -„hvernig í ósköpunum ætlar þú að fara að því? Þú, sem ert svona feitur“.
-„O, við jólasveinar kunnum nú ráð við slíku,“ sagði Jóli, -„við getum gert okkur stóra og litla eftir þörfum“.
-„Jæja, þú um það,“ sagði Snjólfur, -„en hræddur er ég um að þú verðir allur kolsvartur á þessu“.
-„Við sjáum nú til,“ sagði Jóli -„en nú verð ég að fara að koma mér að verki, því að víða verð ég að koma í nótt. En heyrðu kunningi, það verður nú hálf kuldalegt fyrir þig að híma þarna úti um jólin.
jólasveinn-Viltu ekki koma í jólaveislu til hans Narfa nátttrölls í Valabóli?“
Jú, snjókarlinn vildi það og svo klifraði Jóli upp á þak og stakk sér niður í strompinn. Þetta gekk nú ekki eins vel og til stóð. Jóli stóð nefnilega fastur í strompinum. Í ákafanum hafði hann gleymt að gera sig lítinn. „Æ, hver skollinn,“ sagði hann og gerði sig svo lítinn að hann losnaði. En þá tók ekki betra við. Hann gerði sig of lítinn, svo að hann datt nú allt í einu niður og valt með brauki og bramli inn á mitt stofugólf.
-„Æ, þetta var nú meiri klaufaskapurinn,“ hugsaði Jóli -„nú vakna krakkarnir“. Og það var einmitt það sem skeði. Jói, Gréta, Tóta og Iðunn hlupu öll fram í gang. Hurðin á stofunni var opin og þau sáu jólasveininn sitja á gólfinu. „Það er bara jólasveinninn,“ sögðu þau „við megum ekki trufla hann, þegar hann er að koma með jólagjafirnar“.
Og svo fóru þau öll í bólin sín aftur og sofnuðu. En morguninn eftir sögðu þau öll að þau hefði dreymt að jólasveinninn hefði komið.

Valaból

Valaból.

En það er af jólasveininum að segja að hann hét því að gera betur næst.
-„Þá hef ég æfinguna,“ sagði hann. Svo flýtti hann sér að útbýta öllum gjöfunum úr stóra pokanum sínum, og þegar því var lokið hélt hann aftur til fjalla til þess að sitja jólaveisluna í Valabóli.
– Og svo komu sjálf jólin. Öll góð börn fengu einhverjar jólagjafir. Það voru jól í hverju húsi og það voru líka jól í Valabóli. Narfi nátttröll var ánægður með jólaveisluna sína. Það var nóg að borða og það var svo gaman að fá að tala við einhvern, þegar maður hefur þagað í fjögur hundruð ár. Allir í Valabóli skemmtu sér vel. En Snjólfur snjókarl var samt dálítið hræddur um að hann myndi bráðna áður en veislan væri búin. Honum þótti vissara að sitja næst dyrunum og hann borðaði lítið af heita hangikjötinu, sem hann Kjötkrókur hafði sent, en hann át mest af eftirmatnum, sem var rjómaís. Það var óhætt fyrir snjókarl.”

Góða nótt og gleðileg jól
gott er sig að hvíla.
Ef krakkar eru komin í ból
kemur engin Grýla.

Höfundur texta og mynda er Þórarinn Reykdal. Sagan hefur ekki áður komið út á prenti og er birt með leyfi afkomenda.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20 des. 2022, Jólasveinninn í Helgafelli, Þórarinn Reykdal, bls. 15 og 19.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Pétursborg

Gengið var að Nýjaseli. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga.

Pétursborg

Pétursborg.

Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Sunnan við borgina eru tvær tóttir. Önnur þeirra, sú sem er nær, virðist hafa verið stekkur. Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkssel. Þetta eru 5 tóttir undir gjárveggnum.

Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Arasel

Ara(hnúks)sel – uppdráttur ÓSÁ.

Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóttir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Oddshellir

Oddshellir.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Gengið var til vesturs með sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána. Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána. Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegn skátaskálanum (sem nú er reyndar horfinn).
Gangan tók í allt um 3 klst. Frábært veður.

Oddshellir

Í Oddshelli.