Hópsnes

Gengið var um Hópsnes, framhjá Siggu, ofan við Bólu, framhjá Hópsnesvita (sem heitir í raun Þórkötlustaðaviti því landamerkin eru í fjörlægan stein u.þ.b. 60 metrum vestan hans), um Þórkötlustaðanesið, um Strýthólahraun, framhjá Leiftrunarhól, ofan við Þórkötlustaðabótina, yfir Kónga, neðan Buðlungu, inn á Klappartúnið, upp á Sloka og að landamerkjum Hrauns nyrst í Slokahrauni. Róleg ganga um þessa leið tekur nálægt klukkustund, en nú var ætlunin að staldra við af og til og gefa flestu því merkilegasta á leiðinni sérstakan gaum – af mörgu er að taka.

Hóp

Hópnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni “Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð”, lýsir Guðsteinn Einarsson örnefndum og staðháttum með strandlengju Grindavíkurumdæmis í skrifum sínum “Frá Valahnúk til Seljabótar”. Um þetta svæði segir hann m.a.:
“Um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum er til gömul þjóðsaga, sem hér fer á eftir:
Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund; Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfðubólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðarstöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Engir aukvisar munu bændunrir þó hafa verið, þó nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sátu lengur en fjöldinn.
Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e. þegar aldann vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land þegar þeir heimabændurnir komu hvor að sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.

Hópsnes

Sjóbúð á Hópsnesi.

Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla þá, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi, en talið að 20 bátar hafi farist á Járnegrðarstaðasundi og enginn eftir að komið var í þá tölu.

Sigga

Sigga.

Fram af Sölvaklöppum (undan Hópsnesi) er skerstandur úti í sjónum; sá heitir Bóla. Sigga heitir stór og mikil varða, þarna uppi á kampinum; ekki veit ég önnur deili á henni, en hún var notuð sem mið af sjó. Þá koma Hópslátur; það eru klettarnir með malarbásum framan á Þórkötlustaðanesi. Austan við Hópslátur halda áfram svipaðir Klettaranar, sem heita Kotalátur. Mörkin milli þessara klettalátra eru landamörk milli Hóps og Þórkötlustaða. Fram af þessum látrum, beint fram af Nesinu, kemur nokkuð hundruð metra langur skerjatangi fram í sjó, er kallast Nestá; fer í kaf á flóðum, en upp úr á fjörum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Þarna á Nesinu varð hinn 18. janúar 1952 eitt hið hörmulegasta sjóslys, sem orðið hefir hér í Grindavík, þegar mb. Grindvíkingur fórst þar með allri áhöfn, fimm ungum og hraustum mönnum. Þá má segja, að þegar hin ótömdu náttúruöfl eru í sínum mestu hamförum, eins og var í þetta skipti, megi alltaf búast við slysum. En þarna fórst stærsti og besti báturinn, að talið var þá í Grindavík.

Gamalt máltæki segir, “að Guð fleyti jafnt grátitlingum sem gamalálftinni”. Og víst er um það, að náttúröflin virðast í öðru tilfellinu leggja sig fram um að bjarga öllu sem best, en í hinu að tortíma og eyðileggja.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir austan Kotalátur koma Austurbæjarlátur; þá Þórkötlustaðalátur. Sagnir eru um, að einhvers staðar á þessum látrum hafi skip strandað á árunum 1880-´90. Þetta hafði verið kútter og heitið Vega – verið með saltfram. Mannbjörg hafði orðið, en skipið brotnað. Sumarið 19?? í norðan kalda og sléttum sjó sigldi og þarna upp í nestána þrímastrað briggskip; var að koma til landsins með saltfarm. Það flaut upp í næsta flóði, barst undan kaldanum frá landi og losnaði þannig úr strandinu.

Sloki

Fiskgarðar á Sloka.

Austan við Látrin er Leiftrunarhóll. Frá honum liggja svo kölluð Rif austur og út á Þórkötlustaðavíkina.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Í fjörunni niður undan hólnum lenti enskur togari hinn 23. mars 1932. Skipshöfninni var komið í björgunarbát og út á hættulausan sjó. Heyrði ég sagt að varðskipið Ægir hefði náð þessum togara út með því að koma taug í togarann. Þarna nálægt Leiftrunarhól hafa þá tvö skip strandað, sem náðst hafa út aftur, en það eru líka einu skipin, sem vitað er um að grinfdavíkurfjörurnar hafi sleppt aftur.

Hópsnesviti

Hópsnesviti/Þórkötlustaðanesviti.

Innar undir Leiftrunarhól, víkurmegin, strandaði í maímánuði 1917, ensk skonnorta með saltfarm og eitthvað af síladartunnum. Sú hét Scheldon Abby. Áhöfnin komst í björgunarbáta, en skipið liðaðist í sundur næstu daga.
Innan Leiftrunarhóls koma næst Drítarklappir, þá Stekkjafjara og varirnar á Þórkötlustaðanesi. Þar var þriðja bryggjan (auk bryggjunnar neðan Hvirfla í Staðarhverfi og neðan Járngerðarstaða), byggð 1930. Allar þessar bryggjur, sín í hverju hverfi, má segja að hafi komið að miklum notum með því að losa menn við það hroðalega erfiði að bera allan aflann á bakinu upp úr fjörunni. Fyrir þá bættu aðstöðu hefir og eitthvað meiri afli komið á land, svo að þannig, bæði beint og óbeint, hefir fé það, sem í þær fór, fengist endurgreitt, þótt nú séu þær allar ónotaðar og einskis virði.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan.

Innan við varnirnar er klettur, sem heitir Draugur, þá Draugsklappir, Herdísarvík – upp af henni í kampinum eru hólar kallaðir Kóngar -, þá Miðmundarflöt og Syðri- og Heimri-Bót. Þarna í Bótinni er sögn um, að eftir miðja 19. öld hafi frönsk skúta strandað þar. Áhörnin gekk sjálf upp á hlaið á Einlandi, en skipstjórinn, sem gekk fremstur, féll í hlandforina framan við bæinn og var næstum drukknaður þar. Félagar hans brugðust skjótt við og björguðum honum í því er bóndinn á Einlandi, Hannes, birtist í dyragættinni.

Þórkötlustaðanes

Fiskgarðar á Kóngum.

Austan við Bótina, í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.
Austan við Buðlunguvör koma Slokin; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.

Slok

Slok – fiskigarðar.

Þarna á Slokanum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þr tóku höfuðskepnurnar öðru vís á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð þar vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötlustaða og Hrauns.”
Þórkötlustaðaneshraunið kom ofan úr Vatnsheiði, en í henni eru þrír gígar. Falleg, stór og skjólgóð hrauntröð liggur eftir Nesinu. Í raun væri hún kjörin til útivistarnotkunar. Endur og gæsir verpa beggja vegna gjárinnar.

Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem uppalinn er í Höfn á Þórkötlustaðanesi, einu af þremur íbúðarhúsum, sem þar voru, hefur í annarri FERLIRslýsingu sagt frá mannlífi og minjum á Nesinu fyrir miðja 20. öldina. Við þá skoðun komu í ljós gömul mannvirki, bæði ofan við sjávarkambinn og ofar í Nesinu.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni í Þórkötlustaðanesi.

Í Strýthólahrauni eru t.d. gömul þurrkbyrgi, lík þeim sem sjá má við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar eru miklir þurrkgarðar líkt og í Herdísarvík, en þeir segja til um hina gömlu vinnusluaðferð fiskjarins er allt far þurrkað og hert. Fáir virðast vita af þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og því hafa þau varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist vera fjárborg eða tóft, miklu mun eldri en allar minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar hins eina skrautblómagarðs, er þá var til í umdæmi Grindavíkur. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangarveltur á þeim tíma er lífið snerist um þurrfisk og síðan saltfisk (undir steini).

Ofan bryggjunnar milli Kónga og Strýthóla eru mörg íshúsanna er komu við sögu seinni tíma útgerðar á Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Klöpp er austastur Þórkötlustaðabæjannna. Bæjartóftin kúrir austan undir fjárhúsgafli Buðlungu. Beint vestan hennar má sjá austustu sjávargötuna í hverfinu, en þær voru þrjár talsins. Þarna fæddist m.a. Árni Guðmundsson, síðar bóndi í Teigi. Faðir hans, Guðmundur í Klöpp var formaður og þótti veðurglöggskyggn með afbrigðum og aflasæll. Klappartúnið er nú í eigu afkomenda hans í þriðju kynslóð þótt aðrir stelist stundum til að nýta það á óstundum. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi mun hafa gist í Klöpp er hann var við sjósókn á yngri árum því hann ritaði m.a. Jóni Árnasyni dagsett bréf þaðan um söfnun og skráningu þjóðsagna, sem hann var iðinn við. (Hafa ber í huga hér gæti einnig verið um að ræða Klöpp í Selvogi, en Brynjúlfur var þó nokkrar vertíðir í Grindavík og dvaldist þar).

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Hraunkotið, sem er skammt norðar, var upphaflega þurrabúð frá Klöpp. Þannig var að bændur í hverfinu leyfðu vermönnum, sem hjá þeim réru og ílengdust, að byggja sér kofa eða kotbýli meðan ekki varð landskerðing. Þegar fram liðu stundir efldust kotin, kind kom og kýr, þá kona og loks krakki. Köttur og krafa um lánaðan landsskika fylgdu í kjölfarið. Allt var þetta látið meinlaust meðan miðaði.
Í Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar og einstaka þurrkbyrgi frá löngum fyrri tíð. Hafa þau að mestu fengið að vera í friði, en eru nú verðmætar leifar hins liðna. Ofan við Markabás er Sögunarhóll. Þar söguðu men rekan og má sjá hlaðin hrauk við hólinn þar sem viðurinn var hafður.
Í Hraunkoti eru fallegar hleðslur heimtraðarinnar sem og fallegar og heillegar garðhleðslur. Frá Slokahrauni er fagurt útsýni yfir að Hraunsvík og Festarfjalli. Í fjörunni eru víða grágrýtishnyðlingar og annars sérstæðir gatasteinar. Hraunreipin neðan Klappar eru og einstaklega falleg.
Frábært veður.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarndi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárna, þ.m.t. Lambagjá.

Kaldársel

Kaldárhraun – Gjár.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Í auglýsingu um “náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar” – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir:

1. gr.

Kaldársel

Gjár.

Um friðlýsinguna.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

2. gr.

Lambagjá

Hleðslur undir vatnsleiðsluna um Lambagjá frá 1919.

Markmið friðlýsingarinnar.
Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk náttúruvættisins afmarkast af eftirfarandi ISN-93 hnitum og eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.
Lóð frístundahúss sem er innan útmarka náttúruvættisins er undanskilin friðlýsingunni.

4. gr.

Lambagjá

Lambagjá.

Umsjón náttúruvættisins.
Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem
umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr.
44/1999.

5. gr.
KaldárhraunUmferð um náttúruvættið.
Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í náttúruvættinu.

6. gr.
Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs og menningarminja.
Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði.

7. gr.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – friðlýsing.

Landnotkun og mannvirkjagerð.
Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir að gömlum stígum og vegum verði viðhaldið sem gönguleiðum og einnig að fjölga merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.

8. gr.

Kaldársel

Kaldárhraun og nágrenni – loftmynd.

Undanþágur.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum
tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar.

9. gr.
Refsiákvæði.
Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, skv. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

10. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 3. apríl 2009.
Kolbrún Halldórsdóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Í Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990, segir m.a. um minjar á hinu friðlýsa svæði: “Kaldársel. 1. Bæjarrústir, rétt sunnan við skála KFUM, svo og aðrar rústir í hinu gamla túni. 2. Fjárborg, nú hrunin, þar sem hæst ber á svonefndum Standi, skammt fyrir norðan bæjarrústirnar.
3. Fjárhústóft og gerði, rétt hjá borginni, þeim megin sem frá bæjarrústunum veit. 4. Hleðsla undir gamla vatnsveitustokkinn til Hafnarfjarðar, þvert yfir gjá. Skjal undirritað af KE 30.04.1964.
Þinglýst 05.05.1964.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/kaldarhraun-og-gjarnar/
-Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

Kaldárhraun

Kaldárhraun – samningur um náttúruvættið milli Ríkis og Hafnarfjarðarbæjar til 10 ára.

Kolagerð

Viðarkol eru unnin úr viði sem settur er í kolagröf, kveikt í og hún byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að viðnum. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Viðarkolin voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Viðarkol eru notuð í svart púður. Á Íslandi var áður fyrr algengast að nota birki eða rekavið en stundum fjalldrapa til kolagerðar.

KolagerðSkúli Sæland lýsir ummerkjum og segir frá kolagerð í Úthlíðarhrauni. Þar segir hann m.a.: “Í örnefnaskrám er Kolgrímshól lýst þannig að hann sé „stærsti og fegursti hóllinn í hrauninu, skógi vaxinn að vestan að brún“ og að hann sé úr grágrýti og því hljóti hann að hafa staðið upp úr hrauninu þegar það rann. Um ástæður örnefnisins segir hins vegar einungis að „[n]afnið bendir til, að þar hafi áður verið gert til kola, enda má víða sjá móta fyrir gömlum kolagryfjum.“
Þegar gengið er við Kolgrímshól má finna fjölda gamalla kolagrafa við syðri enda Kolgrímshóls. Þessar kolagrafir eru margar illsýnilegar enda er svæðið vel gróið birkikjarri. Þessi ummerki benda til þess að töluvert hafi verið um vinnslu kola áður fyrr en þrátt fyrir trén sem eru uppi við hólinn er ekki mikið um birki á svæðinu. Vel þekktar eru þó frásagnir og ummerki um að landið hafi verið skógi vaxið við landnám. Slæmt árferði, ágangur búfjár og ekki síst kolavinnsla forfeðra okkar eru taldar helstu ástæður þess hve lítið er af skógi um allt Ísland.

Kolagerð

Kolagerð.

Nútíma Íslendingurinn á erfitt með að átta sig á því hvernig kolavinnsla gat verið jafn eyðandi og umfangsmikil og heimildir greina frá. Við skulum því skoða aðeins mikilvægi hennar í búskap forfeðra okkar.

Kolagerð var landbúnaði mikilvæg iðngrein því að kol voru nauðsynleg við járngerð og smíði allra verkfæra úr málmi. Einkum þurfti þeirra við til dengja ljái við viðarkolaeld. Birkiviður var yfirleitt notaður til að búa til viðarkolin.

Kolagröf

Kolagröf.

Viðarkol voru gerð þannig að viðurinn var kurlaður í smátt, kurlið látið í gryfjur, síðan kveikt í því og grafirnar byrgðar með torfi til þess að ekki logaði upp úr. Gryfjurnar hafa oftast verið þar sem skógurinn var höggvinn. Þær hafa verið misdjúpar og ákvæði voru í lagabálkum um að hylja ætti grafirnar eftir notkun til þess að sauðfé færi ekki í þær. Um kolagerð er líka oft getið í fornsögum, og oft er kveðið á um réttindi til kolviðarhöggs og kolagerðar í máldögum og jarðakaupabréfum frá miðöldum. Örnefni er líka víða að finna um land þar sem nú eru litlar eða engjar menjar um kolskóg.

Kolagröf

Kolagröf.

Kolagröfin sjálf var tæplega tveir til þrír og hálfur metrar að þvermáli og rúmlega metri á dýpt. Kurlinu var raðað í hana, og voru stærstu stykkin sett neðst. Kúfur var hafður á gröfinni sem var um það bil metri á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mold mokað yfir gryfjuna svo að hvergi kæmist loft að. Kolagröfin var opnað eftir þrjá eða fjóra daga og kolin tekin upp. Kolagerðarmenn gátu vænst þess að fá að jafnaði fjórar til fimm tunnur kola úr slíkri gröf.

Víða sér nú í minjar gamalla kolagrafa, meðal annars á Framafréttinum í allt að fimmhundruð metra hæð yfir sjó, þar sem verið hefur örblásið land síðustu áratugi. Líklegt er að ágangur manna og dýra virðist hafa átt stóran þátt í að eyða skólendinu.

Kolagröf

Kolagröf.

Í “Nýjum kvöldvökum” árið 1914 er fjallað um “Kolagerð” á bls. 70: “Kolagerð var mikið stundað fyrrum, meðan skógar voru nógir í löndunum, enda hafa skógar víða mjög látið á sjá við hana, ekki sízt skógarnir hér á Íslandi, einn og kunnugt er. Úr skógunum voru gerð viðarkol, og hét það verk kolun eða kolagerð, og var það kallað að gera til kola. Þá er viðurinn brendur til hálfs, annaðhvort í kolagröfum eða þá með þurhitun; er þá viðurinn hitaður mjög í lokuðum járnhylkjum (retortum), og engu lofti hleypt að honum. Kolagerð í kolagröfum hefur þann kost, að að henni má vinna hvar sem er úti á víðavangi, en aftur þann ókost, að allar aukaafurðir af þurhituninni missast. Eigi þarf hér að lýsa kolagerð í gröfum, hún er altof kunn hér á landi frá fornu fari til þess, þótt miklum mun sé hún stórkostlegri þar sem stórviðarbolum er hlaðið saman til kolagerðar í 10—16 metra víðum gröfum. En aðferðin er hin sama og hér hefur veri$. Ef viðurinn er vel þur, verða kolin hérumbil fjórum sinnum léttari eftir brensluna en viðurinn var.”

Kolagröf

Unnið við kolagerð.

Í “Árbók Hins íslenska fornleifafélags” árið 1968 segir Sr. Einar Friðgeirsson frá “Að gjöra til kola“:
“Að gjöra til kola. Svo hét starfið í heild sinni. — Fyrst var felldur skógur til kolagerðarinnar. Var þá sneitt hjá öllum mjög grannvöxnum hríslum og eins þeim sverustu. Ágætur kolviður voru þeir leggir, sem voru á sverleika við orf. En auðvitað varð eigi fenginn svo jafnsver skógur, að sumt væri ekki helzt til svert, en þá voru líka sverustu leggirnir oft teknir frá og ætlaðir til smíða, ef þeir voru ekki of kræklóttir. Klyfberabogaefni og skammorfaefni voru einnig frátekin. Þegar nægilegt hafði verið fellt (þáð var eingöngu gjört með öxi, klippur þekktust ekki fyrr en Kofoed innleiddi þær) þá var tekið til að afkvista, og var það gjört með verkfæri, sem kallað var „sniðill”. Það var langt og svert sax, og krókbeygður oddurinn upp á við að framan. Með sniðlinum voru grennstu greinarnar sniðnar utan af hverri hríslu. Var trosið utan af hríslunum vanalega kallað „afkvistið” eða þá „limið”. Því var kastað saman í kesti. Limbyrðar voru þær kallaðar, afkvistisklyfjarnar. Ætíð var sagt hrísklyf, en ekki baggi.

Kolagröf

Kolagröf undirbúin.

Þegar hríslurnar höfðu verið afkvistaðar, var tekið til að kurla. Var það gjört á barmi gamallar kolagrafar, ef hún var til staðar, ella hjá góðu kolgrafarstæði. Mjög nærri gröfinni mátti kurlhrúgan þó ekki vera, svo að hún yrði ekki ofnærri eldinum, þegar farið væri að svíða. Kolgjörðarmaðurinn sat svo á hnaus eða þúfu og hafði viðhöggið fyrir framan sig og kurlaði, þ. e. hann hjó með öxinni hvern legg og lurk í smábúta. Þeir urðu auðvitað nokkuð mislangir, en flestir urðu þeir 3 til 4 þumlungar. Allra sverustu kurlunum var kastað sér í hrúgu, þó blönduðust sum saman við. Eins og nærri má geta, hrökk margt kurlið alllangt út í grasið eða lyngið í kringum kolgjörðarmanninn, og var oftast frágangssök að standa upp til að eltast við þau, og þó sumt væri tínt saman á eftir fóru ætíð mörg kurl að forgörðum. Það borgaði sig ekki það nostur að vera að eltast við þau. Þaðan er kominn talshátturinn: „Ekki koma öll kurl til grafar”.

Kolagerð

Kurlað í kolagröf.

Þegar búið var að kurla, byrjaði eiginlega kolagerðin, sem hét að svíða. Ef ekki var gömul kolagröf fyrir hendi, var ný gröf tekin. Grafirnar voru talsvert misstórar, eftir því hve mikið kurl var til að svíða, og vídd þeirra og dýpt fór eftir ástæðum jarðvegsins. Hann var sums staðar ofgrunnur til þess að djúp gröf yrði tekin. Dýpt grafanna fór víst einnig eftir sverleika kurlsins. En allar voru grafirnar kringlóttar og íhvolfar í botninn, eins og gömlu járnpottarnir, ekki með löggum við botninn. Nú var eldur látinn á botn grafarinnar og ofan á hann sverasta kurlið, en þegar það var orðið vel eldleikið og sviðið að utan, var grennra kurlinu bætt ofan á smátt og smátt, og það allra grennsta síðast, ef hirða hafði verið höfð á að aðgreina það eftir sverleika.

Kolagerð

Kolagröf við skráningu.

Þegar kolgjörðarmaðurinn áleit, að fullsviðið væri, kastaði hann blautum hnausum eða torfi á eldinn og mokaði í flýti yfir allri moldinni, sem komið hafði upp úr gröfinni, unz enginn reykur komst upp.
Svo var gröfin látin vera óhreyfð alllangan tíma. Þegar kolin voru síðan tekin upp, voru þau sigtuð í kolasíu. Það var grunnur kassi með strengdum sauðskinnsbotni, og var hann allur gataður. Götin voru öll kringlótt, ég held brennd á skinnið með sívölu járni, að sverleika á við grannan litlafingur.”

Bjarni Einarsson gerði skýrslu um “Hvaleyri – fornleifar á Hvaleyri í Hafnarfirði” árið 2005. Meginviðfangsefnið var kolagröf er uppgötvaðist við gröft á frárennslislögn. Ekki verður kolagröfinni lýst hér, en í samantekt Bjarna um kolagerð segir: “Í Kristinna laga þætti Grágásar, sem talinn er hafa verið ritaður á tímabilinu 1122 – 45, er tekið fram að menn megi vitja kola sinna þó á drottins degi sé.

Kolagröf

Kolagröf.

Viðarkola er einnig getið í Erfða- og Landabrigðisþætti Grágásar. Efirfarandi kafli úr Landabrigðisþætti segir svolítið um mikilvægi kolagerðar: „Ef maður á skóg í annars landi, og á hann að neyta skógar þess sem í hans landi sjálfs sé að höggi. Hann skal eigi hafa hross of nætur þar. Hann skal gera þar kol og hafa á braut færð fyrir veturnætur hinar næstu, og hylja grafar svo að eigi liggi fé í. Ef hann hylur eigi grafarnar svo, þá verður hann útlagur þrem mörkum, enda skal gjalda fé það er þar fær skaða af gröfum þeim, sem búar fimm virða þess er sóttur er. Í þessum þætti kemur fram að ef menn vinna svo mikinn skaða á annars manns skógi að metinn sé til fimm aura eða meir, þá varði það við fjörbaugsgarð. Gildir einu hvort þeir sjálfir eða skepnur þeirra séu valdir að skaðanum. Þá skyldi hann halda utan innan þriggja ára og dveljast þar í þrjú ár. Efir það gat hann snúið heim alsýkn. Viðkomandi var réttdræpur á meðna hann hélt ekki utan, en þó var hann friðhelgur á þremur stöðum og á leið sinni til skips.
Kolagerð
Í Jónsbók, sem lögtekin var árið 1281 eru nær sömu ákvæði þegar kemur að kolagerð. T.d. er tilvitnunin hér að ofan því sem næst eins í Búnaðarbálki Jónsbókar. Hugsanlega er þessi lagabókstafur enn í fullu gildi!
Kolagerð er einnig getið í öðrum rituðum heimildum íslenskum, fyrst árið 1327 í Rekaskrá Vatnsfjarðarkirkju í Ísafjarðardjúpi. Segir þar að kirkjan eigi „kolgerd j iokulkelldu skog.“
Næst er kolagerðar eða kolaskógar getið árið 1343 í máldaga Kálfafellskirkju í Fljótshverfi. Þar segir: „kolskog j vest[r]um skorum. sua sem til bus þarf.“
Í skrá um landamerki milli Hraunskarðs og Gufuskála á Snæfellsnesi frá því um 1360 er þess getið að jörðin Hraunskarð eigi; „frí kolatak í Hrísaskóg og raptvidarhögg í jördunne til uppheldis.“ Upp úr þessu er ítak í skógum til kolagerðar oftlega nefnt í fornbréfasafni þó það sé ekki tíundað frekar hér. Kolaítak hefur þótt mikilvæg auðlind skv. Fornbréfasafni og halda má því fram að svo hafi í raun verið frá upphafi byggðar í landinu.
KolagerðJárnframleiðsla og járnsmíðar verða vart stundaðar nema að kol hafi verið fyrir hendi. Hinir fyrstu landnemar hér á landi hafa varla getað verslað slíka vöru, heldur hafa þeir þurft að framleiða hana sjálfir, rétt eins og járnið þegar upphaflegar birgðir fóru að minnka. Sprek og birki hefur ekki nægt til að ná þeim hita sem nauðsynlegur er til að járn verði unnið, hvort heldur það er úr mýrarauða eða við smíðar eða þegar dengja þurfti ljáina.
Mýrarauðinn var ein af forsendum þess að hér hafi menn numið land á ofanverðri járnöld. Ekki var hægt að treysta á það að kaupmenn sæju mönnum fyrir nægu járni fyrst um sinn, það urðu menn að vinna úr mýrarauða, en hann finnst um allt land meira og minna.

Kolagröf

Kolagröf.

Innflutningur á járni verður mikilvægur mun síðar og að margra mati varð það til þess að járnframleiðsla lagðist hér af í lok 15. aldar. Þetta mun þó varla geta staðist því til eru heimildir um menn sem stunduðu járnframleiðslu um 1700 og síðar og heimildir sem þar er getið).
Mörg örnefni um landið allt eru dregin af kolagerð svo sem Kolgrafarfjörður á Snæfellsnesi, Kolagata í Geirþjófsfirði, Kolviðarhóll á Hellisheiði í Ölvushreppi og víða annarsstaðar hér o.s.frv. Líklega hefur kolagerð verið stundum um allt land eða alstaðar þar sem skógur leyfði slíkt.
Eiginleg [náttúruleg] kol munu vera fátíð hér á landi, en þó ku steinkol finnast á nokkrum stöðum.

Brennisel

Brennisel í Hraunum – kolagröf fremst.

Kolagrafir hafa fundist mjög víða á Íslandi. Þetta eru fornleifar sem finnast yfirleitt ekki nema að örnefni gefi til kynna að þeirra er að vænta eða við sérstaka leit fagmanna. Þetta á þó ekki við þar sem land er blásið, því þá má sjá þær á blásnu yfirborðinu svo sem á Rangárvöllum og víðar.
Um kolagerð á seinni tímum má t.d. lesa í ritgerðum um kolagerð eftir Guðmund Magnússon 1978, Hálfdan Björnsson 1978, Ragnar Stefánsson 1978, Einar Friðgeirsson 1968 og Odd Oddsson 1928. Nokkur munur virðist vera á vinnulagi eftir landshlutum, en athyglisverðasti munurinn er kannski sá að á Suðurlandi var viðurinn reiddur heim á bæ og fór kolagerðin fram þar. Þetta var um 1874.
Grafarstæðið var haft kringlótt og fór stærð þess nokkuð eftir hvað mikið var brennt. Ég áætla þvermál að tunnu gröf ca. 150 – 180 sm.
Guðbrandur Magnússon lýsir því hvernig kolagröf gæti við vettvangskoðun. “Oftast eru þetta bollar svo sem 140 sm í þvermál með finnungsgróðri í botninum og oft berjalyng í skálarbörmunum og vel af berjum. … Dýptin er ekki beint mikil enda var skylda að ryðja að nokkru ofan í þær að lokinni kolagerð svo ekki stafaði af þeim hætta fyrir sauðfé. Annars hefur dýptin verið svona 80 – 130 sm eftir því hvernig er mælt og þá miðað við botn.

Brennisel

Brennisel – kolasel í Hraunum.

Jarðvegur þurfti að vera þéttur og gjarnan leirkenndur og það leiddi af sér að oft safnaðist fyrir vatn í gröfunum.
Guðbrandur lýsir einni kolagröfinni svohljóðandi: Ég giska á að kolamagnið í gröf þessari hafi verið um 2 tunnur. Sumt af kurlinu virðist höggvið úr rótum og eru lengstu bútarnir um 10 sm. Vafalaust hefur kurlið brotnað og smækkað þegar gröf var troðin. Allt stærsta kurlið var í hringnum efst og utan með en það smæsta innan í. Á botninum var svo tjara en engin lykt var af þessu.”
Þessar lýsingar koma nokkuð vel heim og saman við kolagröfina á Hvaleyri. Sverleikinn á kvistunum (kurlinu), stærð hennar og umbúnaður er nærri lagi. Þó lýsingarnar eigi við mun yngri grafir frá 19. öld, er ljóst að aðferðin hefur að mestu leyti verið hin sama í aldanna rás.
Mikið af kolum þurfti við smíðar. Sem dæmi má nefna að til að smíða einn ljá í lok 19. aldar þurfti smiður eina tunnu af kolum. Síðan þurftu stöðugt að dengja ljáinn og í það þurfti kol. Miklu meira þurftu af kolum til að vinna járn úr mýrarrauða, bæði til að þurrka og bræða.

Kolagerð

Kolagröfin á Hvaleyri – eftir að fjórðungur hennar hafði verið hreinsaður.

Kolagröfin á Hvaleyrarholti færir okkur heim sannindin um að til kola gerðu menn strax í upphafi byggðar í landinu. Staðsetning grafarinnar á holtinu svona nálægt sjó er býsna óvenjuleg og þekki ég satt best að segja ekki sambærilega staðsetningu. Yfirleitt fara kolagrafir margar saman eins og í Fljótum, en á Hvaleyrarholti fundum við aðeins eina gröf. Annaðhvort þýðir þetta að kolagröfin sé í jaðri kolagrafasvæðis og aðrar grafir því skammt undan, eða að hér sé um staka kolagröf að ræða. Slíkt gæti hafa tíðkast í upphafi byggðar þó það hafi ekki verið venjan síðarmeir.

Kolagröf

Kolagröf.

Kolagröfin er sönnun þess að á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði hafa menn verið að störfum í kringum 900. Þar hafa þeir hugasanlega gert til kola í þeim tilgangi að vinna við járnsmíðar sínar heima við bæ. Ekki þykir mér líklegt að kolagröfin tengist járngerð vegna þess að á svæðinu er trúlega hvergi að finna mýri með mýrarrauða. Þá vaknar sú spurning hve langt fóru menn til kolagerðar sem þessarar? Hve langt frá kolagröfinni á Hvaleyrarholti er bærinn sem járnsmíðarnar fóru fram? Það kæmi mér ekki á óvart að það sé skemmra en margan grunar! Fyrst kemur upp í hugann gamla bæjarstæði Hvaleyrar skammt suður af gröfinni. Þar ná heimildir aftur til ársins 1300.
Munnmæli ná hins vegar aftur á landnámsöld. Sagt er í Hauksbók Landnámu að Hrafna – Flóki hafi komið á svæðið og fundið þar rekinn hval og nefnt staðinn Hvaleyri.

Kolagröf

Kolagröf.

Svo háttar til að Hvaleyrartjörn og Óseyrartjörn (Herjólfshöfn) eru af náttúrunnar hendi afbragðs skipalægi. Þar mátti draga upp skip án þess að að þeim stafaði hætta af brimi og stórsjó. Svipaðar aðstæður voru í Víkinni (Reykjavík) forðum þar sem sagt er að fyrsti landnámsmaður Íslands hafi sest að. Þá var fremur mjótt rif á milli hafsins og Tjarnarinnar (u.þ.b. þar sem Austurstrætið/Hafnarstræti liggur í dag) og draga mátti upp skip upp í Tjörnina þegar svo bar undir. Í Selvogi er einnig svipað uppi á teningnum. Þar var hægt að draga upp skip í Hlíðarvatn. Munnmæli herma að þar hafi verið landnámsbýli.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Allir þessir staðir eru á Reykjanesinu. Við upptalninguna mætti bæta Hólmastað eða eins og sumir vilja kalla Gömlu Krýsuvík eða Krýsuvík hina fornu í Húshólma í Ögmundarhrauni. Þar hefur því verið haldið fram að vík góð hafi forðum verið á þessum slóðum, en Ögmundarhraun fyllt hana árið 1151. Greining á gjóskulögum leiddi í ljós að túngarður einn í Húshólmanum mun vera eldri en landnámslagið svokallaða sem féll 871±2 e. Kr. Sé þessar vangaveltur vitrænar þá segja þær okkur að landnámsbýlis gæti verið að vænta á Hvaleyrinni eða Hvaleyrarholtinu. Þetta væri heppilegt að hafa í huga vegna framtíða framkvæmda og jarðrasks á Hvaleyrarholti og næsta nágrennis í framtíðinni.
Með þetta í huga ættu allar framkvæmdir á Hvaleyri að vera undir eftirliti fornleifafræðinga.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu.
Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. “
Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöður fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.
Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar kolagrafar og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.
Skammt norðar eru ennfremur leifar kolagerðar, m.a. grónar hleðslur og -grafir.”

Heimildir:
-https://origin-production.wikiwand.com/is/Vi%C3%B0arkol
-Skúli Sæland – Komalgerð; https://menningarmidlun.wordpress.com/tag/kolagerd/
-Nýjar kvöldvökur, 8. árg. 01.03.1914, Menningarþættir – Kolagerð, bls. 70.
-Árbók Hins íslanska fornleifafélags, 65. árg. 01.01.1968, Að gjöra til kola – Sr. Einar Friðgeirsson, bls. 108-110.
-Hvaleyri, fornleifar á Hvaleyri í Hafnarfirði, 2005, bls. 11-19; http://hdl.handle.net/10802/14039

Kolagerð

Kolagröf á Hvaleyri.

Grindavíkurvegur

Umhverfi Grindavíkurvegarins er miklu meira en bara hraun og gamburmosi eða fjöll og gufustrókar tilsýndar. Á leið um veginn, frá gatnamótum Reykjanesbrautar til Grindavíkur, er fjölmargt að sjá um aðdraganda hans – ef vel er að gáð.
Áður fyrr, reyndar um árþúsund, voru

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

helstu samgönguæðar til Grindavíkur um Skógfellaveg frá Vogum, Skipsstíg og Árnastíg frá Njarðvíkum og Keflavík og Prestastíg frá Höfnum. Hafa ber í huga að sama gildir um Reykjanesbrautuna sem og alla aðra þjóðvegi landsins.
Skömmu eftir aldamótin 1900 var svo byrjað á því að gera Skipsstíginn vagnfæran frá Grindavík og með Lágafelli, en svo virðist sem horfið hafi verið frá því, en þess í stað ákveðið að ryðja nýja þjóðbraut frá Stapa milli Skógfellavegar og Skipsstígs. Líklega hafa þessar umbætur verið liður í atvinnubótavinnu hreppsins á þeim tíma. Uppgerði kafli Skipsstígsins vestan undir Lágafelli sést enn vel og er einstaklega fallegt mannvirki, sem ekki hefur verið raskað. Við hann er Dýrfinnuhellir. Segir sagan að í honum hafi dulist samnefnd kona með börn sín meðan “Tyrkirnir” fóru með ófriði á hendur Grindvíkingum. Hellirinn er ekki auðfundinn, en hið sæmilegasta skjól fyrir veðrum og þáverandi illmennum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Enn má sjá skjól vegavinnumanna atvinnubótahlutans við Skipsstíginn, sbr. ofangreinda ljósmynd, sem tekin var úr því árið 2006.
Gamli Grindarvíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 til 1918. Aðdraganda hans er m.a. getið í fundargerðum Grindavíkurhrepps þar sem skorað er á stjórnvöld að leggja akfæran veg til Grindavíkur í framhaldi af gerð þjóðvegarins til Keflavíkur um Stapa, samþykktum Alþingis um fjárveitingar til vegagerðarinnar, árlegum skýrslum vegavinnuverkstjórans, Sigurgeirs Gíslasonar, athugasemdum við reikningshaldið, svörum hans sem og úttektarnótur í Einarsbúð í Grindavík er hafa varðveist í höndum Erlings Einarssonar, þess sjaldgæfa varðveisluhaldara.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Vegurinn var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Grindvískir formenn samþykktu, flestir, að láta lifrina ganga upp í kostnaðinn þeim megin. Verkstjórinn við vegagerðina var nefndur Sigurgeir frá Hafnarfirði, reyndur vegagerðarmaður. Hann segir m.a. í skýrslu sinni 11. nóv. 1917 að vegurinn hafi alls verið 16 km og 120 m frá Vogastapa að verslunarhúsum við Járngerðarstaðavík í Grindavík. Við vinnuna voru 35-48 menn að jafnaði frá vori að hausti með 13-16 hesta. Til eru listar með nöfnum vegagerðarmannanna sem og hvað þeir fengu í þóknun fyrir verkið. Þá má vel sjá hvað tekið var út úr Einarsbúð til verksins. Vegna alls þess er hér bæði um merkilega sagnfræðilegar heimildir að ræða og ekki síst fornfræðilegar því minjarnar standa víða enn – óhreyfðar, vegna þess að þær hafa hingar til verið “ósýnilegar” í hraununum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Vegurinn sést enn frá Vogastapa, niður í Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram austan við Seltjörn. Þá sést hann einnig á kafla vestan vegarins vestan Svartsengisfells (Sýlingafells) að Selhálsi og yfir hálsinn.
Meðfram veginum, frá Seltjörn að Grindavík, í Skógfellshrauni, Arnarseturshrauni, Illahrauni og Klifhólahrauni, eru fjölmargar minjar vegavinnuframkvæmdanna, þ.e. búðir og skjól vegavinnumanna. Búðirnar eru á nokkrum stöðum og hafa hlaðin hús á þeim verið svipuð að stærð. Ein ástæðan var sú að vegavinnumenn voru með fjögur þök í fórum sínum og færðu þau á milli búða.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Því miður varð svæðið meðfram Grindavíkurveginum mjög illa leikið þegar nýi vegurinn var lagður með stórvirkari tækjum. Ekki er ólíklegt að þá hafi margar minjar hreinlega verið eyðilagðar. Sýnilegar minjar enn þann dag í dag eru á u.þ.b. 500 metra millibili meðfram gamla veginum. Ef vegavinnumenn hafa sett að jafnaði upp búðir með því bili vantar nokkrar þeirra nyrst í Skógfellahrauni og Arnarseturshrauni þar sem jarðýtur hafa við umbótagerð farið um langt út fyrir vegstæðið. Helst er að sjá að búðir, sem reistar voru í skjóli við hraunhóla og hæðir eða í hrauntröðum hafi sloppið við eyðileggingu. Í dag hefði verið bæði gaman og fróðlegt að hafa allar búðirnar, en saman mynduðu þær heilstæðasta mynd frumstæðrar vegagerðar um og eftir aldamótin 1900 – þegar allt var enn unnið á höndum með aðstoð hesta.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – búðir við Bláalónsveginn.

Þegar FERLIR fór í sína 395. ferð um Reykjanesið voru minjarnar við Grindavíkurveginn skoðaðar. Hér á eftir verða taldir upp staðir, sem skoðaðir voru á leiðinni frá Seltjörn að Járngerðarstaðahverfi í Grindavík, en áður höfðu verið skoðaðar minjar allt frá gömlu vegamótum Grindavíkurvegar og Keflavíkurvegar uppi á Stapanum. Þar mótar enn fyrir hleðslum vestan við gatnamótin, í sunnanverðri Njarðvíkurheiði og undir Selbrekkum (í skóginum).

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – Búðir í Hesthúsabrekku.

Við nýlega skoðun kom hins vegar í ljós að við gatnamót Keflavíkurvegar og Grindavíkurvegar og Vogastapa höfðu framkvæmdir, sem unnar voru þar á þessu ári (2006) og því síðasta, eyðilagt þessar minjar. Þó má enn sjá hluta af garðlagi er umlukið hefur búðir vegavinnumannanna.
1. Sunnan Seltjarnar (Selvatns) liggur vegur að Stapafelli. Á milli hans og tjarnarinnar er hlaðin rétt upp á hæð svo og gerði.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Handan vegarins eru tóftir sels, Innra-Njarðvíkursels. Selstaðan var nýtt sem hluti af búðum vegavinnumanna um tíma.
2. Austan Grindavíkurvegar, nokkuð sunnan gatnamótanna að Seltjörn (Selvatni), er gömul rudd gata inn í hraunið. Lúpínubreiða er við vegabrúnina þar sem gatan byrjar. Hún liggur að búðum um 50 metrum inn í hrauninu. Þar eru hluti af hlöðnum húsum, skjól og rutt svæði fyrir tjaldbúðir. Skammt sunnan götunnar, nær veginum, er hlaðinn hringur, sennilega skjól fyrir tjöld.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – búðir norðan Gíghæðar.

3. Skammt sunnar, á hægri hönd eru þrír hlaðnir skjólgarðar utan í hraunhól, u.þ.b. 30 metrum frá veginum.
4. Á vinstri hönd er stigi yfir girðingu, sem liggur samhliða Grindavíkurveginum. Stígur er frá stiganum, varðaður, að helli, sem nefndur hefur verið Hestshellir. Hlaðið er fyrir opið, en dyragat á. Inni í hellinum eru hleðslur. Hann liggur til vesturs, undir veginn, og er um 160 metra langur. Hellirinn var notaður sem skjól fyrir vegavinnumenn, en einnig mun hann hafa verið notaður sem skjól bruggerðarmanna um tíma.
5. Á hægri hönd, örskömmu sunnar, eru klettar um 10 metrum frá veginum. Utan í öðrum hólnum er hlaðið hús, heillegt. Inni í því er skúti.
6. Þegar komið er framhjá gatnamótum vegar að Arnarsetri er jarðfall vinstra megin vegar, rétt fyrir innan girðinguna. Norðan í því er Dátahellir. Í hellinum fundust bein og fataleifar, hnífur, beltissilgja o.fl. af bandarískum dáta, sem hvarf þarna í hrauninu. Beinagrindin fannst þarna fyrir innan stein, sem nemur við hellismunnann.
7. Skammt þar frá, sömu megin, einnig rétt fyrir innan girðinguna, er hlaðið hús, hesthús vegagerðarmanna, ofan í hraunrás. Stígur liggur frá því til suðurs og beygir síðan til austurs, að öðru hlöðnu, heillegu húsi, smiðju. Þá blasa við tvö önnur hlaðin hús, svo til heil. Annað var hesthús og hitt var læst verkfærageymsla. Austan við þau er rutt skeifulaga svæði. Það hefur annað  hvort, eða hvorutveggja, verið notað undir tjald eða til járninga. Þar má a.m.k. enn sjá steininn, sem notaður var til þeirra verka.
8. Handan vegarins er bílastæði. Í vesturjarðri þess er djúp hola, sem myndaðist er unnið var við nýja veginn. Í holunni er u.þ.b. 60 m langur hraunhellir; Dollan.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.

9. Í brekkunni á vinstri hönd eru hleðslur, sennilega skjól fyrir hesta.
10. Á hægri hönd, rétt áður en komið er að gatnamótum vegar að Bláa Lóninu, er stór hleðsla skammt frá veginum. Við hana er önnur hleðsla. Þarna gætu vegavinnumenn hafa hlaðið sér skjól, enda hleðslunar svipaðar hinum, en vitað er að menn, sem lögðu símann til Grindavíkur (strengurinn liggur þarna við) hafi nýtt sér þetta sem skjól.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

11. Þegar komið er framhjá gatnamótunum og aðeins upp á hæðina eru hlaðin hús, hálffallinn, innan við 10 metra frá veginum. Þó er þarna heill hlaðinn veggur og rutt svæði.
12. Hlaðinn hringur er skammt sunnar, hægra megin vegar, ca. 15 metrar frá vegi. Þetta er líkast til skjól.
13. Hlaðinn stallur er vinstra megin vegarins, ca. 10 mertum frá, rétt áður en komið er út úr hrauninu við slóðan að Svartsengisfelli.
14. Upp úr Svartsengi, þar sem grastungan nær lengst til norðurs, liggur stígur upp í hraunið og áfram í átt að búðunum vestan við Arnarsetrið. Hlaðið er í stíginn á nokkrum stöðum. Líklega er um að ræða stíg vegagerðarmanna þar sem farið var með vistir áður en vegurinn náði að Svartsengi, en byrjað var á honum að norðanverðu, á Stapanum. Þarna fyrir ofar við stíginn er klettur, nefndur September, en tekið var mið af honum þegar verkið var látið falla niður eitt haustið.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.

15. Rétt áður en komið er að Selhálsi er tótt í hlíðinni á vinstri hönd, innan við 10 metra frá veginum. Þetta er tótt Hópssels, en Hóp átti land þangað. Skammt þar sunnan af sést móta fyrir stekk í hlíðinni.
16. Hægra megin vegarins, vestan í Selhálsi, sést móta fyrir tótt í lægð. Líklega er um að ræða hluta af Hópsseli.
17. Á Baðsvöllum var sel frá Járngerðarstöðum. Tóttir selsins sjást í vesturjaðri hraunsins norðan Þorbjarnarfells. Einnig er tótt austar á völlunum, við vatnsstæði, sem þar er. Vegna ofbeitar var Baðsvallarselið flutt upp á Selsvelli, þar sem Grindarvíkurbæirnir höfðu lengi í seli, bæði austan á völlunum og suðvestan í þeim. Enn sést móta vel fyrir tóttum seljanna á S

elsvöllum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

18. Þegar komið er upp á Selháls (Dagmálaháls) sjást Gálgaklettar vel á vinstri hönd. Þar segir þjóðsagan að hreppsstjóri hafi hengt þjófa eftir að hafa fangað þá við laugar norðan Þorbjarnarfells.
19. Á hægri hönd er Þorbjarnarfell. Efst í því er Þjófagjá. Þar áttu þjófarnir 13 að hafa hafst við á milli þess að þeir herjuðu á bæina fyrir neðan. Uppi á fjallinu eru einnig stríðsminjar.
20. Brekkan, niður að bænum, kallast Hesthúsabrekka. Vinstra megin hennar, áður en komið er að vatnsgeyminum, eru hraunhólar. Þar höfðu vegagerðarmenn búðir sínar áður en vegagerðinni lauk. Skammt norðar er gígur þar sem þeir tóku efni í veginn.
21. Sunnan vatnsgeymisins er Gaujahellir, Jónshellir öðru nafni. Hann lá áður alla leið þangað sem félagsheimilið Festi er nú. Hellirinn er sagður hafa verið notaður sem brugghellir um tíma. Saga er af mönnum, sem lokuðust inni í hellinum í jarðskjálfta, en komust út.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur

Hellirinn er í einni af þremur gjám, sem lágu í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Sú austasta heitir Stamphólsgjá. Í henni var Grindavíkurhellir, sögufrægur hellir í árdaga hraunhellafundanna hér á landi, en síðustu leifar hans fóru forgörðum með nýjasta hverfinu, sem nú rís í bænum. Hellinum hafði lítil virðing verið sýnd því við opið hafði verið kastað alls kyns rusli áður en endanlega var fyllt upp í það. Opið er nú undir einu vegarstæðinu, en frá því lá alllöng og greiðfær rás til suðausturs. FERLIR hefur að öllum líkindum farið síðustu förina um hellinn (árið 2006) áður en honum var lokað.

Eins og sjá er fjölmargt athyglisvert við Grindavíkurveginn, sem reyndar mjög fáir vita um. Ef skoða á þessa staði er mikilvægt að ganga vel um og minnug árdaga; að raska ekki minjunum. Þá má ekki skilja eftir rusl eins og fólk er svo gjarnt á að gera að stöðum sem það heimsækir. En að teknu tilliti til umhverfisins getur þetta allt breyst með skömmum fyrirvara – þegar fram líða stundir.

Skipsstígur - útsýni úr skjóli vegavinnumanna

Krýsuvík

Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) var í Vinnuskólanum í Krýsuvík á árunum 1953-’54.

Benedikt Elínbergsson

Benedikt Elínbergsson.

“Í þá daga fóru drengirnir heim á föstudögum og sneru aftur til vinnu á mánudögum. Síðar breyttist það í að drengirnir voru tvær vikur í senn í Krýsuvík, en fengu þá helgarfrí. Eyjólfur Guðmundsson og Snorri Jónsson, kennarar, veittu Vinnuskólanum forstöðu í fyrstu. Þeim til aðstoðar voru jafnan tvær til þrjár stúlkur, t.d. Guðrún Ágústsdóttir og Hulda Run. Viðdvölin tók breytingum eftir því sem tímar liðu”.
Benedikt var í framhaldinu við vinnu hjá Jóhannesi Trapp í garðyrkjustöðinni eitt sumar, tvö sumur hjá Reyni Ragnarssyni á búinu og eitt sumar hjá Hrafni Ólafssyni við fjárbúið. Jens Hólmgeirsson var þá kominn til starfa og turnarnir tveir við enda fjóssins byggðir.

Krýsuvík

Gróðurhúsin 1950.

Einungis vestari turninn var tekinn í notkun, enda hann þá með þaki. Í hann var blásið söxuðu heyi fyrir fjárhaldið. Díselknúin rafstöð (ljósavél) var í Krýsuvík og átti hún það til að “slá út” þegar álagið á blásarann var hvað mest. Þegar upp var staðið voru þarna í fjósinu hátt í þúsund kindur. Krýsuvík var góð bújörð. Reynir var gamansamur. Eitt sinn spurði Jóhannes hann að því hvað tiltekinn tvíhornóttur lambhrútur í hjörðinni væri gamall. Reynir: “Hann er tveggja vetra”. Jóhannes: “Hvernig sérðu það?”. Reynir. “Á hornunum”. Jóhannes: “Huh, ég gat sagt mér það sjálfur”.
Ýmislegt var brasað í Krýsuvíkinni á þessum tíma, m.a. var Hlín Johnson í Herdísarvík veitt aðstoð við heyskap. Sagt var að jafnan rættist sú spá hennar að eftir að Herdísarvíkurtúnið hafði verið slegið tæki við fjögurra vikna þurrkur á Selvogssvæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík 1964 – bæjarhóllinn ruddur með jarðýtu. Ljósm. Þór Magnússon.

Hluti bæjarhóls gamla Krýsuvíkurbæjarins var ruddur með jarðýtu 1956 og restin af honum 1964. Söknuður er af mannvirkjunum þótt fátækleg hafi verið orðin. Í kirkjunni, sem Björn Jóhannesson, formaður “Krýsuvíkurnefndarinnar” endurbyggði, var jafnan altaristafla, bogadregin að ofan. Hún var í kirkjunni að sumarlagi, en hékk uppi á vegg í Sólvangi þess á millum – eða þangað til Þjóðminjasafnið tók hana til handargagns. Ólíklegt er að almenningur fái að njóta altaristöflunnar eftir að hrammar safnsins hafi náð að klófesta hana.

“Þú mátt gjarnan fjalla um “Krýsuvíkurnefndina” svokölluðu  sem og störf hennar”, stakk Benedikt upp á við viðmælanda. “Þá hafa störf Björns Jóhannessonar í Krýsuvík verið vanmetin. Hann endurbyggði t.d. Krýsuvíkurkirkju 1986”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.

Stjórnmálamenn hafa deilt um byggingu mannvirkja og ýmsar framkvæmdir í Krýsuvík frá því að Hafnarfjarðabær keypti landið sunnan Kleifarvatns að Krýsuvíkurbergi af Ríkinu eftir að hafa verið tekið eignarnámi 1936. “Krýsuvíkurnefndin” svonefnda, skipuð af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, fór ekki varhluta af deilunum. Hér á eftir verður lesendum gefinn nokkur smjörþefnur af álitamálum þeim er að framangreindu laut:

Í Hamri 29. sept. 1954 segir: “Á bæjarstjórafundi [í Hafnarfirði], sem haldinn var 14. þ.m. samþykkti bæjarstjórnarmeirihlutinn að stofna til sauðfjárbúskapar í Krýsuvík. Samþykkt var tillaga Björns Jóhannessonar, formanns Krýsuvíkurnefndar, að keypt verði 100 gimbralömb um haustið.” Aðrir í nefndinni voru Gísli Guðmundsson og Helgi S. Guðmundsson.

Krýsuvík

Fyrstu fulltrúar Hafnarfjarðabæjar meta aðstæður í Krýsuvík um 1940. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 19. maí 1950, þ.e. um það bil fjórum árum fyrr er fjallað um kosningu fulltrúa í Krýsuvíkurnefnd: “Á bæjarstjórnarfundi 25. apr. s.l. var samþykkt í bæjarstjórn að kjósa sérstaka nefnd til að fara með málefni Krýsuvíkur.
Frestað var að kjósa í nefndina þar sem ekki mun hafa verið fundinn framsóknarmaður, sem Alþýðuflokkurinn gat fellt sig við. Loksins fannst maður, sem fært var talið að tæki sæti í nefndinni er það Sigurður Guðmundsson kaupmaður. Mun hann hafa verið tregur til starfans þar sem heilsa hans leyfir honum því miður ekki að leggja sitt lið fram eins og sakir standa. Á síðasta fundi voru kosnir í nefndina auk Sigurðar Ingólfur Flygenring og Vigfús Sigurðsson.”

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegurinn lagður um Helluna við Kleifarvatn 1936-’37. Ljósm. Emil Jónsson.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 27. maí 1950 segir í fréttum “Frá bæjarstjórnarfundi”: “Fundur var haldinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þiðjudaginn 16. maí s.l. Á þessum fundi var nokkuð rætt um garðyrkjustöðina í Krýsuvík og starfsemina þar. Samþykkt var á fundinum samkvæmt tillögu meirihluta bæjarráðs þeirra Emils Jónssonar og Óskars Jónssonar að fela bæjarstjóra að ráða garðyrkjumann að gróðrarstöðinni, þar, sem Einar Þórir, garðyrkjumaður, hefur sagt upp starfi sínu, og hann óskar að losna úr starfi sínu, eins fljótt og orðið getur, og að upplýst er að Óskar Sveinsson, sem hefur verið veikur um hálfs árs skeið, er enn ekki fær til fullrar vinnu.
Þá lögðu þeir Emil Jónsson og Óskar Jónsson til við bæjarstjórn, að Jens Hólmgeirssyni verði falin framkvæmdastjórn við garðyrkjustöðina í Krýsuvík ásamt framkvæmdastjórn búsins, og yfirumsjón að undirbúningi þess.
Á fundinum var kosin þriggja manna Krýsuvíkurnefnd, í henni eiga sæti: Vigfús Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson og Ingólfur Flygenring.”

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Sjá má hvernig vegurinn er “púkkaður” skv. gamla laginu.  Ljósm. Emil Jónsson.

Í Hamri 21. mars 1954 er dálkur; “Eitt og annað…”. Þar segir m.a.: “Þegar veðurblíðan er svona mikil, þá er ekki óeðlilegt að þeir fari eitthvað, að hugsa til hreyfings, sem ætla að fást við landbúnað. Það var líka ekki látið bíða, að Krýsuvíkurnefnd legði land undir fót og héldi til Krýsuvíkur til að skoða öll herlegheitin þar. Enda fer varla hjá því, að margt hljóti að vera þar með myndarbrag, þar sem Krýsuvíkin mun vera orðin ein dýrasta jörðin á Íslandi.
Til er gamalt máltæki, sem segir að sjaldan launi kálfar ofeldið. Það virðist eitthvað því líkt hafa gerst í Krýsuvík. Þó að bændur þessa lands hafi ekki fengið nálægt því jafnmikið fé handa á milli og búandinn í Krýsuvík, þá hefur líklega enginn skilað eins litlum arði, ávaxtað sitt pund eins illa og hann. Það er ekki einungis, að það pund korni aftur án þess að vera ávaxtað, heldur kemur það aldrei allt aftur og ekki nóg með það, heldur dregur það til sín og sóar arði annarra punda, svo að til stórvandræða horfir.

Krýsuvík

Vinna í gróðurhúsunum.

Það vantar svo sem ekki, að í mörgu hefur verið vasast í Krýsuvík. Þar hafa verið byggð íbúðarhús yfir starfsfólk, og man fólk vel eftir því, þegar vatnið í steypuna var keyrt alla leið neðan úr Hafnarfirði. Að vísu voru fáir, sem skildu þá ráðdeildarsemi!! Það hafa verið byggð gróðurhús og minriast menn þess, að fyrstu gróðurhúsin máttu hafnfirzkar hendur ekki smíða ekki einu sinni íslenzkar, heldur voru þau flutt inn frá Noregi. Og Norðmenn eru oft gamansamir, enda höfðu þeir svo litlar dyr á húsunum, að varla var hægt að komast um þær með tómatkassa í fanginu og moldinni varð að sturta af bílunum utan dyra og moka henni svo aftur upp í hjólbörur og aka henni inn. Til þessa verks var þó notaður íslenzkur vinnukraftur.
Þá hefur verið látið mikið af ræktuninni í Krýsuvík. Þar hafa skurðir verið grafnir og lokræsi gerð. Jörðin hefur verið plægð og sums staðar herfuð. En — það hefur engan ávöxt gefið. Ekkert gras, ekkert hey, ekki einu sinni beit. Ekki hefur þó skort áburð, hann var keyptur fyrir nær áratug og er geymdur enn, að nokkru leyti og mun hann vera talinn elzti tilþúni áburðurinn á landinu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir að störfum við túnrækt…

Tveir himinháir votheysturnar gnæfa þar efra á bökkum Grænavatns en þeir eru báðir þaklausir og að sjálfsögðu tómir, aðeins steinhólkarnir. Fyrir þeim fékkst fjárfestingarleyfi á mjög erfiðum tíma, því það voru að eins veitt leyfi til að byggja 10 slíka turna á landinu öllu. Þetta voru því fágætar byggingar og gaman að eiga þær. Það mun því hafa þurft mikinn dugnað til að fá fjárfestingarleyfin og sennilega ekki nokkur leið öðruvísi en að fórna leyfum, sem e.t.v. hefði verið hægt að fá fyrir öðrum framkvæmdum eins og t.d. yfirbyggingu sundlaugarinnar, steypu á Strandgötunni, byggingu húsmæðraskóla eða einhverju slíku niður í Hafnarfjarðarbæ.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið og turnarnir tveir. Aðstaðan er nú (2022) notuð fyrir kvikmyndatöku.

Þessir turnar hafa líka verið vel varðveittir. — Þegar turnar þeir, sem bændurnir fengu að byggja hafa verið notaðir til heygeymslu og við það hafa þeir orðið blakkir að innan og loftið í þeim blandað heylykt, þá hafa turnarnir í Krýsuvík verið látnir standa auðir, svo að á þá félli ekki blettur og loftið í þeim er tært og ferskt, enda loftræsting með afbrigðum góð!!

Krýsuvík

Krýsuvík 2022.

En það eru fleiri byggingar í Krýsuvík. Þar hefur verið byggt fjós yfir á annað hundrað nautgripi. Það er að vísu ekki nema veggir og þak. Frá innri skipan hefur ekki verið gengið, né heldur hreinlætistækjum. Hins vegar eru geymd þar nokkur jarðvinnslutæki svona yfir vetrartímann. Fjós þetta á sér einna merkasta sögu fyrir það, að svo mikið lá á byggingu þess, að menn þeir, sem voru að byggja Sólvang, voru teknir úr þeirri vinnu til að hraða fjósbyggingunni. Sólvangur var því látinn bíða nokkuð það var meira aukaatriði, hvort hann yrði tekinn í notkun árinu fyrr eða síðar.

Krýsuvík

Seltún – borað með “höggbor”. Ljósm. Emil Jónsson.

Krýsuvíkurnefnd hefur nú skoðað alla þessa dýrð og rifjað upp söguna um allar framkvæmdirnar og hugsar „ráðstjórnar“-hluti nefndarinnar sér að sjálfsögðu eitthvað til hreyfings, þar sem nýbúið er að samþykkja stóra fjárveitingu til Krýsuvíkur. Einn ljóður er þó á þessu öllu saman. Í upphafi vega hafði verið ráðinn bústjóri. Var hann sendur utan til að forframast í búskap. Var einkum talað um það, að hann hefði kynnt sér, hvernig fara ætti með rauðar kýr, svo að þær gæfu sem beztan arð, en að sjálfsögðu hefur hann kynnt sér margt fleira og verið mjög vel að sér, þegar hann kom, að minnsta kosti skrifaði hann um nýja tegund kúa, sem hann nefndi „votheyskýr“, í Tímann eftir að hann kom úr utanför sinni.
En það var fleira, sem hann lærði í búvísindum, — Þegar hann gerði áætlun um rekstur kúabús í Krýsuvík, þá reiknaði hann alla mjólkina til tekna og svo reiknaði hann á móti til gjalda þá mjólk, sem fór til kálfaeldis. Það merkilegasta í þessu var það, að hann reiknaði hvern lítra 8 aurum meira til tekna en hann reiknaði hann til gjalda aftur. Þannig græddi hann 8 aura á hverjum lítra, sem kálfarnir drukku, náttúrlega auk gróðans af eldi kálfanna.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2023.

En nú er bústjórinn horfinn með alla þekkinguna, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að láta hann afla sér. „Ráðstjórnin” þarf því að grípa til nýrra ráða í þessum efnum. En hver verða þau? Á að halda áfram að koma upp kúabúi og baka bæjarbúum þannig stórra fjárútláta í viðbót við það sem orðið er? Eða á að fara að tillögum Sjálfstæðismanna um að athuga möguleikana til að koma upp iðnaðarfyrirtæki eða tækjum í Krýsuvík og hagnýta þá fjárfestingu, sem þegar er orðin í Krýsuvík, til þeirra hluta, eftir því sem við verður komið? “

Svo mörg voru þau orð… eða eins og Benedikt orðaði það: “Ég man aldrei eftir, meðan ég dvaldi í Krýsuvík, að nokkurn skugga hafi fallið á starfsemina þar”.

Þrátt fyrir pólitískar deilur um uppbyggingu og framkvæmdir í Krýsuvík eftir miðja síðustu öld hefur engum slíkum verið að dreifa um Vinnuskólann…

Heimildir:
-Hamar VIII. árg. 29. sept. 1954, bls. 1.
-Hamar IV. árg. 19. maí 1950, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. árg. 27. maí 1950, bls. 2.
-Hamar VIII. árg. 21. mars 1954, bls. 2 og 3.
-Viðtal ÓSÁ við Benedikt Elínbergsson (09.09.1941) 31. mars 2023.

Krýsuvík

Fjósið og turnarnir í Krýsuvík 2023. Bústjóra- og starfsmannahúsið, auk gróðurstöðvarinnar ofar. Hetta efst og Hveradalur t.h.

Hamarinn

Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson skrifaði bók, “Bær í byrjun aldar”, og gaf út handskrifaða, á eigin kostnað, árið 1967. Í henni fjallar hann m.a. um nánast alla íbúa sem og hús og bæi í Hafnarfirði árið 1902. Um Hamarskot segir hann:

Magnús Jónsson

Baksíða bókar Magnúsar Jónssonar “Bær í byrjun aldar”.

“Hamarskot; nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn af hamrinum, en svo var farið að kenna hamrinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarkoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt.
Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi?, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn.
Börnin sem heima voru; Júlíus, bjó með Herdísi Stígsdóttur Auðunnarsonar, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík -, Sigurður Gunnlaugur trésmiður, kvæntur Ólöfu Rósmundsdóttur, Una, dó um fermingaraldur og Jarðþrúður, giftist fyrst Kjartani Jakobssyni en síðar Helga Kristjánssyni. Agnar var farinn að heiman og einnig Anna og Sigríður, en þeirra verður getið síðar.
Þorlákur dó 1926, en Anna kona hans 1930.
Sigurður Gunnlaugur Þorláksson trésmiður dó 1974 og kona hans Ólöf Rósmundsdóttir 1975.”

Hamarskot

Hamarskot – örnefni skv. lýsingum fyrrum.

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær frá 2020 segir m.a. um Hamarskot: “Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel.
Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði.15 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona: „ Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.”

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 1906 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona: „Hamarskot: Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum. Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.”

Hamarskot

Hamarskot – Hafnarfjörður um 1930.

“Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e. 9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti“. Ekki er til túnakort af Hamarskoti.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hamarskot

Hafnarfjörður 1902.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar.
Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar.

Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.

Hamarskot

Hamarskot. Uppdráttur Jóns Víðis 1925-1926 af Hafnarfirði. Hamarskot neðst t.v.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hafnarfjörð segir m.a.:
“Þar innar [Vesturshamars] tekur svo við hið forna Hamarkotsland. Nú er allt Hamarkotsland innlimað í kaupstaðinn.
Þá er, eða réttara var, Hamarkotsmöl. Þar upp af austast var Hamarkotshamar, en milli hamranna uppi er stundum nefndur Austurhamar. Allmikið og gott útsýni er af Hamrinum. Neðan hans og inn með honum er undirlendi frá Hamarskoti, og heitir það Brekka, og neðan hennar Undir brekku eða Undirhamarstún. Frá Vesturhamri náði svo mölin alla leið að stærsta vatnsfallinu, er rennur í Hafnarfjörð, sem heitir Hamarkotslækur eða Hafnarfjarðarlækur. Lækur þessi kemur með suðurbrún Garðahrauns. Um það bil syðst í mölinni var lækur, sem hét Góðholulækur. Hann kom úr lítilli uppsprettulind, sem hét Góðhola og var vatnsbólið frá Hamarkoti. Við Hamarkotslæk, þar sem h/f Dvergur er nú, hét Moldarflöt. Yfir hana flæddi stundum, sökum þess, hve lág hún var, og rétt ofar var smáhólmi í læknum, er hét “Á Myllunni”. Þar hafði verið mylla áður fyrr. Sagt var, að þegar flúðir, sem voru í læknum, báru í Setberg, hafi verið rétt innsigling á Hafnarfjörð. Í svonefndu Loftsstaðatúni er steinn fastur við þjóðkirkjuna, sem heitir Dvergasteinn. Stein þennan vill enginn hreyfa, því munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta óhegnt.”

Hamarskot

Ábúendur í Hamarskoti 1902.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni Hamarskots:
“Hamarskot, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Var fyrr meir hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en allt frá stofnun kaupstaðar í Hafnarfirði hefur jörðin tilheyrt Hafnarfirði.
Hamarskotsbærinn stóð í Hamarskotstúni vestarlega, rétt ofan til við Hamarskotshól. Túnið liggur í slakka ofan, norðan frá Hamrinum sem gengið hefur undir nöfnunum Hamarskotshamar eða Hafnarfjarðarhamar. Syðsti hluti Hamarsins er nefndur Háhamar. Hamarskotstúngarðar lágu að túninu, að sunnan Suðurtúngarður, og austan Austurtúngarður. Ofan frá bænum lágu Suðurtraðir í Suðurtraðarhlið. Austur frá bænum lágu Austurtraðir í Austurtraðarhlið. Hamarskotsbrunnur lá í slakkanum suðvestur og niður frá bænum og þangað lá Brunngatan. Brunnurinn var þar sem nú er húsið nr. 25 við Brekkugötu [á að vera Selvogsgata 2]. Hamarskotsstígur lá frá bæ norður og niður í bæ. Rétt við Suðurgarðinn rann lækur ofan frá Öldum. Var að jafnaði vatnslítill en óx mjög oft í leysingum. Nefnist hann Aldnalækur hér efra.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hér sunnan lækjarins lá Selvogsgatan og áfram upp á Öldurnar. Hér fram og upp sá Kvíholtið, þar á austurbrún var Kvíholtsvarðan, markavarða milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Niður undan holtin[u] rann Kvíholtslækur. Varla til nema þegar leysingar voru. Þar voru gróin börð, nefndust Fagridalur, þar er nú byggðin Hlíðarbraut. Neðan lækjarins var Austurhamar, mest berar klappir. Þar var klapparbrún nefnd Strýta. Vestan við var slakki, þar um lá Ófriðarstaðastígur um Hamarsbrekkuna. Eftir að Suðurgatan var lögð þar um, nefndist hér Illubrekka. Var hún allbrött og hálka mikil þar á vetrum. Ennfremur gott sleðafæri og óspart notað. Hér vestur af tók við Vesturhamar. Norðan í honum sniðskar sig Alfaravegurinn, var þar þjóðbraut. Vesturhamar var einnig nefndur Sjávarhamar, Skiphamar og Knud Zimsen nefnir hann Flensborgarhamar. Á nyrstu brún hans var mark Hamarskots og Ófriðarstaða. Rétt austan við Ófriðarstaðastíg við Selvogsgötuna var lindin Góðhola. Var það besta vatnsból hér um slóðir.

Hamarskot

Fjárhellir við Hamarskotssel.

Austan við Hamarinn lágu götutroðningar nafnlausir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð. Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan. Hér kom Selvogsgatan og lá inn á Mosahlíð en þar var í eina tíð Mosahlíðarvarða, landamerki milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Héðan lá gatan niður á hraunspöngina við Lækjarbotna, Efri-. Vestan af Markaþúfu lá landamerkjalína hér um og upp á og suðaustur eftir Gráhelluhrauni, um Gráhellu upp í Kethellisvörðu á Kethelli eða Hamarskotsseli. Niður undir hrauninu sunnan Lækjarbotna lá Kaldárselsstígur inn með hrauninu. Var þar í hraunbrúninni Hraunréttin, Gamla-. Rétt innar, þar sem nú er Fjárhliðið, var upp á hryggnum Hlíðarþúfur og voru þar mörkin. Þessi hluti hraunsins er nú allur trjáræktargirðing. Spölkorn innar eru Flatirnar, þar var lagður skeiðvöllur í eina tíð. Út á hrauninu er Hraunréttin, Nýja- . Er nú langur vegur inn með hrauninu þar til komið er í Moldarkrika en í Moldarkrikavörðu eru mörkin og liggja svo héðan í Steinhús eða Steinhes á Fremstaholti. En úr Steinhúsi liggur línan um Sléttuhlíð vestanverða og Sléttuhlíðarhorn í Kethellisvörðu.”

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í minningargrein um Magnús Jónsson í Morgunblaðinu 11. febrúar 2000 segir m.a.:
“Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn.
Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna “Bær í byrjun aldar” og “Hundrað Hafnfirðingar” I, II og III.
Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.”

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson, 1967, bls. 23-24.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-Örnefnaskrá fyrir Hamarskot – Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær, 2020, bls. 6-11.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Þórukot

Þórukot var bær á holtinu ofan Litla-Hamars skammt frá Mýrarhúsum og Holti, norðan Ófriðarstaða (Jófríðarstaða). Norðan Þórukots var myndarlegur grjótgarður er afmarkaði umdæmið. Bærinn stóð skammt vestar þar sem [fyrrverandi] leikskóli austan St. Jósepsspítala var [áður en hann var rifinn].

Þórukot

Þórukot (Klapparholt) 1926 og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.

Þjóðsaga var skráð á landi Þórukots. Tengist hún svonefndri “Þóruklöpp”, sem var innan nefnds túngarðs og var nefnd eftir síðasta ábúanda kotsins.
Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni.

Önnur þjóðsaga tengist Jófríðarstaðahól, þar skammt sunnar, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.

Þórukot

Þórukot – uppdráttur settur ofan á loftmynd frá 2022.

Enn sést hluti grjótgarðs Þórukots, sem hlaðinn var á öðrum áratug síðustu aldar. Sumir hafa talið garðinn þann vera a.m.k. frá tímum siðaskipta og þar af leiðandi elstan slíkra í Hafnarfirði.

Garður þessi gæti vel verið sá elsti í Hafnarfirði, þótt ungur sé (gæti ekki verið heillegri), enda hafa bæjarbúar verið iðnir við að endurnýta allt tilfallandi grjót í gegnum tíðina og bæjaryfirvöld hafa á sama tíma verið sérstaklega dugleg við að horfa framhjá öllu því sem gamalt getur talist. Skv. fornleifaskráningu Byggðasafnsins 2020 er garðurinn þessi frá Þórukoti er stóð þarna skammt frá; sagður í fornleifaskráningu vera frá 1900-1950. Gamli túngarður Ófriðarstaða (Jófríðarstaða) skv. túnakorti náði langleiðina þangað niður eftir. Hamarskot var skammt norðaustar. Bærinn Holt var í millum. Holtsgata dregur nafn sitt af bænum. Þarna var landamerkjagarður fyrrum. Sá garður er horfinn undir nýja byggð fyrir löngu.

Þórukot

Þórukot – garður.

Ekki er með öllu hægt að útiloka að einhverjir steinar úr görðum á þessum slóðum, hvort sem þeir hafi verið hlaðnir í veggi um siðaskiptin eða jafnvel umhverfis einstaka kot í upphafi byggðarinnar millum Akurgerðis að austanverðu og Hvaleyrar að vestanverðu, hafi ratað í garðinn þann arna. Þó verður að telja ólíklegt að grjótið hafi verið borið í þá um langan veg. Steinarnir í garðinum eru margir allstórir. Ýtir það undir þau rök að hann hafi verið hlaðinn eftir að viðhlítandi tækjabúnaður hafi verið orðinn til.

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Hafa ber í huga að Jófríðarstaðir voru fyrrum jörð út frá Hvaleyri. Ófriðarstaðir (Jófríðastaðir) eru því mun yngri sbr. https://ferlir.is/sitthvad-um-fjordinn-magnus-mar-larusson/. Ef leita ætti að elstu garðleifunum í „Hafnarfirði“ (hafa ber í huga að bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1908) væri nær að leita að eldri minjum á Hvaleyri og nágrenni. Þar hafa golfarar því miður farið offari við að afmá einstakar minjar frá fyrri tíð, líkt og bæjaryfirvöld hafa reyndar gert í gegnum tíðina.
Jón og ÞóraMikilvægt er að gefa fólki kost á að deila um „hluti“ sem þessa, sem í raun skipta engu máli í samhengi hlutanna. Merkilegustu fornleifar byggðalagsins hafa, því miður, síðustu árin, legið óbættar hjá garði.

Í bók Magnúsar Jónssonar, “Bær í byrjun aldar” segir m.a.: “Hér verður einnig minnst á á önnur hjón sem voru á þessum stað? [Holti] stuttan tíma og máttu þá þröngt sáttir sitja. Það voru hjónin Jón Ólafsson og Þóra Elísabet Þorsteinsdóttir. Þau höfðu gifst 1892 og voru nýflutt til Hafnarfjarðar frá Svalbarða á Álftanesi. Bæði voru þau fædd í því byggðarlagi, hann á Gamla-Hliði 1864 og hún í Haugshúsum 1863?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – kynning í Fréttablaðinu 31. mars 2023, bls. 4 (kynningarblað).

Þau voru með einkabarn sitt Sigríði, en hana misstu þau 1908. Þessi hjón komu sér upp bæ sem þau vildu nefna Klapparholt, en aðrir létu Holts-nafnið nægja. Sá bær er nú bílgeymsla st. Jósepssystra í Hafnarfirði. Jón Ólafsson dó 1916, en Þóra 1954.”

Vonir standa til að Hafnarfjarðarbær muni leggja sig fram um að varðveita eitthvað af framangreindum minjum er enn sjást, enda hafa bæjaryfirvöld gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja “varðveita menningarminjar” í bænum, sbr. Fréttablaðið 31, mars 2023, bls 4 (kynningarblað).

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær 2020, bls. 16 og 27.
-Bær í byrjun aldar, Magnús Jónsson, 1967, bls. 14.
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/230331.pdf

Þóruklöpp

Þóruklöpp.

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni “Daglegt brauð, sem drottinn gefur“. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson“Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.”

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Krýsuvík

Í MS-ritgerð Helgu Stefánsdóttur, “Krýsuvík – á móti sólu“, frá Landbúnaðarháskóla Íslands er m.a. fjallað um sögu Krýsuvíkur:

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

“Gjóskulagarannsóknir sýna að Krýsuvík hefur verið í byggð allt frá landnámsöld. Samkvæmt Landnámu var jörðin hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs
Vígbjóðssonar. Krýsuvíkurjörðin var snemma talin til stórbýla vegna mikilla landgæða, sjávarfangs og hlunninda, t.d. eggjatekju, trjáreka og bjargfuglatekju í Krýsuvíkurbergi. Um miðja 19. öld var Krýsuvík talin 31 1/3 hundruð að verðleika.

Heimildir eru um allt að 18 hjáleigur og kot í landi Krýsuvíkur, þó voru þau ekki öll í byggð á sama tíma.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1900 – Howell.

Lengst af voru í byggð Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2, Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Heimabær Krýsuvíkur stóð á allháum hól er rís upp úr sléttlendinu skammt sunnan við Bæjarfell. Þangað var bæjarstæðið flutt um miðja 12. öld í kjölfar Krýsuvíkurelda en hraunið lagði undir sig mikinn hluta af undirlendi heimajarðarinnar.

Í Krýsuvík er fyrst getið um prestskylda alkirkju árið 1203. Krýsuvíkurkirkja átti mikil rekaítök, bæði hval- og trjáreka. Kirkja var reist árið 1857 og var hún endurbyggð og endurvígð árið 1964.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árið 2010 brann síðan kirkjan til kaldra kola en um þessar mundir er unnið að endurgerð hennar. Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins.

Um aldamótin 1900 bjuggu um 90% landsmanna í dreifbýli en 100 árum seinna bjó samsvarandi hlutfall Íslendinga á þéttbýlisstöðum með 200 íbúum eða fleiri. Í lok 19. aldar hófust miklir flutningar úr dreifbýli til þéttbýlisstaða við innanverðan Faxaflóa og síðan hefur byggð í Reykjavík og nágrenni vaxið hraðar en íbúafjöldi landsins. Krýsuvík fór ekki varhluta af þessari þróun og fækkaði þar mjög í byrjun 20. aldar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Síðasti bóndinn í Krýsuvík var Magnús Ólafsson (1872-1950). Hann hóf búskap á eyðihjáleigunni Suðurkoti árið 1920 ásamt konu sinni Þóru Þorvarðardóttur (1884-1957). Þau bjuggu í gamla heimabænum í Krýsuvík þar til Þóra flutti til Hafnarfjarðar með börn þeirra svo þau gætu gengið í skóla. Magnús bjó áfram í Krýsuvík í 10 ár en eftir það dvaldi hann þar á sumrin og síðustu sumrin, eftir afhelgun kirkjunnar árið 1929, hafðist hann við í kirkjunni. Hann flutti alfarið burt vegna veikinda árið 1945.
Árið 1937 tók ríkið land Krýsuvíkur og Stóra Nýjabæjar eignarnámi. Árið 1941 var gengið frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á jörðunum Krýsuvík
og Stóra-Nýjabæ. Þetta landsvæði sem er um 43 ferkílómetrar að stærð var innlimað í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar árið 1946.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Árið 1945-1960 stóð Hafnarfjarðarbær fyrir búrekstri í Krýsuvík, túnrækt og smíði gróður- og gripahúsa. Nærri Grænavatni var byggð garðyrkjustöð, bústaður fyrir starfsmenn og íbúðarhús fyrir bústjóra kúabúsins. Frá 1949-1952 var íbúðarhúsið setið af bústjóra en frá 1953-1964 hýsti það stjórnendur vinnuskóla drengja sem Hafnarfjarðarbær rak í Krýsuvík. Síðan stóð húsið autt þar til Sveinn Björnsson (1925-1997), yfirlögregluþjónn og listamaður í Hafnarfirði, fékk húsið til afnota sem vinnustofu. Frá andláti hans hefur húsið verið varðveitt í minningu Sveins. Opnuð var sýningaraðstaða í húsinu árið 2000.

Nokkur svæði hafa verið hverfisvernduð vegna náttúruminja, þ.e. ströndin, Selalda, Sveifluháls, Seltún, Gestsstaðavatn, Grænavatn og Augað, Vesturengjar, strönd Kleifarvatns og Austurengjar. Eldborg við Litlahraun, sem er að mestu í Grindavík, er friðlýst sem náttúruvættur.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir.

Árið 1975 gerðu erlendir sérfræðingar samanburð á 10 stöðum á Íslandi sem líklegir þóttu fyrir staðarval fyrir hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu. Í niðurstöðum var tekið sérstaklega fram að í Krýsuvík væri stórkostleg náttúra og staðhættir til uppbyggingar á fjölþættri ferðaþjónustu.
Krýsuvíkurskóli var reistur um miðjan áttunda áratuginn til að sinna unglingum sem þyrftu sérúrræði en ekkert varð af þeirri starfsemi. Húsið stóð autt til 1986 þegar Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Þar er rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur.

Árið 1935 var Suðurstrandavegur lagður um Krýsuvík og árið 1945 var lagður vegur með Kleifarvatni. Árið 2012 var Suðurstrandarvegur endurgerður og hefur hann bætt mjög samgöngur á svæðinu (Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, 2014).

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot; tilgáta.

Árið 2016 samþykkti Hafnarfjarðarbær umsókn Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs um stofnun vistvangs í Krýsuvík. Vistvangurinn tók til starfa sumarið 2016 þegar hafin var uppgræðsla á örfoka melum og gróðursetning trjáa. Svæðið er um 300 ha.”

Heimild:
– MS–ritgerð; Krýsuvík – á móti sólu, Helga Stefánsdóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands okt. 2018.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.