Eldgos

Daníel Páll Jónasson skrifaði í BS Háskólaritgerð sinni árið 2012 um “Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu“.
HraunflæðiUm er að ræða sögu hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða. Ritgerðin er fyrir margt áhugaverð. Hér á eftir má lesa hluta hennar:

“Ritgerðin fjallar um hvernig hraunflæði hefur verið háttað í átt til höfuðborgarsvæðisins á nútíma og eftir hvaða leiðum búast megi við að hraun muni flæða í átt til svæðisins eftir vatnasviðum þess. Er þá reiknað með að hraunið flæði niður í móti líkt og vökvi. Ekki er reynt að ákvarða hvernig hraunflæði muni breiðast út innan byggðar eða í kringum hana en þó er staðfræði meginfarvega kortlögð til að gefa mynd af mögulegri útbreiðslu. Tekin eru dæmi um hraunflæðilíkön sem hönnuð hafa verið til að ákvarða útbreiðslu hrauna og fjallað um þær forsendur sem þurfa að liggja á baki reiknilíkans fyrir hraunflæði.
HraunflæðiFjallað er um eldvirkni á síðustu ísöld og nútíma ásamt þeim eldsummerkjum sem eftir hana liggja; móbergsfjöll, móbergshryggi, dyngjur og hraunbreiður.
Jarðskjálftahrinur og eldsumbrotahrinur í fjórum eldstöðvakerfum skagans ásamt einkennum kerfanna eru útskýrð en þó sérstaklega einkenni Krýsuvíkurkerfisins og Brennisteinsfjallakerfisins. Úr þessum kerfum hafa hraun runnið til höfuðborgarsvæðisins og munu líklega gera í framtíðinni. Yrði byggð í Mið-Hafnarfirði og Vallahverfi þá helst í hættu.
Farið er yfir gerð viðbragðsáætlana vegna hraunflæðis í umræðum en slíkar áætlanir eru ekki til staðar fyrir höfuðborgarsvæðið.

Inngangur

Daníe Páll Jónasson

Daníel Páll Jónasson.

Sé ferðast um höfuðborgarsvæðið á Íslandi er hægt að reka augun í hraun af ýmsum stærðum og gerðum. Á sumum stöðum eru hús byggð í jaðri úfinna hrauna eða ofan á sléttum hraunum og liggja um þau margar fallegar gönguleiðir á svæðinu. Að mati margra, að höfundi meðtöldum, eru hraunin falleg, og útskýrir það kannski vilja sumra til að búa í jaðri þeirra.
Staðsetning hraunanna á höfuðborgarsvæðinu leiðir vissulega af sér þá spurningu hvort möguleiki sé á nýju hraunflæði á þessum slóðum og hvort fólki, íbúahúsum, samgöngum, fasteignum eða öðrum lífverum og verðmætum stafi hætta af slíku flæði. Er það mat höfundar að nauðsynlegt sé að kanna mögulegt hraunflæði enda er um þéttbýlasta svæði landsins að ræða þar sem í lok árs 2011 bjuggu yfir 200 þúsund manns. Hraunflæði er í sjálfu sér sjaldan hættulegt fólki, einkum sökum lágs flæðishraða, en hraun geta náð yfir stórt landsvæði og þannig eytt nýtanlegu landi eða brennt, mölvað eða grafið heilu byggingarnar. Fólk myndi því væntanlega ná að flýja undan hrauninu, að minnsta kosti ef það kæmi upp í nægilegri fjarlægð, en myndi hugsanlega þurfa að horfa upp á hús sín og önnur verðmæti eyðileggjast.

Jarðfræði Reykjaness
HraunflæðiVel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna “Óbrinnishóla”, “Háabruna”, “Hraunhól” og “Brennu”.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.

Yfirlit yfir jarðfræði Reykjaness
HraunflæðiReykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum. Síðasta jökulskeið er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.

Ísland

Ísland – jarðfræðikort ÍSOR.

Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan. Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.

Reykjanes

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum).

Reykjanesgosbeltið og önnur gosbelti á Íslandi
HraunflæðiMiðja heita reitsins er talin liggja djúpt undir yfirborðinu milli Grímsvatna og Bárðarbungu. Suðurlandsbrotabeltið er svæði sniðgengja sem liggur á milli Vesturgosbeltisins og Austurgosbeltisins og tengir þau saman.
Suðurhluti Austurgosbeltisins hefur verið að færast í suðvesturátt síðustu þrjár milljónir árin og talið er að á endanum muni það ná yfir á Reykjaneshrygg. Mun þá annað gosbeltanna á Suðurlandi hætta virkni og hitt taka við sem megingosbelti á svæðinu en Suðurlandsbrotabeltið mun einnig verða óvirkt. Miðað við hvernig gosbeltin hafa færst síðustu milljónir ára er ekki líklegt að þessi þróun muni hafa bein áhrif á næstu kynslóðir mannfólks sem búa munu á Íslandi. Til lengri tíma litið mun hún aftur á móti breyta talsvert eldvirkninni á Suður- og Vesturlandi.

Heiti reiturinn undir Íslandi og áhrif hans á gosbeltin og eldstöðvakerfin
HraunflæðiTalið er að myndun Íslands hafi byrjað fyrir tilstilli samverkandi áhrifa heits reits og reksins á plötuskilum Mið-Atlantshafshryggsins fyrir um 24 milljónum ára en elsta berg á yfirborði er um 14-16 milljóna ára gamalt. Hefur heiti reiturinn verið virkur í um 65 milljón ár og myndaði hann Norður-Atlantshafsgossvæðið en Ísland er eini hluti þess sem enn er virkt.
Samverkandi áhrif heita reitsins og Mið-Atlantshafshryggsins á eldvirkni á Íslandi valda því að landið er stærsta svæðið þar sem úthafshryggur kemur upp fyrir sjávarmál á jörðinni en eldvirknin á landinu er mjög mikil miðað við úthafshrygg. Eru áhrif heita reitsins á þann veg að hann eykur á bráðnun jarðskorpunnar undir landinu vegna hærra hitastigs möttulsins og veldur þessi bráðnun myndun þykkari skorpu og varanlegs uppdrifs. Er jarðskorpan allt að 35 kílómetra þykk á Íslandi en þykktin minnkar eftir því sem fjær dregur heita reitnum og er skorpan ekki nema um 10-11 kílómetra þykk á Reykjanesi. Er sú þykkt engu að síður talsvert meiri en á venjulegri úthafsskorpu en þar er hún venjulega 6-7 kílómetra þykk.
Heitur reiturAukið hitastig möttulsins veldur enn fremur minni eðlismassa hans og verður deighvolfið því fyrir hitaknúnu uppdrifi.
Talið er að hitinn flytjist frá heita reitnum í gegnum deighvolfið (e. asthenosphere) eða efri hluta möttulsins (e. upper mantle) en hitinn fer lækkandi eftir fjarlægð frá reitnum. Hitastig heita reitsins undir Íslandi er talið um 150-200°C heitara en möttulsins sem umlykur hann. Mismunur í þykkt jarðskorpunnar á Reykjanesi, um 11 kílómetrar, sé miðað við jarðskorpuna á Suðvesturlandi, um 21 kílómetri, bendir til að hitastigið undir skaganum sé um 130°C lægra en í miðju heita reitsins.

Landsig á Reykjanesi af völdum eldvirkni
HraunflæðiLandsig á Reykjanesi getur numið nokkrum millimetrum á ári og til að mynda er talið að Straumsvíkursvæðið sígi nú um um það bil 20 sentímetra á öld i um 500 metrum en finna má gömul yfirborðshraun á allt að 1.800 metra dýpi í borholum.
Landsigið á Suðvesturhorninu er að einhverju leyti tilkomið vegna höggunarhreyfinga, en berggrunnsblokkir lyftast þá eða síga um allt að nokkra metra, og vegna skriðs jarðskorpuflekanna í átt að kólnandi umhverfi og meira dýpi. Aðalástæðan fyrir siginu er þó talin vera bergupphleðslan en á Reykjanesi hafa síendurtekin eldgos valdið auknu fargi á skorpuflekana og þeir síga smám saman niður í deighvolfið.
Af ofansögðu má sjá að um víxlverkun er að ræða á Reykjanesi. Heiti reiturinn á sinn þátt í hversu mikil eldvirknin er á svæðinu með tilheyrandi gosefnaupphleðslu en á sama tíma lyftir hann einnig skaganum upp. Sama gosefnaupphleðsla veldur því að skaginn sekkur niður í deighvolfið á móti uppdrifinu.

Jarðskjálftahrinur á Reykjanesi

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Jarðskjálftar á Reykjanesi koma oft í hrinum, með hundruðum og þúsundum lítilla skjálfta sem standa jafnvel mánuðum eða árum saman. Oft gerist þetta án þess að fólk verði þess vart þar sem skjálftarnir koma eingöngu fram á jarðskjálftamælum. Jarðskjálftahrinur gengu yfir skagann á árunum 1971 og 1972 og í mestu hrinunni, sem stóð í um það bil 8 sólarhringa, mældust um 14.600 jarðskjálftar. Önnur hrina gekk yfir í lok 20. aldarinnar á
Hengilssvæðinu.
Kvikuinnskot í eldstöðvakerfum geta bæði dregið úr skjálftavirkni eða aukið hana tímabundið á aðliggjandi brotabeltum.

Eldsumbrotahrinur í eldstöðvakerfum Reykjaness
HraunflæðiÍ síðustu eldsumbrotahrinu á Reykjanesi færðist virknin frá austri til vesturs. Á 10. og 11. öld brann í Brennisteinsfjallakerfinu, á 12. öld í Krýsuvíkurkerfinu og á 13. öld í Reykjaneskerfinu. Hraungosin á þessum tímabilum voru samtals 15 talsins og var áður talið að þau næðu yfir um 143 km2 landsvæði á Reykjanesi með hraunum sem eru samtals um 2,3 km3 að rúmmáli.
Með nýjum rannsóknum hefur tekist að ákvarða aldur fleiri hrauna í kerfunum. Talið er að í Brennisteinsfjallakerfinu hafi tvö hraun, Hvammahraun og Vörðufellshraun, samtals um 40 km2, runnið á 8. eða 9. öld og á svipuðum tíma hafi Hrútafellshraun, um 6,8 km2, runnið í miðju Krýsuvíkurkerfinu, í Móhálsadal. Þessar nýlegu upplýsingar valda því að síðasta eldsumbrotahrina lengist um 200 ár frá því sem áður var talið og nær hún samtals yfir um 500 ár, frá 750 til 1240. Ná hraunin frá síðustu hrinu á Reykjanesi sömuleiðis yfir talsvert stærra svæði en áður var talið, eða um 190 km2 (143 km2 + 47 km2).
HraunfæðiEldsumbrotahrinan á Reykjanesskaga fyrir um 1.900 til 2.400 árum einkenndist af eldgosum í öllum eldstöðvakerfunum þremur og í sjó undan Reykjanesi. Auk þessa urðu eldgos á Hengilssvæðinu en þar varð einnig gjóskugos í Þingvallavatni. Er talið að hraunin frá þessari hrinu séu að minnsta kosti ellefu talsins.
Á Reykjanesi skiptast á tímabil sem einkennast annars vegar af rekgliðnun og eldgosum og hins vegar af sniðgengishreyfingum og tilheyrandi jarðskjálftum. Standa tímabilin yfirleitt í sex til átta aldir. Dæmi er fyrir eldgosum í tveimur eða fleiri kerfum á svipuðum tíma á Íslandi. Gæti því hugsanlega gosið úr fleiri en einu kerfi á sama tíma á Reykjanesinu.

Eldstöðvakerfi Reykjaness
HraunflæðiTvær kenningar hafa komið fram um hvernig kvika kemur upp í rekgliðnunarhrinum á eldstöðvakerfum. Önnur kenningin snýr að megineldstöðinni og er þá reiknað með að kvika frá kvikugeymi á mörkum jarðskorpu og deighvolfs berist upp í kvikuhólfið undir megineldstöðinni á nokkurra kílómetra dýpi og valdi þenslu. Yfirvinni þrýstingurinn vegna aukinnar kviku og þenslu styrk jarðskorpunnar gliðnar hún og innskot geta skilað sér til megineldstöðvarinnar eða borist skáhallt til hliðar yfir á gossprungureinarnar. Ef innskotin ná yfirborði á öðru hvoru svæðinu verða eldgos.
Hin kenningin snýr að kvikugeyminum en þá er reiknað með að kvika berist beint frá honum vegna aukinnar kvikumyndunar og aukins þrýstings. Berst hún þá sem nær lóðrétt innskot beint upp í gossprungureinarnar og kvikuhólfið undir megineldstöðinni og allt eldstöðvakerfið virkjast í einu.
HraunflæðiMeginmunurinn á þessum kenningum er sá að í fyrrnefndu kenningunni er reiknað með að kvikan frá kvikugeyminum hafi fyrst viðkomu í kvikuhólfinu og berist þaðan til gossprungureinanna. Í hinni kenningunni berst hún beint frá kvikugeyminum til gossprungureinanna og megineldstöðvarinnar.
Eldstöðvakerfin byrja að myndast yfir því svæði þar sem grynnst er niður á kvikugeyminn þar sem kvika safnast fyrir á mörkum efri möttuls og neðri hluta jarðskorpunnar. Kvikuhólf ofar í jarðskorpunni hafa ekki náð að myndast á þessum byrjunarstigum. Er því kvikan í öllum eldgosum og allri innskotavirkni upprunnin djúpt neðan úr kvikugeymunum og því frumstæð og yfirleitt basalt. Sum eldstöðvakerfanna á rekbeltunum hafa ekki náð að mynda kvikuhólf og dæmi um slíkt eru kerfin á Reykjanesgosbeltinu.
HraunflæðiAuk áhrifa heita reitsins verða eldsumbrot í eldstöðvakerfum vegna þess að jarðskorpuflekana rekur í sundur. Rekið veldur því að jarðskorpan rofnar en slíkt gerist í hrinum en ekki jafnt og þétt. Virkjast þá eitthvert eldstöðvakerfanna á gosbeltinu og eldsumbrot hefjast en yfirleitt er eitt kerfi virkt á gosbeltinu í einu þótt undantekningar þekkist og tvö eða fleiri verði virk í einu. Þegar eldstöðvakerfi virkjast geta þau verið virk í nokkur ár eða áratugi með endurtekinni jarðskjálftavirkni og eldgosum. Gýs þá helst í megineldstöðinni eða á gossprungureininni, allt eftir því hvort megineldstöð er að finna í eldstöðvakerfinu.
Áralöng virkni eldstöðvakerfa er jafnan kölluð „eldar“ en dæmi um slíka atburði eru meðal annars hinir fyrrnefndu Kröflueldar þegar gaus alls 9 sinnum. Annað dæmi um slíka atburði eru Krýsuvíkureldar sem brunnu árin 1151 til 1188 í Krýsuvíkurkerfinu.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesi og á Íslandi
HraunflæðiEldstöðvakerfin á Íslandi, um 30 talsins, hafa myndast við að Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur frá hvorum öðrum á mörkum Mið-Atlantshafshryggsins. Flest eldstöðvakerfanna eru um 40-150 kílómetra löng og 5-20 kílómetra breið en nákvæm mörk kerfanna eru yfirleitt frekar óljós. Goshegðun kerfanna stjórnast bæði af reki flekanna og áhrifum heita reitsins en eldstöðvakerfin á rekbeltunum eru yfirleitt með eldstöðvum sem gjósa basalti auk gossprungu- og sprungureina á yfirborði en innskotum undir yfirborðinu.
Þar sem ekki er um eiginlega megineldstöð að ræða á Reykjaneskerfinu, Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallkerfinu, fyrir utan veika vísbendingu um kaffærða öskju í Krýsuvíkurkerfinu, er miðstöð þeirra að finna þar sem mest hraunaframleiðslu fer fram í sprungugosum en þær miðstöðvar má sjá sem rauðan fláka vinstra megin á mynd 9 en rauði flákinn til hægri táknar Suðurlandsbrotabeltið.

Lega vatnasviða höfuðborgarsvæðisins við eldstöðvakerfi Reykjaness

Reykjanesskagi

Reykjanesskgai – jarðfræðikort ÍSOR.

Höfuðborgarsvæðið er staðsett norðan við eitt af fjórum virkum eldstöðvakerfum á Reykjanesi, Krýsuvíkurkerfinu. Til að geta ákvarðað mögulegar leiðir framtíðarhraunflæðis inn á höfuðborgarsvæðið er ekki nóg að kanna fjarlægð svæðisins í beinni loftlínu frá eldstöðvakerfunum heldur þarf einnig að kanna hvernig landinu hallar á milli kerfanna og borgarinnar.

Krýsuvíkurkerfið
HraunflæðiTalið er að Krýsuvíkurkerfið sé frekar lítið þroskað en kerfinu virðist ekki fylgja ein sérstök virknimiðja með öskju og kvikuþró. Jarðhitasvæði við Sveifluháls og Trölladyngju eru þó talin hluti af slíku svæði en á svæðinu við Sveifluháls má finna sprengigíga frá nútíma auk lítillar gossprungu. Hafa þessir sprengigígar myndast samfara eldgosum eða innskotavirkni. Mynduðust þessir gígar fyrir meira en 6.000 árum síðan en hraunmagnið úr þeim hefur verið mjög lítið og er talið að þeir hafi myndast á skjálftatímabili þegar skjálftarnir hreyfðu við storknandi kvikumassa. Auk þessa fylgdu gosunum mikið magn gabbróhnyðlinga. Einn sprengigíganna, Grænavatn, myndaðist í gosi sem einkenndist fyrst af mikilli kvikustrókavirkni og útkasti og mjög litlu hraunrennsli en á seinni stigum sprengingum á allt að tveggja til þriggja kílómetra dýpi sem sköpuðu gíginn.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Jarðhita í Krýsuvíkurkerfinu má meðal annars rekja til eldvirkni á síðari hluta nútíma og óreglna í gerð svæðisins en hlykkur hefur myndast þar sem dyngjubeltið á Reykjanesi og gossprungukerfið skerast og gossprungukerfið hnikast frá Núpshlíðarhálsi yfir á Sveifluháls. Jarðhitasvæðin á miðhluta eldstöðvakerfisins virðast tengjast sama hlykk en á honum er að finna gíg Hrútagjárdyngju sem myndaðist fyrir um 3-4.000 árum síðan. Er þetta dyngjugos mesta hraungosið í Krýsuvíkurkerfinu á nútíma.
Svo virðist sem eldgos í Krýsuvíkurkerfinu myndi sprungur sem eru í sömu stefnu og sjálft kerfið. Má þá nefna sprunguna þaðan sem Krýsuvíkureldar runnu og sprunguna þaðan sem Afstapahraun rann. Núpshlíðarháls og Sveifluháls gætu einnig verið merki um álíka sprungugos eða eldsumbrotahrinu undir jökli en slík gos mynda móbergshryggi.

Brennisteinsfjallakerfið
HraunflæðiGosið hefur að minnsta kosti 10 sinnum í Brennisteinsfjallakerfinu á sögulegum tíma og 30 til 40 sinnum á nútíma. Kerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjaness á nútíma en það hefur framleitt mest hraun að rúmmáli og flatarmáli. Hafa gostímabil á Reykjanesi vanalega hafist um 200 til 300 árum fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu sé tekið mið af Krýsuvíkurkerfinu og Reykjaneskerfinu en fyrir um 1.900 árum síðan hóf Hengillinn þó leikinn.
Berg í Brennisteinsfjöllum er eingöngu basalt. Mikið magn móbergs í miðju Brennisteinsfjallakerfisins er til komið vegna þess að eldgosin verða oft í miðju eldstöðvakerfa þar sem landið er hærra og jöklun meiri og lengri. Á jökulskeiðum hlaðast því upp brött móbergsfjöll en hraun breiða lítið úr sér.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – nútímahraun.

Á hlýskeiðum myndast aftur á móti dyngjur og hraun renna og fylla upp í dældirnar á milli móbergsfjallanna en þar er jafnframt þykkustu hraunstaflana að finna. Er til dæmis talið að milli Grindaskarða og Bláfjalla sé nokkur hundruð metra þykkur hraunstafli en yfirborð svæðisins er frekar flatt og bendir það til þess að hraunin hafi hlaðist upp afmörkuð af móbergsfjöllunum allt í kring. Mjög þykkir staflar hrauna eru einnig milli Bláfjalla og móbergshryggs sem liggur frá Brennisteinsfjöllum og í norðaustur og einnig í kringum Geitafell en hjá fellinu er talið að hraunin nái allt að 100-200 metra þykkt.

Leiti

Leiti.

Loks ber að geta að norðan Svínahrauns er landið mjög flatt og mælingar gefa til kynna að þar sé að finna þykkan hraunstafla. Móbergshryggir eru svo víða alveg grafnir undir nýrri hraunum en til dæmis má finna hryggi undir hraununum fyrir ofan Heiðmörk og undir Heiðinni há er mikill móbergsstafli. Stýrast hraunin því af móbergsfjöllum, hylja þau að hluta eða kaffæra þau jafnvel alveg.
Mikil dyngjuhraun frá nútíma hafa runnið í kerfinu, meðal annars frá Heiðinni há og Leitunum, en söguleg hraun þekja einnig mikið svæði. Hraun sem runnið hafa á nútíma í kerfinu eru talin vera 15 +/- 6 km3 út frá þykktarmælingum en þær móbergsmyndanir sem mynduðust á síðasta jökulskeiði eru talin vera um 30 km3.
Ásamt því að hafa skapað landslagið í Brennisteinsfjallakerfinu sjálfu hafa hraun sem komið hafa upp innan Brennisteinsfjallakerfisins einnig skapað landslagið í Krýsuvíkurkerfinu. Hafa þau runnið um langa leið til sjávar sunnan við Hafnarfjörð og því þverað allt Krýsuvíkurkerfið.

Mismunandi eiginleikar eldgosa á Reykjanesi á nútíma og á ísöld
HraunflæðiÞau landform sem gefur að líta á Reykjanesi eru til komin vegna fjölbreyttrar gossögu skagans. Má til dæmis nefna móbergshryggi, móbergsstapa, dyngjur og gígaraðir.
Á síðasta jökulskeiði lá jökull yfir Reykjanesi og sérstaklega á þeim svæðum sem hærri voru.
Athygli vekur að misgamlir og ílangir móbergshryggir eru mjög umfangsmiklir í Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallakerfinu. Er þessi myndun sérstaklega áberandi í Krýsuvíkurkerfinu en þar virðast löng sprungugos hafa verið allsráðandi undir jökli sem og á nútíma. Raða móbergshryggirnir sér í svipaða stefnu og gossprungurnar á nútíma og virðast því vera mörg fordæmi fyrir því að eldgos teygi sig eftir endilöngu kerfinu, allt frá ströndinni í suðvestri til Helgafells í norðaustri. Ef upp kemur eldgos suðvestan til í Krýsuvíkurkerfinu, sem og í Brennisteinsfjallakerfinu en þar eru gossprungur nokkuð algengar, má því allt eins reikna með að eldgos taki sig upp norðaustar og á óheppilegri stað sé horft til sögunnar.

Staðan í dag hefði jökull ekki hulið Reykjanes
HraunflæðiHefði jökullinn ekki verið til staðar á þessum ísöldum hefðu þau eldgos sem mynduðu móbergsstapa, móbergshryggi og móbergsfjöll myndað dyngjur, gígaraðir og hraun í staðinn. Þessu til grundvallar má nefna að móbergsstaparnir eru yfirleitt svipaðir að rúmmáli og með svipaða efnasamsetningu og dyngjurnar. Í dag væri landslagið því mjög frábrugðið á Reykjanesinu hefðu jöklarnir ekki komið til sögunnar. Líklega væri skaginn breiðari, láglendari og með jafnari hraunlögum á hverjum stað enda myndu hraunin hlaðast ofan á hvort annað á tiltölulega ávölum eða flötum svæðum í stað þess að staflast upp í hryggi og fjöll.

Dyngjur
HraunflæðiÍslenskar dyngjur eru yfirleitt frekar lágar og með litlum halla og endurspeglar það hversu þunnfljótandi basaltkvikan hefur verið þegar hún kom upp á yfirborðið í dyngjugosunum. Mjög margar dyngjur má finna á Reykjanesgosbeltinu. Flestar dyngjur á Íslandi eru eldri en 3.500 ára.
Dyngjurnar geta verið ansi víðáttumiklar en þar sem saman fara dyngjur og gosgígaraðir í eldstöðvakerfum hafa dyngjurnar vanalega gosið meira hraunmagni samanlagt þó gosgígarnir kunni að vera mun fleiri. Sem dæmi um rúmmálsmikla dyngju má nefna Heiðina háu, stærstu dyngjuna á Reykjanesi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Dyngjurnar á Reykjanesinu eru ein umfangsmestu gosummerkin á yfirborði en þær væru enn meira áberandi hefðu yngri hraun úr sprungugosum ekki runnið yfir þær að hluta. Nokkur munur er á fjölda sprungugosa og dyngjugosa á Reykjanesi á nútíma en á heildina litið hafa myndast 26 dyngjur samanborið við 101 gossprungu. Munurinn á meðalrúmmáli hrauna úr dyngju- og sprungugosum er einnig mikill. Hafa sprungugosin því verið mun fleiri en dyngjugosin en dyngjugosin aftur á móti um tífalt rúmmeiri.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Á Reykjanesi eru dyngjurnar þessar helstar: Sandfellshæð (13.600 ára), Þráinsskjaldarhraun (14.100 ára), Hrútagjárdyngja (um 5.000 ára), Skúlatúnshraun/Stórabollahraun (2.000 ára), Kistufellshraun (yngra en 7.000 ára), Herdísarvíkurhraun (yngra en 7.000 ára), Þríhnjúkahraun (yngra en 7.000 ára), Heiðin há (eldri en 7.000 ára), Strompar (yngri en 7.000 ára) og Leitahraun (um 5.300 ára).

Myndun dyngja
HraunflæðiTalið er að dyngjur myndist í einu gosi sem getur komið í nokkrum áralöngum hrinum. Kvikan sem kemur upp í slíkum dyngjugosum á
Íslandi er vanalega frumstæð og mjög heit en hún er ættuð beint neðan úr djúplægum kvikugeymum. Gosin byrja yfirleitt sem sprungugos en með tímanum afmarkast þau af nokkrum rásum. Myndast þá nokkrar dyngjur sem flæða yfir hverja aðra en á endanum ná gosin að afmarkast við eina rás. Flæða hraunin úr rásinni yfir minni dyngjurnar sem verða í vegi hraunflæðisins og á endanum byrjar að myndast stök hraunkeila (e. lava cone). Eldgosið gæti hætt á þessu stigi, eða fyrr, og myndað nokkrar dyngjur sem eru þá yfir hverri annarri.
HraunflæðiÁ byrjunarstigum dyngjugosa er hraunflæði á yfirborði þegar rennslið er hvað mest úr hrauntjörn í toppgígnum. Rennur þá mjög þunnt skelhelluhraun (e. shelly pahoehoe) næst upptökum en hægara og grófgerðara brothelluhraun (e. slabby pahoehoe) eða hreinlega apalhraun fjær þeim. Þegar rennslið minnkar rennur hraunið í undirgöngum frá hrauntjörn en hæg storknun vegna einangrunar í undirgöngum útskýrir meðal annars af hverju dyngjur geta náð yfir mikið flatarmál.
Hraunflæðið kemur svo fram á yfirborði í hlíðum dyngjunnar og myndar þar hraunsvuntu og tiltölulega flatlent helluhraun með bungum og hraunkollum.

Búri

Búri- hraunhellir í Leitarhrauni.

Algengt er að hraun flæði um undirgöng frá efri hlutum rauntjarnarinnar en stundum getur hraun flætt frá neðri hlutum hennar eða hreinlega beint úr gosrásinni sem sér henni fyrir hrauninu. Á seinni stigum getur hrauntjörnin einnig flætt yfir bakka sína. Þegar hraunflæði frá upptökum hættir, til dæmis ef gosið hættir og hrauntjörnin verður þurrausin, og hraunið rennur allt niður undirgöngin svo þau tæmast myndast hraunhellar sem geta oft verið nokkuð langir.
Dyngjugos geta staðið nokkuð lengi, jafnvel í nokkur ár eða áratugi að því er talið er.

Móbergs- og dyngjumyndun, umræður
HraunflæðiDyngjur geta verið mjög rúmmálsmiklar og myndast hver þeirra vanalega í einu löngu gosi á Íslandi. Þær hafa flestar myndast fyrir meira en 3.500 árum síðan en Skúlatúnshraun, sem myndaðist fyrir 2.000 árum og Surtsey, sem myndaðist árin 1963 til 1967, sýna að dyngjur geta enn myndast á Íslandi og þar af leiðandi á Reykjanesinu þar sem þær eru algengastar.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Ekki er því hægt að útiloka þann möguleika að stór dyngjugos komi upp á skaganum eða í námunda við byggð. Er nóg að skoða muninn á einhverju þeirra hrauna sem komið hafa upp í sprungugosum, til dæmis Kapelluhrauni, og dyngjugosum, til dæmis Heiðinni háu, til að sjá að dyngjurnar breiðast meira út en hraun úr sprungugosum renna eftir afmarkaðri farvegum. Ber þó að geta þess að dyngjur geta verið af ýmsum stærðum og gerðum og er það vonandi að komi upp dyngjugos á Reykjanesi að það verði stutt og með takmörkuðu hraunmagni.

Eiginleikar sprungugosa og gosa úr einum gíg

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Eldgos geta verið tvenns konar. Annars vegar geta þau raðað sér á gossprungur í eldstöðvakerfunum og hins vegar verið bundin við einn gíg. Í sprungugosum myndast röð af gígum ofan á gossprungunni. Algengast er að sprungan sé með einni meginstefnu, mynduð af nokkrum aðskildum sprungum sem liggja í sömu átt en næstu sprungur við hana liggja örlítið skáhallt (e. echelon) til annarrar hvorrar áttar. Í þessum sprungugosum myndast klepragígar, gjallgígar eða blanda af þessum tveimur tegundum en kvikustrókavirknin úr hverjum gíg orsakar myndun hans. Eldgos geta afmarkast við einn gíg en algengt er að slík gos hafi byrjað sem sprungugos en virknin svo færst nokkuð fljótt og alfarið yfir á eina rás. Í þessum gosum myndast svipaðir gígar eins og ef um sprungugos væri að ræða.

Lýsing á eiginleikum og flæði apalhrauna og helluhrauna

Apalhraun

Apalhraun.

Apalhraun, og basalthraun yfir höfuð, eru vanalega um 1.200° heit þegar þau koma upp í eldgosum. Við þetta hitastig eru hraunin hvað mest þunnfljótandi og hraðfara og flæða þau um líkt og vökvi á yfirborðinu. Mikil útgeislun hraunsins veldur því að það kólnar fljótt og smám saman verður það seigara og meira hægfara. Hlutar hraunsins storkna á yfirborði og renna þeir sem dökkt hröngl í hraunstraumnum eða sem skán á yfirborði hans. Þegar enn lengra er komið frá upptökum eru hraunin orðin seigari og yfirborð þeirra storknuð lengra inn að miðju. Þrýstist hraunið þá áfram undan hraunflæðinu sem kemur frá upptökunum en hraunjaðarinn er hættur að renna sem vökvi. Þá brotnar storknað hröngl framan af jaðrinum og verður undir hrauninu þegar það þrýstist áfram. Af þessum völdum eru apalhraun nokkuð lagskipt en neðst er að finna hrönglið, oft ofan á bökuðum jarðvegi sem hefur orðið undir heitu hraunflæðinu. Í miðjunni er þéttara berg sem hefur kólnað hægar og efst er hröngl sem hefur brotnað í hraunflæðinu. Er yfirborðið því hrjúft, óreglulegt að lögun og oft með oddhvössum brúnum.

Helluhraun

Helluhraun.

Líkt og apalhraunin eru helluhraunin mjög heit þegar þau koma upp í eldgosum enda oft um sömu gosgíga að ræða. Helluhraunflæði er því oft að finna nærri gígunum, þó þaðkunni að breytast síðar í apalhraunflæði áður en það stöðvast. Þau helluhraun sem hafa náð
að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast flæða á nokkuð annan hátt en apalhraun. Á þeim hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sé miðað við apalhraunið, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Rennur hraunið því heitt undir skorpunni uns það nær jaðrinum. Við slíkar aðstæður myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast svokölluð reipi ofan á hrauninu en þau myndast vegna núnings deigrar skorpunnar við fljótandi hraunbráðina. Eru því hraunreipin til komin vegna mismunandi hraða yfirborðs og hraunbráðinnar undir því. Eftir storknun hafa helluhraunin mun sléttara yfirborð en apalhraunin.

Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiKapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju. Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók. Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.
Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2.
Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3. Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi.
HraunflæðiKrýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld. Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju.
Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík.
Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt. Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni.

Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiHraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun).
Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum. Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir
gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng. Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð , vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti um 300 metrum frá sjó. Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja.

Óbrinnishólabruni (2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiFyrir um 2100 árum gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi.
Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann. Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi. Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti. Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla. Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli.
Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða.

Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiSkúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar. Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts.
Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn.

Litluborgir

Gervigígur í Skúlatúnshrauni.

Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.
Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.

Búrfellshraun (8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)
HraunflæðiBúrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan. Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð.
Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú.

Jarðfræði

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar. Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni. Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju. Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
HraunflæðiBúrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur. Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli.
Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs. Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt.

Búrfell

Búrfell.

Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni.

Leitahraun (5.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
HraunflæðiLeitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar. Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri.
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar.
Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn.
Á síðustu árum og áratug hefur nokkuð verið skrifað um hönnun hraunflæðilíkana. Mismunandi útfærslur má finna í hinum ýmsu greinum en þessi líkön eiga þó margt sameiginlegt.”

Heimild:
-https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2023/07/BS_Daniel_Pall_Jonasson_Landfraedi_Juni_2012.pdf
Hraunflæði

 

Eldgos

Sunna Ósk Logadóttir skrifaði þann 20. janúar 2024 í Heimildina (heimildin.is) um „Krýsuvík er komin í gang“:

Reykjaneseldar“Í ljósi sögunnar má ætla að eldgosin verði stærri og fleiri eldstöðvakerfi vakna þegar líða tekur á það gostímabil sem nú er hafið á Reykjanesskaga. Hraunrennsli og sprunguhreyfingar munu þá ógna íbúabyggð og innviðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er náttúrlega háalvarlegt,“ segir eldfjallafræðingur.

„Við erum ekki í miðjum atburði, við erum í upphafi atburðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Reykjaneseldana sem nú eru hafnir „alveg á fullu“. Þetta gostímabil gæti staðið í áratugi – jafnvel árhundruð. Í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að fleiri eldstöðvakerfi á Reykjanesinu láti til sín taka. Þau eru sex talsins og í tveimur þeirra hefur þegar gosið og tvö til viðbótar hafa rumskað og tekið þátt í atburðarásinni án þess að gjósa.

Ármann Höskuldsson

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Þá er einnig líklegt, „svona ef maður horfir til fortíðar,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás“. Það sýni til dæmis reynslan frá Kröflueldum. Gosin hafi verið lítil til að byrja með en skjálftarnir hins vegar miklir. „En síðan snerist þetta við,“ segir hann. „Eftir því sem á leið þá urðu skjálftarnir alltaf minni og minni en gosin stærri og stærri. Þannig að ef þetta dregst á langinn þá er mjög líklegt að það fari yfir í það.“

Á síðasta gostímabili gaus í öllum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans, nema í því sem kennt er við Fagradalsfjall. „Það gaus á Reykjanesi. Það gaus í Svartsengi. Það gaus í Krýsuvík og það gaus í Brennisteinsfjöllum,“ segir Páll.

Í dvala í átta aldir

Eldgos

Geldingadalur; eldgos 2021.

Þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 höfðu slíkir atburðir ekki átt sér stað á Reykjanesskaga í um 780 ár eða frá því á Sturlungaöld. Um 6.000 ár höfðu þá líklega liðið frá síðasta gosi í Fagradalsfjallskerfinu. Næstu tvö gos, í Meradölum 2022 og við Litla-Hrút 2023, urðu einnig í því kerfi en það fjórða sem varð norðan Sundhnúk í desember síðastliðnum varð í Svartsengiskerfinu, sem stundum er einnig kennt við Eldvörp. Sömu sögu má segja um það sem varð nú í janúar. Ekki hafði gosið í Sundhnúkagígaröðinni í líklega 2.400 ár.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Síðasta goshrina á skaganum varð í vestari kerfunum og varði í þrjátíu ár. Hún var kölluð Reykjaneseldar og var jafnframt lokahrinan í löngu eldsumbrotatímabili sem stóð yfir í tæpar þrjár aldir, allt frá því um 950 og til 1240.

Almennt er talið að síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hafi hafist á Hengilssvæðinu sem stundum er þó undanskilið kerfum skagans. Þar næst gaus í kerfi sem kennt er við Brennisteinsfjöll, þá í Krýsuvík og loks í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

„Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.
Þótt ýmislegt sé vitað um hegðun eldstöðvakerfanna er fjölmargt enn á huldu. Ármann bendir til dæmis á að stærri hraun hylji þau minni og því höfum við ekki „kórrétta atburðarás“ af „syrpunni“, eins og hann orðar það, sem varð á þrettándu öld. „Þannig að við erum bara með grófa mynd.“

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg í Krýsuvík.

Upplýsingar þær sem við höfum séu meðal annars byggðar á lýsingum í annálum og þeirra sem aflað hefur verið með kortlagningu. Miðað við þau fræði gaus í Krýsuvík fyrir rúmum 1.100 árum, aftur fyrir um 900 árum og loks um árið 1150, eða fyrir um 830 árum.

Víti

Víti í Kálfadölum ofan Geitahlíðar í Krýsuvík.

„Það gerist örugglega einhvern tímann,“ segir Ármann spurður um líkur á því að það fari að gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem er fyrir miðju kerfanna sex. „Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst þó að við séum með þessa krísu út á Reykjanesi í kringum Grindavík.“

Spennulosun í Krýsuvík hafin

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Aðdragandi gosa í því kerfi yrði að sögn Ármanns eflaust á svipuðum nótum og við höfum séð við Fagradalsfjall og Svartsengi: Fyrst yrðu jarðskjálftar, þá sprungumyndanir og loks færi hraun að flæða. „Því þetta byrjar með spennulosun,“ útskýrir hann. „Til að koma kvikunni upp verður að byrja á því að brjóta skorpuna. Þannig að það fer ekkert framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Og Krýsuvík er komin í gang. Við erum búin að vera að mæla þar landris og sig á víxl í nokkur ár og búin að fá ansi hressilega skjálfta. Þannig að spennulosunin er byrjuð þarna.“

Og það gæti náttúrlega endað í eldgosi?

Sogagígur

Sogagígur sunnan Trölladyngju.

„Alveg klárlega,“ svarar Ármann. „En við gerum okkur vonir um að við sjáum þessi merki stífar áður en við náum því. Það er alveg klárt að það er farin að safnast fyrir kvika í Krýsuvíkurkerfinu.“

Páll tekur undir þetta og minnir á að Krýsuvík hafi verið „óróleg“ undanfarið – ekki síst seinni hluta ársins 2020. Land reis þá í nokkrar vikur. Og risinu fylgdu talsverðir jarðskjálftar, stærstu skjálftar þessara umbrota allra, segir Páll sem telur „frekar líklegt“ að gjósa muni í þessu kerfi í þeirri goshrinu sem nú er hafin.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Ef að þetta er eitthvað svipað og hefur gerst í jarðsögunni þá er líklegt að gosvirkni verði frekar mikil næstu 200–300 árin eða svo. Þá er nú frekar líklegt að Krýsuvíkurkerfið taki meiri þátt í þessu heldur en hingað til.“

Hann segir það hins vegar ólíklegt að gosin í kerfum Fagradalsfjalls og Svartsengis hafi með einhverjum hætti létt á Krýsuvíkurkerfinu.

Sprungusveimurinn mikli
Hættan af hræringum í því kerfi séu aðallega tvenns konar: Af völdum sprunguhreyfinga og hraunflæðis. Sprungusveimur þess liggi yfir stórt svæði; í gegnum Kaldársel, Búrfell, Heiðmörk, við Rauðavatn og upp í Hólmsheiði – jafnvel alla leið upp í Úlfarsfell. „Þannig að ef við fengjum gangainnskot alla þá leið, sem er vissulega möguleiki, þá er það kannski erfiðasti atburðurinn að fást við,“ segir Páll sem rannsakað hefur sveiminn og skrifað um hann greinar. Ef hreyfing kæmist á sprungurnar yrðu miklir innviðir í hættu. „Aðalmálið væri kannski vatnsbólin og það allt saman. Það er sviðsmynd sem er kannski ein af þeim verri.“

Búrfell

Búrfell ofan Garðabæjar.

Á þessu mikla sprungusvæði er auk þess íbúabyggð. Þótt hraunrennsli ógni henni ekki, meðal annars Norðlingaholtinu og Árbæjarhverfi, gætu sprunguhreyfingar gert það. Páll rifjar upp að í kringum 1980 hafi mikið verið deilt um hvort byggilegt væri í nágrenni Rauðavatns. Málið hafi orðið mjög pólitískt. Sumir sögðu að þetta væri stórhættulegt jarðskjálftasvæði en aðrir að sprungurnar væru gamlar og myndu ekki hreyfast meir.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

„Þeim tókst að deila um þetta og hafa allir rangt fyrir sér,“ segir Páll. Því að á sprungusvæðum sé hægt að byggja, en það er ekki sama hvernig það er gert. „Þarna eru vissulega sprungur en þetta eru ekki jarðskjálftasprungur heldur kvikuhlaupssprungur,“ heldur hann áfram. „Þær hreyfast mikið þegar þær hreyfast en það hreyfist hins vegar eiginlega ekkert á milli þeirra. Þannig að ef þú ert að byggja hús þarna, þá bara passar þú að byggja ekki yfir sprunguna. Þá ertu bara í góðum málum. Þetta er alveg byggilegt en það verður að byggja rétt.“

Norðlingaholt

Norðlingaholt.

Og heldur þú að okkur hafi borið gæfa til þess að byggja á milli sprungnanna?

„Ég er ekki alveg viss um það,“ svarar Páll. „En það var reynt og ef þú spyrð þá sem skipulögðu Norðlingaholtið þá munu þeir segja að þeir hafi tekið tillit til sprungnanna.“ Þegar farið var að grafa fyrir húsum í hverfinu hafi fundist gjár þar undir. Á þeim hafi ekki verið byggt enda megi sjá þrjú skörð í byggðinni. „Húsin sem eru á milli ættu að vera í góðu lagi,“ segir Páll. „Spurningin er bara: Gáðu þeir nógu vandlega?“

Klaufalegt að skipuleggja byggð á Völlunum
Þegar síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu í kringum 1150 runnu meðal annars Kapelluhraun til norðurs og Ögmundarhraun til suðurs. Og þá er komið að hinni vánni sem Páll vill vekja athygli á: Hraunrennsli. Hraun sem koma upp í norðurhluta Krýsuvíkurbeltisins gætu runnið niður í það dalverpi sem Vallahverfið í Hafnarfirði stendur í.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar vestan Helgafells.

Að mati Páls má segja að vissrar óvarkárni hafi gætt í skipulagsmálum hvað þetta varðar. Óþarfi hafi verið að taka þá áhættu að byggja á Völlunum því annað byggingarland hafi fundist innan Hafnarfjarðar. „Þetta er ágætis byggingarland í sjálfu sér,“ segir hann um Vellina og næsta nágrenni, „en ef hraun kemur upp, á þessum stað, þá rennur það þessa leið, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að beina því neitt. Og það er þá klaufalegt að vera með mikla byggð þar.“

Ógnin komin heim í garðinn

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Hafnfirðingar þurfa að mati Ármanns að endurskoða sín skipulagsmál, þeir geti ekki byggt „endalaust upp til fjalla“. Gos gæti hafist í Krýsuvík eftir einhver ár, áratugi eða öld. „Þetta er allt farið í gang,“ segir hann. „Reykjanesið sjálft er farið í gang. Og það þýðir þá að menn verða að hugsa um það og breyta skipulagsáætlunum í stíl við það.“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hvað Vellina varðar telur hann líkt og Páll að ef Krýsuvík færi að gjósa myndi steðja ógn að hverfinu. „Ég myndi halda að við ættum að hanna þá,“ svarar hann spurður um hvort hefja ætti undirbúning varnargarða við byggðina. „Við þurfum kannski ekki endilega að fara að rusla þeim upp strax en bara um leið og það fara að verða alvarleg merki þá setjum við vinnuna í gang. Þetta er komið heim í garðinn og þá gerir þú allt klárt. Þú ferð kannski ekki strax í framkvæmdirnar en byrjar að teikna og reikna.“

Bollar

Bollar.

Ef til annarra kerfa er litið, kerfa sem enn sofa þótt laust sé, minnir Ármann á Hengilinn sem markar endimörk eldstöðvakerfis Reykjanesskagans í austri. Ef hann færi að ræskja sig alvarlega gætu hamfarir fyrir byggð orðið miklar. „Ef hann fer að dæla hrauni yfir Nesjavelli og Hellisheiðarvirkjun þá yrði lítið heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega háalvarlegt.“

Stóri-Bolli

Stóra-Bollagígur otan í Konungsfelli (Kóngsfelli).

Páll telur það eiga sér vissar skýringar að ákveðið var að byggja á svæðum þar sem vá vegna sprungusveima og hraunflæðis vofir yfir. „Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ útskýrir hann. „Þá var þessi virkni óvenjulega lítil. Ef við horfum til baka, til fyrri alda, þá er 20. öldin framan af steindauð. Hún sker sig úr öllum öðrum öldum. Menn fengu skakka hugmynd um hvers eðlis virknin var. Og við sitjum uppi með þetta svona.“

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur í Brennisteinsfjöllum fjær.

Upp úr 1960 hafi hins vegar hver atburðurinn tekið að reka annan; Surtseyjargos, Heklugos, Heimaeyjargos og hvað eina. Allt hafi svo „keyrt um þverbak“ er hrina hófst í Kröflu um miðjan áttunda áratuginn.

Og ekki er að fara að draga úr virkninni í fyrirséðri framtíð?

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

„Ég held að þetta sé komið í venjulegt og eðlilegt horf,“ svarar Páll. „Svo það er eins gott að við lærum af því. Og breytum því sem þarf að breyta.“

Hvað getum við lært af því og hverju þurfum við að breyta?

„Við þurfum að reikna með að það geti orðið hraunstraumar hér og þar sem þarf að beina annað eða skipuleggja sig í kringum,“ svarar Páll. „Skjálftamálin eru í tiltölulega góðu standi. Jarðskjálftaverkfræðingar hafa staðið sig mjög vel. Þannig að hús á Íslandi virðast standast jarðskjálfta mjög vel. Við fengum reynslu af því árið 2000. Það hrundu engin hús sem skiptir máli því það er það sem veldur manntjóni. Þannig að það er í sæmilegu lagi. En þetta með sprunguhreyfingar og hraungos, þetta mætti alveg laga svolítið.“

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Nú þýðir ekkert að stinga höfðinu í neinn sand?

„Nei, það þýðir ekki. Það verður að læra að lifa með þessu.“

Heimild:
-„Krýsuvík er komin í gang“, Heimildin (heimildin.is) 20. janúar 2024, Sunna Ósk Logadóttir.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Selatangar

Í Morgunblaðinu 14. júlí 1987 skrifaði fréttaritari þess í Vogum; “70 refir felldir í vor“. Af fréttinni að dæma virðist sem ör fjölgun hafi orðið á tófu á vestanverðum Reykjanesskaganum þetta árið.

Refur

Refur.

“Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt.
Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðsstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Refur

Refur.

Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. Í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
Ísólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði.
Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson, refaskyttur í Hafnahreppi, hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af um 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.

Refur

Dauður refur.

Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.” – EG

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Til fróðleiks má geta þess að refir hafa verið veiddir á Reykjanesskaganum allt frá landnámi. U.þ.b. 100 hlaðnar refagildrur bera þess glöggt vitni sem og hlaðin skjól refaskyttna. Margar sagnir eru til um þrautseigju skyttnanna er lágu úti daga og nætur í öllum veðrum, en minna hefur farið fyrir skráðum heimtum. Þó er vitað að refaskinn þóttu verðmæt verslunarvara fyrr á öldum.
Í dag má enn víða sjá minjar, bæði eftir veiðimennina sem og grenin, sem jafnan voru merkt með stein á steini. Glerbrotin benda til þess að þeir hafi jafnan haft með sér eitthvað til drykkjar!?

Heimild:
-Morgunblaðið 14. júlí 1987, “70 refir felldir í vor”, bls. 26.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Bláa lónið

Jón Jónsson, jarðfræðingur, fjallar um “Gönguleið; Bláa Lónið – Slaga” í Morgunblaðinu árið 1991:
Jón Jónsson“Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan. Hvor leiðin sem farin er þarf að ganga þvert yfir gígaröðina, sem þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla [Svartsengi]. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hliðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Á háfellinu er myndarlegur gígur [Sýlin] og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau.

Vatnsheiði

Gígur í Vatnsheiði.

Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga
Sunnan frá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað).

Slaga

Slaga.

Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa runnið þarna þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.” – Höfundur er jarðfræðingur

Heimild:
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson “Gönguferð; Bláa lónið – Slaga”, bls. 25.

Slaga

Slaga – berggangur.

Varnarsvæði

Eftirfarandi birtist í Bæjarbót þeirra Grindvíkinga árið 1990 undir fyrirsögninni “Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð“. Efnið er úr ritinu Náttúrufar á sunnanverðum Reykjanesskaga, sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir Samvinnunefnd um skipulagsmál á Suðurnesjum.
Bæjarbót“Á könnunarsvæðinu er Grindavík eini þéttbýlisstaðurinn og því er vert að fara fáum orðum sérstaklega um það svæði. Á meðfylgjandi mynd er einfaldað jarðfræðikort af Grindavík og næsta nágrenni.
Elstu jarðlögin eru móberg og bólstraberg í Þorbjarnarfelli, Sýlingarfelli (Svartsengisfelli), Hagafelli og Húsafelli. Grágrýtishettur eru á Lágafelli sunnan Þorbjarnarfells og á Húsafelli.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort.

Nútímahraununum má sem áður skipta í tvennt, annars vegar dyngjur frá því snemma á nútíma og hins vegar yngri sprunguhraun. Dyngjuhraunin eru annars vegar hraun frá Sandfellshæð í vestri og hins vegar hraun frá Vatnsheiði norðan Húsafells.
Sprunguhraunin eru ýmist aðrunnin eða eiga upptök sín nærri byggðinni. Byggðin í Grindavík er að mestu á hrauntaum frá Sundhnúksgígaröð.
Sundhnúkshraun hefir runnið til sjávar í fjórum kvíslum. Vestasta kvíslin er sú sem megin hluti byggðarinnar er á, önnur mjórri hefir runnið ofan í mitt Hóp, þriðja myndar Þórkötlustaðarnes (Hópsnes) og sú fjórða og austasta fellur til sjávar við Hraun. Sundhnúksgígaröðin er um 8,5 km að lengd og mun hafa gosið fyrir um 2400 árum.

Eldvörp

Eldvörp.

Skammt vestur af byggðinni í Grindavík er stutt gígaröð sem nefnist Eldvörp og frá henni hefir runnið lítið hraun til suðausturs og liggur það innundir Sundhnúkshraun og er því eldra. Vestan við Grindavík eru tvö nokkuð stór sprunguhraun og nær það eldra allt til sjávar milli Stóru- og Litlubótar og austan til í Arfadalsvík. Þessi tvö hraun eiga upptök sín í gígaröðum við Eldvörp austan undir Sandfellshæð. Vestan við Þorbjarnarfell er Illahraun, sem er yngsta hraunið á þessu svæði og mun það hafa brunnið árið 1226 eða skömmu síðar.
Sprungur eru margar en flestar þeirra eru í elstu hraununum (dyngjuhraununum) og í móbergsmyndununum.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Sprungurnar stefna flestar norðaustur/suðvestur en nokkrar N-S sprungur eru í Sýlingarfelli og ein NV-SA sprunga er í Sandfellshæðarhrauni norður af Húsatóftum. Engar sprungur eru í yngri sprunguhraununum, Illahrauni og hraununum sem koma vestan úr Eldvörpum. Ein sprunga er í Sundhnúkshrauni sunnan undir Hagafelli. Tvær sprungur eru aftur á móti í litla Eldvarpahrauni vestan við Grindavík. Nokkrar NA-SV sprungur stefna á byggðina í
Grindavík úr suðvestri en þær hverfa inn undir Sundhnúkshraun og hafa því ekki hreyfst í a.m.k. 2400 ár.”

Heimild:
-Bæjarbót, 7. tbl. 01.07.1990, “Byggðin að mestu á hrauntaumi frá Sundhnúkagígaröð”, bls. 5.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

Skálafell

 Landnám Íslands – Ingólfur og Karli

Í Sturlubók Landnámu má lesa eftirfarandi um fyrstu landnám hér á landi:

Formáli

Skálafell

Skálafell austan Esju.

“Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skínum nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi.

En Bedaprestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftirholdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.

4. kafli

Skáli

Skáli undir Skálafelli 2014.

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn bræður þegar til orustu við þá Leif. En er þeir höfðu barist um hríð, kom að þeim Ölmóður hinn gamli, son Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.

5. kafli

Skálafell

Skáli Ingólfs 2002?

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking.

Skáli

Skáli í Skálafelli 1999.

Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri.En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – styttá á Arnarhóli í Reykjavík.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.

6. kafli

Skálafell

Skáli Ingólfs 2001?

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá varliðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Skálafell

Skálafell – skáli o.fl. Uppdráttur ÓSÁ.

Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

En um vorið vildi hann sá; hann átti einn uxa, og lét hann þrælana draga arðurinn.

Skálafell

Skálinn 2002.

En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins.

Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust í skóginn, þá settu þrælarnir að sérhverjum þeirra og myrtu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brutt með konur þeirra og lausafé og bátinn. Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.

7. kafli

Skálafell

Skálafell.

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: “Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.” Ingólfur lét búa gröf þeirra Hjörleifs og sjá fyrir skipi þeirra og fjárhlut.

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leitaþrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjarheita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Skálafell

Skáli Ingólfs 2010?

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

8. kafli

Skálafell

Við Skálafell 2020.

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.

Þá mælti Karli: “Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.”

Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.

Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Skálafell

Á ferð um Skálafell 2023.

Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.

9. kafli

Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.”

Spurningin er; er nefndan skála enn að finna í Skálafelli, líkt og Landnáma getur um?!

Heimildir:
-Landnáma (Sturlubók), kaflar 6-9.
-https://www.snerpa.is/net/snorri/landnama.htm.

Skálafell

Skáli Ingólfs í Skálafelli?

Jarðfræðikort

Í Morgunblaðinu 1978 er viðtal við Jón Jónsson jarðfræðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga (niðurstöðurnar þarf að taka með fyrirvara því ýmiss þróun við áldursákvarðanir hefur orðið síðan viðtalið var birt) undir fyrirsögninni:”Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga“:

Jón Jónsson“Jón Jónsson jarðfræðingur fékk í júní s.l. 200 þúsund króna styrk úr Vísindasjóði vegna kostnaðar við aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga. Til þess að forvítnast nánar um störf Jóns og rannsóknir átti Mbl. viðtal við hann á skrifstofu hans hjá Orkustofnun í vikunni.
Í byrjun kvaðst Jón hafa átt við rannsóknir sínar á Reykjanesskaga að meira eða minna leyti frá árinu 1960, en þó hafi þær fyrstu 5—6 árin verið hrein ígripavinna hjá sér. Ennfremur hefði hann í tvö ár af þessum tíma verið staddur í Mið-Ameríku á vegum Sameinuðu þjóðanna við jarðhitarannsóknir, fyrst í El Salvador og síðan í Nicaragúa. og í þann tíma ekki hafa getað sinnt þessu starfi.
Á vegg í skrifstofu hans er geysistórt kort af Reykjanesskaganum og aðspurður sagði Jón að hann hefði unnið það eftir loftmyndum, en hreinteikningu þess hefðu jarðfræöingarnir Jón Eiríksson og Sigmundur Einarsson unnið. Slíkt kort hefur ekki áður verið gert af Reykjanesskaga né öðru svæði á Íslandi. En núna næstu daga lýkur prentun á skýrslu Jóns um rannsóknir hans, en skýrslan er kostuð og gefin út af Orkustofnun og er í tveimur heftum.
Gígaröð
„Ég hef merkt inn á loftmyndir hvern einasta hraunstraum og hverja eldstöð vestan frá Reykjanestá og austur undir Hellisheiði og þá kortlagt bæði eldri hraunmyndanir og yngri, og hef þá sérstaklega lagt áherzlu á eldstöðvar og hraun sem orðið hafa til eftir að ísöld lauk, þ.e. á síðast liðnum 10—12 þúsund árum. Og það kemur í ljós að ef talið er utan af Reykjanestá og að Hellisheiði þá nálgast eldstöðvarnar töluna 200. Hugsanlega hefur mér einhversstaðar yfirsézt, en ég á orðið mörg sporin á Reykjanesskaganum og held að það geti ekki verið mikið ef eitthvað er. Á þessum tíma, sem ég nefndi áðan, hefur um 42 rúmkílómetrar af hrauni komið upp.”
— Nei, hrauntegundirnar eru ekki þær sömu á þessu svæði. Þeim er skipt í þrjá meginflokka, þ.e. litlar dyngjur, sem gosið hafa því sem við köllum pikrít-basalt og þær virðast vera elztar eldstöðvanna á skaganum eftir að ísöld lauk.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Sem dæmi um litlar dyngjur get ég nefnt Háleygjabungu, vestast á Reykjanesinu, Lágafell, Vatnsheiði hjá Grindavík, Búrfell í Ölfusi og Dimmadalshæð rétt fyrir ofan Hlíðardal.
— Næst koma svo stórar dyngjur í aldursröð og stærst þeirra er Heiðin há suð-vestur undir Bláfjöllum og er hún nokkuð yfir 60 tengiskílómetra. Önnur stór dyngja er Þráinsskjöldur, sem er gamalt nafn sem ég hef vakið upp á ný og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, en Þráinsskjaldarhraun þekur alla Vatnsleysuströndina.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Stóru dyngjurnar á Reykjanesskaga hafa lagt til um 70% af hraununum og hafa gosið hrauni sem við köllum olivin þoleít.
— Þriðji og síðasti meginflokkurinn er sprungugosin og má þar nefna sem dæmi gígaraðirnar sitt hvoru megin við Vesturháls.
— Samanlagt er hraunflöturinn 1064 ferkílómetrar og rúmtakið 42 km. Ef þessari framleiðslu er jafnað niður á 10 þúsund ár, þá gerir það 4.2 rúmkílómetra á hverjum þúsund árum.
— Eftir að landnám hófst, þá virðast hafa komið upp hraun sem ná yfir 94 ferkílómetra svæði, að rúmmáli um 1.8 rúmkílómetra. — Í þessum tölum eru reiknuð hraun sem örugglega hafa runnið mjög stuttu fyrir landnám.

Allmörg hraun runnið eftir landnám

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

— Það getum við ráðið af einu ljósu öskulagi, sem kallað hefur verið landnámslagið og hefur fallið um árið 900, en það fann Sigurður Þórarinsson fyrst austur í Þjórsárdal og reiknar hann aldur þess út frá rústunum sem þar finnast. Þetta lag er að finna víðsvegar á Reykjanesskaga en í því fann ég kolaðar viðarleifar og við aldursákvörðun þeirra fékkst árið 910 og þá eru skekkjumöguleikar ekki teknir með. Það sýnir að hraun, sem yfir lagið hefur runnið, hlýtur að vera yngra.
Tvíbollahraun— Í ljós hefur komið, að allmörg hraun hafa runnið eftir að landnám hófst og má þá telja Tvíbollahraun um 875, Rjúpnadyngnahraun um 900, Breiðdalshraun um 910, Nýjahraun eða Kapelluhraun um 1010, Ögmundarhraun um 1340 og Selvogshraun um 1340, en fasta aldursákvörðun hef ég ekki á því. Ögmundarhraun er því yngst og virðist ekki hafa gosið frá því að það kom upp.
Af eldri hraunum má telja Leitahraun sem upp hefur komið fyrir um 4600 árum, og er sú aldursákvörðun fengin með geislakolsrannsóknum eða C14 ákvörðun. Sandfellsklofahraun er um 3000 ára, en það er við vesturenda Sveifluháls, Sundhnjúkahraun við Grindavík um 2400 ára og Óbrynnishólar yngri sem eru um 2100 ára.
— Reykjafellshraun, sem ég leyfi mér að kalla svo en sumir kalla Kristnitökuhraun, reynist vera um 1800 ára, en í þessum tölum tek ég skekkjumöguleika ekki með.

Styrkurinn hrekkur ekki til

Strompahraun

Strompahraun.

— Ég veit um kolaðar gróðurleifar undir nokkrum hraunum og það er til aldursákvörðunar á þeim sem ég ætla styrkinn ur Vísindasjóði. Það er hraun úr Stóru-Eldborg undir Geitarhlíð austan við Krýsuvík og Litlu-Eldborg á sama stað. Þ.e. Ögmundarhraun og eldra hraun undir Ögmundarhrauni og svo hraun sem ég kalla Strompahraun, og það nafn hefur Örnefnanefnd samþykkt svo að það er löglegt að setja það á kort.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

— Nei, það er sýnilegt að styrkurinn hrekkur ekki til þessara rannsókna og því til stuðnings get ég talið til að hver aldursákvörðun kostar um 800 sænskar krónur, sem er þó nokkur fjárhæð. Við sendum sýnin út til aldursákvörðunar, en til þess þarf í raun heila rannsóknarstofu.
Tækjakosturinn minn? Ég nota aðeins smásjá, en til ákvörðunar á bergtegundum geri ég þunnsneiðar af berginu og í smásjánni má greina flest alla kristallana í því, nema málma sem eru um 10% af því.

Leiti

Leiti.

— Ég hef hlerað það að þeir í Háskólanum hafi áhuga á að koma upp rannsóknastofu þar sem m.a. mætti aldursgreina bergmyndanir og nota til rannsókna varðandi fornfræði og fleira, en slíkt fyrirtæki er mjög kostnaðarsamt og landið okkar er lítið.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

— Nei, það er rétt að ekkert annað svæði á Íslandi hefur verið tekið fyrir á þennan hátt. Það sem er áhugavert við Reykjanesskagann er að hann er hluti af Reykjaneshryggnum eða Mið-Atlantshafshryggnum sem nær eftir Atlantshafinu endilöngu. — Og á þessum hrygg eiga nær allir jarðskjálftar upptök sín, en þessi hryggur liggur um Ísland þvert og það er raunar þetta sem við köllum gosbeltið. Á því eru allar eldstöðvar sem virkar hafa verið eftir að ísöld lauk og öll hájarðhitasvæðin. Atlantshafshryggurinn hefur vakið athygli jarðvísindamanna á síðustu áratugum og Reykjanesskaginn er eitt af þeim fáu svæðum sem er ofan sjávar og sá eini sem hefur í heild verið kortlagður eins nákvæmlega og nú hefur verið gert.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort. Dyngjurnar eru gullitaðar.

— Ég tel að með þessari vinnu minni sé lagður grundvöllur fyrir jarðfræðinga, efnafræðinga og jarðeðlisfræðinga til frekari rannsókna og fjölþættari en ég hef þegar gert. Ég vonast sem sagt til þess að þetta verði sæmilega traustur grundvöllur fyrir aðra að byggja á og ef sú verður raunin þá er ég ánægður.” – ÁJR

Hafa ber í huga að framangreint viðtal við Jón var tekið árið 1978.

Heimild:
-Morgunblaðið, 184. tbl. 26.08.1978, “Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga” – Rœtt við Jón Jónsson jarðfrœðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga, bls. 8-9.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Andvari

 Jarðskjálftar vekja jafnan ugg og ótta með fólki, þá sjaldan sem þeir verða á sérhverri mannsævi. Þeir eru þó algengari en í fyrstu virðist. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði “Um jarðskjálfta” í Andvara árið 1882:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Það er naumlega hægt að ímynda sér nokkuð óttalegra en mikinn jarðskjálfta, jörðin titrar og skelfur og gengur upp og niður eins og bylgjur á sæ, fjöllin klofna, jarðvegurinn rifnar í sundur, ár falla úr farvegi sínum og þorna upp, brunnar og uppsprettur hverfa, hús og hallir falla til grunna og drepa hverja skepnu, sem undir verður, hafið sogast frá ströndinni en kemur aptur hvítfyssandi og gleypir borgir og bæi, kastar skipum á þurrt land og fiytur hús út á reginhaf; jarðvegurinn umturnast allur og breytist, neðanjarðar heyrast dunur og dýnkir og hver skepna stendur höggdofa og hyggur kominn heimsenda. Fyrir slíkum undrum eru menn hvergi óhultir, hvorki ofanjarðar né neðan, námur falla saman og kviksetja málmnemana og sterkustu byggingar manna hrynja eins og spilahús við lítinn gust. Það er því eigi undarlegt þó ótti og skelfing grípi hvern mann, þegar jarðvegurinn, sem vér frá blautu barnsbeini höfum álitið fastan og óhreyfanlegan, leikur á reiðiskjálfi og tjón og dauði hvervetna er í vændum.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland – jarðskjálftakort 2010.

Þó jarðskjálftar hafi hér á Íslandi sjaldan gert stóran skaða, þá hafa þeir þó annarsstaðar orðið mörgum manni að bana. Hreyfing sú, sem kemur á jarðarskorpuna við jarðskjálfta, er ýmisleg. Við lítla jarðskjálfta titrar jörðin opt aðeins lítið eitt, svo að glös hreyfast á hillum og hús skjálfa nokkuð, en þegar meira gengur á, gengur jörðin i bylgjum upp og niður; þessi bylgjuhreyfing getur orðið svo mikil, að sjá má hvernig landspildurnar hefjast og falla eins og öldur á sæ. Slíkir landskjálftar ná opt yfir stór svæði, en eru þó ekki mjög hættulegir, þegar bylgjuhreyfingin gengur í eina stefnu, en stundum mætast tvær eða fleiri bylgjuraðir í jarðarskorpunni.

Sprungur

Sprungumyndun eftir jarðskjálfta.

Stundum koma jarðskjálftar fram sem högg eða kippir beint upp (succurroriskir jarðskjálftar), og hvað sem fyrir þeim verður, þeytist upp og brotnar; þegar svo ber undir hefjast hús af grundvelli sínum og klettar hoppa upp og niður.
Útbreiðsla jarðskjálftanna getur verið ýmisleg, stundum er styrkleikur þeirra mestur á einhverjum vissum stað og jarðskjálftabylgjurnar breiðast út til allra hliða alveg eins og bylgjur á vatni, þegar steini er í það kastað; þeir landshlutir, sem eru í miðdepli skjálftans, verða þá fyrir mestum skemmdum og ágangi; opt verður það þá, þegar margir kippir koma hver eptir annan, að miðdepill jarðskjálftans breytist og hreyfist þá aptur á bak eða fram í beina stefnu.

Ölfus

Arnarbæli 1896 – eftir jarðskjálfta á Suðurlandi.

Hreyfing og hraði jarðskjálftabylgnanna eru að miklu leyti komin undir bygging jarðlaganna og eptir því, hverjar bergtegundir verða á vegi þeirra. Styrkleiki og útbreiðsla jarðskjálftanna er því mjög ýmisleg á ýmsum stöðum eptir því, hvort jarðvegurinn er fastur eða laus í sér, þéttur eða sprunginn, samsettur af einni bergtegund eða fleirum. Þar sem jarðvegurinn er samsettur af föstum klettum af sömu bergtegund, fara jarðskjálftabylgjurnar um landið með jöfnum hraða og breiðast jafnt út til allra hliða, án þess að gjöra mjög mikinn skaða, en þar sem sandur er í jarðveginum og sundurbrotnar og sundurklofnar bergtegundir, verða bylgjurnar ójafnar og óreglulegar; allt verður í mesta glundroða og hús og borgir hrapa og brotna í mola; þó eru jarðskjálftabylgjurnar einkum hættulegar, þar sem sandlög hvíla á föstum grunni.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin í Grindavík eftir jarðskjálfta 31. júlí 2022.

Sandurinn hoppar og kastast saman í hrúgur og því lausara sem samhengið er, því meira umturnast jarðlögin; jarðskjálftinn breiðist þá eigi um mikið svæði, en gjörir mikinn skaða þar sem hann er. Útbreiðsla landskjálftans er því alveg bundin við lögun og samsetningu jarðlaganna sem hann verkar á. Djúpar glufur og gjár í jarðveginum geta alveg hindrað útbreiðslu landskjálftans, og eins er farið þar sem margskonar jarðlög og breytileg skiptast á á litlu svæði.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Jarðskjálftar eru eins og áður var sagt mjög tíðir á jörðunni og geta komið nærri alstaðar; þó eru þeir tíðastir nálægt eldfjöllum. Jarðskjálftakippir eru eigi beinlínis bundnir við neina sérstaka byggingu landanna., þeir hafa jafnt fundizt og gjört, skaða á sléttlendum sem hálendum; þeir eru heldur eigi bundnir við neinn vissan áratíma, né nokkurn sérstakan tíma dags, slíkt getur borið við jafnt á nótt, sem degi og eins á sjó sem landi.
Þegar jarðskjálfti verður á sjávarbotni langt frá landi, finnst við það á skipum snöggur kippur alveg eins og þau snögglega hefði rekizt á sker. 1845 þegar Hekla gaus, fannst kippur svo mikill á skipi sem ætlaði frá Keflavík til Reykjavíkur, að hásetar héldu að þeir hefðu siglt upp á sker.

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt eftir jarðskjálfta 1896.

Hvergi eru sæskjálftar eins tíðir og á miðju Atlantshafi. Ef jarðskjálftinn nær upp að einhverri strönd, þá verða þar mestar breytingar og mestur skaðinn. Sjórinn sogast snögglega langt út frá landi og kemur svo aptur með ótrúlegu afli langt upp á land og brýtur allt, og bramlar, er fyrir verður, stór skip flytjast upp á land og sjórinn flæðir yfir borgir og bæi, drekkir öllu kviku sem þar er, brýtur húsin og fyllir göturnar með leir, malargrjóti og þangi.
Það er eigi sjaldgæft að dýnkir heyrast neðan jarðar við jarðskjálfta. Dýnkirnir eru ýmislegir, stundum eins og drynjandi fallbyssuhvellir, stundum eins og skrölt eða hringl, stundum brak og brestir; slíkt verður opt við eldgos og heyrist langt frá eldfjöllunum, jafnvel þó engin hreyfing finnist.

Katla

Kötlugos 1918.

Við Kötlugosið 1860 heyrðust dýnkir um Borgarfjörð og allt Suðurland. 1845 þegar Hekla gaus, heyrðust dýnkirnir og fannst til jarðskjálfta norður í Grímsey.
Það er eigi sjaldgæft að fljót þorna upp við jarðskjálfta og breyta farvegi sínum, af því ýmsar sprungur koma í jarðveginn sem breyta vatnsrennslinu. Sprungur koma helzt þar sem jarðvegur er laus í sér, fram með fljótsbökkum, í fjallahlíðum o.s.frv. Upp úr sprungunum koma opt um leið og þær myndast rykský, sandur,
vatn eða leir. Stundum hafa menn þókzt sjá loga og reyk koma upp úr jarðsprungum, þó eru flestar sagnir um það naumlega áreiðanlegar; að minnsta kosti þyrfti það nánari rannsókna; rykský geta opt litið út líkt og reykur.
Sprungurnar ganga optast eptir beinum stefnum eins og sprungurnar er komu við Húsavík 1872; þær ganga frá norðri til suðurs.

Dalvík

Dalvík 2. júní 1934. Skjálft­inn mæld­ist af stærð 6,2.

Einstaka sinnum hafa við jarðskjálfta myndast sprungur, er ganga eins og geislar út frá einum miðpúnkt og þá er vanalega djúp hola í miðjunni. Opt kemur það fyrir, að jarðsprungur myndast án þess þær sjáist á yfirborðinu, en þær raska þá legu lækja og áa, sem fyrr var getið, brunnar þorna upp og hverfa eða það lækkar í þeirn og vatnið verður hvítt eða mórautt af leir, sem blandast saman við það. Stundum hverfa hverir og laugar við jarðskjálfta og koma þá stundum upp aptur á öðrum stöðum; 1597 hvarf t.d. Geysir í Hveragerði fyrir neðan Reyki í Ölvesi, en kom svo fram aptur fyrir ofan túnið. Þessu líkt hefir opt orðið við jarðskjálfta á Íslandi, sem síðar mun getið. Stundum breytist og hiti hveranna við landskjálfta, hverar verða að laugum og laugar að hverum.

Dalvík

Frá Dalvík 1934.

Fjöllin verða opt fyrir miklum ágangi af landskjálftum, stórar skriður falla niður eptir hlíðunum hver á eptir aðra og eyða byggð og graslendi fyrir neðan. Með því að safna saman fregnum um ótal jarðskjálfta, þykjast menn hafa fundið að þeir séu tíðari um haust og vetur en á vorin og á sumrum.
Eins og eðlilegt er verður hver skepna hrædd, þegar jarðskjálfti verður, og er það eigi undarlegt, en skrítið er það, að það sýnist svo sem ýms dýr verði óróleg á undan jarðskjálfta. Það getur verið að þetta orsakist af því, að þau taki eptir litlum titringi og smáhreyfingum, er landskjálftinn byrjar með og sem vér eigi verðum varir við.

Dalvík

Dalvík 1934.

Eptir þessar almennu hugleiðingar um jarðskjálftana, skulum vér fara nokkrum orðum um einstaka mikla jarðskjálfta, sem í minnum eru hafðir, til þess að vér getum gjört oss í hugarlund hvernig þeir verka undir ýmsum kringumstæðum, og til þess að sjá hvaða áhrif þeir hafa.
Ef menn athuga sprungur og rifur í húsum og múrum í héraði því, sem hefir orðið fyrir jarðskjálftanum, þá sjá menn miðpúnkt jarðskjálftans á legu þeirra og stefnu, því eptir aflfræðinni verða þær lóðrétt á landskjálftastefnunni. Séu nú línur dregnar eptir þessu frá öllum athugunarstöðum, sameinast þær á einum stað í jörðunni og þar hlýtur miðdepill jarðskjálftans að vera.

Dalvík

Nær helm­ing­ur íbúa á Dal­vík og ná­grenni varð fyr­ir því að íbúðar­hús þeirra skemmd­ust. Tjöld voru reist og einnig út­bú­in tjöld úr tré­grind­um og segldúk­um. Einnig voru út­bún­ar íbúðir t.d. í fisk­húsi og skóla­hús­inu. Gjaf­ir bár­ust víða að, pen­ing­ar, mat­væli og fleira til styrkt­ar bág­stödd­um Dal­vík­ing­um. Strax var haf­ist handa við end­ur­reisn. Ljós­mynd/​Vig­fús Sig­ur­geirs­son

Ef farið er eptir tímaákvörðunum og menn vita nákvæmlega hvenær kippurinn hefir fundizt á ýmsum stöðum í héraðinu, þá má á landabréfi draga línur á milli allra þeirra staða, sem á sama augnabliki hafa orðið fyrir jarðskjálftanum (homoseiste), og milli þeirra staða, sem jarðskjálftinn hefir verkað á með jöfnum krapti (isoseiste). Þeir staðir, sem á sama tíma hafa orðið fyrir jarðskjálftanum, verða þá að vera hér um bil jafnlangt frá miðdeplinum, ef hraði jarðskjálftabylgjunnar í gegnum jarðlögin hefir verið hinn sami í allar áttir. Á landabrélinu koma þá fram margir hringir hvor innan í öðrum og undir miðdepli þeirra hljóta upptök jarðskjálftans að vera. Hve langt þau eru niðri í jörðunni má svo reikna eptir tímanum og hraðanum. Til þess að finna upptök jarðskjálfta eptir sprungum og rifum verður kippurinn að hafa verið mjög sterkur, því slík missmíði koma að eins við harða kippi. Tímaákvarðanir má aptur á móti nota við alla jarðskjálfta, hve litlir sem þeir eru. Eptir styrkleika mikilla jarðskjálfta og skaða þeim, sem þeir gjöra, má og nokkurn veginu sjá hvar miðdepillinn er, því mest eyðist og skemmist þar.

Sandfell

Fyrir eldgosið í Öræfajökli árið 1362 hét byggðin sem Sandfell tilheyrði Litla-Hérað, en var endurnefnd Öræfi eftir að gosinu lauk. Þá tilheyrðu a.m.k. 30 bæir Litla-Héraði, allt frá Morsárdal og yfir að Breiðumörk. Gosið og jökulhlaupin fóru svo illa með byggðina að það sem áður var gjöfult landbúnaðarsvæði breyttist í mikla auðn. En þrátt fyrir þetta áfall byggðist sveitin upp aftur. Myndin er tekin 1902.

Jarðskjálftar eru tíðastir í þeim löndum, þar sem jarðlögin eru breytilegust, og þar sem randir jarðlaganna hafa mest breytt stöðu sinni innbyrðis og gengið á misvíxl. Jarðskjálftarnir koma opt eigi af öðru en því, að jarðlögin af ýmsum orsökum verða misþung, þegar vatn eða annað hefir sumstaðar bætt við, en borið nokkuð burt á öðrum stað; þá geta jarðlögin brostið þar, sem þau láta bezt undan; við það kemur þá kippur, sem hristir landið í kring. Þegar nú þrýstingaraaflið minnkar, geta jarðlagabrotin færzt til á ýmsan hátt og breyti stöðu sinni innbyrðis. Stundum getur þetta orðið hægar, að ein landspildan lyftst en önnur sígur, án þess hristingur komi í kring, þá gerist það smátt og smátt, þannig hefjast lönd og síga, eins og fyrr hefir verið sagt. Af þessu má sjá, að jarðskjálftarnir og hreyfingar þær, sem þeim eru skyldar, hljóta að hafa stórkostlega þýðingu fyrir jarðmyndunina í heild sinni. Þó fer fjarri því, að öllum jarðskjálftum sé svo varið; orsakir þeirra geta verið þrennskonar:

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.

1. Við eldgos koma opt jarðskjálftar í kringum eldfjöllin, þeir ná sjaldan yfir mjög stórt svæði, miðdepillinn er þá í eldfjallinu eða undir því. Slíkir jarðskjálftar koma vanalega á undan gosunum og orsakast af því, að logandi hraun er að brjótast upp um rifur í jarðarskorpunni og vatnsgufur, sem hafa niðri í jörðunni verið undir miklum þunga og þrýstingi, koma snögglega upp og hrista landið í kring, um leið og þær leysast úr dróma, eða með öðrum orðum þenjast út.
2. Jarðskjálftar geta komið af því, að vatn hefir skolað jarðveginn burt undan stórum landspildum, sem þá falla niður og hrista landið.

Sprunga

Afleiðingar jarðskálfta.

3. Af misjöfnum þrýstingi og þunga jarðlaganna, sem fyrr var getið. Annaðhvort mynda þau nýjar glufur í jarðskorpunni, eða fylgja gömlum sprungum. Optast mun það þó vera, að fleira en eitt af þessu kemur jarðskjálftum til leiðar, ef t.d. jarðlögin breyta innbyrðis stöðu sinni, myndast sprungur eða gamlar glufur gliðna í sundur; við þetta verður hægra fyrir eldkraptana undir jarðarskorpunni að brjótast upp, vatn og sjór síast niður um glufurnar, verða að gufu þegar þau koma við glóandi eimyrjuna, spenna síðan hraunleðju upp um sprungurnar og hrista landið í kring um eldfjallið.

Sprunga

Sprunga í Þorbjarnarfelli eftir jarðskjálfta.

Snemma hafa menn farið að taka eptir jarðskjálftum og reynt að gjöra sjer í hugarlund hvernig á þeim stæði. Hafa menn um það opt haft mjög misjafnar skoðanir, og undarlegar, einkum framan af, áður en menn fóru að veita náttúruviðburðunum nákvæma eptirtekt, og bera saman öll áhrif þeirra. Það gæti því ef til vill einhverjum þótt gaman, að heyra hvað menn á ýmsum öldum hafa hugsað og ritað um þá, þó það í sjálfu sér eigi hafi aðra þýðingu en þá, að sýna hvernig menn smátt og smátt frá vanþekkingu og getgátum, hafa eins í þessu og öðru loksins eptir langa mæðu, komizt að nokkrum hluta sannleikans.

Sprunga

Sprunga opnast eftir jarðskjálfta.

Á Íslandi hafa sjaldan orðið þeir jarðskjálftar, sem mannskaði mikill hefir orðið að, af því landið er svo strjálbyggt og borgir engar. Jarðskjálftar á Íslandi hafa optast staðið í nánu sambandi við eldgos og komið belzt í þeim héruðum, sem eru nálægt eldfjöllum. Hér munum vér þá telja jarðskjálfta, sem orðið hafa á Íslandi svo sögur fara af. Eldgos eru hér aðeins nefnd, þegar þess er getið í frásögunum að jarðskjálftar hafi verið þeim samfara og þeim er hér eigi lýst neitt, hinum er sleppt, sem engir landskjálftar hafa fylgt, sem í frásögur eru færðir. Hér er víðast hvar farið sem næst orðum annála þeirra og rita, sem þetta er tekið úr.
1013. Landskjálftar miklir og létust 11 menn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

1151. Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði.
1157. Eldsuppkoma í Heklu 19. janúar og landskjálfti sá, er manndauði varð af.
1164- Landskjálfti í Grímsnesi og létust 19 menn4.
1182. Landskjálfti og dóu 11 menn.
1211. Eldur fyrir Eeykjanesi. Þá varð landskjálfti mikill fyrir sunnan land hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu (7. júlí) og létu margir menn líf sitt (18 segja sumir) og féll ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörði hinn stærsta skaða.
Reykjaneseldar1240. Eldur fyrir Reykjanesi. Landskjálftar miklir fyrir sunnan land.
1260. Landskjálfti hinn mikli norður í Flatey.
1294. Eldur í Heklu með miklum landskjálfta, víða féllu hús um Fljótshlíð og Rangárvelli og svo fyrir utan Þjórsá, sprakk jörð og týndust menn. Hjá Haukadal komu upp hverar stórir, en sumir hurfu þeir sem áður voru. Á Húsatóptum hvarf og burt laug sú, er þar hafði áður alla æfi verið. Þar rifnaði og sprakk svo djúpt að eigi sá niður. Brunnar urðu ásyndum sem mjólk 3 daga í Flagbjarnarholti.

Hekla

Heklugos – Larsen 1845.

1300. Mikið Heklugos. Landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að ofan féll bær á Skarði eystra. Þar í kirkjunni var mikill málmpottur festur við brúnaásinn, honum barði svo við ræfur kirkjunnar af skjálftanum að braut pottinn. Kistur 2 stóðu í anddyrinu, þeim barði svo saman af jandskjálftanum að þær brotnuðu í smán mola.
1308. Landskjálfti fyrir sunnan land og féllu niður 18 bæir en 6 menn dóu.
1311. Landskjálfti næstu nótt eptir drottinsdag (það er nóttina milli 29. og 30. desember eða 10.—11. janúar á nokkrum stöðum. 25. janúar, eldgos á Suðurlandi líklega úr Kötlu.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

1339. Kom landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að mönnum og fénaði hrastaði til jarðar svo að ónyttist. Hús féllu mest um Skeið og Flóa og Holtamannahrepp og víðast hið neðra milli Þjórsár og Eystri Rangár, en fjöldi bæja féllu allir til jarðar eða tók hús úr stað, létust nokkur börn og gamalmenni. Jörðin rifnaði víða til undirdjúpanna uppsprettandi heitt vatn og kalt. Hröpuðu fjöll og umhverfðist holt í Holtamannahreppi og færði úr stað. Menn duttu af baki á vegum og urðu að liggja á meðan landskjálftinn var. Þá kom upp hver í Henglafjöllum 10 faðma á hvern veg, þar sem áður var slétt jörð.
1341- Eldsuppkoma í Heklu. Dunur um allt land sem hjá væri og svo stórir voru dynkirnir, að landið skalf allt, svo að í fjarlægum héruðum hristust skjáir á húsum sem fyrir vindi hvössum um langan tíma og var þé kyrrt veður.
1370. Þá varð landskjálfti í Ölfusi og féllu 12 bæir.

Hekla

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta var 1104. Síðan hefur fjallið gosið 1158, 1206, 1222, 1294 (1300), 1341, 1389-1390, 1440, 1510, 1554, 1597, 1636, 1693, 1725, 1766, 1845, 1878, 1913, 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000.

1389. Heklugos, þá brunnu og Trölladyngjur og Síðujökull. Margir bæir féllu af landskjálftum.
1391. Landskjálfti mikill fyrir sunnan land um Grímsnes, Flóa og Ölfus svo að 14 bæi skók niður að nokkru leyti, en Miðengi, Búrfell og Laugardælar braut að öllu, nema kirkjan stóð í Laugardælum og dóu undir fátækir menn. Rifnaði víða jörðin og kom upp vatn, tók þessi landskjálfti allt til Holtavörðuheiðar.
1510. Heklugos 25. júlí. Þá fundust svo miklir landskjálftar i Skálholti, að menn hugðu að hús mundu hrapa, en varð þó ekki mein af.
1546. Jarðskjálfti um fardaga og kom hann mest í Ölfusi, því þar hrundu víða bæir og hús, Hjalli og allt Hjallahverfi hrapaði.
1552. Kom kippur kyndilmessukvöld svo allt hrundi það niður, sem laust var innan húsa, borðin, könnur og annað því um líkt.

Eldgos

Eldgos vekja jafnan mikla athygli. Undanfari þeirra eru jafnan jarðskjálftahrinur.

1554. Eldur uppi í Hekluhraunum um vorið milli krossmessu og fardaga. Voru svo miklir jarðskjálftar í hálfan mánuð að engi maður þorði inni í húsum að vera, heldur tjölduðu menn úti en hlupu snöggvast inn í húsin eptir því, sem þeir skyldu neyta þá í millum varð þvílíkra undra; en þar menn voru, þá héldu þeir sér í grasið, þá þessi undur að komu.
1578. Eldur uppi í Heklu um haustið og gjörði landskjálfta svo margir bæir hrundu í Ölfusi, hús hristust hálfa stund og var það eptir Allraheilagramessu.
1581. Varð jarðskjálfti milli krossmessu og fardaga. Þá hröpuðu víða bæir á Rangárvöllum og í Hvalhrepp og mannskaði varð þá víða, því þeir urðu undir húsunum. Á Bergvaði varð undir bænum kona komin að falli og tvævett barn, er hún átti, en hún komin í jörð þá hennar maður kom til. Einn maður varð undir í Lambhaga, bitinn brotnaði og kom á hálsinn á honum og víðar varð einn maður eða tveir undir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Katla

Kötlugos 1918.

1584. Landskjálfti mikill á Íslandi.
1597. Heklugos 8. janúar; fundust nokkrir landskjálftar í Skálholti er gosið byrjaði. Um vorið eptir þetta gos urðu miklir landskjálftar og hrundu margir bæir í Ölfusi. Í þeim landskjálfta hrapaði niður í grunn bærinn á Hjalla í Ölfusi. Þá hvarf og stóri hverinn Geysir í Hveragerði fyrir sunnan Reyki og kom upp aptur annar hver fyrir ofan túnið á Reykjum, sem er í dag og gýs mjög (nú [1881] hættur gosum) þó eigi sem hinn sá stóri hafði áður gosið, því um veginn hafði ei óhætt verið að fara, sem lá mjög nærri honum, svo sem enn má sjá vöxt og merki til, því þar er enn hverastæðið vítt með vellandi vatni og er þar langur vegur á milli, sem sá Geysir er, sem nú hefir síðan verið og áin á milli.
1613. Landskjálfti syðra, hrundu bæir; í þeim landskjálfta féll Fjall á Skeiðum að mestu. Þar á hlaðinu lá reiðingstorfa, sem hvarf í jarðskjálftanum, svo hún sást ei síðan.
1618. Gengu alltíðir jarðskjálftar bæði dag og nótt um haustið og fram að jólum, hröpuðu í einum þeirra 4 bæir norður í Þingeyjarþingi, þar sprakk jörð sundur svo varla varð yfir komizt.
1619. Heklugos, þá voru og landskjálftar eptir mitt sumar.
1624. Sífeldir jarðskjálftar frá Allraheilagramessu til Andrésmessu og varð vart við þá lengur, féllu í þeim 2 bæir suður í Flóa, fleiri lestust.
1625. Kötlugos sem byrjuðu 2. september, þá fundust nokkrir smáir jarðskjálftakippir í nánd.
1630. Jarðskjálftar þrír um veturinn, svo 6 menn urðu undir húsum fyrir austan Þjórsá.
1632. Landskjálfti um haustið.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

1633. Landskjálftar syðra, hrundu bæir í Ölfusi, ei sakaði menn né pening. Svo voru þessar hræringar tíðar að messufall varð á mörgum kirkjum allan þann vetur.
1643. Varð jarðskjálfti jólanóttina.
1657. Gengu landskjálftar miklir, svo tveir bæir féllu syðra, lá fólk í tjöldum á einum bæ í Fljótshlíð.
1658. Landskjálfti var á páskum.
1660. Kötlugos 3. nóvember. Það byrjaði með landskjálfta, sem varaði hérumbil eina stund.
1661. Landskjálftar um sumarið.
1668. Landskjálftar miklir um veturinn.
1671. Hús hrundu í Grímsnesi og Ölfusi af landskjálftum.
1693. Heklugos 13. febrúarmán. Þá fundust harðir landskjálftakippir á landi og sjó. Nokkrir bæir eyddust af öskufalli og jarðskjálftum.
1706. Miklir landskjálftar 1. dag aprílmánaðar, en þó einkum 20. s.m., hrundu þá hið seinna sinn 24 lögbýli mest um Ölfus og utarlega í Flóa og margar hjáleigur; molbrotnuðu viðir í húsum og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar, kofar og veik hús stóðu eptir sumstaðar þar sem hin sterkari féllu, matföng og búshlutir spilltust, kýr og kvikfénaður drápust víða, en ekki sakaði menn, nema eina konu. Þessar hræringar stóðu lengi fram eptir vorinu og voru því minni sem vestar dró, og það var rétt svo að þær fundust undir Jökli.

Katla

Kötlugosið 1918/Rangárbakki við Hellu – Málverk eftir ljósmynd frá 1918 (Magnús Guðnason, 1950)

1721. Kötlugos sem byrjaði 11. maí, kl. 9. e.m. Um morguninn sama dag kl. 9 á undan gosinu kom svo mikill jarðskjálfti á Höfðabrekku og víða í Mýrdalnum, að menn þorðu ekki að vera inni í húsum. Þessi jarðskjálfti fannst austur í Lóni og í öllum sveitum þar í milli. Einnig fannst hann út til Rangárvalla.
1724. Byrjuðu mikil gos við Mývatn og héldust þangað til 1730. 17. mai 1724 byrjuðu gosin með ógurlegum jarðskjálftum. Þá kófst landið töluvert sumstaðar við Mývatn.
1725. Gaus Leirhnúkur 11. janúar og fylgðu jarðskjálftar gosunum. 19. apríl s.a. gaus Bjarnarflag og gengu á undan stórkostlegir landskjálftar og svo eptir við og við allt árið. Harðastir voru kippirnir 8. september. Árin 1727—30 voru jarðskjálftar og mjög tíðir við Mývatn og breyttu víða mjög landslagi; stórar landspildur sukku en aðrar hófust, sumstaðar kom upp vatn og sumstaðar mynduðust mílulangar sprungur.

Öræfajökull

Aðeins tvö gos hafa orðið í Öræfajökli eftir landnám.  Það fyrra er reyndar mesta sprengigos sem orðið hefur hér á landi frá því land byggðist.  Þetta gos sem varð árið 1362 er ennfremur það mannskæðasta sem orðið hefur hér á landi ef frá er talið mannfallið sem varð óbeint vegna Skaftárelda árið 1783.  
Öræfajökull gaus svo aftur árið 1727.

1727. Gaus Öræfajökull 3. ágúst. Þá fundust nokkrir jarðskjálftar í Öræfum 3. og 4. ágúst, um það leyti sem gosið byrjaði.
1732. Þá varð hinn 7. september landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum, að spilltust nær 40 bæir þar um land og í Eystrahrepp, en 11 eða 12 bæir hrundu nær í grunn og meiddust 3 eða 4 menn, lágu menn þá í tjöldum því landskjálftinn hélzt um tvær vikur.
1734. Varð allmikill landskjálfti og fannst um allan Sunnlendingafjórðung, hrundu bæir í Flóa og víðar í Árnessýslu hrundu 30 bæir alls, en 60 eða 70 býli spilltust og létust við það 7 menn eða 8.
1749. Þá varð allmikill jarðskjálfti á Suðurlandi og mestur um Ölfus, húsum lá við hruni og á bænum Hjalla sökk grundvöllur undir bæ og kirkju fullar 2 álnir.
1752. Landskjálftar voru þann vetur í Ölfusi og hrundu 11 bæir.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

1754. Landskjálfti í Krýsuvík og kom þar upp 6 faðma víður hver og 3 faðma djúpur; þá var og eldur uppi í Hekluhraunum.
1755. Urðu miklir jarðskjálftar á Norðurlandi. Kringum Húsavík voru þeir harðastir; þar hrundu 10. september 13 bæir til grunna en 7 skemmdust. Jarðskjálftinn var einna harðastur kringum verzlunarbúðina, hún færðist nokkra þumlunga úr stað; verzlunarvörur skemmdust og tunnur börðust saman og brotnuðu. Eigi varð jarðskjálfti þessi neinum manni að bana. Í kringum Húsavík komu ótal djúpar sprungur og lækir urðu gruggugir sem skolavatn. Jarðskjálftinn var og mjög harður í Skagafirði, en linari í Húnavatussýslu.

Sprengigos

Sprengigos.

1766. Heklugos, gosið byrjaði 5. apríl, urn nóttina á undan gengu jarðskjálftar í héruðunum kringum Heklu. Á meðan á gosunum stóð, gengu ótal jarðskjálftar, einkum suðvestur frá Heklu, bæir féllu í Árnessýslu og á Reykjanesi og Vestmanneyjum voru kippirnir mjög harðir; optast komu 2—4 kippir á kverjum 21 klukkustundum. 9. og 10. september féllu þrír bæir í Ölfusi.
1783. Gos fyrir Reykjanesi, og síðan fyrir ofan Síðumannaafrétt við Skaptárgljúfur í Varmárdal, Úlfarsdal og norðar. Gosin byrjuðu 8. júní, en frá því 1. júní, höfðu miklir jarðskjálftar gengið um alla Skaptafellssýslu. Alltaf fundust jarðskjálftakippir meðan á gosunum stóð, en einkum þó 24. október; í janúar 1784 gengu og sífeldir jarðskjálftar þar í grennd.
1784. Þá gengu 14.—16. ágúst einhverjir hinir mestu jarðskjálftar, sem nokkurn tíma bafa komið á Íslandi.

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

1789. Miklir jarðskjálflar í Árnessýslu 10. júní. Þá hrundu hús um allt Suðausturland, og lágu menn víða í tjöldum, því opt varð vart við þá um sumarið. Urðu þá víða sprungur í jörðu, t.d. á Hellisheiði), og nýir hverar. Þá umbreyttist nokkuð Þingvallahraun, og svo vatnið, svo að sökk grundvöllur vatnsins að norðan, og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en alfaravegur forn varð undir vatni sumstaðar; grynntist það og allt að sunnan; hrundi mjög Almannagjá og klettar fleiri. Þá seig allt land milli Almannagjár og Hrafnagjár eina alin, að því er Sveinn Pálsson segir. Sökum skemmda og breytinga þeirra, sem á urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að að alþingi var flutt frá Þingvöllum til Reykjavíkur.

Sprunga

Hraunsprunga.

1808. Varð töluverður landskjálfti og fannst víða; breyttu sér þá laugar og hverir.
1810. 24. október varð harður landskjálfti austur frá Heklu, og fannst suður um heiðar, ekki varð hann að tjóni.
1815. Í júnímánuði varð lítill landskjálfti fyrir norðan land.
1818. Um veturinn varð nokkrum sinnum vart við landskjálfta eystra, og þrisvar syðra á Innnesjum.
1823. Kötlugos. Þá fundust jarðskjálftar í nánd, en heldur linir.
1826. Seint í júní kom landskjálfti fyrir norðan ekki afllítill; hann gekk vestur eptir og gjörði ekki tjón.
1828. Þá varð landskjálfti mikill í Fljótsblíð á Þorraþrælinn, féllu þar flestir bæir og 8 í Landeyjum; týndist þó enginn nema eitt barn.
1829. 21. febrúar og um nóttina milli hins 21. og 22. fundust jarðskjálftakippir um allt Suðurland, næstu daga á eptir fundust og nokkrir kippir, en miklu vægari. Harðastir voru landskjálftar þessir í kringum Heklu, og þar skemmdust 6 eða 7 bæir.

Sprungur

Hraunsprunga við kaldársel ofan Hafnarfjarðar.

1838. 12. júní kom allmikill landskjálfti fyrir norðan, og gekk mest yfir landtangana milli Skjálfanda og Húnaflóa; hrundu þá og skekktust nokkrir bæir á útkjálkum milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, hrundi þá og grjót úr sjávarhömrum og spilltust fuglabjörg í Grímsey og Drangey.
1839. Kom í Reykjavík jarðskjálftakippur 28. júlí kl. 4 um morguninn, og annar minni litlu síðar.
1845. Heklugos, sem byrjaði 2. september; á undan því, og við byrjun þess, fundust lítilfjörlegar landskjálftahreyfingar; þær náðu hér um bil 6 mílur til suðvesturs frá Heklu, en að eins 2 til 3 mílur til norðausturs. Auk þess fundust jarðskjáiftakippir við og við, á meðan á gosunum stóð.
1860. Kötlugos, frá 8. til 27. maí. Jarðskjálftar fundust þá um morguninn 8. maí kl. 6—8 á Höfðabrekku í Mýrdal, og síðan við og við um daginn, bar eigi á öðrum jarðskjálftum nema 25. maí eina stund af dagmálum; þá voru jarðskjálftar í frekara lagi, og öðru hverju allan þann dag til kvölds.

Sprunga

Sprunga eftir jarðskjálfta.

1863. Jarðskjálftakippir kringum Reykjavík 20—21.apríl.
1864. Fannst í Reykjavík og á Suðurnesjum 16. febrúar snarpur jarðskjálftakippur, sumum sýndist turninn á dómkirkjunni hreyfast fram og aptur. Sjórinn gekk nokkru meir á land, en vandi var til. Inntré brökuðu í húsum, og hlutir féllu niður af hillum. Hreyfingarnar stóðu hér um bil í 2 mínútur.
1868. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Fyrsti kippurinn fannst 1. nóvember kl. 4 um morguninn, og honum fylgdu 3 eða 4 linari kippir. Um kvöldið kl. 11 fannst enn harður kippur og síðan smærri hreyfingar alla nóttina. 2. nóvember kl. 11 um kvöldið komu þó tveir harðir kippir, hvor eptir annan, en þó smáhreyfingar á milli, þá féllu niður nokkrir ofnar í Reykjavík, glerílát brotnuðu o.s.frv.

Sprunga

Hraunsprunga eftir jarðskjálfta.

1872. Jarðskjálfti á Húsavík. Aðfaranóttina þess 18. apríl kl. 11 um kvöldið kom á Húsavík jarðskjálfti svo mikill, að mönnum leizt ekki ugglaust að vera inni í húsum, ef annar kæmi jafnsnarpur, en litlu á eptir komu kippirnir svo títt, að ekki liðu nema 4—8 mínútur milli þeirra.
1874-75. Rúmri viku fyrir jól fór að bera á jarðskjálftum í Mývatnssveit, og fóru þeir smávaxandi. Ekki voru kippirnir langir og harðir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, brakað mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var; 2. janúar bar mest á þessu, þá var jarðskjálfti allan daginn. Jarðskjálftar þessir fundust mest upp til dala og fjalla, t. d. á Möðrudal á fjöllum, en minna í útsveitum. 3. janúar byrjuðu Dyngjufjöll að gjósa, og síðan kom upp eldur í Sveinagjá á Mývatnsöræfum.
1878. Eldur uppi í hraununum norður af Heklu. Gos þetta hófst 27. febrúar með allmiklum jarðskjálftum, sem gengu yfir allan suðvesturhluta landsins; þeir stóðu frá kl. 4 e. m., þangað til kl. 5 næsta morgun, og voru næst eldstöðvunum með litlu millibili, og víða svo ákafir að gömul og óvönduð hús skekktust meira eða minna, en ekkert tjón varð á fólki eða peningi; margir flúðu hús sín, og létu út fénað meðan á þessu stóð; mestir urðu jarðskjálftarnir á Landi, Rangárvöllum, í Hreppum, Fljótshlíð og Vestmanneyjum, en ekki á öllum stöðum á sama tíma.

JarðskjálftarÞó litlar sögur fari af flestum jarðskjálftum á Íslandi, og þó frásagnir þær, sem til eru, séu mjög ófullkomnar, þá má þó sjá, að jarðskjálftar eru eigi allstaðar jafntíðir á landinu. Langflestir og sterkastir jarðskjálftar hafa orðið í Árness- og Rangárvallasýslum á Suðurlandi, og á Norðurlandi í Þingeyjarsýslu, einkum nálægt Húsavík. Af þessu sést, að jarðskjálftarnir eru mjög bundnir við eldfjöllin, því í þessum hlutum landsins eru eldfjöllin mest. Jarðskjálftarnir á Suðurlandi, hafa flestir hreyfzt frá norðaustri til suðvesturs og fara því eptir línum þeim, sem eldfjallagýgir og eldfjallasprungur mynda í þessum landshluta.

Jarðskálftar

Jarðgufumyndun eftir jarðskálfta.

Í Þingeyjarsýslu ganga eldfjallaglufur og gýgjaraðir frá suðri til norðurs, og sömu stefnu fylgja jarðskjálftarnir þar. Þegar Hekla hefir gosið, hafa vanalega töiuverðir jarðskjálftar fylgt gosunum, en sjaldan er þess getið við Kötlugos, að landskjálftar hafi orðið að nokkrum mun. Hvergi hafa jarðskjálftar verið jafntíðir, og eins skaðlegir, eins og í Ölfusi; þar næst gengur Grímsnes, Flói, Skeið, Holtamannahreppur, Rangárvellir og Fljótshlíð. Öll þessi héruð liggja á hinu mikla suðurundirlendi Íslands, og þegar að er gáð, er eðlilegt að jarðskjálftar séu hér tíðir. Hekla er á miðju undirlendinu, og þegar hún gýs, eða einhver umbrot verða í undirdjúpunum, þá er náttúrlegt, að héruðin hristist, sem í kring eru.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Þar sem hálendi og undirlendi mætast, eru flestar sprungur í jörðu og meiri missmíði en annarstaðar, af því að þar mætast þau jarðlög, sem hæst eru hafin, og hin, sem neðst liggja. Á samskeytunum er því eðlilegt, eins og fyrr hefir verið frá sagt, að jarðlögin hefjist og byltist þar upp og niður, er þau leita að jafnvægi, og við það komi hræringar á landið í kring; einkum er það eðlilegt ef jarðskjálftar verka náiægt. Af þessu kemur það, að jarðskjálftar eru svo tíðir í Ölfusi og Grímsnesi, sem liggja vestast á undirlendinu, þar sem takmörk þess eru við fjallahryggina og heiðarnar, er ganga út á Reykjanes, og í Fljótshlíð, sem liggur austast á láglendinu við hin samskeytin. Þess er eigi getið í bókum við nærri aila íslenzka jarðskjálfta, hvenær á árinu þeir hafi orðið, og er því ekki hægt að geta sér til með neinni vissu, hvort þeir eru tíðari á einum árstíma en öðrum. Ef farið er eptir þeim fáu landskjálftum, sem menn vita um, þá sýnast þeir flestir hafa orðið á vetrum, nokkru færri vor og haust, og fæstir á sumrum.”

Heimild:
-Andvari 01.01.1882, Um jarðskjálfta, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 53-107.

Þingvellir

Þingvellir – misgengi.

Vogaheiði

Ætlunin var að skoða hinar fjölmörgu minjar í heiðinni ofan við Voga, einkum selin. Neðst má sjá hlekk á nánari umfjöllun um einstök minjasvæði.

Pétursborg

Pétursborg.

Haldið var úr Vogum að Nýjaseli austan við Snorrastaðatjarnir. Tóttirnar hvíla undir klapparholtinu Nýjaselsbjalla. Um Nýjasel eru sagnir um að þar hafi ekki verið vært í seli nema skamman tíma á sumri vegna reimleika.
Þaðan var haldið að Pétursborg, fallegri og heillegri fjárborg ofan Huldugjár. Sunnan þess má vel greina tvær fjárhústótttir. Ef ekki væri vegna þeirra væri landið fyrir löngu fokið burt.
Austan borgarinnar er Hólssel, tvær tættur og stekkur. Frá því var haldið í Arahnúkasel, sem er gjáin ber hæst á Stóru-Aragjá ofar í heiðinni. Selið kúrir undir gjárveggnum. Þar eru allnokkrar tóttir, fallegur stekkur og rétt.

Arahnúkasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

Stóra verkefnið var að finna Vogasel og Gömlu-Vogasel undir Vogaholti. Talsvert jarðvegsrof er í Vogadal. Enn má þó sjá grónar tóftir suðvestan í dalnum (Gömlu-Vogasel). Skammt ofar eru heillegar tóttir Vogasels undir klapparhól. Skammt ofar er hlaðinn stekkur.
Þá var haldið austur með Brunnaselsgjá í leit að Brunnaseli. Markhóll blasti við í norðaustri, en hann skilur af land Brunnastaða og Voga.
Eftir u.þ.b. tuttugu mínútna gang var komið að Brunnastaðaseli. Um er að ræða stór sel, bæði undir gjárbarminum og eins utar. Í gjánni er heil kví, sem virðist nýlega yfirgefin. Þar var áð. Við selshúsin eru stekkir, fyrir framan þá efri en utan í þeirri neðri. Vatnsstæðið var uppi í gjánni, en var nú þurrt.
Vel gekk að finna Gamla Hlöðunessel. Það er neðar og austan utan í Hlöðuneskinn, tvær tóttir og stekkur. Mikið jarðvegsrof er í kvosinni og má segja að selið standi þar eitt eftir.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Allnokkur leit var gerð að Gjáseli, en það var þess virði. Selið er undir Gjáselsgjá og má segja að þar sé fyrsta raðhúsið hér á landi. Átta hús standa í röð undir gjárveggnum, en vestar er rétt og kví. Selið er frá nokkrum bæjum á Ströndinni og virðast þeir hafa komið sér vel saman um nýtingu þess. Áður fyrr átti foss að hafa fallið framan af gjárbarminum, en hann er löngu horfinn. Þetta er sérstaklega fallegur staður og alveg þess virði að ganga þangað í góðu veðri. Frá Vogaafleggjara er líklega tæplega klukkustundar gangur upp í selið. Sá, sem þangað kemur, verður ekki samur á eftir.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Úr Gjáseli var gengið að Knarrarnesseli. Um tuttugu mínútna gangur er milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru allmarkar tóttir af seljum, rétt og tveir stekkir. Talið er að eitt seljanna hafi verið Ásláksstaðasel. Tóttirnir er mjög heillegar og auðvelt að greina húsaskipan.
Á leiðinni yfir að Auðnaseli er gengið um Áskláksstaðaholt og Flár, en þar er mikið brak úr þýskri flugvél. Flugmaðurinn var handtekinn og var hann fyrsti Þjóðverjinn, sem mun hafa verið handtekinn var hér á landi í stríðinu. Sá má vélina, annað dekkið og heilmikið brak annað á svæðinu, sjá HÉR.
Auðnasel liggur undir ofan við Háabarm. Um er að ræða nokkrar tóttir og stekki.
Þá var línan tekin í norðvestur að Fornaseli. Það kúrir undir hæð á milli línuvegarins og Reykjanesbrautar. Ofan við hól, sem það stendur á, eru tvær tóttir og brunnur. Utan í hólnum er vísar að Reykjanesbrautinni er stór tótt og heilleg. Sunnan hennar er stekkur.

Sprungur

Hraunsprungur millum Vatnsleysustrandar og Grindavíkur.

Ætlunin var að fara í Fornuselin utan í Sýrholti og Flekkuvíkursel, en ofan við það eru fornar hleðslur, auk vatnsstæðisins á holtinu ofan þess, en það varð að bíða betri tíma (sjá HÉR).
Gangan tók 6 og ½ klst.

Sjá einnig MYNDIR.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Grindavík

“Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir.

Meradalir

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda. Hraun tók að renna í Meradali 5. apríl 2021 eins og sést á myndinni.

Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir. Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Meradalir

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum. Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.”

Tilvísanir:
-Gullbringu og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Sögufélag 2007.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
-Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: https://nafnid.is/ornefnaskra/14146. (Sótt 5.04.2021).
-Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: https://nafnid.is/ornefnaskra/14147. (Sótt 5.04.2021).

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496#

Meradalir

Meradalir – herforingjaráðskort 1903.