Seltjarnarnes

Sunnan við Nes á Seltjarnarnesi er garður, nefndur „Urtagarður„. Á tveimur upplýsingaskiltum við garðinn má lesa eftirfarandi; annars vegar:

Saga Urtagarðsins

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – urtagarður.

Garðurinn var opnaður árið 2010 í minningu þriggja mann sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir. Árið 2010 voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir.

Nesstofa og nytjagarðurinn

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson.

Stofnun landlæknisembættisins með konunglegri tilskipun Friðrik V. Danakonungs árið 1760 markaði tímamót í sögu opinberrar heilbrigðisþjónustu á íslandi. Í tengslum við embættið var rekið apótek og seld lyf undir umsjón menntaðs lyfjafræðings. Voru lækningajurtir m.a. ræktaðar í hluta allstórs matjurtagarðs við Nesstofu. Björn Jónsson var fyrsti menntaði lyfjafræðingur landsins og byggði hann upp og annaðist þennan matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Björn vann fyrst sem aðstoðarmaður Björn Pálssonar landlæknis en var síðan skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi árið 1772. Sama ár kom fyrsta útgáfa af Lyfjaskrá Danska ríkisins, Pharmacopea Danica, út. Apótek var rekið í Nesi til ársins 1834 er það flutti til Reykjavíkur. Má þá ætla að ræktun lækningajurta hafi lagst af.

Framlag til heilsubótar
Lyflækningar hafa löngum byggst á notkun jurta sem taldar eru hafa áhrif á heilsu fólks og jafnvel einstaka sjúkdóma.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Ofangreindir heiðursmenn höfðu allir frumkvæði að nýtingu og ræktun nytjajurta, hver á sinn hátt enda var þekking á jurtum og lækningarmætti þeirra mikilvægur hluti menntunar þeirra. Bjarni Pálsson landlæknir (1719-1779) hvatti ráðamenn holdsveikraspítala til að rækta kál og kartöflur handa sjúklingum sínum. Skyldi gefa sjúklingum kál og ferskar jurtir úr íslenskri náttúru minnst tvisvar í viku (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukku, njólablöð og Ólafssúrur). Björn Jónsson (1738-1798) kynntist lækningajurtagörðum við apótek á námsárum sínum í Danmörku.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður.

Við suðurgafl Nesstofu útbjó hann stóran jurtagarð með hlöðnu torfgerði í kring og nýttist hann vel til ræktunar. Auk lækningajurta, ræktaði Björn matjurtir, reyndi kornrækt og var einna fyrstur til að reyna trjárækt hér á landi. Hans Georg Schierbeck (1847-1911) sameinaði læknisstarfið og garðyrkjuháhugann með því að hafa forgöngu um eflingu og útbreiðslu garðyrkju og ræktun matjurta, almenningi til heilsubótar. Ekki var vanþörf á, enda voru margir Íslendingar vannærðir og þjáðir af skortssjúkdómum vegna einhæfs mataræðis. Með stofnun Garðyrkjufélags íslands var hafin skipuleg fræðsla almennings um garðyrkju og útveguð aðföng til ræktunarinnar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – bekkur sem minnisvarði um Georg Schierbeck í Urtagarðinum.

Schierbeck hafi lagt stund á garðyrkjunám í Danmörku og nýttist það vel við fjölbreyttar tilraunir á ræktun korns, matjurta og ýmiss konar skrautjurta, runna og garðtrjáa. Elsta innflutta garðtré á íslandi sem enn lifir er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti í Reykjavík og er það gróðursett af Schierbeck árið 1884.

Urtirnar í garðinum

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn.

Garðurinn skiptist í tvo meginhluta, efri garð og neðri garð auk áningar- og fræðslusvæðis við hlið neðri garðsins sem hefur fengið nafnið Björngerði til heiðurs Birni Pálssyni, apótekara í Nesi. Í efri garðinum eru alls um 130 tegundir jurta og finnast um 70 þeirra í íslenskri flóru. Við val á jurtum í garðinn var tekið mið af heimildum um ræktun hér á landi og í garðinum í Nesi á árunum 1768 til 1834. Takmarkaðar heimildir eru fyrir því hvaða lækningajurtir Björn mun hafa ræktað. Í garðinum eru því einungis nokkur dæmu um jurtir sem voru skráðar í dönsku lyfjaskránni, Pharmacopoea Danica, fra 1772 og gætu hafa verið reyndar hér á landi. Aðrar jurtir sem hér eru sýndar voru ekki ræktaðar hér fyrr en síðar. Til dæmis eru ekki til heimildir fyrir því hvenær rabarbari kom til landsins.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nes.

Ýmsar jurtir úr íslenskri flóru voru nýttar á þessum tíma og einnig hafa fundist merki um þekktar, fornar lækningajurtir við fornleifarannsóknir á klausturstæðum frá miðöldum á íslandi. Nokkrar slíkar eru til sýnis í garðinum og eru þær sérstaklega merktar með mynd af heilagari Dóróteu. Heimildir varðandi matjurtir og kornrækt eru ítarlegastar. Jurtir þær sem sýndar eru í garðinum eru merktar og fylgja upplýsingar hverri plöntu. Staðsetning jurta í garðinum tekur bæði mið af flokkun og vaxtarskilyrðum plantnanna. margar plönturnar tilheyra fleiri en einum flokki. Sérstakir sýngareitir eru í görðunum fyrir jurtir sem nýnæmi þykir að sýna á hverjum tíma.

Plöntunum í görðunum má skipta í fimm flokka eftir eiginleikum og heimildum um nýtingu þeirra.

Í efri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður; skilti I.

Lækningajurtir, alþýðulækningajurtir, matjurtir, korn og krydd.

Urtagarðurinn í Nesi
er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Embættis landlæknis, Læknafélags íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í nesi og þar má nálgast upplýsingar um leiðsögn og plöntuvísi Urtagarðsins með fróðleik um plönturnar og nýtingu þeirra.

Og hins vegar:

Lyfjagerð fyrr og nú
SeltjarnarnesLengi hefur maðurinn nýtt jurtir og jurtahluta til þess að lina þrautir og lækna mein. Bakstrar, smyrsl og seyði voru unnin úr villtum jurtum sem var safnað sérstaklega til þess að nýta til lækninga. Þekking á virkni jurtanna og hvernig þær megi best nýta til lækninga gekk mann fram af manni. Með stofnun landlæknisembættisins árið 1760 varð breyting á þessari hefð. Lyfjagerð og lyfsala var viðfangsefni yfirvalda. Jurtir og steinefni voru undirstaða allrar lyfjaframleiðslu á þessum tíma og í fyrst hefur fremur lítill munur verið á þeim lyfjum sem unnin voru á hefðbundinn hátt og þeim sem unnin voru í nesi. Þá má ætla að einhver munur hafi verið á því hvernig og hvaða lyfjum var beitt í lækningaskyni þar sem notast var við fjölbreytt úrval ýmiss konar innfluttra jurta og steinefna í apótekinu í Nesi.

SeltjarnarnesÁrið 1772 urðu nokkur vatnaskil í sögu lyfsölu og lyfjaframleiðslu á Íslandi. Þá var embætti lyfsala stofnað. Í árslok 1771 sigldi Björn Jónsson til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði fyrstur Íslendinga. Hann var skipaður lyfsali á íslandi 18, mars 1772 og tók við rekstri apóteksins í Nesi úr hendi landlæknis. Sama ár kom út fyrsta lyfjaskráin Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 staðlaðar lyfjauppskriftir sem öllum bar að fylgja við blöndun lyfja. Einungis örfáar af þeim jurtum sem eru tilgreindar í lyfjaskránni vaxa villtar á Íslandi.

SeltjarnarnesMeð aukinni þekkingu á lyfjafræði og auknum kröfum um gæði lyfjanna fækkaði jurtalyfjunum ört. Þess í stað var farið að framleiða lyf úr hreinum efnum sem ýmist voru unnin úr plöntum eða framleidd á annan hátt. Á íslandi hurfu jurtalyfin alveg þegar framleiðslu lyfja í apótekum var hætt í lok síðustu aldar. Þá var enda orðið erfitt að útvega jurtir sem stóðust kröfur lyfjafræðinnar um gæði og virkni. Í Evrópsku lyfjaskránni er enn nokkur jurtalyf skráð enda ríkari hefð fyrir jurtalyfjum í Mið-Evrópu þar sem gróður er fjölbreyttari.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn neðri.

Nokkur náttúrulyf eru skráð á Íslandi nú til dags og fullnægja þau þar með kröfum Evrópsku lyfjaskrárinnar og íslenskrar reglugerðar. Það er ljóst að í upphafi var aðeins lítill hluti landsmanna, sem átti þess kost að leita til lærðra lækna og kaupa lyf í apóteki. Flestir treystu á húsráð og kunnáttu vísra manna á notkun þeirra villtu jurta sem uxu í nágrenninu. Þetta breyttist mjög á 20. öld. Þekkingu á nýtingu jurtanna hefur þó verið viðhaldið innan lyfjafræðinnar og á vettvangi alþýðulækninga.

Í neðri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarses – skilti II.

Berjarunnar og epli. Villiepli þóttu mikilvæg hollustufæða til forna áður en matarepli frá Austur-Asíu komu til sögunnar.

Hvannir og laukar. Hvannir og laukar voru mikilvægar lækninga- og heilsujurtir til forna a Norðurlöndum og má vísa til íslensks og latnesks heitir á ætishvönninni – Angelica Archangelica L, eða erkiengisjurt, til marks um það. Ætihvönnin vakti athygli sem lækningajurt og barst frá Noregi til Mið-Evrópu á síðari hluta Miðalda.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nesstofa 2024.

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um „Hafnir og kirkjur í Höfnum„. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir„Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.“

Hafnir

Hafnir – skilti.

Húsatóftir

Í Faxa árið 1958 fjallaði Jóhanna Kristinsdóttir um „Skátaskólann“ að Húsatófum við Grindavík.

Húsatóftir„Eins og flestir Keflvíkingar vita, réðist Skátafélagið Heiðarbúar í Keflavík í það stórræði í sumar, að starfrækja skátaskóla að Húsatóftum í Staðahverfi í Grindavík. Jörðin Húsatóftir, sem löngu var komin í eyði, er ríkisjörð. Húsið er myndarlegt, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en eftir að skátarnir höfðu fengið umráðarétt yfir því, endurbættu þeir það mikið og gerðu hið vistlegasta. Forstoðukona var frú Jóhanna Kristinsdóttir, sam góðfúslega varð við þeim tilmælum blaðsins, að segja í stuttu máli frá starfseminni í sumar.
Fer frásögn hennar hér á eftir:
„Skátaskólinn að Húsatóftum, tók til starfa 28. júní í sumar, og komu þá 4 telpur og 13 drengir, sem voru fyrstu vikuna, strax næstu viku á eftir varð fullskipað, eða 12 telpur og 18 drengir.
Sunnudaginn 5. júlí var svo vígsla skátaskólans, og var það sambandi við afmæli kvenskátasveitarinnar, en hún átti 15 ára afmæli 2. júlí, í því tilefni komu 50 skátastúlkur í útilegu svo og nokkrar af þeim elztu og nokkrir gestir. Séra Björn Jónsson messaði, úti, skátar og gestir sungu, síðan var staðurinn sýndur og loks almenn kókódrykkja, var þetta hinn ánægjulegasti dagur.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Starfsfólk við skátaskólann auk mín voru, frú Hera Olafsson, matráðskona, Rakel Olsen, sveitarforingi, Rut Lárusdóttir, Ragnhildur Árnadottir, Sveinbjörn Jónsson, Svan Skúlason, flokksforingjar og síðustu 3 vikurnar Gunnar Guðjónsson, því hinir hættu.
Börnunum var skipt niður í flokka og var þeim stjórnað af flokksforingjum, t. d. eldhúsflokk, hann þvoði upp, lagði á borðið og þvoði borðsalinn. Í þessum flokki var starfað í einn dag. Skálaflokkur, hreinsaði til innan húss, þvoði gólf og fl. Sorp- og AraBínuflokkur, brenndi rusli, dældi vatni og þvoði AraBínu, en svo nendist kamarinn.
Út á AraBínu, okkar skari fer,
að hitta annað þeirra, erindið oftast er
Bína syngur hátt, og brosir blítt,
en Ari raular og hlær á víxl
og okkur líður vel.
HúsatóftirÚtivinnuflokkar voru tveir, þeir hreinsuðu til í kringum húsið, brutu spýtur í eldinn, og sóttu kol, og löguðu girðinguna umhverfis.
Þessi vinna var yfirleitt unnin fram að hádegi, annars var dagskráin á þessa leið:
Kl. 8.00 Vakið, morgunleikfimi þegar veður var gott.
Kl. 8.45  Skálaskoðun, foringjar skoðuðu í töskur og kojur.
Kl. 9.00 Hafragrautur, brauð og mjólk.
Kl. 10.00 Fáni dreginn upp.
Kl. 10—12. Flokkar við störf.
Kl. 12.00 Hádegismatur.
Kl. 1.00 Hvílt. Þá máttu börnin leggja sig.
Kl. 2.00 Flokksfundir.
Kl. 3.00 Kókó, brauð, kringlur, kex.
Kl. 3.30 Gönguferðir, leikir o.fl.
Kl. 5.00 Þvottur.
Kl. 6.00 Kvöldverður.
Kl. 7.00 Fylkst.
Kl. 8.00 Fáni dreginn niður.
Kl. 8.15  Varðeldur eða kvöldvaka.
Kl. 9.00 Kvöldbænir.
Kl. 9.15  Kyrrð, og voru þá flestir sofnaðir.
Varðeldur var yfirleitt tvö kvöld í viku, eða kvöldvaka, e£ veður var vont, svo var lesin framhaldsaga í hverju herbergi hin kvöldin.
HúsatóftirGönguferðir voru farnar um nágrennið, t. d. tvisvar gengið á „Þorbjörn“ einu sinni farið út í Þórköllustaðarhverfi, oftast var þó farið út í hraun og út að Stað. Fjaran var líka könnuð og mikið týnt af skeljum og kuðungum.
Börnin fengu ekki að fara út fyrir girðingu nema í fylgd með foringja.
Þá höfðum við þann sið að gefa kross, ef einhver braut reglurnar, t. d. fór út fyrir girðinguna, lék sér í vatnsdælunni, blótaði og fl. fl. Krossarnir voru svo lesnir upp á varðeldum á föstudögum, og þótti það mikil hneisa að hafa fengið kross, sum fengu nokkuð marga krossa en önnur engan, t. d. var einn drengur hjá okkur í þrjár vikur og fékk níu krossa, hann kom svo aftur seinna og var í viku og fékk þá engann, og það gladdi okkur mikið því þá fundum við einhvern árangur af starfinu.
Á flokksfundum voru kennd atriði úr skátahreyfingunni, t. d. hnútar, leynimerki, armbendingar, teikna ísl. fánann og þekkja meðferð hans, skátasöngvar og leikir og fl. Einnig voru búin út hnútaspjöld sem börnin fóru svo með heim.

Húsatóftir

Húsatóftir – skátasamkoma.

Einn drengur tók nýliðapróf og vann skátaheitið, var það Margeir Margeirsson, og var hann einnig skipaður flokksforingi yfir drengjunum. Hann sat við borðsendann og hélt reglu við borðið, flautaði ef einhver hávaði var. Þessi vísa var búin til um hann:

Hann Maggi Magg er flokksforingi
og stjórnar litlu strákaþingi.
Þegar hann flautar borðið við
þagna strax ólætin.

Einnig tóku 7 drengir ylfingapróf og unnu yfingaheitið, eru þetta fyrstu ylfingar í félaginu. Þá tóku ljósálfar mörg sérpróf.
Það bjargaði okkur alveg hvað veðrið var dásamlegt í allt sumar, en það hefði orðið nokkuð þröngt hjá okkur ef mikið hefði ringt, því ennþá á eftir að gera við útihúsin, setja þar upp rólur og fleira sem hægt er að una við í leiðinda veðri.
Að síðustu vil ég láta í ljós þá von að skátaskólinn á Húsatóftum fái að starfa af krafti næstu ár, því þetta er mikill menningarauki fyrir bæjarfélagið í heild.
Þetta var allt á byrjunarstigi hjá okkur í sumar, og mjög dýrt að setja húsið í stand og koma þessu í gang, en ef allir standa saman um að hlú að þessu starfi, megum við líta björtum augum á framtíðina.“ – Jóhanna Kristinsdóttir.
Faxi

Rosabaugur

Ætlunin var að leita uppi tvö sel, annars vegar frá Hlíð og hins vegar frá Stóra-Hálsi í Grafningi. Fyrra selið átti að vera í austanverðum Hlíðardal og hitt í austanverðum Kringluvatnsdal.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – Dalagata.

Gengið var upp með sunnanverður Nóngili frá útihúsunum á Stóra-Hálsi. Slóði liggur til að byrja með ofan í selstígnum upp á Stórahálsfjall. Í hlíðinni beygir hann til norðurs fast ofan við gilið og liggur síðan upp eftir melum og móum áleiðis að Geithamragili, sem er á milli bæjanna Stóra-Háls og Hlíðar. Norðan við gilið er Hlíðarfjall, einnig nefnt Háafell. Selstígurinn, „Dalagatan“, sést af og til en hverfur þesss á milli á gróðulausum melum. Þegar komið er þangað sem lækir úr Kringluvatnsdal og Hlíðardal mætast beygir stígurinn til suðvesturs. Greinilegur stígur er einnig áfram til norðurs norðan lækjarmótanna.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel í Grafningi.

Í örnefnalýsingu fyrir Stóra-Háls segir: „Dalagata; Dalagatan liggur út úr túninu vestanverðu, upp með Miðaftangili að vestan, yfir fjallið í Kringluvatnsdal. Sú leið var farin með heyband úr “Dalnum“, en svo var Kringluvatnsdalur jafnan nefndur.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gatan liggur beint upp fjallshlíðina fyrir ofan bæinn þangað sem leið liggur yfir fjallið og yfir Stórahálsfjall og yfir í Stórahálsdal. Þarna er fremur grýtt en að nokkru mosa vaxið. Talsvert heyjað þar í þurrkasumrum.“

Selsstígurinn liggur í selið; þriggja rýma staka tóft á annars gróðurllitlu svæði austan lækjarins. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Sel frá Stóra-Hálsi: Fornt sel er á Selflötum úti í hálsi. Annað sel var suður af mýrunum í Stóra-Hálsdal. Það er hlaðið úr torfi og grjóti og mun vera síðasta selið sem notað var í Grafningi, en það var notað fram yfir 1850. Seltóftin er um miðjan dalinn. Vestan við tóftina er melur austan við er móar í austurhlíð dalsins. Tóftin er 9 metra löng og 4 metra breið og samanstendur af tveimur hólfum. Grjóthleðslur sjást að innanverðu og tóftin opnast til austurs.“

Hlíðarsel

Hlíðarsel í Grafningi.

Selið er enn greinilegt; grjóthlaðnir veggir, tvö rými liggja saman og það þriðja er framan við dyr þeirra. Útsýni er yfir dalinn, sem jafnan var nefndur „Dalurinn“, upp og norður Hlíðardal. Efjumýrarhryggir eru í norðvestri, Klyftartungur í suðvestur, Innri-Botnahnúkur til vesturs og Dagmálafjall í norðri.
Auðvelt er að fylgja selstígnum í Hlíðarsel. Mjög líklega hefur hann einng verið notaður sem reiðleið milli bæja í Grafningi fyrrum.
Selið er uppi á grónum stalli í fjallinu á augljósum stað. Í því eru þrjú rými. Veggir eru lágir og grónir.

Hlíðarsel

Hlíðarsel Grafningi – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu Hlíðar segir: “Selið. Þar er grashvammur nokkuð hátt suðvestan í Hlíðarfjalli gegnt dalnum. Þegar farið er norður Hlíðardal, hækkar hann brátt og verður allur óvistlegri en suðurendinn. Þar ber mest á uppblásnum börðum og moldargiljum, en nokkru eftir að hallar norður af, er komið á grasflöt“. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Í Kringluvatnsdalnum. Sel frá Hlíð var norðan til í Hlíðardal utan í rótum Hlíðarfjalls, í valllendishvammi sem snýr móti suðvestri. Sést vel móta fyrir því enn.
Selið var á grasbala austantil í dalnum, fyrir austan er mosavaxin hlíð en vestan aflíðandi hlíð niður í dalsbotninn. Þarna er fremur slétt og grasi gróið svæði. Ekki langt frá selinu frá Stóra-Hálsi um 20 mín gangur. Leifar selsins eru orðnar mjög ógreinilegar, þó vel megi sjá merki þeirra í landslaginu.“
Selstígnum var fylgt frá selinu niður  með norðanverður Geithamragili og að Hlíð.
Frábært veður.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel.

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í „Landfræðilýsingu Íslands“ árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

„Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkert hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum.

Kjalarnes

Kjalarnes – brú frá u.þ.b. 1927.

Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.“

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

„Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.“

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvagnvegurinn.

Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti.
„Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði. Kannski er þetta fyrsti bíllinn hans“. (Thorarinn Gudnason)

En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.

Ásdís Dögg

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður, einn eigenda Asgard ehf., og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.

Innstidalur„Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.

Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.

Sleggubeinsskarð

Í Sleggjubeinsskarði.

Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Sleggjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.

Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).

Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður.  Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.

Innstidalur

Lækur í Innstadal.

Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.

Innstidalur

Innstidalur – gata.

Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.

Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.

Njótið útivistarinnar.“

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/

Innstidalur

Áð í Innstadal.

C-47

Að kvöldi 5. ágúst 1945 heyrðist flugvélargnýr í Selvogi.

Nes

Nes – C-47 á túninu á Nesi í Selvogi.

Stuttu síðar heyrðist í flugvél yfir Reykjavík. Áhöfnin augljóslega fann ekki flugvellina og var að hringsóla yfir Reykjanesskaga í tvo klukkutíma í mikilli þoku. Um miðnætti sá áhöfnin bæinn Nes í Selvogi og ákvað að lenda á túninu en hafði ekki nema um 50 til 70 metra. Lendingin gekk vel en vélin rakst á heysátu og skar túnið, stöðvaðist svo við girðingu hlaðna úr grjóti. Hjólabúnaður og neðrihluti skrokksins skemmdist talsvert og var vélin dæmd ónýt.
Vélin, C-47 Skytrain, var í herflutningum frá Base Valley í Wales til Reykjavíkur.

Áhöfnin: Hagen, Adam G. flugstjóri og 12 manna áhöfn og farþegar sluppu með skrokkskjóður.

Heimild:
-Styrjaldarárin á suðurlandi, Guðmundur Kristinsson, Friðþór Eydal, USAAF aircraft loss record.
-https://stridsminjar.is/is/flugatvikum-radhadh-eftir-arum/flugatvik-1945/482-c-47-skytrain-selvogur-nes-5-agust-1945

Nes

Nes í Selvogi – loftmynd.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um „Veginn nýja“, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni „Skemmdir af vatnavöxtum“: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. „Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Reykjavík

Austurvegir – herforingjaráðskort 1903.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri.

Eldgos

Litli-Hrútur við Fagradalsfjall; eldgos 2023.

Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.

Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna. Kistufell (t.h.) og Hraunssels-Vatnsfell fjær.

Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Á árunum 2021-2023 gaus þrívegis í Fagradalsfjalli, þ.e. í Geldingadölum, við Meradali og við Litla-Hrút. Það þarf þó ekki að koma á óvart því hraun hafa runnið á ýmsum stigum allt umhverfis fjallið.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál, Reykjavík, 165-172.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að nýjum gíg ofan Meradala í Fagradalsfjalli.

Þingvellir

Síra Guðmundur Einarsson skrifar um „Alin-málsteininn á Þingvöllum“ í Dagrenningu árið 1946. Steinn þessi stendur fyrir sjónum manna framan við dyr Þingvallakirkju.

Þingvellir

Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.

„Steinn nokkur allstór stendur fyrir framan dyrnar á Þingvallakirkju, sem mér var sagt, þegar ég kom sem prestur til Þingvalla, að á væri alinmál Íslendinga til forma, og þar sem ég sá,- að þverskorur nokkrar höfðu verið höggnar á steininn, þá taldi ég víst, að þetta væri fyrsta alinmál Íslendinga og löggilt mál þeirra. Þegar ég lagði framhandlegg á steininn frá neðstu skoru til fimmtu, sem allar voru greinilega höggnar, þá kom í ljós, að það var sama og framhandleggurinn frá olnboga til fingurgóms; það staðfesti mér þann orðróm, sem fylgdi steini þessum, og leit ég því svo á stein þennan, að hann væri ein af dýrmætustu eignum Íslendinga og einn merkasti forngripur þeirra.
Nú sé ég, í nýútkominni bók eftir fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, sem hann nefnir „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, að hann efast um að steinn þessi sé alinmálið forna, og jafnvel að skorurnar, sem hann nefnir „rákir“, hafi verið höggnar af mönnum, heldur séu þannig gerðar af náttúrunni. Hann segir svo: „Yfirleitt er það að segja um álnarmál eða stikumál á steini eða steinum við kirkju á Þingvöllum, að ekki er líklegt, að það hafi nokkru sinni verið til.“
Manni verður fyrst á, að hugsa og spyrja, hvernig mældu landsmenn vaðmál sín í „bændakirkjugarði“ á Þingvöllum, þegar þeir greiddu gjöld sín með þessari vöru, ef ekkert alinmál var til, sem hægt væri að byggja á sem löglegu máli?

Þingvellir

Alin-málasteinninn framan við Þingvallakirkju.

Til þess að athuga og mæla steininn, eða bilið milli skoranna, var ég staddur á Þingvöllum 22. júní 1946 og hjálpaði síra Helgi Konráðsson á Sauðárkróki mér til þess að mæla það, eins nákvæmlega og hægt var. Á austurhlið steinsins, þeirri sem snýr að kirkjudyrum eru greinilega höggnar 5 skorur, með mismunandi millibili og litlu ofar á steininum, er sjötta skoran, sem þó virðist fremur vera boruð í steininn, eða gerð með þremur holum, en að hún sé höggvin, og enn ofar, næstum efst á steininum, er sjöunda skoran gerð á svipaðan hátt og sjötta skoran, og virðast þær báðar gerðar síðar en 5 neðri skorurnar, en allar eru þær gerðar þversum á steininn og engin nær yfir alla breidd hans. Skorunar hafa viðrast gegnum aldirnar og því lítt mögulegt að mæla millibilin milli þeirra, svo að nákvæmt sé, en nærri því sanna er hægt að fara. Millibilin milli skoranna frá þeirri neðstu til þeirrar efstu mældust okkur þannig; 7; 11; 19; 10, 5 og 43 sentimetrar. Bilið milli neðstu skoranna fimm voru 47 sentim. samtals; frá neðstu til 6. skoru 52 sm, og frá neðstu skoru til 7. voru 95 sm. (2 19/16; 4 3/16; 7 6/10; 3 13/16 danskir þumlungar eða samtals 18 þumlungar frá 1.—5. skoru, en frá neðstu til efstu skoru ca. 36 1/3 d. þuml.) í bók Matthíasar Þórðarsonar fornminjavarðar segir svo á bls. 270: „Í safni Sigurðar Guðmundssonar til Þingvallalýsingar er teikning eftir hann af steininum, sem nú er fyrir framan kirkjuna. Eru rákirnar 6 og bilin milli þeirra talið frá neðstu, 2″ 9′“, 4″ 3′“, 7″, 3″ 6″‘ og 2″ 6′“. Samkvæmt Skýrslu um Forngripasafnið I bls. 117 hefir hann álitið, að þeir 17″ og 6′“ (þ. e. 17 1/2 þuml.), sem eru samkvæmt teikningu hans milli neðstu og næst efstu rákar, merktu hina fornu alin, en ekki virðist það vera rétt.“

Þingvellir

Alin-málssteinninn – letur.

Bilið milli 5 neðstu skoranna reyndist okkur 18 þuml. (47 sm), sem Sigurður Guðmundsson telur 17 1/2 þuml.; frá neðstu til 6. skoru reyndist okkur 19 7/8 en Sigurður telur það 20 þuml.; bilið milli 5. og 6. skoru mældist honum 2 1/2 þuml. en okkur aðeins 1 7/8 þuml. (5 sm).

Þinfvallakirkja

Þingvallakirkja – mælisteinninn innar.

Það virðist létt, að 5 neðri skorurnar eigi að sýna hina elstu alin á landi hér, eins og Sigurður Guðmundsson hélt fram, það sést af því, að þessar skorur hafa verið höggnar og eru eldri en hinar tvær. Eftir rannsóknum B. M. Ólsen (sbr. Árbók Fornleifafélagsins 1910 bls. 1—27) var hin „elzta alin“, hin náttúrlega öln, lengd framhandleggsins frá olnboga til langafingúrgóms, 47 sm (18 d. þuml.), eins og okkur mældist þessi alin á steininum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

En snemma varð það siður, þegar vaðmál voru mæld, að þumalbreidd var bætt við hverja alin, til þess að tryggja það að vel væri mælt, því ef teygt var á vaðmáli gat það orðið of stutt ef engu var bætt við alinina. Þessi viðbót mun hafa verið 2 til 2 7/2 sm (0,79—0,96 d. þ.). Minn þumalfingur um naglrót er ‘2,4 sm, svo viðbótin mun hafa verið nálægt því, 2—2 1/2 sm. Þetta virðist svo hafa verið hin svonefnda „forna lögalin“ (sbr. B. M. Ó. bls. 27), sem var notuð manna meðal, þótt ekki væri löggilt. En svo þegar tímar liðu, og þessi mæling á alin var orðin að fastri venju, virðast menn enn hafa viljað fá nýja viðbót, og þessi alin verið svo nefnd „þumalalin“. í Grágás ((Havnia I bls. 500) stendur: „Vararfeldur fyrir II aura, sa er fiogörra þumalalna er langr, en II breiðr,“ sem sýnir að þumalalin er hér skoðað sem fast lögákveðið mál, sem allir þekkja, en það var því aðeins löggilt mál, að einhverstaðar væri það afmarkað og þá sérstaklega á alinmál-steininum forna á Þingvöllum, sem notaður var við mælingu vaðmáls, lérefta og klæða, enda voru vaðmálin aðalgjaldmiðill landsmanna til forna.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Þegar þessi þumalalin hefir verið löggilt á Þingvöllum hefir 6. skorunni verið bætt við á steininn, til þess að sýna þetta nýlögákveðna mál, þumalalinina, sem í raun og veru var alin og tveir þumlungar, 52 sm (19 7/8 d. þuml.).
Um 1200 kemur svo nýtt mál til sögunnar, sem nefnt var stika, en hún var 2 álnir. En hvaða álnir hún var miðuð við er ekki víst, hvort það var „elzta alin“, „forn alin“ eða „þumalalin“, en þar eð talað er um að „stikan“ skuli vera uppbætt 1 þuml., fingurbreidd, fyrir hverja stiku, getur naumast verið um þumalalin að ræða. B. M. Ólsen telur í Árb. Fornl.fél. 1910 bls. 27 að það hafi verið „forn alin“, sem var lögð til grundvallar fyrir stikunni, hún hafi verið 2 „fornar álnir“ ca. 98,28 sm, eða 37,58 d. þuml. En hin „forna alin“ virðist aldrei hafa verið lögfest, en aðeins sá siður við mælingu vaðmála, að bregða fingri fyrir framan hverja alin og mæla svo alin frá hinni hlið fingursins, en þá getur ekki verið átt við þessa svonefndu „fornu alin“, heldur hina lögfestu, elztu alin, sem var 47 sm eða 18 d. þuml., stikan hefir þá átt að vera 94 sm eða 36 d. þuml.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Á alinmálsteininn á Þingvöllum er 7. skoran mörkuð með holum, eins og 6. skoran, en milli þeirra eru 43 sm, en frá neðstu skorunni til 7. skoru mældist mér 95 ,sm, en þessi stika er þá ca. 1 sm lengri en 2 álnir, sem stafar af því að bilið milli 5. og 6. skoru var ¥2—1 sm of langt, eða ég hef rnælt of djarft, að mæla frá miðri neðstu skoru til miðrar 7. skoru, eða hvortveggja valdið bilinu, of langt bilið milli 5. og 6. skoru og ég mælt full stranglega.
Tel ég því vafalítið að þessi 7. skora hafi átt að sýna stikuna, svo á steini þessum sjáist greinilega öll þau alinmál, sem lögfest vóru á íslandi frá byrjun þinghalds til loka 16. aldar, að Hamborgaralinin kom til sögunnar.

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Hvort stikumálið hafi verið löggilt hér til samræmis við enska málið „yard“, eins og Jón Sigurðsson hélt, þá er það vafasamt, en þegar þess er gætt, að skotska alinmálið var rúmlega 36 d. þuml. eða sama og tvær „elztu álnirnar“ íslenzku, þá væri eðlilegt, að hugsa sér, að stikan ísl, ætti fremur þaðan uppruna sinn, enn frá enska „yardinum“, sem var 2,72 sm styttri en 2 „elztu álnirnar“ íslenzku.
Stikan var bara 2 ísl. álnir, en skotska málið sannar það, að frumalinin á Norðurlöndum var 47 sm eða 18 d. þuml., en stikan ísl. og mál Skota, yard þeirra, var 94—95 sm, Skota 94,4, en ísl. ca. 95 sm. Ég tel því sennilegast, að alinmál það, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins hafi verið, 47 sm. eða 18 d. þuml., en þá hafi sú alin verið bætt upp með einni þumalfingurbreidd þegar vaðmál og léreft var mælt eftir því.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Af þessu leiði ég það, að á steininum, sem er fyrir kirkjudyrum á Þingvöllum, séu merktar allar þær álnir, sem löggiltar voru á Íslandi frá landsbyggð og til loka 16. aldar og vóru þessar: 1.. að frumalin ísl. hafi verið 47 sm = 18 d. þuml., 2. að þumalalin ísl. hafi verið ca. 52 sm = 19 7/8 þuml. og 3. að stikan ísl. hafi verið ca. 95 sm = 36 1/3 d. þuml., en að „forn alin“ hafi aldrei verið lögfest, heldur orðið að föstum vana í viðskiptum.

Þingvellir

Þingvellir.

Hvað lýsingu Ch. Theilmanns snertir á steini þessum og teikningu hans af honum, er ekki auðvelt að átta sig á eftir frásögn fornminjavarðar á bls. 270 í „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, því þar segir svo eftir Ch. Theilmann: „að ekki hafi þá (um 1820) verið litið svo á, að rákirnar á honum hafi táknað neitt mál, heldur lárétt lægð er var yfir framhlið hans um 1 1/4 alin að lengd.“
Theilmann rannsakar ekkert skorurnar og millibilin milli þeirra, en þessi 1 1/4 alin langa lárétta lægð, sem hann talar um, er ekki til á þeirri hlið, sem skorurnar eru á, en hvaða hlið steinsins er nefnd „framhlið“ er ekki sagt frá, svo á þessari lýsingu er ekkert að græða. Allar skorurnar 7, sem enn sjást á steini þessum, á þeirri hlið, sem snýr mót austri, eru láréttar, nokkuð mislangar, en engin nær þvert yfir steininn, eða nálgast neitt það að vera 1 1/4 alin.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja um 1860.

Millibilið milli skoranna er mjög mismunandi, eins og áður segir, og hefir það sennilega valdið því, að steini þessum var minni gaumur gefinn en ella mundi, og að margir hafa efast um að á honum væri markað alinmálið forna, sem menn vissu um, að skiptist í 2 spannir og 24 þumlunga, og sumir máske haldið, að alinin hafi þá eins og nú skipst í 4 hluta, kvartil, en sú skipting þekktist ekki hér fyrr en Hamborgaralinin kom til sögunnar í lok 16. aldar.
Á stein var auðvitað ekki hægt að höggva út hvern þumlung fyrir sig, en spönn hefði mátt afmarka, en það hefir ekki verið gert. Aftur er hugsanlegt, að við neðsta bilið milli skoranna hafi átt að mælast 3 þuml. „meðalmanns í naglrótum“, 2. millibilið 5 þuml. og 3. millibilið 9 þuml., allt vel mælt, því þessi þrjú millibil eru samtals 37 sm, en B. M. Ólsen telur að 17 þuml. „meðalmanns í naglrótum“ muni hafa verið forðum eins og nú rúmir 35 sm, en þá á síðasta millibilið milli 4. og 5.,  ekkert að þýða, aðeins verið afgangurinn.

II.

Þingvellir

Þingvellir 2023.

Alinmálin hafa verið mjög breytileg hjá þjóðunum og mismunandi hjá einni og sömu þjóð, en hjá flestum, eða öllum þjóðum, virðist frummæling hafa miðazt við framhandlegg, frá alboga til fingurgóms, eða spönn, sem alltaf er helmingur framhandleggsins, en þó virðist fetið hafa verið frumeining nokkurra þjóða, eða að spönn og fet hafi verið tekið jafngilt mál, að minnsta kosti er fram liðu stundir, svo fetið varð að lokum aðal mælikvarðinn, og svo tvöfaldaður orðið lögfesti málkvarðinn, alinin.
Elztu þekktu alinmálin eru hjá Assýríumönnum, Ísraelsmönnum og Egyptum. En þó alinmál Assyríumanna séu enn til, þá er ekki alveg víst hvernig alinmál þeirra varð til, hvort spönn eða fet var frummælingin. Það er aftur talið víst að Ísraelsmenn hati skipt sinni alin í 2 spannir og 24 þumlunga eins og vér Íslendingar gerðum til forna.
Alinmál Ísraelsmanna er talið að hafi verið 48,39 sm, en það er, að kalla, sama og alinmál Egypta, sem var 48,42 sm. Spönnin hefir þá verið ca. 24,195 sm. Nú virðast fræðimenn líta svo á, að alinmál þessara þjóða eigi uppruna sinn frá Assyríumönnum, en þeir hafi lagt fetið til grundvallar sínu alinmáli, því það er víst, að alinmál þeirra í sögutíð var 52,5 sm, næstum því sama og þumalalin á álnarsteininum á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir 1867.

Fetið í þessari alin Assýríumanna hefir verið nálega sama og B. M. Ólsen hefir fundið, að er meðalfet Íslendinga og reyndist vera 26,5 sm (Arb. Fornl. 1910 bls. 14), því fet Assýríumanna var 26,25 sm. Til er forn málstokkur Assýríumanna, á knjám styttunnar í Telló. Honum var skipt í 16 jafna parta, og er talið, að þessi málstokkur, sem var nálega 31,5 sm að lengd, hafi verið Ys úr alin, sem er rétt, að því leyti, að 31,5 sm eru 3/5 af 52,5 sm, en þá hefði alinmál þeirra átt að skiptast í 27 parta, eða þumlunga, en hver þuml. ca. 1,95 sm og spönnin ca. 23,4 sm. Hitt er þó sennilegra, að þessi málstokkur sé 2/3 af fornri alin þeirra og hún hafi verið 47,25 sm, sama að kalla, og elzta alin Íslendinga (sbr. B. M. Ólsen Árb. Fornl. 1910 bls. 24 og mælingu mína á alinmálssteininum á Þingvöllum).

Þingvellir

Þingvellir 1882. Steinninn sést fyrir framan kirkjuna.

Vera má þó, að þessi málstokkur Assýríumanna hafi verið fullt alinmál þeirra, en þá hefir því verið skipt í 16 parta, eins og Grikkja, Rómverja, Þjóðverja og jafnvel Englendinga var skipt til forna (sbr. cubitus Rómverja og Englendinga).
Sé aftur hitt rétt til getið, að alinmáli Assýríumanna hafi verið skipt í 24 parta, eða þuml., hafa verið tvö alinmál í Assýríu, hið eldra 47,25 sm og sú alin miðuð við spönn, og síðari alinin 52,5 sm og hún miðuð við fet.
En það sem sérstaklega vekur athygli, þegar rannsökuð eru alinmál þjóðanna er þetta, að það virðist sem Íslendingar og Ísraelsmenn séu þær einu þjóðir, sem skiptu alinmáli sínu á sama hátt, í 24 þuml. Ísraelsmenn skiptu alin sinni þannig: í 2 spannir, 6 þverhendur og 24 þuml. Íslendingar skiptu sinni alin í 2 spannir og 24 þuml., og þverhönd var líka notuð sem mál hjá þeim, því í sögu Guðmundar góða getur um konu, sem þrútnaði um kviðinn, svo að hún var 3 álnir og þverhandar digur (sbr. Árb. Fornl. 1910 bls. 13 neðanmáls), mun þá þverhönd eiga að jafngilda 1/6 hluta úr alin.

Þingvellir

Þingvallakirkja eftir 1930. Mælisteinninn er á myndinni framan við kirkjuna.

Hjá Ísraelsmönnum var til lengdarmál, sem þeir nefndu „gomed“ og giskað er á, að það sé sama og 2 álnir, eða „stika“ á íslenzku; en það er vafasamt að „gomed“ hafi táknað tvær álnir, eða verið sama og forn „stika.“
Að alinmál Ísraelsmanna og Íslendinga, eða Norðmanna, hafi verið svo lík, eins og raun ber vitni um, er ekki neitt merkilegt, ef Ísraelsmenn hafa fluttst til Norðurlanda og tekið sér bólfestu þar, eins og fjöldi sagnfræðinga er nú farinn að álíta að verið hafi, því þá hafa þeir flutt með sér lengdarmál sitt, eins og þeir notuðu það um 700 árum f. Kr. austur í Asíu, og það síðan orðið að föstu alinmáli í Noregi og Íslandi til forna.“
-Guðm. Einarsson.

Heimild:
-Dagrenning, 3. tbl. 01.08.1946, Alinmál-steinninn á Þingvöllum, síra Guðmundur Einarsson, bls. 22-26.

Þingvellir

Þingvellir. Alin-málssteininn sést framan við kirkjuna.