Grímsvarða

Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum um „Grímsvörðuna“ við Sandgerðisveginn:

Guðmundur

Guðmundur Sigurbergsson.

„Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Grímsvarða

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.

 

Ása

Í Þjóðmálum, 2. hefti 01.06.2015, er fjallað um „Ásustrandið 1926“ utan við Járngerðarstaði í Grindavík, en það mun hafa verið upphafið að endalokum Duus-verslunar í Keflavík. Enn í dag má sjá ketilinn úr togaranum á fjöru í Stórubót, auk þess enn má bera augum skipsbjölluna sögulegu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.

Duus

Hús Duusverslunar í Keflavík.

„Peter Duus og kona hans, Ásta Tómasdóttir Beck, stofnuðu útgerðar- og verslunarfélagið H.P. DUUS árið 1848. Það var starfrækt í Keflavík til ársins 1920 þegar starfsemin var flutt til Reykjavíkur. Árið 1904 keypti H.P. Duus, eða Duusverslun, tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10. október 1917. Þrátt fyrir erfið skilyrði bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón.

Kútter

Kútter.

Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku.
H.P. Duus lét óhappið ekki slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland en fékk nú nafnið Ása. Hann var var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip.
Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram að því að Ása strandaði á Víkurflúðum undan Malarrifi í desember 1925. Togarinn eyðilagðist á strandstað en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og gerðist þegar kútterinn Ása strandaði við Hvalsnes. Rétt eins og þá var það var talið sérstakt happ að áhöfnin skyldi sleppa ósködduð úr strandi á þessum stað í slæmu veðri.

Duus

Duushús – Bryggjuhúsið 1877.

Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus-verslun. Hún átti í byggingu nýjan togara í Englandi hjá skipasmíðastöðinni Smiths Dock Co. Ltd. Þrátt fyrir að strand Ásu við Malarrif skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og og var nýi togarinn sjósettur í febrúar 1926. Mánuði síðar kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása RE 18, þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni.

Ása
Duus-verslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips. Það var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta og best búna skip togaraflotans.  Skipið fór í sínu fyrstu veiðiferð á svonefndum Grunnhalla á Selvogsbanka. Þar fékkst fullfermi og upp úr miðnætti 2. apríl 1926 var haldið af stað til Reykjavíkur.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Klukkan að ganga fjögur um morguninn varð fólk í Grindavík þess vart að skip var strandað á Flúðum austan Járngerðarstaðahverfis. Skipverjar sendu belg í land með orðsendingu þess efnis að þeir myndu halda kyrru fyrir í skipinu uns fjaraði út. Með orðsendingunni fengu Grindvíkingar að vita um hvaða skip var um að ræða.
Um hádegisbil lét áhöfn Ásu björgunarhring með línu reka í land. Björgunarmenn drógu síðan togvír á línunni og festu í landi. Áhöfnin sagaði í sundur tunnu og útbjó björgunarstól og einnig bjuggu skipverjar til dragreipi.

Ása

Ketill Ásu í Stórubót – h.m.

Á þessum tímum voru ekki komin björgunartæki sem nú eru til, enda var erfitt að koma á sambandi milli skips og lands. Það var álandsvindur á suðaustan og nokkur stormur en í land var löng leið því að þarna er útgrynni. Fyrst vildi línan festast í botni þar til haft var nógu stutt á milli flotholta á henni, þá fékkst hún til að reka vestur á Stórubót. Á lága sjónum var hægt að fara á bát út á Bótina og ná þannig í belginn. Þá var eftir að bera línuna þangað sem styst var í land frá skipinu en það var í Eystri-Hestaklettinum. Eftir að það hafði tekist var fljótlega gengið frá tækjum svo að hægt væri að draga mennina í land. Það gekk vel og allir björguðust.
Þar sem hér var um nýtt skip að ræða var mikið gert til að ná því út aftur. Meðal annars var fengið til þess danskt björgunarskip, Uffe. Það mun hafa verið í maímánuði sem Uffe byrjaði á björgunarstarfinu og var við það nokkuð fram í júnímánuð. Mestur tíminn mun hafa farið í að létta Ásu og steypa í göt sem komin voru á botninn og einnig að slétta fjöruna sem draga átti skipið eftir.
Ása
Þegar þessum undirbúningi var lokið var á stórstraumsflóði farið að taka í skipið og var það dregið 2–3 lengdir sínar út. Af einhverri ástæðu var þá hætt að draga skipið þannig út, með afturendann á undan, og farið að snúa því þarna í fjörunni. En þegar skipið var komið nokkurn veginn þversum, þ.e. lá flatt fyrir sjónum, hreyfðist það ekki meira — og þannig var skilið við það litlu seinna. Það hélt margur hlutlaus áhorfandinn að hægara hefði verið að snúa skipinu þegar það hefði verið komið á flot en að gera það meðan það lá í fjörunni.

Brim

Brim við Stórubót.

Fyrstu dagana í júlí gerði storm og brim. Á einu flóðinu hvarf Ása algerlega svo að ekkert sást eftir nema brak í fjörunni og ketillinn þar sem skipið hafði verið. Svo virðist að það verki eins og dínamítsprengja þegar brimsjór fellur ofan í skip með opnar lúgur, krafturinn er svo mikill á sjónum ásamt því að samþjappað loft er inni í skipinu. Jafnvel þótt um járnskip sé að ræða geta þau tæst í sundur undan nokkrum sjóum.
En þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja, eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterk að þótt allt annað hverfi standa þau af sér stórsjóina til áratuga og verða eins konar minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél Ásu RE 18 sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur.

Ása

Ása – bjallan á Bryggjunni.

Vel má gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiferð. Það hafði aldrei verið landað afla úr skipinu en það var að fara í land, sem fyrr segir, með fullfermi úr sinni fyrstu veiðiferð.

Ása

Duus-Ása, í eigu HP Duus 1900-1920.

Sú saga gekk á sínum tíma manna á meðal að upphaf endaloka Duus-verslunar hafi verið þegar hún hóf byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík árið 1917. Þar sem húsið átti að standa var fyrir hóll. Þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Hún bað stúlkuna að fara til Duus og segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annars staðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt. En hún talaði fyrir daufum eyrum. Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duus-verslunar.
Hvort sem marka má drauminn eður ei reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun upp frá þessu og þrjá skipstapa á nokkrum árum — síðast strand hinnar nýju Ásu — þoldi fyrirtækið ekki.
Eitt af því sem varðveittist í Ásu-strandinu við Grindavík 1926 var skipsbjallan. Líklega hefur Einar Einarsson, útgerðarmaður og stórkaupmaður í Grindavík, eignast bjölluna eftir strandið. Næstyngsti sonur Einars, Hlöðver Einarsson, seldi bjölluna síðar Davíð Sch. Thorsteinssyni iðnrekenda og athafnamanni. Haustið 2014 gaf Davíð Jóhannesi Einarssyni, einum af yfirmönnum Cargolux í Lúxemborg, síðar ræðismanni Íslands í Mónakó, bjölluna, en Jóhannes er yngri sonur Einars Sigurjóns Jóhannessonar sem var fyrsti vélstjóri á Ásu.“
Bjallan framangreinda hangir nú á veitingastaðnum Bryggjunni við höfnina í Grindavík þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.

Heimild:
-Þjóðmál. 2. hefti 01.06.2015 – Ásu-strandið 1926, bls. 52-55.

Ása

Ása – skipsbjallan á Bryggjunni.

Hólmsbúð

Í bók Árna Óla „Strönd og Vogar„,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um „Gömlu veiðistöðina“ Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.

Strönd og vogar

Strönd og vogar – Árni Óla.

„Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Stóru-VogarVið gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun vera landnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með merkilegri minjum. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). 

En grunnur þess er óbifanlegur. Það eru útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
HómabúðÁ þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.

Vogar

Brekkuvörin. Hólmabúð h.m.

Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
HólmabúðVið höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu.

Stapinn

Stapabúð.

Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg“ rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn“.
HólmabúðMjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Hólmabúð

Hólmabúð séð af Stapanum.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.

Stapabúð

Stapabúð.

Seinasti „útlendingurinn“, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti.

Stapinn

Hólmabúð 2022.

Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið“ þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.

Hólmabúð

Hólmabúð.

Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.

Stapinn

Hólmabúð.

Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið.

Stapinn

Brekka 2022.

Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: „Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to  Hólmabúð   twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide.  It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.„]

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.

Stapakot

Stapabúð.

Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur.

Stapinn

Stapabúð 2022.

Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er.

Stapinn

Upplýsingaskilti við Stapann.

Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.“
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.“

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.

Hólmabúð

Pramminn innan við Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Siggubær

Á tveimur  upplýsingaskiltum framan við Siggubæ gegnt Hellisgerði í Hafnarfirði er annars vegar fjallað um „Siggu í Siggubæ“ og hins vegar „Siggubæ„:

Sigga í Siggubæ

Siggubær

Siggubær – skilti.

Sigríður eða Sigga eins og hnún var ávallt kölluð var fædd að Merkinesi í Höfnum sunnudaginn 17. júlí 1892 og var hún einkabarn foreldra sinna. Hún var atorkusöm kona sem lét fátt fram hjá sér fara. Snemma hóf hún að starfa á fiskreitum bæjarsins veið breiðslu og síðar við vask, jafnframt því sem hún sá um dreifingu Alþýðublaðsins að föður sínum látnum.

Siggubær

Sigríður Erlendsdóttir.

Henni var jafnaðarmennska í blóð borin og fann hún skoðunum sínum farveg innan Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Á fiskreitunum kynntist Sigga baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og upplifði það að vinna sömu vinnu og karlarnir en fyrir lægri laun en þeir. Sigríður var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar árið 1925. Hún átti sæti í samninganefnd félagsins árið eftir stofnun þess, var fjármálaritari frá 1929 til 1932 og ritari félagsins í 14 ár. Henni var fátt óviðkomandi hvort sem halda þurfti ræðu eða vinna fyrir félagið á einn eða annan hátt. Meðal annars tók hún að sér að sauma félagsfána verkakvennafélagsins sem afhentur var við hátíðlega athöfn í febrúar árið 1930.

Framsýn, föst en höfðingleg

Siggubær

Sigríður, næst lengst til hægri, í hópi starfsfélaga á Fiskakletti þar sem vitinn stóð fyrrum.

Eitt af helstu baráttumálum og hugðarefnum Sigríðar innan verkakvennafélagsins var stofnun dagheimilis fyrir börn útivinnandi kvenna en sjálf var Sigga barnlaus og ógift. Það var árið 1932 að hún léði máls á stofnun dagheimilis á félagsfundi hjá verkakvennafélaginu. Kvað hún brýna þörf á slíku heimili og taldi æskilegt að konurnar hefðu forgöngu um að hrinda því í framkvæmd.

Hörðuvellir

Á Hörðuvöllum.

Ári seinna varð hugmynd hennar að veruleika er dagheimili var stofnað. Fyrst um sinn var það til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu, í bæjarþingsalnum og var það einungis opið yfir sumartímann. Ári eftir stofnun dagheimilisins lagði Sigríður fram þá tillögu að verkakvennafélagið reisti sitt eigið hús fyrir starfsemina. Hlaut tillaga hennar brautargengi og byggði félagið hús að Hörðuvöllum. Fljótlega varð það þó of lítið en vegna hvatningarorða Siggur var brátt ráðist í stækkun.
Málefni dagheimilisins átti hug og hjarta Sigríðar, hún átti sæti í dagheimilisnefndinni frá árinu 1935 og var formaður nefndarinnar í alls 24 ár. Árið 1970 sýndi Sigga starfsemi dagheimilisins sérstakan hlýhug er hún stofnaði minningarsjóð um foreldra sína og afhenti svo dagheimilinu sjóðinn, að upphæð krónur 50.000, til eignar og ráðstöfunar.

Sigga og pólitíkin

Siggubær

Sigríður.

Þrátt fyrir miklar annir hjá Siggu við félagsstörf innan verkalýsðhreyfingarinnar tók hún einnig virkan þátt í stjórnmálastarfi Alþýðuflokksins í bænum. Allt frá stofnun flokksins hafði hún fylgt honum að málum og þegar kom að því að stofna kvenfélag innan hans í nóvember 1937 var hún ein af forkólfum þess og gjaldkeri til tuga ára. Kvenfélagið var eitt það fyrsta sinnar tegundar á landinu og stofnun þess því dæmi um brautryðjandastarf í póitískum málefnum kvenna. Allt frá stofnun félagsins var Sigríður óþreytandi við að koma með hugmyndir og áskoranir um það sem betur mátti fara, bæði í bæjarmálum og á landsvísu. Hún var síðan kosin fyrsti heiðursfélagi félagsins og var jafnframt heiðursfélagi í verkakvennafélaginu.

Siggubær

Siggubær

Siggubær.

Siggubær er dæmigerður timburbær klæddur með bárujárni, en bæirnir svonefndu voru veggjalágir, svo til allir undir súð og höfðu einungis glugga á göflunum. Bæirnir voru ekki stóri í fermetrum talið, Siggubær er t.d. aðeins um 6.2 m á lengd og 3.8 , á breidd sem var algeng stærð á þessum húsum.
Bæjum eins og Siggubæ var gjarnan skipt upp í skilrúm. Styttri hlutinn var stundum hólfaður í tvennt, í eldhús og lítið herbergi en til þess að fá meira pláss var oftar en ekki byggður áfastur inngönguskúr.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Siggubær

Erlendur Marteinsson.

Um aldamótin síðustu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þjóðarinnar, fólk fluttist úr sveitum á mölina í leit að betri tækifærum fyrir sig og sína. Erlendur Marteinsson, fæddur árið 1864, frá Merkinesi í Höfnum og kona hans Sigurveig Einarsdóttir, fædd árið 1968, voru ein af þeim sem tóku sig upp og settust að hér í Hafnarfirði, enda mikill uppgangur í bænum vegna nýrra útgerðarhátta.
Ekki var auðvelt að verða sér úti um húsnæði og eini möguleiki fólks var að leigja inni á öðrum eða byggja sér eigið húsnæði. Það kostaði mikla peninga að reisa hús og lánsfé lá ekki á lausu. Erlendur hafði ráðið sig í vinnu hjá August Flygering sem þá var að hefja þilskipaútgerð sína í Hafnarfirði. August lánaði Erlendi 494 kr. og 10 aura og samkvæmt samningi þeirra átti að greiða lánið upp á fjórum árum. Árið 1902 réðst Erlendur í það verk að reisa hús fyrir sig, konu sína og einkadóttur, Sigríði, sem þá var á tíunda ári. Bærinn þeirra skiptist í tvö hólf og var styttri endinn hólfaður í tvennt en til að byrja með var ekki um neitt eiginlegt eldhús að ræða. Annað herbergið var eins konar forstofa, því inngönguskúrinn var byggður seinna.

Siggubær

Siggubær.

Þegar Erlendur hafði gert upp skuld sína við August, að fjórum árum liðnum eins og samningurinn sagði til um, var lagt í að klæða þakið og veggina með járni. Inngönguskúrinn var byggður og eldhúsið tekið í notkun. Árið 1915 var skúrinn stækkaður og um það leyti var útihúsið byggt.
Siggubær er ekki stór en þrátt fyrir það bjó hér eins og áður sagði þriggja manna fjölskylda og um tíma var herbergið í norðurendanum leigt út il Valgerðar Ólafsdóttur frá Hliðsnesi. Erlendur lést árið 1935 eftir margra ára vanheilsu og sjúkralegu á heimili sínu. Eftir það bjuggu þær mæðgur saman í húsinu sem fjölskyldan hafði af dugnaði komið sér upp.“

Siggubær

Siggubær 2020.

Hveragerði

Við Varmahlíð í Hveragerði er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

„Íbúðarhúsið Varmahlíð er elsta hús Hveragerðis, reist árið 1929, og markar það, ásamt garðyrkjustöðinni Fagrahvammi sem hóf starfsemi sama ár, upphaf byggðar í Hveragerði.

HveragerðiVarmahlíð var byggð á lóð Mjólkurbús Ölfusinga sem hafði keypt stórt land undir starfsemi sína árið áður. Húsið var upphaflega bárujárnsklætt timburhús, en var síðar múrhúðað að utan. Við byggingu var það rúmir 30 fermetrar að stærð, með forstofu, dagstofu, svefnherbergi og eldhúsi, auk geymslu við norðurgafl.

Varmahlíð var byggð fyrir Guðmund Gottskálksson og fjölskyldu frá Hvoli í Ölfusi sem bjuggu um 30 á í húsinu. Hveragerðishreppur keypti Varmahlíð árið 1961 og hefur sveitarfélagið átt það síðan. Húsið var engst af í útleigu en á árunum 1992-1995 var ráðist í umfangsmiklar endurbætur á húsinu og það fært til upprunalegs horfs, að viðbættu fordyri, og telst í það tæpri 50 fermetrar að stærð. Húsið var jafnframt fært inna á lóðina, en upprunalega stóð það neðar götunni. Frá árinu 1995 hefur Hveragerðisbær boðið erlendum sem innlendum listamönnum að dvelja í húsinu.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Garðahlynur austan Varmahlíðar. Undir hlynum er bekkur til minningar um Margréti Sverrisdóttur er síðust bjó  í Varmahlíð.

Strandarkirkja

Skilti er framan við Strandarkirkju, innan girðingar. Á því eru eftirfarandi upplýsingar:

Strandarkirkja

StrandarkirkjaStrönd í Selvogi var stórbýli og höfðingjasetur lengi framan af öldum.

Elsta skjalfesta heimild um kirkju á Strönd er frá því um 1200, en öruggt má samt telja að kirkja hafi risið þar skömmu eftir kristnitöku.

Kirkjan á Strönd var í kaþólskum sið helguð Maríu guðsmóður og blessuðum Tómasi Becket erkibiskupi af Kantaraborg.

Kirkja var einnig á höfuðbólinu í Nesi fram til 1706 og kirkjunnar því tvær í Selvogi.

StrandarkirkjaUppblástur og sjávarágangur eyddu landkostum í Selvogi og stórbýlið Strönd var komið í eyði um 1700.

Kirkjan stóð ein eftir á svörtum sandi við opið haf, óvarin fyrir veðrum og vindi, eins og það virki, sem ekki verður gefið upp, það vígi, sem ekki verður unnið né brotið niður. Hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum á sama grunni.

Sóknarbörnin hafa ætíð látið sér annt um kirkju sína og staðið einbeitt gegn hugmyndum fyrri tíma um að flytja hana á hagkvæmari stað.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Núverandi kirkja var upphaflega reist af nýjum viðum árið 1888. Miklar endurbætur voru gerðar á henni og hún endurvígð 1968 og 1996.

Það hefur verið trú manna að Strandarkirkja verði vel við áheitum og sjái alltaf fyrir sér og viðhaldi sínu.

Engilsvík – Helgisögn varðveitt í Selvogi

Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar.

Segir ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi í hafi úti á leið sinni til Íslands. lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að heiti þessu unnu birtist honum sýn í líki ljósengils fram undan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið, er hann stýrir eftir. Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn, að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan malarkamb var hin fyrsta Strandarkirkja reist af fórnarviðnum.
Heitir þar síðan Engilsvík, sem skipið bar að landi.

Áheitin

Strandarkirkja

Strandarkirkja – skilti.

Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Trúin á Strandarkirkju birtir vissuna um, að til sé hulinn verndarkraftur.

Áheit á kirkjur, helga menn og helga dóma voru mjög algeng í kaþólskum sið. Áheit á Strandarkirkju munu löngum ekki hafa verið meira en almennt gerðist. Þorláksskrín í Skálholti og Krossinn helgi í Kaldaðarnesi nuti mikillar áheitahelgi umfram aðra helgidóma á Suðurlandi. Eftir siðaskiptin á sextándu öld má segja að áheitatrúna hafi vantað athvarf, en fundið séð það í Strandarkirkju.

Það eru trúin og bænirnar, sem helga staðinn og guðshúsið. Hvert áheit felur í sér vonarákall, borið fram í trausti til Guðs, sem veit, skilur og bænheyrir.“

Strandarkirkja

Strandarkirkja – skilti.

Arnarbæli

Ofan við Arnarbæliskirkjugarð í Ölfusi er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Arnarbæli

Arnarbæli – minnismerki í Arnarbæliskirkjugarði.

„Arnarbæli var höfuðból í Ölfusi gegnum aldirnar. Þar var fyrst getið kirkju um 1200. Hún var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara. Ýmsir þekktir menn bjuggu í Arnarbæli, til dæmis Tumi Sighvatsson um 1200 og Þorvaldur Þórarinsson 1289. Þar hefur hann skrifað Njálu ef trúa má tilgátum Barða Guðmundssonar. Árið 1510 lætur Skálholtsbiskup dæma dómkirkjunni jörðina, sem var í konungseign, vegna vanskila bóndans við kirkjuna. Prestsetur verður í Arnarbæli 1580.

ArnarbæliSagnir herma að hafskipi hafi verið siglt upp Ölfusá að Arnarbæli og bendir örnefnið Bjálkhús (Búlkhús) til þess að farmur hafi verið borinn af skipi þar. Má vera að satt sé því mikið hefur Ölfusá borið af jarðefnum síðan. Sögn er að Ögmundur Pálsson, síðar Skálholtsbiskup, hafi stýrt skipi til hafnar í Bjálkhúsósi.

Arnarbæli átti ýmis ítök; reka, skipsuppsátur í Þorlákshöfn og Selvogi, einnig lax- og selveiði í Ölfusá. Prestur leigði slægjur til flestra bænda í Ölfusi.

ArnarbæliJarðskjálftarnir á Suðurlandi 1896 ollu gífurlegum skemmdum á bæjarhúsum og gripahúsum í Ölfusi. Í Arnarbæli voru fyrir jarðskjálfta átta bæjarhús sem öll gjörféllu. Þar voru níu gripahús og féllu öll. Kirkjan var eina húsið í Arnarbæli sem stóð af sér skjálftana en hún gekk til á grunninum.

Jarðskjálftarnir hófust að kvöldi 26. ágúst. Um máðanamótin ágúst september var búið að dytta að bænum og fluttu margir í hann um von um að ósköpin væru afstaðin. Það var gegn vilja prestsins Ólafs Ólafssonar og hans konu en þau gistu í kirkjunni með börn og tvær af stúlkunum.
ArnarbæliSíðasti skjálftinn reið yfir 10. september. Þá var heimilisfólk í Arnarbæli nýgengið til náða og flestir höfðu fest svefn þegar ósköpin dundu á.

Í Ölfusi gjörféllu 183 bæjarhús, 145 skemmdust mikið en 148 töldust lítið skemmd. Þar gjörféllu 198 gripahús, 207 skemmdust mikið en 144 töldust lítið skemmd. Mörg börn af jarðskjálftasvæðinu voru flutt á Reykjavíkursvæðið og dvöldu þar í fimm til níu vikur. Úr Ölfusi fóru 57 börn til tímabundinnar dvalar meðan verið var að lagfæra hús eftir jarðskjálftana.

Konungur Danmerkur, Friðrik áttundi, kom til Íslands í ágúst 1907 ásamt fríðu föruneyti. farið var ríðandi frá Reykjavík til Þingvalla, að Gullfossi og Geysi, þaðan að Þjórsárbrú. Síðan var haldið að Arnarbæli og gist þar. Með í för var Hannes Hafstein og fleiri fyrirmenn landsins. Hannes Hafstein, Friðrik konungur og Haraldur prins gistu í húsinu en fylgdarlið í tjöldum.“

Arnarbæli

Arnarbæli – skilti.

Hveragerði

Í Hveragerði eru nokkur minnismerki.

Hveragerði – Blóm í bæ 2010

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Blóm í bæ.

Þessi silfurreynir er gjöf frá Garðyrkjufélagi Íslands til Hveragerðisbæjar í tilefni af 125 ára afmæli félagsins.
Hann er beinn afkomandi elsta trés landsins sem talið er að hafi verið gróðursett 1884 við hús Schierbech landlæknis við Suðurgötu í Reykjavík.

Gunnar Björnsson

„Trjálundur þessi er til minningar um Gunnar Björnsson garðyrkjubónda í Álfafelli 1913-1977“.

Minnismerkið er á steyptum stöpli í Listigarði Hvergerðinga.

Reykjakirkjugarður

Hveragerði

Hveragerði – minnismeri; Reykjakirkjugarður.

Í Hveragerði, neðan við Garðyrkjustöðina, er Reykjakirkjugarður. Garðurinn sá forni hefur nú verið enduvakinn, bæði með málamyndauppgreftri, tilbúnum garðhleðslum, en ekki síst öllu merkilegra skilti á vegg er vísar á nafngiftina. Skiltið má þakka Sesselju Guðmundsdóttur.
Þessara merku minja virðast hvergi getið í vefheimildum.

Gísli Sigurbjörnsson 1907-1994

Gísli Sigurbjörnsson fæddist 29. okt. 1907 í Reykjavík. Hann lést 7. janúar 1994.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Gísli Sigurbjörnsson.

Gísli lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1927. Hann stofnaði Elli- og hjúkrunarheimilið Grund árið 1938 og var forstjóri þess frá stofnun og jafnframt forstjóri Áss í Hveragerði frá 1952. Auk þess að vinna brautryðjendastarf í þágu aldraðra sinnti Gísli mikið íþróttamálum, bindindismálum og ferðamálum alla tíð. Hann var einn af stofnendum Krabbameinsfélags Íslands og formaður Knattspyrnufélagsins Víkings um skeið. Hann gegndi auk þess fjölda trúnaðar- og ábyrgðarstarfa á ýmsum vettvangi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 3. sept. 1995. Hann stendur á lóð Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.

Lárus J. Rist (1879-1964)

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Lárus J. Rist.

„Munit, at léð er lýði land fyrir kraft og anda. [M. Joch.]“

Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis. Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906. Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð. Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins. Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum. Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.

Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans. Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Elna og Unnsteinn.

Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina. Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti. Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907.

Brjóstmyndin er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Elna Ólafsson (1912-1998) – Unnsteinn Ólafsson (1913-1966)

„Hjónin Elna Ólafsson og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri 1939-1966“.

Unnsteinn var skólastjóri Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.
Nemendur og vinir reistu honum þennan minnisvarða sem stendur í Unnsteinslundi ofan við Garðyrkjuskólann. Helgi Gíslason myndhöggvari gerði minnisvarðann.

Unnsteinslundur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Unnsteinslundur.

Árið 1943 átti Unnsteinn Ólafsson skólastjóri frumkvæði að gerð grasagarðs hér í hlíðinni, sem nú er við hann kenndur.

Á sumardaginn fyrsta 1998
Garðyrkjuskóli ríkisins

Jóns Kristjánsson
Minnisvarðinn er við Náttúrulækningafélagið í Hveragerði.

Garðahlynur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Garðahlynur.

Við Varmahlíð er hlynur. Við hann er skilti: „Garðahlynur“.
Undir honum er bekkur. Á bekknum er skilti: „Margrét Sverrisdóttir – Greta, 7.12.1942-3.4.2021. Minningin lifir“.

Minningabekkur gegnt Reykjafossi, norðan árinnar.
„Njótum útsýnis og kyrrðar. Blessuð sé minning hjónanna í Laugaskarði, Hjartar og Margrétar. Bekkurinn er gjöf frá börnum og tengdabörnum“.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Hjörtur og Margrét.

Þorlákshöfn

Í Öfusi og Þorlákshöfn eru nokkur minnismerki.

Kolbeinn Grímsson (1927-2006)

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

„1927-2006
Ertu að fá hann?“

Við Hlíðarvatn í Selvogi hafa menn löngum veitt silung á stöng. Einn af þessum veiðimönnum var Kolbeinn Grímsson. Hann veiddi gjarnan á flugu, sem hann hnýtti sjálfur og kallaði peacock, á veiðistað sem kallaður er Innranef við norðurströnd Hlíðarvatns.

Sagan segir að ef einhver var við veiðar á veiðistaðnum á Innranefi þá settist Kolbeinn á stein við ströndina og ávarpaði veiðimanninn: ,,Eru að fá’an?”
Þegar veiðimaðurinn gafst upp á veiðum á þessum stað hnýtti Kolbeinn fluguna peacock á tauminn og hóf veiðar og leið ekki á löngu þangað til fiskurinn tók.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

Á þessum steini er nú skjöldur með nafni Kolbeins og áletruninni Ertu að fá hann?

Kolbeinn Grímsson lést árið 2006. Stefán Hjaltested lét gera minningarskjöld
um Kolbein. Skildinum var komið fyrir á Innranefi og snýr hann út að Urðarvík.

Þorlákshöfn – Egill Thorarensen (1897-1961)
Minnismerkið er í almenningsgarði við Egilsbraut. Á því er áletrun: „Egill Thorarensen 1897-1961. Hann breytti verstöðinni Þorlákshöfn í nútíma bæ.“

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Egill Thorarensen.

Minnisvarðinn er eftir Gunnstein Gíslason.

Annar minnisvarði um Egil er á Selfossi.

Strandarkirkja – Engill (Landsýn)

Strandarkirkja er kirkja við Engilvík á Suðurstrandavegi. Kirkjan var kirkja íbúa í Selvogi og bjó prestur í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907. Strandakirkja er þjóðfræg vegna áheita og helgisagna. Strandarkirkja stendur við skerjótta og hafnlausa Suðurstöndina. Þar hjá er viti. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups í Skálholti sem er að stofni til frá um 1200 er kirkjan á Strönd nefnd. Sennilegt er að lending í víkinni hafi verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Núverandi kirkja var reist 1888 og endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og endurbætt frekar og endurvígð aftur 13. október 1996.

Helgisagnir um Strandarkirkju

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Elsta helgisögnin um Strandarkirkju er að Gissur hvíti hafi gert kirkju þar á 10. og 11. öld úr kirkjuvið sem Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi hann með frá Noregi. Önnur sögn er að Árni nokkur formaður hafi reist kirkjuna úr smíðavið sem hann kom með frá Noregi. Þriðja helgisögnin er um ungan bónda frá uppsveitum Árnessýslu sem fer til Noregs að sækja smíðavið í hús sín en lendir í sjávarháska og hafvillum og dimmviðri og veit ekki hvar skipið er. Hann ákveður í örvæntingu sinni að gefa allan smíðaviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað þar sem hann næði landi heilu og höldnu. Þá sá hann ljósengil framundan stefni skipsins og verður sá engill stefnumið sem hann stýrir eftir. Hann lendir í sandvík milli sjávarklappa og þá hvarf engillinn. Skipsmenn sáu í birtingu morguninn eftir að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Var hin fyrsta Strandakirkja reist úr viðnum sem kom úr skipinu.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Vorið 1950 var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Minnisvarðinn sem er standmynd á stalli sem sýnir hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki er eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og nefnist Landsýn. Á fótstallinum er skilti. „Landsýn eftir Gunnfríði Jónsdóttur, afhjúpað 29. maí 1950. Sögnin um Egilsvík.

Í bæn þeir lyftu huga hátt
þá háðu stríð við Ægis mátt.
En himinn rétti arm í átt
þar ýtar sáu land.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Stakkavík.

Það skip úr dauðans djúpi rann
því Drottins engill lýsa vann.
Svo býður hann við boða þann
og báti stýrir hjá.“

Árið 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn.

Stakkavík
Á skilti grunns gamla Stakkavíkurhússins við Hlíðarvatn sendur: „Stakkavík í eyði 1943 – síðasti ábúandi; Kristmundur Þorláksson“.

Hlíð

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlíð.

Á skilti á tóftum gamla bæjarins hlíðar við Hlíðarvatn stendur: „Hlíð í eyði 1906 – síðasti ábúandi; Nikulás Erlendsson“.

Gísli Eiríksson
Á grágrýtissteini austan við Þorlákshafnarveg er skjöldur. Á hann er letrað: „Jólalundur – Takk fyrir að lýsa upp okkar tilveru. Til minningar um Gísla Eiríksson, f. 29.09.1963, d. 20.06.2023.“

María Bjarnadóttir

María Bjarnadóttir

Ölfus – minnismerki; María Bjarnadóttir.

Neðst á grunni Strandarkirkju er lítið skilti: „María Bjarnadóttir frá Herdísarvík, f. 17. júli 1881, d. 18. maí 1922. Var úti við Kolviðarhól“.

Fæstir taka eftir þessu litla minningarskilti. María varð úti 1922.
Skiltið er eins neðarlega og hægt er og þá í stíl við stétt konunnar!

Þegar forvitnast er um þessa konu má lesa litla frétt í Vísi frá því 31. maí 1922: „Bæjarfréttir – Konan, sem fanst örend hjá Kolviðarhól, hét María Bjarnadóttir, sunnan úr Selvogi; niðursetningur hjá Þórði Erlendssyni á Torfastöðum í Selvogi, en hættuð úr Herdísarvík“.

Skrúðgarður Þorlákshafnar

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Skrúðgarður.

Á grágrýtisbjargi í Skrúðgarði Þorlákshafnar er skilti. „Kvenfélag Þorlákshafnar. Kvenfélag Þorlákshafnar hóf frumkvöðlastarf við myndun skrúðgarðs í Þorlákshöfn árið 1974, sem ber vott um framsýni, vilja og dugnað. Sveitarfélagið Ölfus þakkar ómetanlegt starf í þágu samfélagsins. Gert af tilefni 50 ára afmælis Kvenfélags Þorlákshafnar 11. maí 2014“.

Kvenfélagið í Þorlákshöfn gerði garðinn.

Skjöldur á bekk:
Á bekk við minnismerkið er bekkur. Á honum er skjöldur: „Gjöf frá Kvenfélagi Þorlákshafnar til Sveitarfélagsins Ölfuss. Íbúar í Ölfusi, til hamingju með endurbættan skrúðgarð. Kvenfélag Þorlákshafnar 2006“.

Hlín landslagsarkitekt

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlín Sverrisdóttir.

Í Skrúðgarði Þorlákshafnar er grágrýtisbjarg. Á því er skilti: „Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt endurhannaði skrúðgarð Þorlákshafnar. Hönnunarvinnan er gjöf til æskustöðva til minningar um foreldra hennar, Álfhildi Sveinbjörnsdóttur 1933-2014 og Sverrir Sigurjónsson 1934-2015. Þau höfðu alltaf einlægan áhuga á fegrun skrúðgarðsins og uppbyggingu Þorlákshafnar“.

Lífsfleyið
Minnismerki um horfna ástvini milli kirkjunnar í Þorlákshöfn og kirkjugarðsins. Þrír nafngreindir eru á skiltum við minnismerkið.

Á minnismerkinu er skilti: „Minningarreitur um drukknaða og horfna ástvini.

Minn ljúfi Jesú, lof sér þér
fyrir líkn og huggun þína,
þú, lífs og daða er lykla ber,
æ, lít á nauðsyn mína.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Arnarbæli.

Mig burtför æ lát búast við,
mér blessun gef og sálarfrið,
er lífsins dagar dvína.

Sálmur nr. 447, höf. ókunnur“.

Arnarbæli – Arnarbæliskirkja

„Hér stóð Arnarbæliskirkja.

Kirkju er fyrst getið í Arnarbæli um 1200 en var lögð niður 1909“.

Þessi minnisvarði stendur í gamla kirkjugarðinum í Arnarbæli.

Ofan við kirkjugarðinn er upplýsingaskilti um Arnarbæli.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Lífsfleyið.

Elliðavatn

Á upplýsingaskilti við Elliðavatn má lesa eftirfarandi um „Elliðavatn – Þingnes og Vatnsenda“:

Elliðavatn
Elliðavatn
Elliðavatn var upphaflega tvö vötn; Vatnsendavatn (í Kópavogi) og Vatnsvatn (í Reykjavík) og tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Á árunum 1924-1928 var miðlunarstífla reist við Elliðavatnsengi og við það nær tvöfaldaðist flatarmál vatnsins (40%). Alls er Elliðavatn nú um 2 km2 að stærð, meðaldýpi þess aðeins um 1 metri og mesta dýpi um 2.3. metrar.
Elliðavatn er í flokki lindarvatna og er vatnasvið þess um 270 km2. Mikill hluti vatns sem streymir inn í það kemur neðanjarðar frá í gegnum lekar hraunmyndanir. Tvær ár renna í Elliðavatn; bugða (Hólsmá) og Suðurá. Ein á rennur úr Elliðavatni og heitir hún Dimma en neðar taka Elliðaár við. Hluti Kópavogs í Elliðavatni og Dimma njóta bæjarverndar (hverfisverndar) Kópavogs og vatnið ásamt vatnasviði Elliðaánna eru auk þess á náttúrminjaskrá.

Þingnes

Þingnes

Þingnes 1873.

Þingnes er með merkari stöðum við Elliðavatn og tilheyrir bæði Kópavogi og Reykjavík. Þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands eða hið forna Kjalarnesþing sem haldið var áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum um 930. Árið 1938 var Þingnes friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.

Vatnsendi

Vatnsendi

Vatnsendi.

Vatnsendi var eitt af fjórum lögbýlum sem í dag mynda svokallað heimaland Kópavogs ásamt Hvammkoti (Fífuhvammi), Kópavogi og Digranesi. Vatnsendi er eina býlið af þeim sem enn er í ábúð. Til eru ritaðar heimildir um Vatnsenda allt aftur til ársins 1234. Jörðin á Vatnsenda hefur tekið miklum breytingum á 20. öld Við stíflun Elliðaánna missti Vatnsendi mikið land undir vatn og árið 1947 tók Reykjavíkurborg um helming landsins eignarnámi undir friðland fyrir íbúa Reykjavíkur, það land er nú hluti Heiðmerkur. Á sama tíma fóru ábúendur bæjarins að nytja óræktarland undir sumarbústaðaspildur sem eru undanfari þéttbýlismyndunar við vatnið.

Elliðavatn

Elliðavatn – kort.