Nokkur minnismerki eru í Suðurnesjabæ; Garði og Sandgerði.
Eggert Gíslason (1927-2015)
Suðurnesjabær – minnismerki; Eggert Gíslason.
Hann gerði Garðinn frægann
Eggert Gíslason, skipstjóri, fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.
Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði sunnan við Reykjanesvita.
Þormóðsslysið 1943
Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.
Þormóðsslysið varð 18. febrúar 1943. Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.
Skipverjar á Þormóði BA 291:
Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.
Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.
Farþegar úr Dalahreppi:
Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir
Farþegar frá Patreksfirði:
Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson
Farþegi frá Hvammstanga:
Guðmundur Pétursson
Farþegar frá Bíldudal
Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson
Minnisvarðinn er á Garðskaga, á sjóvarnargarðinum skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal.
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)
Suðurnesjabær – minnismerki; Hallgrímur Pétursson.
Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.
Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi.
Suðurnesjabær – minnismerki; Magnús Magnússon.
Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.
Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.
Magnús Magnússon (1915-1994)
Í Listigarði norðan garðvegar er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur: „Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg, f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.
Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.“
Sigurður B. Sivertsen
Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.
Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.
Stofnandi Gerðaskóla 1872.
Sveitarstoð og styrkur
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.
Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.
Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.
Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.
Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.
Minnisvarðinn stendur framan við Gerðaskóla.
Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn
Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.
Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði. Við minnisvarðan er skilti: „Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi. Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.“
Súlan er fagurlega skreydd. Undir henni eru nokkrir skildir með nöfnum drukkaðra sjómanna.
Jón Forseti RE 108
Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.
Minnismerkið er skjöldur á grágrýti. Ofan á því er eftirmynd af togaranum. Á skildinum stendur: „28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita. 15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.
Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.“
Minnisvarðinn stendur við bifreiðastæði skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.
Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Suðurnesjabær – minnismerki; mnnismerki um drukknaða sjómenn.
Minnisvarðinn eru þrír stuðlabergsstandar. Við þá er skilti: „Minnisvarði um drukknaða sjómenn.
Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll. – J. Magnússon.“
Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis. Undir minnismerkinu eru steinar og skidir með nöfnum horfinna sjómanna.
Minnisvarðinn stendur nyrst í Hvalsneskirkjugarði.
Álög – Minnisvarði um drukknaða
Suðurnesjabær – minnismerki; Álög.
Horfnir sjómenn Sandgerði – Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði.
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.
Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði, sunnan Sandgerðisvegar skammt norðan íþróttasvæðisins.
Grímsvarða
Suðurnesjabær – minnisvarði; Grímsvarða.
Á minnsivarðanum er skjöldur: „Grímsvarða endurreist 2014.
Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær“.
Grímsvarða eða Grímsvörður við Sandgerðisveg voru sunnan vegarins, skammt frá gamla Sandgerðisveginum. Vörðurnar voru fjarlægðar þegar nýi Sandgerðisvegurinn var lagur. Varða á þeim stað hefur nú verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.
Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina, s.s. Einmenningshólsvörðu, Gotuvörðu og Efri-Dauðsmannsvörðuna gegnt Vegamótahól.
Suðurnesjabær – minnismerki; Grímsvarða.
Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa.
Prestsvarða
Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.
Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.
Leturhella er við Prestsvörðuna. Á hana er letrað:
„1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.“
Framangreint vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”
Varðan er skammt sunnan við gamla Garðveginn sunnan Leirunnar.
Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)
Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafur Jónsson.
„Til minningar um Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.
Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.
Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.
Blessuð sé minning þeirra.“
Minnisvarðinn, steinn með skilti er sýnir framangreinda áletrun stendur í Útskálakirkjugarði.
Efri-Dauðsmannsvarða
Suðurnesjabær – minnismerki; Efri-Dauðsmannsvarða.
Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. endurhlaðin Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.
Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sést vel til Digruvörðu í heiðinni.
Efri-Dauðsmannsvarða er sunnan Sandgerðisvegar og sést vel frá veginum, innan girðingar beitarhólfsins.
Neðri-Dauðsmannsvarða
Suðurnesjabær – minnismerki; Neðri-Dauðsmannsvarða.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.
Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.
Neðri-Dauðsmannsvarða er fallin og sést einungis ógreinlega þar sem hún hverfur í móann vestan Vegamótahóls.
Suðurnesjabær – minnismerki; Dauðsmannsvarða.
Dauðsmannsvarða ofan við Bjarghús
Enn ein Dauðsmannsvarðan er í heiðinni ofan við Bjarghús. Hún stendur nokkuð heil enda hafði Sigurður Eiríksson í Norðurkoti lappað duglega upp á hana. Varðan er ekki við þekkta leið, en er eftir sem áður þannig staðsett að greiðfært hefur verið þarna yfir heiðina millum Keflavíkur og Fuglavíkurhverfisins.
Fornmannaleiði í Garði – Haugbúinn
Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir og við hann þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert torráðið fornletur hafi verið á steininum. Ef vel er að gáð má sjá leifar áletrunarinnar þvert yfir steinhelluna. Hún virðist vera sem rúnir, en hefur hingað til verið ólæsileg þeim er til þekkja. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.
Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.
Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.
Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.
Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.
Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.
En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.
Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.
Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.
Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.
Við fornleifauppgröft á hólnum, sem letursteinninn liggur undir, fyrir nokkrum árum kom í ljós að þar er enga dys að finna, einungs grjótklöpp.
Ellustekkur í Garði
Suðurnesjabær – minnismerki; Ellustekkur.
Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Ellustekkur.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Ellustekkur er sunnan Garðvegar, skammt austan Garðs.
Gerðaskóli – Skólinn í Garði
Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.
Veturinn 1871-72 gekkst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.
Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.
Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir.
Minnismerki um Gerðaskóla er grágrýtissteinn. Steinninn stendur skammt frá Sjólyst ofan Gerðahafnar. Á skildi á steininum stendur: „Gerðaskóli – Hér stóð fyrsta hús Barnaskólans í Gerðum, byggt af fríviljugum samskotum. Í því var kennt 1872-1887.“
Tómasarhóll
Suðurnesjabær – minnismerki; Tómasarvarða.
Á Tómasarhól er Tómasarvarða. Hvorutveggja er skammt frá Fuglavíkurseli, innan varnargirðingarinnar á Miðnesheiði.
Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og er að finna í heiðinni nokkrar
vörður til minnis um þá; a.m.k. þrjár tilteknar Dauðsmannsvörður, Tómasarhóll og
Ólafsvarða eru dæmi um slíkar vörður.
Ólafsvarða
„Landamerkjavörður og stakar vörður eru víða að finna á heiðinni. Hlutverk hverrar og einnar er ekki alltaf ljóst og mun e.t.v. ekki verða hægt að segja til með vissu hvort þær séu allar landamerkjavörður fyrr en skráningar liggja fyrir á öðrum landmerkjavörðum, eða mörkum milli jarðanna neðar í landinu, að teknu tilliti til þróunar byggðar frá landnámi, en landamerki færðust til frá einum tíma til annars þegar jarðir skiptust upp – ein af annarri.
Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafsvarða.
Sumar þessara stöku varða gætu líka verið minnismerki um fólk, sem hefur orðið úti á heiðinni, en nákvæm vitneskja um það hafi síðan glatast. Fjöldi slíkra varða er hins vegar þekktur á Reykjanesi. Ein er innan girðingar en það er Ólafsvarða og rétt utan girðingar norðanmegin við flugvöllinn er Dauðsmannsvarða og Tómasarhóll. Ólafsvarða mun raskast við framkvæmdina og lendir undir flugbrautinni en aðrar stakar vörður eru ekki í hættu. Má hugsa sér sem mótvægisaðgerð að taka grjótið og endurhlaða Ólafsvörðu rétt utan við Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði“. segir í Fornleifaskráningu á Miðnesheiði árið 2014.
Ekki er vitað hvaða Ólafur þetta var. Í örnefnaskrá segir: „Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir.“ Ólafsvarða er um 10 metrum norðan við Hvalsnesleiðina-Melabergsgötur. Hún er heil, um 1,40 á hæð og 1,10 á breidd. Varðan hefur hátt minjagildi.
Kistugerði
Suðurnesjabær – minnismerki; Kistugerði.
Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.girðinguna þar sem Hvalsnesleiðin-Melabergsgötur koma að girðingunni vestan við flugvöllinn, enda reist til að minnast sögulegs atburðar, manns sem varð úti á leiðinni.
Letursteinninn er niður undir fyrrum sjávarhamri skammt austan Rafnkelsstaða.
Þórshöfn – HP-áletrun
Suðurnesjabær – minnismerki; Þórshöfn.
Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan.
Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.
HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum.
Framangreind „Hallgrímshella“ er nú í vörslu Þjóðminjasafnis. Ártal á henni passar ekki við ártíð Hallgríms Pétursson. Ofan við Þórshöfn er hins vegar áletrun á „steinaltari“; HP. Vilja margir meina að þar sé komið fangamark nefnds Hallgríms, en hann ku á fyrstu árum sínum sem prestur í Hvalsneskirkju farið fótgangandi millum hennar og heimilis síns að Bolafæti í Njarðvíkum. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða fangamark Hans Péturs kaupmanns Duus, en hann var einmitt kaupmaður í Keflavík á þeim tíma sem ártölin á steinhellunni gefa til kynna, um 1880. Samskonar fangamark er á hornsteini Duushúsa og á pakkhúslofti verslunarinnar. Hans Pétur verslaði í Þórshöfn á þessum tíma.
Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.
Um er að ræða hvítmála styttu af sjómanni við fyrrum sjólist ofan við Gerðahöfn. Á fótstalli styttunar er skilti er á stendur. „Til minningar um drukknaða sjómenn – Mangi frá Mel; Listaverk eftir Helga Valdimarsson“.
Minning um Gíslu S. Vigfúsdóttur
Um er að ræða hvítmála styttu af biðjandi konu utan við hlið kirkjugarðs Útskálakirkju. Á fótstalli hennar er skilti: „2023 – Ég bið fyrir þér (I pray for you) – Verk eftir Helga Valdimarsson. Gefið Útskálakirkju til minningar um konuna mína, Gíslu S. Vigfúsdóttur“.
Skagagarðurinn
Minnisvarði um Skagagarðinn hinn forna er sunnan Garðbrautar þar sem hús nr. 25 stóð áður. Á skilti við minnismerkið segir m.a.: „Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Suðurnesjabær – minnismerki; Skagagarðurinn.
Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.“
Sólveig Magnúsdóttir (1932-2020)
Suðurnesjabær – minnismerki; Sólveig Magnúsdóttir.
Tómasína Sólveig Magnúsdóttir fæddist 2. apríl 1932 í Nýlendu í Miðneshreppi. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. febrúar 2020.
Minnismerki um Sólveigu er á Kirkjuhól (Austurbæjarhól) ofan við Hvalsneskirkju. Sumarbústaður hennar er skammt sunnar, utan garðs Hvalsnesstorfunnar. Hún reisti hann í skika er hafði tilheyrt Nýlendu.
Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði 2000.
-Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Keflavíkurflugvelli – 2014.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/
Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.