Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Skógfellavegur

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – vörðukort (ÁH).

Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður með 99 vörðum, misjafnlega vönduðum, og sumstaðar má sjá djúp hófför í hraunklöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá Neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 900 árin eða svo.
Leiðin er um 16 km. og tekur um 4-6 tíma í göngu.

Sandakravegur liggur nú, líkt og Skógfellavegurinn, að hluta undir nýrunnu hrauni, eða allt að landamerkjum Voga hjá „Stóra steininum við Gömlu götuna“. Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aðeins fálega varðaður. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að hann hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það aðallega heimilisfólkið í Ísólfsskála og gestir þess sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni.

Skógfellavegur – leiðarlýsing frá 2020

Skógfellavegur

Skógfellavegur – hnitsetning.

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur. Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af en úr því rætist fljótlega. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellav. – hnitsetning.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.
Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða við Aragjá.

Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – „Stóri (landamerkja)steinninn við Gömlu götuna“.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.

Landamerki

Leiðrétt landamerki Voga og Grindavíkur m.v. landamerkjalýsingu.

Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Útsýni af Skógfellavegi að Stóra-Skógfelli, Sýlingarfelli og Þorbirni.

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?“
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

„Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma (eftir að ísöld lauk), en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.“

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.