Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi í fylgd Helga Gamalíassonar. Byrjað var við Húsatóftir og gengið með ströndinni um Kóngshelluna, Hvirfla, Stóra-Gerði, Litla-Gerði – Kvíadal og Stað. Að því loknu var haldið út í Bása ofan við Staðarberg og skoðuð hlaðinn refagildra.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Helgi byrjaði á því að staldra við Pústhól á golfvellinum að Húsatóttum eftir stutta göngu. Sagði hann þann sið viðhafðan að þar hafi menn tekið byrðar af baki sér, sest niður og hvílst um stund áður en lengra var haldið. Rústir Kóngsverslunarinnar eru á sjávarbakkanum vestan við golfvöllinn. Kóngshellan sjálf er að mestu horfin sem og lendingin, enda hafa aðstæður þarna breyst mjög síðari áratugina (og jafnvel til enn lengri tíma litið). Sandfjara, sem verið hafði við skerin, væri nú horfin. Sjórinn hefur verið að brjóta af ströndinni smátt og smátt. Sést það m.a. vel á tóftunum, sem nú eru að hverfa til sjávarins.
Golfsvæðið, sem byggt var eftir stofnun Golfklúbbs Grindavíkur árið 1981, hefur verið varið með brimgarði, en hann nær ekki út fyrir það. Skv. upplýsingum fróðustu manna höfðu fengist fjármunir til að verja landið þarna og aðilum falið að sjá um það, en þeir hafi því miður einungis takmarkað sig við vallarsvæðið. Undir sjávarbakkanum má sjá hluti frá kóngsversluninni, s.s. krítarpíur o.fl. vera koma smám saman í ljós.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

Skoðuð var bryggjan á Hvirflum, en hún á sér áhugaverða upprunasögu líkt og svo mörg mannanna verk, þar sem deilt var um gildi og staðsetningu, skatta og skil. Staðarvörin er fallega flóruð.

Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring. Hins vegar er sjóinn að taka Litla-Gerði, sem er þar skammt vestar, til sín. Kvíadalur er heillegar tættur. Við hann eru síðustu leifar af görðum Staðahverfis, en þeir voru áður þarna svo til út um allt. Þegar bryggjan var byggð sem og bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var komið á vörubílum og grjótið úr þeim hirt í hana. Eftir stendur heillegur stubbur til minningar um bræður hans. Vel sést hvernig sandurinn hefur safnast vestan við garðinn og hlaðist upp.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Helgi lýsti Stað og staðháttum þar. Hann vísaði m.a. á Staðarbrunninn, sem byggður var 1914, fallega hlaðinn og nær óskemmdur. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestan við Staðarhverfið er hóll við þjóðveginn. Á honum er varða, svonefnd Tyrkjavarða eða Gíslavarða. Sagan segir að hún hafi verið hlaðin eftir Tyrkjaránið með þeim áhrínisorðum að á meðan hún stæði myndi Grindavík og Grindvíkingum óhætt.
Austan við Staðarbergið þaðan í sjávarhendingu (við austurenda bjargsins) er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðuna til minja um þennan atburð.
Loks vísaði Helgi þátttakendum á hlaðna refagildur á Básum ofan við Staðarbergið. Hún hefur verið staðsett utan í hraunbakka, á leið rebba með berginu.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Konungsfell er merkt inn á herforingjakort árið 1908. Það var sem nú er merktur Stóribolli á kortum. Bollinn sá er hins vegar utan í norðvesturhlíð Konungsfells.
Konungsfell-kortLíklega hefur nafnið Konungsfell horfið með tímanum af tveimur ástæðum; vegna þriggja nálægra nafna þess, þ.e. Kóngsfells, Stóra-Kóngsfells og Litla-Kóngsfells og vegna þess að konungsnafnið hefur ekki þótt við hæfi þá og þegar sjálfstæðisbaráttan var í hámarki. Eða, sem verður að teljast sennilegasta skýringin, vegna þess að í fjarlægð virðist Konungsfell vera líkt og gígur tilsýndar. Og fáir, sem ganga á fellið, sjá Stórabolla.
Landamerkjalínur Krýsuvíkur, Garðabæjar [-hrepps] og Kópavogs eru dregnar um þetta Konungsfell á kortinu 1908. Að öllum líkindum er örnefnið ekki ýkja gamalt, sennilega nefnt svo af konunglegu dönsku mælingarmönnunum, sem unnu kortið á þessum tíma.

Kóngsfell

Gígur Kóngsfells/Konungsfells (Stóri-Bolli).

 

Rebbi

Lagt var á Nátthagaskarð ofan við Stakkavík. Stakkavíkurhraun steypist í miklum hraunfossi fram af brún fjallsins austan skarðsins. Kvikan kom úr Draugahlíðagígnum.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Nokkrir fallegir hellar eru á Stakkavíkurfjalli, s.s. Hallur (Stakkavíkurhellir), Annar í aðventu og Nátthagi. Á fjallinu ofan og austan við Mosaskarð ofan Herdísarvíkur eru m.a. Rebbi og Brúnahellir. Herdísarvíkurhraunið hefur runnið í miklum hraunfossi niður skarðið sem og fram af fjallinu skammt austar. Það er komið ofan úr Eldborgargígunum austan Vörðufells.
Neðarlega í Mosaskarði er Mosaskarðshellir, fallegt öndunarop og stutt ljúflingsrás. (FERLIR seig niður opið á sínum tíma og gróf sig inn í rásina – sjá HÉR).

Þegar upp var komið var gengið að Hall ofan við vesturbrún skarðsins. Opið er í stóru jarðfalli í brekkunni er halla fer að Nátthagaskarði. Op liggur úr því til vesturs, vítt til að byrja með, en þrengist síðan uns komið er upp úr því í opi eftir 80 metra. Rásin niður og til austurs er hins vegar öllu stærri. Ljósin ná varla að lýsa á milli veggja, en mikið hrun er í hellinum. Rásin liggur um 140 metra í átt að skarðinu, en hún hallar mikið undir það síðasta.
Skammt norðan við Hall er lítil rás, sem skiptir sér, en endar í þrengslum á öllum leiðum. Bibbi (Guðmundur Brynjar Þorsteinsson) fann hellir þennan árið 1980.

Nátthagi

Við Nátthaga.

Ekki var farið niður í Hall að þessu sinni, en ferðinni haldið áfram til vestur ofan við brún fjallsins, að Öðrum í Aðventu. Nafnið er tilkomið vegna þess að hellirinn fan á þessum degi árið 1992. Þar voru sex hellamenn á ferð, þ.á.m. Þröstur Jónsson.
Neðra op Annars í Aðventu er í kvos rétt ofa við bjargbrúnina. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir Stakkavík og Hlíðarvatn. Lengdin frá því upp í efra opið er um 45 metrar. Allhrunið er í neðri hlutanum og þrengist eftir því sem ofar dregur að nyrðra (efra) opinu. Frá því liggur rásin um 150 metra upp á við (til norðurs). Göngin er heil, breið, en nokkuð lág. Tvær súlur eru í rásinni, sem hægt er að komast framhjá.
Svo virðist sem Annar í aðventu geti verið hluti af hellakerfi Nátthaga, sem er þarna norðan við.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Gengið var upp að opum Nátthaga. Efsta op Nátthaga er í stóru jarðfalli langleiðina upp undir nýja hrunið. Rásin liggur suður og norður, báðar mjög stórar. Gestabók frá Guðmundir Brynjari Þorsteinssyni er vinstra megin skammt innan við hellismunnann, en Guðmundur fann hellinn 1992.
Þegar haldið er upp norðurrásina er komið niður á stétt hellisgólfið, en síðan tekur við talsvert hrun uns komið er upp í þverrás. Mikil hrauná hefur komið ofan að, frá vinstri, og stefnir niður rásina hægra megin. Vegna árinnar lækkar rásin svolítið, en hægt er að ganga boginn inn eftir henni og niður hana. Hún hækka fljótlega á ný. Bergið er bæði svarleitt í hraunánni og grænleitt að hluta. Grjót, sem hrunið hefur úr loftinu meðan hraunið rann, sést í storknaðri kvikunni á nokkrum stöðum. Rásin liggur í boga og er komið út um sama jarðfallið og farið var niður í, vinstra megin við meginrásina. Þessi leið er um 200 metrar.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Þá var haldið niður í syðri rásina og henni fylgt. Þegar komið er niður er komið á fallegan jarðfastan hraunbekk, sem stendur út undan hruninu. Fljótlega tekur við talsvert hrun, en hellirinn er samt nokkuð hár. Á einum stað í hruninu má sjá hraunplötu, sem fallið hefur úr loftinu. Ef skoðað er undir hana má sjá hvernig loftið hefur verið, fallega rautt. Í miðri rásinni er svartur, jarðfastur og svartleitur, sléttur steinn, sem stingur nokkuð í stúf við annað á leiðinni. Glampar á hann af ljósunum.
Sumir vilja meina að þarna geti verið um svonefndan „rekstein“ að ræða, en líklegra er að þarna hafi fella með nokkrum steinum hrunið úr loftinu um það leyti er draga tók úr þunnfljótandi hraunstraumnum í rásinni. Hún náði þó að smyrja yfir alla felluna þannig að hún virðist nú einn stór steinn. Ef betur er gáð má sjá í honum nokkra smærri steina, sem húðaðir hafa verið með hraunkvikunni sem einn.

Rebbi

Rebbi – opið.

Rétt áður en komið úr út um jarðfall má sjá þrönga rás liggja upp til hægri. Þessi hluti Nátthaga er um 150 metrar. Í jarðfallinu er stutt rás áfram uns komið er upp á nýjan leik. Þar er rásin fallin, beygir til að opi, sem þar er. Innan við það op liggur falleg rás áfram til suðurs. Í henni eru dropasteinar og loft hennar er á kafla mjög fallegt. Þessi rás endar í þrengslum eftir um 80 metra. Skammt sunnar er enn eitt opið. Úr því liggja hraunrásir bæði til norðurs og suðurs. Þær enda einnig í þrenglsum. Þessar rásir eru um 140 metrar.

Veður var einstaklega fallegt þennan dag og því hrein unun að ganga vestur eftir fjallsbrúninni, sjá brimið leika við Herdísarvíkurbjargið og heyra öflugan sjávargníginn í logninu.

Rebbi

Í Rebba.

Þá var lagt í Rebba. Þekkja má hellinni, sem í hraunholu, á beinum, sem eru þar niður í. Tvö önnur op eru ofar. Til aðgreiningar voru þau nefnd Hiðhellir og Hvalskjaftur, en þær rásir eru að öllum líkindum í sama hellakerfinu. Sama hraunið og sömu litirnir koma þar fyrir í öllum rásunum þótt þeir virðist aðskildir.
Rebbi er fallegastur hellanna á þessu svæði. Þegar komið er niður liggja hraunrásir til suðurs og norðurs. Beinagrind af ref liggur innan við opið. Hellirinn dregur nafn sitt af refnum, sem skotinn var nálægt hellisopinu árið 1945 og henti skyttan hræinu niður um opið, væntanlega eftir að hafa hirt skottið af dýrinu. Ummerki eru eftir refaskyttur ofan við hellisopið, hlaðið skjól. Skíkt skjól, mun stærra, er einnig við efra op Annars í Aðventu. Greni er ofan við bjargbrúnina á milli hellanna. Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fann Rebba 1993.

Rebbi

Í Rebba.

Þegar haldið er til suðurs er fljótlega komið að gati í gólfinu. Þar niðri, mannhæðahátt, liggur önnur hraunrás í sömu stefnu og sú efri – um 6 í hvora átt. Haldið var niður eftir rásinni, sem er um 60 metrar að lengd. Mjög fallegar hraunmyndanir eru í henni uns hún þrengist verulega. Hægt er þó að þrengja sér inn undir rásina, sem er um meters breið. Fyrir innan er nokkuð sem líkist tvöföldum flór, um 6 metrar á lengd. Þar skammt frá endar hellirinn er loft mætir gólfi.Â
Þegar haldið er til norðurs blasa við geysifallegar hraunmyndanir. Fljótlega kemur eldrauður flór í ljós, um metersdjúpur. Bekkur liggur samhliða honum. Hægt er að fara ofan í flórinn og ganga áfram upp eftir honum. Þá birtast hinar fallegustu hraunmyndir. Flór kemur fram úr hellinum og myndar nokkurs konar björgunarbát, eldrauðan, í honum miðjum. Síðan stallast myndanirnar áfram upp.
Hellirinn lækkar síðan, en hækkar aftur. Þar inni er mjög fallegir hraunbekkir, tvílitir. Dekkra hraun hefur lagst þunnfljótandi utan á rauða hraunið og myndað fallegan bolla. Innar eru einnig margar fallegar hraunmyndanir. Þessi hluti hellisins gæti verið um 150 metra langur. Hægt er með erfiðismunum að skríða lengra áfram í gegnum þrengingu og er þá hægt að fara út um 6 metra löng þröng op, sem er annað op á hinum eiginlega Rebba.

Rebbi

Í Rebba.

Ofan við Rebba, svolítið til hægri, er gat. Þar liggur hraunrás til suðurs. Hún er um 60 metrar að lengd og endar í þrengslum. Til hægðarauka var þessi hluti nefndur Miðhellir. Efst í rásinni hægra megin er fallegur hraunfoss, sem hefur komið niður rás ofarlega í veggnum og storknað neðan við hann. Aðeins lengra er mjó raunrás, einnig upp við loft, og neðan við hann hefur myndast fallegt og stórt hraundríli. Suðvestan við opið er hlaðið skjól fyrir refaskyttur.

Rebbi

Í Rebba – beinagrindin.

Loks er enn eitt hraungatið, svolítið norðar, svo til alveg upp undir nýja hraunkantinum. Hægt er að fara ofan í hraunrásir bæði í vesturjarðir opsins og eynni í austurjaðri þess. Þegar komið er ofan í vesturgatið má sjá hinar fallegustu sepamyndanir. Að ofanverðu birtist nokkurs konar hvalskjaftur og ef setið er í kjaftinum má sjá allan tanngarðinn eins og hann leggur sig. Þessi sýn er ekki ólík þeirri, sem má finna í efri hluta Rebba, skammt ofan við „skálina“. Auk þess er þarna „skógur“ af löngum sepum inn undir rásinni.Â
Rás liggur til suðurs, um 40 metra, sem kemur upp í litlu jarðfalli. Þegar haldið er niður koma í ljós tvær hæðir. Gólfið á eftir hæðinni er mjög þunnt, en rásin á neðri hæðinni endar í þrengslum.

Rebbi

Í Rebba.

Í eystra opinu liggur rás til suðurs. Sjá má rásina koma sem hraunæð að ofan og er hún opin upp, mjög lág. Rásin niður er hins vegar myndarleg, en lækkar fljótlega. Hraunnálar eru í loftinu. Skríða þarf áfram, en þá birtist allt í einu 10 fingra krumla niður ú loftinu. Þess vegna er þessi hluti hellakerfisins nefnd Krumlan til hægðarauka. Rásin er um 100 metra löng.
Þá var haldið austur yfir í Annan í aðventu. Varða er austan við brúnina þar sem neðra opið er í jarðfalli framan í bjargbrúninni. Ofar er hlaðinn veggur, skjól fyrir refaskyttur. Hellirinn liggur því til norðurs. Rásin er víð neðst, en lækkar síðan. Skríða þarf hluta hellsins upp að efra opinu. Þessi hluti er um 60 metra langur. Ofan við efra opið liggur rásin í vinstri beygju. Hún er nokkuð stór fyrst, en lækkar síðan uns hún endar í þrengslum. Efri rásin er um 120 metra löng.

Mosaskarð

Mosaskarð.

Haldið var niður að Brúnahelli, en hann er í rás fremst á fjallinu skammt austan Mosaskarðs, skammt sunnan við Rebba. Þetta er falleg og litskrúðug rás, mosagróin fremst þar sem birtu nýtur við, liggur þar upp í hraunið og beygir þar til vinstri uns hún lokast þar sem flór kemur undan þrengslum eftir um 20 metra. Hægt væri að skríða áfram, er það væri erfitt.
Rás liggur einnig til suðurs um 40 metra. Hún endar í þrengslum. Fallegar hraunmyndanir eru í rásinni á kafla.

Gengið var spölkorn til norðurs og síðan til vesturs að Mosaskarði. Af brúninni má vel sjá hveru óhemjumagn af kviku hefur streymt þarna fram af fyrrum og móta landið fyrir neðan, allt til sjávar. Hraunið kom úr Eldborg í Brennisteinsfjöllum og sést vel til hennar frá brúninni.
Megingígurinn er þó skammt norðvestar. Frá honum rann einnig mikið hraun niður að Kleifarvatni og myndaði Hvammahraun.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Haldið var niður skarðið og staðnæmst við Mosaskarðshellir. Til að komast niður um opið, eða öllu heldur til að komast upp aftur, þarf aðstoð kaðals, sem ekki var hafður með í för að þessu sinni. FERLIR fann helli þennan fyrir þremur árum og skoðaði hann síðan með HERFÍs-mönnum. Sigið hafði verið niður í gatið og þá virtist hún einungis vera rúmgóð rás. En þegar grafið var í gjallhaug á gólfi syðst í rásinni kom í ljós gat. Opnaðist þá leið inn í fallega manngenga bogadregna hraunrás með glerjuðum veggjum. Í heildina er Mosaskarðshellir um 50 metra langur.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rebbi

Eyjólfur, FERLIRsfélagi, í Rebba.

Grænaborg

Gengið var frá íþróttahúsinu í Vogum að Grænuborg austar með ströndinni. Síðan var ströndin gengin til baka, í gegnum Voga, framhjá Vogatjörn og upp að Arahólsvörðu.

Vogar

Vogar.

Á leiðinni að Grænuborg var fylgst með mófuglunum þar sem þeir lágu á eggjum sínum eða fylgdust með hinum aðkomandi furðufuglum. Endurnar hreyfðu sig varla á hreiðrum sínum þótt nokkrir tvífætlingar ættu leið framhjá.
Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot.

Grænaborg

Grænaborg eftir brunann.

Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbæt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.
Talsvert fuglalíf er við strandlengjuna við Voga og fjaran víða álitleg. Gróður er fjölbreytilegur og gott er að njóta þar friðsemdarinnar svo nærri þéttbýlinu.
Vogatjörn og Mýrarhúsatjörn eru í Vogum. Aðrar tjarnir eru og á Vatnsleysuströndinni, s.s. Gráhella í Brunnastaðahverfi og tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjörn og Bakkatjörn.

Vogar

Vogar – tjarnirnar.

Tjarnirnar eru eins og nöfn þeirra flestra gefa til kynna, nefndar eftir nærliggjandi bæjum sem auðvelt er að finna þegar gengið er um ströndina. Þessar tjarnir og næsta nágrenni þeirra eru á náttúruminjaskrá. Þær eru mjög lífríkar og við þær og á er fjölbreytt fuglalíf.
Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennileg sveit. Hún er löng og mjó, um 15 km á lengd og 10 km á breidd. Þar er lítið rennandi vatn, því hraunið gleypir allt rigningarvatn og leysingarvatn.

Byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni en þó sundurslitin. Hver einasti bóndi hér áður fyrr var útvegsbóndi og áttu þeir mismargar fleytur.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Margir bændur voru framfarasinnaðir og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt, sem sést best á því að það var bóndi í Vogum sem keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Það var bóndi á Vatnsleysuströnd sem hreyfði því fyrstur manna að friða skyldi Faxaflóa fyrir erlendum veiðiskipum. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fyrstur kenndi mönnum að veiða síld og nota hana til beitu. Það var bóndasonur af Vatnsleysuströnd sem fór til Noregs, aflaði sér þekkingar sem varð til hagsbóta fyrir útgerð við Faxaflóa. Grindvíkingur keypti fyrsta netið af útvegsbónda á Vatnsleysuströnd og svona mætti lengi telja.

Grænaborg

Tóftir við Grænuborg.

Gott þótti undir bú í Vogum og miklir hagar voru á Strandarheiði. Þá stunduðu Vogamenn mjög útræði og var stutt að sækja á fengsæl mið. Frægar fiskislóðir undan Vogastapa nefndust Gullkista. Um miðja 19. öld hófu verslanir að senda skip á Vogavík til að taka fisk. Var þá reist fiskhús á hólma við sunnanverða víkina. Upp úr 1870 stofnuðu bændur á Vatnsleysuströnd verslunarfélag með bændum á Álftanesi og fjölgaði þá ferðum fisktökuskipa á Vogavík.Víkin var löggilt sem verslunarhöfn árið 1893, þótt hafnarskilyrði þættu þar löngum fremur erfið. Um aldur notuðust sjómenn við áraskip í Vogum og síðar trillur, en árið 1930 hófu heimamenn þar útgerð vélbáta. Var þá gerð þar stöplabryggja og reist fiskhús. Árið 1942 var byggt þar fyrsta frystihúsið og einnig miklar hafnarbætur upp úr því.

Arahólavarða

Arahólsvarða.

Gengið var upp Hafnargötu frá höfninni, framhjá Vogatjörn. Ungdómurinn var önnum kafinn þar við sílaveiðar. Ljóst er að snemma beygist krókurinn.
Gengið á Arahól að Arahólsvörðu. Arahólsvörðuna lét Hallgrímur Scheving reisa árið 1890. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna, sá hét Sveinbjörn Stefánsson. Tilgangurinn er ekki ljós nema þá sem prýði fyrir plássið.

Fyrir skömmu komu í ljós nokkrar mógrafir í fjörunni sunnan Bræðraparts í Vogum. Vitað var til þess að mór væri í fjörunni og hefur hann verið sýnilegur á háfjöru í mörg ár við sunnanvert Sæmundarnef.

Mógrafir

Mógrafir.

Einnig er vitað um mógrafir suður af Steinsholti og upp af Vogavík en þær eru nú að miklu leiti grónar grasi. Má telja að þessar grafir séu um hundrað ára gamlar.

Fá munnmæli eru til um mógröft í sveitarfélaginu en þó var sagt um þessar grafir líkt og annarstaðar á landinu að aðgæslu hafi verið þörf við gröftinn því mikil hætta hafi verið á að þær féllu saman. Vinna við mógröft þótti erfið, fylgdi því mikið erfiði að stinga móinn, stafla honum og færa heim að bæ til þurrkunar. Líkt er og að þessar mógrafir hafi verið stungnar í gær svo vel hefur sandurinn varðveitt þær fyrir briminu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Helga Ragnarsdóttir – Munnlegar heimildir: Guðrún Lovísa Magnúsdóttir – Særún Jónsdóttir (haft eftir Jóni G. Benediktssyni frá Suðurkoti).
-http://www.vogar.is/displayer.asp?cat_id=142

Grænaborg

Rétt við Grænaborg.

Hnúkar

Gengið var frá þjóðveginum um Selvog, gegnt Hnúkunum, áleiðis niður á Kvennagönguhól, eða-hóla. Á leiðinni var rifjuð upp þjóðsagan um hólinn sem og notkunargildi hans fyrrum.

Kvannagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Kvennagönguhóll og Orustuhóll eru á miðri Selvogsheiði í Árnessýslu. Saman eru þeir nefndir Kvennagönguhólar. Þá eru til Kvennagönguhóll í Viðey við Reykjavík og Kvennagönguhólar í landi Minna-Mosfells í Grímsnesi í Árnessýslu. Auk þess er Kvennagönguskarð á Vogastapa en það er skarð fast vestan við Reiðskarð. Loks var haldið í Djúpudalahraun, gengið um Djúpudali og Djúpudalaborgin barin augum.Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hólarnir á Selvogsheiði hafi verið tengdir sögum um konur sem þangað fóru og „ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness“. Seinni tíma þjóðsögur telja að konurnar hafi verið að huga að mönnum sínum sem voru á sjó.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Í heimild frá 1821 segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.”

Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfðu til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útræði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.“
Hvað sem sögum og sögnum líður er hið ágætasta útsýni af hólnum yfir Selvoginn og austur með ströndinni.
Haldið var niður í Djúpudalahraun. Í örnefnaslýsingu fyrir Þorkelsgerði er tiltekið að “austan við Strandhæð eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel.“ Ofan við Djúpudali er myndarleg og nokkuð heilleg fjárborg, Djúpudalaborgin. Hún var skoðuð í þessari ferð og ástand hennar metið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_nes.htm

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: „Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar.

Dysjar Herdísar og krýsu

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans neðst í Kerlingadal.

Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.“

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn undir Búrkletti.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um „Verbúðarrústir á Selatöngum“ í Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976:
Selatangar-2018„Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt  staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri Selatangar - sjóbúðstundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nórarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.“

Heimild:
-Verbúðarrústir á Selatöngum – Þór Magnússon – Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976, bls. 12.
Selatangar - uppdráttur

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyrarlón

Gísli Sigurðsson skrifaði um „Fornubúðir og Hvaleyrartjörn“ í tímaritið Sögu árið 1963:
„Fornubúðir hét hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.
hvaleyrartjorn-kortHvaleyri er höfði, sem skagar norður í Hafnarfjörð. Hann er um 20 metrar yfir sjávarmál, þar sem hann er hæstur heim við Hvaleyrarbæ. Höfðanum hallar heiman frá bæ suð-vestur og vestur niður að Hvaleyrarsandi, norð-vestur, norður og norð-austur fram á bergbrún ekki ýkja háa, og er þar fjaran undir og fellur sjór upp að berginu.

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Frá Drundinum, en svo er vestasti eða nyrzti hluti höfðans stundum kallaður, lækkar bergið smátt og smátt, þar til hæðin yfir sjávarmál er varla meira en 1 til 2 metrar neðst og austast í túninu. Hvaleyrargrandinn er langur tangi, sem liggur frá Hvaleyrartúnum inn og austur með suðurlandinu. Hann er skilinn frá suðurlandinu af tveimur tjörnum, Hvaleyrartjörn, sem er vestar og nær Hvaleyri og nokkru stærri, og Óseyrartjörn, sem er austar og innar. Hvaleyrartjörn nær heiman frá Hvaleyrartúngarði út að Skiphól, og er þröngur ós úr henni út í Óseyrartjörn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1900 – Óseyri og Hvaleyrarlón fjær og Flensborg fremst.

Hjá Óseyri er annar ós, sem flytur allt rennsli inn og út úr báðum tjörnunum. Fram undir aldamótin 1800 mun hér hafa verið aðeins um eina tjörn að ræða. Verður síðar vikið að því. Hvaleyrargrandi er einna breiðastur vestast, en það gerir, að spölkorn frá túngarðinum skagar lítið nes, Hjallanes, inn í Hvaleyrartjörn, og eykur hún nokkuð breidd hans. Nokkru innar er svo Skiphóll. Þar er Grandinn einnig allbreiður, því að í norður frá Skiphól gengur Eyrarsker út í f jörðinn. Í hléi við Eyrarsker sveigin Grandinn allmikið út, og heitir þar Kringla. Var þar lítil bunga, sem fé hafnaði á í smástreymi. Fyrir þennan sveig verður Óseyrartjörn allbreið vestast. Frá Kringlu sveigir Grandinn aftur inn að landinu og stefnir nú til landsuðuráttar allt inn á Háagranda gegnt Óseyri. Frá Eyrarskeri og Kringlu liggur Grandinn eins og vængur á grúfu. Veit barðið að tjörninni og er þar nær þverhnípt í sjó niður, þegar lægst er í tjörninni.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Frá barðbrúninni lækkar Grandinn aflíðandi út og niður í fjörðinn, en vængbroddurinn teygist inn austan við Háagranda gegnt Flensborg. Milli Háagranda og Óseyrar er ósinn eða Ósmynnið, og er þar mikill straumur á föllum, en þó sérstaklega á útfalli. Nöfnin Óseyri og Óseyrartjörn munu vera ung, varla eldri en frá síðasta fjórðungi 18. aldar. Óseyri finnst þá fyrst sem bæjarnafn í kirkjubókum. Lýsing sú af Grandanum, sem hér hefur verið gerð, er eins og hann var á fyrsta fjórðungi þessarar aldar, en síðan hafa miklar breytingar orðið.
Hvaleyrartjorn-223Um 1910 mátti heyra gamalt fólk segja frá því, að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi Hvaleyri náð allt út undir Helgasker, en landsig og landbrot af sjávargangi hafi eytt landinu, eins og nú mætti sjá. Hvað sem líður sannleiksgildi þessarar sagnar, er eitt víst: við Hafnarfjörð hefur orðið mikið landbrot, ekki sízt á Hvaleyri og Grandanum. Stafar þetta mikið af því, að bergtegund sú, sem mest mæðir á bæði sjór og loft, er svo gljúp og laus í sér, að hún molnar viðstöðulítið og eyðist. Á Grandanum hefur alla tíð verið laus jarðvegur.
Gísli bóndi Jónsson í Vesturkoti á Hvaleyri hefur veitt inn hefur eyðzt um allt að 10 metra. Eyðing þessi gat vel orðið jöfn, um 20 metrar á öld eða 200 til 220 metrar frá því á landnámsöld til þessa dags. Þetta er ekki lítið land, ef mælt er sunnan frá Gjögrum inn með Víkum, kringum Höfðann og inn eftir öllum Granda. Myndi okkur bregða í brún, ef land þetta allt væri risið úr sjó einhvern morguninn, þegar við risum úr rekkju.

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftannes 1903.

Eyðing þessi eða landbrot hefur ekki gerzt í snöggum stökkum. Heldur hefur það verið að gerast dag hvern, ár hvert og öld. Komið hefur þó fyrir, að stórar spildur hafa brotnað upp í aftaka veðrum. Landbrot þetta hefur valdið því, að jarðarafgjöld af Hvaleyri hafa farið lækkandi, eftir því sem aldir runnu.
Á nokkrum stöðum í annálum er getið um, að landbrot hafi orðið á Hvaleyri. Setbergsannáll, sem skráður er um og eftir aldamótin 1700, getur þess á tveimur stöðum. Eru þær frásagnir á þessa leið.
1231: „Hrundi hjáleiga ein til grunna syðra hjá Hvaleyri af sjávargangi og varð aldrei síðan byggð, því sjór braut tún.“
1365: „Kom mikið vestanveður með stórflóði um veturnætur syöra,“ og gjörði mikið landbrot á Álftanesi, svo tók af bæ einn, en fólk hélt lífi. Þar er nú eyðisker í sjónum fyrir framan (e. t. v. Valhús). „í sama veðri braut upp aðra jörð í sömu sveit, Hvaleyri, með sandfjúki og sjávargangi.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Fyrir þessum sögnum Setbergsannáls eru ekki sagðar staðgóðar heimildir, enda einn annála til frásagnar. Þó vekur orðalagið nokkurn grun um, að höfundurinn hafi stuðzt við skrifaðar heimildir, þar sem segir við árið 1231 syðra hjá Hvaleyri og 1365 syðra. Höfundur Setbergsannáls, Gísli bóndi Þorkelsson á Setbergi við Hafnarfjörð, hefði varla farið að orða þetta þannig, hefði hann ekki haft fyrir sér annála og tekið orðið syðra upp eftir þeim. Þó komið gæti til greina, að hann hafi einnig stuðzt við munnlega geymd, hefði ártölunum varla verið haldið svo vel þar til haga sem gert er í annálunum fornu. Heimildir Gísla, hafi þær verið skrif legar, virðast horfnar með öllu. En þeir, sem búið hafa við Hafnarf jörð og á Hvaleyri og horf t upp á þá eyðingu og landbrot og allar þær breytingar, sem orðið hafa á síðustu árum, draga varla í efa frásagnir um landbrot í Setbergsannál.
Hvaleyri-228Næstu heimild um sandfok og landbrot af sjávargangi hér við Hafnarfjörð er að finna í Jarðabókinni frá 1703. Þar segir svo um Hvaleyri: „Tún spillist af sandágangi.“ Og um landbrot annars staðar við f jörðinn má margt finna í sömu heimild. Til dæmis segir um Bakka í Garðahverfi: „Tún spillist stórlega af sjó, sem það brýtur og sand á ber… svo menn segja, að bærinn hafi þess vegna þrisvar frá sjó fluttur verið og sýnist túnið mestan part muni með tíðinni undir ganga.“ Bakki er nú kominn í eyði, og það, sem eftir er túnsins, hefur verið lagt undir annað býli í hverfinu, Pálshús. Þá er vert að geta þess, að svo virðist sem svipuð bergtegund sé undir jarðlaginu hjá Bakka og Dysjum og sú, sem eyðist hvað mest yfir í Hvaleyrarhöfða.

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

Melshöfði er nú eyðisker, en 1703 voru þar þrjár hjáleigur og verbúð. Stórbýlið Hlið á Álftanesi er nú komið í eyði. Sjór gengur stöðugt á túnið og eyðir því. Heit laug sem eitt sinn var í miðju túni, er nú frammi í sjó og kemur aðeins upp um blásandi fjöru. Svona mætti telja margt dæmið til viðbótar af Álftanesi og víðar við sunnanverðan Faxaflóa. Varla er að undra, þótt verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð hafi verið færður af Hvaleyrargranda vegna landbrots af sjávargangi 1677.
Svo víða er þess getið, að verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð hafi staðið á Hvaleyrargranda, að það verður ekki í efa dregið. Spurningin, sem svara verður, er því sú: hvar á Grandanum stóð verzlunarstaðurinn? Ekki er úr vegi að Hafnfirðingur, þótt leikmaður sé í söguvísindum, geri nokkra tilraun til að ráða þá gátu. Tveir staðir hafa verið tilnefndir á Grandanum: heima við túngarð og á Skiphól.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1720.

Þriðji verður tilnefndur, en það er Háigrandi, yzti tangi Hvaleyrargranda. Hverjar eru svo heimildir, og hvern þessara staða styðja þær bezt? Annálar koma hér aðallega til greina, þá skipti, sem gjörð voru 1775 á Hvaleyri, og svo uppdráttur gerður um svipað leyti.
Við 1413 segir í annál, að Ríkharður, enskur maður, hafi komið skipi sínu í Hafnarfjörð. Eftir þetta er oft getið um komu enskra skipa. Síðar taka þýzkir að venja komur sínar hingað, og verða þá allmiklar viðsjár með þeim og Englendingum. Þetta staðfesta bæði enskir og þýzkir annálar og fleiri heimildir. Virðist svo sem þýzkir hafi með tímanum hrakið enska héðan því nær alveg.
Setbergsannáll segir svo árið 1520: „Kaupstaðir danskra voru þá ekki víða byggðir, en víða voru þá búðir þeirra þýzku með því móti, að tjaldað var yfir tóttunum. Sér enn merki þeirra syðra, bæði kringum Hafnarfjörð og í Hraunum og annarstaðar.“ Eftir þetta sigldu þýzkir lengi upp Hafnarf jörð eða fram um 1600. 

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.

Sami annáll segir svo frá við árið 1663: „Drukknuðu á Hvaleyrargranda í Hafnarfirði 3 menn, Ásbjörn Jörinsson og sonur hans, Jörin; sá þriðji hét Jón, sonur hans, frá Bjarnastöðum í Selvogi. Vildu ríða yfir ósinn frá kaupstaðnum, sem þá var á grandanum, en ósinn var eigi reiður. Sá fjórði náðist með lífi, hélt sér við hestinn.“ Fitjaannáll segir svo frá bessu sama atviki: „25. júní drukknuðu á Hafnarfjarðar-granda hjá Hvaleyri, hvar gömlu kaupmannabúðirnar stóðu, þrír menn, einn þeirra Ásbjörn Jörinsson og synir hans tveir, áttu heima á Bjarnastöðum í Selvogi.“
Hafnarfjörður 1554Jarðabókin frá 1703 getur ekki með einu orði verzlunarstaðarins forna við Hafnarfjörð, að hann hafi staðið á Hvaleyrargranda. Hefði þó mátt búast við því, þar sem stutt var um liðið frá flutningi hans. 1775 fara fram skipti a túnum og lendum Hvaleyrar milli þeirra Þorsteins bónda Jónssonar og Poltz skipstjóra. Skiptin á Grandanum verða a 90 faðma spildu, og er henni skipt í þrjár 30 faðma skákir, sem þeir leiguliðarnir síðan skipta milli sín í 15 faðma skákir. Um sama leyti, 1775—1777, er uppi hér norskur sjóliðsforingi, Minor að nafni, er vann að kortagerð, strand- og djúpmælingum. Byrjaði hann við Garðskaga og komst vestur á Breiðaf jörð. Gerði Minor kort, sem við hann er kennt. Hann drukknaði í maí 1777 ásamt tveimur af matrósum sínum, og eru þeir jarðaðir í Garðakirkjugarði. Af uppdrætti Minors má margt merkilegt ráða:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Hans Erik Minor 1788.

Fyrst: Grandinn liggur miklum mun utar en síðar varð.
Annað: Grandinn er þakinn jarðlagi og gróinn allt út á Háagranda, en ekki malarhryggur, eins og síðar varð.
Þriðja: Hvaleyrargrandi er miklu breiðari þá en síðar varð.
Fjórða: Tjörnin er ein milli Grandans og suðurlandsins, ekki skipt í tvær, eins og síðar varð.
Fimmta: Tjörnin er 77 fet í ytri endann og grynnri innar og útfiri mikið.
Sjötta: Skiphóll er þá áfastur suðurlandinu, en ekki Grandanum, eins og síðar varð.
Sjöunda: Engar upplýsingar er af þessum uppdrætti að fá um forna verzlunarstaðinn, eru þó aðeins 100 ár liðin frá færslunni.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón 1954.

Í skiptaskjalinu frá 1775 er ekki minnzt á yzta hluta Grandans, Kringu eða Háagranda. 90 föðmunum er allvel lýst, þar sem sagt er, að tvær innri skákirnar séu bærilegar til slægna og undir fiskhjalla. Heimustu skákinni er þannig lýst, að hún sé lökust, bæði grýtt og gróðursnauð nema Hjallanes, sem bæði er gott til slægna og undir fiskhjalla. Í þessu ágæta skjali er hvergi neitt að finna, er bendi til þess, að á þessum hluta Grandans hafi verzlunarstaðurinn staðið að fornu. Hefði þó vafalaust enn mátt sjá tættur eða tóttarbrot, ef þar hefði verið verzlunarstaður. Ef verzlunarstaðurinn hefði verið þarna heimast á Grandanum, hefðu þeir Bjarnastaðafeðgar ekki farið að ríða ósinn óreiðan til þess að komast frá kaupstaðnuni.
Hvaða ályktanir verða þá dregnar af framanskráðu um verzlunarstaðinn við Hafnarfjörð?

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Að enskir munu fyrstir hafa siglt upp fjörðinn og þá vafalaust valið verzlunarstaðnum aðsetur. Að þýzkir hafi síðan tekið staðinn og haldið honum. Báðir þessir aðilar munu hafa valið stað, þar sem gott var athafnasvæði. Gott að afferma og ferma skip. Og þar sem viðsjár miklar voru með þeim, urðu þeir að velja staðinn þannig, að gott væri til varnar. Heim við tún var ekki gott athafnasvæði, þar sem skipin hafa þá orðið að liggja langt frá landi út í Tjörninni og því erfitt að afferma þau og ferma. Þar var frá náttúrunnar hendi ekki gott til varnar. Þessi staður er því með öllu útilokaður. Skiphóll kemur ekki heldur til greina. Hann var þá ekki áfastur Grandanum. Þá er eftir Háigrandi, og er það tvímælalaust álitlegasti staðurinn.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón 2023.

Í þann tíma, sem verzlunarstaðurinn var á Hvaleyrargranda, hefur Háigrandi verið eins konar höfði eða hólmi. Ekki var það eins dæmi, að verzlunarstað væri valinn staður á hólmum eða höfðum yzt við f jörðu og víkur. Þannig stóð Hólmskaupstaður við Reykjavík yzt á granda, en hann var færður um eða eftir 1700. Þar mátti fram til 1884 sjá nokkra grastó, eftir því sem Þórbergur Þórðarson segir í ritgerð um það efni í Landnámi Ingólfs. Á þessum hólma eða höfða, Háagranda, hefur auðveldlega mátt koma fyrir húsum, tóttum sem tjaldað var yfir.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón 2024.

Vel mátti fleyta allstórum skipum og leggja þeim við háan, þverhníptan bakkann og binda þau. Ferming og affermmg var því óvenju hagstæð. Af landi varð Háigrandi ekki sóttur nema frá einni hlið og þar auðvelt að verjast óvinum.

En það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, en ósinn var óreiður.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur 3. apríl 2009 til að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla og til að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu.

Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“
Sveinskot var á túninu ofan við Herjólfshöfn, Halldórskot skammt norðvestar og Vesturkot vestar. Golfklúbburinn Keilir fékk síðasta íbúðarhúsið að Vesturkoti undir golfskálann fyrst eftir að byrjað var á golfvellinum á Hvaleyri 1967. Efst í túninu stóð bærinn Hvaleyri. Hjartarkot var sunnan undir Hvaleyrarholtinu. Fleiri kot voru við höfðann, en erfitt er nú að greina staðsetningu þeirra vegna röskunar á svæðinu.“

Heimild:
-Saga, 3. árg. 1960-1963, 2. tbl., bls. 291-298.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón. Fornubúðir voru yst á grandanum að handan.

Kálffell

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Pétursborg

Pétursborg.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.