Surtla

Á Tilraunastöðinni á Keldum hangir allmerkilegur kindahaus upp á vegg. Þessi dökkbrúni tvíhorna haus tengist að mörgu leyti Herdísarvík. Augun kveða skýrt á um viðhorf skepnunnar til þeirra atburða er hún upplifði á síðustu mínútum ævinnar. Þau segja meira en fjölmörg orð um hana Surtlu. En hérna koma þó fáein þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Vegna mæðiveikinnar 1951-52 var ákveðið að Suðurland yrði fjárlaust eitt ár til að koma í veg fyrir smit við fjárskiptin. Hver kind varð því að nást af fjalli. Á Reykjanesskaga var hins vegar svört ær, Surtla, kennd við Herdísarvík. Neitaði hún með öllu að láta góma sig. Lamb hennar náðist fljótlega en eftir fjölmargar ferðir til að ná Surtlu í hús var hún enn á fjalli. Var þá sett fé til höfuðs Surtlu. Hópur manna leitaði og elti Herdísarvíkur-Surtlu laugardaginn 31. ágúst 1952. Hlupu þeir fram og aftur um Herdísarvíkurhraun í ævintýralegum eltingaleik við Surtlu á sjöttu klukkustund, og leikurinn hefði getað staðið lengur. Jón Kristgeirsson hefur lýst síðustu augnablikum Herdísarvíkur-Surtlu í Lesbók Morgunblaðsins:

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

„Þetta var væn kind og falleg. Andlitið mikið og frítt og sérstaklega gáfulegt.
Þegar hér var komið sögu, myndaðist allt í einu nýtt og óvænt viðhorf í málinu. Þá bar að fjóra menn, vopnaða byssum, neðan frá undirlendinu, þrjá úr Reykjavík og einn úr Sandgerði. Svall þeim veiðibræði mjög í huga, er þeir sáu ána. Einn var svo óðfús að skjóta, að hann gáði þess ekki, að þegar hann miðaði á ána, þá hafði hann Hákon líka í sigti.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Hallgrímur benti honum á þetta og bað hann blessaðan að skjóta ekki bróður sinn. Lét þá skyttan byssuna falla. Hákon ávarpaði aðkomumenn og bað þess að ærin væri ekki skotin. En orð hans báru sama árangur og orð Snorra forðum, er hann sagði í Reykholti: „Eigi skal höggva.“ Skotin gullu við hvert af öðru. Lokst tókst Sigurgeiri Stefánssyni að fella hana í þriðja skoti. Var það, sem betur fór, eina skotið, sem hæfði.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Alveg eins og Snorri, mest skáld Íslands um langan aldur, féll fyrir öxinni, þannig lá nú svarta sauðkindin, sem frægust hefur orðið allra íslenzkra sauðkinda, fallin fyrir kúlunni. Er það síðasti fulltrúi þess kynstofns á Suðvesturlandi, sem um aldaraðir var meginbjargvættur fólksins, og veitti því fæði, klæði, skæði, akur, fénað og öll gæði. Galt hún sín gjöld á sama hátt og ættingjar hennar og félagar gjörðu. Lét líf sitt til meintrar velfarnaðar mannkindinni.
Ég harma það, að skapadægur hennar urðu þessa stund og mér þykir miður, að ég skyldi verða þátttakandi í þessum örlögum hennar, enda þótt það hafi orðið án vilja míns.
Við Hákon lögðum nú af stað til hraunsins að leita fata okkar. Reyndist það torsótt, löng leið og seinfarin, þegar allur spenningur var horfinn. Myrkur datt nú óðum á. — Hraunið tók á sig allskonar undramyndir, sem við könnuðumst ekki við.“
Surtla var veginn á Brúnunum austan við Lyngskjöld.

Surtla

Surtla.

Eftir að fyrsta fréttin um Surtlu, „Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag“, birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. sept. varð hún tilefni til nokkurrar umfjöllunar. Þann 6. sept. skrifaði Kristín Sigfúsdóttir frá Syðri-Völlum um „Surtlu frá Herdísarvík“ og Sigurgeir Stefánsson endurtekur fyrri skrif Jóns Kristgeirssonar, kennara, í Morgunblaðinu 11. sept. og vitnar þá m.a. í frásagnir í útvarpi og skrif Jóns í Tímann um síðasta dag Surtlu. Þann 3. sept. hafði Ólafur Þorvaldsson skrifað í Morgunblaðið, bls. 6, þar sem eftirfarandi fyrirsögn var: „Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Eftirmæli Herdísarvíkur-Sturlu“.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Í skrifum sínum 3. sept. segir Ólafur Sturlu hafa verið venjulega á, sem enginn hafði tekið eftir fyrr en hún varð sá einstæðingur er eftirsóttur varð – með næga ofsóknarmenn, sem gjarnan hefðu mátt vera færri. Ólafur hafði furðar sig á öllum þeim sögum, sem gengið höfðu um Sturlu frá því hún varð eftirlegukind á Reykjanesskaganum sem og eldtingarleik þeim er fóthvötustu smalar þar um kring höfðu átt við þessa undrakind. Og það var ekki fyrr en fé var sett til höfuðs henni að hún hún var felld samdægurs. Surtla hafi orðið svo dýr að fáar kindur hafi dýrari orðið í landinu – jafnvel óþarflega dýr. Og eitthvað hafi ferðalögin í kringum Surtlu kostað. „Já, það var orðið dýrt að smala í Herdísarvík“. Og nú er „hinn þúsund ára gamli fjárstofn á Reykjanesskagagnum fallinn til síðustu kindar“.

Mosaskarð

Í Mosaskarði á Herdísarvíkurfjalli.

Í fréttinni í MBL 3. sept., bls. 8, segir frá falli svörtu ærinnar á Reykjanesskaga eftir að til höfuðs henni höfðu verið lagðar tvö þúsund krónur: „Einhver harðgerasta og fótfráasta saukind, sem almenningur þessa lands hefur heyrt getið um var felld s.l. laugardag. Um eins árs skeið hefur Surtla, eins og hún var nefnd, verið eina sauðkindin á öllum Reykjanesskaga og hafði hún gert yfirmönnum fjárskiptanna svo heitt í hamsi, að lagðar höfðu verið 2000 krónur til höfuðs henni, lifandi eða dauðri…
Eftir að fjárhæðin hafði verið lögð til höfuðs Surtlu, fjölgaði þeim, er að henni leituðu. Eftir hádegi s.l. laugardag fóru m.a. fjórir menn, bræðurnir Hákon, Hallgrímur og Jón Kristgeirssynir, sem allir eru þaulvanir fjármenn, ásamt Ólafi Ólafssyni brunaverði og hugðust þeir reyna að ná Surtlu á lífi“. Síðan er frásögn þeirra félaga rakin líkt og að framan greinir. Surtla hljóp að lokum um snarbrattar Brúnirnar og var að kasta mæðinni þegar „Í kíki okkar sáum við á Surtlu, hélt Kristinn áfram, inni á milli kletta. Við Sigurgeir fórum þá upp á klettana. Ég var að vestanverðu við Surtlu, Sigurgeir að austanverðu. Er við höfðum komið okkur fyrir skaut Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Hún tók á rás vestur eftir, sneri við austur á bóginn og lenti í fang Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti – Þannig endaði æfi þessarar harðgerðu svörtu saukindar. Hún var í þremur reifum“.

Herdísarvík

Mynd af Surtu greypt í Herdísarvíkurfjall.

Um „Surtlumálið“ sagði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík m.a. í viðtali við Ferlir (sjá Lýsingar; Stakkavík – með Eggerti Kristmundssyni), en hann var einn þeirra er ólst upp með henni á svæðinu: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Horfa þarf á framangreint með augum þess „mannlega“; veiðimanninum er bráðin eftirsóknarverð – og er þá jafnan ekki spurt um tilgang.

Heimildir m.a.:
-MBl. 3. sept. bls. 6 – Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Ólafur Þorvaldsson.
-MBl. 3. sept. 1952, bls. 8 – Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag – frétt.
-Mbl. 6. sept. 1952 – Surtla frá Herdísarvík – Kristín Sigfúsdóttir.
-Mbl. 11. sept. 1952 – Herdísarvíkur-Surtla – Sigurgeir Stefánsson.
-Björn Hróarsson – „tilkynning“.

Surtla

Surtla á Keldum.

Dalssel

Gengið var til norðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli, framhjá Kastinu og inn að Nauthólum í Fagradal. Á sumum landakortum er Sandakravegurinn dreginn þessa leið og áfram til norðvesturs að Skógfellaveginum ofan við Stóru-Aragjá. Áður en haldið var áfram um Aura og Mosadal var ætlunin að huga að mögulegum Brúnavegi úr Fagradal áleiðis inn á Brúnir ofan við Kálffellsheiði. Ef vel gengi var ætlunin að koma við í Oddshelli.

Göngusvæðið

Að lokum var svo markmiðið að skoða kaflann úr Fagradal til vesturs að Stóru-Aragjá m.t.t. þess hvort þarna hafi fyrrum verið sú þjóðleið er ætlað hefur verið. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum frá einu af síðustu jökulskeiðum ísaldar. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Hraunhetta hylur hæsta hluta fjallsins í norðvestri (KristjánSæmundsson og Sigmundur Einarsson, 1980) en yngri hraun frá nútíma liggja umhverfis fjallið.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).

Kastið

Kastið.

Um klukkustundar gangur er með fjallinu inn í Fagradal. Á leiðinni er gengið framhjá Sandhól, en norður með honum liggur grópuð þjóðleið yfir á Skógfellastíginn milli Skógfellanna. Þessi leið hefur gjarnan verið nefnd Sandakravegur. Kastið stendur sem fell úr úr Fagradalsfjalli. Norðan hennar er Fremstidalur, þá Miðdalur og nyrst Innstidalur. Milli þeirra síðarnefndu stendur Sandhóll-innri úti í hrauninu. Þegar komið er inn í Fagradal eru Nauthólar og Nauthólaflatir fremst. Ofan við þær er Rauðgil.  Norðaustar eru þrír hólar og er Dalssel norðan í þeim. Tóftirnar eru sunnanverðum lækjarbakka. Enn má sjá þar gróna húsatóft, kví og stekk vestast.

Sauðaskjól í Kálffelli

Þá var haldið inn á Brúnir. Varða er syðst á þeim, en síðan taka við fokmelar og grjótþýfi. Enga greinilega götu er þar að sjá. Hemphóll sést vel í norðri, en ekki var að merkja götumynd áleiðis að honum.
Haldið var niður að Kálffelli og m.a. litið á sauðaskjól og íveruhelli. Landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Grindavíkur liggja um Kálffellið. Í lýsingu á merkjum Vatnsleysustrandarhrepps gerð af Gunnari á Kálfatjörn 1981 kemur fram að suðausturmörk og suðurmörk hans voru eftirfarandi: „Úr Markhelluhól liggja mörkin til útsuðurs sjónhending um Hörðuvallakofa og milli Dyngna, þ.e. skarðið milli Stóru-Dyngju og Grænudyngju, síðan sömu stefnu upp og suður Vesturháls um Grænavatnseggjar og Selsvallafjall í móbergsfell nær vesturbrún hálsins, upp af Þrengslum og Hraunsseli. Fell þetta er ýmist nefnt Framfell eða Vesturfell. Þaðan liggja mörkin til útnorðurs í Hraunsvatnsfell og þaðan í Vatnskatla á Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla- Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna en þaðan til sjávar yst í Grynnri-Skoru á Vogastapa“.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Oddshellir er í Brunnhól. Opið er eins og brunnop, en auk þess er hann opinn í toppinn. Um tveir metrar eru niður á gólfið. Talið er að Oddur í Grænuborg hafi átt afdrep í hellinum og af því mun nafngiftin vera dreginn. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað. Sauðhellarnir eru skammt norðan við Oddshelli. Í gígnum eru leifar af hlöðnu gerði svo og fyrirhleðsla skammt norðar. Þótt Kállfellið virðist standa hátt í heiðinni er hæð þess ekki nema 87 m.y.s.
Haldið var til suðurs niður á Aura og þeim fylgt að austurgjárbrún Mosadals. Engin ummerki eftir götu voru þar með gjárbrúninni, en varða á hól ofan hennar. Engin ummerki voru heldur á gjárbarminum (Mosadalsgjá) að vestanverðu. Ef gata hefur legið um Fagradal og Aura niður á Skógfellastíg ofan Snorrastaðatjarna þá hefur sú gata legið mun austar, eða við enda gjánna, með stefnu í suðvestanvert Kálffell, við rætur Kálffellsheiðar.
Snorrastaðatjarnir í síðdegissólinniListaverkaísmyndanir á pollum, sígrænn einir, sólbakaður mosi og kyrrð vetrardægrar í logninu voru sem viðauki á annars ágæta gönguferð. Að vísu voru þátttakendur orðnir lúnir til fótanna að henni lokinni, en upplýsing hugans er aflað var á leiðinni vó verulega á móti þreytunni og mun lifa áfram að henni úrsérgenginni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Leiðin er um 18 km.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Fornasel

Gengið var um Brunntorfur að Gjáseli í Almenningum. Þangað er um 20 mín. gangur eftir slóða að skógræktinni sunnan Rallycross-brautarinnar við Krýsvíkurveginn og áfram í gegnum gróið hraun sunnan við Hrauntungur.

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Selið er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól, sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er um að ræða fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Stígur liggur upp í það frá bænum, framhjá því og áfram upp í Fornasel, sem er þarna ofar og austar. Vörður eru við stíginn í gegnum Gjárnar og er heil varða á fallegum stað skammt neðan við selið. Skammt vestan við Gjásel eru tveir skúta með hleðslum fyrir, Kápuskjól og Kápuhellir. Á milli þeirra liggja landamerki Þorbjarnastaða og Straums, yfir Jónshöfða.

Stígnum var fylgt upp í Fornasel. Þangað er u.þ.b. 15 mín. gangur. Vel gróið er í kringum Fornasel, stekkur sunnan við hólinn, sem það stendur á og stórt og vatnsmikið vatnsból svo til í miðju tóftanna.

Fornasel

Fornasel.

Þarna eru tóftir tveggja rýmis húsa, auk þess sem stök tóft stendur skammt sunnar. Það mun hafa verið eldhúsið. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.
Í bakaleiðinni var gengið í gegnum hinn mikla furu- og greniskóg í Brunntorfum og komið við í Þorbjarnarstaðaborginni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdís og Elisabet

Vinaskógur er skógarlundur í landi Kárastaða í Þingvallasveit, skammt frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Til Vinaskógar var stofnað í kjölfar átaks í landgræðslu árið 1989. Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands var verndari átaksins og átti jafnframt hugmyndina að Vinaskógi. Að ósk Vigdísar var skóginum fundinn staður þar sem erlendir þjóðhöfðingjar sem heimsækja Ísland gætu komið og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar og var staðsetning Vinaskógar valin með tillitil til þess að hinir erlendu gestir gætu komið þar við á leið sinni til Þingvalla en heimsókn þangað er fastur liður í opinberum heimsóknum erlendra þjóðhöfðingja til Íslands.

Fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem gróðursetti í Vinaskógi var Elísabet II Bretadrottning, þann 26. júlí 1990. Í kjölfarið hefur fjöldi erlendra þjóðhöfðingja gróðursett í Vinaskógi, t.d. allir þjóðhöfðingjar Norðurlanda á Lýðveldishátíðinni árið 1994. Einnig hafa ýmsir aðrir þekktir einstaklingar gróðursett í Vinaskógi og má þar nefna Yoko Ono árið 1991.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Ilmbirki og reyniviður eru einu trjátegundirnar sem gróðursettar hafa verið í Vinaskógi en aðrar tegundir hafa breiðst þar út af sjálfsdáðum.

Fyrstur erlendra þjóðhöfðingja sem heimsótti Vinaskóg og gróðursetti þar tré var, sem fyrr sagði, Elísabet önnur Englandsdrottning, þann 26. júní 1990. Síðan hafa margir þjóðhöfðingjar, sem og aðrar samkomur, gróðursett þar tré með eða án forseta Íslands en á þann hátt hefur Vinaskógur öðlast mikla sérstöðu.

Vinaskógur er á vesturmörkum jarðarinnar Kárastaða í Þingvallasveit, ekki lang frá hinum helga stað Þingvöllum sem tekin var á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004.

​Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu skógarins.

Vinaskógur

Vinaskógur – merki á stöpli.

​Vinaskógur er í raun smár, ungur skógarlundur og um hann liggur greiðfær stígur. Áhugavert er að skoða hvaða þjóðahöfðingjar og aðrar samkomur hafa heimsótt skóginn, en listi yfir þá er að finna á bautasteinum á staðnum.

​Einvörðu hefur verið gróðursett ilmbirki og reyniviður á svæðinu. Gulvíðir og loðvíðir hafa svo breiðst út af sjálfsdáðum.

Til Vinaskógur var stofnað í tilefni Landgræðsluskógaátaksins en þáverandi forseti frú Vigdís Finnbogadóttir var verndari þess. Að hennar ósk var fundinn staður þar sem forsetinn gæti komið með erlenda þjóðhöfðingja og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar.
Síðan hefur Forseti Íslands verið verndari Vinaskógar.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson var hvatamaður að því að aðkoma og aðstaða í Vinaskógi var endurbætt á árunum 2002-2004.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Vinask%C3%B3gur
-https://www.skogargatt.is/vinaskogur

Vinaskógur

Vinaskógur – stöplar með skiltum þeirra sporgöngumanna (-kvenna) Elísabetar árið 1990.

Haukar

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, tók saman upplýsingar um minnisvarða í Hafnarfirði. Þar kemur eftirfarandi fram, auk annars:

Sörli

Sörli

Sörli.

Hestamannafélagið Sörli var stofnað 7. febrúar 1944. Félagsaðstaða og reiðhöll Sörla er að Sörlastöðum við Sörlaskeið 13a í Hafnarfirði. Minnismerki um stofnuna er á hestasteini er norðan við reiðhöllina.

Vatnshlíðarlundur –
Hjálmar R. Bárðarson

Vatnshlíð

Minnismerki – Vatnshlíð.

Í Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns er minningarlundur. Lundurinn er til minningar um hjónin Hjálmar Rögnvald Bárðarson siglingamálastjóra og Else Sörensen Bárðarson.
„Þau gáfu hluta eigna sinna til landgræðsluskógræktar, þar sem áður var lítt gróið bersvæði.
Með virðingu og þökk,
Landgræðslusjóður 2012.“

Lundurinn er í hlíðinni vestan Hvaleyrarvatns.

Mirai no Mori – Klifsholti – Íslensk-japanka félagið

Klifsholt

 Mira No Mori.

Árið 2001 hófu félagar í Íslensk-Japanska félaginu gróðursetningu trjáa í landnemaspildu í Klifsholti, norðan við Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Skógurinn ber heitið Mirai-no-mori, þ.e. skógur framtíðar. Tíðkast hefur ár hvert að fara að reitnum og gróðursetja tré.

Reiturinn er við reiðstíg er liggur frá Sléttuhlíð að Búrfellsgjá, norðan Smalaskálaholts. Í reitnum er tré-/járnsúla með áletrunni Mirai-no-mori (未来の森).

Trjálundur Alþjóðasamataka Lions

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Alþjóðasamtaka Lions er ofan/austan Sléttuhlíðar, skammt frá Kaldárselsvegi. Við reitinn er steinstöpull. Á honum er skjöldur með áletrunni:
„Fundur Alþjóðastjórnar Lions haldinn á Íslandi 2019 – Guðrún Yngvarsdóttir, alþjóðaforseti Lions 2018-2019“.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar er rétt norðvestan við Smalaskálahvamm norðan Kaldárselsvegar. Í honum er stuðlabergssteinn. Á hann er letrað: „Stofnaður 14. apríl 1956. Til minningar um láta félaga“.

Trjálundur Rotary

Hafnarfjörður

Rotary.

Trjálundur Rótarý er skammt norðan trjálunds Lions, norðan Smalaskálahvamms. Við lundinn er bekkur. Á honum er m.a. skjöldur með áletrun: „Rotary – Til minningar um Rótarýfélaga.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2002.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2000.
Jón Vignir karlsson f. 1946 – d. 2017.“

Guðlaug Lára Björgvinsdóttir (1946-2021)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Guðlaug B.

Við gangstíg gegnt Eskivöllum 21 er bekkur, gefinn íbúum Hafnarfjarðar af Braga Brynjólfssyni. Á bekknum er skilti: „Til minningar um Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur (Lóa), 14.04.1946-11.01.2021“.

Bragi var innfæddur Hafnfirðingur, fæddist, að eigin sögn, „hálfur inni í Hellisgerði“. Staðreyndin er sú að foreldrar Braga bjuggu í húsi er skagaði fyrrum inn í Hellisgerði, en sjálfur fæddist drengurinn á St. Jósepsspítala, en dvaldi í uppvaxtarárunum í viðbyggingu nefnds húss.
Bragi giftist Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur árið 1968 og hófu þau búskap í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu alla tíð, lengi á Hjallabraut 92 og síðustu árin á Eskivöllum 21a.

Bragi Brynjólfsson lést 12. mars 2024. Nauðsynlegt er að bæta við minningarskilti um eiginmanninn Braga á bekkinn þann at’arna.

Hjartarsteinn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Björgvin Halldórsson.

Hjartasteinn til heiðurs tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni var afhjúpaður framan Bæjarbíós við Strandgötu 6 í Hafnarfirði 2018. Um var að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar Hjarta Hafnarfjarðar. Hátíðin er haldin í Bæjarbíói.

Hjartasteinn til heiðurs leikaranum, söngvaranum, tónskáldinu, skemmtikraftinum og Hafnfirðingnum Þórhalli Sigurðssyni, best þekktum sem Ladda, var lagður fyrir framan Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar 2022. Hjartasteininn hlaut Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært öllum aldurshópum um árabil.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Þórhallur Sigurðsson.

Hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur var lagður í hjarta Hafnarfjarðar fyrir framan Bæjarbíó 30. apríl 2022. Hugmynd að fallegum virðingarvotti og minnisvarða kviknaði fyrst í samtali við höfundinn sjálfan í kjölfar þess að hún var heiðruð í Hafnarfirði fyrir ritverk hennar og framlag til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna 2018. Guðrúnu og fjölskyldu leist vel á hugmyndina og nú hefur hjartasteinn til minningar um einn ástsælasta og vinsælasta rithöfund okkar tíma verið afhjúpaður. Guðrún kvaddi þann 23. mars.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Guðrún Helgadóttir.

Eins og áður sagði er Magnús sá fjórði sem nýtur þess heiðurs að hljóta Hjartasteininn í Hjarta Hafnarfjarðar. Fyrir eru hjartasteinar til heiðurs Björgvini Halldórssyni, tónlistarmanni og bæjarlistarmanni Hafnarfjarðar, Þórhalli Sigurðssyni, Ladda leikara og tónlistarmanni, og þá er hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar, sem lést 23. mars 2022.

Tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson er fjórði listamaðurinn sem fær Hjartastein sér til heiðurs við Bæjarbíó í Hafnarfirði.

HMB

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Þann 12.11.2015 spann eins hreyfils kennsluflugvél af gerðinni Tecnam P2002JF til jarðar í Hafnarfjarðarhrauni með þeim afleiðingum að báðir flugmennirnir létust. Þeir voru báðir flugkennarar við Flugskóla Íslands.

Mennirnir hétu Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson. Hjalti Már var búsettur í Hafnarfirði og Haukur Freyr var búsettur í Garðabæ.

Hjalti Már og Haukur Freyr störfuðu sem flugkennarar hjá Flugskóla Íslands.

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Haukur fæddist 17. júlí 1990. Hjalti Már fæddist 9. febrúar 1980.

Skömmu eftir slysið komu ættingjar Hjalta fyrir hvítmálum trékrossi á slyssstaðnum. Á krossinum var spjald með áletruninni „HMB“.

Minnismerkið er staðsett skammt vestan Neðri Straumsselshella ofan Straumsels, í svonefndum Almenningi.

Minningarbekkur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Reykjavíkurvegur.

Við göngustíg vestan Reykjavíkurvegar skammt sunnan Hjallabrautar er bekkur. Á bekknum er skjöldur: „Minningarbekkur – Um hjónin Stefán G. Sigurðsson, kaupmann, og Laufeyju Jakobsdóttur. Brúkum bekki í Hafnarfirði. Öldungaráð Hafnarfjarðar, Félag sjúkraþjálfara, Félag eldri borgara í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbær“.
Fleiri „Minningarbekkir“ eru víðs vegar í Hafnarfirði.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjókurbú Hafnarfjarðar.

Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1934. Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjólkurbú Hanarfjarðar.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.

Minnismerkið, þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli, stendur nú þar sem Mjólkurvinnslustöðin, Lækjargata 22, stóð á suðausturhorni Öldugötu og Lækjargötu. Á skilti undir brúsunum stendur: „Hér stóð Mjólkurbú Hafnarfjarðar, stofnað 17. ágúst 1934“.

Örn Arnarson (1884 – 1942)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Nyrst við Austurgötu stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.

Í Þjóðviljanum 9. ágúst 1973 mátti lesa, bls. 12: „Minnismerki um Örn Arnarson – Nýlega hefur verið komið upp minnismerki um Örn Arnarson í Hafnarfirði, en þar bjó hann síðari hluta ævi sinnar, lengst af í Hótel Hafnarfirði. Stóð það þar sem minnismerkið er nú“.

Í gamla hússtæðinu er minnismerkið; Ankeri umlukið lábörðu grjóti umleikis. Undir ankerinu er láréttur stuðlabergssteinn. Á hann ofanverðan er letrað: „Örn Arnarson átti heima hér“. Á norðurhliðina er letrað: „Með hendur á hlunni og orfi, vann hugurinn ríki og lönd“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Örn Arnarson (dulnefni Magnúsar Stefánssonar) (12. desember 1884 – 25. júlí 1942) var íslenskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir ljóðabók sína Illgresi sem kom út árið 1924. Þekktustu ljóð hans eru til dæmis: Þá var ég ungur, Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en það ljóð varð síðan innblásturinn að nafni Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesströnd í Norður-Múlasýslu. Þar bjuggu foreldrar hans Ingveldur Sigurðardóttir og Stefán Árnason.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarsson.

Á harðindaárunum eftir 1880 svarf svo að þeim að þau brugðu búi vorið 1887 og réðust vinnuhjú að Miðfirði.

 Magnús stundaði nám við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1907 – 08, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi. Kennaraprófi lauk hann frá Kennaraskólanum þar sem hann var við nám veturinn 1908 – 09.

Þegar Magnús lét af sýsluskriftunum, fluttist hann til Hafnarfjarðar og átti þar heima lengstum síðan. Fékkst hann þá einkum við afgreiðslu og skrifstofustörf, en hvarf oft að einhvers konar útivinnu á sumrin eins og til dæmis síldar- og vegavinnu. Hann kom nokkuð að sögu íþróttamála í Hafnarfirði og var m.a. formaður Knattspyrnufélagsins Framtíðarinnar.

Hrafna-Flóki

Á skilti við „Flókavörðuna“ ofan við Hvaleyri má lesa eftirfarandi:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hansakaupmenn í Hafnarfirði

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Minnismerki var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar.
Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Dr. Johannes Rau, forseti Þýskalands, flutti stutt ávarp við afhjúpunina.

Vinabærinn Cuxhaven

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – afhjúpun Cuxhaven-minnismerkisins.

25. nóvember 2013 var afhjúpað minnismerki um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven í Þýskalandi. Á upplýsingaskilti við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
“Borgin Cuxhaven í Þýskalandi og Hafnarfjörður stofnuðu formlega til vinarbæjarsamstarfs á haustmánuðum 1988 og hefur það vinabæjarsamband verið mjög virkt á margan hátt æ síðan.

Söguskiltið er staðsett við „Kugelbake“ á strandstígnum við höfnina en í tilefni af 25 ára afmæli vinabæjarsamstarfsins árið 2013.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – merki Hafnarfjarðar og Cuxhaven.

Þýska borgin gaf Hafnarfjarðarbæ fjögurra metra háa eftirgerð af 30 metra háu siglingarmerki sem reist var árið 1703 við ströndina nyrst í Neðra Saxlandi þar sem áin Saxelfur (Elbe) rennur í Norðursjóinn.

Kugelbake er borgarmerki Cuxhaven líkt og vitinn er merki Hafnarfjarðar og tilvalið þótti að staðsetja söguskiltið við siglingamerkið til þess að útskýra betur tilurð þess.

Sem dæmi um frekari afrakstur vinabæjarsamstarfsins má nefna að árið 1993 var vígt nýtt torg í miðborg Cuxhaven sem hlaut nafnið „Hafnarfjördurplatz“ og á Óseyrarsvæðinu í Hafnarfirði fékk við sama tækifæri ný gata nafnið „Cuxhavengata“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki og söguskilti.

Strax við stofnun vinabæjarsamstarfsins árið 1988 var auk þess tekin ákvörðun um að stofna til svokallaðs „Cuxhavenlundar“ við Hvaleyrarvatn og hefur sú hefð skapast að þegar sendinefndir frá Cuxhaven koma hingað í heimsóknir gróðursetji fulltrúar þeirra hér tré þegar færi gefst enda hefur lundurinn stækkað mikið og gróið upp á undanförnum árum.

Í tilkynningu frá Hafnarfjaraðrbæ segir að auk þessa hafi samstarfið verið mikið og gefandi í æskulýðs- og íþróttamálum, mennta- og menningarmálum, á stjórnmálasviðinu og að ógleymdu viðskiptalífinu.
Cuxhavenborg hefur árlega fært Hafnfirðingum að gjöf jólatré sem lýst hefur upp á aðventunni, fyrst á suðurhöfninni en hin síðari ár í Jólaþorpinu á Thorsplani.”

Minnismerkið er vestan Strandgögu gegnt Dröfn.

Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 

Hvaleyri

Hafnarfjörður – Bein þriggja manna; minnismerki.

Árið 1922 tók Magnús bóndi Benjamínsson, sem þar á heima í Hjörtskoti á Hvaleyri, höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði þar úr bakkanum og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó. Haustið 1924 varð hann var fleiri beina þar yzt í bakkanum og sumra í fjörunni. Gróf hann þá dálítið til og tók enn úr bakkanum 2 höfuðkúpur og mörg bein önnur, úr tveim mönnum. Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, var gert við vart og fór jeg að skoða beinin.
Höfuðkúpurnar voru heillegar og mátti sjá af tönnunum, að önnur væri af öldruðum manni, en hin af miðaldra. Bein þessi munu, að hans áliti, hafa verið frá síðari öldum og þótti honum ekki ástæða til að varðveita þau í Þjóðminjasafninu. Þau voru talin sennilega kristinna manna leifar og voru flutt í kirkjugarð Hafnarfjarðar. Kirkjugarður var á Hvaleyri, í einungis hundrað metra fjarlægð frá fundarstaðnum.

Minningarplatti er suðaustast við jaðar Hvaleyrartúns þar sem beinin fundust á honum stendur: „Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926“.

Altari sjómannsins

Altari sjómannsins

Minnismerki – Altari sjómannsins við Víðistaðakirkju.

Til minningar um horfna sjómenn.

Minnisvarðann gerði Erlingur Jónsson árið 1993 og stendur hann framan við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.

Minning um drukknaða fiskimenn
Við Kaplakrika Hafnarfjörður
Minnisvarði í Kaplakrika í Hafnarfirði.
In memoriam – Minning um drukknaða fiskimenn.

Eiríkur Jónsson, f. 2.6.1857, d. 18.4.1922 og synir hans
Benjamín Franklín, f. 12.3.1892, d. 28.2.1910
Bjarni, f. 24.9.1896, d. 8.2.1925
Jón Ágúst, f. 17.8.1902, d. 18.4.1922

Kaplakriki

Minnismerki – Kaplakriki.

Drottinn drangan blessi
góðir menn hann verndi.

Reistur af Guðbjörgu Jónsdóttur og Birni Eiríkssyni, Sjónarhóli, Hafnarfirði 2.6.1957.
Stendur við íþróttahúsið í Kaplakrika, Hafnarfirði.
Minnisvarðinn var endurgerður árið 2016.
Platan er samhljóða því sem stendur á dranganum og er fest á vegginn aftan við hann.

Sigling
Minnisvarði um sjómenn

Tæpum tuttugu árum eftir að hafin var fjársöfnun til að reisa „minnismerki um drukknaða hafnfirzka sjómenn“ var „heiðursmerki sjómanna“ vígt við Strandgötu í Hafnarfirði. Verkið heitir „Sigling“ og er eftir Þorkel G. Guðmundsson, auk nafns verks og höfundar er áletrunin: „Heiðursvarði hafnfirzkra sjómanna. Reistur 1974 af Hafnarfjarðarbæ.“ Í stað þagnar sem oft fylgir afhjúpun minnismerkja um samfélagsleg áföll var hrópað ferfalt húrra við afhjúpunina, fyrir hafnfirskri sjómannastétt.

Minnisvarðinn stendur framan við Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði.

Knattspyrnufélagið Haukar

„Stofnfundur Knattspyrnufélagsins Haukar
(endurritun úr fundargerðarbók.)

1. fundur.
Sunnudaginn 12. apríl 1931 komu nokkrir drengir saman í húsi KFUM til þess að stofna íþróttafélag er eigi að standa á grunndvelli KFUM.

Haukar

Minnismerki – Haukahúsið.

Þeir sem eru stofnendur félagsins eru þessir:
Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Nikolaj Grímsson, og Geir Jóelsson.

Á fundi gerðist sem hér segir:
Sigurgeir Guðmundsson sagði frá för sem hann og tveir aðrir drengir fóru til þess að tala við Jóel Ingvarsson um stofnun þessa félags.
Í stjórn félagsins voru þessir kosnir. Karl Auðunsson formaður, Sigurgeir Guðmundsson gjaldkeri. Hallgrímur Steingrímsson ritari.
Varamenn voru kosnir Bjarni Sveinsson varaformaður en Nikolaj Grímsson vararitari.
Fleira var ekki lagt fyrir fundinn og honum því slitið.
Hallgrímur Steingrímsson ritari.“                                                                                                                                                                                                                              Minnismerkið er við inngang húss nr. 15 við Hverfisgötu, fyrrum húss KFUM og K.

Víðistaðir

Víðistaðir

Minnismerki – Víðistaðir.

Til minningar um
Bjarna Erlendsson, 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur, 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka.
Minnisvarðinn sendur í Víðistaðatúni í Hafnarfirði.

Hellisgerði
Bjarni Sivertsen (1763-1833)

Faðir Hafnarfjarðar. Brjóstmyndin gerð af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara.
Minnisvarðinn stendur í Hellisgerði.

Friðrik Bjarnason (1880-1962)
Fæddist á Stokkseyri 27. nóvember 1908.
Fluttist til Hafnarfjarðar árið 1908.

Friðrik Bjarnason

Minnismerki – Friðrik Bjarnason.

Organisti við Hafnarfjarðarkirkju í 36 ár.
Kennari, tónskáld og kórstjóri.
Stofnaði Karlakórinn Þresti árið 1912.
Hann lést 28. maí 1962.

Karlakórinn Þrestir gekkst fyrir afhjúpun minnismerkisins í tilefni af 100 ára afmæli kórsins 19. febrúar 2012.
Verkefnið var styrkt af Hafnarfjarðarbæ.
Minnisvarðinn stendur við Hafnarfjarðarkirkju

Guðmundur Einarsson (1883-1968)
Frumkvöðull að vernd og ræktun Hellisgerðis 1923.

Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem er á klettavegg við Fjarðarhelli í Hellisgerði.

Brjóstmyndin var afhjúpuð 5. október 1963.

Guðmundur Einarsson

Minnismerki – Guðmundur Einarsson.

Í tilefni af fjörutíu ára afmæli Hellisgerðis var 5. október 1963 afhjúpaður minnisvarði af Guðmundi Einarssyni (1883-1968), trésmíðameistara og framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs, en hann átti frumkvæðið að stofnun garðsins, ræktun hans og vernd. Þá hélt Guðmundur framsögu á fundi í Málfundafélagi Magna 15. mars 1922, þar sem hann benti á hvílík áhrif það gæti haft til bóta fyrir bæinn ef félagið kæmi upp blóma- og skemmtigarði þar sem sérkenni landsins, hraunborgirnar og gjárnar, fengju að halda sér og njóta sín óspillt, jafnframt því að hlúa að gróðrinum. Fullyrti Guðmundur að slíkur garður myndi vera félaginu til sóma og bænum til prýði. Árið eftir hófust fyrstu framkvæmdir í garðinum en myndin af Guðmundi er felld inn í hraunvegg, rétt við hellinn í gerðinu.

Hellisgerði

Minnismerki – Bjarni Sívertsen.

,,Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar og liggur vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Nafnið tengist Fjarðarhelli fyrir miðju garðsins sem var upphaflega fjárskjól. Hellisgerði var afhent Málfundafélaginu Magna í sumarbyrjun 1923 og hófst ræktun sumarið eftir. Sumarið 1927 var Hellisgerði opnað almenningi á sunnudögum og nokkrum árum seinna var það opið alla daga eftir hádegi yfir sumarmánuðina. Núna er Hellisgerði almenningsgarður sem er öllum opinn. Þó svo að Hellisgerði sé formlega talið vera níutíu ára gamalt má rekja upphafið til ræktunartilrauna athafnamannsins Bjarna Sívertsens.”

Guðmundur Gissurarson (1902-1968)

Fyrsti forstjóri Sólvangs og formaður byggingarnefndar Sólvangs.
Gjöf Félags ungra jafnaðarmanna til Sólvangs.
Gestur Þorgrímsson gerði verkið 1966.

Verkið stendur við Hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)
Reykdalsstífla 1906

Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal við Reykdalsstíflu.

Jóhannes J. Reykdal var stórhuga brautryðjandi og athafnamaður sem reisti m.a. þrjár vatnsaflsvirkjanir í Læknum í Hafnarfirði. Sú hin fyrsta var gangsett þann 12. des. 1904 og markaði sá viðburður upphaf rafvæðingar Íslands. Þá voru kölduljós kveikt í 15 húsum í bænum auk fjögurra götuljósa. Hörðuvallavirkjun, nokkru ofar í Læknum, var svo gangsett haustið 1906. Afl hennar, 37 kW, fullnægði þörf bæjarins fyrir rafmagn. Kallast hún nú Reykdalsvirkjun. Sú þriðja, enn ofar, var gangsett árið 1917.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

Rétt sunnan golfvallarins í Setbergi er þessi minnisvarði um Jóhannes Reykdal og fjölskyldu hans. Þau voru grafin í heimagrafreit þar sem nú er minnisvarðinn.

“Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn)”.

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

“Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.”

Þau sem þarna er minnst eru Reykdalshjónin og fimm af börnum þeirra:

Jóhannes J. Reykdal,
f. 18.1.1874 – d. 1.8.1946
Þórunn B. Reykdal,
f. 21.10.1883 – d. 3.1.1964

Ásgeir Reykdal,
f. 25.7.1906 – d. 24.6.1933
Böðvar Reykdal,
f. 23.6.1907 – d. 2.1.1931

Helgafell

Minnismerki – Óskar Páll Daníelsson.

Jóhannes Reykdal,
f. 3.11.1908 – d. 30.12.1942
Friðþjófur Reykdal,
f. 28.7.1911 – d. 26.2.1934
Lovísa Reykdal,
f. 18.11.1918 – d. 20.4.1931

Óskar Páll Daníelsson (1979-2012)

f. 18. október 1979, d. 12. janúar 2012

Frá Dýrð til Dýrðar

Þetta skilti er vestan í klettabelti Helgafells við Hafnarfjörð en Óskar Páll hrapaði þar.

Stefánshöfði

Stefánshöfði

Minnismerki – Stefánshöfði.

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við veginn.

Þórður Edilonsson (1875-1941)

Þórður Edilonsson fæddist 16. september 1875 og lést 14. september 1941. Hann var stúdent frá MR 1895 og lauk prófi frá læknaskóla í Reykjavík 1899. Vann á sjúrahúsum erlendis 1899-1900, en varð staðgengill héraðslæknis í Keflavík sumarið 1899.

Sólvangur

Minnismerki – Þórður Edilonsson.

Settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1900-1903, aðstoðarlæknir í Reykjavík með aðsetur í Hafnarfirði. Aftur settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1903-1908. Settur Héraðslæknir í Hafnarfirði 1908 til æviloka 1941.
Þórður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Hafnarfirði, m.a. í bæjarstjórn, fræðslustjórn, stjórn sparisjóðs Hafnarfjarðar o.fl. Hann sat einnig í stjórn Læknafélagsins.

Kona hans var Helga Benediktsdóttir skálds Sveinbjarnarsonar Gröndal. Þau áttu tvo syni.

Minnisvarðinn stendur við Sólvang í Hafnarfirði og er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Brautryðjendur
Til minningar um brautryðjendurna, Þorvald Árnason, Jón Gest Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld, sr. Garðar Þorsteinsson sem unnu óeigingjarnt starf við skógrækt í Hafnarfirði.

Brautryðjendur

Minnismerki – Brautryðjendur.

Aðalheiður Magnúsdóttir (1914-1994) – Andrés Gunnarsson (1904-2003).

Í minningu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Andrésar Gunnarssonar.

Minnisvarðinn stendur í Andrésarlundi við Hvaleyrarvatn.

“Á skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar sem haldinn var við Hvaleyrarvatn um miðjan júlí var Björnslundur vígður í minningu Björns Árnasonar, bæjarverkfræðings og skógarbónda. Afhjúpuðu börn Björns minningarskjöld í Seldal [undir Stórhöfða].
Í fimmtu og síðustu skógargöngu Skógræktarfélags Hafnafjarðar 9. ágúst s.l. var afhjúpaður minnisvarði í Gráhelluhrauni um fjóra menn sem lögðu sitt af mörkum til að efla skógræktarstarf í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Það voru Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld og sér Garðar Þorsteinsson sem áttu allir setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um langa hríð.”

Guðmundur Þórarinsson

Minnismerki – Guðmundur Þórarinsson.

Í Gráhelluhrauni er auk þess minningarskjöldur um Guðmund Þórarinsson, skógræktarmann og kennara. Í Húshöfða ofan við Hvaleyrarvatn er minningaskjöldur um Kristmundsbörn annars vegar og Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda, hins vegar.
Björn Árnason var lengi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði. Hann átti drjúgan þátt í vega- og stígagerð á skógræktarsvæðunum ofan við bæinn. Þegar erfiðlega gekk að fá fjárveitingar til slíkra framkvæmda brá hann á það ráð að jafna kostnaðinum yfir á “Ytri-höfnina”, athugasemdalaust. Í dag vildu fáir vera án þessara stíga er gerir þeim kleift að ganga um skógræktarsvæðin með auðveldum hætti. Og Ytri-höfnin er fyrir löngu komin í gagnið.

Björn Árnason (1928-2007)
Björnslundur

Björn Árnason

Minnismerki – Björn Árnason.

Til minningar um Björn Árnason bæjarverkfræðing og skógarbónda

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975)
Guðmundarlundur

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975) kennari gróðursetti furulundinn.
Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og er þar nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum sem hann plantaði út.

Minnisvarðinn er i Gráhelluhrauni.

Hólmfríður Finnbogadóttir (1931-2019) – Reynir Jóhannsson (1927-2012)

Hólmfríður Finnbogadóttir

Minnismerki – Hólmfríður Finnbogadóttir.

Hólmfríður hóf störf hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar 1980, sat í stjórn og var formaður og síðan framkvæmdastjóri til 2013.

Afhjúpað á sjötíu ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2016.

Minnisvarðinn stendur við Kaldárselsveg í Hafnarfirði.

Hólmfríður Finnbogadóttir
Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson hófu skógrækt hér 1980.

Ingvar Gunnarsson (1886-1961)

Ingvar Gunnarsson

Minnismerki – Ingvar Gunnarsson.

Til minningar um Ingvar Gunnarsson fyrsta formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

,,Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við

Skólalundur

Í Skólalundi.

Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.” [Undirhlíðar]

Minnisvarðinn stendur í Skólalundi í Undirhlíðum

Jónas Guðlaugsson (1929-2009)

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson.

Vinabæjarfélagið Cuxhaven – Hafnarfjörður.

Jónas Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 21. apríl 1929 og lést 30. júlí 2009. Jónas var ekki nema 13 ára þegar hann setti upp vindmyllu við heimili sitt sem var tengd rafgeymi og lagði rafmagn í bæinn. Það kom engum á óvart þegar hann hóf nám í rafvirkjun á Selfossi og seinna í Reykjavík. Hann hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi til að læra rafmagnstæknifræði og lauk prófi árið 1959. Á Þýskalandsárunum kynntist hann Dórótheu Stefánsdóttur frá Siglufirði og gengu þau í hjónaband og eignuðust fjögur börn.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson í Cuxhavenlundi.

Jónas starfaði við raflagnateikningar eftir að hann sneri aftur heim til Íslands og var verkstjóri á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur í eitt ár en kenndi einnig við Iðnskólann á Selfossi áður en hann réðst sem tæknifræðingur til Rafveitu Hafnarfjarðar árið 1962. Þar gat hann sér gott orð og var gerður að rafveitutstjóra árið 1969. Hann var rafveitustjóri til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.

Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn.

Cuxhavenlundur

Afhjúpun minningarreitsins í Cuxhavenlundi.

Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins. Síðan héldu allir viðstaddir í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins, þar sem bornar voru fram veitingar.

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996)
Ólafslundur

Ólafslundur

Minnismerki – Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996) var einn af stofnendum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hann var kjörinn í varastjórn á stofnfundinum og starfaði með félaginu alla tíð. Hann tók við formennsku árið 1965 og gegndi þeirri stöðu lengst allra eða í 24 ár. Hann var vakinn og sofinn í starfinu og fáir einstaklingar hafa lagt eins mikið af mörkum við ræktunarstarfið og hann. Ólafur var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991, en tveimur árum fyrr hafði hann látið af formennskunni eftir áratuga farsælt starf. Á ýmsu gekk í formannstíð Ólafs og félagið varð fyrir nokkrum áföllum. Með þrautseigju sinni, æðruleysi og dugnaði tókst Óla Villa að færa alla hluti til betri vegar. Til að minnast þessa mæta forystumanns var útbúinn fjölbreyttur skógarreitur í suðausturhlíðum Húshöfða, sem nefndur er Ólafslundur. Þar stendur minningarsteinn Ólafs Tryggva Vilhjálmssonar.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Rolf Peters.

Ólafur fæddist í Hafnarfirði 17. desember 1915 í Illugahúsi (Kóngsgerði) í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var lengst af starfsævinni leigubílstjóri og bjó ásamt fjölskyldu sinni að Bólstað í Garðabæ. Ólafur var einn helsti hvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Garðabæjar.

Rolf Peters
Jónas Guðlaugsson og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu Stefánsdóttur.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003. (Cuxhaven-lundur)

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Systkinalundur

Systkinalundur

Minnismerki – Systkinalundur.

Systkinalundur Gunnlaugs Kristmundssonar, Ingibjargar Kristmundsdóttur og Guðmundar Kristmundssonar.

Þau systkinin voru fædd á Haugi í Núpsdal í Miðfirði en fluttust síðar öll til Hafnarfjarðar. Hélt Ingibjörg heimili með Gunnlaugi þar í bæ en síðar með Guðmundi í Sveinskoti á Hvaleyri. Sandgræsluvörður var Gunnlaugur skipaður árið 1907 og gegndi síðan því starfi í 40 ár, en sandgræðslustjóraembættið var ekki formlega stofnað fyrr en 1942.

Minnisvarðinn var afhjúpaður árið 1989 og stendur hann í skógarlundi við Hvaleyrarvatn, sem við þau systkinin er kenndur og kallaður Systkinalundur.
Minnisvarði um Gunnlaug Kristmundsson er einnig í Gunnarsholti.

Skátalundur

Skátalundur

Minnismerki – Látnir skátar.

Við skátaskála Gildisskáta við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er minnismerki um látna skáta. Þótt sérhverra þeirra sé ekki getið á minningarskildinum ber að taka viljan fyrir verkið.

Ofangreind minnismerki má finna í landi Hafnarfjarðar. Líklega eru minnismerkin mun fleiri, ef allt er talið, s.s. minnismerki, vatnshjólið, um fyrstu rafvæðinguna við Lækinn sem og hin ýmsu minningarmörk víðs vegar um bæinn.

Þannig má segja að hinir ýmsu „merkimiðar“ á einstökum stöðum, s.s. á Arnarklettum við Arnarhraun, og hin mörgu upplýsingaskilti á tilteknum sögustöðum bæjarins bæti verulega um betur í þeim efnum.

Heimild m.a.:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/hafnarfjordur-minn/Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Sigling.

 

Lónakot
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot má sjá tilgreind nokkur mannvirki vestan vesturtúngarðsins og austan Réttarkletta. Þar segir m.a. að gata liggi vestur með sjónum og að „gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum.
Lónakot

Vagnvegur milli Lónakots og Réttarkletta (Svínakots).

Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
Ætlunin var að staðsetja framangreinda staði m.v. lýsinguna.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Lónakotsvörin sést enn vestan og neðan við vesturtúngarðinn. Túngarðurinn sjálfur var reyndar færður utar, en ef miðað er við leifarnar af hlaðna garðinum liggur vörin þar neðan við. Fast vestan hennar er Mávahella, stór flöt hraunklöpp er stendur upp úr sjónum við meðalsævi.
Beint upp og vestan við Mávahellu er Brimþúfan. Frá henni er ágætt útsýni yfir að Nípu. Hún er strýtumyndaður hóll svo til alveg niður við ströndina og eina verulega kennileitið með henni uns komið er að Réttarklettum.

Nípuskjól

Nípuskjól.

Til að gera leitina að Nípurétt og Nípuskjóli ekki allt of auðvelda var svæðið næði neðan og ofan við kannað gaumgæfilega – ef ske kynni að einhverjar mannvistarleifar kynnu að leynast þar.
Við Réttarkletta eru gerði, garðhleðslur, skjól og tóftir. Gróið er í kring. Skammt vestra og svolítið ofar er hlaðið fjárskjól fyrir skúta.

Austan við Réttarkletta, ofan garðs, er hlaðið með grunnu, en ílöngu, jarðfalli. Þarna hefur væntanlega verið aðhald um tíma. Svo til beint norðvestur af því er Nípurétt.

Nípurétt

Nípurétt.

Annars sést réttin vel þegar gengið er eftir stígnum ofan við ströndina milli Lónakots og Réttarkletta. Hún er skammt austan við hraunhrygg austan Réttarkletta. Réttin hefur verið ferköntuð. Austurveggurinn stendur heillegur, en aðrir veggir eru að mestu fallnir. Réttin hefur verið vel staðsett m.t.t. fjárrekstra ofan við ströndina, en féð hefur væntanlega þá, líkt og nú, sótt talsvert í fjöruna. Engin hólf eða dilkar eru í réttinni.

Skammt suðvestar, sunnan undir klapparhæð, og syðst í lægðinni sem þarna er sunnan Nípu, er Nípuskjól. Veggir hafa verið hlaðnir út frá klapparbakkanum og reft yfir. Dyr snúa mót suðri.

Réttarklettar

Réttarklettar – uppdráttur ÓSÁ.

Ef gömlu vagngötunni er fylgt milli Lónakots og Réttarkletta má vel sjá hvernig hún hefur verið unnin. Bæði hefur verið hlaðið í kanta við bakka og brotið úr skörðum. Að vísu hefur sjórinn kastað grjóti upp á og yfir götuna á köflum, en tiltölulega auðvelt er að feta sig eftir henni enn þann dag í dag.
Tækifærið var notað til að skoða tóftir Lónakotsbæjarins, Norðurfjárhúsanna, brunnsins sunnan bæjarhólsins og Lónakotsréttina suðaustan við túnhliðið.

Strandsvæðið milli Straums og Hvassahrauns, þ.m.t. Lónakotssvæðið, er tilvalið til útivistar. Það hefur að geyma fjöldan allan af minjum fyrri tíma. Það sem þyrfti að gera er að merkja þær helstu svo gönguferðir um svæðið gætu bæði verið fólki til fróðleiks og ánægju. Umhverfið þarna má segja að sé einstakt og það einungis í örskotsfjarlægð frá mesta þýttbýli landsins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá fyrir Lónakot. Gísli Sigurðsson skráði. Örnefnastofnun Íslands.

Nípa

Nípa og Nípurétt.

 

Knarrarnessel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mín. gangur er að því.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megin tóft með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn áheiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóftir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóftirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóftirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur vatnsstæði í heiðinni þetta sumarið. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selið.

Knarrarnessel

Stekkur í Knarranesseli.

Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkerflugvélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóftir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýuppþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður Knarrarnesselstíginn að Klifgjá, yfir hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum. Við vörðuna var greni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k. Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu, en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.
Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel (Breiðagerðissel) og sunnan Fornuselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Sléttuhlíð

Á vefsíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um Sléttuhlíð ofan bæjarins: „Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Kotið var nokkurn veginn þar sem Flensborgarskóli stendur í dag á Hamrinum. Hjáleigubændur í Hamarskoti höfðu selstöðu í Hamarskotsseli, sem var nánast samtengt Setbergsseli vestan Háanefs og norðan Sléttuhlíðarhorns. Þar er merkilegur hellir í hraunrás sem er opinn í báða enda og var í eina tíð nefndur Selhellir. Sitthvoru megin við hellisopin voru selin; að norðan var Setbergssel en að sunnan var Hamarskotssel. Hellinum var skipt í tvennt með grjóthleðslu sem enn sést móta fyrir, þó hún sé að mestu hrunin. Með þessu móti gátu báðir aðilar nýtt hellinn sem geymslu fyrir afurðirnar sem unnar voru í seljunum.

Setbergssel

Op Ketshellis (Selhellis).

Sléttuhlíðin hefur verið vel gróin í eina tíð og þar óx lengi vel kjarnmikið birkikjarr sem menn nýttu til eldiviðar og beitar. Þegar kom fram á annan tug 20. aldar var kjarrið illa farið af mikilli beit og hrístöku auk þess sem landið var víða farið að blása. Kræklóttir runnar voru það eina sem eftir var og flest benti til að landið ætti eftir að eyðast að fullu þegar Einar Sæmundsen skógarvörður skoðaði svæðið að beiðni bæjarstjórnar 1917. Kjarrið var mun smávaxnara en annars staðar í nágrenninu, aðeins um tveggja álna hátt. Þrátt fyrir það var ákveðið að nýta kjarrið til eldiviðar, enda mikill skortur á kolum vegna langvarandi styrjaldarástands í Evrópu. Fátækir kotungar í Hafnarfirði höfðu stundað lyngrif í hrauninu umhverfis Sléttuhlíð áratugum eða jafnvel öldum saman þannig að víða voru ljót sár í landinu. Hitagildi sortulyngsins var mest auk þess sem útfénaðurinn sem var þarna á vetrarbeit fúlsaði við því vegna beiskju. Þar af leiðandi þótti sortulyngið ekki eins góð beitijurt og t.d. kræki- og bláberjalyng eða beitilyng og sjálfsagt að nýta það til upphitunar.

Kaldársel

Kaldársel – vatnsleiðslan yfir Lambagjá.

Sléttuhlíð fékk nýtt hlutverk þegar framkvæmdum við vatnslögnina frá Kaldárbotnum lauk haustið 1918. Forsaga málsins tengist Vatnsveitu Hafnarfjarðar í Lækjarbotnum, sem tók til starfa 1909. Á tæpum áratug jókst vatnsþörf bæjarbúa til muna svo að Lækjarbotnalindin annaði ekki eftirspurninni. Þá var var ákveðið að leiða vatn frá Kaldárbotnum í opnum stokki um 1,5 km leið. Jón Ísleifsson verkfræðingur reiknaði það út að ef vatnið yrði látið seytla niður í hraunið vestan Sléttuhlíðar ætti það eftir að fljóta neðanjarðar og koma fram í Lækjarbotnum. Þar sem stokknum sleppti við sunnanverðan Sléttuhlíðardal steyptist vatnið fram af brekkubrúninni og myndaði lítinn foss. Síðan rann vatnið í lygnri lækjarsprænu milli hrauns og hlíðar og endaði í smátjörn við miðja Sléttuhlíð. Þar hripaði vatnið niður í hraunið og eins og gert var ráð fyrir.

Lækjarbotnar

Gamla vatnsleiðslan í Lækjarbotnum.

Þessi snjalla hugdetta féll ekki öllum í geð, en engu að síður þótti bæjaryfirvöldum á það reynandi að kosta vatnslögnina og treysta á hyggjuvit verkfræðingsins. Og viti menn, sex dögum síðar fór að hækka í vatnsveitunni í Lækjarbotnum og einum mánuði eftir að vatni var hleypt á stokkinn var vatnsrennslið því orðið verulegt svo að vatnsveitu bæjarins var borgið um sinn.

Nú fengu menn aukinn áhuga á Sléttuhlíðinni og sumarið 1925 byggðu Jón Gestur Vigfússon og Magnús Böðvarsson samliggjandi sumarhús nærri Sléttuhlíðarhorni. Ætlun þeirra var að rækta landið og búa fjölskyldum sínum sumardvalastað á þessum fallega stað þar sem enn var nokkuð eftir af kjarri.

Sléttuhlíð

Sumarbústaður Jóns Gests, í Sléttuhlíð.

Árið eftir fengu þeir formlega úthlutað sitthvorum hektaranum og fjórum árum síðar fengu þeir leyfi til að girða landspildurnar af og hefja skipulega trjárækt. Ekki leið á löngu áður en þeir fengu að stækka ræktunarreiti sína og girðingarnar. Árið 1929 var Ingvari Gunnarssyni kennara og helsta ræktunarmanni Hellisgerðis úthlutað samsvarandi landi undir sumarbústað og trjárækt í Sléttuhlíð, eilítið sunnan við bústaði félaga sinna. Þar sem þessir heiðursmenn og fjölskyldur þeirra hófu sáningu á þriðja áratug tuttugustu aldar hefur landið tekið miklum stakkaskiptum og minnir núna meira á skandinavískar sveitir en hafnfirskt beitiland.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Fjáreigendur og aðrir sem greiddu hagtoll fyrir leyfið til að beita sauðfé sínu og hrossum innan bæjargirðingar Hafnarfjarðar voru að vonum ekki ánægðir með þessa nýju landnámsmenn sem kepptu við þá um nýtingu landsins. Hrísbeitin var að hluta til tekin frá búsmalanum og beitilandið skert að miklum mun. Þess vegna kom ósjaldan fyrir að girðingarnar við sumarhúsin voru illa leiknar og jafnvel sundurklipptar þegar kom fram á sumar. Illa gekk að færa sönnur á hver eða hverjir ættu sökina á þessum spellvirkjum og kom nokkrum sinnum til verulegs ágreinings vegna slíkra mála og sýndist sitt hvorum.

Ingvar Gunnarsson

Ingvar Gunnarsson.

Þegar Ingvari Gunnarssyni var úthlutað landi undir sumarbústað sinn og ræktunarreit var það gert að skilyrði að þeir sem fengju lóðir undir bústaði í utan bæjarlandsins, þ.m.t. í Sléttuhlíð, mættu ekki selja eða leigja þau landsvæði án samráðs við bæjarstjórn, sem taldi sér samt ekki skylt að kaupa upp eignirnar þó þær væru falboðnar.

Á kreppuárunum var ekki mikil ásókn bæjarbúa í sumarbústaðalóðir enda höfðu menn annað við þá litlu fjármuni að gera sem þeir höfðu handbæra. Árið 1937 var ákveðið að úthluta Barnaskóla Hafnarfjarðar 1 hektara lands í norðanverðri Sléttuhlíð, rétt sunnan Sléttuhlíðarhorns. Meginástæðan var sú að skógræktarsvæðið sem girt hafði verið í Undirhlíðum 1934 var þá nánast fullnýtt og skólinn þurfti meira land til að halda ræktunarstarfinu áfram. Það skipti líka máli að með þessari úthlutun var ætlunin að bjarga því birkikjarri sem eftir var í Sléttuhlíð og auka við skógarsvæðið með því að planta út grenitrjám og öðrum tegundum sem voru óðum að nema hér land.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Á stríðsárunum urðu fjárráð almennings betri en áður hafði þekkst og voru ýmsir ágætlega aflögufærir. Þetta átti sinn þátt í að 1941 sóttu 13 aðilar um sumarbústaðalóðir í Sléttuhlíð hjá Girðinganefndinni. Tveir sóttu um lóðir utan girðingar, sjö vildu fá lóðir sunnan skógræktarreits Barnaskólans og fjórir innan hans. Var málinu skotið til heilbrigðisnefndar sem taldi öll tormerki á að úthluta fleiri lóðum í Sléttuhlíð, nema gerðar yrðu ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengum neysluvatnsins sem rann bæði ofan og neðanjarðar í hrauninu. Lagt var til að hverjum bústað fylgdi rotþró úr steinsteypu og komið yrði fyrir stáltunnu með traustu loki fyrir allan úrgang. Þetta voru skilyrði sem bæjarstjórn gat ekki fallist á og var málinu skotið til ríkisins en í kjölfar þess var ákveðið að úthluta ekki fleiri lóðum að sinni.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Ein undantekning var þó gerð sumarið 1945 þegar Jóni Magnússyni í Skuld var úthlutað landi við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Framan við Smalaskálahvamm rann vatnið í Kaldártréstokknum og þess vegna var talin minni hætta á mengun en í hrauninu við Sléttuhlíð. Nokkru seinna fengu fleiri aðilar sumarhúsalóðir á svipuðum slóðum sem flestir standa enn.

Á tímabilinu 1949-1951 var unnið að því að leggja nýja vatnsleiðslu frá Kaldárbotnum niður í Hafnarfjörð, um 7 km leið. Þegar því verki var lokið þótti einsýnt að nú væri hættan á mengun neysluvatns liðin hjá þar sem Lækjarbotna vatnsveitan var orðin óþörf. Næstu árin fjölgaði sumarbústöðum nokkuð ört í landi Sléttuhlíðar þar til svæðið þótti fullbyggt. Þegar kom fram á áttunda áratuginn voru uppi hugmyndir um að veita leyfi fyrir byggingu nokkra bústaða norðan við Sléttuhlíðarhorn. Vegur var lagður í áttina að seljunum, en þegar til átti að taka var hætt við allt saman svo lítið varð úr framkvæmdum.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – loftmynd 2002.

Árið 1979 fékk Skógræktarfélag Hafnarfjarðar töluvert landsvæði til umráða í sunnanverðu Gráhelluhrauni og við Sléttuhlíð. Ákveðið var að skipta landinu í litlar spildur sem var úthlutað til 24 einstaklinga og fjölskyldna þeirra auk 11 félaga og stofnana sumarið 1980. Á þessum reitum má ekki reisa nein mannvirki, eingöngu stunda ræktun. Margir af helstu máttarstólpum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar tóku þetta merka starf að sér og hafa plantað út tugum þúsunda trjáplantna á aldarfjórðungi, eins og svæðið ber með sér.

Eftir að búfé var úthýst úr upplandi Hafnarfjarðar og Setbergs á seinni hluta 20. aldar hefur landið fengið kærkominn frið til að jafna sig eftir aldalanga þrautbeit. Afleiðingar þessarar friðunar sjást greinilega því kjarrlendið breiðir verulega úr sér. Mest ber á birkitrjám en stöku einiberjarunnar og víðikjarr hafa náð sér vel á strik. Útplöntun erlenda trjátegunda hefur einnig sett sterkan svip á landið og lúpínubreiður teygja sig um holt og hæðir þar sem áður var örfoka land. Lynggróðurinn hefur víða fengið að vaxa óárreittur í hrauninu líkt og annað blómskrúð.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Fjölbreytileiki og gróska jarðargróðursins í Sléttuhlíð og næsta nágrennis er með eindæmum og vel þess virði að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða árið um kring. Þetta er kjörið útivistarsvæði sem ber að vernda og efla í hvívetna. Frumkvöðlarnir sem hófu ræktunarstarfið á þessum slóðum fyrir nær sjö áratugum og sporgöngumenn þeirra eiga heiður skilinn fyrir framtakssemina og þrautseigjuna við að breyta ásjón þessa lands og um leið veðurfarslegum skilyrðum þess.“ -(JG tók saman)

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar I-III, Ásgeir Guðmundsson.
-Harðsporar, Ólafur Þorvaldsson.
-Græðum hraun og grýtta mela, Lúðvík Geirsson.
-https://skoghf.is/slettuhlie-sveitaromantik-vie-baejarmoerkin/

Sléttuhlíð

Í Sléttuhlíð að haustlagi.

Járnbrautarvegur

Á vefsíðu Hraunavina má lesa eftirfarandi um „Veginn sem aldrei varð„:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Garðahrauni / Hafnarfjarðarhrauni.

„Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.

Járnbraut

Járnbrautavegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.

Járnbraut

Járnbraut.

Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll framundan.

Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri. Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1900-1905. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.

Hafnarfjörður

Vinnuflokkur Sigurgeirs við Norðurbraut í Hafnarfirði.

Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann.
Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól verkamanna.

Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé. Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða / Miðdegisvarða.

Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.

Er glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.

Miðaftansvarða

Ártal á Miðaftansvörðu. Ártalið er frá því að bæjarverkfræðingur Hafnarfjarða, Björn Árnason, lét steypa með landamerkjavörðunni.

Þegar farið var að moka burt hrauninu þar sem nú er iðnaðarhverfið í Molduhrauni hafði enginn rænu á að vernda þennan vegaspotta, þrátt fyrir að Ómar Ragnarsson hefði farið þarna um í einum af Stiklu þáttum sínum. Nú eru aðeins fáein ár þar til það litla sem eftir er af veginum verður 100 ára og þá njóta minjarnar sjálfkrafa verndar samkvæmt fornminjalögum. Það breytir ekki því að þessi merki kafli í vegasögu okkar verður áfram í hættu þar sem sveitastjórnir hér á landi eru þekktar fyrir allt annað en fara eftir lögum um fornminjar, náttúrvernd, hvað þá um hverfisvernd sem þær setja sjálfar.“ – (JG tók saman)

Heimildir:
-https://www.hraunavinir.net/vegurinn-sem-aldrei-var%C3%B0/
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.