Alfaraleiðin

Nemar á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands skrifuðu um „Reykjanesbrautina fyrr og nú“ árið 2009:

Eiríksvegur

Eiríksvegur, vagnvegur, ofan Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd.

„Þegar rýnt er í sögu Reykjanesbrautarinnar, veg númer 41 í þjóðvegakerfi Vegagerðarinnar, er ljóst að hún er merkileg að mörgu leyti og hefur brautin gegnt mikilvægu hlutverki bæði fyrir íbúa Suðurnesja sem og aðra landsmenn. Hún markaði tímamót í sögu almenningssamgangna á Suðurnesjum þegar hún var lögð, síðar steypt og svo aftur þegar hún var tvöfölduð. Fyrstu skrefin í gerð hennar úr slóða í veg, sem hæfði öðru en hestvögnum, voru erfið m.a. vegna afstöðu ráðamanna og peningaskorts. Á þessum tíma bjó fólk jafnvel enn í torfkofum og fátækt var landlæg. En með þrjósku, baráttu og miklum vilja hafðist gerð Reykjanesbrautarinnar sem hefur svo breyst og þróast í áranna rás og óhætt er að segja að ástand hennar sé með besta móti í dag. Við munum fara yfir sögu hennar og skoða hvernig hún hefur breyst frá slóða í veg eins og hann lítur út í dag.

Slóðinn – Alfaraleið; Almenningsvegur; Stapagata

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Vegurinn suður á nes er ævaforn; mannsfætur og hestshófar höfðu meitlað hann í hraunið í gegnum árin og aldirnar. Árið 1861 tók hins vegar gildi tilskipun um vegi á Íslandi og var þar lagður grunnur að skipulegri vegagerð hérlendis; þjóðvegir skyldu vera 5 álna (um 3,14 m) breiðir, ruddir á fastlendi, hlaðnir á votlendi, með brúm á mýrum og yfir ár og læki (Bjarni Guðmarsson 1997a:24).
Svo er veginum lýst suður á nes í Sögu Keflavíkur en þá er átt við hina gömlu þjóðleið sem lá frá Innnesjum, þ.e. Hafnarfirði, til Útnesja, þ.e. Voga, Njarðvíkur, Keflavíkur, Hafna, Garðs og Sandgerðis.

Almenningsvegur

Almenningsvegur og aðrir vegir á Vatnsleysutrönd.

Vegurinn frá Hvaleyri í Hafnarfirði til Kúagerðis var nefndur Alfaraleið en vegurinn frá Kúagerði til Voga Almenningsvegur eða Menningsvegur. Síðasti hluti þessarar gömlu þjóðleiðar, þ.e. leiðin frá Vogum til Njarðvíkur, var nefnd Stapagata. Vegur þessi var vel varðaður og stutt á milli varða sem vísuðu ferðalöngum rétta leið. Á leiðinni, við Kúagerði, var afbragðs áningarstaður þar sem nóg var af góðu vatni í tjörninni. Einnig var þar stór og góður hagi í grenndinni (sbr. Ferlir). Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þessa gamla þjóðleið lá en hún er merkt með gulu og síðan er brautin eins og hún er í dag merkt með gráu.

Almenningavegur

Almenningsvegurinn genginn.

Árið 1893 lagði Jens Pálsson alþingismaður og Útskálaprestur fram frumvarp til vegalaga sem tók gildi ári síðar. Þar var kveðið á um að flutningsbrautir skyldu lagðar um þéttbyggðustu héruð landsins sem auðveldaði yfirferð hestvagna sem nú voru teknir að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þetta frumvarp hefði getað komið sér einkar vel fyrir þá sem bjuggu suður með sjó en því var ekki að heilsa. Á þessum árum voru strandsiglingar við lýði á Faxaflóasvæðinu og þótti það vera betri kostur fyrir íbúana þar og því kom ekki til álita að leggja veg. Á þessum tíma má kannski segja að barátta Suðurnesjamanna hafi byrjað en þeir voru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessa lyktan mála.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Það var síðan árið 1899 sem frumvarp um vagnfæran veg á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var lagt fram á þingi. Þá eins og endranær voru skiptar skoðanir um ágæti slíks vegar. Því var það ekki fyrr en árið 1903 að ákvörðun var tekin um að vegur skyldi lagður milli Hafnarfjarðar og Vogastapa (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:25-26).
Það sést glöggt á eftirfarandi frásögn að menn urðu að beita öllum brögðum til að þessi akvegur yrði lagður:
Þegar Björn Kristjánsson var orðinn þingmaður Gullbringusýslu vildi hann láta gera akveg milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Þar var þá algerlega veglaust nema hestastígur, troðinn á þúsund árum. Þingmenn voru tregir að veita fé í þennan veg. Þá fékk Björn hesta handa öllum þingmönnum, sem áttu þá sæti í fjárveitinganefnd og bauð þeim í skemmtiför til Keflavíkur. En þegar nokkuð var komið út í hraunið dró úr ferðahug gestanna. Þeir óttuðust tjón lífs og lima, ef lengra væri haldið út í þessa ófæru. Þeir sneru við, en veittu fé til að gera veginn (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).

Suðurnesjavegurinn

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegur vestan Þorbjarnarstaða.

Framkvæmdir við akveginn, þ.e. Suðurnesjaveg, hófust síðan árið 1904 og var Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði verkstjóri þess. Vegagerðin hófst við sýslumannshúsið í Hafnarfirði og fyrsta árið var lagður um tveggja kílómetra langur spotti. Þremur kílómetrum var bætt við árið eftir og árið 1906 bættist enn við veginn eða um 2,5 km. Þá náði vegurinn loks að Hvassahrauni árið 1907. Árið 1908 náði vegurinn að Stóru-Vatnsleysu og ári seinna, eða um vorið 1909, var málið rætt á sýslunefndarfundi í Keflavík og þá var ákveðið að vegurinn skyldi ná alla leið til Keflavíkur. Vegakaflarnir mættust loks í Vogunum árið 1912 en vinnan Keflavíkurmegin hafði byrjað árið 1911.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík suður til Keflavíkur. Það er skemmtilegt að segja frá því að á sama tíma og karpað var um hestvagnaveg voru bifreiðar að ryðja sér rúms á Íslandi þannig að þessi vegur átti eftir að greiða leið þessarar nýju tækni. Árið 1913, þegar hestvagnavegur milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var fullbúinn, tókst bifreið í fyrsta sinn að komast til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:27, 25-30). Fyrsta bifreiðin, sem vitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til Íslands þann 20. júní árið 1913 og fór hann leiðina til Keflavíkur þá um haustið (sbr. Guðlaugur Jónsson 1983:63 65).

Reykjanesbraut

Suðurnesjavegur – fyrsta bílferðin. Keilir í bakgrunni.

Fyrsta langferð þeirra félaga í bifreiðinni var til Keflavíkur, og kveðst Sveinn hafa valið þá leið fyrst, af því að honum hafði verið sagt að þar væri vegurinn einna bestur. Það reyndist og rétt vera að öðru leyti en því að krókar miklir voru á honum í hraununum og hættulegir ókunnugum vegfaranda á hraðskreiðu farartæki. […] Í þessari ferð var bifreiðin fullsetin, því að auk þeirra Sveins og Jóns Sigmundssonar voru þeir með í ferðinni, Björn, bróðir Sveins, Gísli Sveinsson, síðar sendiherra og Baldur Sveinsson, blaðamaður.

Keflavíkurvegur

Gamli og nýi Keflavíkurvegurinn hlið við hlið sestan Kúagerðis 1962.

Allt gekk vel suður eftir en er komið var á Vogastapa á heimleiðinni um kvöldið hætti vél bifreiðarinnar að ganga, höfðu leiðslur stíflast af hinni illa hreinsuðu brennsluolíu (Guðlaugur Jónsson 1983:65).

Samkvæmt frásögninni hér á undan er greinilegt að það var tímafrekt að aka þessa leið. Um haustið 1913, eftir að hvert hraðametið af öðru hafði verið slegið, tókst að fara þessa leið akandi á rétt innan við tveimur klukkustundum. Það þótti nokkuð gott miðað við að ferðalagið hafði áður tekið um átta til tólf klukkustundir (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997b:46).

Keflavíkurvegur

Unnið við nýja Keflavíkurveginn.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig vegurinn leit út í þá daga. Hafði mikil vinna verið lögð í hann eins og hægt er að ímynda sér eftir um átta ára framkvæmdir.

Eftir að lagningu vegarins lauk tók við eilíf barátta um að halda veginum við en hann vildi grafast niður og verða ein klöpp. Það fór illa með bifreiðarnar sem um hann fóru enda var hann lagður fyrir hestvagna. Þó má segja að þá hafi grunnurinn verið lagður að veginum eins og við þekkjum hann í dag (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegurinn – steypti vegurinn

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegur – fyrsti Fordbíllinn hér á landi.

Keflvíkingar eru vaskir menn og djarfhuga. Nú ættu þeir að senda bíl eftir þingfulltrúa sínum og fjárveitinganefnd og aka með þá á þeim tíma dags, þegar umferð er mest og halda þessum framagestum síðan góða veizlu í höfuðborg Suðurnesja, en skora jafnframt á þá að sýna nú landsföðurslegt lundarlag og lofa að gera versta veg landsins öllum vegum betri með skynsamlegu átaki í nokkrar vikur (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).
Svo komst Jónas frá Hriflu að orði árið 1955 þegar til tals kom að nú þyrfti að gera almennilega við veginn margumrædda. Skúli Vigfússon atvinnubílstjóri á Suðurnesjum skrifaði síðan grein árið 1956 í Faxa, blað Suðurnesjamanna, þar sem hann gagnrýndi hvernig staðið væri að lagfæringum á Suðurnesjaveginum.

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Árið 1942, þegar setuliðið flutti til Suðurnesja, var þess fyrsta verk, að lagfæra allan veginn frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Þær endurbætur hófust með því, að vegurinn var allur breikkaður, en áður var þar hvergi hægt að mætast á stórum bílum, nema á útskotum, þar sem þau þá voru fyrir hendi. Eftir þessa miklu lagfæringu var borið ofan í allan veginn, og var þar sannarlega ekki klipið við nögl sér, ekki saltað í hann eins og við bílstjórar köllum ofaníburð Vegagerðar ríkisins hér á Suðurnesjum (Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Á þessum árum buðust Bandaríkjamenn til þess að leggja til vélakost og liðsafla frá vegadeild hersins ef ríkisstjórnin kostaði lagfæringuna á veginum. Því miður varð aldrei neitt úr því að þiggja boðið og töldu menn það vera sökum þess að Íslendingar vildu ekki standa í þakkarskuld við Bandaríkjamenn. Svona flæktist stoltið fyrir mönnum í þá daga og eyðilagði það margar bifreiðarnar sem þarna ók um á þessum árum. Talið er að meðalaldur þeirra bifreiða, sem oft fóru um þennan veg, hafi verið um tvö ár en þá var viðhalds- og bensínkostnaður orðinn það mikill að það borgaði sig varla að gera við þá. (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur.

Háværar raddir um að leggja yrði nýjan veg með bundnu slitlagi tóku að fá hljómgrunn árið 1958 þegar vegamálastjóri kom fram með þá yfirlýsingu að með tilkomu sementsverksmiðjunnar á Akranesi yrði Suðurnesjavegurinn sennilega fyrstur til að verða steyptur (sbr. Faxi 1958). Í byrjun árs 1960 fór boltinn loks að rúlla eftir þessar yfirlýsingar vegamálastjóra. Það var svo í lok ársins 1960 sem framkvæmdir hófust við nýjan Suðurnesjaveg sem nú gengur undir nafninu Reykjanesbraut. Þá hafði Ingólfur Jónsson, þáverandi samgönguráðherra, skýrt frá framkvæmdunum sem fólu í sér að fyrst yrði steyptur 15 km kafli og seinna yrði lokið við afganginn af leiðinni sem yrði alls 37 km allt frá Engidal til Keflavíkur.

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Öllum undirbúningi undir steypu átti að vera lokið vorið 1965. Kostnaðurinn var áætlaður um 240 milljónir króna og gaman að segja frá því að fyrirhugað var að breikka veginn í framtíðinni sem átti þó ekki eftir að gerast í nánustu framtíð (sbr. Faxi 1964).
Eins og áður sagði hófust framkvæmdir við steypta veginn árið 1960. Þá um sumarið var mælt fyrir nýjum vegi og var ákveðið að hafa vegstæðið frá Hafnarfirði og suður fyrir Hvassahraun með tilliti til þess hvar flugvöllur gæti hugsanlega komið í framtíðinni. Á þessum tíma hafði vegurinn inn í Hafnarfjörð verið færður upp fyrir bæinn sökum mikillar umferðar sem lá í gegnum hann. En sú umferð var m.a. tilkomin vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll. Það var svo föstudaginn 25. nóvember 1960 að Vegagerðin hóf framkvæmdir við undirbyggingu vegarins og stóðu þær framkvæmdir yfir þar til þeim lauk þann 26. október 1965 en þá var vegurinn formlega opnaður eftir um fimm ára vinnu.

Keflavíkurvegurinn

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Vegagerðin sá um undirvinnuna til Kúagerðis en þegar þangað var komið tóku Íslenskir Aðalverktakar við og kláruðu undirvinnuna ásamt því að steypa veginn (sbr. Vegminjasafnið 1983).
Steypti vegurinn markaði ekki einungis tímamót í sögu Suðurnesjamanna heldur einnig í sögu vegagerðar á Íslandi því hann var fyrsti steypti vegurinn í þjóðvegakerfi landsins.
Flutningsgeta jókst gífurlega í kjölfarið og öll umferð bifreiða milli Suðurnesjanna og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli einnig straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að atvinnulífið á Suðurnesjum efldist þó nokkuð (sbr. Alþingi 1990).

Ingólfur Jónsson

Ingólfur Jónsson (1909-1984).

Steypti vegurinn var formlega opnaður þann 26. október árið 1965. Þeir sem fyrstir fóru um hann voru þáverandi vegamálastjóri og Ingólfur Jónsson samgönguráðherra á þeim tíma en þeir þurftu ekki að greiða vegatoll. Það var aftur á móti Valgeir Sighvatsson bifreiðarstjóri sem fékk miða nr. 1 þar sem hann var í áætlunarferð á rútubifreið sem hann ók. Valgeir sagði að mikil bylting hafi orðið að fá þennan veg þar sem áður hafi tekið um tvær stundir að aka frá Reykjavík til Keflavíkur (sbr. Valgeir Sighvatsson 2009). Valgeir kemur svo aftur við sögu Reykjanesbrautarinnar síðar.
Þegar vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar með tilheyrandi aukinni umferð.

Framkvæmdin við Suðurnesjaveginn var viðamikil og efnisfrek.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut ofan Straums 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra er Suðurnesjavegur byggður samkv. þýzkum stöðlum um fyrsta flokks þjóðvegi. Lega hans í hæð og fleti er reiknuð fyrir 100 km. á klst. Akbrautin er 7,5 m. breið og tveggja metra breiðir vegbakkar hvorum megin hennar. Í undirbyggingu vegarins hafa verið notaðir um 1.500.000 rúmmetrar af fyllingarefni og spprengdar [sic] hafa verið úr vegarstæðinu 55.000 rúmmetrar af klöpp og fjarlægðir 200.000 rúmmetrar af moldarjarðvegi, 32.785 metrar af akbrautinni er úr 22 cm. þykkri steinsteypu og í hana hafa farið 55.200 rúmmetrar af steypu og 160 tonn af steypustyrktarjárni. 3.780 km. af akbrautinni er úr malbiki, 9 cm. þykku, nema stuttur tilraunakafli, þar sem malbikið er 5 cm. Í þennan hluta akbrautarinnar hafa farið 5.650 tonn af malbiki með 400 tonnum af asfalti (Faxi 1965:146).

Gjaldskylda

Reykjanesbraut

Keflavíkurvegurinn – gjaldskýli ofan Straums.

Kostnaður við slíkar vegaframkvæmdir er umtalsverður og því þurfti að leita leiða til að afla fjár til verksins. Ákvörðun um að setja upp tollskúr var tekin þar sem ökumenn skyldu greiða sérstakt gjald aðra leiðina til að mega aka veginn. Sú ákvörðun átti eftir að skapa mikla óánægju meðal fólks, sér í lagi meðal Suðurnesjamanna, og upp hófust mikil blaðaskrif um málið. Fólk var mjög undrandi yfir því að slíkt gjald skyldi aðeins lagt á þennan eina veg og taldi það vera mismunun þar sem að þetta þekktist hvergi annars staðar á landinu. Vegatollur þessi var notaður til að borga lánið sem tekið hafði verið til að gera veginn.

Krýsuvíkurvegur

Gamli Krýsuvíkurvegurinn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Vegaframkvæmdir voru yfirleitt kostaðar með framlagi ríkissjóðs (Ingvar Guðmundsson 1965:193-197). Sagan segir að margur hafi ekið Krýsuvíkurleiðina til að sleppa við að greiða gjaldið en það þótti afar hátt í þá daga.
Tollur þessi var við lýði frá árinu 1965 til loka ársins 1972 en þann 31. desember það sama ár var innheimtu umferðargjalds hætt (sbr. Vegminjasafnið1983).

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Lónakots.

Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina og því miður með aukinni slysatíðni. Augljósar úrbætur voru að aðskilja akstursstefnur til að draga úr slysum.
Tillaga til þingsályktunar á Alþingi um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu árið 1987 til 1988. Þar kom meðal annars fram að Reykjanesbrautin í þáverandi mynd fullnægði engan veginn þeim kröfum sem gerðar voru til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin taldi ekki nauðsynlegt að aðskilja aksturstefnur fyrr en umferðarþunginn næði 8.000-10.000 bifreiðum á sólarhring. Umferðin á Reykjanesbrautinni hafði aukist jafnt og þétt og fjöldi bifreiða sem um hana óku náði yfir 8000 bifreiðum á sólarhring í september 1988. Þrátt fyrir það fékk sú umræða engan hljómgrunn í það skiptið (sbr. Alþingi 1990).

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut – tvöföldun vestan Hafnarfjarðar.

Lagning fullkominnar hraðbrautar með aðskildum akstursstefnum þótti mörgum jafn nauðsynlegt og það var að leggja veg með bundnu slitlagi á milli Keflavíkur og Reykjavíkur áður. Í janúar 1992 bárust samgönguráðherra áskoranir frá um fjögur þúsund manns um nákvæma athugun á hugmynd nokkurra aðila um tvöföldun Reykjanesbrautar. Á árunum 1987–1992 voru þingsályktunartillögur, um tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, fluttar sex sinnum á Alþingi (sbr. Alþingi 1992). Á meðan umferðarþunginn jókst ár frá ári og þrátt fyrir tíð umferðarslys var lítið aðhafst.“

Nú er unnið að tvöföldun á síðasta Reykjanesbrautar millum Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, þ.e. frá gatamótum Krýsuvíkurvegar og Hvassahraun. Framkvæmdunum á að vera lokið snemmsumars 2026.

Heimild:
-Reykjanesbrautin fyrr og nú – Birgitta María Vilbergsdóttir, Elín Ólafsdóttir og Karl Einar Óskarsson, Háskóli Íslands 2009.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Straums.

Breiðagerði

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði um Vatnsleysströndina í Sunnudagsblað Tímans árið 1964 undir fyrirsögninni „Suður með sjó„:

Goðhóll

Goðhóll.

Byggðin á Vatnsleysuströnd skiptist í hverfi. Utan Strandarheiðar verður fyrst fyrir Kálfatjarnarhverfi, þá Þórustaðahverfi og Auðnahverfi, Kálfatjörn og kirkjustaður. Nafn á að vera dragið af því, að kálfar af sækúakyni eiga að hafa komið úr Naustakotstjörn við sjávargötu Kálftirninga. Í fornum máldaga er staðurinn nefndur Gálmatjörn, en það er marklaust nafnabrengl. Ekki vilja sagnir hlíta því, að kirkja hafi frá upphafi staðið að Kálfatjörn, heldur á hún að vera flutt þangað undan ágangi sjávar, annaðhvort frá Þórustöðum eða Bakka, austasta bænum í hverfinu. Sá bær var fluttur tvisvar undan sævarbroti á 18. öld.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Að Kálfatjörn stendur ein af stærstu sveitakirkjum hér á landi. Hún var reist 1893, og voru þá rúmlega 900 manns í sókninni og um helmingi fleiri á vertíðum. Nú teljast sóknarbörnin um 370, og vermenn eru hættir að sækja á Vatnsleysuströnd. Þar var prestssetur til 1919, en þá var staðurinn gerður anniexía frá Görðum á Álftanesi og situr presturinn nú í Hafnarfirði.
Kirkjugarðurinn á Kálfatjörn er heimatilbúinn, mold hefur verið ekið í hann, til þess að unnt væri að grafa menn þar skikkanlega, en jarðvegur er víðast grunnur á Ströndinni.
kalfatjarnarkirkja-21Einn af Kálfatjarnarklerkum var Ámundi Ormsson, d. 1670. Á hans dögum bjó Björn Sturluson smiður á Bakka. Þeir voru báðir hagyrðingar. Björn var bendlaður við víg og óttaðist líflátsdóm, en var að lokum sýknaður.
Sveinbjörn Hallgrímsson er einn af mestu afreksmönnum, sem þjónað hafa Kálfatjarnarsókn. Hann vígðist aðstoðarprestur þangað 1842 og bjó í um skeið í Halakoti í Brunnastaðahverfi. Byltingarárið mikla 1848 stofnaði hann ásamt Páli Melsteð sagnfræðingi hálfsmánaðarblaðið Þjóðólf. Það varð langlífasta og eitthvert áhrifaríkasta málgagn, sem út hefur komið hér á landi.
KálfatjörnAðstoðarpresturinn frá Kálftjörn er fyrsti íslenzki blaðamaðurinn. Ármann á Alþingi, Fjölnir og Ný félagsrit voru gefin út í Kaupmannahöfn. Nú réðust Íslendingar heima fram á ritvöllinn, tóku að gagnrýna stjórnarvöldin, krefjast aukins þjóðfrelsis og lýðréttinda. „En látum oss þá vakna, Íslendingar, látum þjóðlyndi og þjóðrækni ná því valdi yfir hugum vorum, svo að vér álítum engin þau málefni oss óviðkomandi, sem að einhverju leyti horfa til heilla fyrir land vort.“ — Þannig hljóðar ávarp Sveinbjarnar ritstjóra í fyrsta tölublaði Þjóðólfs. Hann hefur eflaust hvatt sóknarbörn sín af stólnum í Kálfatjarnarkirkju til þjóðrækni, djörfungar og framtaks. Hann var ættaður úr Innri-Njarðvík, systursonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors.
Holmfastskot-21Þingstaður hreppsins var að Kálfatjörn fram til ársins 1818. Þá voru hreppsþingstaðirnir að Kálfatjörn, Bæjarskerjum á Rosmhvalanesi og Járngerðarstöðum í Grindavík af lagðir, en þingstaður fyrir alla þrjá hreppana settur í Njarðvíkum. Þá voru Njarðvíkurnar einnig sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi, og hélzt það til 1885, en þá voru þær gerðar að hreppsfélagi með Keflavík. Þessar breytingar á hreppaskiptingu eru sprottnar af fólksfjölgun á Ströndinni á 19. öld. Á fornum þingstöðum hefur víða verið helgistaður í heiðnum sið, og svo mun einnig á Kálfatjörn. Nokkru fyrir vestan bæinn er hóll, Goðhóll, og stóð þar kot í eina tíð. Hér hefur sennilega staðið hof þeirra Strandara.

Hólmfastskot

Hólmfastskot (Bræðrakot).

Einn afburður á Kálfatjarnarþingi er frægur að endemum í Íslandssögunni. Árið 1698 seldi bóndinn á einni hjáleigunni á Brunnastöðum, Hólmfastur Guðmundsson, 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði. Kaupmaðurinn þar, Knud Storm, hafði ekki viljað nýta þessa vöru, en samt sem áður kærði hann Hólmfast fyrir verzlunarbrot og fékk hann dæmdan í háa sekt. Hólmfastur átti ekkert fémætt nema gamalt bátskrifli, og Knud Storm vildi ekki nýta það fremur en vöru bóndans og krafðist húðláts.

Aslaksstadir-23

Skúr austan Atlagerðis.

Var Hólmfastur bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi og húðstrýktur miskunnarlaust að amtmanni viðstöddum, en því skotið til konungs, hvort hann skyldi ekki dæmdur til þrælkunar á Brimarhólmi. Hér var þó of langt gengið. Hinn danski lögmaður, Láritz Gottrúp, kærði meðferðina á Hólmfasti fyrir konungi, og síðar tóku þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín málið upp, og hlaut Hólmfastur nokkrar miskabætur. Eftir þetta var gerræði kaupmanna hnekkt að nokkru. Píslarnar við staurinn á Kálfatjarnarþingi voru ekki færðar til einskis.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hólmfastur; minnismerki.

Hólmfastur Guðmundsson býr á Bræðrakoti, hjáleigu frá Innri-Njarðvíkum, árið 1703 og telst þá 56 ára. Árið eftir strýkingu Hólmfasts (1699) fékk Knud Storm menn á Kálfatjarnarþingi til þess að veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m.a., „að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann… og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér skylduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum“.
LandakotLandakot er austast í Auðnahverfi. Þar bjó Guðmundur Brandsson, þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1849-1861. Á alþingi barðist hann einkum fyrir því, að öllum flóum og fjörðum yrði lokað fyrir erlendum fiskiskipum, en danska stjórnin var ekki mjög skelegg í landhelgismálum Íslendinga, eins og kunnugt er. Guðmundur drukknaði undan Flekkuvík við þriðja mann haustið 1861.
Á Auðnum bjó Guðmundur Guðmundsson, einn af gildustu bændum á Ströndinni seint á 19. öld, átti 8 til 10 báta, auk þess þilfarsbát og rak stórbú. Á einum af bátum hans reri Kristleifur Þorsteinsson fræði maður á Stóra-Kroppi 1882. Báturinn fórst í stórviðri út af Vogavíkinni. Kristleifur bjargaðist við annan mann, en 5 drukknuðu.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Stóra-Knarrarnes.

Knarrarnes, stóra og litla standa utan við Breiðagerðisvíkina. Við forna heimreið að Stóra-Knarrarnesi er grágrýtisbjarg og á það klöppuð þessi vísa:
„Seytján hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von; ~
svo þá gjörði sem hér stár,
sá hét Bjarni Eyjólfsson. Bjarni, sem rislaði sér við að festa nafn sitt á steininn, var gildur bóndi Á Knarrarnesi um 1700. Menn vilja eigna honum ýmsar steinsmíðar fornar, áletranir á legsteina og jafnvel hleðslu Staðarborgar.
Gerðistangaviti stendur yzt á Atlagerðistanga, reistur til þess að vísa skipum leið milli Keflavíkur og hafna í Innnesjum og bátum til strandar við Stakksfjörð.

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahverfi stendur á tanganum inn af vitanum. Það var útvegur eins og annars staðar á ströndinni. Þar drápu klausturmenn úr Viðey danskan mann veturinn 1540, en sá hafði verið í flokki Diðriks af Mynden, er hann rændi Viðeyjarklaustur á hvítasunnunni sumarið áður. Þá þeir fóru í ver um veturinn, „fóru þeir í Vatnsleysu á skipi og gengu þaðan um nóttina á Ásláksstaði og drápu Jóachim.“ Hann var sá 13., sem tekinn var af lífi fyrir klausturránið. „Þótti mönnum það mikil og góð landhreinsun.“

Móakot

Móakot.

Á Ásláksstöðum stendur timburhús reist úr viði þeim, sem var á skipinu Jamestown, er strandaði í Höfnum 1881.
Á Þórustöðum og í Óttarsstaðahverfinu standa einnig hús, sem reist voru úr því timbri. Brunnastaðir voru metnir einna dýrastir jarða á Vatnsleysuströnd um miðja 19. öld. Þar var eitt bezta útræði á Ströndinni og skammt að sækja á stórgjöful mið. „Um miðja öldina voru margir bændur þar, en allir fátækir og reru hver hjá öðrum á tveggja manna förum, því að ekki áttu allir bát. En svo fluttust að Brunnastöðum tveir miklir athafnamenn, sinn á hvora hálflenduna, og þá skipti um.“
ÞórustaðirGuðmundur Ívarsson hét annar frá Skjaldarkoti í Kálfatjarnarhverfi. Um 1865-1870 lét hann smíða sér teinæring, og var það um skeið eitt bezta skipið við Faxaflóa. „Um 1880 átti Guðmundur auk þess 3—5 sex manna för. Var þá mannmargt hjá honum, allt að 50-60 manns í heimili, því að skipverjar höfðu allir aðsetur þar heima, því að verbúðir þekktust varla.“
Jón Breiðfjörð Jónsson hét hinn. Hann fluttist að Brunnastöðum um 1870 og Iét þá breyta áttæring í þilfarsbát. Um 1890 er talið, að hann hafi gert út 6—8 skip, en auk þess rak hann verzlun. Þá fóru erfið ár í hönd. Erlendir togarar streymdu inn á Faxaflóa, eyðilögðu bátamiðin og aflinn brást. Jón varð að taka 1000 króna bankalán og þótti það stórfé. Hann gat ekki staðið í skilum og varð gjaldþrota og dó skömmu síðar. Hann hafði hýst bæ sinn af stórmennsku, en eftir gjaldþrotið lentu eignirnar í braski og húsin brunnu 1905. Þá var uppgangstími Vatnsleysustrandar á enda um skeið.

Brunnastaðir

Barnaskóli var reistur að Brunnastöðum 1870-1872. Séra Stefán Thorarensen gekkst fyrir skólastofnuninni, og naut hún nokkurs styrks úr Thorchilliisjóði. Þar var Pétur Pétursson, faðir dr. Helga Pjeturs, kennari um skeið. Þetta er einn af elztu barnaskólum á landinu.
Bieringstangi er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, kenndur við Moritz W. Biering kaupmann (d. 1857). Þaðan hefur lengi verið stundað útræði, og þar er stærsta vörin á ströndinni. Um 1840 er þar risin fisktökustöð, salthús og fisktökuhús, sennilega frá Flensborgarverzluninni í Keflavík. Á lofti þeirra voru verbúðir, en í kring stóðu þurrabúðirnar Vorhús, Hausthús og fleiri. Einnig var þar önnur útgerðarstöð, Klapparholt. Eldra nafn á verstöð þessari er Tangabúðir.
bieringstangi-22Á Bieringstanga var reimt eins og á fleiri verstöðvum. Draugurinn var erlendur að uppruna, gekk með hvíta húfu, en ekki mórauða og var því nefndur Tanga-Hvítingur. Hann gerði mönnum ýmsar glettur eins og drauga er siður, og neyttu menn ýmissa bragða til þess að losna við kauða. Eitt sinn skaut bóndinn í Halakoti hann með úlfurhnappi, en það átti að vera draugum öruggt skeyti. Hvítingur sundraðist í eldglæringar við skotið, en skreið saman aftur og hélt uppteknum hætti fram um 1890, en hvarf um þær mundir að sögn.
HalakotHalakot er syðst í Brunnastaðahverfinu.
Þar bjó Ágúst Guðmundsson Ívarssonar á árunum frá 1910-1941. Eftir hann er greinagott rit um sjósókn og búskap á Vatnsleysuströnd á tímabilinu frá því um 1860 og fram um 1900. Hann var formaður frá 1888 til 1940 og missti aldrei mann í sjó og engin slys urðu á skipshöfn hans.
Stakksfjörður gengur inn úr Faxaflóa milli Keilisness og Stakks, kletts undan sunnanverðu Hólmsbergi norður af Keflavik. Á firði þessum voru fræg fiskimið og við hann stóðu og standa enn miklar verstöðvar.

Vogar

Minni-Vogavör.

Á Stakksfirði og undan ströndinni ræktuðu menn fiskimiðin í gamla daga engu síður en túnin. Flestir formenn sóttu á sín sérstöku mið og fluttu þangað slor, fiskúrgang, jafnvel hundsskrokka og annað þess kyns, sem til féll. Það var kallað að bera niður, og sævargróðrar hvatinn nefndist niðurburður, samanber áburður. „Öll þorskgota var borin niður þar á hraunið (Vogahraun) og mikið af slori, og fiskurinn hændist þar að niðurburðinum og varð mestur, þar sem mest var borið niður,“ segir Ágúst frá Halakoti. „Svo gjörðu margir fleiri meðfram öllum Strandarbrúnum og bættu veiðina.“ Ræningjafloti eyðilagði miðin um skeið, en verstöðvar hafa eflzt að nýju við Stakksfjörð á síðustu áratugum.
Vogar, dálítið þorp, stendur utan til við Vogavík. Þar er höfn, hafnargarður og bryggja, frystihús, söltunar- og fiskvinnslustöð. Þar eru gerðir út 2 til 3 vélbátar, 50—100 lestir að stærð. Útgerð hefur lagzt niður á Vatnsleysuströnd, en bændur þar hafa ekki með öllu slitið vinfengi við sjóinn. Synir sjósóknarans, Ágústs í Halakoti, stunda hér útgerð. Hér fjölgar íbúunum, þótt þeim fækki á Ströndinni og fornar útvegsjarðir eins og Stóra-Vatnsleysa og Flekkuvík leggist í eyði.
Storu-Vogar-22Höfuðbólið var Stóru-Vogar. Hét áður Kvíguvogar, kennt við sækýr eins og Kálfatjörn. Þar var kirkjustaður fram yfir siðaskipti. Kirkjuhóll nefnist hóll fyrir sunnan veginn, þar sem ekið er inn í Vogaþorpið. Þar á kirkjan að hafa staðið. Nú eru Stóru-Vogar í eyði, og mikill reykháfur trónar upp úr bæjarrústunum. Í túnfætinum ofan við vörina liggur steinn. Eitt sinn á skip Jóns Daníelssonar að hafa steytt á honum í lendingu. Á næsta flóði óð Jón bóndi eftir bjarginu, stakk sjóvettling í munn sér og orgaði ógurlega við átökin. Hér liggur það, einustu minjar um hinn jötuneflda Vogabónda. Minni-Vogar eru í byggð, og í landi þeirra standa fiskvinnslustöðvarnar nýju. Þannig fer um hverfula heimsins dýrð.

Storu-Vogar-25

Stóru-Vogar 1960.

Frændi og fóstri Steinunnar gömlu hét Eyvindur Honum gaf hún Vatnsleysustrandarhrepp, land milli Vogastapa og Hvassahrauns, fyrir alls ekki neitt. Hann bjó að Kvíguvogum.
Á Heiðarbæ i Þingvallasyeit bjó Hrolleifur Einarsson, Ölvissonar barnakarls. Ölvir, afi hans, hafði verið mikill víkingur, en skemmti sér ekki við það að henda börnum á spjótsoddum, eins og þá þar víkingasiður. Því hlaut hann auknefnið barnakarl. Heldur þótti Hrollleifi leið murtuveiðin á Þingvallavatni, sem reyndar hét Ölfusvatn í þann tíð, og lítið skyn bar hann á náttúrufegurðina þar efra. Hann bauð Eyvindi jarðaskipti, en skoraði hann á hólm, vildi hann ekki ganga að kaupunum. Ekki leizt Eyvindi ráðlegt að berjast við Hrolleif og fluttist að Heiðarbæ. Þar festi hann ekki yndi og leitaði að nýju á náðir Steinunnar frænku, en hún setti hann niður á Bæjarskerjum. Þannig hófst fólksflóttinn til Suðurnesja þegar á landnámsöld.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1965.

Í byrjun 18. aldar býr Jón Daníelsson hinn sterki í Stóru-Vogum (d. 1855). Hann keypti jörðina og sat þar fyrstur sjálfseignarbænda frá því á miðöldum. Jón lét smíða sér skútu og var aflasæll og auðugur og talinn fjölkunnugur. Hann á að hafa komið fyrir draugum, rekið illa anda úr mönnum og kunnað skil á töfrasteinum, sem gerðu menn fiskisæla. Þá sótti hann í„Mölvík undir Vogastapa. Sonur Jóns Daníelssonar var Magnús. Hann lærði siglingafræði og skipasmiðar i Kaupmannahöfn 1816 og var skipstjóri og skipasmiður í Vogum og tók sér ættarnafnið Waage. Sagt er að hann hafi smíðað „nálægt 100 róðrarskipa og báta og tvo þilfarsbáta frá stofni“. Hann varð fyrstur til þess hér á landi að rita um nauðsyn sjómannafræðslu og bauðst til þess að kenna mönnum fræði sín, en ekkert er vitað um það, á hvern hátt menn færðu sér það í nyt.

Þilskip

Þilskip.

Bændaánauð og einokun hafði sogið svo merg úr bændum við Faxaflóa, að þeir áttu varla sjófæra fleytu stærri en tveggja manna för, þegar líður á 18. öld. Þegar slakað var á ánauðinni og einokunarfjötrunum, færðist þegar nýr þróttur í atvinnulífið.
Þrír bændur urðu fyrstir til að rétta úr kútnum, hófu skipasmíðar og útgerð í miklu stærri stíl en áður hafði þekkzt. Jón Daníelsson í Vogum er frægastur, en nafni hans Sighvatsson í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík tók að sér að smíða skútu með aðstoð Gísla Péturssonar, skipasmiðs á Óseyri við Hafnarfjörð, árið 1814.

stapinn-22

Stapinn; Brekka og Hólmurinn.

Ekki leizt nágrönnum hans gæfulega á þessar tiltektir kotbóndans, en hann lét hrakspár ekkert á sig fá, og þrem árum síðar hljóp fyrsta þilskipið af stokkunum í Njarðvík. Meðan Jón vann að smíði skipsins, dvaldist Jón Norðfjörð, sonur hans, í Kaupmannahöfn og lauk þar stýrimannsprófi 1817. Hann stýrði skútu föður síns fyrstu árin, en síðar tók bróðir hans, Pétur við stjórninni.
Ari Jónsson, bóndi í Innri-Njarðvík, gerðist þriðji bilskipseigandinn við Vogastapa. Árið 1818 eiga skip þessara þriggja bænda öll að hafa verið við veiðar og reynzt mestu happaskip. Þau voru smá, ekki mikið yfir 10 lestir, en boðuðu þó þáttaskil í fiskveiðum Íslendinga. Í kjölfar þeirra sigldu stærri skútur, þegar leið á öldina. Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti …er fyrsti kotungurinn hér syðra, sem hófst algerlega af sjálfum sér, alinn upp í fátækt, og varð einn af gildustu útvegsbændum. Gengi bænda við Vogastapa kveikti mönnum vonir um betri daga á Íslandi.

Skúta

Skúta.

Skútuöldin við Faxaflóa hefst í Vogum árið 1863. Þá keypti Egill Hallgrímsson bóndi í Austurkoti ásamt öðrum félögum sínum í hreppnum skútuna Lovísu um 45 rúmlestir að stærð. Í Vogum er bezt höfn frá náttúrunnar hendi við Vatnsleysuströnd og eina bjarglega skútuhöfnin. Lovísa og aðrar skútur þeira Vogamanna efldu hér stórútgerðarstöð.
Þilskipin, sem þeir Jón Daníelsson létu smíða og smíðuðu um 1817, voru bátar ekki haffærandi. Þau voru þáttur í miklum vexti bátaflotans á fyrri helmingi 19. aldar og lögðu grunn að skútuöldinni, næsta stigi í fiskveiðasögu íslendinga.
Egill Hallgrímsson (1817—’83) gerði út marga báta, að sögn, rak lýsisvinnslu, fisk- og saltverzlun og hafði margt í vöfunum. Hann hafði Lovísu í beinum siglingum til Spánar, sendi þangað fisk og keypti salt. Árið 1870 tók sonur hans, Klemenz við skipstjórninni, en hann var einn af mestu sjósóknurum á Suðurnesjum um sína daga.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

Einn af landsetum Egils var Nikulás Jónsson í Norðurkoti. Hann gerði út áttæring og sexmannaför, 5—6. Bátaútvegurinn hélt velli, þótt skútur bættust í hóp fiskiskipa. Það var skammt á miðin og uppgripaafli oft á tíðum. Ágúst í Halakoti segir, að þorskur hafi gengið „alla leið inn undir lendinguna á Hólmanum undir Grímshól og Mölvík og allt Hólhraunið og upp undir Stapann og Vogabrúnir. Á öllu þessu svæði var oft svo mikill fiskur í þorskanet, að daglega var þangað sótt fullfermi og sum skip tvær til þrjár hleðslur á dag bæði í net og á færi, og var hvergi jafnstór fiskur sem þarna undir Stapanum, á Vogabrúnum og um allt Vogahraun“.
Árið 1892 átti Klemenz Egilsson í Minni-Vogum nýjan áttæring. Þá var slíkt mokfiski undir Stapanum, að skipshluturinn greiddi bátsverðið á einni vertíð. En þar með var lokið auðsæld gullkistunnar, en óvæntir atburðir fóru í hönd. Þessi afli lifir enn í minni Vogamanna, og þeir kenna togveiðum um, að hann er þrotinn.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð. Vogastapi, grágrýtisberg, hefst utan Vogavíkur, um 80 m. á hæð. Stapinn nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkistan í sóknarlýsingum 19. aldar „af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi í hrauninu þar rétt upp undir“. Skúli Magnússon landfógeti segir um 1785: „Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi, tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin í notkun.
Ágúst frá Halakoti segir, að það hafi verið gaman að róa undir Vogastapa, „að skríða þar út með landinu í lygnum og sléttum sjó og taka svo nógan, fetan og stóran þorsk í netin. – – – Það verður tæplega sagt um of af þeirrí fiskimergð, sem gekk sum árin undir Vogastapa, enda var hann áður fyrr kallaður Gullkista Íslands og bar það nafn með rentu.“ Hann telur, að á árunum frá 1870-’94 hafi gengið um 200 skip úr Brunnastaðahverfinu, Vogum og Njarðvíkum. „Þegar fiskur var kominn undir Stapann, þá sóttu allir þangað, — sömuleiðis allir Vatnsleysingar, ef ekki var fiskur á Vatnsleysuvík. Var því oft ærið þéttskipað, þegar allir voru komnir undir Stapann.“

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Kvíjuvogabjörg hlutu að nafnfesti þjóðsöguna um Marbendil og sækýrnar. Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd Vogastapa, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt. Margir urðu úti á Stapanum og hröpuðu fyrir björg, og eiga þeir að vera þar enn á flökti. Stapadraugar eru taldir með afbrigðum kurteisir, taka jafnvel ofan höfuðið fyrir tækni nútímans.
Grímshóll heitir efsta bunga Stapans. Hann á að vera kenndur við Grím Rangæing, sem varð eftir af vermönnum og réðst til vistar hjá Stapabónda og gekk þar að eiga heimasætuna.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Undir Vogastapa er dálítið undirlendi, ef að er gáð, en hefur verið miklu meira áður, því að sjór hefur brotið hér land.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), „anleggshúsum“ Knudtzons gróssera reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Anlegg“ nefndust salt- og fisktökuhús
stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátar, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.

Brekka

Brekka undir Stapa 1928.

Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk. Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru tii skamms tíms. Kerlingabúðir voru nokkru utar. Um Reiðskarð lágu fornu reiðgöturnar upp Stapann. Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku. Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.

Stapakot

Stapabúð undir Stapa.

— Þess vegna voru 1000 netakúlur seldar á uppboði eftir Guðna Jónsson á Brekku á 5 krónur, og stórjörðin Stóru-Vogar var boðin upp til skuldalúkningar á 2000 króna láni í Landsbankanum, og enginn bauð yfir það. — Þannig var hernám Engiendinga við Faxaflóa 1895.
—Hvernig því lyktar það herrans ár 1940, get ég engu um spáð“. segir Ágúst Guðmundsson.
Annar sjósóknari af Vatnsleysuströnd, Benjamín Halldórsson frá Naustakoti, segir, að oft hafi mátt telja á Vogavík 50-100 enska togara, sem leitað höfðu vars undan ofviðrum, en stunduðu veiðar á Faxaflóa. Á leiðinni út köstuðu þeir á víkinni og toguðu frá landi.
reidskard-25Eitt sinn strandaði enskur togari upp í fjöru undan Útskálum með vörpuna aftan í sér. Þetta var á aðfangadagskvöld. Skipverjar sáu ljósadýrð í kirkjunni og héldu, að þar væri togari í aðgerð og stefndu þangað. Þá var strandgæzla nær engin, svo að bændur voru varnarlausir gegn þeim ræningjum, sem óðu að landi og eyddu byggðina. Aðgerðarlausir vildu þeir þó ekki vera. Þeir fluttu hraungrýti út á miðin í þeirri von, að það eyðilegði vörpurnar, en ekki bægði það veiðiþjófum frá landi. Það er ekki mjög blómlegt umhorfs á Vatnsleysuströnd: byggðin er slitin, stórbýli í eyði og húsakostur á sumum jörðum lítt breyttur frá því í lok 19. aldar.
VogarHér hefði orðið samfelld byggð og borg stæði í Vogum, ef ræningjaflotinn hefði ekki lagzt að landi. Nú flosnuðu menn upp og flýðu byggðina, en miðin, sem þeir höfðu ræktað um aldir, lögðust i örtröð og auðn.
Gildustu útvegsbændur þraukuðu aflaleysið, keyptu sér skútur og sóttu dýpra, og síðar hófst vélbátaútvegur. Fyrsta vélbátinn keypti Ásmundur Árnason í Hábæ í Vogum árið 1907. Vogamenn höfðu verið brautryðjendur í þilskipaútgerð, en nú voru þeir orðnir eftirbátar annarra, eins og bezt sést á því, að vélbátaútvegur hófst hér á landi 1902 og efldist mjög á næstu árum, en vélbátar náðu ekki til Voga fyrr en 5 árum síðar. Hin fisksælu mið voru þrotin og útgerð gekk illa.
VogarÁ styrjaldarárunum glæddist afli að nýju, og um 1920 eignuðust bændur á ströndinni trillubáta. Ekki varð sú útgerð þeim mikil féþúfa. Það er fyrst með tilkomu 25 til 50 lesta vélbáta um 1940, að útgerðin tók að hjarna við að nýju í Vogunum. Í hönd fóru friðunarár heimsstyrjaldar innar. Þegar togaraflotinn birtist að nýju og allt sótti í sama horfið og áður, var Faxaflóa lokað fyrir togveiðum árið 1952 og fiskveiðilandhelgin færð út 1958. í Vogum hefur risið upp vísir að þorpi. en bílabrautin nýja sneiðir þar hjá garði, og íbúarnir eru uggandi um, að straumur tímans muni fylgja brautinni til bæjanna fyrir utan Vogastapa.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 880-883.

Breiðagerði

Við lendingu Breiðagerðis.

Surtla

Á Tilraunastöðinni á Keldum hangir allmerkilegur kindahaus upp á vegg. Þessi dökkbrúni tvíhorna haus tengist að mörgu leyti Herdísarvík. Augun kveða skýrt á um viðhorf skepnunnar til þeirra atburða er hún upplifði á síðustu mínútum ævinnar. Þau segja meira en fjölmörg orð um hana Surtlu. En hérna koma þó fáein þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Vegna mæðiveikinnar 1951-52 var ákveðið að Suðurland yrði fjárlaust eitt ár til að koma í veg fyrir smit við fjárskiptin. Hver kind varð því að nást af fjalli. Á Reykjanesskaga var hins vegar svört ær, Surtla, kennd við Herdísarvík. Neitaði hún með öllu að láta góma sig. Lamb hennar náðist fljótlega en eftir fjölmargar ferðir til að ná Surtlu í hús var hún enn á fjalli. Var þá sett fé til höfuðs Surtlu. Hópur manna leitaði og elti Herdísarvíkur-Surtlu laugardaginn 31. ágúst 1952. Hlupu þeir fram og aftur um Herdísarvíkurhraun í ævintýralegum eltingaleik við Surtlu á sjöttu klukkustund, og leikurinn hefði getað staðið lengur. Jón Kristgeirsson hefur lýst síðustu augnablikum Herdísarvíkur-Surtlu í Lesbók Morgunblaðsins:

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

„Þetta var væn kind og falleg. Andlitið mikið og frítt og sérstaklega gáfulegt.
Þegar hér var komið sögu, myndaðist allt í einu nýtt og óvænt viðhorf í málinu. Þá bar að fjóra menn, vopnaða byssum, neðan frá undirlendinu, þrjá úr Reykjavík og einn úr Sandgerði. Svall þeim veiðibræði mjög í huga, er þeir sáu ána. Einn var svo óðfús að skjóta, að hann gáði þess ekki, að þegar hann miðaði á ána, þá hafði hann Hákon líka í sigti.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Hallgrímur benti honum á þetta og bað hann blessaðan að skjóta ekki bróður sinn. Lét þá skyttan byssuna falla. Hákon ávarpaði aðkomumenn og bað þess að ærin væri ekki skotin. En orð hans báru sama árangur og orð Snorra forðum, er hann sagði í Reykholti: „Eigi skal höggva.“ Skotin gullu við hvert af öðru. Lokst tókst Sigurgeiri Stefánssyni að fella hana í þriðja skoti. Var það, sem betur fór, eina skotið, sem hæfði.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Alveg eins og Snorri, mest skáld Íslands um langan aldur, féll fyrir öxinni, þannig lá nú svarta sauðkindin, sem frægust hefur orðið allra íslenzkra sauðkinda, fallin fyrir kúlunni. Er það síðasti fulltrúi þess kynstofns á Suðvesturlandi, sem um aldaraðir var meginbjargvættur fólksins, og veitti því fæði, klæði, skæði, akur, fénað og öll gæði. Galt hún sín gjöld á sama hátt og ættingjar hennar og félagar gjörðu. Lét líf sitt til meintrar velfarnaðar mannkindinni.
Ég harma það, að skapadægur hennar urðu þessa stund og mér þykir miður, að ég skyldi verða þátttakandi í þessum örlögum hennar, enda þótt það hafi orðið án vilja míns.
Við Hákon lögðum nú af stað til hraunsins að leita fata okkar. Reyndist það torsótt, löng leið og seinfarin, þegar allur spenningur var horfinn. Myrkur datt nú óðum á. — Hraunið tók á sig allskonar undramyndir, sem við könnuðumst ekki við.“
Surtla var veginn á Brúnunum austan við Lyngskjöld.

Surtla

Surtla.

Eftir að fyrsta fréttin um Surtlu, „Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag“, birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. sept. varð hún tilefni til nokkurrar umfjöllunar. Þann 6. sept. skrifaði Kristín Sigfúsdóttir frá Syðri-Völlum um „Surtlu frá Herdísarvík“ og Sigurgeir Stefánsson endurtekur fyrri skrif Jóns Kristgeirssonar, kennara, í Morgunblaðinu 11. sept. og vitnar þá m.a. í frásagnir í útvarpi og skrif Jóns í Tímann um síðasta dag Surtlu. Þann 3. sept. hafði Ólafur Þorvaldsson skrifað í Morgunblaðið, bls. 6, þar sem eftirfarandi fyrirsögn var: „Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Eftirmæli Herdísarvíkur-Sturlu“.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Í skrifum sínum 3. sept. segir Ólafur Sturlu hafa verið venjulega á, sem enginn hafði tekið eftir fyrr en hún varð sá einstæðingur er eftirsóttur varð – með næga ofsóknarmenn, sem gjarnan hefðu mátt vera færri. Ólafur hafði furðar sig á öllum þeim sögum, sem gengið höfðu um Sturlu frá því hún varð eftirlegukind á Reykjanesskaganum sem og eldtingarleik þeim er fóthvötustu smalar þar um kring höfðu átt við þessa undrakind. Og það var ekki fyrr en fé var sett til höfuðs henni að hún hún var felld samdægurs. Surtla hafi orðið svo dýr að fáar kindur hafi dýrari orðið í landinu – jafnvel óþarflega dýr. Og eitthvað hafi ferðalögin í kringum Surtlu kostað. „Já, það var orðið dýrt að smala í Herdísarvík“. Og nú er „hinn þúsund ára gamli fjárstofn á Reykjanesskagagnum fallinn til síðustu kindar“.

Mosaskarð

Í Mosaskarði á Herdísarvíkurfjalli.

Í fréttinni í MBL 3. sept., bls. 8, segir frá falli svörtu ærinnar á Reykjanesskaga eftir að til höfuðs henni höfðu verið lagðar tvö þúsund krónur: „Einhver harðgerasta og fótfráasta saukind, sem almenningur þessa lands hefur heyrt getið um var felld s.l. laugardag. Um eins árs skeið hefur Surtla, eins og hún var nefnd, verið eina sauðkindin á öllum Reykjanesskaga og hafði hún gert yfirmönnum fjárskiptanna svo heitt í hamsi, að lagðar höfðu verið 2000 krónur til höfuðs henni, lifandi eða dauðri…
Eftir að fjárhæðin hafði verið lögð til höfuðs Surtlu, fjölgaði þeim, er að henni leituðu. Eftir hádegi s.l. laugardag fóru m.a. fjórir menn, bræðurnir Hákon, Hallgrímur og Jón Kristgeirssynir, sem allir eru þaulvanir fjármenn, ásamt Ólafi Ólafssyni brunaverði og hugðust þeir reyna að ná Surtlu á lífi“. Síðan er frásögn þeirra félaga rakin líkt og að framan greinir. Surtla hljóp að lokum um snarbrattar Brúnirnar og var að kasta mæðinni þegar „Í kíki okkar sáum við á Surtlu, hélt Kristinn áfram, inni á milli kletta. Við Sigurgeir fórum þá upp á klettana. Ég var að vestanverðu við Surtlu, Sigurgeir að austanverðu. Er við höfðum komið okkur fyrir skaut Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Hún tók á rás vestur eftir, sneri við austur á bóginn og lenti í fang Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti – Þannig endaði æfi þessarar harðgerðu svörtu saukindar. Hún var í þremur reifum“.

Herdísarvík

Mynd af Surtu greypt í Herdísarvíkurfjall.

Um „Surtlumálið“ sagði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík m.a. í viðtali við Ferlir (sjá Lýsingar; Stakkavík – með Eggerti Kristmundssyni), en hann var einn þeirra er ólst upp með henni á svæðinu: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Horfa þarf á framangreint með augum þess „mannlega“; veiðimanninum er bráðin eftirsóknarverð – og er þá jafnan ekki spurt um tilgang.

Heimildir m.a.:
-MBl. 3. sept. bls. 6 – Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Ólafur Þorvaldsson.
-MBl. 3. sept. 1952, bls. 8 – Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag – frétt.
-Mbl. 6. sept. 1952 – Surtla frá Herdísarvík – Kristín Sigfúsdóttir.
-Mbl. 11. sept. 1952 – Herdísarvíkur-Surtla – Sigurgeir Stefánsson.
-Björn Hróarsson – „tilkynning“.

Surtla

Surtla á Keldum.

Dalssel

Gengið var til norðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli, framhjá Kastinu og inn að Nauthólum í Fagradal. Á sumum landakortum er Sandakravegurinn dreginn þessa leið og áfram til norðvesturs að Skógfellaveginum ofan við Stóru-Aragjá. Áður en haldið var áfram um Aura og Mosadal var ætlunin að huga að mögulegum Brúnavegi úr Fagradal áleiðis inn á Brúnir ofan við Kálffellsheiði. Ef vel gengi var ætlunin að koma við í Oddshelli.

Göngusvæðið

Að lokum var svo markmiðið að skoða kaflann úr Fagradal til vesturs að Stóru-Aragjá m.t.t. þess hvort þarna hafi fyrrum verið sú þjóðleið er ætlað hefur verið. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum frá einu af síðustu jökulskeiðum ísaldar. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Hraunhetta hylur hæsta hluta fjallsins í norðvestri (KristjánSæmundsson og Sigmundur Einarsson, 1980) en yngri hraun frá nútíma liggja umhverfis fjallið.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).

Kastið

Kastið.

Um klukkustundar gangur er með fjallinu inn í Fagradal. Á leiðinni er gengið framhjá Sandhól, en norður með honum liggur grópuð þjóðleið yfir á Skógfellastíginn milli Skógfellanna. Þessi leið hefur gjarnan verið nefnd Sandakravegur. Kastið stendur sem fell úr úr Fagradalsfjalli. Norðan hennar er Fremstidalur, þá Miðdalur og nyrst Innstidalur. Milli þeirra síðarnefndu stendur Sandhóll-innri úti í hrauninu. Þegar komið er inn í Fagradal eru Nauthólar og Nauthólaflatir fremst. Ofan við þær er Rauðgil.  Norðaustar eru þrír hólar og er Dalssel norðan í þeim. Tóftirnar eru sunnanverðum lækjarbakka. Enn má sjá þar gróna húsatóft, kví og stekk vestast.

Sauðaskjól í Kálffelli

Þá var haldið inn á Brúnir. Varða er syðst á þeim, en síðan taka við fokmelar og grjótþýfi. Enga greinilega götu er þar að sjá. Hemphóll sést vel í norðri, en ekki var að merkja götumynd áleiðis að honum.
Haldið var niður að Kálffelli og m.a. litið á sauðaskjól og íveruhelli. Landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Grindavíkur liggja um Kálffellið. Í lýsingu á merkjum Vatnsleysustrandarhrepps gerð af Gunnari á Kálfatjörn 1981 kemur fram að suðausturmörk og suðurmörk hans voru eftirfarandi: „Úr Markhelluhól liggja mörkin til útsuðurs sjónhending um Hörðuvallakofa og milli Dyngna, þ.e. skarðið milli Stóru-Dyngju og Grænudyngju, síðan sömu stefnu upp og suður Vesturháls um Grænavatnseggjar og Selsvallafjall í móbergsfell nær vesturbrún hálsins, upp af Þrengslum og Hraunsseli. Fell þetta er ýmist nefnt Framfell eða Vesturfell. Þaðan liggja mörkin til útnorðurs í Hraunsvatnsfell og þaðan í Vatnskatla á Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla- Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna en þaðan til sjávar yst í Grynnri-Skoru á Vogastapa“.

Oddshellir

Í Oddshelli.

Oddshellir er í Brunnhól. Opið er eins og brunnop, en auk þess er hann opinn í toppinn. Um tveir metrar eru niður á gólfið. Talið er að Oddur í Grænuborg hafi átt afdrep í hellinum og af því mun nafngiftin vera dreginn. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað. Sauðhellarnir eru skammt norðan við Oddshelli. Í gígnum eru leifar af hlöðnu gerði svo og fyrirhleðsla skammt norðar. Þótt Kállfellið virðist standa hátt í heiðinni er hæð þess ekki nema 87 m.y.s.
Haldið var til suðurs niður á Aura og þeim fylgt að austurgjárbrún Mosadals. Engin ummerki eftir götu voru þar með gjárbrúninni, en varða á hól ofan hennar. Engin ummerki voru heldur á gjárbarminum (Mosadalsgjá) að vestanverðu. Ef gata hefur legið um Fagradal og Aura niður á Skógfellastíg ofan Snorrastaðatjarna þá hefur sú gata legið mun austar, eða við enda gjánna, með stefnu í suðvestanvert Kálffell, við rætur Kálffellsheiðar.
Snorrastaðatjarnir í síðdegissólinniListaverkaísmyndanir á pollum, sígrænn einir, sólbakaður mosi og kyrrð vetrardægrar í logninu voru sem viðauki á annars ágæta gönguferð. Að vísu voru þátttakendur orðnir lúnir til fótanna að henni lokinni, en upplýsing hugans er aflað var á leiðinni vó verulega á móti þreytunni og mun lifa áfram að henni úrsérgenginni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Leiðin er um 18 km.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Kálffell

Kálffell – rétt.

Fornasel

Gengið var um Brunntorfur að Gjáseli í Almenningum. Þangað er um 20 mín. gangur eftir slóða að skógræktinni sunnan Rallycross-brautarinnar við Krýsvíkurveginn og áfram í gegnum gróið hraun sunnan við Hrauntungur.

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Selið er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól, sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er um að ræða fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Stígur liggur upp í það frá bænum, framhjá því og áfram upp í Fornasel, sem er þarna ofar og austar. Vörður eru við stíginn í gegnum Gjárnar og er heil varða á fallegum stað skammt neðan við selið. Skammt vestan við Gjásel eru tveir skúta með hleðslum fyrir, Kápuskjól og Kápuhellir. Á milli þeirra liggja landamerki Þorbjarnastaða og Straums, yfir Jónshöfða.

Stígnum var fylgt upp í Fornasel. Þangað er u.þ.b. 15 mín. gangur. Vel gróið er í kringum Fornasel, stekkur sunnan við hólinn, sem það stendur á og stórt og vatnsmikið vatnsból svo til í miðju tóftanna.

Fornasel

Fornasel.

Þarna eru tóftir tveggja rýmis húsa, auk þess sem stök tóft stendur skammt sunnar. Það mun hafa verið eldhúsið. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.
Í bakaleiðinni var gengið í gegnum hinn mikla furu- og greniskóg í Brunntorfum og komið við í Þorbjarnarstaðaborginni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdís og Elisabet

Vinaskógur er skógarlundur í landi Kárastaða í Þingvallasveit, skammt frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Til Vinaskógar var stofnað í kjölfar átaks í landgræðslu árið 1989. Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands var verndari átaksins og átti jafnframt hugmyndina að Vinaskógi. Að ósk Vigdísar var skóginum fundinn staður þar sem erlendir þjóðhöfðingjar sem heimsækja Ísland gætu komið og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar og var staðsetning Vinaskógar valin með tillitil til þess að hinir erlendu gestir gætu komið þar við á leið sinni til Þingvalla en heimsókn þangað er fastur liður í opinberum heimsóknum erlendra þjóðhöfðingja til Íslands.

Fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem gróðursetti í Vinaskógi var Elísabet II Bretadrottning, þann 26. júlí 1990. Í kjölfarið hefur fjöldi erlendra þjóðhöfðingja gróðursett í Vinaskógi, t.d. allir þjóðhöfðingjar Norðurlanda á Lýðveldishátíðinni árið 1994. Einnig hafa ýmsir aðrir þekktir einstaklingar gróðursett í Vinaskógi og má þar nefna Yoko Ono árið 1991.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Ilmbirki og reyniviður eru einu trjátegundirnar sem gróðursettar hafa verið í Vinaskógi en aðrar tegundir hafa breiðst þar út af sjálfsdáðum.

Fyrstur erlendra þjóðhöfðingja sem heimsótti Vinaskóg og gróðursetti þar tré var, sem fyrr sagði, Elísabet önnur Englandsdrottning, þann 26. júní 1990. Síðan hafa margir þjóðhöfðingjar, sem og aðrar samkomur, gróðursett þar tré með eða án forseta Íslands en á þann hátt hefur Vinaskógur öðlast mikla sérstöðu.

Vinaskógur er á vesturmörkum jarðarinnar Kárastaða í Þingvallasveit, ekki lang frá hinum helga stað Þingvöllum sem tekin var á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004.

​Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu skógarins.

Vinaskógur

Vinaskógur – merki á stöpli.

​Vinaskógur er í raun smár, ungur skógarlundur og um hann liggur greiðfær stígur. Áhugavert er að skoða hvaða þjóðahöfðingjar og aðrar samkomur hafa heimsótt skóginn, en listi yfir þá er að finna á bautasteinum á staðnum.

​Einvörðu hefur verið gróðursett ilmbirki og reyniviður á svæðinu. Gulvíðir og loðvíðir hafa svo breiðst út af sjálfsdáðum.

Til Vinaskógur var stofnað í tilefni Landgræðsluskógaátaksins en þáverandi forseti frú Vigdís Finnbogadóttir var verndari þess. Að hennar ósk var fundinn staður þar sem forsetinn gæti komið með erlenda þjóðhöfðingja og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar.
Síðan hefur Forseti Íslands verið verndari Vinaskógar.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson var hvatamaður að því að aðkoma og aðstaða í Vinaskógi var endurbætt á árunum 2002-2004.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Vinask%C3%B3gur
-https://www.skogargatt.is/vinaskogur

Vinaskógur

Vinaskógur – stöplar með skiltum þeirra sporgöngumanna (-kvenna) Elísabetar árið 1990.

Haukar

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, tók saman upplýsingar um minnisvarða í Hafnarfirði. Þar kemur eftirfarandi fram, auk annars:

Sörli

Sörli

Sörli.

Hestamannafélagið Sörli var stofnað 7. febrúar 1944. Félagsaðstaða og reiðhöll Sörla er að Sörlastöðum við Sörlaskeið 13a í Hafnarfirði. Minnismerki um stofnuna er á hestasteini er norðan við reiðhöllina.

Vatnshlíðarlundur –
Hjálmar R. Bárðarson

Vatnshlíð

Minnismerki – Vatnshlíð.

Í Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns er minningarlundur. Lundurinn er til minningar um hjónin Hjálmar Rögnvald Bárðarson siglingamálastjóra og Else Sörensen Bárðarson.
„Þau gáfu hluta eigna sinna til landgræðsluskógræktar, þar sem áður var lítt gróið bersvæði.
Með virðingu og þökk,
Landgræðslusjóður 2012.“

Lundurinn er í hlíðinni vestan Hvaleyrarvatns.

Mirai no Mori – Klifsholti – Íslensk-japanka félagið

Klifsholt

 Mira No Mori.

Árið 2001 hófu félagar í Íslensk-Japanska félaginu gróðursetningu trjáa í landnemaspildu í Klifsholti, norðan við Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Skógurinn ber heitið Mirai-no-mori, þ.e. skógur framtíðar. Tíðkast hefur ár hvert að fara að reitnum og gróðursetja tré.

Reiturinn er við reiðstíg er liggur frá Sléttuhlíð að Búrfellsgjá, norðan Smalaskálaholts. Í reitnum er tré-/járnsúla með áletrunni Mirai-no-mori (未来の森).

Trjálundur Alþjóðasamataka Lions

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Alþjóðasamtaka Lions er ofan/austan Sléttuhlíðar, skammt frá Kaldárselsvegi. Við reitinn er steinstöpull. Á honum er skjöldur með áletrunni:
„Fundur Alþjóðastjórnar Lions haldinn á Íslandi 2019 – Guðrún Yngvarsdóttir, alþjóðaforseti Lions 2018-2019“.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Lions.

Trjálundur Lionsklúbbs Hafnarfjarðar er rétt norðvestan við Smalaskálahvamm norðan Kaldárselsvegar. Í honum er stuðlabergssteinn. Á hann er letrað: „Stofnaður 14. apríl 1956. Til minningar um láta félaga“.

Trjálundur Rotary

Hafnarfjörður

Rotary.

Trjálundur Rótarý er skammt norðan trjálunds Lions, norðan Smalaskálahvamms. Við lundinn er bekkur. Á honum er m.a. skjöldur með áletrun: „Rotary – Til minningar um Rótarýfélaga.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2002.
Jón Guðmundsson f. 1929 – d. 2000.
Jón Vignir karlsson f. 1946 – d. 2017.“

Guðlaug Lára Björgvinsdóttir (1946-2021)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Guðlaug B.

Við gangstíg gegnt Eskivöllum 21 er bekkur, gefinn íbúum Hafnarfjarðar af Braga Brynjólfssyni. Á bekknum er skilti: „Til minningar um Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur (Lóa), 14.04.1946-11.01.2021“.

Bragi var innfæddur Hafnfirðingur, fæddist, að eigin sögn, „hálfur inni í Hellisgerði“. Staðreyndin er sú að foreldrar Braga bjuggu í húsi er skagaði fyrrum inn í Hellisgerði, en sjálfur fæddist drengurinn á St. Jósepsspítala, en dvaldi í uppvaxtarárunum í viðbyggingu nefnds húss.
Bragi giftist Guðlaugu Láru Björgvinsdóttur árið 1968 og hófu þau búskap í Hafnarfirði þar sem þau bjuggu alla tíð, lengi á Hjallabraut 92 og síðustu árin á Eskivöllum 21a.

Bragi Brynjólfsson lést 12. mars 2024. Nauðsynlegt er að bæta við minningarskilti um eiginmanninn Braga á bekkinn þann at’arna.

Hjartarsteinn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Björgvin Halldórsson.

Hjartasteinn til heiðurs tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni var afhjúpaður framan Bæjarbíós við Strandgötu 6 í Hafnarfirði 2018. Um var að ræða heiðursverðlaun hátíðarinnar Hjarta Hafnarfjarðar. Hátíðin er haldin í Bæjarbíói.

Hjartasteinn til heiðurs leikaranum, söngvaranum, tónskáldinu, skemmtikraftinum og Hafnfirðingnum Þórhalli Sigurðssyni, best þekktum sem Ladda, var lagður fyrir framan Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar 2022. Hjartasteininn hlaut Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært öllum aldurshópum um árabil.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Þórhallur Sigurðsson.

Hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur var lagður í hjarta Hafnarfjarðar fyrir framan Bæjarbíó 30. apríl 2022. Hugmynd að fallegum virðingarvotti og minnisvarða kviknaði fyrst í samtali við höfundinn sjálfan í kjölfar þess að hún var heiðruð í Hafnarfirði fyrir ritverk hennar og framlag til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna 2018. Guðrúnu og fjölskyldu leist vel á hugmyndina og nú hefur hjartasteinn til minningar um einn ástsælasta og vinsælasta rithöfund okkar tíma verið afhjúpaður. Guðrún kvaddi þann 23. mars.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minningarsteinn; Guðrún Helgadóttir.

Eins og áður sagði er Magnús sá fjórði sem nýtur þess heiðurs að hljóta Hjartasteininn í Hjarta Hafnarfjarðar. Fyrir eru hjartasteinar til heiðurs Björgvini Halldórssyni, tónlistarmanni og bæjarlistarmanni Hafnarfjarðar, Þórhalli Sigurðssyni, Ladda leikara og tónlistarmanni, og þá er hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar, sem lést 23. mars 2022.

Tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson er fjórði listamaðurinn sem fær Hjartastein sér til heiðurs við Bæjarbíó í Hafnarfirði.

HMB

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Þann 12.11.2015 spann eins hreyfils kennsluflugvél af gerðinni Tecnam P2002JF til jarðar í Hafnarfjarðarhrauni með þeim afleiðingum að báðir flugmennirnir létust. Þeir voru báðir flugkennarar við Flugskóla Íslands.

Mennirnir hétu Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson. Hjalti Már var búsettur í Hafnarfirði og Haukur Freyr var búsettur í Garðabæ.

Hjalti Már og Haukur Freyr störfuðu sem flugkennarar hjá Flugskóla Íslands.

Hafnarfjörður - minnismerki

Hafnarfjörður – minnismerki; HMB.

Haukur fæddist 17. júlí 1990. Hjalti Már fæddist 9. febrúar 1980.

Skömmu eftir slysið komu ættingjar Hjalta fyrir hvítmálum trékrossi á slyssstaðnum. Á krossinum var spjald með áletruninni „HMB“.

Minnismerkið er staðsett skammt vestan Neðri Straumsselshella ofan Straumsels, í svonefndum Almenningi.

Minningarbekkur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Reykjavíkurvegur.

Við göngustíg vestan Reykjavíkurvegar skammt sunnan Hjallabrautar er bekkur. Á bekknum er skjöldur: „Minningarbekkur – Um hjónin Stefán G. Sigurðsson, kaupmann, og Laufeyju Jakobsdóttur. Brúkum bekki í Hafnarfirði. Öldungaráð Hafnarfjarðar, Félag sjúkraþjálfara, Félag eldri borgara í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbær“.
Fleiri „Minningarbekkir“ eru víðs vegar í Hafnarfirði.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjókurbú Hafnarfjarðar.

Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1934. Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Mjólkurbú Hanarfjarðar.

Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.

Minnismerkið, þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli, stendur nú þar sem Mjólkurvinnslustöðin, Lækjargata 22, stóð á suðausturhorni Öldugötu og Lækjargötu. Á skilti undir brúsunum stendur: „Hér stóð Mjólkurbú Hafnarfjarðar, stofnað 17. ágúst 1934“.

Örn Arnarson (1884 – 1942)

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Nyrst við Austurgötu stóð áður Hótel Hafnarfjörður en þar er nú minnismerki um Örn Arnarson skáld sem bjó þar um tíma. Hótel Hafnarfjörður var eitt af fyrstu steinhúsum bæjarins, byggt árið 1912.

Í Þjóðviljanum 9. ágúst 1973 mátti lesa, bls. 12: „Minnismerki um Örn Arnarson – Nýlega hefur verið komið upp minnismerki um Örn Arnarson í Hafnarfirði, en þar bjó hann síðari hluta ævi sinnar, lengst af í Hótel Hafnarfirði. Stóð það þar sem minnismerkið er nú“.

Í gamla hússtæðinu er minnismerkið; Ankeri umlukið lábörðu grjóti umleikis. Undir ankerinu er láréttur stuðlabergssteinn. Á hann ofanverðan er letrað: „Örn Arnarson átti heima hér“. Á norðurhliðina er letrað: „Með hendur á hlunni og orfi, vann hugurinn ríki og lönd“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarson.

Örn Arnarson (dulnefni Magnúsar Stefánssonar) (12. desember 1884 – 25. júlí 1942) var íslenskt skáld og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir ljóðabók sína Illgresi sem kom út árið 1924. Þekktustu ljóð hans eru til dæmis: Þá var ég ungur, Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en það ljóð varð síðan innblásturinn að nafni Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesströnd í Norður-Múlasýslu. Þar bjuggu foreldrar hans Ingveldur Sigurðardóttir og Stefán Árnason.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Örn Arnarsson.

Á harðindaárunum eftir 1880 svarf svo að þeim að þau brugðu búi vorið 1887 og réðust vinnuhjú að Miðfirði.

 Magnús stundaði nám við Flensborgarskóla í Hafnarfirði veturinn 1907 – 08, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi. Kennaraprófi lauk hann frá Kennaraskólanum þar sem hann var við nám veturinn 1908 – 09.

Þegar Magnús lét af sýsluskriftunum, fluttist hann til Hafnarfjarðar og átti þar heima lengstum síðan. Fékkst hann þá einkum við afgreiðslu og skrifstofustörf, en hvarf oft að einhvers konar útivinnu á sumrin eins og til dæmis síldar- og vegavinnu. Hann kom nokkuð að sögu íþróttamála í Hafnarfirði og var m.a. formaður Knattspyrnufélagsins Framtíðarinnar.

Hrafna-Flóki

Á skilti við „Flókavörðuna“ ofan við Hvaleyri má lesa eftirfarandi:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hansakaupmenn í Hafnarfirði

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Minnismerki var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar.
Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Dr. Johannes Rau, forseti Þýskalands, flutti stutt ávarp við afhjúpunina.

Vinabærinn Cuxhaven

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – afhjúpun Cuxhaven-minnismerkisins.

25. nóvember 2013 var afhjúpað minnismerki um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven í Þýskalandi. Á upplýsingaskilti við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
“Borgin Cuxhaven í Þýskalandi og Hafnarfjörður stofnuðu formlega til vinarbæjarsamstarfs á haustmánuðum 1988 og hefur það vinabæjarsamband verið mjög virkt á margan hátt æ síðan.

Söguskiltið er staðsett við „Kugelbake“ á strandstígnum við höfnina en í tilefni af 25 ára afmæli vinabæjarsamstarfsins árið 2013.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – merki Hafnarfjarðar og Cuxhaven.

Þýska borgin gaf Hafnarfjarðarbæ fjögurra metra háa eftirgerð af 30 metra háu siglingarmerki sem reist var árið 1703 við ströndina nyrst í Neðra Saxlandi þar sem áin Saxelfur (Elbe) rennur í Norðursjóinn.

Kugelbake er borgarmerki Cuxhaven líkt og vitinn er merki Hafnarfjarðar og tilvalið þótti að staðsetja söguskiltið við siglingamerkið til þess að útskýra betur tilurð þess.

Sem dæmi um frekari afrakstur vinabæjarsamstarfsins má nefna að árið 1993 var vígt nýtt torg í miðborg Cuxhaven sem hlaut nafnið „Hafnarfjördurplatz“ og á Óseyrarsvæðinu í Hafnarfirði fékk við sama tækifæri ný gata nafnið „Cuxhavengata“.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki og söguskilti.

Strax við stofnun vinabæjarsamstarfsins árið 1988 var auk þess tekin ákvörðun um að stofna til svokallaðs „Cuxhavenlundar“ við Hvaleyrarvatn og hefur sú hefð skapast að þegar sendinefndir frá Cuxhaven koma hingað í heimsóknir gróðursetji fulltrúar þeirra hér tré þegar færi gefst enda hefur lundurinn stækkað mikið og gróið upp á undanförnum árum.

Í tilkynningu frá Hafnarfjaraðrbæ segir að auk þessa hafi samstarfið verið mikið og gefandi í æskulýðs- og íþróttamálum, mennta- og menningarmálum, á stjórnmálasviðinu og að ógleymdu viðskiptalífinu.
Cuxhavenborg hefur árlega fært Hafnfirðingum að gjöf jólatré sem lýst hefur upp á aðventunni, fyrst á suðurhöfninni en hin síðari ár í Jólaþorpinu á Thorsplani.”

Minnismerkið er vestan Strandgögu gegnt Dröfn.

Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 

Hvaleyri

Hafnarfjörður – Bein þriggja manna; minnismerki.

Árið 1922 tók Magnús bóndi Benjamínsson, sem þar á heima í Hjörtskoti á Hvaleyri, höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði þar úr bakkanum og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó. Haustið 1924 varð hann var fleiri beina þar yzt í bakkanum og sumra í fjörunni. Gróf hann þá dálítið til og tók enn úr bakkanum 2 höfuðkúpur og mörg bein önnur, úr tveim mönnum. Matthíasi Þórðarsyni, þjóðminjaverði, var gert við vart og fór jeg að skoða beinin.
Höfuðkúpurnar voru heillegar og mátti sjá af tönnunum, að önnur væri af öldruðum manni, en hin af miðaldra. Bein þessi munu, að hans áliti, hafa verið frá síðari öldum og þótti honum ekki ástæða til að varðveita þau í Þjóðminjasafninu. Þau voru talin sennilega kristinna manna leifar og voru flutt í kirkjugarð Hafnarfjarðar. Kirkjugarður var á Hvaleyri, í einungis hundrað metra fjarlægð frá fundarstaðnum.

Minningarplatti er suðaustast við jaðar Hvaleyrartúns þar sem beinin fundust á honum stendur: „Bein þriggja manna fundin á Hvaleyri 1926“.

Altari sjómannsins

Altari sjómannsins

Minnismerki – Altari sjómannsins við Víðistaðakirkju.

Til minningar um horfna sjómenn.

Minnisvarðann gerði Erlingur Jónsson árið 1993 og stendur hann framan við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.

Minning um drukknaða fiskimenn
Við Kaplakrika Hafnarfjörður
Minnisvarði í Kaplakrika í Hafnarfirði.
In memoriam – Minning um drukknaða fiskimenn.

Eiríkur Jónsson, f. 2.6.1857, d. 18.4.1922 og synir hans
Benjamín Franklín, f. 12.3.1892, d. 28.2.1910
Bjarni, f. 24.9.1896, d. 8.2.1925
Jón Ágúst, f. 17.8.1902, d. 18.4.1922

Kaplakriki

Minnismerki – Kaplakriki.

Drottinn drangan blessi
góðir menn hann verndi.

Reistur af Guðbjörgu Jónsdóttur og Birni Eiríkssyni, Sjónarhóli, Hafnarfirði 2.6.1957.
Stendur við íþróttahúsið í Kaplakrika, Hafnarfirði.
Minnisvarðinn var endurgerður árið 2016.
Platan er samhljóða því sem stendur á dranganum og er fest á vegginn aftan við hann.

Sigling
Minnisvarði um sjómenn

Tæpum tuttugu árum eftir að hafin var fjársöfnun til að reisa „minnismerki um drukknaða hafnfirzka sjómenn“ var „heiðursmerki sjómanna“ vígt við Strandgötu í Hafnarfirði. Verkið heitir „Sigling“ og er eftir Þorkel G. Guðmundsson, auk nafns verks og höfundar er áletrunin: „Heiðursvarði hafnfirzkra sjómanna. Reistur 1974 af Hafnarfjarðarbæ.“ Í stað þagnar sem oft fylgir afhjúpun minnismerkja um samfélagsleg áföll var hrópað ferfalt húrra við afhjúpunina, fyrir hafnfirskri sjómannastétt.

Minnisvarðinn stendur framan við Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði.

Knattspyrnufélagið Haukar

„Stofnfundur Knattspyrnufélagsins Haukar
(endurritun úr fundargerðarbók.)

1. fundur.
Sunnudaginn 12. apríl 1931 komu nokkrir drengir saman í húsi KFUM til þess að stofna íþróttafélag er eigi að standa á grunndvelli KFUM.

Haukar

Minnismerki – Haukahúsið.

Þeir sem eru stofnendur félagsins eru þessir:
Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Nikolaj Grímsson, og Geir Jóelsson.

Á fundi gerðist sem hér segir:
Sigurgeir Guðmundsson sagði frá för sem hann og tveir aðrir drengir fóru til þess að tala við Jóel Ingvarsson um stofnun þessa félags.
Í stjórn félagsins voru þessir kosnir. Karl Auðunsson formaður, Sigurgeir Guðmundsson gjaldkeri. Hallgrímur Steingrímsson ritari.
Varamenn voru kosnir Bjarni Sveinsson varaformaður en Nikolaj Grímsson vararitari.
Fleira var ekki lagt fyrir fundinn og honum því slitið.
Hallgrímur Steingrímsson ritari.“                                                                                                                                                                                                                              Minnismerkið er við inngang húss nr. 15 við Hverfisgötu, fyrrum húss KFUM og K.

Víðistaðir

Víðistaðir

Minnismerki – Víðistaðir.

Til minningar um
Bjarna Erlendsson, 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur, 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka.
Minnisvarðinn sendur í Víðistaðatúni í Hafnarfirði.

Hellisgerði
Bjarni Sivertsen (1763-1833)

Faðir Hafnarfjarðar. Brjóstmyndin gerð af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara.
Minnisvarðinn stendur í Hellisgerði.

Friðrik Bjarnason (1880-1962)
Fæddist á Stokkseyri 27. nóvember 1908.
Fluttist til Hafnarfjarðar árið 1908.

Friðrik Bjarnason

Minnismerki – Friðrik Bjarnason.

Organisti við Hafnarfjarðarkirkju í 36 ár.
Kennari, tónskáld og kórstjóri.
Stofnaði Karlakórinn Þresti árið 1912.
Hann lést 28. maí 1962.

Karlakórinn Þrestir gekkst fyrir afhjúpun minnismerkisins í tilefni af 100 ára afmæli kórsins 19. febrúar 2012.
Verkefnið var styrkt af Hafnarfjarðarbæ.
Minnisvarðinn stendur við Hafnarfjarðarkirkju

Guðmundur Einarsson (1883-1968)
Frumkvöðull að vernd og ræktun Hellisgerðis 1923.

Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem er á klettavegg við Fjarðarhelli í Hellisgerði.

Brjóstmyndin var afhjúpuð 5. október 1963.

Guðmundur Einarsson

Minnismerki – Guðmundur Einarsson.

Í tilefni af fjörutíu ára afmæli Hellisgerðis var 5. október 1963 afhjúpaður minnisvarði af Guðmundi Einarssyni (1883-1968), trésmíðameistara og framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs, en hann átti frumkvæðið að stofnun garðsins, ræktun hans og vernd. Þá hélt Guðmundur framsögu á fundi í Málfundafélagi Magna 15. mars 1922, þar sem hann benti á hvílík áhrif það gæti haft til bóta fyrir bæinn ef félagið kæmi upp blóma- og skemmtigarði þar sem sérkenni landsins, hraunborgirnar og gjárnar, fengju að halda sér og njóta sín óspillt, jafnframt því að hlúa að gróðrinum. Fullyrti Guðmundur að slíkur garður myndi vera félaginu til sóma og bænum til prýði. Árið eftir hófust fyrstu framkvæmdir í garðinum en myndin af Guðmundi er felld inn í hraunvegg, rétt við hellinn í gerðinu.

Hellisgerði

Minnismerki – Bjarni Sívertsen.

,,Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar og liggur vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Nafnið tengist Fjarðarhelli fyrir miðju garðsins sem var upphaflega fjárskjól. Hellisgerði var afhent Málfundafélaginu Magna í sumarbyrjun 1923 og hófst ræktun sumarið eftir. Sumarið 1927 var Hellisgerði opnað almenningi á sunnudögum og nokkrum árum seinna var það opið alla daga eftir hádegi yfir sumarmánuðina. Núna er Hellisgerði almenningsgarður sem er öllum opinn. Þó svo að Hellisgerði sé formlega talið vera níutíu ára gamalt má rekja upphafið til ræktunartilrauna athafnamannsins Bjarna Sívertsens.”

Guðmundur Gissurarson (1902-1968)

Fyrsti forstjóri Sólvangs og formaður byggingarnefndar Sólvangs.
Gjöf Félags ungra jafnaðarmanna til Sólvangs.
Gestur Þorgrímsson gerði verkið 1966.

Verkið stendur við Hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)
Reykdalsstífla 1906

Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal við Reykdalsstíflu.

Jóhannes J. Reykdal var stórhuga brautryðjandi og athafnamaður sem reisti m.a. þrjár vatnsaflsvirkjanir í Læknum í Hafnarfirði. Sú hin fyrsta var gangsett þann 12. des. 1904 og markaði sá viðburður upphaf rafvæðingar Íslands. Þá voru kölduljós kveikt í 15 húsum í bænum auk fjögurra götuljósa. Hörðuvallavirkjun, nokkru ofar í Læknum, var svo gangsett haustið 1906. Afl hennar, 37 kW, fullnægði þörf bæjarins fyrir rafmagn. Kallast hún nú Reykdalsvirkjun. Sú þriðja, enn ofar, var gangsett árið 1917.

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

Rétt sunnan golfvallarins í Setbergi er þessi minnisvarði um Jóhannes Reykdal og fjölskyldu hans. Þau voru grafin í heimagrafreit þar sem nú er minnisvarðinn.

“Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn)”.

Jóhannes Reykdal

Minnismerki – Jóhannes Reykdal.

“Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.”

Þau sem þarna er minnst eru Reykdalshjónin og fimm af börnum þeirra:

Jóhannes J. Reykdal,
f. 18.1.1874 – d. 1.8.1946
Þórunn B. Reykdal,
f. 21.10.1883 – d. 3.1.1964

Ásgeir Reykdal,
f. 25.7.1906 – d. 24.6.1933
Böðvar Reykdal,
f. 23.6.1907 – d. 2.1.1931

Helgafell

Minnismerki – Óskar Páll Daníelsson.

Jóhannes Reykdal,
f. 3.11.1908 – d. 30.12.1942
Friðþjófur Reykdal,
f. 28.7.1911 – d. 26.2.1934
Lovísa Reykdal,
f. 18.11.1918 – d. 20.4.1931

Óskar Páll Daníelsson (1979-2012)

f. 18. október 1979, d. 12. janúar 2012

Frá Dýrð til Dýrðar

Þetta skilti er vestan í klettabelti Helgafells við Hafnarfjörð en Óskar Páll hrapaði þar.

Stefánshöfði

Stefánshöfði

Minnismerki – Stefánshöfði.

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við veginn.

Þórður Edilonsson (1875-1941)

Þórður Edilonsson fæddist 16. september 1875 og lést 14. september 1941. Hann var stúdent frá MR 1895 og lauk prófi frá læknaskóla í Reykjavík 1899. Vann á sjúrahúsum erlendis 1899-1900, en varð staðgengill héraðslæknis í Keflavík sumarið 1899.

Sólvangur

Minnismerki – Þórður Edilonsson.

Settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1900-1903, aðstoðarlæknir í Reykjavík með aðsetur í Hafnarfirði. Aftur settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1903-1908. Settur Héraðslæknir í Hafnarfirði 1908 til æviloka 1941.
Þórður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Hafnarfirði, m.a. í bæjarstjórn, fræðslustjórn, stjórn sparisjóðs Hafnarfjarðar o.fl. Hann sat einnig í stjórn Læknafélagsins.

Kona hans var Helga Benediktsdóttir skálds Sveinbjarnarsonar Gröndal. Þau áttu tvo syni.

Minnisvarðinn stendur við Sólvang í Hafnarfirði og er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Brautryðjendur
Til minningar um brautryðjendurna, Þorvald Árnason, Jón Gest Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld, sr. Garðar Þorsteinsson sem unnu óeigingjarnt starf við skógrækt í Hafnarfirði.

Brautryðjendur

Minnismerki – Brautryðjendur.

Aðalheiður Magnúsdóttir (1914-1994) – Andrés Gunnarsson (1904-2003).

Í minningu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Andrésar Gunnarssonar.

Minnisvarðinn stendur í Andrésarlundi við Hvaleyrarvatn.

“Á skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar sem haldinn var við Hvaleyrarvatn um miðjan júlí var Björnslundur vígður í minningu Björns Árnasonar, bæjarverkfræðings og skógarbónda. Afhjúpuðu börn Björns minningarskjöld í Seldal [undir Stórhöfða].
Í fimmtu og síðustu skógargöngu Skógræktarfélags Hafnafjarðar 9. ágúst s.l. var afhjúpaður minnisvarði í Gráhelluhrauni um fjóra menn sem lögðu sitt af mörkum til að efla skógræktarstarf í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Það voru Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld og sér Garðar Þorsteinsson sem áttu allir setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um langa hríð.”

Guðmundur Þórarinsson

Minnismerki – Guðmundur Þórarinsson.

Í Gráhelluhrauni er auk þess minningarskjöldur um Guðmund Þórarinsson, skógræktarmann og kennara. Í Húshöfða ofan við Hvaleyrarvatn er minningaskjöldur um Kristmundsbörn annars vegar og Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda, hins vegar.
Björn Árnason var lengi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði. Hann átti drjúgan þátt í vega- og stígagerð á skógræktarsvæðunum ofan við bæinn. Þegar erfiðlega gekk að fá fjárveitingar til slíkra framkvæmda brá hann á það ráð að jafna kostnaðinum yfir á “Ytri-höfnina”, athugasemdalaust. Í dag vildu fáir vera án þessara stíga er gerir þeim kleift að ganga um skógræktarsvæðin með auðveldum hætti. Og Ytri-höfnin er fyrir löngu komin í gagnið.

Björn Árnason (1928-2007)
Björnslundur

Björn Árnason

Minnismerki – Björn Árnason.

Til minningar um Björn Árnason bæjarverkfræðing og skógarbónda

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975)
Guðmundarlundur

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975) kennari gróðursetti furulundinn.
Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og er þar nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum sem hann plantaði út.

Minnisvarðinn er i Gráhelluhrauni.

Hólmfríður Finnbogadóttir (1931-2019) – Reynir Jóhannsson (1927-2012)

Hólmfríður Finnbogadóttir

Minnismerki – Hólmfríður Finnbogadóttir.

Hólmfríður hóf störf hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar 1980, sat í stjórn og var formaður og síðan framkvæmdastjóri til 2013.

Afhjúpað á sjötíu ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2016.

Minnisvarðinn stendur við Kaldárselsveg í Hafnarfirði.

Hólmfríður Finnbogadóttir
Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson hófu skógrækt hér 1980.

Ingvar Gunnarsson (1886-1961)

Ingvar Gunnarsson

Minnismerki – Ingvar Gunnarsson.

Til minningar um Ingvar Gunnarsson fyrsta formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

,,Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við

Skólalundur

Í Skólalundi.

Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.” [Undirhlíðar]

Minnisvarðinn stendur í Skólalundi í Undirhlíðum

Jónas Guðlaugsson (1929-2009)

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson.

Vinabæjarfélagið Cuxhaven – Hafnarfjörður.

Jónas Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 21. apríl 1929 og lést 30. júlí 2009. Jónas var ekki nema 13 ára þegar hann setti upp vindmyllu við heimili sitt sem var tengd rafgeymi og lagði rafmagn í bæinn. Það kom engum á óvart þegar hann hóf nám í rafvirkjun á Selfossi og seinna í Reykjavík. Hann hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi til að læra rafmagnstæknifræði og lauk prófi árið 1959. Á Þýskalandsárunum kynntist hann Dórótheu Stefánsdóttur frá Siglufirði og gengu þau í hjónaband og eignuðust fjögur börn.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Jónas Guðlaugsson í Cuxhavenlundi.

Jónas starfaði við raflagnateikningar eftir að hann sneri aftur heim til Íslands og var verkstjóri á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur í eitt ár en kenndi einnig við Iðnskólann á Selfossi áður en hann réðst sem tæknifræðingur til Rafveitu Hafnarfjarðar árið 1962. Þar gat hann sér gott orð og var gerður að rafveitutstjóra árið 1969. Hann var rafveitustjóri til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.

Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn.

Cuxhavenlundur

Afhjúpun minningarreitsins í Cuxhavenlundi.

Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins. Síðan héldu allir viðstaddir í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins, þar sem bornar voru fram veitingar.

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996)
Ólafslundur

Ólafslundur

Minnismerki – Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson.

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996) var einn af stofnendum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hann var kjörinn í varastjórn á stofnfundinum og starfaði með félaginu alla tíð. Hann tók við formennsku árið 1965 og gegndi þeirri stöðu lengst allra eða í 24 ár. Hann var vakinn og sofinn í starfinu og fáir einstaklingar hafa lagt eins mikið af mörkum við ræktunarstarfið og hann. Ólafur var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991, en tveimur árum fyrr hafði hann látið af formennskunni eftir áratuga farsælt starf. Á ýmsu gekk í formannstíð Ólafs og félagið varð fyrir nokkrum áföllum. Með þrautseigju sinni, æðruleysi og dugnaði tókst Óla Villa að færa alla hluti til betri vegar. Til að minnast þessa mæta forystumanns var útbúinn fjölbreyttur skógarreitur í suðausturhlíðum Húshöfða, sem nefndur er Ólafslundur. Þar stendur minningarsteinn Ólafs Tryggva Vilhjálmssonar.

Cuxhavenlundur

Minnismerki – Rolf Peters.

Ólafur fæddist í Hafnarfirði 17. desember 1915 í Illugahúsi (Kóngsgerði) í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var lengst af starfsævinni leigubílstjóri og bjó ásamt fjölskyldu sinni að Bólstað í Garðabæ. Ólafur var einn helsti hvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Garðabæjar.

Rolf Peters
Jónas Guðlaugsson og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu Stefánsdóttur.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003. (Cuxhaven-lundur)

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Systkinalundur

Systkinalundur

Minnismerki – Systkinalundur.

Systkinalundur Gunnlaugs Kristmundssonar, Ingibjargar Kristmundsdóttur og Guðmundar Kristmundssonar.

Þau systkinin voru fædd á Haugi í Núpsdal í Miðfirði en fluttust síðar öll til Hafnarfjarðar. Hélt Ingibjörg heimili með Gunnlaugi þar í bæ en síðar með Guðmundi í Sveinskoti á Hvaleyri. Sandgræsluvörður var Gunnlaugur skipaður árið 1907 og gegndi síðan því starfi í 40 ár, en sandgræðslustjóraembættið var ekki formlega stofnað fyrr en 1942.

Minnisvarðinn var afhjúpaður árið 1989 og stendur hann í skógarlundi við Hvaleyrarvatn, sem við þau systkinin er kenndur og kallaður Systkinalundur.
Minnisvarði um Gunnlaug Kristmundsson er einnig í Gunnarsholti.

Skátalundur

Skátalundur

Minnismerki – Látnir skátar.

Við skátaskála Gildisskáta við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er minnismerki um látna skáta. Þótt sérhverra þeirra sé ekki getið á minningarskildinum ber að taka viljan fyrir verkið.

Ofangreind minnismerki má finna í landi Hafnarfjarðar. Líklega eru minnismerkin mun fleiri, ef allt er talið, s.s. minnismerki, vatnshjólið, um fyrstu rafvæðinguna við Lækinn sem og hin ýmsu minningarmörk víðs vegar um bæinn.

Þannig má segja að hinir ýmsu „merkimiðar“ á einstökum stöðum, s.s. á Arnarklettum við Arnarhraun, og hin mörgu upplýsingaskilti á tilteknum sögustöðum bæjarins bæti verulega um betur í þeim efnum.

Heimild m.a.:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/hafnarfjordur-minn/Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki; Sigling.

 

Lónakot
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot má sjá tilgreind nokkur mannvirki vestan vesturtúngarðsins og austan Réttarkletta. Þar segir m.a. að gata liggi vestur með sjónum og að „gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum.
Lónakot

Vagnvegur milli Lónakots og Réttarkletta (Svínakots).

Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
Ætlunin var að staðsetja framangreinda staði m.v. lýsinguna.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Lónakotsvörin sést enn vestan og neðan við vesturtúngarðinn. Túngarðurinn sjálfur var reyndar færður utar, en ef miðað er við leifarnar af hlaðna garðinum liggur vörin þar neðan við. Fast vestan hennar er Mávahella, stór flöt hraunklöpp er stendur upp úr sjónum við meðalsævi.
Beint upp og vestan við Mávahellu er Brimþúfan. Frá henni er ágætt útsýni yfir að Nípu. Hún er strýtumyndaður hóll svo til alveg niður við ströndina og eina verulega kennileitið með henni uns komið er að Réttarklettum.

Nípuskjól

Nípuskjól.

Til að gera leitina að Nípurétt og Nípuskjóli ekki allt of auðvelda var svæðið næði neðan og ofan við kannað gaumgæfilega – ef ske kynni að einhverjar mannvistarleifar kynnu að leynast þar.
Við Réttarkletta eru gerði, garðhleðslur, skjól og tóftir. Gróið er í kring. Skammt vestra og svolítið ofar er hlaðið fjárskjól fyrir skúta.

Austan við Réttarkletta, ofan garðs, er hlaðið með grunnu, en ílöngu, jarðfalli. Þarna hefur væntanlega verið aðhald um tíma. Svo til beint norðvestur af því er Nípurétt.

Nípurétt

Nípurétt.

Annars sést réttin vel þegar gengið er eftir stígnum ofan við ströndina milli Lónakots og Réttarkletta. Hún er skammt austan við hraunhrygg austan Réttarkletta. Réttin hefur verið ferköntuð. Austurveggurinn stendur heillegur, en aðrir veggir eru að mestu fallnir. Réttin hefur verið vel staðsett m.t.t. fjárrekstra ofan við ströndina, en féð hefur væntanlega þá, líkt og nú, sótt talsvert í fjöruna. Engin hólf eða dilkar eru í réttinni.

Skammt suðvestar, sunnan undir klapparhæð, og syðst í lægðinni sem þarna er sunnan Nípu, er Nípuskjól. Veggir hafa verið hlaðnir út frá klapparbakkanum og reft yfir. Dyr snúa mót suðri.

Réttarklettar

Réttarklettar – uppdráttur ÓSÁ.

Ef gömlu vagngötunni er fylgt milli Lónakots og Réttarkletta má vel sjá hvernig hún hefur verið unnin. Bæði hefur verið hlaðið í kanta við bakka og brotið úr skörðum. Að vísu hefur sjórinn kastað grjóti upp á og yfir götuna á köflum, en tiltölulega auðvelt er að feta sig eftir henni enn þann dag í dag.
Tækifærið var notað til að skoða tóftir Lónakotsbæjarins, Norðurfjárhúsanna, brunnsins sunnan bæjarhólsins og Lónakotsréttina suðaustan við túnhliðið.

Strandsvæðið milli Straums og Hvassahrauns, þ.m.t. Lónakotssvæðið, er tilvalið til útivistar. Það hefur að geyma fjöldan allan af minjum fyrri tíma. Það sem þyrfti að gera er að merkja þær helstu svo gönguferðir um svæðið gætu bæði verið fólki til fróðleiks og ánægju. Umhverfið þarna má segja að sé einstakt og það einungis í örskotsfjarlægð frá mesta þýttbýli landsins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá fyrir Lónakot. Gísli Sigurðsson skráði. Örnefnastofnun Íslands.

Nípa

Nípa og Nípurétt.

 

Knarrarnessel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mín. gangur er að því.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megin tóft með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn áheiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóftir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóftirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóftirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur vatnsstæði í heiðinni þetta sumarið. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selið.

Knarrarnessel

Stekkur í Knarranesseli.

Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkerflugvélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóftir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýuppþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður Knarrarnesselstíginn að Klifgjá, yfir hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum. Við vörðuna var greni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k. Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu, en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.
Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel (Breiðagerðissel) og sunnan Fornuselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Kolhólaselið.