Sléttuhlíð

Á vefsíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um Sléttuhlíð ofan bæjarins: “Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Kotið var nokkurn veginn þar sem Flensborgarskóli stendur í dag á Hamrinum. Hjáleigubændur í Hamarskoti höfðu selstöðu í Hamarskotsseli, sem var nánast samtengt Setbergsseli vestan Háanefs og norðan Sléttuhlíðarhorns. Þar er merkilegur hellir í hraunrás sem er opinn í báða enda og var í eina tíð nefndur Selhellir. Sitthvoru megin við hellisopin voru selin; að norðan var Setbergssel en að sunnan var Hamarskotssel. Hellinum var skipt í tvennt með grjóthleðslu sem enn sést móta fyrir, þó hún sé að mestu hrunin. Með þessu móti gátu báðir aðilar nýtt hellinn sem geymslu fyrir afurðirnar sem unnar voru í seljunum.

Setbergssel

Op Ketshellis (Selhellis).

Sléttuhlíðin hefur verið vel gróin í eina tíð og þar óx lengi vel kjarnmikið birkikjarr sem menn nýttu til eldiviðar og beitar. Þegar kom fram á annan tug 20. aldar var kjarrið illa farið af mikilli beit og hrístöku auk þess sem landið var víða farið að blása. Kræklóttir runnar voru það eina sem eftir var og flest benti til að landið ætti eftir að eyðast að fullu þegar Einar Sæmundsen skógarvörður skoðaði svæðið að beiðni bæjarstjórnar 1917. Kjarrið var mun smávaxnara en annars staðar í nágrenninu, aðeins um tveggja álna hátt. Þrátt fyrir það var ákveðið að nýta kjarrið til eldiviðar, enda mikill skortur á kolum vegna langvarandi styrjaldarástands í Evrópu. Fátækir kotungar í Hafnarfirði höfðu stundað lyngrif í hrauninu umhverfis Sléttuhlíð áratugum eða jafnvel öldum saman þannig að víða voru ljót sár í landinu. Hitagildi sortulyngsins var mest auk þess sem útfénaðurinn sem var þarna á vetrarbeit fúlsaði við því vegna beiskju. Þar af leiðandi þótti sortulyngið ekki eins góð beitijurt og t.d. kræki- og bláberjalyng eða beitilyng og sjálfsagt að nýta það til upphitunar.

Kaldársel

Kaldársel – vatnsleiðslan yfir Lambagjá.

Sléttuhlíð fékk nýtt hlutverk þegar framkvæmdum við vatnslögnina frá Kaldárbotnum lauk haustið 1918. Forsaga málsins tengist Vatnsveitu Hafnarfjarðar í Lækjarbotnum, sem tók til starfa 1909. Á tæpum áratug jókst vatnsþörf bæjarbúa til muna svo að Lækjarbotnalindin annaði ekki eftirspurninni. Þá var var ákveðið að leiða vatn frá Kaldárbotnum í opnum stokki um 1,5 km leið. Jón Ísleifsson verkfræðingur reiknaði það út að ef vatnið yrði látið seytla niður í hraunið vestan Sléttuhlíðar ætti það eftir að fljóta neðanjarðar og koma fram í Lækjarbotnum. Þar sem stokknum sleppti við sunnanverðan Sléttuhlíðardal steyptist vatnið fram af brekkubrúninni og myndaði lítinn foss. Síðan rann vatnið í lygnri lækjarsprænu milli hrauns og hlíðar og endaði í smátjörn við miðja Sléttuhlíð. Þar hripaði vatnið niður í hraunið og eins og gert var ráð fyrir.

Lækjarbotnar

Gamla vatnsleiðslan í Lækjarbotnum.

Þessi snjalla hugdetta féll ekki öllum í geð, en engu að síður þótti bæjaryfirvöldum á það reynandi að kosta vatnslögnina og treysta á hyggjuvit verkfræðingsins. Og viti menn, sex dögum síðar fór að hækka í vatnsveitunni í Lækjarbotnum og einum mánuði eftir að vatni var hleypt á stokkinn var vatnsrennslið því orðið verulegt svo að vatnsveitu bæjarins var borgið um sinn.

Nú fengu menn aukinn áhuga á Sléttuhlíðinni og sumarið 1925 byggðu Jón Gestur Vigfússon og Magnús Böðvarsson samliggjandi sumarhús nærri Sléttuhlíðarhorni. Ætlun þeirra var að rækta landið og búa fjölskyldum sínum sumardvalastað á þessum fallega stað þar sem enn var nokkuð eftir af kjarri.

Sléttuhlíð

Sumarbústaður Jóns Gests, í Sléttuhlíð.

Árið eftir fengu þeir formlega úthlutað sitthvorum hektaranum og fjórum árum síðar fengu þeir leyfi til að girða landspildurnar af og hefja skipulega trjárækt. Ekki leið á löngu áður en þeir fengu að stækka ræktunarreiti sína og girðingarnar. Árið 1929 var Ingvari Gunnarssyni kennara og helsta ræktunarmanni Hellisgerðis úthlutað samsvarandi landi undir sumarbústað og trjárækt í Sléttuhlíð, eilítið sunnan við bústaði félaga sinna. Þar sem þessir heiðursmenn og fjölskyldur þeirra hófu sáningu á þriðja áratug tuttugustu aldar hefur landið tekið miklum stakkaskiptum og minnir núna meira á skandinavískar sveitir en hafnfirskt beitiland.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Fjáreigendur og aðrir sem greiddu hagtoll fyrir leyfið til að beita sauðfé sínu og hrossum innan bæjargirðingar Hafnarfjarðar voru að vonum ekki ánægðir með þessa nýju landnámsmenn sem kepptu við þá um nýtingu landsins. Hrísbeitin var að hluta til tekin frá búsmalanum og beitilandið skert að miklum mun. Þess vegna kom ósjaldan fyrir að girðingarnar við sumarhúsin voru illa leiknar og jafnvel sundurklipptar þegar kom fram á sumar. Illa gekk að færa sönnur á hver eða hverjir ættu sökina á þessum spellvirkjum og kom nokkrum sinnum til verulegs ágreinings vegna slíkra mála og sýndist sitt hvorum.

Ingvar Gunnarsson

Ingvar Gunnarsson.

Þegar Ingvari Gunnarssyni var úthlutað landi undir sumarbústað sinn og ræktunarreit var það gert að skilyrði að þeir sem fengju lóðir undir bústaði í utan bæjarlandsins, þ.m.t. í Sléttuhlíð, mættu ekki selja eða leigja þau landsvæði án samráðs við bæjarstjórn, sem taldi sér samt ekki skylt að kaupa upp eignirnar þó þær væru falboðnar.

Á kreppuárunum var ekki mikil ásókn bæjarbúa í sumarbústaðalóðir enda höfðu menn annað við þá litlu fjármuni að gera sem þeir höfðu handbæra. Árið 1937 var ákveðið að úthluta Barnaskóla Hafnarfjarðar 1 hektara lands í norðanverðri Sléttuhlíð, rétt sunnan Sléttuhlíðarhorns. Meginástæðan var sú að skógræktarsvæðið sem girt hafði verið í Undirhlíðum 1934 var þá nánast fullnýtt og skólinn þurfti meira land til að halda ræktunarstarfinu áfram. Það skipti líka máli að með þessari úthlutun var ætlunin að bjarga því birkikjarri sem eftir var í Sléttuhlíð og auka við skógarsvæðið með því að planta út grenitrjám og öðrum tegundum sem voru óðum að nema hér land.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Á stríðsárunum urðu fjárráð almennings betri en áður hafði þekkst og voru ýmsir ágætlega aflögufærir. Þetta átti sinn þátt í að 1941 sóttu 13 aðilar um sumarbústaðalóðir í Sléttuhlíð hjá Girðinganefndinni. Tveir sóttu um lóðir utan girðingar, sjö vildu fá lóðir sunnan skógræktarreits Barnaskólans og fjórir innan hans. Var málinu skotið til heilbrigðisnefndar sem taldi öll tormerki á að úthluta fleiri lóðum í Sléttuhlíð, nema gerðar yrðu ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengum neysluvatnsins sem rann bæði ofan og neðanjarðar í hrauninu. Lagt var til að hverjum bústað fylgdi rotþró úr steinsteypu og komið yrði fyrir stáltunnu með traustu loki fyrir allan úrgang. Þetta voru skilyrði sem bæjarstjórn gat ekki fallist á og var málinu skotið til ríkisins en í kjölfar þess var ákveðið að úthluta ekki fleiri lóðum að sinni.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Ein undantekning var þó gerð sumarið 1945 þegar Jóni Magnússyni í Skuld var úthlutað landi við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Framan við Smalaskálahvamm rann vatnið í Kaldártréstokknum og þess vegna var talin minni hætta á mengun en í hrauninu við Sléttuhlíð. Nokkru seinna fengu fleiri aðilar sumarhúsalóðir á svipuðum slóðum sem flestir standa enn.

Á tímabilinu 1949-1951 var unnið að því að leggja nýja vatnsleiðslu frá Kaldárbotnum niður í Hafnarfjörð, um 7 km leið. Þegar því verki var lokið þótti einsýnt að nú væri hættan á mengun neysluvatns liðin hjá þar sem Lækjarbotna vatnsveitan var orðin óþörf. Næstu árin fjölgaði sumarbústöðum nokkuð ört í landi Sléttuhlíðar þar til svæðið þótti fullbyggt. Þegar kom fram á áttunda áratuginn voru uppi hugmyndir um að veita leyfi fyrir byggingu nokkra bústaða norðan við Sléttuhlíðarhorn. Vegur var lagður í áttina að seljunum, en þegar til átti að taka var hætt við allt saman svo lítið varð úr framkvæmdum.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – loftmynd 2002.

Árið 1979 fékk Skógræktarfélag Hafnarfjarðar töluvert landsvæði til umráða í sunnanverðu Gráhelluhrauni og við Sléttuhlíð. Ákveðið var að skipta landinu í litlar spildur sem var úthlutað til 24 einstaklinga og fjölskyldna þeirra auk 11 félaga og stofnana sumarið 1980. Á þessum reitum má ekki reisa nein mannvirki, eingöngu stunda ræktun. Margir af helstu máttarstólpum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar tóku þetta merka starf að sér og hafa plantað út tugum þúsunda trjáplantna á aldarfjórðungi, eins og svæðið ber með sér.

Eftir að búfé var úthýst úr upplandi Hafnarfjarðar og Setbergs á seinni hluta 20. aldar hefur landið fengið kærkominn frið til að jafna sig eftir aldalanga þrautbeit. Afleiðingar þessarar friðunar sjást greinilega því kjarrlendið breiðir verulega úr sér. Mest ber á birkitrjám en stöku einiberjarunnar og víðikjarr hafa náð sér vel á strik. Útplöntun erlenda trjátegunda hefur einnig sett sterkan svip á landið og lúpínubreiður teygja sig um holt og hæðir þar sem áður var örfoka land. Lynggróðurinn hefur víða fengið að vaxa óárreittur í hrauninu líkt og annað blómskrúð.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Fjölbreytileiki og gróska jarðargróðursins í Sléttuhlíð og næsta nágrennis er með eindæmum og vel þess virði að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða árið um kring. Þetta er kjörið útivistarsvæði sem ber að vernda og efla í hvívetna. Frumkvöðlarnir sem hófu ræktunarstarfið á þessum slóðum fyrir nær sjö áratugum og sporgöngumenn þeirra eiga heiður skilinn fyrir framtakssemina og þrautseigjuna við að breyta ásjón þessa lands og um leið veðurfarslegum skilyrðum þess.” -(JG tók saman)

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar I-III, Ásgeir Guðmundsson.
-Harðsporar, Ólafur Þorvaldsson.
-Græðum hraun og grýtta mela, Lúðvík Geirsson.
-https://skoghf.is/slettuhlie-sveitaromantik-vie-baejarmoerkin/

Sléttuhlíð

Í Sléttuhlíð að haustlagi.