Landnám á Reykjanesskaga

Húshólmi
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða.
Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála, skammt frá skálatóft.

Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

Í nýrri bók Trausta Valssonar “Skipulag byggðar á Íslandi” er kort af skiptingu landnámsins, auk korta af verleiðum og helstu samgönguleiðum á SV-landi skv. korti frá 1849.