Reykjanesskagi

Margir virðast hafa mikinn áhuga á Reykjanesskaganum, enda úr fjölmörgu að velja. Á meðan sumir njóta þess að ganga um svæðið og skoða smáatriðin hafa aðrir gaman að því að aka um það og njóta útsýnisins.
Víða má sjó jarðmynduninaFá landsvæði bjóða upp á fjölbreyttari möguleika til útivistar. Ef benda ætti á einn tiltekinn stað öðrum fremri væri úr vandi að velja. Landssvæðið í heild er svo stórbrotið og fallegt; sjá má myndunina og jarðsöguna hvar sem á það er litið, menningarsagan er við hvert fótmál og ófáir staðir eru til sem ekki tengast þjóðtrú og sögulegum atburðum. Í rauninni er sá staðurinn fallegastur þar sem þú ert staddur hverju sinni. Allt umfram það er einungis myndbreyting í allri fegurðinni.
Í elstu heimildum segir að fyrst hafi land verið numið á Reykjanesskaganum, en svo er landssvæðið nú jafnan nefnt er þá spannaði landnám Ingólfs Arnarssonar.
Jarðhiti er óvíða meiriMinjar frá fyrri tíð eru víðar en fólk grunar, jafnvel heilstæð búsetusvæði. Garðar eru enn víða heillegir, götur grópaðar í berghelluna og hlaðnar réttir eða fjárborgir skipta hundruðum. Brunnar voru svo til við hvern bæ og sjást fjölmargir þeirra enn. Verbúðir og mannvirki þeim tengdum eru víða við ströndina og ef vel er að gáð má sjá hlaðin skjól og sæluhús við gamlar þjóðleiðir. Til marks um verðmætin í minjunum einum má auk þess nefna að enn má sjá leifar um 250 selja á landssvæðinu. Þá eru víða vörður, sem hlaðnar hafa verið til marks um söguleg atvik, minningar um fólk er varð úti á ferðum sínum eða til leiðsagnar og tilvísunar. Auk þessa má nefna hina fjölmörgu hella á svæðinu. Sumir þeirra geyma mannvistarleifar.

Mannvistarleifar í helli

Mikilvægt er að efla enn frekar áhuga fleirri á möguleikum Reykjanesskagans. Áður þarf þó að huga að ýmsu; sveitarstjórnarfólk þarf að sammælast um að eyða engu að óathuguðu máli er skipt getur máli í framangreindu samhengi, íbúarnir sjálfir þurfa að verða meðvitaðir um möguleikana og tala um þá með jákvæðum formerkjum, áhugafólk með þekkingu á svæðinu þarf að ýta undir áhuga annarra og fagfólk, ekki síst í minjavörslunni, þarf að beina athygli sínu að svæðinu í mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þá er gildi aukinnar samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í heild aldrei ofmetin.
Það fólk, sem hefur aflað sér mikillar vitneskju um svæðið, skoðað það lengi, leitað uppi vettvang er lýst hefur verið eða sagt frá í ræðu og riti, uppgötvað annað áður óþekkt, fengið tækifæri til að setja hluti í samhengi eða sýna fram á rangildi, þarf að vera meðvitað um mótunaráhrif sín. Hér vegur jákvæðnin þyngst á vogarskálunum. Sem dæmi má taka örnefni.

Atvinnusagan

Gamalt fólk býr yfir mikilli þekkingu á þessum þætti og felast í upplýsingum þess mikil verðmæti. Vitað er þó að örnefni hafa breyst frá einum tíma til annars og til eru þeir staðir, sem fólk þekkir undir fleiru en einu nafni. Þá hafa örnefni færst á milli, t.d. hæða og hóla. Stundum bregst fólk, sem telur sig búa yfir mikilli eða staðbundinni þekkingu, illa við upplýsingum um annað en það sjálft telur hið eina og rétta. Oft hefur þurft að verja lengri tíma í að leiðrétta slíkt fólk og færa rök fyrir hinu gagnstæða en að svara fyrirspurnum þess er minni vitneskju á að hafa, öllu jöfnu.
Mikið hefur breyst á skömmum tíma og margt færst til betri vegar í framangreindum efnum. Enn sem fyrr er sérstaklega mikilvægt að allir hlutaðeigandi samhæfi sig í að efla upplýsingamiðlun, auðvelda aðgengi og hvetji aðra til að nýta sér hina stórkostlegu möguleika Reykjanesskagans til útivistar.
Eldvörp

Í Eldvörpum.