Fitjakot

Fitjakot

Fitjakot var upphaflega fornt býli í Kjalarnesþingi. Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði“ árið 2018 er m.a. fjallað um kotbýlið undir fyrirsögninni „Fitjakot, saga, minjar og örnefni„:

Fitjakot

Fitjakot í Kjalarneshreppi – túnakort 1916.

„Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.
Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.

Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús.18 Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð.19 Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
FitjakotSamkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru þeir tveir.“

Í örnefnalýsingu segir um Fitjakot:
„Jörð í Kjalarneshreppi, næsta jörð fyrir suðvestan Varmadal. Upplýsingar eru frá Jóni Jónssyni Varmadal og eitthvað annars staðar frá. Merkin móti Varmadal eru úr Skrauta, sem er neðsti hylurinn í Leirvogsá, um Fitjakotsmel, sem er milli bæjar og upp undir þjóðveg, þaðan í Markagróf og áfram í Flóalæk. Flóalækur kemur saman í flóunum suður frá Völlum og rennur hér áfram. Rétt vestan merkjanna er á honum gamalt ferðamannavað, sem heitir Helluvað. Síðan eru merkin eftir læknum norður í Kollafjörð.
Að vestan móti Víðinesi og Álfsnesi eru merkin Selja-, eða heldur Selalækur ofan úr mýrum og niður í sjó, þar sem hann fellur í Leirvog.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Neðan við Fitjakotsmel nær bæ heitir Fitjakotskrókur, og vestan við bæ heitir Vesturmýri, sem nær að Selalæk, sem fyrr getur. Beint vestur af túni er holt eins og í miðju landi, sem heitir Vörðuholt. Upp frá bæ er holt, sem heitir Fitjakotsholt. Þar upp af er Mjóimelur, og mýri þar vestur af heitir Mjóamýri milli Álfsness og Fitjakots. Norður af Mjóumýri er Blásteinsholt, sem er suðvestur af Naustanesi. Kúalág nær niður að á. Vestan við hana tekur við Krókur, og þar vestur af er Mjóamýri.“

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Í Vöku 1929 er grein eftir Ólaf Lárusson; „Úr byggasögu Íslands„. Þar segir m.a. um kotbýlin fyrrum:

„Af 926 býlum með slíku nafni og með kotnafni, sem Jón Johnsen nefnir í jarðatali sínu, telur hann 649, eða 73,6%, vera hjáleigur. En, eins og áður var getið, telur Johnsen hjáleigurnar of fáar, enda hefir mér talizt til, að af jörðum, sem þessi nöfn hafa, i Rangárvalla-, Árnes-, Gullbringu- og Kjósarsýslum séu nálægt 90% taldar vera hjáleigur í jarðabók Árna Magnússonar. Þessi tala tekur af öll tvímæli um það, að nöfn þessi hafa fyrst og fremst verið valin handa hjáleigunum.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

En jafnvel þessi tala er of lág. Sum lögbýlin, er þessi nöfn bera, munu eflaust vera fornar hjáleigur, sem hækkað hafa i tigninni og orðið lögbýli. Í annan stað kemur það nokkuð víða í ljós, að lögbýli, sem heita hjáleigunafni, hafa áður borið annað nafn. Sérstaklega er þetta algengt um lögbýlin, sem heita kot-nöfnum.
Um mjög mörg þeirra verður það séð með vissu, að þau hafa áður haft annað nafn. Kot-nafnið hafa þau fengið tiltölulega seint, venjulega sem viðbót við hið fyrra nafn sitt. Eru nokkur glögg dæmi þessa hér í nágrenni Reykjavíkur.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Býlin Hvammkot í Kópavogi (sem á síðari árum hefir verið nafnt Fífuhvammur), Hagakot hjá Vífilsstöðum, Óskot og Helliskot (Elliðakot) í Mosfellssveit og Fitjakot í Kjalarneshreppi eru öll gömul lögbýli. Þau voru öll eign Viðeyjarklausturs. Í skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1395 eru býli þessi nefnd Hvammur, Hagi, Ós, Hellar (þá í eyði) og Fitjar. Í fógetareikningum kringum 1550 eru þau þeirra, er þá voru byggð, ýmist nefnd þessum nöfnum, eða kotnafninu. Fitjar eru nefndar því nafni í reikningum 1547- 1548, en Fitjakot i reikningum næstu ára á eftir.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm (Hvamm) í Kópavogi.

Hvammur er nefndur því nafni i reikningunum 1547. Allt eru þetta gömul lögbýli. Stundum var nafnbreytingin þó ennþá stórkostlegri. Staðir urðu að kotum. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar þó eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna? Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þetta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað í alþýðumáli, að nefna rústir „kot“, jafnvel rústir af fyrrum býlum.“

Í fornleifaskráningum í Víðinesi og athafnasvæði Sorpu hefur hvergi verið getið þar um augljósar minjar, sem verðugar eru nánari skoðunnar, þ.á.m. minjar í tengslum við örnefnið „Seljalækur“…

Heimildir:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði, Reykjavík 2018, bls. 9.
-Vaka, 3. tbl. 01.02.1929, Ólafur Lárusson, Úr byggasögu Íslands, bls. 361-363.

Fitjakot

Álfsnes – herforingjakort 1903. Hér eru merktar nokkrar fornleifar, sem ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningar.