Reykjanesbær- minnismerki; Baldur.

Eftirfarandi upplýsingar lögðust upp í meðfylgjandi handrit eftir leit að minnismerkjum í Reykjanesbæ:

17. júní flaggstöngin

Reykjanesbær

Reykjanesbær- Flaggstöngin; minnismerki.

Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944.

Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo stöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands.

Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flaggstöngin; minnismerki.

Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur.

Við minnismerkið standa tveir stuðlabergsstöplar. Á sitthvorum þeirra eru koparskildir. Á öðrum þeirra er eftirfarandi yfirskrift: “Til heiðurs þeim sem dregið hafa þjóðhátíðarfánann að hún 17. júni ár hvert”. Undir eru 49 nöfn einstaklinga, auk skátafélagsins Heiðabúa. Á hinum eru nöfn 31 einstaklings undir sömu yfirskrift, það nýjasta frá 2024, nafn Friðriks Georgssonar.

Koparskjöldur með vangamynd Jóns Sigurðssonar er á minnismerkinu vestanverðu.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík – gegnt Ráðhúsinu.

Ankerið við Ægisgötu

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankerið; minnismerki.

Ankerið er af Brúarfossi og Karvel Ögmundsson flutti það til bæjarins. Það var sett upp við opnun Bátasafns Gríms Karlssonar í Duus Safnahúsum 2002.

Í frétt í Morgunblaðinu frá 6. apríl 2004 segir: Sögulegu ankeri hefur verið komið fyrir á landfyllingunni neðan við Ægisgötu í Keflavík. Ankerið er af Brúarfossi sem Eimskipafélag Íslands lét smíða í Danmörku árið 1927 og átti í 30 ár. Brúarfoss var eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr og síðar. Í einni ferðinni fyrir vestan brotnaði önnur flaugin af ankerinu í blágrýtinu í Aðalvík. Karvel Ögmundsson, útgerðarmaður í Njarðvík, keypti síðar ankerið og notaði það sem legufæri í Njarðvíkinni, fyrir bátinn Vöggu GK 204. Karvel lét síðan taka ankerið á land og á síðustu árum hefur það legið við smábátahöfnina í Keflavík eða þar til því var komið fyrir á landfyllingunni. Ankerið er sannarlega þögull minnisvarði liðins tíma.

Minnismerkið er við ströndina neðanvið Duushús.

Askur Yggdrasils – Lífsins tré

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Askur Yggdrasils; minnismerki.

Gjöf Iðnaðarmannafélags Suðurnesja til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar.

Verkið er eftir Erling Jónsson og er gefið til minningar um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá og til að minna á að án iðnaðarmanna er ekki hægt að vera. Verkið var afhjúpað 18. nóvember 2004. Í hugleiðingu Konráðs Lúðvíkssonar, lækningaforstjóra HSS sem hann flutti í tilefni gjafarinnar segir m.a. “Heimstré Erlings Jónssonar tengist stofnun okkar á margan hátt. Hann kaus að skreyta greinar þess með þrastarpari sem bíður eftir að lífið birtist því úr innviðum fimm eggja sem snyrtilega eru lögð í fagurlega tilsniðið hreiður. Talan fimm er tákn þeirra skilningarvita sem dýrmætust eru manninum.”

Hvorki er til að dreifa skildi eða öðrum upplýsingum við minnismerkið.

Minnismerkið er á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skólavegi 6.

Minning – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson; minnismerki.

Minnismerkið er koparskjöldur á Stuðlabergsstöpli. Á honum stendur: “Til minningar um hjónin Valgerði Halldórsdóttur og Kristján Sigurðssom yfirlækni 1971-1992. 18.11.2004 – Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja”.

Minnismerkið er framan við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, skammt frá “Askur Yggdrasils”, minnismerki um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá.

Flug

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flug; minnismerki.

Verk eftir Erling Jónsson sem fyrst var sýnt á Vindhátíð í Reykjavík haustið 2000

Verslunin Ný-ung keypti verkið og setti það upp fyrir framan verslunina að Hafnargötu 12 á Ljósanótt , 1. september 2001. Var það gert í minningu Steinþórs Júlíussonar, fyrrverandi bæjarstjóra. Þegar vindurinn blæs um verkið, hvín í pípunum eins og um lifandi veru sé að ræða.

Minnismerkið er á hringtorgi á mótum Iðavallar og Aðalgötu.

Hrafna-Flóki

Styttan af Hrafna-Flóka var afhent á sérstökum trjáræktardegi sem varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli héldu hátíðlegan um nokkurra ára skeið í viðleitni til fegrunar umhverfisins

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Þann 11. júní 1994 var auk hefðbundinnar gróðursetningar vígður reitur framan við gömlu flugstöðina þar sem um langt árabil stóðu stangir er báru fána Íslands, Bandaríkjanna og Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þar var styttan afhjúpuð af forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddssyni.

Styttan sem var höggvin úr marmara af bandaríska listamanninum Mark J. Ebbert var gjöf Varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar í tilefni hálfrar aldar afmælis lýðveldisins. Listamaðurinn hafði þá dvalið hér á landi í tvö ár með eiginkonu sinni sem var sjóliðsforingi í Varnarliðinu. Sagan segir að listamanninum hafi unnist verkið svo seint að hann var langt frá því að vera búinn að höggva styttuna niður í fyrirhugaða stærð þegar hún þurfti að afhendast. Þess vegna er víkingurinn svo þykkur og pattaralegur. Styttan var flutt að Víkingaheimum árið 2010.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Minnismerkið var upphaflega á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, en hefur nú verið fært og staðsett við Víkingaheima í Njarðvík.

Hvorki fugl né fiskur

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Erlingur Jónsson var fyrstur til að fá útnefninguna Listamaður Keflavíkur og var það árið 1991.

Af því tilefni var ákveðið að reisa listaverk á stöpli í miðbæ Keflavíkur, þar sem ígreipt skyldu nöfn þeirra sem valdir eru listamenn bæjarins á hverju kjörtímabili. Listaverkið var svo sett upp sumarið 1992 í skrúðgarði Keflavíkur. Hugleiðing höfundar að verkinu er: “Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur. “Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvíg á báðar hendur, situr hún hafsins höfuðmið.” Listafólk Keflavíkur hvorki sitji né standi stjarft í viðjum vanans, heldur leiti sem víðast jákvæðra fanga.”

Annars vegar á minnismerkinu er fimm koparskildir, hver upp af öðrum. Á þeim efsta; “Heiðurslistamenn Keflavíkur”, síðan “1991 – Erlingur Jónsson, myndhöggvari”, “1992 – Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður”, “1998 Halla Haraldsdóttir, gler- og myndlistarkona”, og loks “Hilmar Jónsson, rithöfundur”.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Hinsvegar eru sjö koparskildir undir skildi með áletruninni: “Heiðurslistamenn Reykjanesbæjar”. Neðsti skjöldurinn er frá 2022, tileinkaður “Karen I. Sturlaugsson, tónlistarmanni”.

Á meginlistaverkinu er einnig koparskjöldur með meðfylgjandi áletrun: “Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur – Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvel á báðar hendur. Situr hún hafsins höfuðmið. – Einar Benediktsson; Sóley”.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík, við Sólvallagötu.

Jamestown ankerið

Í Höfnum varð uppi fótur og fit þegar það spurðist út í þorpinu að morgni 26. júní 1881 að risastórt seglskip væri að stranda við Hvalsnes, á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og töldu ljóst að það hefði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn. Þetta reyndist vera timburflutningaskipið Jamestown, gríðarstórt bandarískt seglskip (líklega um 4.000 tonn á núverandi mælikvarða), sem rekið hafði mannlaust um hafið í 4 mánuði áður en það strandaði.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankeri Jamestown; minnismerki.

Skipið brotnaði í spón á fáum dögum en það tókst að bjarga stórum hluta farmsins, um 100 þúsund plönkum, skv. sumum heimildum, af góðum borðviði sem nýttist til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar. Ankerið var híft á land fyrir tilstilli Jóns Borgarssonar og fleiri íbúa Hafna árið 1989. Annað samsvarandi ankeri stendur á þurru landi í Sandgerði og tvö minni ankeri og keðja í Vestmannaeyjum.

Á skilti við ankerið stendur: “Ankerið er úr seglskipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í fjöru við Hvalvíkk fyrir utan Hafnir 26. júní árið 1881. Talið er að skipið hafi verið á reki í fjóra mánuði mannlaust á Norður-Atlantshafi. Snemma árs 1881 kom eimskipið Ethiopia að Jamestown á reki illa leikið og bjargaði 27 manna uppgefinni áhöfn þess. Jamestown var 1889 tonn, 207 feta langt, 40,7 fet á breidd, 28,7 fet á dýpt og með þrjú þilför, smíðað 1879 í Richmond USA.
Jón Borgarson í Höfnum og vinir björguðu ankerinu á land 19.08.1989. Jamestown var eitt stærsta seglskip sem sigldi um heimshöfin á þessum tíma.
Að Jóni Borgarssyni látnum á Reykjanesbær ankerið”.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jamestown; minnismerki.

Ankerið, minnismerkið um Jamestown, er norðan við Kirkjuvogskirkju, utan garðs.

Keflavíkurmerkið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Keflavíkurmerkið; minnismerki.

Bæjarstjórn Keflavíkur ákvað 12. maí 1966 að taka upp byggðarmerki fyrir Keflavíkurkaupstað.

Helgi S. Jónsson teiknaði merkið og hugsaði táknmál merkisins á þessa leið: “Blái liturinn er tákn himins og hafs. Súlurnar þrjár eru keflin sem Keflavík heitir eftir og þær eru líka þær þrjár meginstoðir sem bera Keflavík uppi; land, loft og sjór. Bárurnar eru tákn úthafsöldunnar sem berst að landi. Fuglinn er tákn hinna hvítu máva en einnig flugsins og ferðarinnar inn í framtíðina.” Fljótlega gerði Helgi S. tillögu að standmynd merkisins og árið 1976 vann Erlingur Jónsson standmyndina sem stóð fyrir framan bæjarskrifstofur Keflavíkur frá 1976 til 1991. Þá stóð það við Ráðhús Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 til ársins 2002 þar til það var flutt á Ósnef og afhjúpað á nýjum stað á Ljósanótt.

Minnismerkið er við Ósnef (á Strandleiðinni), skammt vestan Duushúsa.

Laxnessfjöðrin

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Laxnesfjöðrin; minnismerki.

Áhugahópur um listasafn Erlings Jónssonar undir forystu Birgis Guðnasonar, gaf Bókasafninu verkið á árið 2002.

LAXNESS-FJÖÐRIN, listaverk Erlings Jónssonar, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Keflavík á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Listaverkið er gjöf til Bókasafns Reykjanesbæjar frá stuðningshópi að listasafni Erlings Jónssonar. Viðstaddir afhjúpunina var m.a. Auður Laxnes.

Í ávarpi sínu við afhjúpunina líkti Erlingur Nóbelsskáldinu við örn og sagði: “Þannig var Halldór Laxness eins og haförn sem hafði íslenska þjóð undir áhrifavaldi sínu í sínum bókmenntum og dró ævinlega arnsúg á fluginu.”

Þegar ætlunin var að skoða minnismerkið stóðu yfir miklar framkvæmdir umleikis Skólaveg 1. Það hafði því verið fjarlægt um stundarsakir.

Minnismerkið hefur verið, og mun væntanlega verða, á lóð gamla barnaskólans við Skólaveg 1.

Merki Njarðvíkurkaupstaðar

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Merki Njarðvíkur; minnismerki.

Verk Áka Gränz.

Afhjúpað 1992 á 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar til að minnast endurreisnar Njarðvíkurhrepps og fyrstu hreppsnefndarinnar. Merkið sýnir stílfærðar línur sem höfða til víkinga og sjávarguðsins Njarðar. Í merkinu er höfuð sem vísar til fortíðar með tvo ölduborða sem kórónu, tákn tvískiptrar byggðar, Ytri- og innri Njarðvíkur. Yfir segli er þotumynd sem minnir á nútímann og lögun Reykjaness. Skrifstofur Njarðvíkur voru staðsettar á þessum stað fyrir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994.

Minnismerkið er á augljósum stað á Fitjum.

Minningarsteinn um Sveinbjörn Egilsson

27. febrúar 1991 var minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson afhjúpaður austan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sveinbjörn Egilsson; minnismerki.

Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.

Minnismerkið austan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Minnismerki um Krossinn

Krossinn í Ytri-Njarðvík var samkomuhús allra Suðurnesjamanna um tveggja áratuga skeið.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Hann var upphaflega byggður sem hersjúkrahús og mun nafn hans af því dregið. Magnús í Höskuldarkoti gekk frá kaupum á byggingunni 1942. Kvenfélagið og Ungmennafélagið í Njarðvík ráku síðan bygginguna uns Stapinn var tekinn í notkun [Stapinn var vígður 23. október 1965]. Ýmis félög höfðu afnot af henni, þ.á.m. skátahreyfingin og æskulýðsráð. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, annaðist niðurrif Krossins 1979. Hann mundi eftir 18 dansleikjum einn vetrarmánuðinn og ávallt húsfyllir, um 400 manns.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Minnismerkið er grágrýtisbjarg. Á því er koparskjöldur. Á honum stendur: “Hér stóð Krossinn, samkomuhús Njarðvíkinga 1947-1965”.

Minnismerkið er fast við Krossmóa. Sunnan þess standa yfir nýbyggingaframkvæmdir.

Minnismerki sjómanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson var afhjúpað á sjómannadaginn 4. júní 1978 í holtinu fyrir ofan Holtaskóla.

Sumarið 2000 var það flutt niður að sjónum, neðarlega við Hafnargötu. Í upphafi var það reist að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Ásmundur gerði verkið 1973 og hjá Listasafni Reykjavíkur er það skráð undir heitinu Sjómannaminnismerki. Í bókinni um Ásmund (útg. 1999) eftir Matthías Johannessen segir á bls. 45: “Ásmundur klappaði lítilli gipsstyttu í safninu: Hérna er akkerið og þetta er björgunarhringurinn, sagði hann. Þeir vilja fá þetta til Keflavíkur. Það á að minna á sjómennina. Ég kalla það Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn, því ég var alltaf að raula það fyrir munni mér, meðan ég var að hugsa um styttuna.”

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 6.

Minnisvarði horfinna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði horfinna; minnismerki.

Sóknarnefnd Keflavíkurkirkju lét reisa minnisvarðann og var hann vígður á sjómannadaginn 5. júní 1994.

Minnisvarðinn er gerður úr þremur stuðlabergssúlum og á honum stendur: “Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.” Minnisvarðinn var unninn í Steinsmiðju S. Helgasonar hf.

Um er að ræða þrjá stuðlabergsstanda. Sá í miðið og þeirra hæstur inniheldur ofangreind minningarorð. Til beggja hliða er lægri standar. Á hvorum þeirra eru sex skildir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn er vestast í Keflavíkurkirkjugarði.

Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn

Aðstandendur reistu steininn til minningar um 4 unga skipverja sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Í tímaritinu Ægi 1930, 23. Árg, 4. tbl bls. 91 birtist eftirfarandi grein um atburðinn: Slys í Keflavík. 4 menn drukkna. Vélbáturinn Baldur réri úr Keflavík á laugardaginn 4. þ. m. og kom aftur daginn eftir. Þegar búið var að koma aflanum í land, fóru skipverjar með bátinn út á höfn til þess að leggja honum þar. Síðan fóru þeir allir 5 í land á stóru fjögra manna fari. En þá bar út af réttri leið, og lentu á flúð fyrir vestan bryggjuna og hvolfdi bátnum og brotnaði nokkuð. Drukknuðu 4 skipverjar en sá fimmti bjargaðist. Hékk hann á bátnum, en var þó búinn að sleppa honum, enda meðvitundarlaus, þegar hann náðist; það var vaðið út eftir honum.

Bátur var strax settur fram, en það kom að engu haldi. Þetta skeði um kl. 7 og var ekki orðið dimt. Þeir sem drukknuðu hétu: Guðjón Sigurðsson úr Keflavík, ógiftur, 23—24 ára.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Stefán Jóhannesson úr Keflavík, milli þrítugs og fertugs (giftur Þórdísi Torfadóttur, þau eiga 2 eða 3 börn). Júlíus Hannesson, 18 eða 19 ára, á foreldra í Reykjavik, og Skafti Guðmundsson af Seyðisfirði, ógiftur, um þrítugt.

Þrír af þessum mönnum kunnu að synda. — Öll líkin hafa fundist. Fanst eitt um nóttina kl. 4, en tvö kl. 10 morguninn eftir. Sá skipverja, sem bjargaðist, var Arinbjörn Þorvarðarson formaður bátsins, maður á fertugsaldri (sonur Þorv. Þorvarðarsonar í Keflavík). Vélbáturinn Baldur er eitthvað innan við 12 smál. Þeir eiga hann Arinbjörn form., Valdimar Kristmundsson, Keflavík, og Ólafur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík.

Minnisvarðin er skammt frá suðurgafli Duus Safnahúsa.

Til minningar um drukknaða

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Til minningar um drukknaða; minnismerki.

Í kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík er fallegt minnismerki um drukknaða sjómenn. Um er að ræða áletrun á grágrýtisbjargi með ártalinu 1990. Austan við minnisvarðan eru nokkrir minni steinar í röð með áletruðum nöfnum sem minnst hefur verið.

Minnismerkið er norðan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Hólmfastur Guðmundsson

Suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs er stuðlabergsstöpull með koparskildi. Á honum stendur: “Minning – Hólmfastur Guðmundsson Hólmfastskoti, fæddur 1647 – dæmdur 1698.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hólmfastur; minnismerki.

Hólmfastur var dæmdur á Einokunartímabilinu fyrir það að selja í keflavík þrjár löngur, tíu ýsur og tvö sundmagabönd, sem Hafnarfjarðarkaupmaður, Knútur Storm, hafði ekki viljað veita viðtöku.
Hann var dæmdur í átta marka sekt, en hlíft við þrælkun fyrir bænastað dómsmanna.
Þegar í ljós kom að hann átti ekkert upp í sektina, nema gamalt og ónýtt bátskriflim var refsingunni breytt í sextán vandarhögg.
Var Hólmfastur færðru í tóft eina og hendur hans bundnar við tré, er lagt hafði verið um þvera tóftina, og hann síðan hýddur í viðurvist Knúts kaupmanns og Mullers amtmanns.
Þjóðinni ofbauð þessi málsmeðferð, en í kjölfarið var einokunni aflétt.”

Á stöplinum er merki Lionshreyfingarinnar.

Minnismerki um Helga S.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Helgi S.; minnismerki.

Merkið var reist af Keflavíkurbæ og nokkrum félagasamtökum og afhjúpað 21. ágúst 1985.

Lágmynd af Helga S, eins af stofnendum félagsins og foringja þess í yfir 30 ár, framan á vörðunni er eftir Erling Jónsson en hönnun vörðunnar og umhverfisins var í höndum garðyrkjumannanna Guðleifs Sigurjónssonar og Einars Þorgeirssonar. Grunnflötur verksins er helluhraun af Reykjanesi. Í það er lögð áttavitarós en innan rósarinnar rís lágur hraunhóll sem varðan stendur á. Merkið á að undirstrika einkunnarorð skátafélagsins Heiðabúa; “Heiðabúar, vísið veginn, vörðum hlaðið eyðisand.”

Minnismerkið er við Skátahús Skátafélagsins Heiðabúa, Hringbraut 101.

Jón Þorkelsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jón Þorkelsson; minnismerki.

Eitt af stærstu verkum Ríkarðs Jónssonar, afhjúpað í maí árið 1965.

Sýnir skólamanninn Jón Þorkelsson sitjandi með tvö börn. Jón Thorkillius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Hann var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði.

Minnismerkið er suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Skjaldarbruninn

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Skjaldarbruninn; minnismerki.

Aðstandendur fórnarlamba brunans 30. desember 1935 létu reisa steininn (í bæklingi er missagt 30. apríl) Afhjúpaður 24. nóvember 1991

Í sögu Keflavíkur 1920 – 1949 segir svo frá að um árlega jólatrésskemmtun ungmennafélagsins hafi verið að ræða í samkomuhúsi þess. Hátt jólatré stóð á miðju gólfi og loguðu vaxkerti á greinum þess. Á skemmtuninni voru um 200 manns, mestan part börn. Skyndilega varð eldur laus við jólatréð sem varð alelda á augabragði og húsið stóð í björtu báli á skammri stundu. Eldsvoðinn kostaði 10 mannslíf, þrátt fyrir hetjulega framgöngu ýmissa björgunarmanna. Sex fórust í brunanum sjálfum, fjögur börn og tvær konur. Þrír dóu af sáum daginn eftir og sá fjórði nokkrum vikum síðar. Þá lá fjöldi fólks á sjúkrastofum vegna brunasára og annarra meiðsla. Eftir harmleikinn mátti kalla að Keflavíkurkauptún væri lamað um hríð og áfallið snerti raunar við landsmönnum öllum. Árið 2010 gaf Dagný Gísladóttir út bókina Bruninn í Skildi árið 2010 þar sem m.a. má finna viðtöl við fólk sem upplifði þennan hörmungaratburð.

Minnismerkið er á auðu svæði austan Kirkjuvegar, skammt suðaustan Keflavikurkirkju.

Minnisvarði um Þjóðhátið 1874

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Þjóðhátiðin 1874; minnismerki.

Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.

Minnismerkið er að baki kirkjunnar í Innri-Njarðvík, utan garðs.

Paradís

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Paradís; minnismerki.

Minningarreitur um látna Lionsfélaga.

Á grágrýtisbjargi er skjöldur. Þar kemur fram að árið 1984 hafi Loinsfélagar í Njarðvík að gróðursetja tré í Paradís. Um er að ræða skjólsælan stað undir hjöllunum.

Steinninn er vestan Njarðabrautar, skammt norðan enda Fitjaáss.

Nónvarða

Norðan og austan innst við götuna Nónvörðu.

Rótarýklúbbur Keflavíkur endurreisti vörðu þessa á holtinu ofan við götuna Nónvörðu árið 1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Nónvarða; minnismerki.

Holtið gekk ætíð undir nafninu Nónvarða og mundu menn vörðu er áður hafði staðið þarna. Varða sú var eyktamark frá Keflavíkurbæ og sýndi eyktamarkið nón, þ.e. um kl. 15:00. Eyktamark er fastur punktur í landslagi sem var til forna notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður. Til dæmis átti það við um fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.

Ólafur Thors

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ólafur Thors; minnismerki.

Fokkan, túnbali milli Hringbrautar og Brekkubrautar.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík var af Ólafi Thors fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og var hún afhjúpuð af ekkju hans Ingibjörgu Thors 12. október 1976. Áki Gränz hannaði listaverkið og undirstöðu þess að frumkvæði Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum.

Á fótstalli styttunnar er skjöldur: “Ólafur Thors, 19.01.1892-31.12.1964. Forsætisráðherra. Formaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjaneskjördæmis 1926-1964”.

Undir kopaplötunni á framhliðinni er skjöldur. Á honum stendur: “Eftirfarandi aðilar stóðu að fegrun svæðis og lýsingu á styttu Ólafs Thors í október 2001; Sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ, Sparisjórðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, ÍAV hf, Saltver, nesprýði, Áki Gränz og niðjar Ólafs Thors”.

Sólúrið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Framan við Myllubakkaskóla við Sólvallagötu.

Sólúrið á lóð Myllubakkaskóla var afhjúpað 29. maí 2004.

Það var gjöf nemenda Barnaskóla Keflavíkur sem fæddir eru árið 1950, í tilefni af fjörutíu ára fermingarafmæli hópsins. Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag nemendanna í gegnum skólann og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, fyrrverandi skólastjóra Myllubakkaskóla, sem lést árið 2003 og annarra úr fermingarhópnum sem fallnir eru frá.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn” og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til Vilhjálms. Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans og er hugsað sem hvatning nemendum til dáða í náttúruvísindum jafnframt því að vera til gleði og yndisauka. Þegar sólúr mælir hreyfingar sólar frá austri til vesturs vísar það á stundir dagsins með því að varpa skugga af priki á skífuna. Talið er að Babýloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúr eiga sér um 4000 ára sögu en þetta sólúr er hannað og framleitt af hátækni nútímans. Sólúrið er þannig útbúið að sá sem ætlar að nota það til að sjá hvað tímanum líður verður að stíga á mánuðinn og sjá skugga sinn falla á klukkuna.

Vinabæjarsamskipti Norðurlandanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Vinabæjarsamskipti; minnismerki.

Skrúðgarðurinn í Njarðvík, skammt vestan Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Settur upp 18. júní 1998.

Settur upp til að minna á vinabæjarsamskipti Norðurlandanna.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjáni blái; minnismerki.

Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Á koparskildi áföstum minnismerkinu má lesa: “Stjáni blái. Myndskreyting við kvæði Arnar Arnarssonar þar sem fjallað er um siglingu Stjána blá frá Hafnarfirði heim tl Keflavíkur og er um leið tákn íslenskra sjómanna.
Reist 1. sunnudag í júni 1988, en þá voru 50 ár liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi.
Að verkinu stóðu; Keflavíkurbær, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Útvegsmannafélag Suðurnesja. Höfundur; Erlingur Jónsson”.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 84.

Stjörnuspor

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnuspor Reykjanesbæjar.

Hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles.

Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefnum. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnusporin eru nú orðin fimm að tölu og má finna víða, beggja vegna, á gangstéttum miðbæjarins, þá helst er nær dregur til norðurs.

Súlan

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Súlan; minnismerki.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar eru veitt árlega einstaklingum eða fyrirtækjum sem unnið hafa vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Verðlaunagripurinn er eftir Elísabetu Ásberg og ber heitið Súlan.

Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum í apríl 2018 að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duus Safnahúsa. Tilefnið var afmæli þriggja menningarstofnana bæjarins á árinu. Bókasafn Reykjanesbæjar varð 60 ára, Byggðasafn Reykjanesbæjar 40 ára og Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna.

Minnismerkið er skammt suðvestan við Duushús.

Togvíraklippur

Togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi og skel af tundurdufli

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Togvíraklippur; minnismerki.

Á túninu eru hlutir frá Landhelgisgæslu Íslands, togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi, líklega Þór og skel af tundurdufli. Þegar í upphafi 15. aldar leituðu breskir fiskimenn á Íslandsmið og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Margvíslegar deilur spruttu af þessum fiskveiðum og einnig verslun við landsmenn. Danska stjórnin reyndi að stjórna þessari umferð með misjöfnum árangri.

Árið 1952 var landhelgin færð í 4 sjómílur og jafnframt út fyrir grunnlínur til að loka fjörðum og flóum. Landhelgin var síðan færð út í nokkrum áföngum. Árið 1958 í 12 sjómílur, 1972 í 50 sjómílur og loks 1975 í 200 sjómílur eins og hún er í dag. Allar þessar aðgerðir ollu miklum deilum við nágrannaþjóðir, einkum Breta.

Ýmsum brögðum var beitt. Bretar settu hafnbann á fiskútflutning Íslendinga til Bretlands og sendu herskip á miðin til varnar fiskiskipum sínum. Íslensku varðskipin reyndu að stöðva og trufla veiðarnar. Þann 5. september 1972 var leynivopni, hönnuðu af Íslendingum, fyrst beitt en það voru togvíraklippur.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – togvíraklippur; minnismerki.

Klippt var á togvíra um 100 breskra togara áður en yfir lauk. Bresku herskipin reyndu að trufla varðskipin með því að sigla á þau og einu sinni lá við að varðskipinu Tý yrði hvolft. Þann 11. september 1975, kærðu Íslendingar Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og slitu stjórnmálasambandi við þá í nokkra mánuði árið 1976. Þessum deilum lauk með samningum. Þann 1. desember 1976 hurfu bresk fiskveiðiskip úr íslenskri lögsögu og allir útlendingar utan Færeyingar voru farnir ári seinna.

Klippurnar eru á Keflavíkurtúni vestan og gegnt Duus Safnahúsum.

Guðmundur Kr. Guðmundsson (1897-1946)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Til minningar um Guðmund Kr. Guðmundsson, skipstjóra, f. 14. janúar 1897 og þá sem með honum fórust 9. febrúar 1946.
Pál Sigurðsson, f. 29. okt. 1915,
Ólaf Guðmundsson, f. 12. nóv. 1925,
Kristinn Ragnarsson, f. 23. okt. 1924,
Marías Þorsteinsson, f. 25. mars 1906.
Blessuð sé minning þeirra.

Í umfjöllun um slysið má lesa: “Geir frá Keflavík ferst – Síðastliðinn föstudag fóru Keflavíkurbátar almennt á sjó, og var veðurspá góð, en þó sneru þrír bátar aftur. Í birtingu fór að hvessa og um hádegi á laugardag var komið fárvirðri.
Um kl. 4 á laugardag fóru fyrstu bátarnir að koma að landi og um miðnætti voru allir Keflavíkurbátar komnir að nema v.b. Geir.
Strax morguninn eftir var hafin leit úr flugvél en hún reyndist árangurslaus.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Fyrri hluta sunnudags bárust fregnir af Miðnesi að farið væri að reka brak, sem reyndist vera úr v.b. Geir.
Fimm menn voru á bátnum, Eigandi hans og skipstjóri var Guðmundur Kr. Guðmundsson, 49 ára, alþekktur afla- og dugnaðarmaður, hann lætur eftir sig konu og tvo uppkomna syni og unga fósturdóttur. Vélstjóri var Páll Sigurðsson, 30 ára, kvæntur og átti tvö börn. Aðrir skipverjar voru Kristinn Ragnarsson 21 árs, kvæntur en barnlaus, Ólafur Guðmundsson 20 ára, ókvæntur og Marías Þorsteinsson frá Ísafirði, 39 ára og ókvæntur.

V.b. Geir var 22 smálestir að stærð, smíðaður í Reykjavík 1938 og var mjög traustur bátur.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Bolafótur
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Upp, upp mín sál og allt mitt geð
upp mitt hjarta og rómur með.
Hugur og tunga hjálpi til
herrans pínu ég minnast vil.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur.

Svo hljóðar upphaf Passíusálma Hallgríms Péturssonar, eins mesta sálmaskálds allra tíma á Íslandi. Ævi skáldsins var viðburðarrík, hann ólst upp á biskupssetrinu á Hólum en rúmlega tvítugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti hóps sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.

Í hópnum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum sínum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur – tóftir.

Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmenn í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.

Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. Hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Prestsembættið á Hvalsnesi var þó upphafið á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan aldur veiktist Hallgrímur af holdsveiki eða líkþrá og dó árið 1674.

Minnisvarðinn stendur norðan Sjávargötu í Njarðvík þar sem álitið að býlið Bolafótur hafi staðið.

Hafsteinn Guðmundsson (1923-2012)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var hvalreki fyrir æskulýðs- og íþróttastarf í Keflavík. Hann var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-1960. Í formannstíð Hafsteins var ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari á mesta blómaskeiði knattspyrnunnar í Keflavík, fyrst 1964 og síðan 1969, 1971 og 1973 og ÍBK var einnig bikarmeistari 1975.
Hafsteinn er með réttu nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann var formaður Ungmennafélags Keflavíkur 1978-1981, sat í stjórn KSÍ og var landsliðseinvaldur 1969-1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur og hann var heiðursfélagi UMFK.

Þetta minnismerki var reist með stuðningi Íslandsmeistara Keflavíkur 1964, 1969, 1971 og 1973 og bikarmeistara 1975.

Nöfn 36 leikmanna eru á skildinum.

Einnig styrktu þessir aðilar verkið,
Reykjanesbær, Kaupfélag Suðurnesja, KSÍ, Samfylkingin, K. Steinarsson, Steinar Sigtryggsson, Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Minnisvarðinn stendur á knattspyrnuvellinum í Keflavík.

Jón H. Jörundsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Jón H. Jörundsson.

Stuðlabergsslysið er sjóslys sem varð að kvöldi 17. febrúar eða aðfaranótt 18. febrúar 1962. Síldarbátur frá Seyðisfirði Stuðlaberg NS 102 með 11 manna áhöfn fórst þá út af Stafnesi að talið er og rak brak úr bátnum á fjörur milli Garðskaga og Sandgerðis. Meðal þess sem rak á land var bjarghringur með nafni bátsins sem fannst hjá Þóroddstöðum. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi. Síðast heyrðist í bátnum þar sem hann var staddur út af Selvogi á leið til Keflavíkur til löndunar og voru mörg skip á þeirri siglingaleið. Stuðlaberg kom hins vegar aldrei til Keflavíkur og var talið þar að báturinn hefði haldið til Hafnarfjarðar þar sem hann hafði áður landað. Vegna þessa varð bátsins ekki saknað fyrr en 21. febrúar er Slysavarnafélagi Íslands var gert viðvart. Eins og áður segir rak talsvert brak úr bátnum á fjörur milli Hafna og Garðskaga og fannst lík eins skipverja rekið undan bænum Fuglavík. Stuðlaberg NS 102 var 152 lesta stálbátur sem gerður var út frá Suðurnesjum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Til minningar um
Jón H. Jörundsson, f. 21. mars 1929,
Pétur Þorfinnsson f. 20. mars 1931,
Kristján Jörundsson, f. 9. nóv. 1927,
Karl G. Jónsson, f. 7. ágúst 1933,
Birgi Guðmundsson, f. 19. maí 1922,
Guðmund Ólason, f. 5. ágúst 1923,
Gunnar L. Hávarðarson, f. 5. júlí 1944,
Ingimund Sigmarsson, f. 23. maí 1930,
Kristmund Benjamínsson, f. 16. sept. 1929,
Stefán Elíasson, f. 8. júní 1922,
Örn S. Ólafsson f. 12. febr. 1940
Fórust með mb. Stuðlabergi, 17. febr. 1962.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Ólafur B. Ólafsson (1945-1999)
Til minningar um Ólaf B. Ólafsson f. 10.7.1945 – d. 19.12.1999

Gefið af eiginkonu hans str. Hildi Guðmundsdóttur.

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið í Keflavík.

Hafa ber í huga að eflaust eiga einhverjir minnisvarðar er leynast kunna í Reykjanesbæ að bætast við framangreinda upptalningu er fram líða stundir.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stapakot og Víkingaheimar.