Selsvellir – Þórustaðastígur – Vigdísarvellir – eldflaugaskot
Gengið var frá rótum Trölladyngju inn á Selsvelli þar sem ætlunin var að fylgja Þórustaðastíg yfir Núpshlíðarhálsinn að Bæjarfelli ofan Vigdísarvalla og Bala. Tilefnið var að staldra þar við og horfa á eldflaugaskot, sem þar átti að framkvæmast kl. 13:00 skv. auglýstri dagskrá.
Gangan inn að Selsvöllum var auðveld, enda gamburmosinn frosinn. Selsvallalækurinn lék við klakahulu. Lækurinn hafði þó myndað öndunarop á nokkrum stöðum og lágu þau líkt og nýmyndaðar „hrauntraðir“ út frá þeim og fylgdu lækjarfarveginum ofan á hulunni.
Þórustaðastígurinn fer þarna yfir Selsvellina á móts við sunnanverðan Moshól og áleiðis upp hlíðina norðan lækjarins þar sem hann kemur úr litríkum litlum dal í henni miðri. Leið lækjarins niður hlíðina er áhugaverð og margt ber fyrir augu á ekki lengri leið. Hitagróður er í farveginum. Þennan dag skartaði lækurinn tímabundnum og síbreytilegum ísskánslistaverkum. Ljóst er að dalurinn er hluti af Sogasvæðinu. Þarna hefur verið jarðhiti, en hann mun nú að mestu kólnaður. Neðar eru grónar sléttur er hafa að öllum líkindum verið hin ákjósanlegasta beitaraðstaða. Kúadalur er neðar, norðaustasti kriki Selsvalla – jafnhæða.
Þórustaðastígurinn liggur allt frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og liðast upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp fyrir Núpshlíðarháls og að Vigdísarvöllum.
Þegar komið var upp á hálsinn mátti sjá Keili norðar skarta sínu fegursta í vetrarsólinni. Austan við eru Grænuvatnseggjar og neðar Krókamýri. Sveifluhálsinn hafði ekki fyrr gefið jafn skýra heildarmynd af sér.
Þórustaðastígnum var fylgt á ská niður á við til suðurs austan við Núpshlíðarháls, allt að ofanverðu Bæjargili. Efst í gilinu er hlaðinn brú á stígnum. Þegar komið var á sunnanverða brún Bæjarfellsins mátti sjá þrjá bíla á bílastæðinu milli Vigdísarvalla og Bala.
Skömmu fyrir kl. 13:00 færðu ökumennirnir sig sunnar með Djúpavatnsveginum, að gígaröðinni vestan Bleikingsvalla. Þar mynduðu menn sig við undirbúning eldflaugaskotsins.
Þarna átti að fara fram tilraunaskot á vegum A.I.R áhugamannfélag um eldflaugar og eldflaugaskot á Íslandi. (Amateur Icelandic Rocketry). Að verkefninu standa þrír ungir menn, þeir Magnús Már Guðnason, Smári Freyr Smárason og Steinn Hlíðar Jónsson. Halda þeir félagar úti vefsíðunni www.eldflaug.com og má þar sjá framvindu um smíðina á eldflauginni og ýmislegt er varðar eldflaugarskotið. Að öllum gefnum tilskildum leyfum var allt orðið klárt og átti flaugin að fara á loft kl. 13:00, sem fyrr sagði.
Fyrir þá sem ekki vita þá er flaugin 203 cm að hæð og 63 mm í þvermá og um 5 kg. Hún mun ná allt upp í 1200 metra hæð og allt að 600 km/klst. Eldflaugin fer þessa 1200 metra á aðeins 15 sekúndum og eftir aðeins 0,5 sekúndur mun hún ná hámarkshraða eða um 600 km/klst. Í efstu stöðu (sem sagt í 1200 metrum) skýst út fallhlíf og fellur þá flaugin á um það bil 20 km hraða til jarðar. Allt ferlið var áætlað að tæki um það bil 2-3 mínútur.
Markmið með Áhugamannafélaginu AIR (Amateur Icelandic Rocketry) er að hanna og smíða áhugamannaeldflaugar. Um er að ræða nýsköpunarverkefni hér á landi þar sem aldrei áður hefur verið skotið upp eldflaug (að þeirra vitandi).
Upphaflegar áætlanir hljóðuðu upp á þrjár eldflaugar í sumar (2006) en þar sem ekki hefur fengist nógur tíma til að smíða og hanna þær allar á svo skömmum tíma munu líklegast einungis tvær verða tilbúnar á þessu ári.
Aðalmarkmið verkefnisins til að byrja með er að komast yfir hljóðhraða eða á um 1200 km/klst. Sú flaug mun væntanlega verða tilbúin einhvern tímann á næsta ári (2007) ef allt gengur upp og ef við fáum styrki til að framkvæma skotið.
Seinna meir langar hönnuðina að komast yfir veðrahvolfið eða yfir 10 km en það mun skýrast seinna hvort þær áætlanir ganga upp.
Frostið var um 15 °C. Eftir tæplega klukkustundar bið á Bæjarfelli var ákveðið að halda til baka.
Gengið var að vörðu á efsta toppi Bæjarfells. Um er að ræða litla vörðu, en frá henni er óvenju víðsýnt um nágrennið. Þá var haldið norður með austanverðri Núpshlíðunni, inn að Grænavatni. Þegar komið var yfir öxlina vestan hins formfagra fjalls norðan vatnsins blasti við stórkostlegt útsýni yfir vestan- og norðanvert láglendið þar sem Keilir var toppurinn. Sólin skein fagurlega á Selsvellina og vildi greinilega með því undirstrika fegurð þeirra. Sunnan og vestan Grænavatns hefur utanvegaakstur verið stundaður um allnokkurn tíma og valdið miklum skaða á gróðurlænum í í hlíðum.
Gengið var norður með vesturhlíð Núpshlíðarhálssins, að Sesseljuvatni og Spákonuvatni. Sumir nefna þessi vötn Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.
Þaðan var haldið á ská niður að upphafsstað, með Sogagíg og Trölladyngju á hægri hönd. Í fjarska naut höfuðborgarsvæðið sín í miðdegissólinni.
Í kvöldfréttunum var m.a. fjallað um eldflaugaskotið við Vigdísarvelli fyrr um daginn.
Var talið að „merkur árangur hafi náðst þegar AIR skaut þarna upp sinni fyrstu eldflaug (AIR 203). Allt gekk að óskum fyrir utan bilun í innbyggðu myndavélinni.
Mikill fjöldi fólks mætti á svæðið og fagnaðarlætin leyndu sér ekki þegar eldflaugin tókst á loft.
Flaugin náði hámarkshraða á einungis 92,1 metra hæð eða 590 km hraða. Hámarkshröðunin á þessum tíma var 332 m/s^2 eða 34 g. Eftir 14,9 sekúndur var hún komin í efstu stöðu eða í 1081 metra hæð. Þar tók við fallhlíf sem sveif með flaugina á 28,7 km hraða til jarðar og lenti flaugin upp í fjallshlíð, 400-500 metra frá skotstað.
Þess má geta að flaugin var 5,2 kg og 203 cm að hæð og einungis þurfti 610 grömm af eldsneyti til að knýja flaugina áfram.“
Í annarri frétt sagði: „Eldflaug var skotið upp í fyrsta sinn frá Íslandi af Íslendingum í dag. Enginn varð þó fyrir skotinu enda til gamans gert. Sumir hafa sérkennilegri áhugamál en aðrir…
Fjöldi fólks var saman kominn á Vigdísarvöllum skammt frá Krýsuvík til að fylgjast með þessari fyrstu íslensku eldflaug sem skotið hefur verið á loft hér. Markmiðið var að ná henni upp í um það bil 1000 metra hæð, koma henni í 5-600 km hraða á um hálfri sekúndu og fá hana niður í fallhlíf í um 500 metra radíus frá skotstaðnum.
Og það tókst. Flaugin kom stráheil niður, náði 590 km hraða á hálfri sekúndu og fór upp í 1080 metra hæð við mikinn fögnuð viðstaddra.
En til hvers í ósköpunum að smíða eldflaug? „Þetta er bara gaman,“ segir efnafræðineminn Magnús. En þetta er dýrt hobbí, þessi flaug hefur kostað þá skólapilta 350-400 þús. kr. „En tilgangurinn er að smíða þrjár flaugar og ná hljóðhraða með þeirri þriðju, um 1200 kílómetra á klukkustund,“ segir Smári Freyr sem er forsprakki eldflaugasmiðanna. En hvað er fengið með því annað en fúttið?
„Fúttið,“ svaraði Smári og brosti í kampinn.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.eldflaug.com/