Fjárborgir – almennt

Gvendarborg

Fjárborgir eru hringlaga byrgi sem ætluð voru sauðfé sem skjól á fyrri öldum, oftast hlaðnar úr grjóti en stundum líka úr torfi. Hleðslan er borghlaðin þannig að hún dregst smám saman að sér og mjókkar upp á við.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi, topphlaðin.

Yfirleitt var látið nægja að hlaða háa veggi í fjárborgir en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Í sumum tilvikum mætast hleðslurnar í toppinn. Algengast er að fjárborgir séu hringlaga en það er þó ekki algilt. Aðeins einn inngangur er á hverri fjárborg.

Fjárborgir eru algengastar á Suðurlandi og er vitað um að minnsta kosti 142 á Reykjanesskaga. Margar hafa varðveist vel sýnilegar en aðrar eru ógreinilegri. Sums staðar eru einungis undirstöðurnar eftir en þegar hætt var að nota fjárborgirnar var grjótið úr þeim stundum nýtt í önnur mannvirki.

Pétursborg

Pétursborg ofan Voga.

Byggingarlag fjárborganna gæti verið fornt á Íslandi og gefa örnefni og fornleifarannsóknir mögulega vísbendingar um það. Ritheimildir greina þó ekki frá fjárborgum fyrr en á 18. öld.
Fjárborgir eru merkur vitnisburður um sauðfjárrækt sem lengst af skipaði stóran sess hér á landi. Það skipti máli að féð sem gekk úti kæmist í skjól og hafa fjárborgirnar verið mikilvægar til að forða því að það félli í vondum vetrarveðrum.
Fjárborgirnar sóma sér vel í íslensku landslagi og er látlaus tign yfir þeim þar sem þær standa í hrauni og móum sem minnisvarðar um horfna búskaparhætti. Þær hafa tvímælalaust mikið minjagildi enda eru margar þeirra friðlýstar.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.