Hitti Grindvíking…
Hitti Grindvíking á N-1 í morgun. Bauð honum að venju upp á ókeypis kaffi. Settumst niður í „Heita pottinn“ og spjölluðum um allt og ekkert. Hann virtist svartsýnn á ástandið í bænum og nágrenni en varð loks sammála um að framtíð Grindavíkur væri bara verulega björt – til langrar framtíðar litið.
Ferlir – fyrsta myndin. Þátttakandi við öllu búinn – fyrirhuguð ganga á Helgafell; spáð var rigningu, yfir á að fara, slæmu skyggni í hellum á leiðinni og takmörkuðu súrefni á efstu hæðum.
Hann: „Heyrðu, ég hef alltaf af og til verið að fylgjast með vefsíðunni ykkar; ferlir.is. Hún er alveg frábær, ótrúlega mikill fróðleikur saman kominn um tiltekið landssvæði. Upplýsingarnar koma mér alltaf jafn mikið á óvart – bæta til muna við fyrrum vitneskjuna. Þið fjallið um minjar, náttúrufyrirbæri, sagnir, sögur og birtið viðtöl við fólk, sem hefur frá ýmsu markverðu að segja frá fyrri tíð. Það hlítur að liggja mikil vinna þarna að baki; að leita uppi heimildir, tala við heimafólk, fara á vettvang og skoða aðstæður og uppgötva svona margar áður óþekktar fornleifar. Bara talandi um selstöðurnar. Mér hefði aldrei dottið í hug að þær væru svo margar sem ykkur hefur tekist að skrá á ekki stærra svæði. Hvernig hafið þið farið þið að þessu?, að ekki sé talað um alla vinnuna við að stofna og reka síðuna öll þessi ár frá degi til dags.“
Gaman var að sjá að einhver skuli vera eins meðvitaður um viðvangsefnið og raun bar vitni.
Ég: „Markmiðið í upphafi var að fá samstarfsfólkið í rannsóknarhluta lögreglunnar í Reykjavík til að breyta bæði um umhverfi og viðfangsefni a.m.k. einu sinni í viku, þ.e. um helgar, með hreyfingu í huga.
FERLIRsfélagar með staðarhaldara Bessastaða.
Þetta fólk á mikið lof skilið. Það lagði á sig mikla ánægjulega vinnu. Leitin að bæði þekktum og óþekktum minjum eða minjasvæðum var tálbeitan. Eftir að hafa gengið markvisst um Reykjanesskagann í áratug og safnað upplýsingum var ákveðið að koma gögnunum á stafrænt form, gert öllu áhugasömu fólki um landssvæðið aðgengilegt. Þau lýsa m.a. ágætlega við hvaða aðstæður og hvaða kost forfeður og – mæður bjuggu við hé ráður fyrr. Vefurinn hefur síðan þrisvar sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga vegna krafna um tæknilegar uppfærslur. Sérhver slík hefur í framhaldinu bæði kostað álitlega fjármuni og auk þess kostað einn mann a.m.k. árs vinnu við að aðlaga og uppfæra gamlar skrár að nýjum og bæði tengja þær gömlum myndum, sem jafnan hafa farið forgörðum, og endurnýja aðrar.“
Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.
Hann: „Þetta er nú svolítið sérstakt í ljósi nýjustu umræðu sérfræðinga í fjölmiðlum um mikilvægi hreyfingar og útivistar á lýðheilsu almennings. Þið virðist, a.m.k. á þeim tíma, hafa verið svolítið á undan ykkar samtíð?“
Ég: „Við vorum á undan öðrum hvað varðaði tilgang og nýtingu hreyfingarinnar í þágu annars en hreyfingarinnar einnar vegna sem slíkrar. Áður höfðu t.d. Ferðafélagið og Útivist boðið upp á dagsgönguferðir, en til gangurinn var fyrst og fremst að fara frá A-B með formötuðum fróðleik. Þátttakendur þeirra félaga þurftu að greiða fyrir leiðsögnina, en í okkar tilvikum var hún að mestu ókeypis, auk þess sem öðru áhuga- eða átthagafólki, sem vildi taka þátt í „leitinni“, var frjálst að slást í hópinn. Í því áhugasama fólki fólust mikil áður óþekkt verðmæti. Áherslan var m.a. lögð á að grennslast fyrir um lifnaðarhætti fólksins okkar fyrrum. Vitneskja um fortíðina nýtist jú nútímafólki ágætlega – ef vel er skyggnst.
FERLIR – elsta vefsíðan.
Hef tekið eftir því undanfarið að yngri „sérfæðingar“ hafa birst í fjölmiðlum og talið sig hafa fundið lausnina á að viðhalda lýðheilsu landsmanna. Hún er, að þeirra sögn, fólgin í hreyfingu og útivist, sem eru jú reyndar bæði gömul sannindi og ný.“
Hann: „Var að spá. Þið hafið komið óhemjumiklum upplýsingum á framfæri, að ógleymdum öllum uppdráttunum af einstökum stöðum og svæðum. Hefur hann nýst öðru en áhugasömu fólki, t.d. opinberum aðilum, á einhvern hátt og hvernig ætlið þið eiginlega að viðhalda öllum fróðleiknum. Ef vefsíðan hverfur einn góðan veðurdag, eða jafnvel vondan, munu vissulega mikil verðmæti glatast.“
Ferlir – jólakort frá Dóru Hlín, einum Ferlisfélaganum árið 2000.
Ég: „Fróðleikurinn hefur fyrst og fremst verið gerður fyrir áhugasama einstaklinga. Uppdrættir af minjum og minjastöðum fylla heilans skáp. Margir þeirra hafa verið birtir með umfjöllunum á vefsíðunni. Við höfum jú sent opinberum stofnunum upplýsingar þegar einhvers staðar stefnir í óefni, t.d. við opinberar framkvæmdir, en höfum skynjað að lítill áhugi hefur verið þar innan dyra á slíkum ábendingum „áhugafólks“. FEERLIs félagar bentu t.d. á sínum tíma á fyrirhugaða eyðileggingu verktaka á vörslugarðinum í Tóum í Afstaðahrauni. Framkvæmdir voru, sem betur fer, stöðvaðar samstundis. Í ljós kom að eftirlitslaus verktakinn var kominn langt út fyrir heimilt framkvæmdarsvæði.
Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-Tóu.
Í dag stendur garðurinn enn við hinn forna Tóustíg á þeim slóðum.
Beinlínis vegna áhugaleysis hins opinbera hafa fornleifar því miður verið látnar fara forgörðum. Má þar nefna fornleifar að Úlfarsá í Úlfarsárdal, fjárskjól í Dalnum í Hafnarfirði og brennisteinsnámutóftir undir Baðstofu í Krýsuvík. Í tilviki fjárskjólsins létu yfirvöld hjá líðast, því miður – að viðhafast nokkuð án nokkurra viðurlaga eða áminninga þrátt fyrir augljóst tilefni. Í tilviki Krýsuvíkur létu yfirvöld hjá líðast að skrá fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæðinu, með tilheyrandi afleiðingum. Ljóst er að framangreindu að einhver í þágu hins opinbera er ekki að vinna vinnuna sína.“
![Grænavatnseggjar](https://ferlir.is/wp-content/uploads/2004/05/Grænavatnseggjar-300x208.jpg)
FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.
Héldum samtalinu áfram um stund – um nánast allt og ekkert, sem ekki verður fjölyrt um hér.
Hann: „Þetta er alveg ótrúlegur fróðleikur, eins og ég sagði. Eigið þið eftir við einhverju að bæta.“
Ég: „Já, reyndar. Að baki vinnu undanfarinna áratuga liggja fyrir hnitaskrár yfir allar skráðar fornleifar og náttúruminjar á Reykjanesskaganum, hvort sem um er t.d. að ræða, sel og selstöður, selstíga, brunna, fjárborgir, flugvélaflök, fornar þjóðleiðir, greni, hella og fjárskjól, letursteina, refagildrur, fjárréttir, skotbyrgi, sæluhús, vörður, bæði nafngreindar, með vísan í konungsútskurði eða við fornar leiðir, og aðrar tóftir á Reykjanesskaganum, svo eitthvað sé nefnt.
![Skipsstígur](https://ferlir.is/wp-content/uploads/2005/07/Grindavik-Skipsstigur-10-300x225.jpg)
Skipsstígur – endurbættur skv. „nútíma“ kröfum á tímum hestvagnsins.
Við eigum bara eftir að finna út hvernig er hentugast að birta slík uppsöfnuð verðmæti almenningi til handa. Reynsla okkar er því miður sú að sumir skráningaraðilar fornleifa virðast nýta sér upplýsingarnar á vefsíðunni án þess að geta þeirra í heimildum sínum. Það er ólíðandi. Svo virðist sem sumir fornleifafræðingar virðast haldnir einhverri minniháttarkennd, þ.e. eru feimnir við að tala við og/eða vitna í heimildir og uppgötvanir áhugafólks. Sjálf höfum við reyndar tekið þátt í einstökum fornleifaskráningum, án þess að þiggja fyrir það greiðslur, sem jafnan hafa reynst þær bestu er þekkjast.“
Hann: „Var að spá. Hafið þið einhvern tíma fengið einhverja viðurkenningu fyrir framlagið?“
Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.
Ég: „Já, vissulega. Daglega berast jákvæðir póstar frá einstaklingum á ferlir@ferlir.is er innifela þakklæti fyrir efnið, auk fjölda spurninga, s.s. um tilfallandi hnit á einstaka staði. Höfum ávallt svarað slíkum fyrirspurnum samdægurs. Höfum hins vegar aldrei fengið slíka pósta frá opinberum aðilum. Sum sveitarfélög á Reykjanesskaga hafa þó verið okkur hliðholl og styrkt okkur með smáupphæðum ár hvert, sem og einstakir notendur. Styrkirnir hafa hjálpað okkur til að viðhalda síhækkandi hýsingarkostnaði.
Hvert sem við höfum leitað hefur okkur ávallt verið vel tekið. Fólk hefur haft samband við okkur vegna upplýsinga eða heimilda, sem það hefur búið yfir frá forfeðrum sínum og sýnt okkur gögn er beinlínist stangast á við aðrar yfirlýstar sem slíkar.
Heimsóknir á vefsíðuna er u.þ.b. ein milljón á ári hverju.“
FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.
Hann: „Þið eigið skilið riddarakross fyrir framlag ykkar. Ég er stoltur af því, að þú Grindvíkingurinn, skuli vera í forsvari fyrir þessu stórmerkilega verkefni. Þakka þér og þínum.“
Ég. „Myndi afþakka krossinn þann fyrir okkar hönd. Hann er einungis pjátur forsetaembættisins í anda forláta danska konungsveldisins og á ekkert skylt við uppeldislífsviðhorf okkar Íslendinga um aldir.“
Samtalið var nú truflað af öðrum nýkomnum í „Heita pottinn“. Sá hafði meiri áhuga á enn einu væntanlegu eldgosinu ofan Grindavíkur á næstu dögum…
Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Reykjanesskagans í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.