Endurvígsla sæluhúss á Mosfellssheiði
Á vefsíðu Ferðafélags Íslands mátti þann 23. júni 2025 lesa eftirfarandi um „Vígslu sæluhúss FÍ á Mosfellsheiði“:
„Veðrið lék við gesti sem áttu mjög ánægjulega og hátíðlega stund. Fjallasýnin til Þingvalla var einstaklega tilkomumikil og fögur.
Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum.
Ólöf Kristín Sívertsen, forseti FÍ bauð fólk velkomið og þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að endurbyggingu hússins. Þar hafa bræðurnir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir annast byggingu hússins en auk þeirra var Unnsteini Elíassyni hleðslumeistara úr Borgarfirði, Bjarka Bjarnasyni sem leiddi undirbúning verkefnisins, leyfismál og fl., Bjarna Bjarnasyni frá Hraðastöðum og Jóni Sverri einnig þakkað fyrir þeirra framlag. Þá var þakkaður stuðningur frá Erni Kærnested og fasteignafélaginu Bakka.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ fór m.a. yfir sögu skálabygginga FÍ og starf félagsins í upphafi, sýn og drauma frumkvöðlanna og sjálfboðaliðanna sem leiddu starf félagins og byggðu upp á fyrstu árum þess. ,,Endurbygging sæluhússins er okkur hjá FÍ afar kær og okkur finnst mikilvægt að sinna því. Skilgreint hlutverk félagsins er m.a. bæði að skipuleggja ferðir um landið og standa að skálauppbyggingu og rekstri fjallaskála. Okkar hlutverk er einnig að halda til haga ýmsum fróðleik og huga að sögulegum rótum – framkvæmdirnar á Mosfellsheiði eru mjög í þeim anda,“ sagði Páll.
Bjarki Bjarnason fór m.a. yfir vegagerð á Mosfellsheiði, sagði sögu af enskum ferðalangi sem leitaði skjóls í sæluhúsinu í aftakaveðri og með koníak og súkkulaði í nesti, sem bjargaði lífi hans. Þá rakti hann tilurð verkefnis og framkvæmdasögu sæluhússins.

Örvar og Ævar Aðalsteinssynir hafa haft veg og vanda af endurbyggingu hússins og gert það með miklum sóma.
Örvar og Ævar Aðalsteinssynir greindu frá byggingu hússins, allt frá grunni og þar til verkinu var lokið. Þeir greindu frá því hvernig verkefnið hefði verið unnið í áföngum, frá ári til árs og gengið einstaklega vel.
Fjölmargir hestamenn mættu i kaffi ( kristal ) og tóku lagið.
Pétur Ármannsson þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við alla þá sem að þessu verkefni hafa komið og greindi frá hugsanlegri friðun Þingvallavegar hins gamla, sem nú er í umsóknarferli.
Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu.
Að lokum var boðið upp á léttar veitingar og Örævabandið tók nokkur lög inni í sæluhúsinu við góðar undirtektir.“
Þetta hefur verið svolítið skondin samkoma á Mosfellsheiðinni þennan umrædda „dýrðardag“ og margir raftar þar á sjó dregnir af litlu tilefni „endurvígslunnar“.
Þess má t.d. geta, í fysta lagi, að ekki er um „endurbyggingu“ sæluhúss FÍ að ræða. Sæluhúsið var byggt á kostnað íslenska ríkisins árið 1906 í þeim tilgangi að skapa afdrep fyrir Friðrik VIII Danakonung í heimsókn hans hingað til lands árið eftir. Einn forkólfa Árbókar FÍ 2023 ánafnaði félaginu leifum hússins, að því er virðist án nokkurrar heimildar.
Þá ber að hafa í huga að vagnvegagerðin um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886, var að fullu lokið árið 1891. Í upphafi vegagerðarinnar var reist skjól fyrir vegagerðarmennina sem steintilhöggna sæluhúsið var síðar reist þar skammt frá. Tóftir gamla hússins má sjá austan við hið endurgerða hús sem og brunninn, sem þar var fyrrum upphlaðinn á klöpp. Svo virðist sem bæði minjaverði svæðisins og forkólfum verkefnisins hafi yfirsést þessar eldri minjar við útekt og undirbúning framkvæmdanna. Fyrrum reynsla af slíkum kemur þó ekki á óvart.
Af lýsingu Kålunds frá þessum tíma má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var, sem fyrr segir, á árunum 1886-1891. Við þá eldri leið hafði verið byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svonefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Til er ljósmynd af því húsi, sem nú er tóft ein. Á því var lítill kross á gafli, líkum þeim er settur hefur verið á gafl hins endurgerða sæluhúss.
Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi fyrst verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður á fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.
Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að „sæluhús“ úr torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega um 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.

„Endurvígsla“ gamla sæluhússins – Jón Svanþórsson, einn höfundanna um Árbók FÍ 2023 um Mosfellsheiðina kímir svolítið í kampinn.
Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið „sæluhús“ vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra „skjól“ við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.
Pétri „presti“ Ármannssyni ætti að vera vel kunnugt um að skv. Minjalögum eru allar minjar eldri en 100 ára friðaðar og því óþarfi að beita þær „friðlýsingum“ líkt og gert hafði í anda gömlu Þjóðminjalaganna.
Handverk Örvars og Ævars ber þó, þrátt fyrir alla vitleysuna, að lofa. Efast má hins vegar um að nokkur prestur hafi haft þar nokkurn tilgang, þangað til núna, til þess eins að babla um eitthvað sem engu máli skiptir.
Heimild:
-https://www.fi.is/is/fi/frettir/saeluhuhus
















