P-40

Þorkell Guðnason hafði samband og benti FERLIR á a.m.k. tvö flugvélaflök í Reykjafelli í Mosfellssveit.
Tvær amerískar flugvélar (hann vissi ekki hvers tegundar þær voru) hefðu flogið hvor Braká aðra yfir Reykjafellinu snemma árs 1944 og báðar hrapað þar til jarðar. Önnur flugvélin hefði lent suður í fellinu og hin í mýri skammt norðaustan við klett, svonefndan Einbúa. Hann og fleiri krakkar í Mosfellsdal hefðu farið þangað upp eftir og m.a. hirt byssur úr fyrrnefnda brakinu og borið til byggða. Hluta af því mætti sjá á steinsteyptum stöpli við Suður-Reyki. Síðarnefnda brakið ætti að vera sokkið í mýrina og því sæist ekkert af því núna.
Þegar komið var að Suður-Reykjum mátti sjá nefndan flugvélahluta framan við bæinn. Guðað var á glugga og knúið dyra. Málfríður Bjarnadóttir, eiginkona Jóns Magnúsar Guðmundssonar, bónda á Suður-Reykjum (nýlátinn), kom til dyra. Hún tók vinsamlega á móti gestunum. Eftir að hafa borið upp erindið, þ.e. hvort hún kannaðist við nefnd flugslys og gæti lýst staðsetningu vettvangsins í hvoru tilviki fyrir sig, svaraði hún því til að þetta hefði nú Jón hennar vitað. Sagðist Málfríður hafa heyrt af slysinu. Það hefði þá verið á vitorði heimafólks í sveitinni, en ekki hefði mátt segja frá því að öðru leyti. Þetta hefði verið “hernaðarleyndarmál”. Annar flugmaðurinn, sá sem hrapaði sunnan í Reykjafelli, sem reyndar héti Reykjafjall, hefði látist, en hinn er hrapaði undir Einbúa hefði náð að kasta sér út í fallhlíf og bjargaðist heim í Helgadal.
Sagðist Málfríður vita til þess að Guðmundur, sonur hennar og núverandi bóndi á Suður-Reykjum, gæti vísað á slysavettvangana. Hann væri nú að bjástra við hrossin í gerðinu þarna norðantil.
SlysavettvangurMálfríður var kvödd með þeim orðum að heimsóknin yrði endurtekin eftir gönguna um ReykjaFJALLIÐ.
Þegar komið var að hestagerðinu var nefndur Guðmundur í önnum við hnakksetningu. Hann gaf sér þó tíma til að svara spurningum FERLIRs. Sagðist hann kannast við atvikið og slysstaðina. Sá, sem væri sunnan í ReykjaFJALLI, vel enn vel greinilegur. Þar væri brak að finna á hallandi mel. Best væri að fara upp með autsanverðu gilinu ofan við austasta sumarbústaðinn norðan við Varmá. Þegar komið væri upp að efstu mörkum gilsins væri best að halda til austurs uns komið væri að brakinu er lægi þar á mel. Í hinu tilvikinu væri nú ekkert brak að sjá. Flakið hefði verið í mýri norðaustan í fjallinu og þar hefði það sokkið í hana smám saman.
MýrinHaldið var eftir vegarslóða inn að efsta sumarbústaðnum norðan Varmár. Þaðan var haldið inn að gilinu fyrrnefnda. Gengið var upp með austanverðu giliu, upp að þeim stað er það rann saman við ofanverða fjallshlíðina. Þaðan var gengið til austurs; að flakinu. Neðar kúrði Húsadalur.
Slysavettvangurinn var fremur lítill. Á honum mátti lesa að flugvélin hafði brunnið að hluta. Brakið var þó dreift um nokkurt svæði, en augsýnilega hafði verið hirt úr því allflestir “tengslahlutir” með textum og tölum. Þó mátti sjá áletrun á einum hlutnum (7-22-7125 1) eða eitthvað slíkt. Á vettvangi var tilfinningin sú að þarna hefði orðið mannskaði.
Þegar komið var upp að Einbúa dró flögubergið þar að sér alla athyglina. Á afmörkuðu svæði mátti Flögubergiðbæði sjá gular skófir (húsaglæðu) og smækkaða mynd af stuðlum í berginu. Mýrin norðaustan við Einbúa var einnig forvitnileg því þar mátti m.a. sjá jakobsfífil í samlífi við grávíði og birki, fjalldrapa og smjörlauf. Engin ummerki voru þar um flugslysið, en vegna þess hversu Helgadalsbærinn endurspeglaðist í kvöldsólinni frá Einbúa með útsýni yfir mýrina mátti telja líklegt að þarna hefði táknfræðingurinn sjálfur verið að senda tvífætlunum ákveðin skilaboð. Rjúpa skrapp undan fæti og flugu undan smávaxnir noðrar.
Á leiðinni niður af Reykjafelli var gengið fram á hól alsettan geyméreium. Ófáir staðir á landinu hýsa slíkan fjölda af þessu bláblómi en þarna má finna.
Þegar tekið var hús á Málfríði seinna sinnið kvaðst hún hafa kíkt í Sögu Mosfellsbæjar. Í henni, bls. 332, væri getið um slysið í ReykjaFJALLI. Þar segir: ”
SóleySnemma árs 1944 varð alvarlegt flugslys í Mosfellssveit þegar tvær herflugvélar fórust yfir Reykjafelli. Önnur vélin steyptist niður skammt ofan við Reyki og flugstjórinn lést. Hin vélin hrapaði við klettanípuna Einbúa í austanverðu Reykjafelli, flugmaðurinn komst í fallhlíf og lenti skammt frá bænum Helgadal í Mosfellsdal. Guðjón Sigurður Jónsson bóndi þar “bar flugmannin til bæjar, því hann var heldur illa á sig kominn. Guðjón lánaði honum stígvjel og húsfreyja hitaði te.” Lengi vel mátti finna leifar flugvélanna sem fórust í þessu sviplega slysi í Reykjafelli.”
Haft var samband við Þorkel Guðnason í framhaldi af ferðinni og spurt nánari upplýsinga. Svarið kom um hæl: “
Heimildarmaður minn var Jóel Kr Jóelsson, garðyrkjumaður, Reykjahlíð, Mosfellssveit.  f. 22.01.1921, látinn 16.06.2007. Hann var eiginmaður Salome, systur móður minnar. Ef ég man rétt, horfði hann á þetta gerast.  Hann sagði mér vélarnar hafi rekist saman og að flugmaður annarrar vélarinnar hafi komist út úr henni, en stungist á höfuðið í harðfennisskafl, því fallhlífin opnaðist ekki – var líklega í of lítilli hæð.
Innan hvíta hringsins [á myndinni] var aragrúi af vélbyssukúlum – hlutar úr byssubeltum og eitthvað af patrónum. Þarna við hólinn lá allstórt flugvélardekk með amerískum merkingum. Þetta er staður sem málmsafnarar áttu nokkuð greiða leið að og ég veit um allmarga sem stunduðu þá iðju.”
Samkvæmt Slysaskrá flugslysa á stríðsárunum varð atvikið þann 16. febrúar 1944. Um var að ræða tvær amerískar P40 herflugvélar. Nicolas Stam bjargaðist í fallhlíf, en William I. Heidenreich fórst er vél hans lenti í Reykjafellinu.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Málfríður Bjarnadóttir.
-Guðmundur Jónsson.
-Saga Mosfellsbæjar 2005, bls. 332.
-Sævar Jóhannesson.

Reykjafell

Reykjafell – flugvélaflak.