Grímslækur – Borgarhóll – Hjallhóll – Krossmói – Þúfustekkur – Breiðabólstaðaborg

Grímslækur

FERLIRsfélagar ákváðu einn góðan sumardagsmorgun að leita að og skoða Borgarhólsborgina á Efri-Grímslæk í Ölfusi, tvíræðan Hjallhólinn þar neðan við og örnefnið Krossmóa á millum bæjarins og Ytri-Grímslækjar. Þá var ætlunin að skoða Þúfustekk í Krögghólsstaðartorfunni suðaustan Krögghólsstaðarstekks (-borgar) sem og að lokum Breiðabólstaðaborgina.

Ölfus

Aðalskráning fornleifa í Ölfusi I – 2015; forsíða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2015 má m.a. lesa eftirfarandi um Efri-Grímslæk:
„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Um Hjallhól segir; „þjóðsaga/hjallur

Hjallhóll

Hjallhóll.

„Í Miðtúni efst, uppi við veginn út að Hrauni, er allstór hóll sem heitir Hjallshóll eða Hjallhóll að sögn heimamanna, en Guðjón á Ytri-Grímslæk kallar hann Hjallhól. Á hólnum er hjallsrúst. Þar var leikvangur barna í eina tíð. Í Hjallshól bjó huldufólk áður,“ segir í örnefnalýsingu. Hjallhóll er 150 m norðvestan við bæ. Hjallhóll er fast austan við malarveg að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Við norðausturhorn hólsins er braggi. Grasivaxin tún eru til allra átta nema vesturs, þar er malarvegur. Hólar eru víða í túninu.

Hjallhóll

Hjallhóll.

Hjallhóll er gróinn hraunhóll, 31×25 m í þvermál, 34 m á hæð og snýr austur-vestur. Lítill hellir er norðaustan til í hólnum. Hjallurinn er horfinn en hann var úr timbri að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns. Garðlag liggur þvert yfir vesturhluta hólsins og annað hleðslubrot eftir suðurhliðinni. Samtals afmarka þau svæði sem er 20×10 m að stærð og snýr norður-suður. Garðlag liggur norður-suður yfir vesturhluta hólsins. Það er 20 m á lengd, 0,2 m á hæð og grjóthlaðið. Það má greina 1 umfar af grjóthleðslu í garðlaginu en líklega var það hlaðið undir vírgirðingu. Garðlag B er 5 m austan við garðlag A.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárhústóft.

Suðaustan við Hjallhól er fjárhústóft, tæpa 140 m norðvestan við bæ 20 m suðaustan við Hjallhól. „Hún er rétt utan heimatúnsins eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1920. Tóftin er líklega ekki forn en höfð hér með vegna forns byggingarlags. Miðað við stærð og gerð tóftarinnar er hér um fjárhús að ræða. Timbri og fleira rusli hefur verið safnað suðaustan við tóftina.
Fjárhúsin eru innan grasivaxins túns með grónum hraunhólum og klettum víða.
Tóftin er ofan á grónum hraunhól en klettar eru norðan og sunnan í hólnum. Fjárhúsin eru 7×6 m að stærð, einföld og snúa norðvestur-suðaustur. Timburdyr eru suðaustan í tóftinni og standa þær enn. Þakið er fallið inn í tóftina og rusl þar yfir í norðurhluta. Veggirnir eru hlaðnir, 1-1,3 m á hæð. Ekki sést glitta í skýr umför heldur glittir víða í grjót. Ofan á veggjunum er bárujárn, fiskinet, plast og timbur.“

Grímslækur

Borgarhólsborg.

Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: „Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjárborgin telst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.“

Grímslækur

Grímslækur – tóftir Ytri-Grímslækjar.

Ekkert íbúðarhús er að Ytri-Grímsstöðum, einungis tóftir þess og útihúsa. Tekið var hús á ábúanda Efri-Grímslækjar, Gunnari Gunnarssyni, syni Gunnars Konráðssonar og barnabarni Konráðs Einarssonar, fyrrum bónda á sameiginlegri jörðinni. Gunnar tók mjög vinsamlega á móti aðkomandi. Eftir stutt spjall benti hann þeim á Borgarhólinn, skammt ofan við gatnamótin að bænum, áberandi hóll með hárri fuglaþúfu. Sagði hann Hjallhól vera neðan vegar, enda mætti enn sjá leifar hjallsins á hólnum.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að fornleifaskráendur höfðu skráð og merkt Hjallhól sem Borgarhól, lýst honum sem slíkum en bæði lýst hjallhólsminjunum og fjárborgarminjunum á sama staðnum. Þarna hafði greinilega eitthvað misfarist í úrvinnsluskrifmeðförum.

Í fornleifaskráningunni er „Borgarhóli“ lýst með eftirfarandi hætti: „Borgarhóll/tóft/hjallur: „Ofan vegarins út að Hrauni, vestan við heimvegarhliðið, er allstór hóll sem heitir Borgarhóll.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Á honum er rúst (hjalls),“ segir í örnefnalýsingu. Borgarhóll er tæpa 240 m norðvestan við bæ og 80 m norðan við Hjallhól. Hóllinn er stór og víðsýnt ofan af honum. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var byggður timburkofi á Borgarhól af breska hernum meðan á hernámi þeirra stóð hérlendis á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Húsið stóð þar í einhver ár en fauk síðan og engin ummerki þess sjáanleg. Um 10 m austan hólsins er malarvegur að Hrauni.
Slétt, grasivaxið tún er til allra átta frá Borgarhól. Gaddavírsgirðing liggur eftir vesturhlið hólsins.

Grímslækur

Grímslækur – borgin á Borgarhól.

Þá segir: „Borgarhóll er stór hraunhóll, gróinn að hluta. Hann er 20-30 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Í auðausturenda hólsins er grjóthlaðin tóft á milli tveggja kletta. Tóftin er 8×8 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Hólf 1 er sunnar. Það er 7×4 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð og sést 1 umfar af grjóthleðslu í þeim. Klettur afmarkar suðurhlið hólfsins. Hólfið var líklega opið til vesturs en þar afmarkast tóftin öll af þýfðum bakka. Hólf 2 er norðar. Það er 7×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð og einungis 1 umfar af grjóthleðslu í veggjum. Hólfið var líklega opið til vesturs og grjót borið úr veggjum, þeir eru það lágir.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárrétt.

Falleg lítil fjárrétt er skammt norðan við Hjallhól. Í fornleifaskráningunni segir: „Gerði/rétt: „Tæpum 200 m norðan við bæ og rúmlega 30 m vestan við Kishól er fjárrétt. Hún er líklega einungis nokkurra áratuga gömul en höfð í þessari skrá sökum forns byggingarlags. Réttin er 30 m austan við malarveg að bænum.
Óræktað, gróið tún með hraunhólum og stökum klettum er norðan við réttina. Gaddavírsgirðing liggur til norðvesturs og austurs frá réttinni. Girðingin afmarkar slétt, grasivaxið tún sunnan við réttina.
Réttin er 16×11 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Réttin er grjóthlaðin og veggirnir standa enn.
Þeir eru 2-3 m á breidd, 0,5-1,3 m á hæð og sést glitta í 3-6 umför grjóthleðslu í þeim. Op inn í réttina er í norðvesturhorni og liggur gaddavírsgirðing frá því til tveggja átta líkt og lýst er hér ofar. Timburgrind er í opinu til varnar búfénaði. Inni í réttinni og ofan á veggjum er rusl, m.a. timbur, járn og girðingarefni.“

Um Ytri-Grímslæk segir í heimildum:

Grímslækur

Grímslækur – „minnismerki“ um fyrrum heitavatnsæðina að Þorlákshöfn ofan svæðis.

„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Á milli bæjanna Efri- og Ytri-Grímsstaðir er merkilegt örnefni: „Krossmói/heimild/nátthagi. Í kaupbréfi jarðarinnar Hrauns frá 1551 segir:: „svo og skildi herra Ellendur fra ij stags eingi j Lanbeyrvm og þad eingi sem krosinum á Grimslæck til heyrir.“ „Í mörkum milli bæjanna (Efri- og Ytri-Grímslækjar, niður við mýrina, er stórþýfður mói, vel hálfur frá Efri-Grímslæk. Móinn heitir Krossmói. Þar myndi krossinn helgi, sem nefndur er í Íslenzku Fornbréfasafni, er mér tjáð, staðið hafa.“ segir í örnefnalýsingu.

Grímslækur

Grímslækur – Krossmói.

Krossmói er 80 m norðan við bæ, rétt sunnan við landamerki Efri-Grímslækjar. Þar er grasivaxin, lág hraunbrún og mýrlent austan hennar. Ekki er vitað hvar krossinn stóð. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var þarna nátthagi fyrir kýr en engin tóft.“

Í örnefnalýsingu um Grímslæki segir m.a.: „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman. Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn. Heimildarmenn: Konráð Einarsson, f. 21/11 1898 á Efri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Guðjón Eyjólfsson, f. 21/1 1898 á Ytri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Systkini Konráðs, Ólafur, Kristinn og Sigurbjörg, sem öll ólust þar upp. Forfeður þeirra Grímslækjar manna hafa verið þar í marga ættliði. – 26. ágúst 1968; Eiríkur Einarsson.“

Kröggólfsstaðir

Þúfustekkur.

Í örnefnalýsingu fyrir Kröggólfsstaðatorfu segir m.a.: „Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn, auk þess voru hjáleigur á Kröggólfsst. og Þúfu (jarðab. Á.M). Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin. Nú mun vera búið að skipta beitilandi, en þau uppskipti eru utan við þessa skrá. Heimildarmenn eru: Eggert Engilbertsson í Hveragerði fyrir Kröggólfsstaði og sameiginlegt beitiland. Hann er fæddur á Kröggólfsstöðum 27. júlí 1904, og átti heima þar til 1929. Faðir hans og afi bjuggu og á Kröggólfsstöðum. Sá ættleggur mun hafa búið þar hátt í 200 ár.“

Kröggólfsstaðastekkur er gróinn hóll með leifum af stekk, fast sunnan við þjóðveginn norðaustur af Krossgötum. Skammt suðvestar er svo Þúfustekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.

Þúfustekkur

Þúfustekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu II“ frá árini 2017 segir m.a.:
„Þúfustekkur/tóft/stekkur; „Þúfustekkur: Hóll austur af Krst. stekk. Þar var gamall stekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.“ segir í örnefnalýsingu. Þúfustekkur er tæpa 1,2 km norðan við Þúfu og 180 m austan við Kröggólfsstaðastekk. Tóftin er 2 m vestan við vírgirðingu á merkjum Þúfu og Kröggólfsstaða en var áður í sameiginlegu beitarlandi.
Gróið hraun og mói. Víða kemur grjót í gegnum svörð. Móinn er þýfður og flatur. Hér og þar eru lágir hraunhólar, tóftin er á einum slíkum.
Tóftin er 21 x 7 m að stærð, snýr NNV-SSA og skiptist í tvö hólf eða byggingarstig. Beitarhúsið er sunnar og stekkurinn er norðar. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1 sem er beitarhúsið. Það er 11 x 3 m að innanmáli og snýr NNV-SSA. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,5 – 0,8 m á hæð, 2 m breiðir og má sjá 2-3 umför af grjóthleðslu í þeim. Víða er tekið að hrynja úr veggjunum að innan og gróið yfir hleðslurnar.

Breiðabólastaður

Breiðabólstaðaborg.

Um Breiðabólsstað í framangreindri fornleifaskráningu segir:
„1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.“

 Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.

Í skráningunni segir um Breiðabólsstaðarborg: „tóft/fjárskýli:
Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta.
Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhóll.

Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Það er tekið úr hólnum sjálfum og er ekki verið hentugt í hleðslur. Vesturveggurinn er best varðveittur og þar eru 2-3 umför af grjóti. Op er í norðvesturhorni en hrunið er fyrir það að mestu. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.“

Með framangreindri skoðun kom glögglega í ljós að ekki fara alltaf saman „hljóð og mynd“ þegar fornleifaskráningar og örnefnalýsingar eru annars vegar…

Heimildir m.a.:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Reykjaavík 2015.
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla II, 2017.
-Örnefnalýsing fyrir Efra- og Ytri Grímslæk í Ölfusi.
-Örnefnalýsing fyrir Kröggólfsstaði í Ölfusi.
-Örnefnaskrá fyrir Breiðabólstað í Ölfusi.

Grímslækur

Grímslækur – fjáborgin á Borgarhól – uppdráttur ÓSÁ.