Svolítið um Vatnsleysuströnd á liðinni öld

Kálfatjörn

Adolf Björnsson skrifaði um „Eirík Björnsson“ í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd í Íslendingaþætti Tímans árið 1973. Minningin lýsir að nokkru aðstæðum og mannlífi á Ströndinni á fyrri hluta síðustu aldar:

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

„Heiðurshjónin Halla Matthíasdóttur og Björn Jónsson og fluttust frá Norðurkoti á Vatnsleysuströnd árið 1922 til Hafnarfjarðar og ólu þar aldur sinn til æviloka. Þau lifðu bæði til hárrar elli.
Í Hafnarfirði reistu þau lágreist íbúðarhús í vesturbænum. Takmarkaður fjárhagur leyfði ekki að byggja nema við þröngan kost, svo ekki var hátt til lofts né vitt til veggja, og börnin voru þrjú og því strax þröngt i hinum snotru húsakynnum Norðurkotshjónanna frá Vatnsleysuströnd.
Þau Halla og Björn voru bæði roskin að aldri, er þau fluttust til Hafnarfjarðar, vinnulúin og starfsslitin eftir áratuga stranga og óblíða baráttu við fátækt og oft á tíðum bjargarskort, en ávallt voru þau lifsglöð og trúuð á betri tíma og bjartari framtíð komandi kynslóða.

Eiríkur Björnsson

Eiríkur Björnsson (1899-1973).

Á Vatnsleysuströnd var um aldamótin og reyndar löngum fyrr og síðar, háð harðsnúin barátta til lífsbjargar við úfnar öldur Faxaflóa og búið við algert hafnleysi þar um slóðir.
Undrar því engan, að erfitt var að sækja sjó og draga fisk úr sjó með handfærum á opnum árabátum á skammdegisnóttum og frosthörðum vetrum, sem oft var hlutskipti þeirra þar syðra.
Ekki bætti úr aflabrögðum á Vatnsleysuströnd, þegar erlend veiðiskip í upphafi aldar, vélknúin og hraðskreið, gerðust aðsópsmikil á miðunum og ógnuöu hinum opnu áratoguðu smáfleyjum með stórtækum botnvörpum og gegnu svo nærri heimamiðum, að segja hefði mátt, líkt og sagt var um ágang erlendra togara við sandana á Suðurlandsströndinni, að jafnvel garðlönd voru í veði.
Á Vatnsleysuströnd var nokkuð fengizt við fjárrækt, en erfitt reyndist um hrjóstruga hraunfláka Reykjanesskaga að finna grasreiti, til ræktunar vetrarfóðurs fyrir nokkrar kindur, er fylgdu flestum bæjum, eða bera niður á moldarlögum til kartöfluræktunar og annarra jarðavaxta.

Norðurkot

Norðurkot, lengst t.h. – Túnakort 1919.

Við þessar aðstæður ólst Eiríkur Björnsson upp í byrjun þessarar aldar í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd frá fæðingardegi 17. október 1899, unz hann 1922, þá 23 ára að aldri, fluttist til Hafnarfjarðar með foreldrum sínum, sem fyrr segir, og tveimur systkinum, Margréti og Jóni.
Margt ágætra manna og kvenna hafa flutt frá Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar og einnig tekið sér bólfestu víða annars staðar um landið. Allt þetta ágæta fólk hefir reynzt hinni nýju heimabyggð dugandi fólk og markað gæfuspor, þar sem það hefir stigið fæti.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Þó skal ekki vanmetið, að á Vatnsleysuströnd býr enn kjarnafólk, margt við aldur, sem aldrei hefir látið yfirbugast í erfiðleikum lífsbaráttunnar.

Eiríkur Björnsson var ekki skólagenginn umfram barnafræðslu, er hann naut af skornum skammti á æskuárum. Hann leitaði sér frekari fræðslu við lestur góðra bóka, og gaf sér til þess tíma, er hann átti aflögu, frá daglegum störfum. Hann var vandfýsinn og smekkvís á val bóka. Hann fylgdist áhugasamur með bættum kjörum og framförum þeirra stétta, er hann var vaxinn upp úr og urðu hans ævistörf, en það var sjómaðurinn á hafi úti og verkamaðurinn í landi.

Sigríður Eiríksdóttir

Sigríður Eiríksdóttir (1889-1970).

Eiríkur var vel metinn í starfi og gilti þar einu um samverkamenn og yfirboðara. Hann var harðduglegur til allra starfa, ósérhlífinn, glaðlyndur, samviskusamur, húsbóndahollur og umtalsgóður í hvers manns garð, er á vegi hans urðu, en lét aðra afskiptalausa.“

Kristín I. Tómasdóttir skrifaði um „Sigríði Eiríksdóttur„, ljósmóður, í Ljósmæðrablaðið árið 1970. Sigríður fæddist í Norðurkoti árið 1998. Þrátt fyrir fátækt tókst henni að berjast til mennta, ólíkt mörgum öðrum sem fæddust í hennar aðstöðu á Ströndinni fyrrum. Hún ólst upp í Hafnarfirði:
„Sigríður E. Sæland er fædd að Norðurkoti á Vatnsleysuströnd. Foreldrar hennar voru hjónin Eiríkur Jónsson sjómaður og bóndi að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og síðar að Sjónarhóli í Hafnarfirði og kona hans Sólveig Benjamínsdóttir frá Sjónahóli (Innri-Ásláksstöðum). Hún var elzt af stórum barnahóp og fluttist með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar 1907.

Vatnsleysuströnd

Innri-Ásláksstaðir 1977. Sjónarhóll lengst t.v. Ytri-Ásláksstaðir fjær sem og Móakot lengst til t.h.

Frú Sigríður útskrifaðist frá Ljósmæðraskóla Íslands 1912 og hóf strax ljósmóðurstörf í Garða- og Bessastaðahreppi. Hún fór til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar og nam þar við Righospitalet árin 1914—1915, og aftur fór hún til frekara náms 1937 og þá til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Sigríður var mjög lánsöm og eftirsótt ljósmóðir og vann alla tíð við ljósmóðurstörf, frá því að hún útskrifaðist og svo lengi sem heilsan entist. Hún giftist Stígi Sæland lögregluþjóni í Hafnarfirði 14. nóv. 1916. Þau eignuðust 3 börn og ólu upp eina stúlku frá 7 ára aldri og lét Sigríður eftir sig stóran hóp af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

Sigríður lét um ævina flest líknar- og mannúðarmál til sína taka. Hún vann mikið að bindindismálum og gekk árið 1910 í Stúkuna Danielsher no 4. og var einnig meðlimur í Stórstúku íslands. Hún var ein af frumkvöðlum Slysavarnardeildarinnar Hraunprýði í Hafnarfirði og formaður þar fyrstu árin og meðlimur Slysavarnafélags Íslands og heiðursfélagi síðustu árin. Hún var einnig ein af stofnendum Ljósmæðrafélags Íslands.“

Í Alþýðublaðinu 1977 er opna með yfirskriftinni „Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði“. Umfjölluninni fylgja nokkrar ljósmyndir:
„Vatnsleysuströnd á Reykjanesi er nú sem óðast að leggjast í eyði. Fæst húsanna eru nýtt sem mannabústaðir og á enn færri stöðum er rekinn búskapur. Hér hefur orðið á mikil breyting á síðustu árum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

En hvers vegna? Ástæðurnar eru sjálfsagt margar. Okkur Alþýðublaðsmönnum var tjáð af fólki á Vatnsleysuströnd að hún hefði alla tíð verið heldur rýr þar i sveit og hefðu því verið margir útvegsbændur á Ströndinni.
En lendingar hafa spillzt með árunum og sífellt lengist á miðin. Þannig er varla nokkur grundvöllur fyrir báta af þeirri stærð, sem geta notað gömlu lendingarnar á Ströndinni, en stærri bátarnir leggja flestir upp í Vogunum.
Enn eru þó nokkrir trillukarlar eftir og fara þeir flestir á grásleppu enda ekki langt á þau mið.
Vatnsleysuströndin var í alfaraleið, Keflavíkurvegurinn gamli svo að segja þræddi byggðina á Ströndinni. En eftir að nýi vegurinn kom, hvarf byggðin sjónum vegfarenda, fáir eiga þar nú leið um nema eiga þar brýnt erindi. Er menn aka Reykjanesbrautina, berja þeir ef til vill augum skilti, sem á stendur „Vatnsleysuströnd”. Ef fleiri en einn maður er í bílnum, er nokkuð víst að annar þeirra segi:

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

„Ætl’ að sé ekkert vatn ’arna?” og síðan er ekki hugsað meira um það.
Margir ibúar á Ströndinni hugsa með söknuði til gamla [Keflavíkur]vegarins, þeim finnst þeir vera komnir úr sambandi við umheiminn.
Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, þá er það staðreynd, að á Ströndinni eru mörg hús mannlaus og ónotuð, nema að vera kynni að einstaka veðurhrædd rolla noti skjólið sem af þeim er í erfiðum veðrum. Hús, sem mörg hver eru sterkleg og góð, en eru nú farin að láta á sjá vegna vanhirðu.
Meðfylgjandi myndir frá Ströndinni eru flestar af slíkum húsum og umhverfi þeirra. Sýna þær e.t.v. betur en orð hvernig smám saman hefur sigið á ógæfuhliðina, uppgjöf og hirðuleysi hafa lagst á eitt um að gera húsin að óaðlaðandi mannabústöðum.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1987 – Vesturkot.

Í Tímanum árið 1987 er einnig opna með ljósmyndum frá Vatnsleysuströnd með yfirskriftinni „Sjósókn og búskapur – hlið við hlið„:
„Á Vatnsleysuströndinni er ekki talið gott undir bú. Samt voru umsvif þar mikil áður fyrr og bændur meira en bjargálna og sumir ríkir.
Útvegur var mikill og á vertíðum dreif að fjölmenni víða að til að stunda róðra. Útvegsbændur voru fyrirferðarmiklir og héldu sumir úti mörgum skipum og tóku hluti af öðrum sem stunduðu útræði frá jörðum stundaður á Vatnsleysuströnd, heyjað á smáblettum, en veruleg.

Vatnsleysuströnd

Frá Vatnsleysuströnd 1987.

En það voru nálæg og gjöful fiskimið sem skiptu sköpum og héldu uppi lífskjörum sem þóttu góð á sínum tíma. Eftir að útræði á árabátum lagðist af fór vegur Vatnsleysustrandar minnkandi, enda ströndin hafnlaus.
Hafnargarður var byggður í Vogum en stórbátaútgerðin færðist að mestu sunnar á nesið. En athafnasemi hefur glæðst á ný og er nú til dæmis rekið eitt stærsta svínabú á landinu á Vatnsleysu og stórfelld fiskirækt er hafin og lítil hætta er á að byggð leggist af á hinum fornu útvegsjörðum, þótt búskapur sé rekinn með öðru sniði en áður og aflafengur fenginn með öðrum hætti.“

Jón G. Benediktsson

Jón G. Benediktsson (1904-1984).

Í Morgunblaðinu 1983 skrifaði Jón G. Benediktsson um „Voga í Vatnsleysustrandarhreppi„. Jón G. var frá Suðurkoti í Vogum:
„Strandlengjan nær frá Lónakotslandi í Hraunum sem nú tilheyrir Hafnarfirði og út að svo nefndri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa, en þar tekur við Njarðvíkurland. Þessi strandlengja mun vera um 25 til 30 km að lengd.
Vatnsleysuströnd sem hreppurinn dregur nafn sitt af nær frá Keilisnesi að Djúpavogi, en Djúpivogur er landamerki á milli Brunnastaðahverfis og Voga. Vogar ná þaðan og að fyrrnefndri Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Fyrir innan Keilisnes eru bæirnir Flekkuvík, Vatnsleysur og Hvassahraun. Vogarnir og bæirnir fyrir innan Keilisnes eru því ekki á Vatnsleysuströnd, en algengt er að sagt sé og skrifað Vogar á Vatnsleysuströnd, sem að sjálfsögðu er alrangt. Hins vegar er rétt að segja Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi. Á mínum ungdómsárum var oft sagt í sambandi við sjósókn og smalamennsku, Vatnsleysingar, Strandaringar eða Vogamenn til aðgreiningar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – herforingjaráðskort.

Eftir að Vogarnir urðu þéttbýliskjarni innan hreppsins hefur þessi skilgreining afbakast það mikið að full þörf er á leiðréttingu. Er þessi misskilningur sérstaklega bagalegur í skrifum um Vogana, til dæmis er sagt í Almanaki þjóðvinafélags Íslands 1982 að íbúar á Vatnsleysuströnd hafi verið 566 í desember 1980.
Það virðist vera útbreiddur misskilningur að í Vatnsleysustrandarhreppi sé lítið um vatn, en það er nú öðru nær. Nafnið er tilkomið vegna þess, að þar leysir mikið vatn neðanjarðar. Því til sönnunar má nefna að mjög víða í fjörum má finna tært vatn sem kemur uppúr klapparsprungum á útfalli, svokölluð fjöruvötn. Áður fyrr voru þessi fjöruvötn hagnýtt við skolun á taui og ull. Þá má benda á að allsstaðar þar sem borað hefur verið eftir vatni virðist gnægð af því.

Vogar

Vogar.

Hrepparígur, allir kannast við það orð. Hann hefur stundum skotið upp kollinum hér í hrepp sem annarsstaðar flestum til leiðinda, en til voru menn sem gerðu grín að slíku hér þegar ég var krakki og sögðu þá Vogaglymjandinn eða Strandarvargurinn.
Einhvern tíma varð þessi vísa til, en hún er svona:

Strandaringar stæra sig og stundum gapa,
allt um síðir upp þeir snapa
og róa undir Vogastapa.

Þess má geta að löngum voru undir Vogastapa ein fengsælustu fiskimið landsins. Þessi mið voru títt nefnd Gullkistan.“

Heimildir:
-Íslendingaþættir Tímans. 59. tbl. 08.11.1973, Eiríkur Björnsson í Norðurkoti, Adolf Björnsson, bls. 3.
-Ljósmæðrablaðið, 4. tbl. 01.10.1970, Sigríður Eiríksdóttir frá Norðurkoti, Kristín I. Tómasdóttir, bls. 79-180.
-Alþýðublaðið, 228. tbl. 29.10.1977, Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði, bls. 6-7.
-Tíminn 16.04.1987, Sjósókn og búskapur – hlið við hlið, bls. 16-17.
-Morgunblaðið. 199. tbl. 02.09.1983, Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi, Jón G. Benediktsson skrifar, bls. 70.

Vogar

Vogar.