Útgerðarstöðvar og verstöðvar; Sandgerði – Gils Guðmundsson II
Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr annari greininni.
Tímabil Mattíasar Þórðarsonar
Þegar danska útgerðarfélagið lagði upp laupana, átti Einar Sveinbjörnsson bóndi í Sandgerði forkaupsrétt að fiskveiðistöð þess. Hafði hann ekki tök á að kaupa, eða kærði sig ekki um það. Varð það úr, að Pétur J. Thorsteinsson, útgerðarmaður frá Bíldudal keypti stöðina af hinu danska útgerðarfélagi, en seldi brátt helminginn Matthíasi Þórðarsyni, sem verið hafði útgerðarstjórinn. Ráku þeir stöðina í sameiningu árið 1909, en vorið 1910 keypti Matthías hinn helminginn af Pétri, og átti þá stöðina alla. Rak hann síðan útgerð frá Sandgerði um fjögurra ára skeið.
Matthías Þórðarson er fæddur árið 1872, á Móum á Kjalarnesi. Hann er sonur Þórðar hreppstjóra Runólfssonar og Ástríðar Jochumsdóttur. Matthías tók skipstjórapróf árið 1890, og var skipstjóri í nokkur ár. Árið 1899 gerðist hann leiðsögumaður strandvarna- og mælingaskipanna dönsku hér við land, og hafði þann starfa á hendi til ársins 1907.
Matthías hafði mikinn áhuga á framfaramálum útvegsins. Sá hann það glögglega, að eitthvert bezta vopnið í baráttunni fyrir þróun og eflingu þessa mikilvæga atvinnuvegar var gott og vekjandi málgagn. Árið 1905 hófst hann því handa af eigin atorku, og byrjaði útgáfu fiskveiðiritsins ,,Ægis“, er kom út mánaðarlega. Gaf Matthías Ægi út í fjögur ár og annaðist ritstjórn hans að öllu leyti. Þá hætti Ægir að koma út um sinn. Var það einkum vegna þess, að Matthías hafði mörgu öðru að sinna, og gat ekki í því snúizt að halda úti blaðinu, en enginn þess um kominn að grípa merkið á lofti. Síðar var Ægir vakinn til nýs lífs, eins og kunnugt er, eftir að Fiskifélag Íslands var stofnað. Hefur Fiskifélagið gefið ritið út síðan.
Þegar er Matthías Þórðarson hafði keypt útgerðarstöðina í Sandgerði tók hann að leita þeirra leiða, er hann áleit vænlegastar til góðs og farsæls árangurs. Hann var sannfærður um það, að Sandgerði var kjörinn staður til vélbátaútgerðar, ef rétt væri á haldið.
Lét hann svo um mælt í blaði sínu, Ægi, er hann skýrði frá því að hin danska útgerðartilraun hafði farið út um þúfur, að þrátt fyrir allt hafi staðurinn verið ,,mjög vel valinn, hvað snertir sjósókn og hægt að ná til fiskjar, . . . og mun því tíminn bezt leiða það í ljós, að hér verður framtíðar fiskistöð Suðurlands“.
Matthías sá þegar, að Sandgerði var fyrst og fremst til þess kjörið, að þaðan væri róið á vetrarvertíð. Til þess þurfti góða og sterka báta, sem hægt væri að bjóða annað og meira en blíðu sumarsins. Lét Matthías nú smíða þrjá vélbáta í Reykjavík. Hétu þeir Óðinn, Þór og Freyr. Þá leigði hann viðlegurúm aðkomubátum, og tók ákveðið gjald fyrir. Einnig hóf hann verzlunarrekstur í Sandgerði.
Matthías var svo hepinn að fá góða aflamenn á báta sína. Gekk þeim fremur vel að fiska, og var viðgangur útgerðarstöðvarinnar hægur og jafn þau árin, sem Matthías veitti henni forstöðu. Meginhluti alls þess starfsliðs, sem til þurfti bæði á sjó og landi, var aðkomufólk, því að enn voru menn ekki farnir að setjast að í Sandgerði til stöðugrar dvalar.
Þótt aflinn í Sandgerði væri dágóður þessi árin, var aðstaða að ýmsu leyti erfið og kostnaður reyndist mikill við bátana. Bryggjan var ákaflega stutt, miðað við þörfina. Bátarnir komust ekki að henni nema á flóði. Þá varð að fleygja fiskinum upp á bryggjuhausinn og bera hann síðan í kassabörum upp í fiskkassana. Sumir höfðu til þess hjólbörur. Síðar komu handvagnar og þóttu þeir miklir kostagripir.
Á þessum árum urðu menn að bera salt allt á bakinu. Þegar saltskip komu, urðu þau að liggja úti á höfn, en síðan var saltið sótt um borð á árabátum. Frá árabátunum var hver einasti saltpoki síðan borinn á bakinu og komið í hús.
Þá var ekki smáræðis staut við fiskverkunina. Allan fisk burfti að bera og draga fram og til baka, milli húsa til vöskunar, söltunar og geymslu, út á kamb til þurrkunar, heim í hús aftur o.s.frv. Einn þeirra manna, sem átti í þessu stauti árum saman, hefur lýst því á þá leið, að í raun og veru hafi allt lífið veriö einlægur burður og dráttur, sí og æ, aftur og fram.
Stúlkur unnu mjög mikið að störfum þessum, og var ekki talið ofverkið þeirra að bera jafnvel hundrað punda pokana á bakinu klukkustundum saman. Oft var það við uppskipun, að nauðsyn bar til að vaða. Vöknuðu þá margir, og það jafnvel allt upp til miðs. Einatt slampaðist kvenfólkið með karlmönnunum við slíkt vos, og þótti engum mikið.
Matthíasi Þórðarsyni mun ekki hafa fundizt útgerðarstöðin bera sig nógu vel. Ákvað hann því að selja, og snúa sér að öðrum verkefnum. Urðu eigendaskipti að Sandgerði árið 1913. Eftir að Matthías hvarf frá Sandgerði, gerðist hann ráðsmaður hjá Fiskifélagi Íslands, en hann hafði átt góðan hlut að stofnun þess. Starfi þessu hjá Fiskifélaginu gegndi Matthías þó ekki nema eitt ár. Árið 1914 fluttist hann til Danmerkur og hefur átt þar heima síðan.
Matthías hefur fengizt mikið við ritstörf. Hann stofnaði og gaf út ritið „Nordisk Havfiskeri Tidsskrift“, er út kom árin 1926—1932, og þótti fróðlegt. Síðan árið 1935 hefur hann gefið út „Aarbog for Fiskeri“, sem einnig hefur aflað sér nokkurra vinsælda. Tvær stórar bækur hefur hann samið. Hin fyrri, „Havets Rigdomme“ er skrifuð á dönsku og kom út árið 1927. Síðari bókin er „Síldarsaga Íslands“, sem út var gefin árið 1930. Matthías er fróður mjög um fiskveiðamálefni og allvel ritfær.
Loftur Loftsson
Segja má, að nýr kafli hefjist í sögu Sandgerðis þegar Akurnesingar „uppgötvuðu“ staðinn og komu þangað með dugnað sinn, tæki og verkkunnáttu.
Menn þeir, sem keyptu útgerðarstöðina af Matthíasi Þórðarsyni voru félagamir Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson á Akranesi. Þeir höfðu stofnað verzlun í sameiningu árið 1908, og hugðust nú að færa út kvíarnar. Varð það hlutskipti Lofts að sjá um rekstur Sandgerðisstöðvarinnar, en Þórður stjórnaði fyrirtæki þeirra félaga á Akranesi. Síðar gerðist Loftur einn eigandi stöðvarinnar í Sandgerði. Rak hann þar útgerð samfleytt í 22 ár.
Loftur Loftsson er fæddur á Akranesi árið 1884, sonur Lofts Jónssonar sjómanns þar og konu hans, Valgerðar Eyjólfsdóttur verkamanns í Reykjavík Pálssonar. Loftur hóf verzlunarstörf á unga aldri, en stofnaði sem áður segir verzlun á Akranesi, árið 1908 með Þórði Ásmundssyni. Áttu þeir verzlunina þar og Sandgerðisútgerðina í sameiningu til 1918, en þá slitu þeir sameigninni, og tók Loftur að öllu leyti við fyrirtækinu í Sandgerði. Loftur hefur jafnan verið búsettur í Reykjavík síðan útgerð hans hófst í Sandgerði. Kvæntur er hann Ingveldi Ólafsdóttur læknis í Þjórsártúni Ísleifssonar.
Þegar Loftur hóf útgerðina í Sandgerði, keypti hann báta þá er Matthías Þórðarson hafði átt, Óðinn, Þór og Frey. Brátt tók hann að færa meira út kvíarnar og bætti við sig ýmsum bátum. Hétu þeir Ingólfur, Björgvin, Svanur II og Hera. Voru þessir bátar stærri miklu en áður hafði tíðkazt að gera út frá Sandgerði, eða um og yfir 30 smálestir. Þeir voru og svonefndir útilegubátar, komu ekki tilhafnar á hverjum degi, en beittu og gerðu að fiskinum um borð.
Strax og Loftur kom til Sandgerðis, fjölgaði þar einnig aðkomubátum, sem keyptu sér viðleguleyfi og aðstöðu til róðra á vertíðinni. Í fyrstu voru bátar þessir einkum frá Akranesi, en brátt kom þar, að til Sandgerðis streymdu bátar víðs vegar að. Má óhætt segja, að með komu Lofts hófst mikið athafnalíf í Sandgerði.
Stækkaði Loftur allmikið hús þau sem fyrir voru, þar á meðal íshúsið. Rak hann stöðina af dugnaði og myndarskap. Margir höfðu góða atvinnu í landi á vertíðinni, auk þess sem sjómenn báru oftast mikið úr býtum, þegar miðað er við það sem annars staðar var. Fiskvinna var mikil að sumrinu. Kvenfólk kom fjölmargt úr Garði, af Miðnesi og víðar að, vaskaði fiskinn og þurrkaði hann. Síldveiðar voru hins vegar sáralítið stundaðar í Faxaflóa á þessum árum, og var mikil beitusíld fengin frá Norðurlandi.
Haraldur Böðvarsson
Þegar er Loftur hafði dvalizt árlangt í Sandgerði og gert þaðan út eina vertíð, þótti sýnt, að þar væru ágæt skilyrði til vélbátaúrgerðar. Einkum var þessi skoðun ofarlega í hugum manna á Akranesi, því að þaðan var Loftur og þar var, af eðlilegum ástæðum, einna mest talað um framkvæmdir hans.
Á Akranesi óx upp um þessar mundir mannval mikið svo sem síðar hefur komið greinilega í ljós. Einna fremstur í þeim hópi er sá maðurinn, sem um langan aldur hefur borið höfuð og herðar yfir aðra atvinnurekendur á Akranesi, og þótt víðar væri leitað. Sá hinn sami maður var og um nær þrjá tugi ára annar helzti máttarstólpinn í Sandgerði, og átti meginþáttin í því, ásamt Lofti Loftssyni, að gera þann stað að einu stærsta útgerðarþorpi landsins. Maðurinn var Haraldar Böðvarsson.
Haraldur Böðvarsson er fæddur árið 1889 á Akranesi. Foreldrar hans voru Böðvar kaupmaður Þorvaldsson og kona hans Helga Guðbrandsdóttir bónda í Hvítadal Sturlusonar. Haraldur sá það glögglega, þegar er hann kynntist Sandgerði, að þar var um mikinn framtíðarstað að ræða. Þetta hið sama ár, 1914, leigði hann allstóra lóðaspildu af landi Einars bónda Sveinbjörnssonar í Sandgerði, og hóf þegar að reisa þar nýja útgerðarstöð frá grunni. Naut hann við þetta hjálpar föður síns og tókst með framsýni mikilli og dugnaði að sigra allar torfærur. Lét hann smíða állstór verzlunar- og
vörugeymsluhús, salthús, sjóbúðir og bræðsluskúr.
Næsta ár lét Haraldur gera bryggju og íshús. Hélt hann svo áfram að fjölga byggingum eða stækka þær, sem fyrir voru, unz upp hafði risið mikil þyrping húsa, og taka mátti til fastrar viðlegu um 20 báta á stöðina. Voru byggingar flestar af miklum myndarskap gerðar, eftir því sem þá var talið hæfa; að langmestu leyti úr steini og vel vandaðar.
Jafnhliða þessum framkvæmdum í Sandgerði, hélt Haraldur áfram að auka bátaflota sinn.
Sá var jafnan háttur Haraldar Böðvarssorar, að hann hafði báta sína í Sandgerði blómann úr vetrarvertíðinni, en flutti þá til Akraness og gerði út þaðan er honum þótti það vænlegra til árangurs eða hentugra. Auk sinna eigin báta, hafði hann á sínum snærum í Sandgerði mikinn hóp viðlegubáta víðs vegar að af landinu. Voru þeir jöfnum höndum af Akranesi, úr Hafnarfirði, Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði eða Eyrarbakka.
Bátar þessir fengu allar sínar nauðsynjar hjá verzluninni. Hún keypti aftur af þeim fiskafurðirnar og lét í té svefnskála fyrir skipverja, beitingaskúra, fiskaðgerðasvæði og þar frarn eftir götunum. Þá var og mikill fjöldi svonefndra útilegubáta, sem sóttist eftir að skjótast inn á Sandgerðishöfn. Gerðu þeir oft og einatt samninga við annan hvorn útgerðarmanninn á staðnum, Harald eða Loft, um að fá hjá þeim kost, veiðarfæri, salt og beitu, en seldu þeim aftur lifrina úr fiskinum eða lýsið. Voru oft mikil viðskipti við þessa báta, enda komu þeir sömu oft ár eftir ár. Mátti stundum sjá vænan hóp vélbáta liggja á Sandgerðishöfn, þegar gerði frátök og útileguskipin leituðu í var.
Hafði nú hróður Sandgerðis sem útgerðarstöðvar vaxið svo mjög, að bátaeigendur víða um land gerðust æ ákafari að fá þar viðlegu fyrir fleytur sínar.
Þessi mikli vöxtur vélbátaútgerðar frá Sandgerði hafði þau áhrif, að róðrar á opnum bátum lögðust að mestu niður í Garði og á Miðnesi, en netaveiðar höfðu löngum verið mjög mikið stundaðar í Garðsjó og víðar. Garðmenn hófu nú að koma sér upp vélbátum til viðlegu í Sandgerði, því að hafnleysi bannar þeim heimaróðra á öllum meiri háttar fleytum. Frumherji Garðmanna í þessum efnum mun hafa verið Þorsteinn bóndi og útgerðarmaður Gíslason á Meiðastöðum. Síðan kom Guðmundur Þórðarson í Gerðum og þá hver af öðrum.
Þegar flestir voru vélbátarnir í Sandgerði, munu hafa hafzt þar við nálega 40 landróðrabátar, — um 20 frá hvorri útgerðarstöð, — en auk þess hafði þar bækistöð mikill fjöldi útilegubáta, og munu þeir jafnvel hafa komizt upp í 80 eða meira.
Enn frá Haraldi Böðvarssyni
Árið 1916 keyptu þeir Haraldur Böðvarsson og Loftur Loftsson í sameiningu jörðina Sandgerði, af Einari Sveinbjörnssyni, og skiptu henni á milli sín. Einar fluttist til Reykjavíkur og átti þar heima til banadægurs.
Árið 1920 keypti Haraldur Böðvarsson hjáleiguna Tjarnarkot, og sameinaði þá landspildu aðaljörðinni. Við það varð olnbogarými meira og aðstaða betri til hvers konar framkvæmda. Rak Haraldur útgerðina í Sandgerði alla stund af fyrirhyggju og dugnaði, enda græddist honum þorp nokkurt í Sandgerði, utan um útgerð þá, sem þaðan var rekin. Þó hefur sá háttur jafnan haldizt, að mikill hluti þess liðsafla, sem starfar í Sandgerði á vertíðinni er aðkominn.
Haraldur Böðvarsson er kvæntur Ingunni Sveinsdóttur frá Mörk. Þau giftust árið 1915, og settust þá að í Reykjavík. Þar bjuggu þau til ársins 1924, að þau fluttu búferlum til Akraness. Hafa þau átt heima á Akranesi síðan.
Aflagarpar
Útgerðarmenn í Sandgerði voru svo lánsamir, að þangað völdust ýmsir dugandi og aflasælir formenn, þegar á hinum fyrri árum vélbátaútgerðarinnar. Sýndu þeir og sönnuðu það svo glögglega, að ekki varð um villzt, hversu auðug fiskimið þau voru, sem róið varð til frá Sandgerði. Eiga margir þessir garpar það fyllilega skilið, að minningu þeirra sé á lofti haldið. Og þótt varla tjái að þylja nöfnin tóm, verður nokkurra þeirra hér lítið eitt getið.
Kristjón Pálsson var höfðings- og dugnaðarmaður, og einhver hin mesta aflakló, sem um getur. Hann hafði um skeið forystu fyrir öðrum skipstjórum er reru frá Sandgerði. Fyrstur manna suður þar hætti hann algerlega við þorskanot og veiddi eingöngu á línu alla vertíðina.
Áður hafði það verið föst og ófrávíkjanleg regla, að allir köstuðu frá sér línunni og tóku upp þorskanet þegar sílið (loðnan) kom, en það var oftast í marzmánuði. Höfðu menn þá trú, að ekki þýddi hið minnsta að leggja línu eftir að loðnan var komin. Kristján sýndi fram á að þessi skoðun var röng. Hélt hann áfram línuveiðum þó að loðna kæmi, og fiskaði allra manna bezt. Tóku þá flestir þann hátt eftir honum, og lagðist netaveiði að verulegu leyti niður hjá Sandgerðisbátunum. Bátur sá, er Kristjón stýrði, hét Njáll. Áttu þeir hann í sameiningu Kristjón og Loftur Loftsson. Njáll fórst 11. febrúar 1922, og drukknaði Kristjón þar ásamt hásetum sínum öllum. Þetta var í afskaplegu útsynningsroki, og skeði slysið lítið eitt innan við Garðsskaga. Annar vélbátur, Björg að nafni, hafði orðið að mestu leyti samhliða Njáli, og var að lensa inn fyrir Skaga eins og hann. Sáu skipverjar á Björgu að upp reis ofsaleg holskefla, stærri öllum öðrum. Lenti Björg í útjaðri brotsins og var mjög hætt komin, en Njáll var í miðju hvolfi þessarar himinglæfu og stakkst á endann þráðbeint niður í djúpið. Kristjón var enn ungur maður er hann fórst, og þótti að honum rnikill mannskaði, sem og skipverjum hans.
Sjúkraskýlið
„Margt skeður á sæ“, segir gamalt máltæki, og hefur það löngum þótt sanni nær. Eitthvað svipað má eflaust segja um þá staði, þar sem athafnalíf allt er með miklum hraða og stendur ekki með miklum blóma nema skamman tíma á ári hverju, þar sem fjöldi manna safnast saman úr ýmsum áttum, leggur á sig vos og vökur til að grípa gullið meðan það gefst, og verður oft að búa við misjafna aðbúð fjarri heimilum sínum. Ef til vill er óvíða meiri þörf á einhverri aðhlynningu og hjálp í viðlögum en einmitt þeim stöðum, þar sem þessu líkt stendur á.
Í Sandgerði hefur aldrei læknir setið. Hefur því orðið að leita til Keflavíkur eða Grindavíkur þegar til læknis þurfti að grípa. Reyndist það oft mjög bagalegt, meðan ekki var hægt að fá gert skaplega við skurð á hendi eða graftarbólu á hálsi án þess að standa í læknisvitjun eða ferðalögum undir læknishendur. Þá var það ákafiega illt, að sitja ráðalítill uppi ef maður veiktist skyndilega. Var sjaldan hlaupið á að koma sjúklingi fyrirvaralaust í sjúkrahús, enda langan veg að fara, en á hinn bóginn engin leið að annast fárveika menn í litlum og loftillum svefnskálum, þar sem fjöldi sjómanna hafðist við og gekk um á öllum tímum sólarhringsins.
Það var því hið þarfasta verk, er Rauði Kross Íslands hófst handa árið 1937 og reisti í Sandgerði ágætt sjúkraskýli. Það er að vísu ekki stórt, en bætir þó prýðilega úr brýnni þörf. Í húsinu eru tvær vel búnar sjúkrastofur, og geta legið þar fjórir sjúklingar í einu. Ef nauðsyn krefur, er hægt að taka við nokkru fleiri sjúklingum um stundarsakir.
Veturinn 1939—1940 var sjúkraskýlið endurbætt allmikið. Þar var þá einnig komið upp finnsku baði. Hafði tekizt að festa kaup á baðofni og fá hann afhentan fáum dögum áður en styrjöldin hófst. Hefur bað þetta verið mikið notað síðan, og þykir sjómönnum það hið mesta þing. Þá eru og venjuleg steypiböð í húsinu.
Á hverri vertíð hefur Rauði Krossinn ráðið vel mennta hjúkrunarkonu til að annast rekstur Sjúkraskýlisins, en læknir frá Keflavík hefur eftirlit með sjúklingum og framkvæmir meiri háttar aðgerðir. Nýtur starfsemi þessi mjög mikilla vinsælda, enda hefur hún bætt úr brýnni þörf. Áður en Sjúkraskýlið var reist höfðu hjúkrunarkonur frá Rauða krossinum starfað um langt skeið á vertíð hverri í Sandgerði.
(Í þriðju og síðastu greininni, 01.12.1945, um Sandgerði er fjallað um uppbyggingu bæjarins og framtíð hans. Hún birtist í næsta blaði).
Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 9. tbl. 01.09.1945, Útgerðarstöðvar og verstöðvar, Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 207-213.




























