Stóra-Knarrarnes – Þuríður og Ólafur
Á Vatnsleysuströnd er bærinn „Stóra-Knarrarnes„, merkilegur sem og líkt sem og margir aðrir á Ströndinni.
„Um 1913 fóru að búa í Stóra-Knarrarnesi hjónin Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum og kona hans, Þuríður Guðmundsdóttir frá Bræðraparti í Vogum. Þau eignuðust 14 börn, sem öll voru dugmikil og erfðu hina góðu eiginleika foreldranna.
Árið 1926 byggði Ólafur Stóra-Knarrarnes, sem nú stendur. Þótti mörgum það bjartsýni af honum að leggja út í svo fjárfrekar framkvæmdir og þurfa á sama tíma að sjá fyrir stórri fjölskyldu.
Eftir að Gamla Stóra-Knarrarnes fór í eyði var framangreint íbúðarhús byggt. Eftir að nýtt hús, Austurbærinn, var byggður, var það jafnan nefnt Vesturbærinn.
Lengi var Stóra-Knarrarnes tvíbýli, þ.e. Vesturbær og Austurbær, en Austurbær er nú Stóra-Knarrarnes 2. Árið 1920 átti hreppurinn Stóra-Knarrarnes 2 og leigði Benjamín Halldórssyni og hans konu, Þuríði Hallgrímsdóttur. Árið 1929 keypti Benjamín jörðina af hreppnum og byggði þá nýtt hús, það sem nú stendur.
Ekki hefur verið búið í Vesturbænum um langt skeið, en hann er nú að ganga í gegnum lífdaga. Löngum var við innganginn skjöldur með nöfnum og lífsdögum fyrstu ábúendanna, þeirra Þuríðar Guðmundsdóttur og Ólafs Péturssonar, en þegar húsið var klætt að utan hvarf skjöldurinn, illu heilli.
Í Íslendingaþáttum Tímans árið 1974 fjallar Stefán Árnason m.a um Þuríði Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi. Í sama blaði er minningargrein um Ólaf Pétursson. Fróðlegt er að lesa minningar Stefáns um Þuríði því þær lýsa vel aðstæðum kvenna á Vatnsleysuströndinni beggja vegna aldarmótanna 1900, sem verður að þykja athyglisvert í ljósi þess að jafnan hefur þeim verið lýst frá sjónarhóli karla þar sem áherslan er nánast eingöngu lögð á reynslu þeirra af sjósókn og búskap á hrjóstugri Strönd.
„Foreldrar Þuríðar voru Guðmundur Bjarnason og Elín Ingibjörg Þorláksdóttir, talin vinnuhjú í Minni-Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. Var Guðmundur afburða sjómaður og formaður á skipi Egils bónda í Minni-Vogum. Árið 1890 stofna þau Elín og Guðmundur sitt eigið heimili en vinna áfram hjá Agli bónda. Árið 1891 fæddist fyrsta barn þeirra hjóna, það, sem hér verður sagt frá, Þuríður fædd 17. aprl 1891, dáin 25. febrúar 1974.
Árið 1896 flytja foreldrar Þuríðar að Bræðraparti, smábýli, er syðst stóð í Vogunum og búa þar alla sína tíð til 1928. Það ár deyr Guðmundur. Fjögur voru börn Elínar og Guðmundar: Þuríður, Guðbjörg og Bjarni, eitt barn misstu þau nýfætt. Öll voru börnin mikið manndóms fólk, vel uppalin og gædd óvenju mikilli háttvísi, að það var á orði haft og reglusemi og dugnaður fylgdist að.
Nú geri ég frávik á efninu. Við, sem förum í bíl suður veginn til Keflavíkur og lítum niður í Vogana í góðu veðri sjáum fallega byggð og viðsýni til allra átta. Gjörum okkur ljóst, að fyrir 80 árum var hér enginn vegur aðeins troðningur eftir hesta og menn.
Allir aðdrættir til heimilanna fóru sjóleiðina og það á opnum skipum. Ef eitthvað smátt vantaði var það sótt og borið á bakinu úr næsta kaupstað. En fólkið á Ströndinni, eins og það var kallað var gott og duglegt, lifði glatt við sitt og lét ekki erfiðleikana smækka sig. Árið 1908 varð breyting til hins betra. Þá komu vélbátar, 10 smálesta dekkbátar. Það gjörbreytti öllum flutningum. Þessir bátar voru með net á vetrarvertíð, en á vorin og sumrin mikið í vöruflutningum. Mest voru það Tumakotsbræður, sem voru í þessum flutningum og til gamans ætla ég að segja frá samtali gamals góðvinar míns, sem hefur unnið í einum af stærstu bönkum hér í Reykjavík. ,,Mig undraði oft, hvað Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum hafði mikil viðskipti við okkur og aldrei brást loforð hans. Þar fór bisnessmaður, sem Ólafur var”.
Árið 1913 giftist Þuríður Ólafi Péturssyni frá Tumakoti og þar búa þau í eitt ár. Þröngt var fyrir tvö heimili og ungu hjónin dugmikil. Þau ráðast í að kaupa Stóra-Knarrarnes, sem var nokkuð stór jörð, mun betri og stórt tún. Ólafur vildi hafa sauðfé, þótti gaman að því og svo var hægt að hafa kýr líka. Í Knarrarnesi beið hjónanna mikið starf. Unga konan kunni góð skil á því, sem beið hennar.
Þuríður kom með heimanmund með sér í búið, sem öllu gulli er betra, gott uppeldi foreldra sinna, hógværð og prúða framkomu, sem af bar öðrum, enda mátti segja, að Þuríður væri hvort tveggja húsmóðirin og húsbóndinn og fór það vel. Ólafur vann utan heimilis síns oft og kom heim sem gestur. Hann treysti konu sinni vel, var viss um, að allt færi vel heima.
Árin fljúga áfram. Árið 1922 átti ég langt tal við Knarrarnes-hjónin um daginn og veginn. Umtalsefnið snerist um, að húsrými hjá þeim væri orðið þröngt. Bæjarhús voru gömul þegar þau fluttu í Knarrarnes og nú hrörleg orðin og þröng. Fjölskyldan hafði stækkað ört, óumflýjanlegt að byggja að nýju. Kom þá sér vel, að ólafur var útvegunarmaður góður, en erfitt með efniskaup. Farið var að huga að byggingu, þótt hægt gengi fyrst. En árið 1928 er gamli Knarrarnesbærinn horfinn og allt fólkið er komið í nýtt hús, sem þá þótti stórt og fallegt.
Árið 1933 fæðist 14. barn hjónanna. Á því sést, að ekki var vanþörf á að byggja yfir fólkið. Mér fannst alveg undravert að koma til hjónanna á Knarrarnesi og gleðin yfir öllu fjölskyldulífi aðdáunarverð. Ég hef oft hugsað um þetta. Ég vona, að enginn misskilji mig þótt ég segi: Húsmóðirin átti mestan þátt í þessu með sinni mildi og sínu góða geði, að heimilið var helgur og friðsæll staður. Ég þykist tala hér af kunnugleika. Þó bar af einn dagur í lífi þessarar fjölskyldu, sem ég gleymi aldrei. Árið 1947 var ég og konan mín, sem var systir ólafs, gestir í Knarrarnesi í tilefni fermingar yngsta barns hjónanna. Börnin voru 13 viðstödd, sum gift, öll fullvaxin, fermingarbarnið eins stórt og hin. Þetta var allt svo fallegt og myndarlegt, börnin og tengdabörnin. Þetta var dagur, sem aldrei gleymist. Hver skilar meiri auði til sinnar þjóðar en svona hjón.
Elzta barn hjónanna var alið upp hjá afa og ömmu í Bræðraparti á meðan þau bjuggu, en eftir lát afa síns ólst það upp hjá móðursystur, Guðbjörgu. Það var kærleikur mikill með systrunum um kvöldið þessarar ánægjulegu hátíðar, og gestir voru að kveðja húsfrúna hægu, með sitt góða viðmót, sem henni var svo eðlilegt, þakklát við allt og alla. En bezt hefur hún þakkað guði sínum og herra fyrir allar gjafirnar og lífið, sem hún hefur fengið að njóta við hið mikla starf sitt. Þrjátíu og fjögur ár eru síðan hún byrjaði búskap. Var verið að ferma síðasta barnið þeirra, sem var það fjórtánda. Mikill dagur er liðinn. Þuríður hefur hugsað margt þetta kvöld, þegar kyrrð var komin og tímamót í ævi þessarar konu. Hvað bíður? Ólafur er farinn að þreytast. Hann vinnur mikið við heimilið. Börnin öll farin að vinna fyrir löngu, sum búin að stofna sín heimili, önnur vinna utan heimilisins, en eru hjá foreldrunum.
Búskap er haldið áfram í Knarrarnesi, útihúsin byggð að nýju, fjós, heyhlaða og fjárhús, engin gömul hús eftir, sem voru þegar hjónin keyptu jörðina. En þrátt fyrir þessa velmegun, sem orðin var, var annað, sem breyttist. Glaði hljómurinn hljóðnaður. Börnin voru flest farin til sinna heimila. Svona er líf mannanna barna.
Nú var lúi og lasleiki farinn að gera vart við sig. Árið 1963 að hausti fóru hjónin til Hrefnu dóttur sinnar, sem eftirlét þeim húspláss. Þuríður þurfti á sjúkrahússvist að halda. Svo þau voru þar um veturinn. Um vorið 1964 fóru þau heim í Knarrarnes. Þá var Ólafur orðinn veill á heilsu, sem ágerðist fljótt. Svo varð hann að fara á sjúkrahús. Þetta leiddi hann til bana. Hann dó 11. október 1964.
Nú er svo komið að í Knarrarnesi er Þuríður og sonur hennar orðin ein eins og verða vill. Var hún þar áfram þar til 1971 að hún fór til Reykjavikur á sjúkrahús i nokkrar vikur. Þegar Þuríður var orðin hress heimsótti ég hana og töluðum við um liðinn tíma. Var grunur hennar sá, að vera hennar í Knarrarnesi mundi ekki verða löng úr þessu. „Þú ert nú búin að vinna mikið ævistarf, Þuríður, ertu ekki ánægð með það?” Hún svaraði stillt að vanda: ,,Jú, víst er ég það. Guð hefur gefið mér mikið, góðan og duglegan maka, 14 elskuleg og góð börn og tengdabörn, 42 barnabörn og 14 barnabarnabörn, ég gæti ekki hugsað mér neitt betra, Þetta er allt svo elskulegt við mig og hjálpsamt. Ég get ekki lýst því með orðum. En það mótdræga var ekki meira en gengur og gerist í mannlegu lifi. Ef ég á að nefna eitthvað sérstakt er það sjóslysið mikla 12. marz 1928 í mannskaðaveðri, þegar Bjarni bóðir minn fórst með skipi sínu og allri skipshöfn sinni. Þá áttu margir um sárt að binda, og svo þegar við misstum drenginn okkar, hann ólaf, nýfermdan. Það var sárt. En guð gaf mér svo mikið.“
Það fór nú svo, að Þuríður fór ekki aftur heim af heilsufarsástæðum, var í húsi Hrefnu dóttur sinnar og leið vel, umvafin af góðleik fjölskyldu sinnar, fór í smáferðir sér til skemmtunar og hafði gaman af. Í miðjum ágúst gat Þuríður ekki verið ein án hjálpar, fór hún þá til dóttur sinnar, Hrefnu og manns hennar, Ólafs Björnssonar útgerðarmanns, Heiðarbrún 9 Keflavik, og var þar það sem eftir var lífdaga. Þuríður fékk þar svo góða hjúkrun og alla meðhöndiun, að ekki er hægt að lýsa því eða þakka eins og vert væri. Þrekið var búið en andleg skynjun ekki. Til marks um andlegt skyn er það, að síðasta dag, sem hún lifði, talaði hún við tengdason sinn, spurði um aflabrögð og hvort öllum liði vel. Það var hennar mesta gleði að öllum liði vel. Næsta morgun var komin breyting, endir var fyrirsjáanlegur. Nokkur börn hennar og tengdabörn voru við banabeð hennar. Ein dóttirin hélt i hönd móður sinnar. Þuríður lagði hönd á brjóst sér til merkis um sársauka. Lífsþráðurinn var slitinn. Góð kona er farin úr þessum heimi.“ – Stefán Árnason.
Lýsing Stefáns er fróðleg, ekki síst vegna lífssögu dæmigerðrar eiginkonu, móður og bústýru á Ströndinni á hennar tíma sem og óhjákvæmilegum lífslokum hverrar manneskju.

Ólafur Pétursson (1884-1964).
Ólafur Pétursson var fæddur í Tumakoti í Vogum, sonur hjónanna Péturs Andréssonar og Guðrúnar Eyjólfsdóttur. Ólst hann þar upp í hópi átta barna þeirra hjóna, bræðurnir voru fimm, systurnar þrjár. Ungt fólk getur varla trúað því, að hjón, sem bjuggu á lítilli jörð, hafi alið upp stóran hóp barna án styrks. Á þessum árum voru hin mestu harðindaár 1875 til 1902. Öll voru Tumakotsbörnin myndarlegt folk og afburða dugleg. Fjórir af bræðrunum ólu allan sinn aldur i Vatnsleysustrandarhreppi, Benedikt í Suðurkoti, Andrés í Nýjabæ, Eyjólfur í Tumakoti og Ólafur á Knarrarnesi.
Fimmti bróðirinn, Ingvar, flutist ungur til Hafnarfjarðar og giftist þar og stofnaði heimili. Hann fórst með kútter „Geir” árið 1912, er týndist í hafi með allri áhöfn. Systurnar, Petrina fluttist til Ameríku (Kanada) árið 1900 en Elísabet og Guðlaug fluttust til Reykjavikur og stofnuðu sín heimili þar.
Árið 1913 giftist Ólafur Pétursson Þuríði Guðmundsdóttur frá Bræðraparti í Vogum, mikilli myndar- og dugnaðarkonu. Eitt ár búa þau í Tumakoti, næsta ár festa þau kaup á jörðinni Stóra-Knarrarnesi og búa þar í fulla hálfa öld. Knarrarnes var mun betri bújörð.
Jörðin var nytjuð sem hægt var. Sjór stundaður á vetrarvertíð og alltaf þegar hægt var. Heimilisfólkinu fjölgaði ört. Ólafur var framsækinn og duglegur, sá að meira þurfti til en það, sem heima var hægt að hafa. Ólafur bjó ekki einn. Þuríður, þessi mikla dugnaðarkona, tók við allri stjórn á heimilinu. Ólafur leitaði til vinnu utan heimilis. Honum varð vel til með vinnu, þekkti marga vinnuveitendur, auk þess hörkuduglegur, en fast var sótt vinnan og stundum langt. Helztu staðir voru Vogar, Keflavík, Sandgerði, Grindavík og fleiri staðir.
Allt fór vel í Knarrarnesi, húsmóðirin sá fyrir því með hjálp barnanna, sem voru nú óðum að vaxa og komu ótrúlega fljótt til að létta undir með foreldrum sínum. Börn Knarrarneshjónanna urðu fjórtán, en þau urðu fyrir þeirri sorg að missa einn son sinn stuttu eftir fermingu. Það mun hafa orðið hjónunum þungt. En Ólafur og Þuríður báru ekki sorg sína á veg út. Þrettán börn lifa föður sinn, öll uppkomin, myndarlegt og duglegt fólk. Flest eru þau búin að stofna sín eigin heimili og vegnar vel, enda tengdabörnin sérstaklega góð og myndarleg.“
Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 287-289.
-Íslendingaþættir Tímans, 13. tbl. 25.05.1974, Þuríður Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi, Stefán Árnason, bls. 8-9.






















