Kálfatjörn
Eftirfarandi er úr erindi Viktors Guðmundssonar, leiðsögumanns, á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006.
Vatnsleysuströnd„Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, tveggja manna för en nú koma stærri skip, sexæringar og áttæringar til sögunar. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“

Í Æskuminningum sínum segir Kristinn P. Briem (barnabarn Guðmundar á Auðnum) svo frá;
„Í prestþjónustubók Kálfatjarnarkirkju fyrir árið 1854 er greint frá fermingu barna. Prestur var séra Jakob Guðmundsson. Þá voru fermdir sjö piltar og sex stúlkur á Kálfatjörn. Eru drengirnir hafðir sér og stúlkurnar sér, og börnunum raðað í bókina eftir kunnáttu. Drengja megin eru þessir þrír piltar efstir:
1. Sæmundur Jónsson, Stapakoti, fæddur 21. ágúst 1840 (síðar bóndi á Minni-Vatnsleysu). Hefur góðar gáfur. Kann og skilur prýðilega. Siðferðisgóður. Les prýðilega.
2. Guðmundur Guðmundsson, Minni-Vatnsleysu, fæddur 30. nóvember 1839, (síðar bóndi á Auðnum). Allgóðar gáfur. Kann vel. Skilur rétt vel. Les dável. Skikkanlegur og ráðsettur unglingur.
3. Guðmundur Ívarsson, Skjaldarkoti, fæddur 21. desember 1838. Allgóðar gáfur. Kann sæmilega. Skilur vel. Les rétt vel. Skikkanlegur.
Auðnar
Þessir þrír piltar urðu síðar mestu aflamenn á Vatnsleysuströnd. Bestir formenn og mestir aflamenn urðu þeir Guðmundarnir. Hvor var öðrum meiri í þessu efni, vil ég ekki leggja dóm á, og líklega mun erfitt að skera úr því. Kristleifur Þorsteinsson, sem reri nokkrar vetrarvertíðir á útvegi Guðmundar á Auðnum, segir að ekki hafi mátt á milli sjá, hvor væri betri formaður Guðmundur Guðmundsson á Auðnum eða Guðmundur Ívarsson frá Skjaldarkoti. Hann segir þá báða mestu aflaklær, en gerir ekki upp á milli þeirra. … Líklega væri réttast að segja að þeir Guðmundarnir hafi verið nokkuð jafnir að formannshæfileikum og ómögulegt að vita með vissu hvor aflaði meira. En í einu þótti Guðmundur á Auðnum standa ýmsum framar. Var það í reglusemi með útveginn og hirðingu veiðarfæra. Sæmundur Jónsson á Minni-Vatnsleysu stóð þeim nöfnum næstur á Vatnsleysuströndinni með aflabrögð en var ekki talinn ná þeim, hvorki með fiskiafla eða formennskuhæfileika.“

Kálfatjörn

Í bók sinni Þættir af Suðurnesjum segir Ágúst Guðmundsson, sonur Guðmundar Ívarssonar svo frá; „Þeir voru víst með réttu taldir stærstu útgerðarmenn í þessari sveit Guðmundur á Auðnum og Guðmundur Ívarsson og víst var að árlega voru hæstir hlutir hjá þeim og formönnum þeirra. Þó mun Guðmundur Ívarsson oft hafa haft betri hlut, en metnaður mun hafa verið með afla á milli þeirra.“

Nú skal segja nokkur orð um Guðmund Ívarsson, stuðst við bók Ágústar.
„Guðmundur Ívarsson var meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, kvikur á fæti og gekk venjulega hart. Hann var svarthærður með kragaskegg. Ennið var í meðallagi hátt, skarpar augnabýr, lítið eitt bogadregnar. Augun dökk og lágu djúpt í höfðinu, beint nef og hækkaði upp að framan, kringluleitur í andliti,en hvítleitur með skarpa og reglulega andlitsdrætti.“
Guðmundur Ívarsson elst upp í Skjaldarkoti, og var oft kendur við þann bæ, flyst síðan að Neðri-Brunnastöðum og hefur búskap þar. Reisir timburhús á Brunnastöðum 1865 talið með fyrstu timburhúsum í hreppnum. Þá er Guðmundur 27 ára.
Hann byrjaði fomennsku 18 ára og gerði út árlega 2-7 skip á vetrarvertíð, sem hann átti sjálfur.Guðmundur Ívarsson átti Valdimar stærsta róðrarskipið, sem þá gekk við Faxaflóa.
Var það teinæringur 42 fet (uþb. 13m) milli stafna og bar 1100 af netfiski uþb 8,5 tonn
Átti hann haffært þilskip (46 tonna) Lovísu hálft á móti Agli Hallgrímssyni Austurkoti.

Viktor GuðmundssonÁgúst Guðmundur segir eftirfarandi sögu í bók sinni: „Tvo vetur fór Guðmundur Ívarsson suður á Miðnes með þorrakomu og lá við á Hvalsnesi. Var hann þá á 10-rónu skipi með 18 menn. Þá var fiskað á bera öngla og handfæri á Suðurnesjum. Þarna hélt hann sig fram undir netavertíðina, sem byrjaði í miðgóu, eða 14.mars.
Fyrri veturinn fékk hann mikinn fisk þarna suður frá en seinni veturinn hömluðu ógæftir og stóð í mörkum að honum gæfi heim fyrir netavertíðina.
Á sunnudaginn í miðgóu var í þetta sinn messað á Hvalsnesi. Var þá vestanstormur en brim heldur að lægja. Segir Guðmundur Ívarsson þá við menn sína: Nú skulum við allir ganga til kirkju og mun ég sitja þar kyrr þangað til að prestur hefur blessað yfir söfnuðinn. Þá mun ég ganga út og líta eftir brimi og vindi og gefa ykkur bendingu, ef fært er. Skuluð þið þá allir koma fljótt. – Gekk þetta allt eftir umtali og álítur hann sundið fært, þó að vindur væri hvass. Þeir voru fljótir að búa sig og stóð það á að prestur var að ganga úr kirkju og þeir að komast undir segl. En þegar séra Sigurður kemur á Útskálahlað voru þeir komnir inn á Leirusjó og sagðist hann þó hafa riðið hart. Heyrði ég Sigmund Andrésson segja að það hafi hann mestan gang vitað á skipi þar sem hann hafi verið innan borðs enda voru þeir ekki fullar tvær klst. frá Hvalsnesi inn í Brunnastaðasund. Man ég vel, hve kátir þeir voru yfir því að vera komnir heim, en uggvænleg þótti þeim þá aldan á Suðurnesjasjónum og gangurinn á skipinu. Ekki hafði gefið á sjó næsta hálfan mánuð af Miðnesi. En hér fyrir innan Skagann var metafli í þorskanetin.
Svona var það þá, og svo er það enn að oft er gott að vera fljótur til hugsana og framkvæmda ef það er af viti stofnað og réttri útsjón.“

KálfatjörnNæst ætla ég að segja nokkur orð um Guðmund Guðmundsson í Auðnum (Guðmundur ríki).
Kristin P. Briem lýsir Guðmundi svo: „Guðmudur á Auðnum var vel meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, beinvaxinn og herðabreiður. Vel vaxinn og fríður sýnum. Svartur á hár og skegg, hafði kragaskegg eins og þá tíðkaðist. Frekar breiðleitur í andliti. Hann var prúður í framkomu og höfðinglegur í sjón, aðgætinn í orðum og vandaði orð sín svo, að vel mátti taka til greina og athyglis það sem hann sagði.“
Guðmundur er barn þegar hann kemur á Minni-Vatnsleysu með móður sinni, þar elst Guðmundur upp og byrjar sýna útgerð. Um 17 ára aldur kaupir Guðmundur sinn fyrsta bát.
Hefur Guðmundur sinn búskap í Miðengi við Vatnsleysur og eykur skipastól sinn.
Árið 1866 flytur Guðmundur að Auðnum, hafði keypt hálfa jörðina ári áður, þá 26 ára gamall.
Þegar best lét gerði Guðmundur út 5 sex-manna för og 2 áttæringa, var sjálfur formaður á öðrum áttæringnum. Guðmundur lét smíða haffært þilskip í Noregi sem hét Auður, (18 tonn). Kostaði skip þetta 7000 kr. sem jafngilti verði 17 sex manna fara.
Árið 1894 fékk Guðmundur heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX fyrir framkvæmdir á jörðinni. Ekki tókst mér að finna neina sjóferða lýsingu með Guðmundi, hef því eftir stutta frásögn eftir Kristinn P. Briem.
„Einu sinni komum við Guðmundur ríðandi innan úr Reykjavík og var Guðmundur við skál, eins og oftast, þegar hann kom úr kaupstað. Komun við í Hvassahraun til Þórunnar Einarsdóttur, sem þar bjó, en hún var frænka konu Guðmundar. Þegar kaffið var komið á borðið, þá sest Þórunn niður hjá okkur og fer að tala við Guðmund. Hún segir: „Nú er verið að tala um að hætta að flytja inn áfenga drykki. Það verður mikil blessun, ef áfengisbannið kemst á. Þá sér maður þig aldrei drukkinn, Guðmundur minn.“ Guðmundur svarar: „Ekki er það nú víst. Áður en bannið skellur á, þá ætla ég að kaupa 10 tunnur af brennivíni og hafa á stokkunum heima.“ Þórunni brá dálítið við þetta og svarar snöggt: „Nei, það veit ég að þú gerir ekki Guðmundur.“ Guðmundur svarar: „Jú, víst geri ég það.“ Féll svo tal um þetta efni niður, en ég þekkti Guðmund nógu vel til þess að vita, að hann mundi aldrei láta sér detta í hug að safna að sér áfengisbirgðum.“
Þá fjallaði Viktor m.a. um samanburð á þessum tveimur heimilum svo sem fjölda í heimili, hjáleigum og hvorir höfðu hag af öðrum. Stikaði hann t.a.m. kirkjugólfið þegar hann lýsti lengd Valdimars og bað Magnús í Halakoti að standa upp þegar hann lýsti Guðmundi Ívarssyni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var annað að sjá en þarna væri lifandi eftirmynd afa hans komin.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
-Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Guðmundur B. Jónsson. Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
-Haukur Aðalsteinsson. Árbók Suðurnesja 1994 og 1998.
-Kristinn P. Briem. Æskuminningar frá Vatnsleysuströnd. Heimdragi. Iðunn Reykjavík 1967.
-Kristleifur Þorsteinsson. Litla skinnið. Nesjaútgáfan Reykjavík 1982.
-Kristleifur Þorsteinsson. Rauðskinna I og II, Sagnaþættir af Vatnsleysuströnd. Bókaútg. Þjóðsaga 1971.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.