Vatnsleysuströnd

Eftirfarandi er byggt á svæðaskráningarskýrslu Sædísar Gunnarsdóttur um “Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi” fyrir Fornleifastofnun Íslands -2006. Í þessari skráningu koma fram bæði áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar um upphaf, þróun og sögu byggðar í Vatnsleysustrandarhreppi.

Vogar

Vogar 1921.

Þegar leitað er eftir ummerkjum um byggð Í Vatnsleysustrandarsvæðinu er eðlilegast að byrja á því að leita að líklegum vísbendingum um upphaf landnáms eins og sagt er frá því í Landnámabók. “Á grunni þess er síðan hægt að huga að staðsetningu kumla og kirkna með það fyrir augum að setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrst. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um byggð fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin hafa verið reist skömmu eftir kristnitöku. Nærtækasta skýringin á miklum fjölda guðshúsa á Íslandi á miðöldum er sú að þau hafi upphaflega verið byggð í heimagrafreitum, sem voru líklega við hvern bæ eins og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkju sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið komin í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur og bænhús hafa verið, eru að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfðu slík hús og er því oft freistandi að álykta að minniháttar jarðir þar sem ekki hafa verið bænhús séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Ritaðar

heimildir eru helstar Landnámabók, fornsögur og fornbréf.

SkjaldarkotLand Vatnsleysustrandarhrepps er 15 km á lengd og 10 km á breidd. Landið er samfellt hraun frá fjöru til fjalla. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram sjónum en bæjunum fylgja hvorki kúahagar né slægjur og var ræktun landsins oft erfið. Rennandi vatn er ekki í hreppnum því rigningarvatn safnaðist allt ofan í hraunið. Vatnsskortur er hinsvegar ekki í hreppnum enda notuðu sveitungar brunna til að nálgast neysluvatn og eru fjölmargir brunnar á skráningarsvæðinu, miklu fleiri en gerist í öðrum sveitum. Af ströndinni er stutt á fengsæl fiskimið, og var oft fjölmennt á vertíð enda streymdi að fólk allstaðar af landinu. Hlunnindi hafa verið talsverð á svæðinu, má þar nefna hrognkelsi, sölvafjöru og skelfiskfjöru en skelfiskur var aðallega nýttur í beitu.

Vogar

Vogar 1921.

Landnám skiptir miklu máli er byggðasaga er rannsökuð því þeir sem komu fyrstir gátu tekið bestu löndin, höfðu mestra hagmuna að gæta og mótuðu oft þá byggð er fylgdi í kjölfarið. Ætla má að bæir hafi byggst snemma þar sem fóru saman góð skilyrði til búfjárræktar og fjölbreytileg hlunnindi, svo sem fjörubeit, sumarbeitiland, vetrarbeit, reki, æðarvarp eða selveiði eftir því hvað við á. Hreppurinn er allur innan landnáms Ingólfs Arnarsonar en Landnáma getur einnig um aðra landnámsmenn á svæðinu sem komu síðar. Frænka Ingólfs Arnarssonar, Steinunn hin gamla, kom til Íslands til frænda síns. Hann bauð henni Rosmhvalanes utan Hvassahrauns. Hún gaf Eyvindi frænda sínum hluta úr landnámi sínu sem samsvarar núverandi mörkum Vatnsleysustrandarhrepps. Ekki er þess getið hvar Eyvindur bjó, enda dvaldi hann stutt í landnámi sínu. Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit ásældist land Eyvindar og höfðu þeir jarðaskipti og bjó Hrollleifur í Kvíguvogum.

AuðnarEkki gefur þetta okkur miklar upplýsingar um byggðaþróun á Vatnsleysuströnd aðra en þá að snemma hefur jörðin Kvíguvogar (Stóru-Vogar) komist í byggð. Engin kuml hafa fundist í hreppnum þannig að fátt er vitað um þróun byggðar í hreppnum á allra fyrstu árunum eftir landnám. Telja má líklegt að jarðir, þar sem guðshús voru, hafi byggst á 11. öld. Allar jarðir á Vatnsleysuströnd tilheyrði Kálfatjarnarsókn og er kirkjunnar þar fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200. Sagnir eru um að kirkjan hafi fyrst staðið á Bakka en vegna landbrots hafi hún flust að Kálfatjörn en engar sannanir eru fyrir þeim sögum. Ekki hafa varðveist heimildir um bænhús í sókninni á miðöldum en í túni Brunnastaða er Bænhúshóll og er mjög líklegt að þar hafi verði bænhús. Tvær útkirkjur voru í hreppnum á miðöldum. Annars vegar í Stóru Vogum en kirkju þar er fyrst getið á seinni hluta 14. aldar. Hinsvegar á Vatnsleysu en kirkju þar er fyrst getið um 1269.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Miðað við frásagnir Landnámu og heimildir um kirkjur á svæðinu er í raun fátt vitað um fyrstu byggð í hreppnum annað en að Stóru Vogar, Kálfatjörn og Vatnsleysa byggðust snemma. Því þarf að skoða fleiri heimildir en engra jarða í hreppnum er getið í Íslendingasögum og aðeins er getið um eina jörð í Sturlungu og það eru Stóru Vogar.
Elstu fornbréfin eru frá 13. öld og má oft fá nokkra hugmynd um byggðaskipan út frá þeim. Nær allra jarða, þar sem ekki var kirkja eða bænhús, er getið í fornum skjölum, máldögum kirkna og sölu-, testamentis eða vitnisburðarbréfum. Munar þá helst um það að Viðeyjarklaustur átti meirihluta jarða á Vatnsleysuströnd. Klaustrið var stofnað 1225-6 af Þorvaldi Gissurarsyni í Hruna og skömmu síðar er getið um að Magnús biskup, bróðir Þorvaldar, gaf því viðreka í Hvassahraunslandi. Smám saman náði klaustrið undir sig öllum jörðum í hreppnum fyrir utan Kálfatjörn, Flekkuvík og Brekku sem voru eign kirkjunnar á Kálfatjörn.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Jarðarinnar Brunnastaða er fyrst getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs frá árinu 1395. 1447 fékk Viðeyjarklaustur jarðirnar Voga, Hlöðunes, báða Ásláksstaði, bæði Knarrarnesin og Breiðagerði. Vatnsleysu minni er fyrst getið í fógetareikningum frá því um 1547-8.

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Þær klausturjarðir sem síðast er getið um eru nefndar í landskuldarreikningum frá árinu 1584 í bréfabókum Klaustursins. Það eru Minni Vogar, Auðnir, Landakot og Þórustaðir sem eflaust hafa byggst mikið fyrr þó þær séu ekki nefndar í heimildum. Af jarðeignum sínum á svæðinu hafði klaustrið gagn af reka og miðunum undan landi og einnig hafði klaustrið dágóðar tekjur af leigugjöldum af jarðeignum sínum og leigufé.
Þá má draga ályktanir af dýrleika jarða. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna í öndverðu. Sennilegt verður að telja að dýrustu jarðirnar séu á þeim stöðum sem bestir voru til búsetu og því líklegir til að hafa byggst fyrst. Því miður er ekki getið um dýrleika jarðanna 1703 en miðað við eldri heimildir sem til eru um dýrleika jarða sem og dýrleika þeirra árið 1847 má sjá að dýrustu jarðirnar í hreppnum voru Stóru Vogar, Brunnastaðir, Knarrarnes stærra, Auðnar, Kálfatjörn, Vatnsleysa stærri og Hvassahraun en þær voru allar metnar á 25 hundruð eða meira.

Móakot

Móakot.

Bæjanöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Aðeins tvær jarðir uppfylla þessi skilyrði; Auðnar og Bakki og er hvorug meðal stærstu jarða í hreppnum sé annarra vísbendinga um að hafa byggst snemma. Stærri Vogar gætu hafa verið nefndir Vogar fyrst en elsta nafn sem vitað er um á þeirri jörð er Kvíguvogar og telja menn það elsta nafnið. Algengustu liðir í bæjanöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes, vík, hóll, á og eyri og flest þeirra ósamsett.  Nokkrir liðir eru enn fátíðari, það eru t.d. fors (foss) og múli. Flest bæjanöfn í hreppnum eru samsett; Hvassahraun, Knarrarnes, Hlöðunes, Flekkuvík, Vatnsleysa, Breiðagerði og Kálfatjörn, (Galmanstjörn talin eldri mynd af nafninu). Bæjanöfn sem enda á -staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Þrjú lögbýli með -staða endingu eru í hreppnum; Ásláksstaðir, Brunnastaðir, og Þórustaðir. Langflest lögbýli hreppsins hafa áttúrunafnaendingar sem er mun algengara í Landnámu.

Halldórsstaðir

Allra stærri býla á skráningarsvæðinu er getið á miðöldum enda ásældist Viðeyjarklaustur jarðir svo nálægt fengsælum fiskimiðum. Þrátt fyrir hraun og engjaleysi voru jarðirnar á Vatnsleysuströndinni eftirsóttar til búsetu og hafa líklega byggst snemma. Þó heimildir geti ekki um jarðir fyrr en á 13. öld, segir það lítið um hvenær þær voru fyrst byggðar og má ætla að flest lögbýlin hafi verið komin í byggð á 11. öld, í síðasta lagi.
Fyrir utan bæjarhóla á býlum sem verið hafa í byggð fram á 20. öld eru á flestum stöðum á landinu margir staðir þar sem byggð hefur annaðhvort varað í stuttan tíma eða þar sem hjáleigur eða afbýli hafa lagst í eyði fyrir 1847. Margar þeirra eru innan Stóru-Voga enda byrjaði vísir að þéttbýli þar undir lok 19. aldar.

Nafn á býli: Í byggð:
Snorrastaðir – fyrir 1703
Nýibær – eftir 1872
Hábær – ekki vitað
Stapabúð – fyrir 1899
Brekka – ekki vitað
Hólmsbúð – um 1850-1910
Steinsholt – 1874-1879
Bræðrapartur- ekki vitað
[nafnlaust] – ekki vitað
Halakot – fyrir 1700
Klöpp – e 1900
Gata – byggð fyrir 1703
Syðsta hjáleiga- byggð fyrir 1703
Garðhús – fyrir 1900
Valgarðshjáleiga fyrir 1703
Móakot – fyrir 1703
Eyrarkot – ekki vitað
Hof – ekki vitað
Tjarnarkot – fyrir 1703, eftir 1880
Mýrarhús – 1885-?
Mörk – ekki vitað
Hólkot – ekki vitað
Grænaborg- 1881-?
Austurkot – ekki vitað
Renslutóft – fyrir 1703
Helgabær – ekki vitað
Eyrarkot – fyrir 1703
Hólshjáleiga- fyrir 1703
Norðurkot – ekki vitað
Grund – fyrir 1925
Vorhúsabæir- fyrir 1925
Hausthús – fyrir 1925
Hvammur – fyrir 1925
Brunnastaðakot fyrir 1703
Stöðlakot – fyrir 1703
Tangabúð – fyrir 1703
Vesturhús – fyrir 1703
Miðgarður – fyrir lok 19. aldar
Töðugerðisbæir um 1900
Kothús – fyrir 1900
Fögruvellir – til um 1920
Gerði – fyrir 1905
Tjörn – til 1918
Halldórsstaðir- fram yfir 1900
Miðhús – ekki vitað
Bjarghóll – fyrir 1900
Nýlenda – fyrir 1900
Holt – um 1900
Gerði – ekki vitað
Atlagerði – ekki vitað
Klöpp – fyrir 1900
Miðbær – ekki vitað
Garðhús – 1917-1940
Móakot – um 1900
Hallandi – 1917-1970
Sjónarhóll – frá 1886
Rás – ekki vitað
Fagurhóll – um 1900
Gerðar – ekki vitað
Grandabærinn – ekki vitað
Atlagerði – um 1703
Nýibær – um 1919
Helgahús – fyrir 1700
Hellur – fram á 20. öld
Vík – fyrir 1900
Breiðagerði- um 1900
[Nafnlaus] – ekki vitað
[Nafnlaus] – ekki vitað
Auðnar – frá 1883
Höfði – 1850-1971
Lönd – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Hólmsteinshús- fyrir 1703
Hóll – ekki vitað
Gata – fram yfir 1900
Lönd – ekki vitað
Hellukot – um 1880
Suðurhjáleiga- fyrir 1703
Tíðagerði – til 1920
Harðangur – 1885-1900
Hlið – til 1923
Goðhóll – til 1933
Litlibær – frá um 1884
Hólakot – fyrir 1703
Árnahús – fyrir 1703
Borgarkot – 19. öld
Bakkakrókur- í eyði 1660
Bjarg – 1850- 1934
Tröð – ekki vitað
Vatnagarður- ekki vitað
Holt – ekki vitað
Járnhaus – ekki vitað
Sigurðarhjáleiga- ekki vitað
Blíðheimur – í byggð 1703
Péturskot – í byggð 1703
Refshali – til 1922-23.
Úlfshjáleiga- fyrir 1703
Búð – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Grund – ekki vitað
Miðengi – fyrir 1916
Akurgerði – fyrir 1703
Naustakot – til 1930-31
Nýibær – fram yfir 1900
Móabær – fram yfir 1900
Sigurjónsbær- ekki vitað
Jónasarbær- ekki vitað
Kofinn – ekki vitað
Garðbær – um 1919
Krókur – ekki vitað
Skálinn – til 1901
Garðhús – um 1920
[Nafnlaus] – ekki vitað
Vatnsleysukot um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Norðurkot – ekki vitað
Niðurkot – ekki vitað
Þorvaldskot- ekki vitað
Látur – ekki vitað
Suðurkot – ekki vitað
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Þóroddskot- um 1703
Saunghóll – um 1830

Stóra-Vatnsleysa.

Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.

Þessi listi gefur nokkuð skýra mynd af hjáleigubyggð á svæðinu sem greinilega hefur verð mun þéttari en víða annar staðar á landinu. Af 130 býlum sem nefnd eru hér eru 36 býli komin í byggð fyrir 1703 er jarðabókin var samin og mörg þeirra voru þá komin í eyði og fæst þeirra byggðust upp aftur.
Sjónarhóll.
Á 17. öld varð mikil byggðaaukning á Íslandi, fjöldi hjáleiga og smákota byggðist upp um allt land, sum í skamman tíma en önnur hafa haldist í byggð fram á þennan dag. Mörg þessara 36 býla voru aðeins í byggð í stuttan tíma. Ekkert er vitað um það hvenær 40 býli af listanum voru í byggð. Víða um landið varð einnig nokkur sprengja í hjáleigubyggð á seinnihluta 19. aldar og má sjá það glögglega á Vatnsleysuströndinni. Að minnsta kosti yfir 50 býli af listanum byggðust eftir 1850 og voru í byggð rétt fram yfir aldamótin 1900. Reyndar má segja að hjáleigubyggð hafi alltaf verið nokkuð mikil enda girnilegt að komast að við ströndina svo nálægt gjöfulum fiskimiðum. Ítarlega sögu býlanna í Vatnsleysustrandarhreppi er að finna í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.
Eins og sést af þessum hugleiðingum má leggja á ýmsan hátt út af tiltækum heimildum um upphaf byggðar á skráningarsvæðinu en er þó fátt fast í hendi.”

Heimildir aðrar:
-Ágúst Ó Georgsson: Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar, Reykjavík 1993.
-Árni Óla: Strönd og vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar Reykjavík 1961.
-Björn Bjarnason: “Kjósarsýsla” Landnám Ingólfs II, 1937, 90-109.
-Brynjúlfur Jónsson: “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902” Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1903, 31-52.
-Bsk: Biskupa sögur gefnar út af hinu íslenzka bókmenntafélagi I II, Kaupmannahöfn 1858 1878.
-Íslenzkt fornbréfasafn I-XVI, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972.
-Elín Ósk Hreiðarsdóttir: Fornleifakönnun. Reykjanesbraut. Fornleifastofnun Íslands FS133-00141 Reykjavík 2001
-Eggert Ólafsson: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra á Íslandi árin 1752-1757, Reykjavík 1974.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 I-II, Reykjavík 1983.
-Guðmundur Björgvin Jónsson: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi [án staðsetningar] 1987.
-Hannes Þorsteinsson: “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjarnöfnum á Íslandi” Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1923, 1-96.
-Islandske Annaler indtil 1578, Kristjania 1888.
-ÍF I: Íslenzk fornrit I. Íslendingabók & Landnáma, Reykjavik 1986.
-Jarðabréf: Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir.
-Árni Magnússon & Páll Vídalín: Jarðabók. Gullbringu og Kjósarsýsla III. Reykjavík, 1982.
-Johnsen, J: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847.
-Jón Oddur Hjaltalín: “Lýsing Kjósarsýslu 1746” Landnám Ingólfs III, 1937-1939, 25-34.
-Kålund, Kristian: Íslenzkir sögustaðir. Sunnlendingafjórðungur I, Reykjavík 1986.
-Lovsamling for Island : indeholdende Udvalg af de vigtigste ældre og nyere Love og Anordninger, Resolutioner III, Kaupmannahöfn 1853-1889.
-Sveinn Níelsson: Prestatal og prófasta, 2. útg., Reykjavík 1950.
-Ragnar Guðleifsson: “Örnefni á Hólmsbergi” Faxi. 27. árg, 8. tbl 1967, 126.
-Sesselja G. Guðmundsdóttir: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi [1995].
-Skúli Magnússon: “Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu” Landnám Ingólfs I, 1935-1936, 1-96.
-Sigurður Sigurðsson: “Lýsing Reynivallasóknar 1840” Landnám Ingólfs 3, 1937-1939, 241-258.
-Sturlunga saga I-II, Reykjavík 1946.
-Svavar Sigmundsson: “Íslensk örnefni” Frændafundur 2 Þórshöfn 1997, 11-21.
-Túnakort. Þjóðskjalasafn Íslands. Jarðadeild XIV. Uppdrættir af túnum 1917. Kjósarhreppur.
-Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson 1978.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898 I Kaupmannahöfn 1913-1915.

Á Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.