Færslur

Vatnsleysuströnd

Landnám.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.

Eftir landnám.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.

– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

– 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

Kirkjur.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.

Stefán Thorarensen

Stefán Thorarensen.

Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi. Viðeyjarklaustur – landsetar konungs.
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á síðunni.

Framfarir.

Vogar

Vogar 1954.

Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogsvör – loftmynd.

Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Vogar
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

Áhugaverðir staðir.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

– Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.

– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378m, Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

Sögur og sagnir.

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.

“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti.

Stapagata

Stapavegur.

Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!

Staðarborg

Staðarborg.

Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

Samantekt Viktor Guðmundsson.

Heimildir.
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland .1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.
www.bokasafn.rnb.is.
www.ferlir.is

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Auðnar

Í “Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, riti Guðmundar Björgvins Jónssonar frá árinu 1987, er m.a. fjallað um “Vindmylluhúsið” við Auðna.

Stefán Sigurfinsson.

Stefán Sigurfinsson.

“Stefán Sigurfinnsson á Auðnum, stofnaði ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggirnir sem ég tel að Stefán hafi byggt. Ég þykist þekkja handbrögðin og byggingarefnið af öðru sem ég hef skoðað frá þessum tíma. Myndi þessi bygging sóma sér vel se, vendaður minjagripur og efa ég að annarsstaðar á landinu hafi verið reist beinamylla, þó hér í landi hafi verið kornmyllur fyrr á árum. Beinamylla stót stutt ig var aflögð 1920-21. Tvennt kom þar til, fyrst það að hún malaði of gróft og annað hitt að bilun var alltíð og því dýrt vioðhald. Þórarinn í Höfða var starfsmaður við myllunar er þess þurfti með og vindar blésu mátulega.
Stefán var maður hugsóna og athafna, varð fljótt í miklu áliti hjá hreppsbúum og frammármaður í mörgum héraðsmálum. Hann hóf fyrstu manna trillubátaútgerð hér í hreppi og átti tvo í senn, var sjálfur með annan en Þórarinn í Höfða með hinn.”

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Auðnir

Vindmylluhúsið voð Auðnar 2023.

Guðmundur Björgvin Jónsson

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar frá Brekku, “Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, útg. 1987, segir bæði frá hreppamörkunum sem og misskiptu mannlífinu fyrrum:

Skógfellastígur

Merkin við “gömlu götuna” millum Voga og Grindavíkur. Skv. landamerkjalýsingunni voru mörkin miklu mun norðaustar en nú er sýnt á kortum.

“Hreppurinn nær frá miðjum Vogastapa og byggðin með sjávarströndinni að jafnaði hvergi fjær sjá en 1 km þar til hún endar við Hvassahraun, en hreppamörk eru hin sömu og fyrrnefnd sýslumörk við Markaklett. Austan Hvassahrauns er Hvassahraunsbót og eystra nesið heitir Hraunsnes, en það vestara Stekkjarnes. Við Hraunsnes er Markaklettur.
Eins og áður segir eru sýslur beggja vegna línunnar frá Markakletti að Markhelluhól. Þar um er framhald sýslumarka til vinstri en hreppamörk til hægri og stefna þau vestan við Trölladyngju. Er þá Grindavíkurland vinstra megin og Vatnsleysustrandarland hægra megin, en við Trölladyngju og austurkant Höskuldarvalla eru óviss mörk. Á þessu svæði beygir línan beint vestur að Lilta-Keili, síðan lítið eitt til vinstri í Hagafell, þaðan aftur til hægri í Kálffell og enn til vinstri að Litla-Skógfelli í stóran klett, sem stendur við gamla götuslóð þar er sést vel enn. Þessar bugðóttu línur hreppamarkanna eru umdeildar.

Arnarklettur

Arnarklettur.

Frá Litla-Skógfelli er farið í norður beina línu í Arnarklett, sem stendur nálægt hraunjarðrinum austur af Seltjörn. Við klettinn mætast þrír hreppar. Síðasti áfanginn er frá Arnarkletti í sjó fram að vesturþúfu við Innri-Skor í Voga-Stapa. Þarna eru einni umdeild mörk, ein landlýsingin segir í miðja Skor, sem er mjög ónákvæmt.
Þar með er lokið landleiðinni um hreppamörkin en sjávarmegin lemja bárur Stakksfjarðar landið allt, að markakletti austan Hvassahrauns.
Þegar um er að ræða býli og búendur allt fram á annan og þriðja tug þessarar aldar [þeirrar síðustu], kemur í ljós að stéttarskipting var sérstaklega áberandi, sér í lagi þegar illa áraði og veiðivon í sjó og veðurfar í landi brást þeim er byggði afkomu sína á sávarafla og landbúnaði. Þá urðu þeir er minna máttu sín, að gera sér að góðu að heyra í og horfa á þá ríku. Vil ég hér nefna flokka:

Steinsholt

Steinsholt í Vansleysustrandarhreppi – dæmi um kotbýli.

1) Bændur á lögbýlum, er stunduðu bæði landbúnað og sjávarútveg, höfðu kaupafólk, vermenn og leiguliða þar sem landrými var umtalsvert.
2) Grasbýlingar, sem bjuggu í hjáleigum eða húsum á lögbýlisjörð, höfðu gransnyt án beitilandsréttar.
3) Tómthúsmenn, er höfðu efni á málnytu þ.e. ekkert grasland til að fæða kind eða kú og urðu því að vinna fyrir öllum nauðþurftum hjá öðrum og greiða leigu til landleiganda þess er hús þeirra stóðu á. Í mesta lagi gátu tómthúsmenn (kotungar) útbúð kálgarð, en þó aðeins með leyfi landeiganda.

Stapi

Brekka undir Stapa – dæmi um dugmikla Grasbýlinga.

4) Vinnufólk, húsfólk eða húshjón, bæði konur og karlar, sem var kaupafólk, ýmist árstíðarbudnið eða ársráðið. Þeir sem þóttu duglegir og voru eftirsóttir gátu unnið sig upp og orðið sjálfstæðir eignamenn.
5) Þeir aumustu sem ekki gátu uppfyllt kröfur þær sem til þeirra voru gerðar og áttu oft ekki annan kost en að verða þurfamenn eða niðursetningar”.

Af framangreindri lýsingu Guðmundar Björgvins á aðbúnaði fólks á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. virðist lítið hafa breyst – ef horft er til nútíðar…

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Þórusel

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I” árið 2011 er getið um Steinsholt, kot milli Vogastapa og Voga. Kot þetta var ekki langlíft, einungis í ábúð um fimm ára skeið. Eftirstandandi minjarnar segja þó sögu:

Steinsholt

Steinsholt.

“Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll”, segir í örnefnaskrá (AG).
“Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.” segir í örnefnaskrá (GS). Steinsholt var byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæðinu. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa.

Steinsholt

Steinsholt – bæjarstæðið.

Getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um “Mannlíf og mannvirki í hreppnum“. Þar segir: “Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879.”

Steinsholt

Steinsholt – útihús.

Á þessum stað eru 6 tóftir; torf- og grjóthlaðið gerði, tóft í SV horni gerðisins, tóft fast NNA við NNA-enda gerðisins, tóft um 45 m SA, tóft fast SV við Gamla-Keflavíkurveg (samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur var þarna íbúðarhúsið í Steinsholti) og tóft vestan í Steinsholti og var hún smiðjan í Steinsholti samkvæmt “Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”.

Steinsholt

Steinsholt – smiðja.

Í bókinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”, skrifuð af Guðmundi Björgvin Jónssyni og útgefin 1987 segir:
“Guðmundur Magnússon koparsmiður, f: um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Guðmundur var frá Reynivöllum í KJósarsýslu og bjó um 1856 í Garðhúsum í Vogum er var í eigu Stóru-Voga. Hann hafði í fyrstu ráðskonu er hann svo kvæntist. Árið 1958 voru þau húshjón í Stóru-Vogum og árið 1859 voru þau komin í Hólmabúðir. Árið 1870 fóru þau aftur að Stóru-Vogum uns þau fluttu að Steinsholti 1874. Enn má sjá þar klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði sem eldsmiðju.

Steinsholt

Steinsholt – matjurtargarður.

Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin sögð bláfátæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak upp í fjöru án manntjóns. Skipið var Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði. Hét skip þetta Fjallkonan. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi.

Þórusel

Þórusel.

Í “Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum” 2011 er getið um “Vogasel” millum Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautar, heldur þó nær brautinni. Ekki er getið hver heimild um “Vogasel” er á þessum stað. Vogasel; Gömlu-Vogasel og Nýju-Vogasel, eru hins vegar uppi í Vogaheiði, sunnan Brunnastaðasels. Hins vegar er í heimildum getið um “Þórusel” þar sem “Vogasel” er sagt vera.

Þórusel

Þórusel.

Lýsing á Þóruseli, sem var heimasel þar sem einu mannvirkin voru stekkur og hlaðið skjól, passar við lýsinguna: “Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,” segir í örnefnaskrá.
Í heimaseli hélt smali fé sínu til haga, en selsmatsseljan kom í selið að morgni og fór heim að kveldi, enda skamma leið að fara. Svæðið í kringum Þórusel er vel grasi gróið, sem bendir til selstöðu. Stekkurinn gefur til kynna að í selinu hafi verið u.þ.b. 20 ær. Slík fjölg hefur þótt góð í seli fyrrum. Ofan við stekkinn er hlaðið skjól, líklega smalaskjól.
Þórusel er að öllum líkindum heimanfærð selstaða eftir að aldagamlar selstöður í heiðinni lögðust af um 1870. Að þeim gegnum færðust fráfærur nær bæjum vegna mannfæðar og breyttra búskaparhátta. Yngstu minjar selsbúskapsins má finna í stekkjum heimatúnanna, jafnan í jaðri túngarðsins.

Þórusel

Þórusel – uppdráttur.

Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun. Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.”

Þórusel

Þórusel.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“, útg. 2007 segir m.a. um Þórusel:
“Heimildir úr Brunnastaðahverfi segja Þórusel vera á sléttlendinu suður og upp af Gíslaborg og innan við Vogaafleggjarann en ólíklegt hefur verið sel þar. Heimildir frá Vogamönnum segja Þórusel hafa verið ofan við Reykjanesbraut en eðan Hrafnagjár og þær verða látnar gilda hér þó svo að einnig sé ósennilegt að þar hafi verið selstaða”.

Vogasel

Nýju-Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars staðar segir: “Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæðið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan við Vigaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er ur Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð”.

Vogasel

Vogasel eldri.

Í bók Sesselju segir um Vogasel: “Utan í Vogaholti að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel.
Þar sjáum við þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli”.
Í “Strönd og Vogar segir Árni Óla um “selstöður í heiðinni”: “Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera”.
Seltóftir “Nýja-Vogasels” hafa enn ekki verið skráðar – sjá Ferlir.is; – Nýjasel – Pétursborg – Oddshellir – Vogasel – Ferlir

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Ari Gíslason.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961.

Vogasel

Vogasel yngri.

Kálffell

Í Nýja tímanum árið 1953 segir frá því er “Guðmundur Í. heimtaði beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn“, eins og segir í fyrirsögninni:

“Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleysustrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn. Heiðin frá Grindavíkurvegi allt inn hjá Keili á að vera bannsvæði fyrir Íslendinga.

VogaheiðiGuðmundur Í. Guðmundsson, varnarmálanefndarmaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og þingmaður Alþýðuflokksins, fer nú hamförum við að afhenda bandaríska hernum lönd Suðurnesjamanna.
Í júní í fyrra skýrði Nýi tíminn frá því að bandaríski herinn hefði gert kröfu til að fá til sinna umráða Reykjanesið frá Keflavíkurflugvelli allt suður til Grindavíkur, og síðan að fyrirhúgað væri að herinn teygði umráðasvæði sitt lengra inn eftir nesinu. Svæðið milli Grindavíkur og flugvallarins hefur bandaríski herinn haít til umráða síðan í fyrrasumar og það er nú einnig komið á daginn að umráðasvæði hersins sé teygt inn eftir skaganum.
Síðasta afrek Guðmundar Í. Guðmundssonar við að leggja lönd Suðurnesjamanna undir bandaríska herinn er það að afhenda hernum beitiland Vatnsleysustrandarbúa frá Grindavíkurvegi að vestan allt austur hjá Keili. Að norðan eru takmörkin skammt ofan við Vatnsleysustrandarbyggðina, að sunnan lína frá Skógfellinu austur með Fagradalsfjalli til Keilis.
Eins og skýrt er frá annarsstaðar í blaðinu er bandarískiherinn nýbúinn að afmarka bannsvæði á landi Vogamanna og hefur m.a. tekið skógræktarsvæði Suðurnesjamanna undir skotæfingar sínar.
En það var ekki aðeins að bandaríski herinn tæki skógræktarsvæðið heldur raðaði hann bannmerkjum sínum allt frá Stapanum og skammt fyrir ofan byggðina inn móts við vitann í Ásláksstaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni. Til suðurs frá Stapanum var bannmerkjunum raðað fast við Grindavíkurveginn allt suður hjá Arnarsetri.

Guðmundur Í. í landvinningahug
VogaheiðiAð liðnum uppstigningardegi skrapp fréttam. Nýja tímans á fund Suðurnesjamanna til að kynna sér landvinninga Guðmundar Í. Guðmundssonar og bandaríska hersins. Jú, Vatnsleysustrandarbúar sáu það frá húsum sínum að komin voru merki nokkuð fyrir ofan sem bönnuðu þeim að stíga fæti sínum ofan við vissa línu.
Fyrir um það bil mánuði lét Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður og alþingismaður einn starfsmann embættis síns spyrja Vatnsleysustrandarbúa um landamerki og hreppamörk. Hvers vegna var Guðmundi Í. allt í einu orðið svona annt um landamerki? Jú, elsku Kaninn þurfti að fá meira land undir skotæfingar. Og Guðmundur Í. var þjónustusamlegast reiðubúinn að heimta meira land af Suðurnesjamönnum handa bandaríska hernum. Það var hersir.s að skipa — Suðurnesjamanna að hlýða.
Forsvarsmönnum Vatnsleysustrandarbúa var tjáð að land það sem bandaríski herinn hefði nú litið girndarauga væri í línu frá Litla-Skógfelli (sem er á leiðinni til Grindavíkur) til Keilis og frá suðausturenda Stapans einnig til Keilis. Var Vatnsleysustrandarbúum boðið að tilnefna fulltrúa sinn við landaafsal þetta og skyldi hann sitja í gerðardómi til að meta leigu fyrir landið.

Vilja ekki afsala landi
VogaheiðiÞegar landeigendur á Vatnsleysuströndinni ræddu þetta mál kom strax fram það sjónarmið að neita þessari landakröfu. Völdu þeir sem málsvara sinn mann af Vatnsleysuströndinni, sem nú er búsettur í Rvík. Hann neitaði hinsvegar að eiga þátt að landaafsali þessu og setjast í slíkan gerðardóm.
Til að byrja með var Vatnsleysustrandarbúum tjáð að elsku Kaninn þurfi land þetta ekki nema haust og vor, 6 vikna tíma á vorin, jafnlengi á haustin. Þyrftu bændur að smala búsmala sínum brott, — og reka hann hvert?!

Herinn setur upp bannmerki
Fyrir fáum dögum kom svo bandaríski herinn á vettvang og raðaði upp bannmerkjum sem á var letrað: ?
Bannmerki þessi setti hann upp frá útvarpsstöðinni sinni alræmdu á Stapanum og fast með Grindavíkurveginum suður móts við Arnarsetur, skammt frá í Stóra-Skógfelli, en línan þaðan til Keilis liggur fast við norðurhlíð Fagradalsfjallsins.

Beitilandið tekið

Vogaheiði

Sprengja í Vogaheiði.

Samskonar merki setti herinn upp fast við Keflavíkurveginn fyrir ofan gamla herspítalagrunninn austast á Stapanum. En frá austurenda Stapans var merkjalínan ekki í stefnu á Keili, eins og upphaflega hafði verið látið í veðri vaka, heldur þvert á móti inn ströndina í átt til Hafnarfjarðar, skammt fyrir ofan Vatnsleysustrandarbyggðina — innsta merkið. sem frá veginum sást ofan við Ásláksstaðahverfi. Hvað langt inn eftir ströndinni að fyrirhugað er að herinn teygi sig hefur enn ekki verið uppskátt látið.

Skrýtinn feluleikur

Vogaheiði

Landhelgisgæslan og Varnarliðið í sprengjuleit (VF 12. október 2004).

Þegar fréttamaður Nýja tímans leit þarna suður eftir í fyrradag voru öll bannmerkin þar sem þau höfðu upphaflega verið sett af herraþjóðinni, og eru meðfylgjandi myndir sýnishorn af þeim. Síðan skrapp fróttamaðurinn til Grindavíkur, en þegar hann kom til baka eftir skamma viðdvöl í Grindavík höfðu merkin, er áður stóðu fast við veginn til Grindavíkur, verið færð nokkurn spöl austur í hraunið.

Vogaheiði

Sprengja úr Vogaheiði.

Aðeins eitt merki stóð enn uppi, var það rétt við veginn austan við Seltjörnina, þ.e. í lægðinni milíi hraunsins og Stapans. En um sama leyti komu þar Bandarikjamenn í bíl, hljóp einn þeirra út úr bílnum, réðist á merkið og fleygði því niður fór svo inn í bílinn aftur!
— Hin merkin höfðu verið flutt þangað sem þau voru ekki eins áberandi frá veginum! Þar á ekki að slaka til.
Merkin sem áður voru uppi á Stapanum höfðu einnig verið felld, en þótt merkin við Grindavíkurveginn hefðu verið færð, þá var bannmerkjalínan inn ströndina ófærð með öllu. Þar virtist ekki ætlunin að hopa hið minnsta. Guðmundur Í. Guðmundsson Bandaríkjafógeti virðist ekki geta hugsað sér að færa það bannsvæði hóti fjær byggðinni.

Verða þeir hraktir brott?

Vogaheiði

Yfir átta hundruð sprengjur hafa fundist við leit á fyrrverandi skotæfingasvæði bandaríska hersins á Vogaheiði á Reykjanesi í sumar og fyrrasumar (Mbl. 10.08.2004).

Vatnsleysustrandarbúar tóku sauðfé aftur á sl. hausti. Auk þess eiga þeir hross og kýr.
Landið sem Guðmundur Í. og bandaríski herinn hafa nú gert að bannsvæði fyrir þá er beitilandið fyrir búsmalann. Auðvitað tekur enginn mark á því að herinn noti ekki landið nema nokkrar vikur haust og vor. En segjum að svo væri. Hvar eiga bændurnir að geyma búsmala sinn á meðan herinn rótar upp beitilandinu með byssum sínum?
Hver vill eiga búfé sitt á skotæfingasvæði hers? Og hver vill smala skotæfingasvæði (þótt herinn heiti því að skjóta ekki rétt á meðan)?
Allt fram á þennan dag hafa verið að finnast ósprungnar sprengjur frá skotæfingum er fram fóru á stríðsárunum, og oft hafa hlotizt af þeim slys. Á sú saga nú að endurtaka sig? Með því að taka beitiland Vatnsleysustrandarbúa undir skotæfingar hersins, gera það að bannsvæði fyrir bændunum sem þarna búa er ekki annað sýnilegt en ætlunin sé að hrekja þá á brott af jörðum sínum; — en um þetta verður meira rætt síðar.”

Heimild:
-Nýi tíminn, 19. tbl. 21.05.1953, Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleystrandarbænda til skotæfinga fyrir herinn, bls. 2 og 11.

Vogaheiði

Frétt í Nýja Tímanum 21.05.1953.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um “Krýsuvík” út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: “…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum”.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: “…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum”.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: “… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin” …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: “… kirkian kryssvvik ætti þar j xc” …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: “… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: “Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga”.
Samkvæmt einu vitnanna: “á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: “… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð”.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: “Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn”. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: “… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: “… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á”.
Einnig hafði vitnið heyrt að: “… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða”.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: “… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: “Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642”. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: “… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj”. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: “Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð”.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: “Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja”.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: “Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum” … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: “… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum” … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: “… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó”. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: “Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum” … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: “Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres”.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: “Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket”.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: “Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur”.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: “Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu”.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,” …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)” …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: “Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík”.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: “Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin”.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: “Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu”.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt”.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: “Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2”.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: “þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús”.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: “Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar”. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: “Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi”.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: “Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: “Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi”.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt”. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Eldborgargren

Hér á eftir verður fjallað um “Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi” fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.

“Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: “Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum”.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
“Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum”.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.

Selsvellir

Selsvellir.

Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: “Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. … Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.

Hraunssel

Hraunssel.

Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: “Sumarbeit góð í seli upp til fjalla” …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.

Knarrranessel

Knarrarnessel.

Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: “Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima”.
Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: “Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt”.

Selsvellir

Selsvellir.

Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: “Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi”.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: “Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar”. …

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:

Kringlumýri

Kringlumýri undir Sveifluhálsi.

1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.

Klofningar

Í Klofningum.

Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.
Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): “Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.

Markhella

Markhelluhóll.

Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
Kálfatjörn
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – grenið.

Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): “Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum”.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.

Klofningar

Klofningar – greni.

Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki.

Keilir

Í Fjarðarpósturinum 1998 segir m.a.: “Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu”:

Keilir

Keilir.

“Ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa hluta úr landi Þórustaða virðist hafa farið mjög leynt og kom ráðamönnum í Hafnarfirði verulega á óvart. Einn viðmælanda Fjarðarpóstsins orðaði það svo að menn hefðu komið af fjöllum eða Keili, sem mun fylgja í kaupunum.
Bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson, var nýkomin til landsins á þriðjudagskvöld þegar vinnslu blaðsins var að ljúka og hafði því ekki heyrt fréttirnar. Magnúsi komu þessi landakaup á óvart, þar sem hann hefði nýlega átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra um málefni Jarðgufufélagsins. Magnús sagði að á þeim fundi hefði ekki verið minnst á þessi landakaup sem óneitanlega snertu málefni Jarðgufufélagsins þar sem umrædd spilda nær inn á háhitasvæðið í Trölladyngju.
Landeigendur hefðu sér vitanlega ekki boðið Hafnarfjarðabæ landið til sölu. Magnús sagði þessi landakaup snerti ekki beint hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar þar sem Þórustaðir væru utan lögsögu bæjarins. Hins vegar mætti líta svo á að vilji ráðamanna Reykjavíkurborgar til samstarfs við þá sem land eiga að háhitasvæðinu þ.m.t. Hafnarfjarðabæjar sé undirstrikuð með þessum kaupum.

Spákonuvatn

Spákonuvatn ofan Soga – Keilir fjær.

„Það er því ljóst að viðræður um nýtingu á þessu sameiginlega háhitasvæði hljóta að vera í augsýn” sagði Magnús. Blaðið hafði einnig samband við Eyjólf Sæmundsson sem hefur áður lagt til bærinn keypti lönd sunnan Hafnarfjarðar til þess að tryggja sér þau jarðhitasvæði sem tengjast Trölladyngjusvæðinu, til að byrja með Hvassahraun og Vatnsleysujarðirnar. Eyjólfur hefur verið formaður viðræðunefndar Jarðgufufélagsins um landakaup. „Þetta kemur mér óvart”, sagði Eyjólfur „þar sem ekkert hefur verið um þetta fjallað á þeim vetvangi sem Hafnarfjörður og Reykjavík hafa skapað til samstarfs um nýtingu á jarðhita á þessu svæði.
Ég sé þó ekki að þessi landakaup spilli neitt fyrir því samstarfi, þó vissulega hefði mér fundist eðlilegt að samráð hefði verið milli sveitarfélaganna um þessi mál.”

Keilir

Keilir.

Í Morgunblaðinu 1998 er grein; “Keili heim”:
“Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja efna til mótmælagöngu í dag, fimmtudag, við fjallið Keili á Reykjanesi. Nemendur og kennarar vi]ja með göngunni vekja athygli á því að þeir vilja fá Keili heim! „Það er í umræðunni að selja Keili til Reykjavíkur og því viljum við mótmæla. Keilir er Suðurnesjabúi og við viljum alls ekki að hann fari. Keilir er aðalfjallið okkar hér á Suðurnesjum og við viljum ekki að hann verði ein af blokkunum í Reykjavík. Hvert eitt og einasta Suðurnesjabarn hefur alltaf álitið að hinir einu sönnu jólasveinar búi í Keili. Hver í ósköpunum ætlar að vera svo vondur að eyðileggja jólastemmningu Suðurnesjabarna og flytja jólasveinana til Reykjavíkur?” segir Viktoría Ósk Almarsdóttir, ritari nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Keilir

Keilir.

Farið verður með langferðabíl frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja að Keili um klukkan 10 í dag og stendur gangan til klukkan 14. Við Keili munu þátttakendur mótmælagöngunnar sýna tilfinningar sínar í garð Keilis, og þeir sem vilja geta gengið á hann. „Sumir munu klappa og kyssa Keili en aðrir munu flytja ræður og ýmsan áróður,” segir Viktoría, sem er um þessar mundir að vekja athygli á málstað Suðurnesjabúa í Keilismálinu.”

Í Fréttablaðinu 2020 segir af Keili; “Fagurt fjall sem er fella”, grein eftir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson:

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur Thoroddsen nefnir fellið “Fjallið eina”.

“Í þýskumælandi löndum og þá sérstaklega í Ölpunum er gjarnan talað um bæjar- eða borgarfjall (Hausberg), sem flestir í Reykjavík myndu telja vera Esjuna. Annað fjall sem ekki er síður í uppáhaldi borgarbúa er Keilir á Reykjanesskaga. Hann blasir við suður af Reykjavík og sést til dæmis vel þegar keyrt er eftir Suðurgötu út í Skerjafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er Keilir formfagur og 379 m hátt fjallið gnæfir upp úr umhverfi sínu á miðju Reykjanesi.

Orðið keila kemur víða fyrir í íslensku máli. Þannig eru keilulaga eldfjöll sem gjósa endurtekið eins og til dæmis Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull, kölluð eldkeilur. Keilir er ekki slík eldkeila, heldur myndaðist hann við stakt gos undir ísaldarjökli og er gerður úr móbergi. Í stærðfræði er keila notað yfir þrívítt form og rúmmál hennar táknað með R=1/3*?*h*r^2. Í augnbotni kallast taugafrumur sem skynja liti í miðgróf sjónhimnu keilur og fisktegundin keila hefur löngum verið veidd við Ísland og þykir herramannsmatur. Loks er keila vinsæl íþrótt, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig hér á landi. Þá er reynt að skjóta niður 10 keilur með kúlu og eru tvö skot í hverri umferð. Ef tekst að fella allar keilurnar í fyrsta skoti kallast það fella en feykja ef það næst í tveimur skotum.

Keilir

Keilir – handan FERLIRsfélaga.

Allir sem gengið hafa á Keili geta vottað að hann er sannkölluð fjallafella og umhverfi hans sömuleiðis. Þetta er auðveld ganga en að vetri til er skynsamlegt að taka með mannbrodda og ísöxi. Aðeins tekur hálftíma að aka að gönguleiðinni við Höskuldsvelli og er fylgt ójöfnum malarslóða frá Vatns[leysu]strandarvegi. Frá bílastæðinu tekur um það bil 45 mínútur að ganga að fjallinu og hálftíma upp fjallið.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Efst eru brekkur lausar í sér en útsýnið af hátindinum er frábært, til dæmis yfir höfuðborgarsvæðið, eldbrunninn Reykjanesskaga, Esju, Móskarðshnjúka og Hengilssvæðið. Þegar haldið er heim er hægt að stefna beint í austur yfir falleg mosagróin hraun og komast eftir kindagötum aftur að bílastæðinu. Skammt frá eru spennandi fjöll eins og Trölladyngja en einnig Spákonuvatn og litríkt hverasvæði Soganna, og auðvelt að kíkja nánar á þær perlur í sömu ferð.”

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.1966, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 16-17.
-Fjarðarpósturinn, 29. tbl. 07.09.1998, Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu, bls. 1.
-Morgunblaðið, 216. tbl. 24.09.1998, Keili heim, bls. 14.
-Fréttablaðið, 261. tbl. 10.12.2020, Fagurt fjall sem er fella, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.

Keilir

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um “Hæð sjávarborðs við strendur Íslands” í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

“Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. (Jarðabók Árna Magnússonar og PAls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll).
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.
Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).
Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.
Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin”. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,” segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur. Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,” en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi”. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.” Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.” Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.” Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru. Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það “af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.” En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.” Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.”
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.”

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðán, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint. Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.” Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.”
Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti”. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir”. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.
Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.” Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: “Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).”
Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið. Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina”. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni. Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.
Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
Jarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,” og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.
En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.” (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina” og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga”.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, “og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn”. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.
Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.
Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.” Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.
Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.” Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði
Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part aí engjunum. Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.” Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.”
Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft. En víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.
Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Vatnsleysuströnd

Eftirfarandi er byggt á svæðaskráningarskýrslu Sædísar Gunnarsdóttur um “Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi” fyrir Fornleifastofnun Íslands -2006. Í þessari skráningu koma fram bæði áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar um upphaf, þróun og sögu byggðar í Vatnsleysustrandarhreppi.

Vogar

Vogar 1921.

Þegar leitað er eftir ummerkjum um byggð Í Vatnsleysustrandarsvæðinu er eðlilegast að byrja á því að leita að líklegum vísbendingum um upphaf landnáms eins og sagt er frá því í Landnámabók. “Á grunni þess er síðan hægt að huga að staðsetningu kumla og kirkna með það fyrir augum að setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrst. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um byggð fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin hafa verið reist skömmu eftir kristnitöku. Nærtækasta skýringin á miklum fjölda guðshúsa á Íslandi á miðöldum er sú að þau hafi upphaflega verið byggð í heimagrafreitum, sem voru líklega við hvern bæ eins og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkju sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið komin í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur og bænhús hafa verið, eru að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfðu slík hús og er því oft freistandi að álykta að minniháttar jarðir þar sem ekki hafa verið bænhús séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Ritaðar

heimildir eru helstar Landnámabók, fornsögur og fornbréf.

SkjaldarkotLand Vatnsleysustrandarhrepps er 15 km á lengd og 10 km á breidd. Landið er samfellt hraun frá fjöru til fjalla. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram sjónum en bæjunum fylgja hvorki kúahagar né slægjur og var ræktun landsins oft erfið. Rennandi vatn er ekki í hreppnum því rigningarvatn safnaðist allt ofan í hraunið. Vatnsskortur er hinsvegar ekki í hreppnum enda notuðu sveitungar brunna til að nálgast neysluvatn og eru fjölmargir brunnar á skráningarsvæðinu, miklu fleiri en gerist í öðrum sveitum. Af ströndinni er stutt á fengsæl fiskimið, og var oft fjölmennt á vertíð enda streymdi að fólk allstaðar af landinu. Hlunnindi hafa verið talsverð á svæðinu, má þar nefna hrognkelsi, sölvafjöru og skelfiskfjöru en skelfiskur var aðallega nýttur í beitu.

Vogar

Vogar 1921.

Landnám skiptir miklu máli er byggðasaga er rannsökuð því þeir sem komu fyrstir gátu tekið bestu löndin, höfðu mestra hagmuna að gæta og mótuðu oft þá byggð er fylgdi í kjölfarið. Ætla má að bæir hafi byggst snemma þar sem fóru saman góð skilyrði til búfjárræktar og fjölbreytileg hlunnindi, svo sem fjörubeit, sumarbeitiland, vetrarbeit, reki, æðarvarp eða selveiði eftir því hvað við á. Hreppurinn er allur innan landnáms Ingólfs Arnarsonar en Landnáma getur einnig um aðra landnámsmenn á svæðinu sem komu síðar. Frænka Ingólfs Arnarssonar, Steinunn hin gamla, kom til Íslands til frænda síns. Hann bauð henni Rosmhvalanes utan Hvassahrauns. Hún gaf Eyvindi frænda sínum hluta úr landnámi sínu sem samsvarar núverandi mörkum Vatnsleysustrandarhrepps. Ekki er þess getið hvar Eyvindur bjó, enda dvaldi hann stutt í landnámi sínu. Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit ásældist land Eyvindar og höfðu þeir jarðaskipti og bjó Hrollleifur í Kvíguvogum.

AuðnarEkki gefur þetta okkur miklar upplýsingar um byggðaþróun á Vatnsleysuströnd aðra en þá að snemma hefur jörðin Kvíguvogar (Stóru-Vogar) komist í byggð. Engin kuml hafa fundist í hreppnum þannig að fátt er vitað um þróun byggðar í hreppnum á allra fyrstu árunum eftir landnám. Telja má líklegt að jarðir, þar sem guðshús voru, hafi byggst á 11. öld. Allar jarðir á Vatnsleysuströnd tilheyrði Kálfatjarnarsókn og er kirkjunnar þar fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200. Sagnir eru um að kirkjan hafi fyrst staðið á Bakka en vegna landbrots hafi hún flust að Kálfatjörn en engar sannanir eru fyrir þeim sögum. Ekki hafa varðveist heimildir um bænhús í sókninni á miðöldum en í túni Brunnastaða er Bænhúshóll og er mjög líklegt að þar hafi verði bænhús. Tvær útkirkjur voru í hreppnum á miðöldum. Annars vegar í Stóru Vogum en kirkju þar er fyrst getið á seinni hluta 14. aldar. Hinsvegar á Vatnsleysu en kirkju þar er fyrst getið um 1269.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Miðað við frásagnir Landnámu og heimildir um kirkjur á svæðinu er í raun fátt vitað um fyrstu byggð í hreppnum annað en að Stóru Vogar, Kálfatjörn og Vatnsleysa byggðust snemma. Því þarf að skoða fleiri heimildir en engra jarða í hreppnum er getið í Íslendingasögum og aðeins er getið um eina jörð í Sturlungu og það eru Stóru Vogar.
Elstu fornbréfin eru frá 13. öld og má oft fá nokkra hugmynd um byggðaskipan út frá þeim. Nær allra jarða, þar sem ekki var kirkja eða bænhús, er getið í fornum skjölum, máldögum kirkna og sölu-, testamentis eða vitnisburðarbréfum. Munar þá helst um það að Viðeyjarklaustur átti meirihluta jarða á Vatnsleysuströnd. Klaustrið var stofnað 1225-6 af Þorvaldi Gissurarsyni í Hruna og skömmu síðar er getið um að Magnús biskup, bróðir Þorvaldar, gaf því viðreka í Hvassahraunslandi. Smám saman náði klaustrið undir sig öllum jörðum í hreppnum fyrir utan Kálfatjörn, Flekkuvík og Brekku sem voru eign kirkjunnar á Kálfatjörn.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Jarðarinnar Brunnastaða er fyrst getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs frá árinu 1395. 1447 fékk Viðeyjarklaustur jarðirnar Voga, Hlöðunes, báða Ásláksstaði, bæði Knarrarnesin og Breiðagerði. Vatnsleysu minni er fyrst getið í fógetareikningum frá því um 1547-8.

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Þær klausturjarðir sem síðast er getið um eru nefndar í landskuldarreikningum frá árinu 1584 í bréfabókum Klaustursins. Það eru Minni Vogar, Auðnir, Landakot og Þórustaðir sem eflaust hafa byggst mikið fyrr þó þær séu ekki nefndar í heimildum. Af jarðeignum sínum á svæðinu hafði klaustrið gagn af reka og miðunum undan landi og einnig hafði klaustrið dágóðar tekjur af leigugjöldum af jarðeignum sínum og leigufé.
Þá má draga ályktanir af dýrleika jarða. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna í öndverðu. Sennilegt verður að telja að dýrustu jarðirnar séu á þeim stöðum sem bestir voru til búsetu og því líklegir til að hafa byggst fyrst. Því miður er ekki getið um dýrleika jarðanna 1703 en miðað við eldri heimildir sem til eru um dýrleika jarða sem og dýrleika þeirra árið 1847 má sjá að dýrustu jarðirnar í hreppnum voru Stóru Vogar, Brunnastaðir, Knarrarnes stærra, Auðnar, Kálfatjörn, Vatnsleysa stærri og Hvassahraun en þær voru allar metnar á 25 hundruð eða meira.

Móakot

Móakot.

Bæjanöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Aðeins tvær jarðir uppfylla þessi skilyrði; Auðnar og Bakki og er hvorug meðal stærstu jarða í hreppnum sé annarra vísbendinga um að hafa byggst snemma. Stærri Vogar gætu hafa verið nefndir Vogar fyrst en elsta nafn sem vitað er um á þeirri jörð er Kvíguvogar og telja menn það elsta nafnið. Algengustu liðir í bæjanöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes, vík, hóll, á og eyri og flest þeirra ósamsett.  Nokkrir liðir eru enn fátíðari, það eru t.d. fors (foss) og múli. Flest bæjanöfn í hreppnum eru samsett; Hvassahraun, Knarrarnes, Hlöðunes, Flekkuvík, Vatnsleysa, Breiðagerði og Kálfatjörn, (Galmanstjörn talin eldri mynd af nafninu). Bæjanöfn sem enda á -staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Þrjú lögbýli með -staða endingu eru í hreppnum; Ásláksstaðir, Brunnastaðir, og Þórustaðir. Langflest lögbýli hreppsins hafa áttúrunafnaendingar sem er mun algengara í Landnámu.

Halldórsstaðir

Allra stærri býla á skráningarsvæðinu er getið á miðöldum enda ásældist Viðeyjarklaustur jarðir svo nálægt fengsælum fiskimiðum. Þrátt fyrir hraun og engjaleysi voru jarðirnar á Vatnsleysuströndinni eftirsóttar til búsetu og hafa líklega byggst snemma. Þó heimildir geti ekki um jarðir fyrr en á 13. öld, segir það lítið um hvenær þær voru fyrst byggðar og má ætla að flest lögbýlin hafi verið komin í byggð á 11. öld, í síðasta lagi.
Fyrir utan bæjarhóla á býlum sem verið hafa í byggð fram á 20. öld eru á flestum stöðum á landinu margir staðir þar sem byggð hefur annaðhvort varað í stuttan tíma eða þar sem hjáleigur eða afbýli hafa lagst í eyði fyrir 1847. Margar þeirra eru innan Stóru-Voga enda byrjaði vísir að þéttbýli þar undir lok 19. aldar.

Nafn á býli: Í byggð:
Snorrastaðir – fyrir 1703
Nýibær – eftir 1872
Hábær – ekki vitað
Stapabúð – fyrir 1899
Brekka – ekki vitað
Hólmsbúð – um 1850-1910
Steinsholt – 1874-1879
Bræðrapartur- ekki vitað
[nafnlaust] – ekki vitað
Halakot – fyrir 1700
Klöpp – e 1900
Gata – byggð fyrir 1703
Syðsta hjáleiga- byggð fyrir 1703
Garðhús – fyrir 1900
Valgarðshjáleiga fyrir 1703
Móakot – fyrir 1703
Eyrarkot – ekki vitað
Hof – ekki vitað
Tjarnarkot – fyrir 1703, eftir 1880
Mýrarhús – 1885-?
Mörk – ekki vitað
Hólkot – ekki vitað
Grænaborg- 1881-?
Austurkot – ekki vitað
Renslutóft – fyrir 1703
Helgabær – ekki vitað
Eyrarkot – fyrir 1703
Hólshjáleiga- fyrir 1703
Norðurkot – ekki vitað
Grund – fyrir 1925
Vorhúsabæir- fyrir 1925
Hausthús – fyrir 1925
Hvammur – fyrir 1925
Brunnastaðakot fyrir 1703
Stöðlakot – fyrir 1703
Tangabúð – fyrir 1703
Vesturhús – fyrir 1703
Miðgarður – fyrir lok 19. aldar
Töðugerðisbæir um 1900
Kothús – fyrir 1900
Fögruvellir – til um 1920
Gerði – fyrir 1905
Tjörn – til 1918
Halldórsstaðir- fram yfir 1900
Miðhús – ekki vitað
Bjarghóll – fyrir 1900
Nýlenda – fyrir 1900
Holt – um 1900
Gerði – ekki vitað
Atlagerði – ekki vitað
Klöpp – fyrir 1900
Miðbær – ekki vitað
Garðhús – 1917-1940
Móakot – um 1900
Hallandi – 1917-1970
Sjónarhóll – frá 1886
Rás – ekki vitað
Fagurhóll – um 1900
Gerðar – ekki vitað
Grandabærinn – ekki vitað
Atlagerði – um 1703
Nýibær – um 1919
Helgahús – fyrir 1700
Hellur – fram á 20. öld
Vík – fyrir 1900
Breiðagerði- um 1900
[Nafnlaus] – ekki vitað
[Nafnlaus] – ekki vitað
Auðnar – frá 1883
Höfði – 1850-1971
Lönd – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Hólmsteinshús- fyrir 1703
Hóll – ekki vitað
Gata – fram yfir 1900
Lönd – ekki vitað
Hellukot – um 1880
Suðurhjáleiga- fyrir 1703
Tíðagerði – til 1920
Harðangur – 1885-1900
Hlið – til 1923
Goðhóll – til 1933
Litlibær – frá um 1884
Hólakot – fyrir 1703
Árnahús – fyrir 1703
Borgarkot – 19. öld
Bakkakrókur- í eyði 1660
Bjarg – 1850- 1934
Tröð – ekki vitað
Vatnagarður- ekki vitað
Holt – ekki vitað
Járnhaus – ekki vitað
Sigurðarhjáleiga- ekki vitað
Blíðheimur – í byggð 1703
Péturskot – í byggð 1703
Refshali – til 1922-23.
Úlfshjáleiga- fyrir 1703
Búð – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Grund – ekki vitað
Miðengi – fyrir 1916
Akurgerði – fyrir 1703
Naustakot – til 1930-31
Nýibær – fram yfir 1900
Móabær – fram yfir 1900
Sigurjónsbær- ekki vitað
Jónasarbær- ekki vitað
Kofinn – ekki vitað
Garðbær – um 1919
Krókur – ekki vitað
Skálinn – til 1901
Garðhús – um 1920
[Nafnlaus] – ekki vitað
Vatnsleysukot um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Norðurkot – ekki vitað
Niðurkot – ekki vitað
Þorvaldskot- ekki vitað
Látur – ekki vitað
Suðurkot – ekki vitað
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Þóroddskot- um 1703
Saunghóll – um 1830

Stóra-Vatnsleysa.

Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.

Þessi listi gefur nokkuð skýra mynd af hjáleigubyggð á svæðinu sem greinilega hefur verð mun þéttari en víða annar staðar á landinu. Af 130 býlum sem nefnd eru hér eru 36 býli komin í byggð fyrir 1703 er jarðabókin var samin og mörg þeirra voru þá komin í eyði og fæst þeirra byggðust upp aftur.
Sjónarhóll.
Á 17. öld varð mikil byggðaaukning á Íslandi, fjöldi hjáleiga og smákota byggðist upp um allt land, sum í skamman tíma en önnur hafa haldist í byggð fram á þennan dag. Mörg þessara 36 býla voru aðeins í byggð í stuttan tíma. Ekkert er vitað um það hvenær 40 býli af listanum voru í byggð. Víða um landið varð einnig nokkur sprengja í hjáleigubyggð á seinnihluta 19. aldar og má sjá það glögglega á Vatnsleysuströndinni. Að minnsta kosti yfir 50 býli af listanum byggðust eftir 1850 og voru í byggð rétt fram yfir aldamótin 1900. Reyndar má segja að hjáleigubyggð hafi alltaf verið nokkuð mikil enda girnilegt að komast að við ströndina svo nálægt gjöfulum fiskimiðum. Ítarlega sögu býlanna í Vatnsleysustrandarhreppi er að finna í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.
Eins og sést af þessum hugleiðingum má leggja á ýmsan hátt út af tiltækum heimildum um upphaf byggðar á skráningarsvæðinu en er þó fátt fast í hendi.”

Heimildir aðrar:
-Ágúst Ó Georgsson: Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar, Reykjavík 1993.
-Árni Óla: Strönd og vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar Reykjavík 1961.
-Björn Bjarnason: “Kjósarsýsla” Landnám Ingólfs II, 1937, 90-109.
-Brynjúlfur Jónsson: “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902” Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1903, 31-52.
-Bsk: Biskupa sögur gefnar út af hinu íslenzka bókmenntafélagi I II, Kaupmannahöfn 1858 1878.
-Íslenzkt fornbréfasafn I-XVI, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972.
-Elín Ósk Hreiðarsdóttir: Fornleifakönnun. Reykjanesbraut. Fornleifastofnun Íslands FS133-00141 Reykjavík 2001
-Eggert Ólafsson: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra á Íslandi árin 1752-1757, Reykjavík 1974.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 I-II, Reykjavík 1983.
-Guðmundur Björgvin Jónsson: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi [án staðsetningar] 1987.
-Hannes Þorsteinsson: “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjarnöfnum á Íslandi” Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1923, 1-96.
-Islandske Annaler indtil 1578, Kristjania 1888.
-ÍF I: Íslenzk fornrit I. Íslendingabók & Landnáma, Reykjavik 1986.
-Jarðabréf: Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir.
-Árni Magnússon & Páll Vídalín: Jarðabók. Gullbringu og Kjósarsýsla III. Reykjavík, 1982.
-Johnsen, J: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847.
-Jón Oddur Hjaltalín: “Lýsing Kjósarsýslu 1746” Landnám Ingólfs III, 1937-1939, 25-34.
-Kålund, Kristian: Íslenzkir sögustaðir. Sunnlendingafjórðungur I, Reykjavík 1986.
-Lovsamling for Island : indeholdende Udvalg af de vigtigste ældre og nyere Love og Anordninger, Resolutioner III, Kaupmannahöfn 1853-1889.
-Sveinn Níelsson: Prestatal og prófasta, 2. útg., Reykjavík 1950.
-Ragnar Guðleifsson: “Örnefni á Hólmsbergi” Faxi. 27. árg, 8. tbl 1967, 126.
-Sesselja G. Guðmundsdóttir: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi [1995].
-Skúli Magnússon: “Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu” Landnám Ingólfs I, 1935-1936, 1-96.
-Sigurður Sigurðsson: “Lýsing Reynivallasóknar 1840” Landnám Ingólfs 3, 1937-1939, 241-258.
-Sturlunga saga I-II, Reykjavík 1946.
-Svavar Sigmundsson: “Íslensk örnefni” Frændafundur 2 Þórshöfn 1997, 11-21.
-Túnakort. Þjóðskjalasafn Íslands. Jarðadeild XIV. Uppdrættir af túnum 1917. Kjósarhreppur.
-Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson 1978.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898 I Kaupmannahöfn 1913-1915.

Á Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.