Hér verður fjallað um “Krýsuvík” út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.
Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.
Krýsuvík 1810.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: “…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum”.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: “…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum”.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].
Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: “… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin” …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.
Krýsuvík 1887.
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: “… kirkian kryssvvik ætti þar j xc” …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”
Fjallið eina.
Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: “… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: “Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.
Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.
Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga”.
Samkvæmt einu vitnanna: “á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: “… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð”.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: “Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn”. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: “… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó”.
Sýslusteinn (Steinninn).
Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: “… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á”.
Einnig hafði vitnið heyrt að: “… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða”.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: “… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga”.
Krýsuvík 1910.
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: “Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642”. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: “… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj”. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: “Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð”.
Krýsuvíkursel við Selöldu.
Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: “Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi”.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: “Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja”.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.
Herdísarvík.
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: “Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum” … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: “… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum” … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).
Mígandagröf.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: “… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó”. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: “Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum” … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).
Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.
Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: “Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres”.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: “Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket”.
Vigdísarvellir.
Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: “Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur”.
Garðar um 1900.
Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: “Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu”.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.
Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.
Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.
Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.
Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.
Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.
Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,” …
Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.
Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: “Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)” …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.
Seljabót undir Seljabótarnefi.
Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: “Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík”.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:
…
Dágon á Selatöngum.
1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.
Sogasel.
Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: “Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin”.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: “Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu”.
Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.
Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt”.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: “Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2”.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.
Markhella.
Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: “þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús”.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.
Stóri Nýibær í Krýsuvík.
Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.
Seltún 1977.
Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.
Stöðull á Austurengjum.
Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: “Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar”. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.
Vesturengjar.
Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: “Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi”.
Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.
Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.
Markrakagil.
Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:
Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.
Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: “Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.
Markhelluhóll – áletrun.
Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: “Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi”.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: “Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt”. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni
Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.
Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….
Heimild:
–Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.
Krýsuvík 2020.