Afdrifarík eldgos – Hraun á Reykjanesskaga runnin eftir landnám

Reykjanes

Í Íslenskum söguatlas er lítillega getið um  „Afdrifarík eldgos runnin eftir landnám“ á Reykjanesskaga:

Reykjanes„Eldsumbrot voru tíð á Reykjanesskaga á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Eldgos urðu bæði á landi og neðansjávar suðvestur af Reykjanesi. Síðast gaus á skaganum á fjórtándu öld en í sjó gaus síðast 1926. Eitt þekktasta eldgos á þessu svæði eru Krýsuvíkureldar sem munu hafa verið árið 1151 en þá runnu Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Annað þekkt eldgos varð við Eldeyjarboða 1783. Þá myndaðist eyja sem nefnd var Nýey en hvarf skömmu síðar í hafið.
Áður óþekkt eldgos sem uppgötvað hefur verið á síðustu árum eru Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa verið á árabilinu 1210/1211 til 1240. Þá urðu eldgos bæði neðansjávar undan Reykjanesi og á landi með nokkurra ára millibili.

Eldey

Eldey.

Í fyrsta eldgosinu (1210/1211) myndaðist Eldey. Öflugustu goshrinurnar virðast hafa verið 1226/1227 og 1231. Árið 1226 varð mikið öskugos við Reykjanestána og er öskulagið sem þá myndaðist nefnt Miðaldalag. Í kjölfar öskugossins runnu sex hraun á utanverðum Reykjanesskaga. Þau eru vestri Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Goshrinan hófst vestast og færðist með tímanum til austurs. Þannig er Yngra Stampahraunið elst en Arnarseturshraun yngst. Öll hraunin hafa lagst ofan á Miðaldalagið nýfallið. Hraunin hafa að líkindum lagt í auðn svæði sem búið hefur verið á enda greina munnmæli svo frá að Staður í Grindavík hafi áður verið í miðri sveit en er nú á sveitarenda.

Karlinn

Karlinn á Reykjanesi – afurð Nýeyjar?.

Mesta eldgos sem orðið hefur eftir að land byggðist og skóp helsta ösklagið á þessum slóðum myndaðist 1226 er nefnt Miðaldalagið. Það kom úr gíg sem leifar sjást enn af við Reykjanestána. Drangur sem stendur þar skammt undan landi og heitir Karl mun vera hluti af gígnum. Askan dreifðist til norðausturs yfir allan Reykjanesskagann, austur í Flóa og upp í Borgarfjörð. Í annálum er þess getið að þetta ár hafi eldur verið uppi i sjónum undan Reykjanesi og myrkur verið um miðjan dag. Sandvetur var veturinn 1226-27. Aftur varð allmikið öskugos að líkindum á sömu slóðum sumarið 1231.
Miðaldalagið hefur komið að góðum notum við aldursgreiningar á hraunum og fornum mannvistarleifum á Reykjanesskaga.“

Heimild:
-Íslenskur söguatlas, bls. 48-49.
Reykjanes