Herdísarvíkurgata – skilti
Við Herdísarvíkurgötu á Deildarhálsi, hina fornu leið milli Herdísavíkur vestan Selvogs og Krýsuvíkur, er skilti Náttúruverndarstofnunar og Minjastofunar Íslands. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:
„Herdísarvíkurgata liggur milli bæjanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Hún er að einhverju leiti vörðuð og sést á nokkrum stöðum að hún er grafin í hraunið eftir fætur manna og hesta sem notað hafa götun[a] í gegnum tíðina. Leiðin hlykkjast í gegnum hraun og meðfram hlíðum fjalla og á einstaka stað er hún rofin vegna nútíma vegaframkvæmda. Gamlar götur finnast víða og lágu þær á milli bæja, kirkjustaða, verbúða, verslunarstaða eða landshluta.
Mikilvægt er að ganga ofan í förunum til að viðhalda þeim svo ekki grói yfir þau. Þessar götur og vörður eru friðaðar fornleifar.“
Kortið á skiltinu er af Herforingjaráðskortinu frá 1910. Vegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949. Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að nokkru leyti legið í farvegi þess vegar er hinn nýi Suðurstandarvegur var opnaður árið 2012.











