Hrafna-Flóki í Vatnsfirði?
Í Samvinnunni 1951 fjallar Helgi P. Briem „Um nafngift Íslands – Hafði Hrafna-Flóki vetursetur í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi, en ekki í Vatnsfirði á Barðaströnd?„. Margir hafa talið Hrafna-Flóka haft vetursetu við Vatnsfjörð á Barðaströnd, en það er þó málum blandið sbr. eftirfarandi;
„Marga hefur undrað á því, að Ísland skyldi fá svo kaldranalegt nafn. Hafa komið ýmsar tillögur um, að það fengi annað nafn. Er tillaga Einars skálds Benediktssonar merkust. Vill hann nefna landið Sóley og telur það þýðingu á elzta nafni þess: Tíli eða Thule, „því þar gerir sól sumarhvörf“. Vinsamlegir ferðamenn segja oft, að Ísland ætti að hafa nafnaskipti við Grænland.
Í strjálbýlu landi og lítt þekktu eru þau nöfn þó líklegust til langlífis, sem lýsa staðháttum, snjallyrði eins og Herðubreið, Dyrhólaey og Blanda eru á við landabréf. Þau segja ferðamanninum, hvar hann er staddur. Orðhagur maður er velgerðarmaður allra ferðamanna, og gat bjargað lífi þeirra, sem villtir voru. En hvergi er villugjarnara en á hafinu og torveldara að spyrja til vegar. Er því mikill vandi að gefa eyju nafn, svo að hún segi til sín við landtöku.
Ísland mun hafa fengið ýms nöfn, og er ekki ólíklegt, að hið írska nafn: I Brezil — Hamingjueyjarnar — eigi við Ísland, því að hvar væri þeirra ella að leita?
Landnáma nefnir þrjú nöfn eldri en Ísland: Tíli, Garðarshólmi og Snæland. Garðarshólmi er svo fráleitt nafn, að það hvarflar að manni, að Garðar hafi naumast getað hugsað það sem nafn á landinu. Hins vegar eru fáar eyjar við landið, sem hægt væri að kalla hólma, nema þá Hrísey. Til þess að slíkt gæti staðizt yrði að telja Eyjafjörðinn árós, og má telja það í ríflegra lagi, þó að þeir Hrafna-Flóki hafi kallað Faxaós, sem við teljum nú réttar nefndan Faxaflóa.
Snæland er lítið betra, því mörg lönd eru snævi hulin að vetrarlagi og víða fellur snær mikill í fjöll. Hins vegar mun enginn landnámsmanna hafa séð fyrr land, þar sem fjöll voru hulin glampandi, fannhvítum ís að sumarlagi. Og hér voru ekki aðeins einstök fjöll með fönnum og sköflum, heldur voru víðáttumikil fjalllendi undir ís.
Líklegast hafa landnámsmenn aldrei séð jökla fyrr en þeir komu til Íslands. Munu norskir jöklar ekki sjást frá sjó. Þeir nota heldur ekki norsku orðin fonn eða bræ, sem á íslenzku er breði og mjög sjaldgæft. Þeir virðast því hafa verið í nokkrum vandræðum með að gefa þessu nýja náttúrufyrirbrigði nafn, en ísrennslið úr fjöllunum fékk fljótt nafnið jökull. Það mun skylt orðinu jaki. Síðar mun nafnið jökull hafa færzt á allan hjálm fjallanna, enda þótt lítil hreyfing sé á ísbreiðunni.
Svo segir í Landnámu, að þeir Flóki „komu austan at Horni og sigldu fyrir sunnan landit“, enda munu flestir hafa komið þá leið. Það fyrsta, sem þeir sáu af landinu, hefur því verið Vatnajökull, mesti jökull, sem hvítir menn höfðu þá augum litið. Hann varpar glampa langt til hafs og var ótvíræð sönnun um það, að þeir væru komnir til landsins, sem þeir leituðu, en hvorki til Skotlands né Írlands.
Horn var mikið kennileiti og gott. Það er tvöfalt: Eystra-Horn og Vestra-Horn. Bæði eru þau hrikaleg með hvössum tindum og ólík öðrum fjöllum, enda er í þeim gabbró og ekki lagskipt eins og blágrýtisfjöllin, sem mynduð eru af hraunum.
Fjörðurinn milli Horna hét að sjálfsögðu Hornafjörður, en það nafn átti sér örlög. Landnáma segir, að Garðar „kom at landi fyrir austan Horn, þar var þá höfn“. Þetta bendir til þess, að höfnin hafi þegar verið tekin af, er Landnáma var færð í letur rúmlega þremur öldum eftir að Garðar kom þangað. Eftir að höfnin spilltist gerði minna til um nafnið á firðinum, og þó að fjörðurinn segði svo greinilega til nafns, fluttist nafn hans vestur fyrir Skarðsfjörð, en sá upprunalegi Hornafjörður heitir nú Lón eða Lónsvík. Þórður biskup Þorláksson hefur auðsjáanlega verið í vandræðum með nafnið á Hornafirði, því hann kallar Vestra-Horn við Skarðsfjörð Eystra-Horn á korti því, sem við hann er kennt og merkt ártalinu 1668.

Hrafna-Flóki – leiðir að og frá Íslandi.
Leið Flóka er lýst svo: „En er þeir sigldu vestr um Reykjanes ok upp lauk firðinum, svo at þeir sá Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: Þetta mun vera mikit land, er vér höfum fundit. Hér eru vatnsföll stór. Síðan er þat kallaðr Faxaóss. Þeir Flóki sigldu vestr yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörðr við Barðaströnd. Þá var fjörðrinn fullr af veiðiskap. Ok gáðu þeir eigi fyrir veiðum at fá heyjanna, ok dó allt kvikfé þeira um vetrinn. Vor var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landit Ísland, sem þat hefur síðan heitit.“
Hafa sagnfræðingar oft bætt við, að hann hafi kallað fjörðinn Ísafjörð, en ekki mun það sagt í neinu handriti Landnámu. Er þó enginn vafi á því, að nafnið er fornt.
Í tveimur handritum Landnámu (Hauksbók og Melabók) er því bætt við: „Þar sér enn skálatopt þeirra inn frá Branslæk ok svá hrófit ok svá seyði þeira.“ Hér sýnist ekki geta verið vafi á, hvar Flóki hefur haft vetrarsetu.
Vatnsfjörður á Barðaströnd er vel þekktur. En auk þess er vísað á kuml, sem enn er við líði. Munu fáar þjóðir í heiminum geta vísað á rústir, sem hlaðnar voru af nafngreindum manni, áður en landið byggðist, og væri ástæða til þess að góðir fornfræðingar rannsökuðu það. Samt sem áður er frásögnin grunsamleg, fyrst og fremst vegna þess, að maður undrast, hvernig örnefni gætu lifað í mannlausu landi.
Þau, sem nefnd eru í sambandi við Flóka, eru þó svo skýr, að þar er ekki um að villast í byrjun: Horn, Reykjanes, Faxaós, Snæfellsnes. Enginn er í vafa um, hvað Reykjanesið muni heita, er hann siglir fyrir nesið.
Raunverulega er það aðeins hællinn á nesinu, sem heitir Reykjanes, en hinn miklu skagi hefur verið nefndur Reykjanesskagi í landafræðum, og er það nafn engum til sóma, en hér fer sem víðar, að menn gefa því nafn, sem menn sjá yfir, en gleyma að gefa stærri svæðum nafn.
Faxaós fylgir svo skemmtileg saga, að nafn Faxa hefur lifað í Faxaflóa, enda er hann afmarkaður af Reykjanesi og Snæfellsnesi. Það lýsir einnig nafni, því á öllu Íslandi er það eina fellið, sem sést frá sjó og er snævi hulið.
Þegar komið er norður yfir Breiðafjörð, verður hins vegar erfiðara að átta sig. Tangar á Vestfjörðum eru margir og firðir, og hver öðrum líkir. Þaulvanir skipstjórar þekkja firðina auðvitað, en fyrir þá, sem sjaldan fara um, mun erfitt að þekkja firðina án korts, og sérstaklega að lýsa þeim, svo að aðrir geti áttað sig eftir þeirri lýsingu.
Vatnsfirðir munu ekki vera nema tveir, en gætu verið fleiri og Vatnsdalir eru allmargir, og Vatnadalir. Af örnefnum Vestfjarða er þó eitt, sem ekki getur flutzt til: Ísafjörður. Er það eini fjörðurinn á Íslandi, sem skerst milli ísa, þ.e. jökla. Er Drangajökull á aðra hlið, en Gláma á hina.
Það- er einkennilegt, að höfundur Landnámu, sem flestir telja skráða á Vesturlandi, skuli tala um, að er þeir Flóki komu frá Faxaflóa, skuli þeir hafa siglt „vestr yfir Breiðafjörð ok tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd“, því sú leið er í norðaustur frá Öndverðarnesi. Hér er tekið einkennilega til orða, að tala um að sigla yfir fjörðinn, þegar siglt er inn í hann og tekið land heldur fyrir innan miðju Barðastrandarinnar.
Höfundur Landnámu lýsir því, að um vorið gekk Flóki „upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; Því kölluðu þeir landit Ísland“. Hér er einnig einkennilega tekið til orða, því ekkert fjall er nærri Vatnsfirði, sem gæfi útsýn yfir Ísafjörð. Firðirnir eru skorur í hálendið, sem leyna sér þar til komið er að þeim. Jafnvel þó Flóki hefði gengið á Glámu, þar sem hún bar hæst, hefði hann naumast getað séð niður í Ísafjarðardjúp eða Ísafjörð. Hefur höfundurinn því hugsað sér, að fjallið hafi þurft að vera hátt. Er venjulega talið, að Flóki muni hafa gengið á Hornatær og séð niður í Arnarfjörð. Raunar er líklegra, að hann hafi getað séð niður í Trostansfjörð og út til Arnarfjarðar, og er sú átt frekar í vestur eða norðvestur. Hitt er þó harla ólíklegt, að Arnarfjörður eða Suðurfirðir hafi verið fullir af hafísum. Slíkt skeður víst mjög sjaldan og ber tvennt til: straumar liggja ekki, svo að þeir beri mikinn hafís inn í firðina fyrir sunnan Ísafjarðardjúp og eins er grunn út af þeim öllum, sem stöðvar stóra jaka, þó smærri jakar kunni að slæðast þangað.
Hins vegar er Ísafjarðardjúp berskjaldað í þessu tilliti, og þangað getur komið hafís og hefir gert iðulega.
Margt þetta bendir til þess, að þeir Flóki hafi farið eitthvað norðar en til Barðastrandarinnar og síðan upp á Hornatær. En það er landið sjálft, sem rökstyður það. Svo hagar til í Vatnsfirði, að þar er hafnleysa. Sýnist því undarlegt, ef Flóki hefur einmitt leitað þangað. Fjörðurinn er eins og axarfar inn í hálendið. Hlíðar eru brattar og undirlendi ekkert nema niður að stóru vatni, sem er talið mjög djúpt. Í því er nokkur silungur. Úr vatninu fellur elfur, sem heitir Vatnsdalsá. Er hún mikið vatnsfall og straumhörð. Hefur hún sorfið sig gegnum malarhjalla nokkra og niður í bergið, en fellur af stöllum og myndar smáfossa. Þessir malarhjallar eru eina undirlendið í dalnum, nema eyrar myndaðar af árframburði við norðurenda vatnsins.
Byggð mun aldrei hafa festst í dalnum til langframa. Þó eru rústir þar eftir fjögur kot. Nýtur dalurinn fjarvistar manna, því þar er fríður lurkskógur, mestmegnis birki, en einnig víðir og óvenjulega fögur reynitré. Í skóginum er smiðjutóft og aska og járngjall í jörðu. Segir Eggert Ólafsson, að þar muni Gestur hinn spaki Oddleifsson frá Haga hafa stundað rauðablástur og margir síðan.
Vegna þess, hve skip Flóka hefur verið lítið, mun hann ekki hafa getað flutt fullorðin dýr til Íslands. Hann hefur því þurft að hafa með sér ungviði til uppeldis en treysta algerlega á fisk og fugl fyrstu árin. Sýnist Vatnsfjörður ekki hafa þau skilyrði að bjóða, sem Flóka voru lífsnauðsynleg. Virðast margir staðir á landinu til stórra muna álitlegri. Finnig virðist það einkennilegt, að kvikfé þeirra dó allt um veturinn. Virðist það ólíklegt, ef fáein lömb og kálfar gátu enga snöp fundið í skóginum, sem var þar hátt upp í hlíðum, jafnvel þótt heyskapurinn hefði fanð út um þúfur.
Skip sín geymdu fornmenn venjulega á landi. Voru þau dregin upp í læki, en síðan hlaðin stífla fyrir aftan þau. Er hækkaði í þessu lóni, var skipið dregið lengra upp í lækinn og stíflað aftur og haldið áfram, þangað til það var komið á þann stað, sem því var ætlaður staður. Var þá hlaðið hróf utan um það. Vegna þess hve sæbratt er í Vatnsfirði, virðist enginn ós þar hentugur til að draga skip á land.
Hleðslur þær, sem áður er getið um, eru ekki í þeim eiginlega Vatnsfirði, heldur skammt fyrir norðan Brjánslæk. Mótar þar fyrir nokkrum gömlum tóftum, sem kallaðar eru Flókatóptir. Mestar þeirra og greinilegastar eru tvær langtóftir sambyggðar. Er hin stærri talin hrófið, en sú skemmri skáli Flóka. Virðist það algerlega útilokað, að Flóki hefði getað komið skipi sínu upp í hrófið með skipsfólki sínu einu.
Tóftirnar eru þó mjög fornlegar og gætu verið frá fyrstu árum Íslandsbyggðar, úr því munnmælasögur hafa myndazt um þær, er Landnáma er færð í letur.
Við vitum ekki mikið um skip þau, sem forfeður okkar notuðu til siglinga um hið úfna Norðuratlantshaf. Af hafskipum, sem geymzt hafa, eru þrjú merkust, því þau eru heillegust. Elzt þeirra er skip það, er fannst við Sutton Hoo skammt frá Woodbridge í Englandi. Það er talið vera sett á haug á árunum 650—670. Það var 27 metra langt og 4,3 metra breitt. Engan hafði það seglbúnað, en 38 ræðara.
Oseberg skipið var 21,44 m. langt, en 5,10 m. breitt. Hæð um miðju var 1,60 m. og var 0,85 m. yfir vatnsborð og risti því 0,75 m. Það er talið byggt rétt eftir árið 800 sem skemmtiskip fyrir Ásu móður Hálfdánar svarta, en ekki til langferða.
Gökstad skipið var 23,33 m. stafna á milli, en 5,25 m. á breidd. Frá kili til borðstokks um mitt skipið var 1,95 m., en hæðin úr sjó 1,10 m., svo það risti 0,85 m. Til gamans hafa menn reiknað þvngd þess og var hún talin 20,2 smálestir, en burðarmagnið 31,78 smálestir. Talið er, að það sé byggt um miðja 9. öld eða um svipað leyti og Flóki fór til Íslands.
Bæði þessi skip höfðu seglbúnað og hafði Osebergskipið 15 árar, en Gökstadskipið 16 árar á borð (sextánsessa). Gökstadskipið var fullkomið bafskip. Var gerð nákvæm eftirlíking af því, og sigldu nokkrir vaskir, ungir Norðmenn því vestur yfir haf og upp Fljót beilags Lárentíusar og alla leið til Chicago árið 1892.
Skip Flóka hefur líkast til verið knörr og ekki stór. Það munu ekki hafa fundizt neinar leifar eftir knerri, sem hægt væri að nota til að gera sér grein fyrir byggingu þeirra og stærð eða stærðarhlutföllum. Lag norsku skipanna er svo fagurt, að menn skyldu ætla, að slík gagnsemis fegurð geti varla skapazt nema við vinnugleði margra kynslóða.
Þó bendir allt til þess, að ekki hafi verið gerð seglskip fyrr en á 8. öld. Til þess tíma voru skipin seglalaus, enda höfðu þau botnfjöl en ekki kjöl, en hún gat ekki borið upp mastur og það átak, er skipið skreið fullum seglum. Sumir halda því, að knerrir hafi haft þrjár árar hvoru megin við framstafn. En hvernig sem það hefur verið, hefur skip Flóka verið sterkara og viðameira en langskipið, þó það væri minna.
Kaupskipin voru kölluð knörr eða birðingur.

Knörrinn Skuldelev I er stærsta skipið á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými.
Knerrir voru víst lítið frábrugðnir langskipum, en smærri. Byrðingar voru styttri og breiðari og höfðu meira burðarmagn. Þeir voru því notaðir til strandsiglinga, enda þótt sögurnar minnist oft á, að þeir hafi komið til Íslands. Líklega hefur verið lítill munur á langskipum og öðrum skipum, því „þat var upphaf enna heiðnu laga, at menn skyldu eigi hafa höfuðskip í hafi, en ef þeir hefði, þá skyldu þeir af taka höfuð, áðr þeir kæmu í landsýn, ok sigla eigi at landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svá at landsvættir fælist við“, segir í Landnámu um Úlfljótslög.
Er hér greinilega landvarnarákvæði, því óspektarmenn, sem komu með ófriði til landsins, vildu að sjálfsögðu fæla landvætti, en um leið vöruðu þeir landsbúa við, að ills væri von af þeim, og að þar færu ekki menn, er virtu lög landsins.
Flóki mun hafa komið á knerri til Íslands og ekki mjög stórum. Áhöfn á knerri mun venjulega hafa verið 15—30 manns í Íslandsferðum. Ekki eru nafngreindir nema 4 af skipsmönnum og Flóki sá fimmti, en þeir munu hafa verið fleiri.
Ormen Friske, hið sænska víkingaskip, sem fórst við Hélgoland árið 1949, var 24 m. langt, 5,5 m. breitt og risti 1 m. Það var talið hafa vegið 12 smálestir, að því er blöðin sögðu.
Virðist því fjarri sanni að hugsa sér, að knörr Flóka hafi vegið minna en 8 smálestir að þyngd og mun þó hafa verið meira. En hvernig hann ætti að geta komið svo þungu skipi í naustina með 15—30 mönnum, er ekki skiljanlegt.
Það má teljast líklegt, að Flóki hafi haft bát aftan í skipi sínu (eftirbát) eða innanborðs. Er þess sérstaklega getið um Garðar, að hann hafi skotið út báti. Mátti þá nota bátinn til fiskveiða, en leggja skipinu í skjól.
Það var þó hægara sagt en gert, að leggja skipi þarna við Vatnsfjörð, sem er hyldjúpur, því legufæri voru þá næsta ótrygg. Akkeri voru lítið betri en stjórar, og var reynt að nota trjástofn með mörgum greinum í hvirfingu, er mynduðu fleina þess. Var síðan bundið grjót við legginn. En ekki hrifu slík akkeri vel og voru varla notandi við millilandaskip nema stutta stund inni í víkum.
Hvað sem Flóki hugðist fyrir, varð hann að gæta skips síns, koma því á land og sjá um, að ekkert yrði að því, en það þýddi, að hann gat ekki notað það til róðra, enda hlaut það að vera óþjált til slíkra smáferða. Er jafnvel ólíklegt, að hann hafi notað eftirbátinn til fiskveiða, hafi hann verið til, því ekki mundi hann hafa tekið alla skipshöfnina, og þeir sem höfðu landlegur, þá getað aflað heyja.
Ber hér allt að sama brunni: Flóki hefur ekki haft vetursetu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Það er auðvelt að rekja slóð hans fyrir Snœfellsjökul, en það gengi kraftaverki næst, ef hægt hefði verið að varðveita nákvœmlega ferðasögu hans við Vestfirði, því þar
er hver fjörðurinn öðrum líkur.
Liggur það því nærri að láta sér detta í hug að villt hafi verið á þessum tveim Vatnsfjörðum og skulu því hér athugaðir möguleikar á því, að Flóki hafi haft vetrarsetu að Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.
Þar sem ekki virðist hafa verið samfelld byggð í Vatnsfirði á Barðaströnd, er Vatnsfjörður við Djúp landnámsjörð. Þar nam Snæbjörn, bróðir Helga magra land, en síðan hefur það verið höfuðból og prestssetur fram á þennan dag. Kannast allir Íslendingar við ábúendur Vatnsfjarðar, svo sem Þorbjörgu digru, dóttur Ólafs pá, Þorvald Snorrason, Vatnsfjarðar-Kristínu og Björn Jórsalafara.
Svo einkennilega vill til, að oft er getið um mikil vorharðindi einmitt í sambandi við Vatnsfjörð. „En brátt varð með harðindum til fengið búsins, sem lengi hafði siðr verit til í Vatnsfirði“, segir í Sturlungu, og enn segir: „Þar var hörð vist, því at vár var illt, en vetr allgóðr. Fjórtán hestar dóu í Æðey uppstigningardag, meðan menn váru at mat. Til landauðnar horfði í Ísafirði, áðr fiskr gekk upp á Kvíarmið.“
Fiskur hefur ætíð gengið langt inn á Djúpið, þó að áraskipti séu að því. Er þó lítill vafi, að hann hefur verið þar á landnámsöld. Vatnið, sem fjörðurinn dregur nafn af, er allmikið lón. Heitir það nú Sveinhúsavatn. Í það rennur á, er Þúfnaá heitir, en smálækir eru að auki, svo hafnarskilyrði sýnast í bezta lagi. Veiðiskapur er bæði í lóninu og ánni, en hlíðar grónar og voru þar miklir skógar áður, shr. frásögn í Grettlu um það, að Grettir leyndist í skóginum. Er þar sumarfagurt og álitlegt og ekki ósennilegt, að þeim, er siglir með Snæfjallaströnd, virðist naumast ástæða til að leita lengur, er honum býðst vetrarseta, þar sem skógur er og grösugt, fiskur bæði í sjó og vatni og fuglar, en að auki betri skilyrði til að koma skipi á land, en hann hafði séð ella við Vestfirði.
Ekki er nokkur vafi á því, að Drangajökull hefur minnkað eins og aðrir jöklar á Íslandi. Á korti Bjarnar Gunnlaugssonar, er styðst við mælingar gerðar 1806—1809, virðist jökullinn ná suður undir Ingólfsfjörð og svipað virðist á korti eftir Knopf frá 1733. Örnefnin bera einnig vott um, að jökullinn hafi minnkað. Snæfjall, Snæfjallaheiði og Snæfjallaströnd eru nú ekki svo snævi þakin, að þessi nöfn geti talizt réttnefni. Suðurmörk Snæfjallastrandar er Kaldalón. Það er aðeins 1.5 km. breitt, en með snarbröttum hlíðum. Fyrir sunnan það er mikið fjall og hátt, er heitir Skjaldfannarfjall. Lýsir nafn þess betur fannhjálmi íslenzkra fjalla en nokkurt annað nafn, ef jöklarnir eru taldir rennslið frá fannbreiðunni. Þó er ekki ólíklegt, að fjallið hafi heitið Skjaldfönn áður eins og bærinn, sem stendur undir því, en nú, þegar sem enginn snjór er eftir í því, hafi hafi verið bætt við nafnið.
Ef maður hugsar sér að fjallið hafi verið snævi þakið og Snæfjallaströndin öll, hlýtur jökullinn að hafa verið svo mikill, að skriðjökull hafi gengið niður í lónið og myndað jaka af jökulsporðinum í vorleysingum. Á uppdrætti Þórðar biskups Þorlákssonar frá 1668 er Drangajökull nefndur Lónjöklar og virðist þá sem hann hafi dregið nafn af Kaldalóni.
Hafi Flóki siglt inn Ísafjarðardjúpið, hefur hann hlotið að sjá Kaldalón, sem var ólíkt öllu, sem hann hafði séð áður. Þá hefur hann séð fjörð „fullan af hafísum“, og gat naumast lýst þeirri sýn á annan hátt, hvort sem jöklar voru þar á floti eða mynduðu jökulhamra. En Kaldalón er í hánorður frá Vatnsfirði.
Á öllu Íslandi er naumast um að ræða nema Kaldalón og Leirufjörð, sem hefðu getað fyllzt af ís, svo að sá ís kæmi ekki af hafi, en um Leirufjörð er ekki að ræða í þessu sambandi. Virðist allt þetta styðja þá skoðun, að Hrafna-Flóki hafi komizt norður í Ísafjarðardjúp og haft vetrarsetu í Vatnsfirði. Þurfti hann þá ekki að ganga á hátt fjall til að sjá fjörðinn, eins og höfundur Landnámu varð að segja til að skýra það, hvernig hann gat séð fjörð fullan af hafísum. Hafi hann heyrt jöklabrak og dynki í vorIeysingum, er líklegt, að hann hafi gengið á næstu fjöll til að forvitnast um, hvaðan þau háreysti komu, og kemur allt þetta furðuvel heim við frásögn Landnámu, enda þótt fólk gæti ekki fest örnefni á réttan stað, þegar enginn var til að geyma þau eftir brottför þeirra.
Bendir margt til þess, að frásögnin um Flóka hafi geymzt svo óbrengluð, að við getum bent á, að hann muni hafa gengið á Vatnsfjarðarháls og þar gefið landinu nafn. Hefur þá ekkert brenglazt í frásögninni í 350 ár, nema hvað höfundur Landnámu staðfærir Vatnsfjörð við Barðaströnd í stað Ísafjarðardjúps, en frásögnin öll getur staðizt og fær gildi þegar sá litli misskilningur hans er leiðréttur.
Fornmenn létu sér nægja að gefa þeim stað nafn, sem þeir sáu, enda er hlutlaus hugsun nýtilkomin. Hefur Flóki því líklega ætlað að gefa vesturkjálkanum einum nafnið Ísland, enda átti hann honum grátt að gjalda. En þeir, sem komu til landsins „austan at Horni“ og sáu jökulglampann löngu áður en þeir sáu landið, færðu nafnið yfir á landið allt eins og nafnið á Reykjanesi var fært yfir á hinn stóra skaga.
Nafnið Ísland er því gott nafn og réttnefni á því eina landi í Norðurálfu, þar sem jöklar lýsa vegfarendum, og getum við verið ánægðir með það.
Ef Grænland hefði fundizt á undan Íslandi, hefði það sjálfsagt fengið nafn af jöklum sínum. Nú skipaðist ekki svo, þar sem landnemarnir komu að austan. Er Eiríkur rauði sigldi frá Íslandi og suður með Grænlandi, voru firðir þar ekki byggilegir.
Er hann kom suður fyrir Hvarf, fann hann firði og dali með birkikjarri og grængresi. Nefndi hann það hérað sitt Grænland, „því at hann lét þat men mjök mundu fýsa þangat, ef landit héti vel“.
Það nafn færðist síðan yfir á hið mikla land, sem hann aldrei sá nema lítið af. Hins vegar virðist það hafa verið réttnefni vegna þess hve gróður þar stakk í stúf við gróðurleysi á öðrum stöðum landsins.
Ísland hefði því aldrei getað fengið nafnið Grænland, því það hefði ekkert gildi haft fyrir sæfarendur, er komu frá Norðurálfu, þar sem öll lönd eru græn. Það nafn er því óskiljanlegt nema fyrir þá, sem séð hafa Ísland og skilið nafngift þess.“ – Helgi P. Briem.
Heimild:
-Samvinnan, 10. tbl. 01.10.1951, Um nafngift Íslands – Hafði Hrafna-Flóki vetursetur í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi, en ekki á Barðaströnd?, Helgi Þ. Briem, bls. 4-6 og 26-28.


































