Ögmundarhraun

Eldgos

Krýsuvíkureldar voru tímabil stöðugrar eldvirkni í sprungusveim sem kennt er við Krýsuvík á Reykjanesskaga. Eldarnir hófust um miðja 12. öld, líklega árið 1151 og benda ritaðar heimildir til þess að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun sunnanvert – kort.

Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust smám saman í Krýsuvíkureldunum þótt hraunið allt sé nú kennt við Ögmundarhraun.  Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar sem og Gvendarselshæðargígaröðin vestan Helgafells.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúkagígaröðinni 16. júlí 2025.

Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun, þ.e. hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).

Djúpavatnsgígar

Djúpavatnsgígar.

Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.
Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Tófubrunagígar.

Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.
Allt framangreint svæði er einstaklega áhugavert í jarðsögulegum tilgangi, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem núverandi Grindvíkingar hafa þurft að horfa upp á tengda samfelldri goshrinu á Sundhnúkagígaröðinni ofan bæjarins á undanförnum árum.

Framangreindri umfjöllun fylgja myndir af einstökum gosstöðvum á  u.þ.b. 25 km langri sprungureininni er náði allt frá Höfða og Latfjalli í suðri að Helgafelli að vestanverðu í norðri – Sjá Myndir.
Reykjaneseldar