Dátahellir

Dátahellir norðan í Gíghæð vestarlega í Arnarseturshrauni ofan Grindavíkur heitir eftir hermönnum sem fundu beinagrind af manni í hellinum 15. júlí 1967. Lögreglan í Hafnarfirði fór með beinin í Fossvogskapellu þar sem þau voru brennd. Lögreglan taldi manninn hafa orðið úti fyrir nokkur hundruð árum síðan. Nokkrum dögum síðar fundu hermennirnir beltisól, sylgju og hnífsblað skammt frá þeim stað sem beinin höfðu legið. Enn síðar fundu þeir svo fataleifar á steini í hellinum sem er um 40 metra langur.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði bendir á, að beinagrindin hlýtur að hafa verið af mjög stórum manni. Bandarísku sjóliðarnir eru frá v.: Jeffrey Haughton, Paul Gougeon og Lawrence Hampton. (Mynd: George Cates).

Í Morgunblaðið 19. júlí 1967 er sagt frá beinafundinum undir fyrirsögninni “Lá á bakinu með aðra höndina undir hnakkanum” —Viðtal við einn Bandaríkjamannanna sem fann beinagrindina í hellinum við Grindavík.

“Beinafundurinn í hellinum skammt frá Grindavík hefur að vonum vakið mikla athygli, og í ráði er, að fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafninu fari þangað innan skamms til þess að kanna hvort þar er einhverjar frekari leifar að finna. Hnífur og belti fundust einnig í hellinum og telur Gísli Gestsson, safnvörður, að þessir hlutir geti verið 4—500 ára gamlir.

Þeir lágu ekki við hlið beinagrindarinnar og því ekki víst að þeir hafi tilheyrt þeim sem þarna lét líf sitt.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði skoðar hauskúpuna. Í horninu á myndinni má sjá beltissylgjuna og hnífinn, sem sjóliðarnir fundu. (Mynd George Cates).

Það voru þrír bandarískir sjóliðar sem fundu leifarnar, og Morgunblaðið hafði tal af einum þeirra, Paul Gougeon, í gær: „Við vinnum við radarstöðina hér í Grindavík og okkar besta tómstundaiðja er, að ganga út í hraunið og skoða hella sem við rekumst á. Við höfum farið margar ferðir og skoðað fjöldann allan af hellum og smágjótum. Það er ekki mikið að finna í þessum hellum og þetta er í fyrsta skipti sem við rekumst á eitthvað þessu líkt, en við höfum gaman að því engu að síður“.

„Hvað er hellirinn langt frá stöð ykkar í Grindavík?”

„Hann er eitthvað um sex mílur í burtu, í áttina til Keflavíkur.“

„Hvað er hellirinn stór?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Það er erfitt að segja um það nákvæmlega. Við urðum að beygja okkur til að komast inn í hann, ég held að hann sé um fimm metra djúpur. Beinagrindin lá innst í hellinum. Okkur virtist þetta hafa verið mjög stór maður. Hann hafði legið á bakinu, með aðra hendina undir hnakkanum, eins og hann ætti sér einskis ills von. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hann hefur fengið þetta gat á höfuðkúpuna, það lá að vísu stór steinn við aðra öxl hans, en okkur var sagt, að hann hefði fallið eftir að maðurinn var dáinn, og beinagrindin ein var eftir.“

„Funduð þið beltið og hnífinn hjá líkinu?“

Dátahellir

Í Dátahelli.

„Nei, hlutirnir voru framar í hellinum, nokkuð frá beinunum. Við erum ekki vissir um, að þetta hafi verið belti en teljum það mjög líklegt. Það var bara sylgja eftir og svo einhverjar druslur, sem við töldum vera belti. Hnífurinn var að sjálfsögðu illa farinn, en þó greinilega hægt að sjá að þetta er hnífur.“

„Sáuð þið nokkur merki um að þarna hafi verið mannabústaður, t.d. eldstæði eða eitthvað slíkt?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Nei, við urðum þess ekki varir. Satt að segja leituðum við ekki mjög vandlega eftir að við fundum beinin og hnífinn. Íslenska lögreglan var strax látin vita, og þeir tóku málið í sínar hendur. Við höfum áhuga fyrir að fara þangað aftur og leita betur, en mér skilst að íslenskir fornleifafræðingar hafi hug á að kanna staðinn svo að þá er best fyrir okkur að vera ekki að róta við neinu, við gætum hæglega eyðilagt eitthvað, sem sérfræðingsaugað kynni að meta þótt við.”

Þjófagjá

Þjófagjá.

Af hverjum var beinagrindin? Hvernig voru höfuðáverkarnir til komnir og af hvers völdum? Gæti maðurinn hafa tengst ræningjunum í nálægri Þjófagjánni í Þorbjarnarfelli eða varð hann saklaus fyrir barðinu á þeim? Leitaði hann skjóls í hellinum á flótta eftir að hafa verið veittur áverki? Og þá undan hverju eða hverjum? Var maðurinn kannski fyrrum smali í Hópsseli utan í Selshálsi er gæti hafa orðið fyrir óhappi eða tengdist hann mögulega seljum Járngerðarstaðabænda á Baðsvöllum? Gat beltissilgjan gefið einhverja vísbendingu um manninn?
Hellirinn er í hrauni miðja vegu milli tveggja þjóðleiða fyrrum; Skógfellavegar og Skipsstígs. Langt er þeirra á millum. Vagnvegurinn frá Stapanum um úfið hraunið til Grindavíkur var lagður á þessum slóðum árið 1916. Í nágrenninu eru nokkrir hellar og skútar.
Öllum spurningum um dauða mannsins í Dátahelli er enn ósvarað. Hver var t.d. niðurstaða rannsóknar lögreglunnar í Hafnarfirði á dánarorsökinni og var einhver eða einhverjir grunaðir í málinu? Hver var niðurstaða nefnds fornleifafræðings varðandi aldur, aldurtila og dauðdag viðkomandi? Framangreindar niðurstöður hafa aldrei verið gerðar opinberar.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla.

FERLIR leitaði til Þjóðskjalasafnsins og óskaði eftir afriti af lögregluskýrslum um beinafundinn í Dátahelli. Starfsfólkið staðfesti að lögregluskýrslur frá þessum tíma væru í fórum safnsins, en þrátt fyrir ítrekaða nokkurrra mánaða leit hefðu skýrslur um þetta tiltekna mál ekki komið í leitirnar. Nokkrum mánuðum síðar kom eftirfarandi svar:

“Sæll,
Í viðhengi er afrit úr dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem kemur fram að Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tilkynni þeim um líkfund í hrauninu við Grindavík þann 15.7. og sama dag fóru tveir menn til Grindavíkur vegna málsins. Þeir sóttu beinin og fóru með þau í Fossvogskapellu. Daginn eftir tilkynnir varðsjórinn á Keflavíkurflugvelli að hermennn á vellinum hafi fundið belti, sylgju og hníf í sama helli og beinin fundust í. Varðstjórinn ætlar að koma mununum á varðstöðina um kvöldið, sem er svo gert, samkvæmt dagbókinni.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla 2.

Við erum búin að leita að lögregluskýrslu um málið bæði í skjalasafni frá lögreglunni í Hafnarfirði og Keflavík/Keflavíkurflugvelli. Einnig athuguðum við hvort að Ríkissaksóknari hafi fengið gögn um málið en svo sáum við ekki. Þá var leitað í mannskaðaskýrslum sem höfðu verið sendar Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Hagstofunni en án árangurs. Ekki fannst heldur dánarvottorð í gögnum frá Hagstofu.

Því miður verð ég að tilkynna þér að við finnum engar frekari gögn um málið en það sem er í viðhengi.”
kv. Helga Hlín

Svar:
Sæl Helga Hlín; “Þakka þér kærlega. Dáist af dugnaði þínum og eftirfylgni”.

Heimild:
-Morgunblaðið miðvd. 19. júlí 1967, bls. 28 og 20.

Dátahellir

Dátahellir – loftmynd.