Ómarkviss vinnubrögð og ósamræmd
Í nágrenni Stóru Eldborgar undir Geitahlíð hefur verið komið fyrir fjórum skiltum. Það stærsta er við bílastæðið neðan við Eldborgina, annað minna er við bílastæðið nálægt Litlu Eldborg, þriðja við dysjar Krýsu og Herdísar neðst í Kerlingardal og það fjórða efst á Deildarhálsi við gömlu Herdísarvíkurgötuna.
Skiltin fjögur virðast vera á vegum Umhverfisstofnunar (óskilgreind staðsetning stofnunar), Náttúruverndarstofnunar (staðsett á Hvolfsvelli) og Minjastofnununar (staðsett í Reykjavík).
Svo virðist sem framangreindar opinberar stofnanir hafi ekki haft samráð sín á millum við gerð skiltanna á þessu tiltölulega afmarkaða merkilega minja- og jarðsögusvæði; „Eldborganna undir Geitahlíð“. Bæði er um endurtekningar í textum að ræða sem og misvísanir, að ekki sé talað um prentvillurnar…
Af fenginni reynslu er það mín skoðun að Ríkið þarf að fækka stofnunum sínum eða sameina einhverjar, er ætlað er að hafa það að markmiði að vernda náttúru og umhverfi, um a.m.k. helming. Eins og staðan er í dag virðast þær stofnanir, sem ætlað er að gæta að hagsmunum minja, sögu og umhverfisins, ekki tala saman – sem er bara alls ekki nógu gott.








